Hæstiréttur íslands
Mál nr. 765/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Greiðsluaðlögun
|
Miðvikudaginn 20. janúar 2010. |
|
|
Nr. 765/2009. |
A (sjálfur) gegn Héraðsdómi Suðurlands (enginn) |
Kærumál. Greiðsluaðlögun.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Fram kom að A hafi flutt til Danmerkur án þess að hafa fengið vinnu eða eiga rétt á atvinnuleysisbótum þar í landi. Hann hafi fengið vinnu eftir tvo til þrjá mánuði, en safnað skuldum fram að því. Með því að flytja til annars lands án þess að hafa vinnu eða aðrar tekjur hafi A mátt vera það ljóst að hann væri að taka fjárhagslega áhættu, enda hafi hann ekki vitað hvort hann fengi vinnu í Danmörku eða hvenær og á hvaða kjörum. Hafi A stofnað þar til skulda í algjörri óvissu um hvort hann gæti greitt þær til baka. Talið var að með þessu hafi A tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna hafi verið stofnað, sbr. 2. tl. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991. Yrði því að hafna beiðni A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. desember 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 2. mgr. 63. gr. d., sbr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimilað að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 15. desember 2009.
Með bréfi er barst dóminum 4. nóvember sl. í máli nr. N-35/2009 hefur A, kt. [...],[...], óskað heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.
Því er lýst í beiðni að umsækjandi sé 58 árs gamall karlmaður. Umsækjandi búi ásamt eiginkonu sinni, B, og 19 ára dóttur þeirra, í leiguhúsnæði. Umsækjandi sé ófaglærður, en hann hafi byrjað á námi í múraraiðn en ekki lokið sveinsprófi. Hann sé í föstu starfi hjá [...]. Umsækjandi segir fjárhagserfiðleika sína stafa af veikindum eiginkonu sinnar, offjárfestingu í íbúðarhúsnæði, atvinnuleysis, tekjulækkunar og búferlaflutninga milli landa. Í upphafi búskapar umsækjanda og eiginkonu hans hafi þau tekið lífeyrissjóðslán með veði í íbúð móður umsækjanda til að borga inn á íbúð sem þau hafi keypt. Við andlát móður umsækjanda hafi þeim verið gert að aflétta veðinu, og hafi þau í því skyni fengið annað og mun óhagstæðara lán. Umsækjandi hafi misst vinnuna vegna sölu á fyrirtæki atvinnurekanda hans og fengið mun lægri laun í nýju starfi. Það hafi leitt til tímabundinna fjárhagserfiðleika umsækjanda og eiginkonu hans. Þau hafi selt fasteign sína árið 2006, borgað niður skuldir eins og þau hafi getað, og flutt til Danmerkur ásamt dætrum sínum og barnabarni. Umsækjandi hafi fengið vinnu tveimur til þremur mánuðum eftir komu þeirra til Danmerkur en eiginkona umsækjanda hafi enga vinnu fengið. Skuldir hafi safnast upp í Danmörku þar sem þau hafi orðið að lifa á lánsfé fyrstu mánuðina í landinu og ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum þar í landi. Umsækjandi og eiginmaður hennar hafi flutt aftur til Íslands árið 2007. Umsækjandi sé nú í föstu starfi hjá [...] en launin séu lág, 850 til 900 krónur á tímann og möguleikar á yfirvinnu séu aðeins á haustin. Stór hluti samningsskulda umsækjanda sé vegna bílasamnings við Lýsingu. Lýsing sé skráður eigandi bifreiðar umsækjanda en umsækjandi sé skráður leigutaki. Verði heimild veitt til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar krefjist umsækjandi þess að Lýsing taki bifreiðina í sínar vörslur og geri ekki frekari kröfur á hendur umsækjanda.
Skuldari hefur lagt fram ítarlega greiðsluáætlun í samræmi við 2. mgr. 63. gr. c laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.
Tekjur skuldara eru samkvæmt greiðsluáætlun nú alls 167.958 krónur á mánuði.
Helstu samningskröfur skv. greiðsluáætlun eru skuldir við Arion banka (áður Nýja Kaupþing banka), Byr sparisjóð, Lýsingu, ,,SEB kort” og Danske Bank. Eftirstöðvar samningskrafna miðað við skil eru sagðar vera um 3,9 milljónir króna og gjaldfallnar kröfur eru sagðar nema um 1,2 milljónum króna.
Greiðslugeta, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, er sögð vera 17.893 krónur á mánuði.
Verði samþykkt af hálfu Lýsingar að félagið taki bifreið skuldara í sínar vörslur og geri ekki frekari kröfur á hendur honum, er tillaga skuldara sú að aðrar samningskröfur hans verði lækkaðar hlutfallslega um 69% og eftirstöðvar þeirra verði greiddar með afborgun að fjárhæð 10.000 krónur á mánuði í eitt ár og síðan 25.000 krónur á mánuði í þrjú ár.
Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991.
Forsendur og niðurstaða
Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991. Mál þetta barst upphaflega dóminum þann 4. nóvember sl. Þann dag barst dóminum einnig beiðni eiginkonu skuldara, B, um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, sbr. mál nr. N-34/2009. Þann 7. desember sl. mætti skuldari fyrir dóminn samkvæmt boðun, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Skuldari upplýsti að hann teldi gagnaöflun lokinni og var málið þá tekið til úrskurðar.
Fram kemur í greiðsluáætlun og gögnum málsins að eftirstöðvar samningskrafna miðað við skil eru samtals að fjárhæð 3.874.584 krónur. Þar af er skuld skuldara við Danske bank að fjárhæð 617.025 krónur. Kröfur sem fallnar eru í gjalddaga eru samtals að fjárhæð 1.265.167 krónur, þar af er skuld sem tilgreind er sem ,,SEB kort” að fjárhæð 1.114.431 króna. Fyrir dóminum upplýsti skuldarinn að um væri að ræða skuld vegna notkunar á dönsku greiðslukorti. Skuldir skuldara eru samtals 5.139.751 króna. Þar af eru skuldir hans við Danske bank og vegna notkunar á dönsku greiðslukorti samtals að fjárhæð 1.731.456 krónur. Eru þessar tvær skuldir samtals um þriðjungur af öllum skuldum skuldara.
Eins og fyrr greinir flutti skuldari ásamt eiginkonu sinni, dætrum og barnabarni til Danmerkur. Skuldari og eiginkona hans voru þó ekki komin með vinnu í landinu og áttu samkvæmt frásögn skuldara ekki rétt á atvinnuleysisbótum þar í landi. Skuldari fékk vinnu í Danmörku tveimur til þremur mánuðum eftir komu þangað en skilja verður frásögn hans svo að hann hafi verið tekjulaus fram að því. Vegna þessa safnaði skuldari skuldum þar í landi. Skuldara hlaut að vera það ljóst að með því að flytja til annars lands án þess að vera kominn með vinnu og án þess að hafa neinar aðrar tekjur væri hann að taka fjárhagslega áhættu, enda gat skuldari ekki vitað hvort hann fengi vinnu í Danmörku eða hvenær og á hvaða kjörum. Skuldari stofnaði þannig til skulda þar í landi í algjörri óvissu um það hvort hann gæti greitt þær til baka. Það er mat dómsins að með þessu hafi skuldari tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, sbr. 2. tl. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991. Verður því að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er beiðni A, kt. [...], um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.