Hæstiréttur íslands
Mál nr. 414/2015
Lykilorð
- Umferðarlög
- Akstur án ökuréttar
- Hraðakstur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Ákærða eru í máli þessu gefin að sök umferðarlagabrot með því hafa 13. apríl 2015 ekið tilgreindri bifreið í Reykjavík, sviptur ökurétti og yfir leyfðum hámarkshraða. Eru brotin talin varða við 1. mgr. 48. gr. og 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ákærði játaði fyrir héraðsdómi þá háttsemi sem honum var gefin að sök og er sannað að hann hafi gerst sekur um þau brot sem í ákæru greinir og eru þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði gekkst undir sáttargerð við lögreglustjóra 22. nóvember 2011 vegna brota gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 37. gr. umferðarlaga og 1. mgr. 48. gr. sömu laga, þar sem honum var gerð sekt að fjárhæð 120.000 krónur. Þá var hann með dómi Hæstaréttar 18. júní 2015 í máli nr. 222/2015 dæmdur til að greiða 550.000 króna sekt í ríkissjóð vegna brota 5. október 2014 gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 37. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Brot ákærða gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga er samkvæmt framangreindu ítrekað öðru sinni. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Þórir Jónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 273.083 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 19. maí 2015, á hendur Þóri Jónssyni, kennitala [...], Heiðarási 4, Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot Reykjavík með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 13. apríl 2015, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og með 102 km hraða á klukkustund norður Vesturlandsveg, við Suðurlandsveg, þar sem leyfður hámarkshraði var 80 km á klukkustund.
Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 48. gr. og 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.
Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í ágúst 1982. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 12. maí 2015, hefur ákærði nú í þriðja sinn, eftir að hann varð fullra 18 ára og innan ítrekunartíma, sbr. 1. og 3. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verið fundinn sekur um að aka bifreið sviptur ökurétti. Með hliðsjón af ákvæðum 77. gr. laga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 80.600 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Annan sakarkostnað leiddi ekki af málinu.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Elín Hrafnsdóttir fulltrúi.
Valborg Steingrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Þórir Jónsson, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 80.600 krónur.