Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/2005
Lykilorð
- Banki
- Hlutabréf
- Samningur
|
|
Fimmtudaginn 9. júní 2005. |
|
Nr. 36/2005. |
Holberg Másson(Halldór H. Backman hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bankar. Hlutabréf. Samningur.
H bað L hf. um fyrirgreiðslu í þeim tilgangi að kaupa hlutafé á hlutafjárútboðum í félagi í eigu H. Þeir hlutir sem yrðu keyptir skyldu fara í endursölu hjá L hf. og söluandvirðið lagt inn á tiltekinn bankareikning. Aðilar deildu um hvort L hf. hafi verið heimilt að ráðstafa söluandvirði tiltekinna hlutabréfa inn á fyrrgreindan reikning. Taldi H þessa ráðstöfun L hf. óheimila enda hefði verið um að ræða sölu á hlutabréfum í eigu hans sem hafi verið framangreindum útboðum og fyrirgreiðslu L hf. óviðkomandi. Ætti H því kröfu á L hf. sem þeirri fjárhæð næmi. Talið var sannað að þeir hlutir sem L hf. seldi umrætt sinn hafi verið af því hlutafé sem H keypti í umræddu útboði. Var L hf. því sýknað af kröfu H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 2005. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 37.035.903 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 24. nóvember 1999 til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur lagt fram nokkur ný skjöl fyrir Hæstarétt.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var í maí og september 1999 efnt til hlutafjárútboða í Netverki plc. Áfrýjandi bað stefnda með bréfi 26. maí 1999 um fyrirgreiðslu við sjálfan sig og Ísnet hf. með þeim hætti að stefndi veitti tímabundna yfirdráttarheimild á bankareikning Ísnets hf. nr. 206 að upphæð 55.000.000 krónur í þeim tilgangi að kaupa hlutafé í Netverki plc. Myndi áfrýjandi vera í sjálfskuldarábyrgð fyrir þessari fjárhæð. Þeir hlutir sem keyptir yrðu skyldu fara í endursölu hjá stefnda í umsjá nafngreinds verðbréfamiðlara er hjá honum starfaði og vera í vörslu stefnda þar til sölu lyki. Skyldi söluandvirðið lagt inn á fyrrgreindan bankareikning Ísnets hf.
Í nóvember og desember 1999 og febrúar og nóvember 2000 seldi stefndi sex sinnum hlutabréf í Netverki plc. Var söluverð þeirra samtals 37.035.903 krónur og var það lagt inn á framangreindan bankareikning Ísnets hf. Reisir áfrýjandi málsókn þessa á því að þessi ráðstöfun söluandvirðis bréfanna hafi verið stefnda óheimil enda hafi verið um að ræða sölu á hlutabréfum í Netverki plc. í eigu áfrýjanda sem hafi verið alls óviðkomandi framangreindum útboðum og fyrirgreiðslu stefnda þeim tengdum og hafi áfrýjandi ekki samþykkt þessa ráðstöfun andvirðis bréfanna. Eigi áfrýjandi því kröfu á stefnda sem því nemi. Stefndi heldur því hins vegar fram að um hafi verið að ræða endursölu á bréfum vegna hlutafjárútboðs hjá Netverki plc. í september 1999 og hafi að ósk áfrýjanda verið hafður sami háttur um þau og í fyrra útboðinu og rakinn er í fyrrgreindu bréfi stefnda 26. maí 1999.
Í greinargerð til Hæstaréttar byggir áfrýjandi á því að hann hafi veitt stefnda heimild til að skrá RUT IBC fyrir hlutum í Netverki plc. í útboðinu þá um haustið, en það sé félag sem áfrýjandi hafi látið stofna á Bresku Jómfrúareyjum. Hann hafi hins vegar hvorki skrifað sig persónulega fyrir hlutum í útboðinu né veitt stefnda heimild til þess. Lúta nokkur þeirra skjala er áfrýjandi hefur lagt fram í Hæstarétti meðal annars að því að færa fram sönnun um þetta atriði. Í dómi Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 131/2004 milli áfrýjanda og Fóns ehf. annars vegar og stefnda hins vegar komu þessi lögskipti meðal annarra til umfjöllunar. Var það niðurstaða héraðsdóms í því máli, sem staðfest var í Hæstarétti, að leggja yrði til grundvallar að áfrýjandi hafi í raun keypt umrætt hlutafé í Netverki plc. haustið 1999. Verður þessi úrlausn um málsatvik lögð til grundvallar niðurstöðu í því máli sem hér er til umfjöllunar, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda hefur áfrýjanda ekki tekist sönnun um annað við meðferð þessa máls fyrir dómi. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður að telja sannað að framangreindir hlutir í Netverki plc., sem stefndi seldi í nóvember og desember 1999 og í febrúar og nóvember 2000, hafi verið af því hlutafé sem áfrýjandi keypti í útboðinu haustið 1999. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Holberg Másson, greiði stefnda, Landsbanka Íslands hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. október sl., er höfðað 24. nóvember 2003 af Holbergi Mássyni, kt. [...], Mímisvegi 6, Reykjavík, á hendur Landsbanka Íslands hf., kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði með dómi gert að greiða honum 37.035.903 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 af 4.019.400 krónum frá 24. nóvember 1999 til 10. desember sama ár, af 6.928.292 krónum frá þeim degi til 29. desember s.á., af 7.767.104 krónum frá þeim degi til 30. desember s.á., af 8.014.302 krónum frá þeim degi til 17. febrúar 2000, af 14.972.250 krónum frá þeim degi til 21. nóvember s.á., af 37.035.903 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 til greiðsludags. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins ásamt virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður samkvæmt málskostnaðarreikningi að viðbættu álagi á málskostnað.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi krefur stefnda í máli þessu um andvirði hlutafjár stefnanda í Netverki plc., sem stefndi seldi samkvæmt kvittunum 24. nóvember, 10., 29. og 30. desember 1999 og 17. febrúar og 21. nóvember 2000, samtals að fjárhæð 37.035.903 krónur. Söluandvirðið lagði stefndi inn á tékkareikning Ísnets ehf. nr. 0111-26-206 hjá stefnda. Stefnandi telur að með þessu hafi stefndi ekki staðið honum skil á andvirði hlutafjárins, en hann hefur höfðað málið í þeim tilgangi að fá stefnda dæmdan til að greiða það.
Af stefnda hálfu er vísað til þess að fjárhæðirnar sem um ræðir hafi verið lagðar inn á framangreindan reikning samkvæmt beiðni stefnanda. Kvittanir fyrir sölu og hvert söluandvirðið hafi verið greitt hafi stefndi sent stefnanda jafnóðum og sala fór fram. Greiðslur inn á framangreindan tékkareikning Ísnets ehf. hafi einnig komið fram á reikningsyfirlitum, sem stefnanda hafi verið send, en hann hafi verið aðaleigandi Ísnets ehf., framkvæmdastjóri félagsins og stjórnarformaður þess. Ísnet ehf. hafi alltaf verið skráð á heimili stefnanda, einnig eftir að félagið var selt í árslok 1999. Í tilkynningum til hlutafélagaskrár 22. júní og 30. desember 1999 kemur fram að fyrrnefnda daginn hafi stefnandi verið eini hluthafinn í félaginu og að hann hafi verið kosinn eini stjórnarmaðurinn ásamt einum varamanni. Í síðari tilkynningunni kemur fram að eini hluthafinn í félaginu hafi þá verið Netverk ehf. Á hluthafafundi 27. desember sama ár hafi stefnandi verið kosinn í stjórn og hann hafi verið ráðinn stjórnarformaður félagsins með prókúruumboði.
Fram hefur komið í málinu að efnt var til hlutafjárútboðs í bresku almenningshlutafélagi, Netverki plc., í maí og september 1999. Stefnandi óskaði eftir tímabundinni yfirdráttarheimild á tékkareikning Ísnets ehf. hjá stefnda að fjárhæð 55.000.000 króna með bréfi 26. maí 1999. Tilgangurinn með heimildinni væri sá að kaupa hlutabréf í Netverki plc. fyrir eina milljón dollara og yrði stefnandi í sjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdrættinum. Þá segir í bréfinu að hlutabréfin, sem keypt yrðu, færu í endursölu hjá stefnda og yrðu í umsjá Björns Snæs Guðbrandssonar en hann var þá verðbréfamiðlari hjá stefnda. Hlutabréfin yrðu í vörslu stefnda þar til sölu lyki og andvirðið yrði lagt inn á sama reikning. Í framburði Björns Snæs fyrir dóminum kom fram að þetta hafi gengið eftir. Hann kvaðst hafa annast sölu á hlutabréfunum í Netverki plc. og hafi söluandvirðið verið lagt inn á reikning Ísnets hf. með vilja og vitund stefnanda. Frá upphafi hafi verið ljóst, frá þeim tíma er stefnandi tók lánið í maí 1999 með framangreindum yfirdrætti, að andvirði seldra hlutabréfa yrði ráðstafað til að greiða yfirdráttinn. Björn Snær kvaðst ekki hafa verið með nein önnur hlutabréf í sölu fyrir stefnanda en þau sem keypt voru í Netverki plc. í hlutafjárútboðinu á árinu 1999 og greitt var fyrir með yfirdrættinum. Önnur hlutabréf í Netverki plc., sem stefnandi hafi átt, hafi ekki verið vistuð hjá honum. Öll hlutabréf, sem hann hafi selt fyrir stefnanda, hafi því verið hluti af því sem keypt hafi verið í útboðunum og hafi átt að selja til að greiða upp yfirdráttinn. Stefnandi hafi gefið þau fyrirmæli að söluandvirði hlutabréfanna ætti að fara á reikning Ísnets ehf. Kvittanir hafi verið sendar stefnanda jafnóðum og viðskiptin hafi farið fram og hafi engar athugasemdir komið fram frá honum í því sambandi.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi segir kröfuna tilkomna vegna sölu stefnda á hlutabréfum sem stefnandi hafi átt í Netverki plc. Stefndi hafi selt bréfin án þess að greiða andvirði sölunnar til stefnanda. Um hafi verið að ræða sölu á hlutabréfum í sex tilvikum sem sundurliðist þannig:
Söludagur og gjalddagi: Fjárhæð:
24. nóvember 1999 4.019.400 krónur
10. desember “ 2.908.892 “
29. “ “ 838.812 “
30. “ “ 247.198 “
17. febrúar 2000 6.957.948 “
21. nóvember “ 22.063.653 “
Samtals 37.035.903 krónur
Stefnandi hafi á þessum tíma verið stærsti hluthafi Netverks plc. og verið í miklum viðskiptum við stefnda. Stefndi hafi verið viðskiptabanki félagsins og hafi haft með höndum alla hagsmunagæslu fyrir stefnanda persónulega og Netverk plc. Hluti af þessari hagsmunagæslu hafi falist í sölu á hlutabréfum fyrir stefnanda og félög í hans eigu. Stefndi hafi t.d. selt hlutabréf fyrir stefnanda í desember 1998 og Fón ehf., sem hafi verið í eigu stefnanda, í apríl 1999. Í báðum þessum tilvikum hafi söluandvirði hlutabréfanna verið ráðstafað til seljenda, skráðra eigenda bréfanna. Vegna viðskiptanna, sem um ræði í þessu máli, hafi andvirði sölunnar á hlutabréfum stefnanda verið ráðstafað inn á reikning Ísnets ehf. Þegar það var gert hafi Ísnet ehf. verið dótturfélag Netverks plc. sem hafi átt félagið. Það sé því rangt að stefnandi hafi verið eini hluthafi félagsins eins og fram komi í bréfi stefnda 11. nóvember 2003. Reikningur Ísnets hf. hefði m.a. verið notaður til fjármögnunar á kaupum í hlutafjárútboðum Netverks plc., sem stefndi hafi annast, en tvö útboð hefðu verið við það að falla niður vegna þess að ekki hafi verið næg þátttaka í þeim. Fyrra útboðið hafi farið fram 27. maí 1999 en seinna útboðið 3. september sama ár. Kaup þessi hafi verið fjármögnuð að hluta til þannig að stefndi hafi heimilað yfirdrátt á reikningi Ísnets hf. vegna kaupanna. Stefnandi hafi ábyrgst yfirdráttinn persónulega en auk þess hafi stefndi tekið handveð í hlutabréfunum sem keypt hafi verið í útboðinu. Þessi viðskipti hafi verið algerlega ótengd persónulegum viðskiptum stefnanda með hlutabréf í Netverki plc. Stefnandi kveðst ekki hafa keypt hluti í útboðinu enda komi engin kaup fram á yfirliti frá stefnda um verðbréfaviðskipti stefnanda árið 1999.
Stefndi hafi aldrei lýst yfir að hann hygðist ganga að ábyrgðum stefnanda vegna Ísnets hf. og stefndi hafi leyst stefnanda persónulega úr öllum ábyrgðum vegna Netverks plc. og dótturfélaga þess. Yfirdráttarheimildin á umræddum bankareikningi hefði verið fallin niður þegar sala á hlutabréfum stefnanda fór fram í seinna skiptið og hafi stefnandi því aldrei haft ráðstöfunarhæfi yfir söluandvirði hlutabréfanna. Stefndi hafi greitt með persónulegum eignum stefnanda upp í skuldir Ísnets ehf. án tillits til veða í hlutabréfum í Netverki plc. og án þess að ganga að persónulegri ábyrgð stefnanda á reikningnum. Ísnet ehf. hafi enga kröfu átt á stefnanda þegar söluandvirðinu hafi verið ráðstafað með þessum hætti. Stefnandi hafi aldrei samþykkt þessa ráðstöfun stefnda á söluandvirði hlutabréfanna, hvorki munnlega né skriflega, heldur hafi verið um einhliða ákvörðun stefnda að ræða. Þegar stefndi vísi til þess að stefnandi hafi samþykkt í símtali við Björn Snæ, starfsmann stefnda, 24. nóvember 1999 að söluandvirði hlutafjárins yrði lagt inn á reikning Ísnets ehf. hafi stefnandi talið að um væri að ræða sölu á hlutum Ísnets ehf. Stefnandi mótmæli því einnig að hafa fengið sölukvittanir frá stefnda sem stefndi haldi fram að hann hafi sent stefnanda jafnóðum og salan fór fram.
Stefnandi hafi hætt afskiptum af Netverki plc. í október 2001 að kröfu stefnda. Stefnandi hafi í mars 2002 selt bréf sín í Netverki plc. til annarra aðila með milligöngu stefnda. Þeir sem keypt hafi hlutabréfin hafi ekki enn greitt andvirði þeirra og hafi stefnandi höfðað mál á hendur þeim til greiðslu á því.
Frá október 2001 hafi stefnandi reynt að fá uppgjör hjá stefnda vegna viðskipta tengdum Netverki plc. Stefndi hafi höfðað mál á hendur stefnanda með stefnu 22. nóvember 2001 og gert kröfu um að einkahlutafélag stefnanda og stefnandi greiddu stefnda 27.785.468 krónur vegna ábyrgðar og skuldar sem stefndi hafi talið einkahlutafélag stefnanda og stefnanda vera í. Samhliða málssókn stefnda hafi stefnandi reynt að semja um uppgjör milli málsaðila. Í byrjun árs 2003 hafi verið ljóst að uppgjör fengist ekki með góðu og hafi stefnandi farið yfir öll viðskipti sín við stefnda og gert gagnkröfur. Með bréfi 15. október 2003 hafi stefnandi farið fram á greiðslu söluandvirðisins auk dráttarvaxta og með innheimtubréfi 5. nóvember sama ár hafi lögmaður stefnanda farið fram á sama. Með bréfi 11. nóvember s.á. hafi stefndi hafnað greiðsluskyldu.
Krafa stefnanda sé byggð á því að stefnda hafi verið skylt að standa stefnanda skil á andvirði seldra hlutabréfa á þeim degi sem salan fór fram. Stefnda hafi ekki verið heimilt að ráðstafa andvirðinu án heimildar frá stefnanda. Stefnanda hafi verið ókleift að ráðstafa söluandvirði hlutabréfanna þar sem það hafi verið lagt inn á reikning hjá stefnda sem hafi verið yfirdreginn og án heimildar. Þessi ráðstöfun stefnda brjóti í bága við 19. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti sem hafi verið í gildi á þeim tíma sem salan fór fram. Stefnda hafi í raun ekki verið heimilt að ráðstafa söluandvirðinu með þeim hætti sem gert var án þess að leggja fjármunina fyrst inn á reikning í nafni stefnanda og síðan ráðstafa þeim með meintri heimild stefnanda inn á reikning Ísnets ehf.
Stefnandi hafi ekki verið í skuld við Ísnet ehf. Á þessum tíma hafi Ísnet ehf. verið hluti af Netverk samsteypunni og hafi samsteypan skuldað stefnanda. Stefndi hafi hvorki fyrr né síðar lýst því yfir að stefndi hygðist ganga að ábyrgð stefnanda á ofangreindum reikningi Ísnets ehf. Ráðstöfun söluandvirðisins með þessum hætti hafi því aðeins lækkað skuldir Ísnets ehf. við stefnda en ekki haft nein réttaráhrif gagnvart stefnanda. Þegar af þeirri ástæðu beri stefnda að endurgreiða honum söluandvirði hlutabréfanna óháð því hvort stefnandi hafi samþykkt ráðstöfun söluandvirðisins eða ekki.
Ráðstöfun söluandvirðisins og sú aðferð sem notuð hafi verið til ráðstöfunar þess brjóti í bága við góða viðskiptavenju í verðbréfaviðskiptum sem verðbréfafyrirtækjum sé skylt að vinna eftir. Ráðstöfunin sé andstæð þeim reglum sem gilt hafi þegar hún fór fram og gildi enn um starfsemi stefnda.
Stefnda beri að greiða stefnanda andvirði seldra hlutabréfa ásamt dráttarvöxtum frá söludegi til greiðsludags. Uppgjör hafi átt að fara fram um leið og bréfin voru seld og því reiknist dráttarvextir frá þeim degi, sbr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Stefnda beri að sýna fram á hvert andvirði hinna seldu hlutabréfa hafi verið ráðstafað og með hvaða hætti það hafi verið gert. Stefndi beri sönnunarbyrðina takist ekki að sanna atvik sem stefndi haldi fram um ráðstöfunina enda hafi ekki verið gerður sérstakur samningur um viðskiptin, sbr. 17. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti.
Stefnandi byggi kröfur sínar á meginreglum fjármuna-, samninga- og kröfuréttar auk ákvæða samningalaga nr. 7/1936, laga um viðskiptabanka og sparisjóði nr. 113/1996 og laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti auk ákvæða nýrri laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 33/2003 til samanburðar og fyllingar. Þá byggi stefnandi á meginreglu 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um friðhelgi eignarréttarins. Að auki byggi stefnandi á ákvæðum laga nr. 145/1994 um bókhald. Kröfuna um málskostnað byggi stefnandi á ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum XXI. kafla, og kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað á lögum nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi vísar til þess að í málinu reyni á afmarkaða þætti í víðtækari lögskiptum málsaðila. Atvik horfi þannig við stefnda að í maí 1999 hafi farið fram hér á landi almennt útboð á hlutafé í bresku almenningshlutafélagi, Netverki plc. Þegar stefnt hafi í að lágmarksáskriftir næðust ekki hafi stefnandi farið fram á lánafyrirgreiðslu stefnda með bréfi 26. maí 1999 til kaupa á hlutafé í útboðinu. Gert hafi verið ráð fyrir að lánið yrði veitt með yfirdráttarheimild á tékkareikning Ísnets ehf. hjá stefnda nr. 111-26-206. Ísnet ehf. hafi á þessum tíma alfarið verið í eigu stefnanda. Í bréfi stefnanda segi enn fremur að þau hlutabréf sem keypt yrðu færu í endursölu hjá stefnda, en þau yrðu í umsjá Björns Snæs Guðbrandssonar og í vörslu stefnda þar til sölu lyki þar sem andvirði sölunnar yrði lagt inn á sama reikning. Næsta dag, 27. maí 1999, hafi stefnandi keypt nýtt hlutafé í Netverki plc. að fjárhæð 74.500.000 króna. Greiðslan hafi verið innt af hendi með stofnun yfirdráttar á áðurnefndum reikningi Ísnets ehf. hjá stefnda. Hinir keyptu hlutir hafi farið í endursölu hjá stefnda, eins og gert hafi verið ráð fyrir, og hafi Björn Snær, sem þá hafi verið starfsmaður stefnda, hafi umsjón með endursölunni. Hlutirnir hafi selst og söluandvirðið lagt inn á reikning Ísnets ehf. að ósk stefnanda.
Í ágúst og september 1999 hafi aftur farið fram útboð á nýju hlutafé í Netverki plc. Útboðsfjárhæðin hafi verið um 2 milljónir bandaríkjadala. Stefnandi hafi skráð sig fyrir nærri helmingi boðinna hluta 3. september 1999. Að ósk stefnanda hafi sami háttur verið hafður á og fyrr. Stefnandi hafi greitt fyrir hlutina af yfirdráttarreikningi Ísnets ehf. Hlutirnir hafi síðan farið í endursölu hjá stefnda og þannig hafi, meðal annars, viðskiptin orðið að baki hinni umstefndu kröfu. Björn Snær hafi einnig í þetta skiptið haft umsjón með sölunni. Söluandvirðið hafi verið lagt inn á yfirdreginn reikning Ísnets ehf. samkvæmt fyrirmælum stefnanda sjálfs.
Kvittanir vegna einstakra viðskipta hafi ávallt verið sendar stefnanda á heimili hans að Mímisvegi 6, en á þeim komi fram sá reikningur er söluandvirðið hafi verið lagt inn á. Stefnandi hafi verið eini eigandi Ísnets ehf. fram til 30. desember 1999, en þann dag hafi félagið verið selt undir Netverk plc. Hann hafi jafnframt verið stjórnarformaður félagsins og framkvæmdastjóri með prókúruumboð. Sama hafi gilt eftir sölu félagsins, en öll reikningsyfirlit vegna reiknings Ísnets ehf. hafi verið send á heimili stefnanda. Stefnandi hafi aldrei hreyft neinum mótmælum gagnvart stefnda vegna þessara viðskipta eða vegna þess að söluandvirðið var lagt inn á umræddan tékkareikning Ísnets ehf.
Í ljósi framangreinds sé því mótmælt að stefnandi hafi aldrei samþykkt ráðstöfun stefnda á söluandvirði hlutafjárins og að um einhliða ákvörðun stefnda hafi verið að ræða.
Alvarleg mótsögn felist í grundvallarmálsástæðum stefnanda. Þannig sé á því byggt í stefnu að stefnda hafi ekki verið heimilt að ráðstafa söluandvirði hlutabréfanna “án heimildar frá stefnanda”. Stefnandi byggi hins vegar jafnframt á því að stefnda beri að endurgreiða honum söluandvirði hlutafjárins “óháð því hvort stefnandi hafi samþykkt ráðstöfun söluandvirðisins eða ekki”. Samkvæmt þessu sé samhengi málsástæðna og málsgrundvöllur stefnanda svo óljós að verulega skorti á að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málið sé því vanreifað og kunni það að varða frávísun málsins frá dómi ex officio. Jafnframt byggi stefnandi kröfur sínar á ákvæðum samningalaga nr. 7/1936, meginreglu 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um friðhelgi eignarréttarins og ákvæðum laga nr. 145/1994 um bókhald. Ekki verði hins vegar séð að nokkur málsástæðna stefnanda styðjist við tilvitnaðar lagareglur og sé málatilbúnaður stefnanda enn ógleggri fyrir vikið.
Málsástæður stefnanda miðist við það að í máli þessu reyni á heimild stefnda til að ráðstafa söluandvirði hlutafjár í Netverki plc., sem hafi verið í eigu stefnanda, inn á reikning Ísnets ehf. í kjölfar viðskipta sem hafi átt sér stað í nóvember og desember 1999 og í febrúar og nóvember 2000. Stefndi byggi á að honum hafi verið þetta heimilt en það hafi verið gert að ósk stefnanda sjálfs. Verði það ráðið af bréfi stefnanda til stefnda 26. maí 1999. Jafnframt hafi stefnandi gefið afdráttarlaus fyrirmæli um það í samtali við starfsmann stefnda í tengslum við fyrstu viðskiptin, sem dómkröfur stefnanda nái til, 24. nóvember 1999, eins og glöggt megi greina af hljóðupptöku samtalsins. Það sé því beinlínis rangt að stefnandi hafi aldrei samþykkt ráðstöfun stefnda á söluandvirðinu og að um einhliða ákvörðun stefnda hafi verið að ræða. Það að stefnandi hafi aldrei mótmælt eða gert athugasemd við ráðstöfun stefnda á söluandvirði hlutabréfanna fyrr en nú, um fjórum árum eftir að viðskiptin hafi átt sér stað, styðji enn fremur sjónarmið stefnda um þetta atriði.
Verði ekki á það fallist að stefnda hafi verið heimilt að ráðstafa söluandvirði hlutafjárins inn á reikning Ísnets ehf. sé byggt á því að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti af hans hálfu. Stefnandi hafi ekki krafist skaðabóta úr hendi stefnda heldur krefjist hann efnda in natura. Slíkri kröfu hafi stefnanda borið að halda fram miklu fyrr en gert var. Stefnandi hafi fengið sendar kvittanir vegna viðskiptanna að baki kröfu hans og yfirlit yfir yfirdreginn tékkareikning Ísnets ehf. Samt hafi mótmælum vegna þessa fyrst verið hreyft við stefnda með bréfi stefnanda 15. október 2003. Þar sem engum andmælum hafi verið hreyft hafi stefndi mátt treysta því að ráðstöfun hans á söluandvirðinu hafi verið í samræmi við óskir og væntingar seljanda. Stoði ekki að bera það fyrir sig nú, um fjórum árum síðar, að stefnda hafi verið þetta óheimilt. Á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað hafi stefnandi gegnt stjórnunarstöðum hjá Ísneti ehf. og hafi farið með hvers kyns valdheimildir félagsins. Hann hafi ótvírætt verið í aðstöðu til að gera athugasemdir við ráðstafanir stefnda hafi hann talið ástæðu til.
Þá beri að hafna kröfu stefnanda af þeim sökum að hún feli í sér óréttmæta auðgun stefnanda á kostnað stefnda. Nái dómkröfur stefnanda fram að ganga auðgist hann um söluandvirði hlutabréfa í Netverki plc. enda hafi hann ekki greitt fyrir áskrift þeirra í upphafi með eigin fé. Stefndi verði á hinn bóginn fyrir tjóni við það að hafa lánað fé til hlutafjárkaupanna án þess að fá það endurgreitt. Á milli auðgunar stefnanda og tjóns stefnda séu bein tengsl. Eðli málsins samkvæmt og í ljósi atvika allra fái slík niðurstaða ekki staðist.
Verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður stefnda byggi hann á því að stefnandi geti ekki borið fyrir sig ráðstafanir stefnda enda sé það óheiðarlegt og/eða ósanngjarnt gagnvart stefnda í ljósi atvika allra.
Ráðstöfun söluandvirðisins feli ekki í sér brot gegn 19. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996, sem voru í gildi er viðskiptin áttu sér stað, enda sé sú grein málinu óviðkomandi. Jafnvel þótt svo hefði verið leiddi það samt sem áður ekki til þess að dómkröfu stefnanda bæri að taka til greina.
Í stefnu sé á því byggt að “ráðstöfun söluandvirðisins og sú aðferð sem notuð var til ráðstöfunar þess brjóti í bága við góða viðskiptavenju í verðbréfaviðskiptum sem verðbréfafyrirtækjum sé skylt að vinna eftir”. Óljóst sé til hvaða viðskiptavenju sé vísað enda sé hún ekki tilgreind. Á stefnanda hvíli þó sú skylda að leiða tilvist og efni venjunnar í ljós, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Einnig sé á því byggt í stefnu að “stefnda beri að sýna fram á hvert andvirði hinna seldu bréfa var ráðstafað og með hvaða hætti það var gert”, og jafnframt að “stefnda beri sönnunarbyrðina ef ekki tekst að sanna atvik sem stefnda heldur fram um ráðstöfunina”. Þessi málsástæða sé óskiljanleg enda ekki um það deilt hvert og hvernig söluandvirðinu var ráðstafað.
Samkvæmt öllu framangreindu eigi stefnandi enga kröfu á stefnda. Ekki séu lagaskilyrði til að dæma dráttarvexti frá þeim tíma sem krafist sé. Svo virtist sem stefnandi hafi höfðað mál þetta að þarflausu og án nokkurs tilefnis af hendi stefnda. Stefnandi hefði getað haldið kröfum sínum fram til skuldajafnaðar og gagnsakar í málaferlum sem aðilar eigi þegar í og vísað sé til í stefnu, en ætla megi að af því hefði hlotist umtalsvert hagræði. Í ljósi þessa séu skilyrði til að dæma stefnanda til að greiða stefnda álag á málskostnað.
Stefndi styðji kröfur sínar við almennar reglur samninga- og kröfuréttar, þar á meðal ólögfestar reglur um auðgun og tómlæti, og ógildingarreglur samningalaga nr. 7/1936. Málskostnaðarkrafa stefnda styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 og krafan um álag á málskostnað við 2. mgr. 131. gr. þeirra laga.
Niðurstaða
Af stefnda hálfu er vísað til þess að samhengi málsástæðna og málsgrundvöllur stefnanda sé óljós og málið sé af þeim sökum vanreifað af hans hálfu. Lýsingar stefnanda á málsatvikum og málsástæðum þykja nægilega skýrar í málatilbúnaði hans. Verður ekki talin ástæða til að vísa málinu frá dómi án kröfu vegna þess að málatilbúnaður stefnanda fari í bága við réttarfarslög.
Fyrir liggur að stefndi seldi hluti fyrir stefnanda í Netverki plc. í nóvember og desember 1999 og í febrúar og nóvember 2000. Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi var skráður eigandi þeirra og virðist það atriði óumdeilt í málinu. Deilt er hins vegar um hvernig það hafi komið til. Stefnandi heldur því fram að um hafi verið að ræða persónulegt hlutafé hans, óviðkomandi hlutafjárútboðunum í Netverki plc. sem stefndi hafi annast á árinu 1999. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem upplýst geta um þetta, en hann vísar í þessu sambandi til gagna sem komið hafi frá stefnda um að stefnandi hafi ekkert hlutafé keypt í Netverki plc. á árinu 1999. Gögnin sýni jafnframt að stefndi hafi selt hlutafé stefnanda í Netverki plc. án þess að standa stefnanda skil á söluandvirðinu þar sem það hafi í öllum tilvikum verið lagt inn á tékkareikning Ísnets ehf. Af stefnda hálfu er því hins vegar haldið fram að um hafi verið að ræða hlutafé, sem stefnandi hafi keypt í hlutafjárútboðinu á árinu 1999, og hafi stefnandi sjálfur óskað eftir því að það yrði selt og söluandvirðið lagt inn á tékkareikning Ísnets ehf.
Óumdeilt er að stefnandi óskaði eftir yfirdráttarheimild á tékkareikning Ísnets ehf. hjá stefnda í maí 1999. Í bréfi stefnanda til stefnda útskýrði hann tilganginn með beiðninni þannig að heimildina ætti að nota til að kaupa hlutafé í hlutafjárútboði í Netverki plc. og að yfirdrátturinn yrði greiddur með sölu á hlutafénu. Hann vísaði í því sambandi til þess að hlutaféð yrði í umsjá tiltekins verðbréfamiðlara stefnda eins og hér að framan er lýst. Stefndi veitti umbeðna heimild og hefur ekki annað komið fram í málinu en að allt hafi gengið eftir í samræmi við beiðni stefnanda. Hvað varðar ágreiningsefni málsins liggur fyrir að verðbréfamiðlarinn hafði samband við starfsmann Netverks til að ganga úr skugga um skráningu hluta í Netverki plc. áður en hann ráðstafaði fyrstu greiðslunni af hinum sex umdeildu greiðslum inn á tékkareikning Ísnets ehf. Hann fékk þær upplýsingar að stefnandi hefði verið skráður fyrir hlutum í Netverki plc. og að ekkert hefði verið skráð á Rut family trust eða Ísnet hf., en þetta kemur fram í samtali verðbréfamiðlarans og starfsmanns Netverks 24. nóvember 1999 sem lagt hefur verið fram í málinu. Þetta er í samræmi við það sem fram kemur í bréfi stefnda til Netverks plc. 3. september sama ár, en þar segir að stefnandi hafi verið skráður fyrir 136.388 hlutum að fjárhæð 954.716 dollarar. Heildarútboðið þá var 2.000.005 dollarar og staðfest er í bréfinu að allar fjárhæðir hefðu verið greiddar. Ekki kemur fram í bréfinu að Ísnet ehf. eða Rut family trust hafi verið skráð fyrir hlutum í útboðinu. Á viðskiptayfirliti um verðbréfaviðskipti stefnanda 1999 er ekki getið um kaup stefnanda á hlutum í Netverki plc. en í gögnum málsins kemur hins vegar fram að 24. september sama ár hafi Rut family trust c/o Holberg Másson, Mímisvegi 6, keypt 136.388 hluti í Netverki plc. Engar upplýsingar liggja fyrir um Rut family trust aðrar en þær að það hafi verið félag sem stefnandi kvaðst hafa ætlað að koma á fót í Jersey en það hafi ekki orðið. Í málinu liggur ekkert fyrir um að stefndi hafi átt annað hlutafé í Netverki plc., sem hafi verið til sölu hjá stefnda á árunum 1999 og 2000, en hlutaféð sem hann er talinn hafa keypt í hlutafjárútboðinu í bréfi stefnda 3. september 1999. Nægir stefnanda ekki að vísa í því sambandi til sölu stefnda á hlutafé stefnanda í Netverki plc. í desember 1998. Að öllu þessu virtu verður að telja sannað að hinir umdeildu seldu hlutir í nóvember og desember 1999 og í febrúar og nóvember 2000 hafi að hluta til verið hlutafé sem stefnandi keypti í útboðinu haustið 1999.
Verðbréfamiðlari hjá stefnda hafði samband við stefnanda daginn sem fyrsta greiðslan af þeim sem deilt er um í málinu var lögð inn á tékkareikning Ísnets ehf., 24. nóvember s.á. Hann spurði stefnanda að því hvort leggja ætti söluandvirði hluta, sem þá voru seldir, inn á reikning Ísnets og svaraði stefnandi því að það ætti að leggja inn á Ísnetsreikninginn. Þetta kemur fram í símtali þeirra en hljóðritun af því hefur verið lögð fram í málinu. Stefnandi hefur vísað til þess að hann hafi talið að verðbréfamiðlarinn ætti við hluti Ísnets ehf. í Netverki plc. Óljóst er hvað stefnandi á við með þessu en engar upplýsingar liggja fyrir um að Ísnet hf. hafi keypt hluti í hlutafjárútboðinu og engin gögn hafa verið lögð fram sem staðfesta að svo hafi verið. Samkvæmt gögnum málsins hreyfði stefnandi engum formlegum athugasemdum við stefnda þegar hinar umdeildu greiðslur höfðu verið lagðar inn á tékkareikning Ísnets ehf., en slíkar athugasemdir komu fyrst fram í bréfi hans til stefnda 15. október 2003. Mótmæli stefnanda gegn því að hafa fengið sex sölukvittanir frá stefnda með viðeigandi upplýsingum um söluna á hlutafénu og hvernig söluandvirðið var greitt eru órökstudd og staðhæfingar hans um það þykja ekki trúverðugar.
Með vísan til alls þessa verður að telja sannað að stefndi hafi lagt hinar umdeildu greiðslur inn á tékkareikning Ísnets ehf. að beiðni stefnanda og án athugasemda af hans hálfu sem ekki komu fram fyrr en 15. október 2003 en hefðu getað komið fram miklu fyrr. Lagareglur sem stefnandi vísar til verða ekki túlkaðar þannig að stefnda hafi verið þetta óheimilt eða að það hafi verið andstætt reglum þannig að stefnda beri af þeim sökum að greiða stefnanda kröfu hans í málinu. Ekki verður heldur talið að áhrif hafi á réttarstöðu stefnanda hvað varðar hina umdeildu kröfu þótt ekki hafi verið gerður sérstakur skriflegur samningur milli málsaðila um viðskiptin samkvæmt 17. gr. þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996. Verður samkvæmt framangreindu ekki fallist á að krafa stefnanda í málinu hafi lagastoð og ber því að sýkna stefnda af henni.
Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað. Ekki þykja lagaskilyrði til að dæma álag á málskostnað.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Landsbanki Íslands hf., skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Holbergs Mássonar, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.