Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-16

Fiskveiðihlutafélagið Venus hf. (Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður)
gegn
Björgólfi Thor Björgólfssyni (Reimar Pétursson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Hlutafélag
  • Skaðabætur
  • Hlutabréf
  • Kaup
  • Fyrning
  • Lagaskil
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 10. janúar 2019 leitar Fiskveiðihlutafélagið Venus hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. desember 2018 í málinu nr. 408/2018: Fiskveiðihlutafélagið Venus hf. gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Björgólfur Thor Björgólfsson leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur úr hendi gagnaðila vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir í tengslum við kaup á hlutabréfum að nafnvirði 6.601.624 krónur í Landsbanka Íslands hf. 19. desember 2007. Í þinghaldi í héraði 30. nóvember 2017 var sakarefni málsins skipt þannig að fyrst yrði leyst úr hvort krafa leyfisbeiðanda væri fyrnd. Héraðsdómur taldi svo vera og sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda. Staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu.

Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Í fyrsta lagi hafi úrslit málsins verulegt almennt gildi með því að það varði meðal annars hvernig skilið verði milli eldri laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og yngri laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, svo og hvernig afmarka eigi eftir atvikum upphaf fyrningarfrests samkvæmt 1. mgr. 9. gr. síðarnefndu laganna. Í öðru lagi telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, bæði varðandi það hvenær krafa hans hafi stofnast og upphafstíma fyrningar hennar. Þá telur leyfisbeiðandi í þriðja lagi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni og vísar í þeim efnum til fjárhæðar kröfu sinnar.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um fyrningu krafna um skaðabætur utan samninga, svo og um skil eldri laga og yngri. Er beiðnin því tekin til greina.