Hæstiréttur íslands

Mál nr. 166/2002


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Miski
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002.

Nr. 166/2002.

Ólafur Sveinn Ragnarsson

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

gegn

Jóhannesi Óla Garðarssyni og

Íþróttafélaginu Fylki

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Miski. Gjafsókn.

Ó hlaut brunasár er hann var að leik við brennuleifar áramótabrennu íþróttafélagsins F á nýársdag 1997, er hann var rúmlega níu ára gamall. F fékk leyfi til brennunnar með því skilyrði að ábyrgðarmaður væri viðstaddur meðan brennan logaði og uns öll hætta af henni væri liðin hjá. Var J ábyrgðarmaður brennunnar. Kvaðst hann hafa fylgst með brennunni á gamlárskvöld og til klukkan fimm á nýársnótt. Hann hafi stuggað við börnum sem voru að leik við brennuleifarnar um eittleytið á nýársdag en myndi ekki nákvæmlega eftir atburðarás síðdegis. Ó kvaðst ekki hafa séð eld eða glóð í brennunni en frá henni hafi lagt reyk. Hafi hann verið að ganga ofan á harðri hvítri ösku í brennukantinum þegar askan hrundi undan honum. Talið var óumdeilt að ekki logaði í brennunni er slysið varð um klukkan fjögur á nýársdag en hins vegar hafi verið í henni hiti og glóð sem gat reynst hættuleg, enda alkunna að börn sæki mjög í að leika sér við áramótabrennur. J hafi verið kunnugt um að glóð var í brennunni eftir hádegi á nýársdag og að börn voru þar að leik. Var hann talinn hafa sýnt af sér gáleysi með því að afstýra ekki þeirri hættu sem honum mátti vera ljóst að stafaði af brennuleifunum. Voru J og F talin bera sameiginlega fébótaábyrgð á tjóni Ó. Hins vegar var talið að Ó hafi mátt gera sér grein fyrir því að hættulegt væri að ganga í leifum brennunnar og þótti hæfilegt að hann bæri þriðjung tjóns síns sjálfur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. apríl 2002 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða sér 992.212 krónur með 2% ársvöxtum frá 1. janúar 1997 til 26. mars 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er stefnt til réttargæslu.

I.

Íþróttafélagið Fylkir mun um árabil hafa haldið áramótabrennu á svonefndum Brennuhól sunnan íþróttasvæðis félagsins í Árbæjarhverfi í Reykjavík. Meðal gagna málsins er ódagsett umsókn um brennuleyfi þar sem sótt var um að hlaða áramótabrennu á þessum stað og kveikja í henni klukkan 20.30 á gamlárskvöld. Eins og umsóknareyðublaðið var útfyllt virðist stefndi Jóhannes Óli Garðarsson vera umsækjandi um leyfið en stefndi Íþróttafélagið Fylkir ábyrgðarmaður fyrir brennuhaldinu. Stefndu lýstu því yfir fyrir Hæstarétti að hér væri um að ræða mistök við útfyllingu eyðublaðsins þar sem umsækjandi væri með réttu hið stefnda íþróttafélag en stefndi Jóhannes Óli ábyrgðarmaður. Lýsti áfrýjandi sig sammála þeirri skýringu. Að fengnu samþykki eldvarnareftirlits veitti lögreglan umbeðið leyfi 30. desember 1996. Var leyfið veitt með því skilyrði að „ábyrgðarmaður sé viðstaddur meðan brennan logar og uns öll hætta af henni er liðin hjá.“

Meðal gagna málsins eru reglur um áramótabrennur sem gefnar voru út 13. desember 1996 af Reykjavíkurborg, eldvarnareftirliti og lögreglunni í Reykjavík  Eru reglurnar í ellefu liðum, þar á meðal ákvæði um að fyrir hverri brennu skuli standa „ábyrgur aðili, einstaklingur eða tilnefndur aðili af félagasamtökum“ og að ábyrgðarmaður brennu skuli „ábyrgjast vörslu á brennustæði á meðan brennan logar og þar til brenna er kulnuð.” Áfrýjandi heldur því fram að reglur þessar hafi fylgt með brennuleyfinu til stefndu. Í skýrslu fyrir héraðsdómi sagðist stefndi Jóhannes Óli hafa sótt um brennuleyfið og hefði lögreglan fært honum það heim en hann taldi að reglurnar hefðu ekki fylgt leyfinu og hefði hann aldrei séð þær. Er ósannað að þær hafi fylgt leyfinu og þar sem ekki liggur heldur fyrir að reglurnar hafi verið birtar með formlegum hætti eða kynntar opinberlega verður þeim ekki beitt við úrlausn þessa máls.

Fyrir héraðsdómi skýrði stefndi Jóhannes Óli svo frá að hann búi rétt við brennustæðið og geti fylgst með brennunni út um glugga á heimili sínu. Hann hafi verið umsjónarmaður áramótabrennu á þessum stað í um það bil 20 ár. Hafi hann um þessi áramót fylgst með brennunni á gamlárskvöld og til klukkan fimm á nýársnótt. Þegar hann vaknaði á nýársdagsmorgun hafi hann litið til brennunnar og farið að henni um eittleytið. Þá hafi börn verið að leik við brennuleifarnar og ýmist verið að draga úr þeim spýtur eða fleygja þeim til baka. Hafi hann stuggað við börnunum og beðið þau að vera ekki við brennuna enda gæti hætta fylgt slíkum leik. Hann mundi ekki nákvæmlega eftir atburðarás síðdegis en þá hafi hann farið í afmæli. Hann sagði að á nýársdag hafi ekki verið í brennunni „skíðlogandi eldur“ en þar hafi verið glæður, einkum í stórum knippum af úrgangspappír, sem hafi verið mjög lengi að brenna.

Fyrir héraðsdómi kvaðst áfrýjandi, sem var rúmlega níu ára gamall þegar slysið varð, hafa verið að leika sér við brennuna á nýársdag ásamt fleiri börnum, sem ýmist hafi verið eldri eða yngri en hann sjálfur. Hann sagðist ekki hafa séð eld eða glóð í brennunni en frá henni hafi lagt reyk. Hafi hann verið að ganga ofan á harðri hvítri ösku í brennukantinum þegar askan hrundi undan honum. Þar hafi verið spýtur undir og hann flækst í vír og setið fastur. Hafi tveir vinir sínir dregið sig úr brennunni, sem tók nokkra stund. Samkvæmt gögnum málsins mun þetta hafa gerst um klukkan fjögur síðdegis, en við það hlaut áfrýjandi brunasár eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Höfðaði hann mál þetta til heimtu bóta fyrir tjón, sem hann telur sig hafa orðið fyrir við þetta. Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur um tjón áfrýjanda.

II.

Ljóst er að hætta getur fylgt því að halda brennu í þéttbýli og að fyllstu aðgátar er þörf varðandi framkvæmd og eftirlit til að draga úr þeirri hættu. Er brennuhald ekki heimilt nema að fengnu sérstöku leyfi. Slíkt leyfi hafði stefndi Íþróttafélagið Fylkir fengið fyrir brennu um áramótin 1996 og 1997. Framangreint brennuleyfi var veitt félaginu með því skilyrði að ábyrgðarmaður væri viðstaddur meðan brennan logaði og uns öll hætta af henni væri liðin hjá. Tók stefndi Jóhannes Óli að sér að vera ábyrgðarmaður við umrædda brennu. Óumdeilt er að ekki logaði í brennunni er slysið varð en hins vegar var í henni hiti og glóð sem reynst gat hættuleg, enda alkunna að börn sækja mjög í að leika sér við áramótabrennur. Stefnda Jóhannesi Óla var kunnugt um að glóð var í brennunni eftir hádegi á nýársdag og að börn voru þar að leik. Honum hefði því átt að vera hættan ljós og bar sem ábyrgðarmanni brennunnar að sjá til þess að gæsla væri við brennuna eða grípa til annarra varúðarráðstafana til að afstýra þessari hættu. Með því vanrækja það hefur hann sýnt af sér gáleysi og jafnframt rofið framangreint skilyrði brennuleyfisins. Ber hann því fébótaábyrgð á tjóni áfrýjanda. Er stefndi Íþróttafélagið Fylkir sem leyfishafi brennunnar einnig ábyrgt fyrir tjóni sem leiðir af því að skilyrði leyfisins voru ekki haldin og að vanrækt var að grípa til fullnægjandi varúðarráðstafana. Samkvæmt því bera stefndu sameiginlega fébótaábyrgð á tjóni áfrýjanda.

Áfrýjandi var rúmlega níu ár gamall þegar tjónið varð. Mátti hann gera sér grein fyrir því að hættulegt var að ganga í leifum brennunnar. Hann hefur því einnig sýnt af sér nokkuð gáleysi og þykir hæfilegt að hann beri þriðjung tjóns síns sjálfur. Samkvæmt því verða stefndu sameiginlega dæmdir til að greiða áfrýjanda 661.475 krónur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Stefndu verða sameiginlega dæmdir til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði  og málskostnað í ríkissjóð fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndu, Íþróttafélagið Fylkir og Jóhannes Óli Garðarsson, greiði áfrýjanda, Ólafi Sveini Ragnarssyni, sameiginlega 661.475 krónur með 2% ársvöxtum frá 1. janúar 1997 til 26. mars 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um  vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði áfrýjanda sameiginlega 350.000 krónur í málskostnað í héraði.

Stefndu greiði sameiginlega í ríkissjóð 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2001.

I

Mál þetta er höfðað 9. mars sl. og tekið til dóms 25. október sl.

Stefnandi er Ólafur Sveinn Ragnarsson og höfðar móðir hans, Rannveig Alda Jóns­dóttir, málið fyrir hönd ólögráða sonar síns.  Bæði eru til heimilis að Brúna­stöðum 16 í Reykjavík.

Stefndu eru Jóhannes Óli Garðarsson, Barðastöðum 7 og Íþróttafélagið Fylkir, báðir í Reykjavík.  Til réttargæslu er stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringl­unni 5, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum óskipt skaða­bætur að fjárhæð 1.078.313 krónur ásamt 2% ársvöxtum frá 1. janúar 1997 til 26. mars 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðslu­dags.  Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndu krefjast aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að stefnukröfur verði lækk­aðar og málskostnaður felldur niður.

Réttargæslustefndi gerir engar kröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur honum.

II

Málavextir eru þeir að á nýársdag 1997 var stefnandi að leika sér ásamt félögum sínum á brennustæði áramótabrennu, er verið hafði á svonefndum Brennuhól sunnan Fylkis­vallar í Árbæjarhverfi.  Hann kveðst hafa verið á gangi við brennuna er hann hafi fest í vír, sem var í kanti hennar og datt hann við það inn í brennuna og sökk í efnið sem enn kraumaði í.  Stefnandi kveðst hafa brunnið á báðum fótum og fingrum beggja handa auk þess sem föt hans eyðilögðust.  Hann var fluttur á slysadeild þar sem búið var um sárin en síðar kom í ljóst að sýking hafði komist í þau og var hann þá lagður inn á Landspítalann þar sem hann lá í tvær vikur áður en hann útskrifaðist. 

Stefndu gera ekki athugasemdir við þessa málavaxtalýsingu.

Í læknisvottorðum varðandi stefnanda kemur fram að hann hafi fengið 2. til 3. stigs brunasár á töluvert stórt svæði á hægri fótlegg og minni háttar á vinstra hné og hægri ökkla og vinstri stórutá og hægri löngutöng.  Viku eftir slysið hafi hann fengið sýkingu í sárið á hægri fótlegg og var hann lagður inn á lýtalækningadeild til með­ferðar.  Sýkingin var meðhöndluð og var flutt húð á hið brennda svæði á hægri kálfa, sem var tekin að láni innanvert á hægra læri.  Stefnandi útskrifaðist af spítalanum 21. febrúar en hélt áfram í eftirliti á göngudeild og 24. febrúar kom í ljós að öll sár voru gróin.  Við lokaeftirlit, 3. nóvember 1998, er áverkum hans lýst þannig: Utan og fram­an­vert á hægri legg er ca. 18x8 cm stórt blágrátt svæði, sem á var flutt húð á sínum tíma.  Þetta svæði er dálítið hrjúfara og þykkara en hið eðlilega húðumhverfi.  Smá­vegis ljósir blettir sjást utanvert á hægri ökkla og tveir smáir ljósir blettir sjást innan­vert á vinstra hné.  Þar sem húðin var fengin að láni innanvert á hægra læri er húðin ljós­ari en eðlilegt húðumhverfi.   Þá kemur fram í vottorðinu að stefnandi hafi engar kvart­anir fram að færa en móður hans finnst hann haltra af og til. Síðan segir lækn­irinn að það sé ljóst að Ólafur fái mjög verulegt, varanlegt lýti vegna útlits á hægri kálfa. Einnig megi reikna með að hann hafi verið haldinn óþægindum eða sviða og verk í um það bil eitt og hálft ár.

Stefnandi byggir kröfur sínar á niðurstöðu örorkumats en samkvæmt því er þján­inga­tíma­bil samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 18 mánuðir, þar af hafi hann verið rúmliggjandi frá 8. janúar til 21. febrúar 1997.  Varanlegur miski var metinn 5% og varanleg örorka einnig 5%.

Samkvæmt þessu sundurliðar stefnandi bótakröfu sína þannig:

1. Þjáningabætur skv. 3. gr.

 

Rúmliggjandi 44 dagar (4 x 1.529)

kr.       67.276

Veikur án þess að vera rúmliggjandi 503 dagar(503 x 823)

kr.     413.969

2. Varanlegur miski skv. 4. gr. (4.704.448 x 5%)

kr.     235.222

3. Varanleg örorka skv. 8. gr. (4.704.448 x 110% x 5%)

kr.     258.745

Samtals skaðabætur

kr.     975.212

4. Við bætast eftirfarandi liðir:

 

Tjón  á fatnaði

kr.       17.000

Læknisvottorð

kr.       36.086

Örorkumat

kr.       50.015

Annað samtals

kr.     103.101

Samtals stefnufjárhæð

kr. 1.078.313

 

Af hálfu stefndu er ekki gerður ágreiningur um umfang tjóns stefnanda né fjár­hæð bóta­kröfu. Aðila greinir hins vegar á um það hvort stefndu beri ábyrgð á tjóni stefn­anda eða ekki.

III

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi, Íþróttafélagið Fylkir, hafi með því að afla sér leyfis til að halda áramótabrennu gengist undir að hlíta þeim skilyrðum og regl­um sem um hana giltu.  Stefndi, Jóhannes Óli, hafi með því að gerast ábyrgð­ar­maður fyrir brennunni ábyrgst að skilyrðum fyrir henni yrði fullnægt og reglum fram­fylgt.  Stefnandi byggir þannig á því að stefndu beri ábyrgð á tjóninu, sem hann varð fyrir á nýársdag 1997, þegar hann féll í leifar af umræddri brennu, sem stefndu stóðu fyrir, enda hafi þeir ekki sinnt því skilyrði sem fram komi í brennuleyfinu, að ábyrgð­ar­maður væri viðstaddur meðan brennan logaði og uns öll hætta af henni væri liðin hjá.  Af hálfu stefnanda er byggt á því að það sé skylda ábyrgðarmanns að ábyrgjast vörslu á brennusvæðinu á meðan brennan logar og þar til hún sé að fullu kulnuð.  Enn fremur er byggt á því að sérstaklega ríkar kröfur eigi að gera til þeirra sem fá að halda brennu í þéttbýli þar sem um sé að ræða hættu, sem sköpuð sé af manna völdum, inni í íbúð­arhverfum þar sem augljós hætta stafi af, sérstaklega fyrir börn sem kunni að vera að leik í nágrenninu.  Það verði því að meta það til stór­kostlegs gáleysis af ábyrgð­armanni brennunnar að halda ekki þær ströngu reglur, sem settar hafi verið um hana, og að hann skuli ekkert hafa aðhafst þegar hann sá börn að leik við brennu­stæðið. 

Slysið, sem olli stefnanda tjóni, hafi því verið afleiðing af van­rækslu brennu­hald­ara og ábyrgðarmanns brennunnar á þeim skyldum sem þeir tókust á hendur. Van­ræksla þeirra varð til þess að börn hafi fengið óáreitt að leika sér við brennu­stæðið meðan enn hafi kraumað eldur undir yfirborði brennunnar.  Bendir stefn­andi á að ábyrgðarmaður hennar, stefndi, Jóhannes Óli, hafi tekið eftir þeim og að hann hafi vitað að eldurinn var ekki kulnaður.  Stefndu hafi því mátt vera ljós slysa­hættan en það hafi stefnanda og börnum sem voru með honum að leik þvert á móti ekki mátt vera ljóst.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að þeir hafi ekki sýnt af sér vangæslu við um­sjón og eftirlit með brennunni.  Hafa verði í huga að áramótabrennur, sem tíðkast hafi í áratugi, séu venjulega látnar brenna út.  Ekki verði almennt gerð sú krafa til um­sjón­araðila þeirra að þeir girði af brennurnar eða séu með fulla vakt á þeim daginn eftir þegar þær hafi brunnið út.  Benda stefndu á að ekki stafi nein sérstök hætta af brenn­unni eftir það.  Þá byggja stefndu á því að almennt verði að gera þá kröfu til 9 ára barns að það gæti sín við brennuleifar sem ennþá séu heitar en engin sérstök hætta eigi að stafa frá þeim sé eðlilegrar varúðar gætt. 

Ef talið yrði hins vegar að brennuleifarnar hafi verið það hættulegar að þær hafi kraf­ist stöðugrar vöktunar, þá byggja stefndu einnig á því að foreldrar stefnanda hafi van­rækt eftirlit sitt með honum.  Hann hafi þannig fengið að valsa um við brennuna á nýárs­dag án nokkurs sýnilegs eftirlits af þeirra hálfu.  Stefndu byggja þannig á því að stefn­andi eigi að minnsta kosti einhvern hluta sakar og sé varakrafan byggð á því.

IV

Við aðalmeðferð skýrði stefnandi svo frá að hann hefði verið á gangi á hvítri ösku í brennukantinum þegar hrundi undan honum, eins og hann orðaði það, hann flæktist í vír og festist.  Tveir félagar hans hafi komið að, losað hann úr vírnum og dregið hann á brott.  Hann kvaðst ekki hafa séð eld eða glóð í brennunni en séð reyk.  Þarna hafi verið fleiri krakkar að leik, bæði eldri og yngri en hann. 

Ábyrgðarmaður brennunnar, stefndi, Jóhannes Óli, kvaðst hafa vaktað brennuna heim­an að frá sér á nýársnótt fram undir klukkan fimm um morguninn.  Um eittleytið kvaðst hann hafa farið að brennustæðinu og stuggað við krökkum, er þar voru að leik.  Hann kvaðst hafa farið í afmælisveislu síðar um daginn og því ekki geta borið um að­stæður þegar slysið varð.  Hann bar að þegar hann kom að brennunni um hádegið hafi verið glóð í pappírsböllum en að öðru leyti hafi hún verið brunnin.

Lögreglan gaf leyfi fyrir brennunni, og er það með árituðu samþykki eld­varn­ar­eft­irlitsins.  Í leyfisbréfinu segir:  "Brennuleyfi er veitt með því skilyrði að ábyrgð­ar­mað­ur sé viðstaddur meðan brennan logar og uns öll hætta af henni er liðin hjá."  Stefndi, Jóhannes Óli, kannaðist við þetta leyfisbréf, enda útfyllti hann umsóknin um það en leyfið er áritun á umsóknina.  Hins vegar kannaðist hann ekki við að hafa fengið í hendur reglur um áramótabrennur, sem lagðar hafa verið fram og dagsettar eru 13. desember 1996.  Í þessum reglum segir m.a. að ábyrgðarmaður þurfi að ábyrgjast vörslu á brennustæði á meðan brenna logi og þar til hún sé kulnuð.

Það er niðurstaða dómsins að framangreint ákvæði í brennuleyfinu leggi ekki þá skyldu á herðar ábyrgðarmannsins að hann verði að vera viðstaddur svo lengi sem ein­hver glóð sé í brennustæðinu heldur nægi að þar sé varsla þar til ekki logi lengur í brenn­unni.  Framangreint ákvæði í reglunum segir í raun hið sama, enda segir þar að ábyrgjast eigi vörslu á meðan brenna logi og í því samhengi verða orðin "þar til hún sé kuln­uð" ekki skýrð svo að þau þýði þar til engin glóð sé lengur í brennustæðinu heldur, eins og áður sagði, þar til ekki logi lengur.  Þegar stefnandi féll í brennu­stæð­inu um klukkan 16 á nýársdag logaði brennan ekki lengur en ágreiningslaust er að glóð var í leifum eldsmatsins.   

Það er niðurstaða dómsins að slysið hafi orðið vegna þess að stefnandi hætti sér of nærri brennustæðinu og askan, sem hann gekk á, hrundi undan honum eins og hann sjálfur lýsti.  Þetta gerðist þrátt fyrir að hann hafi aðeins verið við brennukantinn.  Hér var um að ræða óhappatilviljun, sem hvorki verður rakin til athafna eða athafnaleysis stefndu.  Stefnandi festist í vír og gat ekki losnað af sjálfsdáðum og hefur það án efa valdið því að hann brenndist eins og lýst hefur verið.  Hér fyrr var komist að þeirri nið­urstöðu að ekki hafi hvílt skylda á stefndu að hafa vörslu við brennustæðið eftir að hætti að loga í brennunni og verður það því ekki metið þeim til sakar að hún var ekki við­höfð þegar slysið varð.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að slysið verði hvorki rakið til saknæmra athafna eða athafnaleysis stefndu og ber því að sýkna þá af kröfu stefn­anda en málskostnaður skal falla niður.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndu, Jóhannes Óli Garðarsson og Íþróttafélagið Fylkir, eru sýknaðir af kröfu stefn­anda, Ólafs Sveins Ragnarssonar, er málskostnaður skal falla niður.