Hæstiréttur íslands

Mál nr. 499/2015

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Viðari Sigurðssyni (Valgeir Kristinsson hrl.)

Lykilorð

  • Fjárdráttur
  • Skilasvik
  • Bókhaldsbrot

Reifun

V, eigandi og framkvæmdastjóri M ehf., var sakfelldur fyrir fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa misnotað aðstöðu sína og dregið sér 4.000.000 krónur út af bankareikningi M ehf. og nýtt í eigin þágu. Einnig var V sakfelldur fyrir skilasvik samkvæmt 3. og 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga fyrir að skerða rétt lánadrottna M ehf. til að öðlast fullnægju af eignum félagsins með því að hafa í fyrsta lagi misnotað aðstöðu sína og dregið sér 2.844.000 krónur út af bankareikningi M ehf. og nýtt í eigin þágu og í öðru lagi fyrir að hafa látið P leigjanda íbúðar í eigu M ehf. greiða leigugreiðslur inn á bankareikning S ehf. en það félag var einnig í eigu V. Þá var V sakfelldur fyrir brot á lögum nr. 145/1994 um bókhald með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald vegna rekstrar M ehf. á árunum 2010 og 2011. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 9 mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. júlí 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 574.892 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Valgeirs Kristinssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. mars 2015.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 3. mars síðastliðinn, er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, útgefinni 15. apríl 2013 á hendur Viðari Sigurðssyni, kennitala [...], Hamraborg 7, Kópavogi „fyrir eftirtalin brot á almennum hegningarlögum og lögum um bókhald:

I

                Fyrir fjárdrátt en til vara fyrir umboðssvik, með því að hafa sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Merlin, kt. 460904-2850, sem nú er þrotabú, misnotað aðstöðu sína hinn 26. janúar 2009 og dregið sér samtals 4.000.000 krónur með því að taka í þrjú skipti reiðufé út af bankareikningi félagsins nr. 1101-05-420390 hjá Byr sparisjóði, tileinka sér féð og nota í eigin þágu. Úttektirnar sundurliðast svo:

Dagsetning                              Fjárhæð                             Úttektarreikningur

26. janúar 2009                      1.000.000 kr.                    1101-05-420390

26. janúar 2009                      1.000.000 kr.                    1101-05-420390

26. janúar 2009                      2.000.000 kr.                    1101-05-420390

Samtals                                    4.000.000 kr.                   

II

                Fyrir skilasvik en til vara fyrir fjárdrátt og til þrautavara fyrir umboðssvik, með því að hafa sem eigandi og framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Merlin, sem nú er þrotabú, á tímabilinu frá og með 21. febrúar 2011 til og með 16. maí 2011 misnotað aðstöðu sína og dregið sér samtals krónur 2.844.000, þegar hann í níu skipti tók fé út af bankareikningum félagsins hjá Byr sparisjóði, nr. 1101-05-420390, og hjá MP banka hf., nr. 0701-15-201378, og lagði inn á sinn eigin persónulega reikning hjá Landsbankanum hf., nr. 0115-26-90158, og notað í eigin þágu, en með því skerti ákærði rétt lánadrottna félagsins til að öðlast fullnægju af eignum þess. Árangurslaust fjárnám var gert hjá Merlin 14. september 2010, aftur 28. október 2010 og barst Héraðsdómi Reykjavíkur loks krafa um gjaldþrotaskipti 6. janúar 2011. Búið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómsins hinn 16. maí 2011. Millifærslurnar sundurliðast svo:

 

III

                Fyrir skilasvik, en til vara fyrir umboðssvik, með því að hafa frá og með október 2010 til og með febrúar 2012 misnotað aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Merlin og látið A, leigjanda íbúðar að [...], fastanúmer [...], íbúðar sem var í eigu einkahlutafélagsins Merlin, greiða leigugreiðslur inn á bankareikning einkahlutafélagsins Svörfuls, félags í eigu ákærða, samtals 1.507.000 krónur, og þar með skert rétt lánadrottna einkahlutafélagsins Merlin til að öðlast fullnægju af eignum félagsins auk þess sem háttsemin miðaði að því að kröfur þrotabús einkahlutafélagsins Merlin til leigugreiðslna kæmu lánardrottnum félagsins ekki að gagni. Voru leigugreiðslurnar greiddar inn á reikning einkahlutafélagsins Svörfuls hjá MP banka nr. 0701-05-300981. Árangurslaust fjárnám var gert hjá Merlin ehf. 14. september 2010, aftur 28. október 2010 og barst Héraðsdómi Reykjavíkur loks krafa um gjaldþrotaskipti 6. janúar 2011. Búið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 16. maí 2011. Greiðslur leigjandans sundurliðast svo:

IV

                Fyrir meiri háttar brot á lögum um bókhald, frömdum af ákærða sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins Merlin, með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald vegna rekstrar einkahlutafélagsins á árunum 2010 og 2011, fyrir að hafa vanrækt að varðveita bókhaldsgögn vegna rekstrar einkahlutafélagsins sömu ár og fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að útbúa ársreikning vegna rekstrarársins 2010.

V

                Teljast brot ákærða í I. kafla ákæru varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 249. gr. sömu laga.

                Teljast brot ákærða í II. kafla ákæru varða við 4. tl. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, til vara við 247. gr. og til þrautavara við 249. gr. sömu laga.

                Teljast brot ákærða í III. kafla ákæru, að því er varðar tímabilið frá og með október 2010 til apríl 2011, varða við 4. tl. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en að því er varðar tímabilið frá og með 6. júní 2011 til og með 6. febrúar 2012 teljast brotin varða við 3. tl. 250. gr. sömu laga. Til vara telst háttsemin varða við 249. gr. sömu laga.

                Teljast brot ákærða í IV. kafla ákæru varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1., 2. tl. og 5. tl. 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.

VI

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins 12. júlí 2013. Við fyrirtöku málsins 20. desember sama ár neitaði ákærði sök samkvæmt öllum töluliðum ákærunnar. Að ósk ákærða var Valgeir Kristinsson hæstaréttarlögmaður skipaður verjandi hans í málinu. Skilaði verjandi greinargerð fyrir ákærða í þinghaldi 12. febrúar 2014. Krafðist ákærði sýknu. Skipaður verjandi ákærða krafðist málsvarnarlauna sér til handa. Fyrirhugað var að aðalmeðferð í málinu færi fram 24. mars 2014 en af því varð ekki af ástæðum er varða ákærða sem starfar í Afríku. Ekki varð heldur af aðalmeðferð sem fyrirhuguð var 5. júní 2014 þar sem ákærði mætti ekki til landsins. Þann 12. janúar 2015 var tekin skýrsla af ákærða með heimild í 5. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Aðalmeðferð málsins fór fram 3. mars síðastliðinn.

VII

                Aðdragandi máls þessa er sá að bú einkahlutafélagsins Merlin var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2011. Við gjaldþrotið var ákærði eini stjórnarmaður Merlin ehf., framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi og hafði svo verið óbreytt frá 10. september 2008. Var ákærði eini eigandi félagsins og fór einn með rekstur þess og stjórn.

                Síðla árs 2010 voru gerð þrjú árangurslaus fjárnám hjá Merlin ehf. Það fyrsta var gert 14. september en hin tvö 28. október. Samkvæmt endurriti úr gerðarbók sýslumannsins í Kópavogi 28. október 2010 var ákærði viðstaddur fjárnámsgerðirnar og undirritaði þær.

                Þann 6. janúar 2011 barst héraðsdómi Reykjavíkur krafa Landsbankans hf. um gjaldþrotaskipti á félaginu sem var mótmælt af félaginu. Héraðsdómur úrskurðaði Merlin ehf. gjaldþrota 16. maí 2011 og staðfesti Hæstiréttur Íslands úrskurðinn 6. júní sama ár. Var C hrl. skipuð skiptastjóri í þrotabúinu. Skiptastjóri búsins tók skýrslu af ákærða 25. maí 2011.

                Með bréfi 2. maí 2012 tilkynnti skiptastjóri þrotabúsins til embættis sérstaks saksóknara, með vísan til 84. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., ýmis ætluð brot ákærða sem fyrirsvarsmanns Merlin ehf. Að áliti skiptastjóra hafði ákærði tekið háar fjárhæðir út úr félaginu með millifærslum á eigin bankareikninga og úttektum á reiðufé. Þá var ákærði sakaður um að hafa tekið til sín leigugreiðslur í eigu félagsins á eigin reikning. Var málið tekið til rannsóknar og lauk rannsókninni í janúar 2013 og ákæra gefin út 15. apríl sama ár. 

VIII

                Ákærði lagði fram skriflega greinargerð í málinu samkvæmt heimild í 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar segir meðal annars að málatilbúnaður ákæruvaldsins sé reistur á veikum gögnum og slakri sönnunarfærslu sem ekki fái staðist nánari skoðun og rannsókn á bókhaldsgögnum. Af hálfu ákæruvaldsins sé eingöngu byggt á bankareikningum ákærða og ýmsum félögum í hans eigu. Vísar ákærði til athugasemda B viðurkennds bókara og tekur undir þær. Ákæruliðir I og II standist ekki. Staðhæfingar um fjárdrátt og undanskot fjármuna og að hafa notað féð í eigin þágu séu rangar og því leiði það til sýknu af þeim ákæruliðum. Þá sé því hafnað að við eigi skilasvik og umboðssvik. Umræddir fjármunir hafi allir verið nýttir til greiðslu á tilfallandi kostnaði sem hafi tilheyrt Merlin ehf. þar á meðal laun til ákærða.

                Í ákærulið III sé aðallega ákært fyrir skilasvik en til vara fyrir umboðssvik með því að ákærði hafi látið einn leigjanda að íbúð í eigu Merlin ehf. greiða leigu til annars félags, Svörfuls ehf. Um sé að ræða mistök sem ekki séu refsiverð. Þá verði að líta á greiðslurnar sem lán til Svörfuls ehf. Merlin ehf. eigi eða kunni að eiga fjárkröfu á hendur Svörfli ehf., en gögn í málinu staðfesti ekki að innheimta hafi verið reynd. Ósannað sé að réttur lánadrottna Merlin ehf. hafi verið skertur til að öðlast fullnægju af eignum félagsins. Verði ákæruvaldið að sanna að tjón hafi hlotist að þessu leyti til að unnt sé að fallast á ákæruliðinn. Ákærði hafi ekki haft neinn hag af greiðslunum.

                Þá segir að IV. ákæruliður sé ekki studdur neinum gögnum, aðeins röngum fullyrðingum. Segir að kassar með bókhaldsgögnum hafi týnst vegna flutninga en fundist aftur. Þeim hafi ekki verið komið til ákæruvaldsins. Vegna fjárhagsvanda félagsins í lok ársins 2010 hafi ekki reynst unnt að færa lögboðið bókhald félagsins og hafi því ekki verið lokið þegar skiptastjóri þrotabúsins hafi tekið við fyrirsvari og rekstri félagsins 16. maí 2011. Hvað varði skil á ársreikningi félagsins fyrir árið 2010 hafi ákærði ekkert brotið af sér, en frestur til þess hafi verið til 31. ágúst 2011. sama eigi við um skattframtal ársins 2010, en frestur til að skila skattframtölum lögaðila sé til 15. september árið eftir. 

IX

                Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

                Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa verið eini eigandi Merlin ehf. og farið með stjórn og prókúru fyrir félagið. Spurður um þrjár úttektir á peningum hjá gjaldkera af reikningi Merlin ehf. sem áttu sér stað 26. janúar 2009, tilgreindar í fyrsta ákærulið, bar ákærði að hann hefði persónulega greitt reikninga fyrir Merlin ehf. og væru greiðslurnar færðar á reikning skuldunauta og síðan jafnað á milli. Væri þetta gert til að einfalda bókhaldið og gera það skýrara. Úttektirnar, samtals að fjárhæð 4.000.000 króna, hefðu verið til að jafna skuld félagsins við ákærða. Skuldin hafi verið vegna efniskaupa, það er úttekta hjá BYKO og Húsasmiðjunni, og vegna greiðslna til verktaka. Til væru reikningar fyrir þessu. Ákærði kvaðst oft hafa notað reiðufé til að greiða reikninga. Spurður um það hvort ákærði gæti bent á reikninga fyrir útlögðum kostnaði kvað ákærði svo ekki vera en aðalatriði væri að félagið skuldaði honum peninga og um væri að ræða greiðslur til hans. Unnt væri að prenta reikninga út úr bókhaldi félagsins.

                Spurður um rafrænar millifærslur af bankareikningi félagsins nr. 115-26-90158 inn á bankareikning í eigu ákærða nr. 115-26-09158, tilgreindar í ákærulið II, bar ákærði að þessar millifærslur væru að megninu til laun til hans. Þá staðfesti ákærði að hann hefði sjálfur framkvæmt millifærslurnar af reikningum félagsins, enda hefði enginn annar haft aðgang að þeim. Þá staðfesti ákærði aðspurður að reikningur nr. 115-26-09158 væri hans eigin reikningur. Um þá skýringu sem ákærði hafi gefið hjá lögreglu að þetta væri útlagður kostnaður bar ákærði að þetta lægi skýrar fyrir núna en þegar skýrsla hafi verið gefin hjá lögreglu. Ákærði kvaðst ekki hafa haft bókhaldsgögn undir höndum á þeim tíma en nú væri búið að færa bókhaldið og því lægi þetta skýrar fyrir. Þá kom fram hjá ákærða að hann hefði rekið annað félag, Eidel ehf., sem hefði séð um reksturinn og greitt honum laun. Lítið af launum hefði verið greitt til hans frá Merlin ehf. Væru til launamiðar meðal bókhaldsgagna.

                Um atvik að baki þriðja ákærulið greindi ákærði frá því að lánasamningur hefði verið í gildi á milli Merlin ehf. og Svörfuls ehf., það er samkomulag á milli félaganna um að þau fjárfestu í útgerð. Samningur félaganna hafi gengið út á það að Merlin ehf. lánaði Svörfli ehf. sem hefði fjárfest í útgerðarfélaginu TT Luna ehf. Ætlunin hefði verið að gera upp báta og fá kvóta fyrir Makríl. Gengi dæmið upp myndi Merlin ehf. skuldajafna lánasamningum á móti hlutfé í TT Luna ehf. Ákærði kvað Merlin ehf. hafa átt íbúðina í [...] sem vitnið A hefði haft á leigu. Kvaðst ákærði hafa séð um að leigja A íbúðina og innheimta leigugreiðslur og taka við þeim. Ákærði kvaðst ekki muna hvort skriflegur leigusamningur hafi verið gerður um íbúðina, en gekkst við því að hafa ákveðið að A greiddi leiguna til Svörfuls ehf. en ekki til Merlin ehf. Það hafi verið gert vegna lánasamnings um viðskiptasamband félaganna, sem ákærði væri eigandi að. Þá kom fram hjá ákærða að eftir að peningarnir höfðu verið greiddir til Svörfuls ehf. hafi þeim verið ráðstafað til TT Luna ehf. og þaðan í endurbyggingu skipa, skoðunargjöld og hafnargjöld.

                Vitnið A kom fyrir dóm og greindi frá því hann hefði leigt íbúð í eigu Merlin ehf. að [...] á tímabilinu frá október 2010 – febrúar 2012. Vitnið kvaðst hafa fengið beiðni frá ákærða um að breyta greiðslustað leigunnar. Eftir það kvaðst vitnið mögulega hafa greitt leiguna til Svörfuls ehf. en upplýsingar um það væru í gögnum málsins. 

                Vitnið C, hæstaréttarlögmaður og skiptastjóri þrotabús Merlin ehf. greindi frá því að skiptastjóri hefði óskað eftir því við ákærða að fá bókhald félagsins en því hefði ekki verið sinnt. Skiptum á búinu væri ekki lokið.

                Vitnið D sem fór með rannsókn málsins hjá embætti sérstaks saksóknara, greindi frá því að rætt hefði verið við ákærða eftir fyrstu skýrslutöku um að hann skilaði bókhaldi eftir skýrslutökuna. Vitnið sagði lögreglu hafa gengið eftir því að fá bókhaldið til rannsóknar. Reynt hafi verið að fara eftir ábendingum ákærða en ekki hefði tekist að hafa upp á bókhaldinu.

                Vitnið E gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hún hefði fært bókhald fyrir Merlin ehf. rekstrarárið 2009 og til nóvember 2010, það er fjárhagsbókhald sem tengdist rekstri félagsins. Vitnið kvaðst upphaflega hafa fært bókhald vegna ársins 2009, en á árinu 2011 hafi hún einnig fært bókhaldi fyrir rekstrarárið 2010. Ekki hafi verið greitt fyrir bókhaldsvinnuna og því hafi verið hætt að bóka fyrir félagið þar til vinnan hófst á ný. Merlin ehf. hafi orðið gjaldþrota í maí 2011 og því hafi vinnu við færslu bókhaldsins verið lokið í ágúst 2011. Aðspurð bar vitnið að bókhaldsgögn félagsins væru í geymslu. Vitnið kvaðst hafa annast grunnvinnu við bókhaldið, skráningu rekstursins, fjárhagsbókhald, það er innkaup á vörum og efni sem notað var og allt sem tengdist félaginu. Einnig afstemmingu á útlögðum kostnaði og frekari greiningu á honum og launagreiðslum sem ákærði hefði tekið út og tengdist útlögðum kostnaði. Hafi þetta verið unnið í byrjun árs 2014 að beiðni ákærða en undir stjórn B Vitnið kvaðst kannast við samskipti við embætti sérstaks saksóknara sem hafi viljað fá bókhaldsgögnin. Þá hafi vinnan verið ógreidd og skuld við vitnið og því hafi gögnin ekki verið látin af hendi. Vitnið greindi frá því að ákærði hefði lagt út peninga fyrir Merlin ehf. og komið síðan með reikninga frá BYKO, Húsasmiðjunni og Tengi og fyrirtækjum sem verslað hafi verið við fyrir hönd fyrirtækisins. Spurð um úttektir ákærða sem væru bókaðar sem „kröfur á hluthafa“, bar vitnið að um væri að ræða úttektir ákærða sem hafi lagt út fjármuni fyrir hönd félagsins. Þarna væri millifært á ákærða vegna útlagðs kostnaðar.

                Vitnið B gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Hann greindi frá því að hann hefði vistað rafrænt í sínu bókhaldskerfi það sem vitnið E hafi fært af bókhaldi félagsins. Á árunum 2010 og 2011 hafi ekki verið um aðra aðkomu vitnisins að ræða, en í október 2012 hafi ákærði komið að máli við vitnið og óskað eftir því að vitnið myndi greina ýmis atriði sem hafi verið til skoðunar hjá sérstökum saksóknara. Þá kom fram hjá vitninu að verjandi ákærða hafi í byrjun árs 2014 óskað eftir frekari vinnu af hans hálfu. Vitnið staðfesti að bókhaldsgögn framlögð af ákærða hefðu verið vistuð í bókhaldskerfi á bókhaldsstofu vitnisins og framlögð skjöl byggðust á vinnu sem unnin hafi verið annars vegar í október til desember 2012 og hins vegar í janúar 2014, sem hefði verið viðbót við það sem unnið var 2012, það er hreyfingayfirlit úr bókhaldi og greinargerð vitnisins. Þá staðfesti vitnið reikninga fyrir vinnu við færslu bókhaldsins í fjórum hlutum, skipt upp milli ára. 

X

                Eins og rakið er að framan í kafla VII var ákærði frá 10. september 2008 framkvæmdastjóri, prókúruhafi og eini stjórnarmaður einkahlutafélagsins Merlin og hélt þeirri stöðu fram að gjaldþroti félagsins 16. maí 2011. Þá var ákærði eini hluthafi félagsins og fór einn með rekstur þess og stjórn. Í september og október 2010 voru gerð þrjú árangurslaus fjárnám hjá Merlin ehf. og var ákærði viðstaddur tvær fjárnámsgerðir 28. október 2010 og undirritaði þær. Þann 6. janúar 2011 barst héraðsdómi Reykjavíkur krafa Landsbankans hf. um gjaldþrotaskipti á Merlin ehf. sem var mótmælt af félaginu. Héraðsdómur úrskurðaði félagið gjaldþrota 16. maí 2011 og staðfesti Hæstiréttur Íslands úrskurðinn 6. júní sama ár.

                Með bréfi 2. maí 2012 tilkynnti skiptastjóri þrotabúsins embætti sérstaks saksóknara um ýmis ætluð brot ákærða sem fyrirsvarsmanns Merlin ehf. Að áliti skiptastjóra hafði ákærði tekið háar fjárhæðir út úr félaginu með millifærslum á eigin bankareikninga og úttektum á reiðufé. Þá var ákærði sakaður um að hafa látið leggja leigugreiðslur í eigu félagsins inn á eigin reikning.

                Ákæruliður I.

                Ákærði er sakaður um fjárdrátt, en til vara umboðssvik, með því að hafa misnotað aðstöðu sína 26. janúar 2009 og dregið sér samtals 4.000.000 króna með því að taka út í þrjú skipti reiðufé út af bankareikningi félagsins númer 1101-05-420390 hjá Byr sparisjóði, tileinka sé féð og nýta í eigin þágu.

                Við munnlega flutning málsins lýsti sækjandi því yfir að ekki væri lengur byggt á því af hálfu ákæruvaldsins að ákærði hefði með þeirri háttsemi sem lýst er í fyrsta kafla ákærunnar brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en byggt væri á því að ákærði hefði gerst sekur um fjárdrátt og brotið gegn 247. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði neitar sök. Í skýrslu hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa tekið peningana út af reikningi Merlin ehf. til að greiða laun. Hefðu fjármunirnir runnið til starfsmanna Merlin ehf. eða Eidel ehf. og verið greiddir í reiðufé. Þá kvað ákærði það koma til greina að hann hefði tekið peninga út vegna vantrausts í garð bankans og að peningarnir hefðu verið lagðir til hliðar í seðlum og síðan lánaðir til Svörfuls ehf. Fyrir dómi greindi ákærði frá því að þessar úttektir hefðu verið endurgreiðsla til hans vegna útlags kostnaðar ákærða fyrir félagið. Hefði hann greitt fjölda af reikningum vegna efniskaupa í BYKO og Húsasmiðjunni og einnig greitt til verktaka. Þá hafi þessum úttektum verið ætlað að jafna skuld félagsins við ákærða. Fullyrti ákærði að gögn væru til um þetta.

                Ákærði hefur viðurkennt, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hafa þann 26. janúar 2009 tekið umrædda fjármuni út af reikning Merlin ehf. hjá Byr sparisjóði númer 1101-05-420390, samtals 4.000.000 króna, með þremur úttektum, 1.000.000 króna hjá Byr í Kópavogi klukkan 10.54, 1.000.000 króna hjá Byr í Hafnarfirði klukkan 13.45 og 2.000.000 króna hjá Byr í Reykjavík klukkan 14.03. Kvittaði ákærði fyrir móttöku peninganna. Samkvæmt yfirliti yfir bankareikninga Merlin ehf. í gögnum málsins frá upphafi árs 2009 til þess tíma er félagið var úrskurðað gjaldþrota í maí 2011 verður ekki ráðið að ákærði hafi greitt þessa fjármuni sem um ræðir til baka til félagsins. Samkvæmt skattframtali ákærða 2010 greiddi Eidel ehf. ákærða laun á árinu 2009 en ekki Merlin ehf. Þá liggur fyrir að í bókhaldi Merlin ehf. eru úttektir ákærða ekki færðar sem kostnaður eða endurgreiðsla á útlögðum kostnaði til ákærða heldur sem „kröfur á hluthafa“ Er kennitala ákærða tilgreind með kröfunni.

                Sannað er með framburði ákærða og rannsóknargögnum málsins að ákærði tók út af reikningi Merlin ehf. hjá Byr sparisjóði númer 1101-05-420390 þá fjármuni sem tilgreindir eru í ákærulið I án þess að skila þeim til baka til félagsins. Fyrir liggur að í rafrænu bókhaldi félagsins eru úttektirnar skráðar sem krafa á ákærða. Ákærði fór með vörslur reikninga Merlin ehf. og uppfyllir því skilyrði 247. gr. almennra hegningarlaga um vörslur og einhliða ráðstöfun. Sýknukrafa ákærða er byggð á því að ekki hafi verið um fjárdrátt að ræða þar sem úttektin og notkun fjármunanna hafi verið í þágu Merlin ehf., eiganda fjármunanna. Þykja skýringar ákærða á tilurð úttektanna einkar ótrúverðugar. Eru þær ekki studdar neinum haldbærum gögnum. Ákærði andmælir því að hafa hagnýtt þessa fjármuni, en á þau mótmæli er með engu móti unnt að fallast, enda hefur ákærði að mati dómsins í engu sýnt fram á að fjármunirnir hafi verið nýttir í þágu Merlin ehf. heldur þvert á móti eru úttektirnar, eins og áður er fram komið, færðar í bókhaldi félagsins sem „krafa á hluthafa“, það er ákærða. Með þeirri háttsemi ákærða að taka fjármunina út af reikningum Merlin ehf., tileinka sér fjármunina og nýta í eigin þágu hefur ákærði gerst sekur um fjárdrátt samkvæmt 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er það hafið yfir skynsamlegan vafa og verður ákærði sakfelldur við þá háttsemi sem tilgreind er í ákærulið I. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1947 og verður ákærða gerð refsing fyrir brotið.

                Ákæruliður II.

                Ákærði er sakaður um skilasvik en til vara fjárdrátt og til þrautavara umboðssvik, með því að hafa sem eigandi og framkvæmdastjóri Merlin ehf. á tímabilinu frá 21. febrúar 2011 til og með 16. maí 2011 misnotað aðstöðu sína og dregið sér samtals 2.844.000 krónur, þegar hann tók í níu skipti út fé af bankareikningum félagsins hjá Byr sparisjóði, númer 1101-05-420390, og hjá MP banka hf., númer 0701-15-201378, og lagði inn á eigin reikning hjá Landsbankanum hf., númer 0115-26-90158, og notað í eigin þágu, en með því skerti ákærði rétt lánadrottna félagsins til að öðlast fullnægju af eignum þess.

                Ákærði neitaði sök. Fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hafa framkvæmt umræddar millifærslur. Þá kom fram að enginn annar hefði millifært af reikningum félagsins en ákærði og enginn annar hefði haft aðgang að reikningnum. Þá staðfesti ákærði að hann ætti bankareikning númer 115-26-90158 sem ákærði millifærði inn á. Bar ákærði á sama veg hjá lögreglu um þetta atriði.

                Þá gaf ákærði þá skýringu fyrir dómi á millifærslunum að um launagreiðslur til hans væri að ræða. Um væri að ræða millifærslur inn á hans persónulega reikning. Hjá lögreglu gaf ákærði á hinn bóginn þær skýringar að með þessum úttektum hefði hann verið að endurgreiða sér útlagðan kostnað fyrir félagið. Að mati dómsins eru skýringar ákærða ótrúverðugar enda ekkert í gögnum málsins sem rennt getur stoðum undir þær. Þrátt fyrir að ákærði hafi lagt fram hreyfingalista liggja ekki fyrir frumgögn á borð við reikninga frá félaginu eða kvittanir sem skýrt gætu fullyrðingar ákærða. Þá liggur fyrir að laun ákærða samkvæmt skattframtali árið 2012 nema tekjur ákærða á árinu 2011 samtals 1.025.000 krónum og launagreiðandi er Eidel ehf. en ekki Merlin ehf. Þegar ákærði millifærði frá febrúar 2011 til 16. maí sama ár var hann að auki grandsamur um fjárhagsstöðu Merlin ehf., en þrjár millifærslur, samtals að fjárhæð 1.347.000 krónur, voru framkvæmdar 16. maí 2011, sama dag og Merlin ehf. var úrskurðað gjaldþrota. Var ákærða þá eða mátti vera kunnugt um það í hvað stefndi hjá félaginu.

                Með þeirri háttsemi ákærða að millifæra framangreinda fjármuni af reikningum Merlin ehf., og leggja inn á eigin reikning, skaut ákærði undan eignum og skerti með því rétt lánadrottna félagsins til að öðlast fullnægju af eignum félagsins. Ákærða var kunnugt um stöðu félagsins og vissi í hvað stefndi. Samkvæmt kröfuskrá fyrir þrotabú Merlin ehf. nemur heildarfjárhæð lýstra krafna í búið 1.453.154.921 króna. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið það brot sem ákært er fyrir í II. kafla ákærunnar og verður ákærði sakfelldur við þá háttsemi sem þar er lýst. Samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal refsa fyrir skilasvik hverjum þeim sem gerist sekur um að skerða rétt einhvers lánadrottins síns til þess að öðlast fullnægju af eignum hans með undanskoti eigna og öðrum verknaði sem ekki þykir ástæða til að rekja hér. Hefur ákærði með þeir háttsemi sem lýst er í þessum kafla ákærunnar gerst sekur um skilasvik samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ákærði sakfelldur við þá háttsemi og er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða 4. töluliðar 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður ákærða gerð refsing fyrir brotið.

                Ákæruliður III.

                Ákærði er sakaður um skilasvik, en til vara umboðssvik, með því að hafa frá október 2010 til og með febrúar 2012 misnotað aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri Merlin ehf. og látið A leigjanda íbúðar í eigu félagsins, greiða leigugreiðslur inn á bankareikning Svörfuls ehf. hjá MP banka, félags í eigu ákærða, samtals 1.507.000 krónur, og þar með skert rétt lánadrottna Merlin ehf. til að öðlast fullnægju af eignum félagsins auk þess sem háttsemin miðaði að því að kröfur þrotabús Merlin ehf. til leigugreiðslna kæmu lánardrottnum félagsins ekki að gagni. 

                Ákærði neitar sök. Fyrir dómi greindi ákærði frá því að í gildi hefði verið lánasamningur milli Merlin ehf. og Svörfuls ehf. Síðarnefnda félagið fjárfesti í útgerð og til að byrja með var gerður samningur milli félaganna þar sem Merlin ehf. lánar Svörfli ehf. sem fjárfesti í útgerðarfélagi að nafni TT Luna ehf. Ákærði staðfesti að Merlin ehf. hefði átt íbúð þá sem Ahafi á leigu. Kvaðst ákærði hafa leigt A íbúðina, innheimt leiguna og tekið við leigugreiðslum. Þá viðurkenndi ákærði að hafa falið A að greiða leiguna til Svörfuls ehf. en ekki til Merlin ehf. Hafi það verið gert vegna lánasamningsins og verið hluti af honum. 

                Fyrir liggur að Merlin ehf. var eigandi íbúðar nr. [...] að [...] í Reykjavík. Leigutaki íbúðarinnar, vitnið A, var ekki með skriflegan leigusamning um íbúðina, en í framburði hans fyrir dómi kom fram að hann hefði leigt íbúðina á því tímabili sem um ræðir, frá febrúar 2010 til og með febrúar 2012.

                Að mati dómsins eru framangreindar skýringa ákærða ótrúverðugar. Gögn málsins styðja ekki fullyrðingar ákærða um lánasamning milli Merlin ehf. og Svörfuls ehf. sem tengst gæti leigugreiðslum sem tilgreindar eru í ákærunni. Að mati dómsins er sannað með framburði ákærða, gögnum málsins og framburði vitnisins A að ákærði hafi gefið Afyrirmæli um að greiða umræddar 15 leigugreiðslur eftir framangreinda íbúð til Svörfuls ehf. á greindu tímabili, samtals að fjárhæð 1.507.000 krónur. Eins og fram er komið nýtti ákærði fjármunina án þess að þeir rynnu til eiganda íbúðarinnar. Fyrir liggur að viðkomandi leigugreiðslum var skotið undan frá og með greiðslu á gjalddaga 5. október 2010 eða um þremur vikum eftir að fyrsta árangurslausa fjárnámið var gert hjá félaginu. Þann 28. október 2010 voru gerð tvö árangurslaus fjárnám hjá Merlin ehf. að ákærða viðstöddum. Krafa um gjaldþrotaskipti kom fram 6. janúar 2011 og var félagið úrskurðað gjaldþrota 16. maí sama ár. Samkvæmt þessu er ljóst að átta leigugreiðslur af 15 voru greiddar til Svörfuls ehf. eftir að Merlin ehf. var úrskurðað gjaldþrota. Ákærði gaf ónákvæmar og beinlínis rangar upplýsingar um þetta í skýrslu skiptastjóra 25. maí 2011.    

Með þeirri háttsemi ákærða að láta A greiða leigugreiðslur af íbúð í eigu Merlin ehf. inn á reikning Svörfuls ehf., félags í eigu ákærða, misnotaði ákærði aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri Merlin ehf. og skaut undan eignum félagsins og skerti með því rétt lánadrottna Merlin ehf. til að öðlast fullnægju af eignum félagsins. Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal refsa fyrir skilasvik hverjum þeim sem hefst nokkuð það að, eftir að bú hans hefur verið tekið til skipta sem þrotabú, sem miðar að því að eigur eða kröfur búsins komi ekki lánadrottnum þess að gagni. Ákærða var kunnugt um stöðu félagsins. Samkvæmt kröfuskrá fyrir þrotabú Merlin ehf. nemur heildarfjárhæð lýstra krafna í búið 1.453.154.921 króna. Að mati dómsins er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið það brot sem ákært er fyrir í III. kafla ákærunnar og verður ákærði sakfelldur við þá háttsemi sem þar er lýst. Eru að mati dómsins uppfyllt skilyrði ákvæðis 3. og 4. töluliða 1. mgr. 250. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940. Er það hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi framið það brot sem ákært er út af í III. kafla ákærunnar og verður ákærði sakfelldur við þá háttsemi sem tilgreind er í þessum ákærulið. Hefur ákærði með háttseminni gerst sekur um skilasvik samkvæmt 3. og 4. tölulið 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ákærði sakfelldur við þá háttsemi sem tilgreind er í ákærulið III. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða framannefndra töluliða 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður ákærða gerð refsing fyrir brotið. 

                Ákæruliður IV.

                Samkvæmt þessum ákærulið er ákærða, sem framkvæmdastjóra Merlin ehf., gefið að sök meiri háttar brot á lögum nr. 145/1994 um bókhald með því að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald vegna rekstrar félagsins á árunum 2010 og 2011, fyrir að hafa vanrækt að varðveita bókhaldsgögn vegna rekstrar einkahlutafélagsins sömu ár og fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að útbúa ársreikning vegna rekstrarársins 2010.

                Við munnlegan flutning málsins féll ákæruvaldið frá þeim hluta verknaðarlýsingar ákærunnar sem varðar ætlaða vanrækslu á því að útbúa ársreikning vegna rekstrarársins 2010. Var það gert með vísan til 3. mgr. 22. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald þar sem segir að fullgera skuli ársreikning og undirrita hann eigi síðar en sex mánuðum eftir lok reikningsárs og samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga beri að skila ársreikningi í síðasta lagi átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Í tilviki Merlin ehf. fyrir reikningsárið 2010 hafi frestir laganna ekki runnið út fyrr en, annars vegar í lok júní og hins vegar í lok ágúst 2011. Félagið varð gjaldþrota í maí 2011 og áður en til þess kom að frestir væru útrunnir. Féll ákæruvaldið þess vegna frá þessum tiltekna hluta ákæruliðarins.

                Ákærði neitaði sök fyrir dómi og lýsti furðu sinni á þessum ákærulið. Um samskipti ákærða við skiptastjóra og lögreglu, þar sem ákærði lýsti vilja til að skila bókhaldsgögnum, bar ákærði að hann hefði hvorki fengið bókhaldið né stoðgögn þess afhent vegna skuldar félagsins við bókhaldsstofuna. Kvaðst ákærði hafa greint skiptastjóra frá þessu.   

                Skylda til að færa bókhald Merlin ehf. hvíldi á ákærða fram að gjaldþroti félagsins 16. maí 2011. Var ákærði eini eigandi félagsins og fór einn með framkvæmdastjórn og fyrirsvar félagins á þeim árum sem tilgreind eru í ákærunni. Samkvæmt 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög ber framkvæmdastjóra félags að sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.  Ákærði átti félagið Merlin og stjórnaði því. Bókhaldsgögn félagsins fyrir hin tilgreindu ár hafa ekki komið fram og liggja ekki fyrir, það er frumgögn á borð við reikninga um rekstur félagsins. Er það á ábyrgð ákærða í máli þessu. Ákærði lýsti vilja til þess að skila bókhaldsgögnum bæði til lögreglu og skiptastjóra en af því varð ekki. Ekki þykja í þessu sambandi haldbærar þær skýringar ákærða að hann hafi ekki fengið bókhaldsgögnin afhent vegna skuldar við bókhaldsstofu enda gat það hvorki gilt gagnvart lögreglu né skiptastjóra þrotabús Merlin ehf.

                Bókhald fyrir Merlin ehf. var ekki fært á umræddu tímabili sem tilgreint er í ákærunni og lá ekki fyrir við rannsókn málsins. Benti ákærði á að bókhaldsgögnin væru hjá bókhaldsstofu sem félagið stæði í skuld við. Verður helst ráðið að bókhaldið hafi ekki verið fært af þeim sökum. Tók ákærði sjálfur ákvörðun um að leysa það ekki út. Ákærða bar, stöðu sinnar vegna hjá Merlin ehf., ábyrgð á því að starfsemi félagsins væri í fullnægjandi horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og að bókhald félagsins væri fært í samræmi við lög og venjur, sbr. 3. mgr. 44. gr. laganna. Skýringar ákærða eru haldlausar. Útprentanir úr rafrænu bókhaldskerfi, sem hefur að geyma færslu bókhalds aftur í tímann fyrir Merlin ehf. sem ákærði hefur lagt fram í málinu fá ekki breytt þessari niðurstöðu. Verður ákærða gerð refsing fyrir þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið.

XI

                Ákærði er fæddur á árinu 1958. Samkvæmt sakavottorði hans hefur hann ekki áður sætt refsingu sem áhrif getur haft á ákvörðun refsingar nú. Ákærði hefur greiðlega gengist við því að hafa tekið út peninga af reikningi Merlin ehf. hjá Byr sparisjóði og millifært fjármuni af reikningum félagsins á eigin reikning þótt hann telji það ekki hafa verið brot af hans hálfu. Að mati dómsins var ákærða eða mátti vera kunnugt um bága stöðu einkahlutafélagsins Merlin þegar hann framdi þau brot sem ákært er fyrir. Auk bókhaldsbrots er ákærði sakfelldur fyrir fjárdrátt og skilasvik. Þykir ásetningur ákærða við brotin hafa verið einbeittur og brot hans stórfelld. Við ákvörðun refsingar verður litið til 6., 7. og 8. töluliða 1. mgr. 70. gr. og 1. og 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af því sem nú hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði. Fært þykir í ljósi aðstæðna að skilorðsbinda refsingu ákærða. Skal fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

XII

                Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð einkamála, ber ákærða að greiða allan sakarkostnað málsins. Verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Valgeirs Kristinssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 982.080 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Verjandi ákærða krafðist þess að reikningar og vinnuskýrslur vegna sérfræðiaðstoðar B, viðurkennds bókara, að fjárhæð 830.552 krónur yrði viðurkennt sem sakarkostnaður og greiddur úr ríkissjóði, og enn fremur vinna E og B fyrir Merlin ehf. á árunum 2010 – 2012, samtals að fjárhæð 2.551.424 krónur. Ekki fæst með nokkru móti séð að slíkur kostnaður falli undir sakarkostnað samkvæmt 216. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og er kröfunni því hafnað.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti Finnur Þór Vilhjálmsson aðstoðarsaksóknari.

                Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, Viðar Sigurðsson, sæti fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Valgeirs Kristinssonar, hrl., 982.080 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.