Hæstiréttur íslands
Mál nr. 404/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Börn
- Barnavernd
- Skilorð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 12. febrúar 2015. |
|
Nr. 404/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Adam Mazurek (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Líkamsárás. Börn. Barnavernd. Skilorð. Skaðabætur.
AM var sakfelldur fyrir líkamsárás og barnaverndarbrot með því að hafa ráðist á A og sýnt honum yfirgang og ruddalega framkomu og var háttsemin talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Við ákvörðun refsingar var höfð hliðsjón af 1. og 3. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 77. gr. sömu laga. Var refsing AM ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en fullnustu hennar frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum héldi AM almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá var AM gert að greiða A miskabætur að fjárhæð 200.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. júní 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara ómerkingar héraðsdóms. Einnig krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara lækkunar hennar.
Brotaþoli, A, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu sía, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.
Mælt er fyrir um það í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Samkvæmt því á aðeins að vísa til framburðar ákærða og vitna hjá lögreglu að þess sé þörf, svo sem vegna ósamræmis milli þess sem þar kemur fram og framburðar fyrir dómi. Í héraðsdómi er réttilega gerð grein fyrir tilteknu misræmi í framburði ákærða og vitna hjá lögreglu og fyrir dómi, en að öðru leyti var ekki þörf á að rekja framburð þeirra hjá lögreglu.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 515.341 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. apríl 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 31. mars síðastliðinn, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 25. nóvember 2013, á hendur Adam Mazurek, kt. [...], [...], [...], „fyrir líkamsárás og barnaverndarlagabrot, með því að hafa þann 28. desember 2012, skammt frá [...] við [...] í [...], ráðist á A, kt. [...] og sýnt honum yfirgang og ruddalega framkomu. Fyrst með því að grípa í A, dregið hann um gangstíg og hent honum að grindverki, síðan tekið hann upp með því að halda í bæði eyru A, þá tekið snjó og nuddað í andlit hans, því næst kýldi ákærði A með krepptum hnefa hægri handar í vinstri kinn en A náði að komast í burtu frá ákærða stuttu seinna með því að klæða sig úr úlpu, peysu og bol sem ákærði hélt í. Afleiðingar árásarinnar voru þær að A svimaði eftir hnefahögg ákærða, var skelkaður og hlaut roða á vinstra kinnbeini framan við eyra.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998 og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Við upphaf aðalmeðferðar 25. mars síðastliðinn lagði sækjandi fram framhaldsákæru, útgefna 24. mars síðastliðinn, sem ákærði gerði ekki athugasemdir við að kæmi fram á því stigi málsmeðferðarinnar, sbr. 1. mgr. 153. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Í framhaldsákærunni greinir að „breyta verður ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurnesjum þann 25. nóvember 2013 á hendur Adam Mazurek, kt. [...], [...], [...], með þeim hætti að í lok ákærunnar komi eftirfarandi einkaréttarkrafa fram:
Einkaréttarkrafa: Í málinu gerir B, kt. [...] fh. ólögráða sonar hennar A, kt. [...], þá kröfu á hendur ákærða, að hann verði dæmdur til að greiða kröfuhafa A, í miskabætur kr. 800.000.- Krafist er vaxta af ofangreindri fjárhæð skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 31. maí 2013, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.“
Við þingfestingu málsins 13. janúar síðastliðinn neitaði ákærði sök, en í þinghaldi 23. sama mánaðar kvaðst ákærði viðurkenna að hafa tekið snjó og nuddað í andlit A, en að öðru leyti kvaðst hann alfarið neita sök. Við upphaf aðalmeðferðar 25. mars síðastliðinn kvaðst ákærði, líkt og í þinghaldinu 23. janúar síðastliðinn, viðurkenna að hafa tekið snjó og nuddað í andlit brotaþola, en að öðru leyti neitaði hann sök alfarið. Þá hafnaði ákærði framkominni bótakröfu.
Eftir að skýrslutökum lauk við framhald aðalmeðferðar 31. síðasta mánaðar óskaði sækjandi þess að bókað yrði að fallið væri frá saksókn að því leyti sem greinir í ákæru að ákærði hafi tekið A upp með því að halda í bæði eyru hans, en að öðru leyti stæði ákæra í málinu óbreytt.
Í málinu er af hálfu brotaþola krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur. Krafist er vaxta af ofangreindri fjárhæð skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 28. desember 2012 til þess dags sem mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfunnar, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá krefst réttargæslumaður brotaþola þóknunar úr hendi ákærða, ásamt virðisaukaskatti. Krafa um vexti samkvæmt 8. gr. vaxtalaga, frá dagsetningunni 28. desember 2012, kom fyrst fram við munnlegan málflutning við aðalmeðferð málsins, en hvort tveggja í framhaldsákæru og í kröfu um miskabætur, sem er á meðal gagna málsins, er þeirra vaxta krafist frá 31. maí 2013.
Í málinu er þess krafist af hálfu ákærða að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Ákærði hafi viðurkennt sök að hluta og ákæran hafi sömuleiðis tekið breytingum. Ákærði hafi viðurkennt að hafa nuddað snjó í andlit brotaþola og við skýrslutöku af honum við aðalmeðferð málsins hafi hann viðurkennt að hafa gripið í brotaþola, því hafi ákærði játað að hafa gerst sekur um þessi tvö atriði sem lýst er í ákæru. Ákærði krefst sýknu af þeim atriðum ákæru sem eftir standi eftir breytingar sækjanda á ákærunni og því sem ekki hefur verið játað. Þá er krafist sýknu af bótakröfu málsins, en til vara lækkunar. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda.
I
Samkvæmt því sem fram kemur í frumskýrslu lögreglu, dagsettri 29. desember 2012, barst lögreglu tilkynning frá konu klukkan 21:38, 28. desember 2012, um að ölvaður [...] hefði veist að tólf ára syni hennar. Frá því segir að lögreglumaðurinn C, sem ritaði skýrsluna, hafi ásamt öðrum lögreglumanni farið að heimili brotaþola, A, og móður hans. Þar hafi brotaþoli og móðir hans verið stödd, ásamt vinum brotaþola, vitnunum D, E og F. Í upphafi hafi gengið erfiðlega að fá upplýsingar um hvað gerst hefði, drengirnir og móðir brotaþola hafi verið í töluverðu uppnámi. Lögreglumennirnir hafi fengið grófan framburð frá strákunum, en þeir hafi sagst hafa verið að leika sér við [...] þegar aðili, sem þeir viti ekki hvað heiti en viti hvar eigi heima, hafi komið að þeim og beðið þá um að hjálpa sér að leita að syni sínum. Þeir hafi neitað því og einhver orðaskipti hafi farið á milli þeirra. Allt í einu hafi aðilinn tekið í brotaþola og gengið með hann nokkurn spöl, rifið af honum úlpuna og endað svo með því að kýla hann með krepptum hnefa í andlitið. Brotaþoli hafi sagst hafa sloppið frá aðilanum eftir höggið og hlaupið heim til sín þar sem móðir hans hafi tekið á móti honum og hringt í lögreglu. Drengirnir hafi getað gefið góða lýsingu á því hvar aðilinn ætti heima. Með lýsingu frá drengjunum og upplýsingum frá varðstofu hafi verið ljóst að umræddur árásaraðili héti Adam Mazurek. Móðir brotaþola hafi sagt að þegar brotaþoli hafi komið heim hafi hann verið mjög skelkaður. Hann hafi ekki verið í úlpunni sinni og verið klæddur í peysuna á röngunni. Hún hafi verið upplýst um framgang mála af þessu tagi hjá lögreglu. Hún hafi farið með brotaþola á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar, ásamt því að fá áverkavottorð. Hún hafi sagst ætla að kæra líkamsárásina til lögreglu eftir helgi, en hún hafi verið í miklu uppnámi.
Í frumskýrslu segir svo frá aðgerðum lögreglu að lögreglumennirnir hafi ekið um hverfið, ásamt því að fara að heimili ákærða, en ekki fundið hann. Klukkan 22:50 hafi lögreglumaðurinn C séð son ákærða að nafni G, sem hann hafi kannast við, og spurt hann um föður hans. G hafi sagst halda að faðir sinn væri heima. Þeir hafi farið með G að heimili sínu og hafi hann boðið þeim inn. Ákærði hafi komið á móti þeim mjög ölvaður og ógnandi. C hafi reynt að spyrja ákærða út í hvað hafi gerst, en hann bara öskrað á lögreglumennina. Þegar hann hafi sett aðra höndina upp og gert sig líklegan til að ráðast að þeim hafi C ákveðið að handtaka hann. Hann hafi verið færður í lögreglutök og handjárn. Þegar ákærði hafi verið færður í lögreglubifreið hafi hann reynt að bíta lögreglumennina og hrækja á þá. Hann hafi verið færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa. Ekki hafi verið hægt að birta honum upplýsingablað um réttarstöðu handtekinna manna, sökum ástands, hann hafi verið áberandi ölvaður. C hafi hringt í G til að spyrja um úlpu brotaþola. G hafi sagt honum að heima hjá honum væri úlpa sem hann kannaðist ekki við, úlpan væri merkt A. C hafi farið ásamt öðrum lögreglumanni og náð í úlpuna og afhent móður brotaþola, sem hafi sagt úlpuna óskemmda.
Í frumskýrslunni segir jafnframt frá því að C hafi farið ásamt öðrum lögreglumanni og rætt við brotaþola og móður hans. Brotaþoli hafi sagst hafa verið að leika sér við leikvöll ásamt vinum sínum þegar ákærði hafi komið og spurt hvort þeir vissu hvar sonur hans væri. Brotaþoli hafi sagt að þeir hafi ekki vitað það og sagt ákærða það. Þá hafi ákærði spurt brotaþola hvort hann vildi ekki hjálpa sér að finna son sinn, en brotaþoli hafi sagt honum að hann vildi ekki gera það. Þá hafi ákærði rifið í úlpu brotaþola og dregið hann um og þegar hann hafi reynt að losna hafi ákærði bara haldið fastar. Brotaþoli hafi ekki sagst vera viss um það hvað hann hafi verið dreginn langa leið, en hann hafi verið mjög hræddur við ákærða. Hann hafi sagt að ákærði hafi rifið hann úr úlpunni, peysunni og bolnum. Hann hafi svo sagt ákærða hafa rifið í vinstra eyrað á honum og svo slegið hann vinstra megin í andlitið með krepptum hnefanum og því næst hafi hann hrint honum utan í girðingu. Brotaþoli hafi sagst hafa náð peysunni sinni og svo hafi hann hlaupið heim til sín. Hann hafi sagt að svo hafi móðir hans hringt á lögregluna. Fram kemur í frumskýrslunni að brotaþoli hafi verið í miklu uppnámi þegar rætt hafi verið við hann. Hann hafi sjáanlega verið með roða á vinstri kinn, auk þess sem hann hafi verið mjög skelkaður.
Næsta dag, 29. desember 2012, var tekin skýrsla af ákærða eftir dvöl hans í fangageymslu aðfaranótt þess dags. Meðal þess sem hann bar var að hann væri saklaus af því sem hann væri sakaður um. Hann hafi ætlað að skamma þessa stráka fyrir að vera að henda snjóboltum í glugga á húsi þarna rétt hjá. Hann hafi rifið í úlpuna á öðrum þeirra og þegar hann hafi haldið í úlpu brotaþola, hafi hann svipt sig úr henni og hlaupið burtu. Úlpan hafi verið frárennd. Strákarnir hafi verið þrír eða fjórir. Aðspurður um það sem drengirnir hafi borið, að ákærði hafi beðið þá um hjálp við að leita að syni sínum, kvað ákærði það vera rétt, en hann hafi síðar komist að því að sonur hans hafi verið hjá dóttur hans. Hann kvaðst hafa beðið brotaþola um að aðstoða sig við leitina að syni sínum, en brotaþoli hafi hlaupið í burtu. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa dregið brotaþola neitt, heldur hafi brotaþoli sjálfur gengið um og hafi ákærði haldið í úlpuna þar til brotaþoli hafi smeygt sér úr henni. Þetta hafi staðið yfir í um tvær mínútur. Eftir að drengirnir hafi hlaupið burt, hafi hann setið uppi með úlpuna og farið með hana heim. Hann hafi ætlað að biðja son sinn um að koma henni til skila. Aðspurður um hvort hann hafi klipið í eyra brotaþola, svaraði hann neitandi. Aðspurður um hvort hann hafi slegið í andlit brotaþola, svaraði hann neitandi. Þegar borið var undir ákærða að á vinstri kinn brotaþola mætti sjá roða, kvað ákærði það ekki vera af hans völdum. Aðspurður sagðist ákærði ekki hafa hrint brotaþola utan í girðingu, hann hafi einungis haldið brotaþola. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa ráðist á lögreglumenn þegar þeir hafi komið að heimili hans og ekki hafa hugsað sér að ráðast á neinn. Aðspurður um áfengisdrykkju sína kvaðst hann hafa byrjað að drekka bjór um klukkan 18:00 og drukkið tvo stóra bjóra til klukkan 20:00. Þá hætt drykkju til klukkan 22:00, en þá blandað sér vodka í glas í hlutföllunum 50/50, drukkið það og farið að sofa.
Þann 4. janúar 2013 mættu brotaþoli og móðir hans, B, til lögreglu og lögðu fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar 28. desember 2012 á [...] í [...], skammt frá [...]. Í kjölfarið var tekin skýrsla af brotaþola að móður hans viðstaddri. Meðal þess sem fram kom hjá brotaþola var að hann hafi verið við leik úti við ásamt vitnunum E, D og F. Þeir hafi verið á gangi á gangstétt á [...] skammt frá [...] í [...] og ákærði hafi komið að þeim. Hann hafi verið ölvaður og hafi D og F hlaupið í burtu. Ákærði hafi fyrst spurt E hvort hann vissi um son sinn, og hafi E svarað því neitandi. Þá hafi ákærði sagt E að koma með sér að leita að syni sínum, en E hafi einnig svarað því neitandi. Þá hafi ákærði gripið í sig og beðið sig um að koma með sér að leita að syni sínum. Hann hafi togað í sig og haldið sér þar til þeir komu upp að grindverki sem þarna hafi verið skammt frá, E hafi gengið á eftir þeim. Brotaþoli bar að ákærði hafi hent sér upp að grindverkinu og sagt við sig: „Ég lemja“. Brotaþoli hafi þá sett höfuð sitt niður í átt að bringu og þá hafi ákærði kýlt hann á vinstri kinn. Hann hafi svimað eftir höggið sem ekki hafi verið laust. Þegar ákærði hafi verið með brotaþola upp við girðinguna, hafi hann tekið hann upp á eyranu. Þá hafi E sagt við ákærða: „Hey láttu hann vera“. Við það hafi ákærði sagt E að koma, en hann hafi neitað því. Þá hafi ákærði tekið snjó upp úr jörðinni með hægri hendi og nuddað í andlitið á brotaþola. Brotaþoli hafi síðan náð að sleppa undan ákærða þegar ákærði hafi tekið hann frá grindverkinu. Hann hafi klætt sig úr úlpunni þar sem ákærði hafi haldið í hálsmál úlpunnar. Þá hafi ákærði gripið í hálsmál peysunnar og hafi bæði peysan og bolurinn togast af brotaþola og hafi hann staðið eftir ber að ofan. Brotaþoli kvaðst sjálfur hafa rennt niður úlpunni svo að hann gæti smeygt sér úr henni. Hann hafi náð peysunni af ákærða, síðan hlaupið burt og klætt sig í peysuna á hlaupum. Ákærði hafi tekið úlpuna með sér.
Við skýrslutökuna greindi móðir brotaþola meðal annars frá því að strákarnir hafi komið hlaupandi í æðiskasti. E hafi sagt henni að ráðist hafi verið á son hennar, brotaþola. Hún hafi spurt nánar út í þetta og fengið þær upplýsingar að þetta hafi verið að gerast. [...] maður hafi ráðist á hann og barið hann. Hún kvaðst hafa stressast upp, en reynt að halda rónni. Strákarnir hafi sagt henni frá því hver þetta hafi verið. Þeir hafi sagt henni að hringja á lögregluna og það hafi hún gert eftir að hafa fengið nákvæmari upplýsingar hjá strákunum. Þá bar hún meðal annars einnig um að brotaþoli hafi verið með „pínu roða“ á kinninni, en ekki áberandi, síðar hafi henni fundist vera mar á honum, en svo enn síðar hafi hún ekki séð neitt. Ekki hafi borið á neinu mari eftir þetta.
Þann 4. apríl 2013 mættu bræðurnir D og F til skýrslugjafar sem vitni hjá lögreglu ásamt móður þeirra. Meðal þess sem fram kom hjá D var að hann hafi verið á gangi rétt hjá [...] ásamt brotaþola og vitnunum E og F, bróður sínum. Þegar ákærði hafi komið að þeim hafi hann og F hlaupið burtu, en E og brotaþoli staðið eftir. E hafi komið til þeirra og sagt þeim að ákærði hafi tekið brotaþola og farið með hann í burtu. Þeir hafi þá farið í áttina til ákærða og brotaþola og séð þá tala saman. Hann hafi ekki séð þegar ákærði hafi kýlt brotaþola, en E hafi séð það. D kvaðst hafa séð þegar ákærði hafi ýtt brotaþola upp við grindverk og sett snjó framan í hann. Hann kvaðst hafa farið til H og beðið hana um að hringja í lögregluna, en hún hafi sagt að þeir yrðu að bjarga sér sjálfir. Hann kvaðst hafa séð þegar brotaþoli hafi komið sér undan með því að klæða sig úr bæði úlpunni og peysunni og náð að hrifsa peysuna af ákærða. Aðspurður um hvernig ákærði hafi haldið í brotaþola, kvað hann ákærða hafa haldið yfir axlirnar á honum, hálfgerðu hálstaki.
Meðal þess sem F bar um við skýrslugjöf hjá lögreglu var að strákarnir hafi hlaupið burtu þegar ákærði hafi komið að þeim. Þeir hafi kallað á brotaþola, en hann ekki komið. Þegar þeir hafi komið til baka, hafi þeir séð ákærða halda brotaþola þannig að hann hafi ekki komist í burtu. F útskýrði það ekki nánar hver hafi hlaupið í burtu með honum og hver hafi orðið eftir með brotaþola. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa orðið vitni að því að ákærði hafi kýlt brotaþola, en hann hafi séð þegar hann hafi ýtt brotaþola upp við grindverk og troðið snjó framan í hann. Hann sagðist hafa séð þegar brotaþoli hafi komið sér undan og þegar hann hafi verið rifinn úr úlpunni og peysunni. Strákarnir hafi fyrst farið heim til foreldra F og sagt þeim frá atvikinu og svo hafi þeir farið heim til brotaþola.
Þann 22. október 2013 var tekin vitnaskýrsla af E hjá lögreglu að viðstöddum starfsmanni barnaverndar. Meðal þess sem hann bar um var að hann hafi verið að ganga við [...] í [...] ásamt brotaþola, D og F. Ákærði hafi komið að þeim og spurt hvar synir hans væru. Síðan hafi ákærði tekið brotaþola með sér og farið með hann. Brotaþoli hafi byrjað að öskra og þá hafi ákærði verið búinn að klæða brotaþola úr fötunum og byrjað að kýla hann. Aðspurður kvaðst hann hafa séð þetta gerast. Þegar hann var beðinn um að lýsa því nánar að ákærði hafi afklætt brotaþola, kvað hann brotaþola hafa streist á móti og farið úr fötunum. Hann hafi verið kominn úr úlpunni og verið á bolnum. Ákærði hafi haldið föstu taki í úlpu og bol brotaþola og kýlt brotaþola með hnefahöggi hægri handar í hægra gagnauga. Brotaþoli hafi staðið uppréttur þegar ákærði hafi kýlt hann. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hversu oft ákærði hafi kýlt brotaþola, en talið það hafa verið um tvisvar eða þrisvar sinnum. Ákærði hafi á endanum sleppt takinu á brotaþola og þá hafi brotaþoli hlaupið burt. Aðspurður kvað hann atvikið hafa staðið í um hálftíma og byrjað á því að ákærði hafi rifist við brotaþola. Ákærði hafi hótað að berja brotaþola og drepa hann. Aðspurður hvað hafi gerst eftir að ákærði hafi sleppt takinu á brotaþola, kvað hann brotaþola og D hafa hlaupið heim til D og F og rætt við móður þeirra. Síðan hafi þeir farið heim til brotaþola.
Þann 4. apríl 2013 tók lögregla símaskýrslu af vitninu H. Meðal þess sem hún sagði var að hún hafi verið stödd í garðinum heima hjá sér þegar hún hafi heyrt mikil öskur ofar í götunni. Skömmu síðar hafi D komið hlaupandi í miklu uppnámi og sagt sér að ákærði væri að berja brotaþola. H sagðist síðan hafa séð á eftir D þar sem hann hafi hlaupið út götuna og kallað á brotaþola og hvatt hann til að hlaupa í burtu. Síðan hafi hún séð þá hlaupa saman og að brotaþoli hafi verið ber að ofan og haldið á peysunni sinni. Hún sagði D hafa verið í miklu uppnámi og geðshræringu þegar hann hafi komið til hennar. Hún sagðist ekki geta lýst öskrunum nánar, en sagði ljóst að eitthvað mikið hafi gegnið á.
Á meðal gagna málsins er læknisvottorð, dagsett 22. júlí 2013, ritað af I, lækni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar segir frá því að brotaþoli hafi leitað á bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, í fylgd móður sinnar, klukkan 23:00, 28. desember 2012, eftir líkamsárás. Að sögn drengsins hafi hann verið að leik ásamt öðrum börnum þegar maður sem búi í nágrenninu hafi hlaupið á eftir þeim og gripið í úlpuna hans og slegið hann með hnefanum í andlitið vinstra megin. Að hans sögn hafi hann náð að losa sig frá manninum og hlaupa heim. Við komu á bráðamóttöku hafi hann augljóslega verið skelkaður. Skoðun hafi leitt í ljós roða eftir áverka á vinstra kinnbeini, framan við eyra, en ekki hafi verið komið fram mar. Ekki hafi verið rof á húð eða beinbrot. Munnur hafi opnast eðlilega án sársauka og tennur verið heilar. Augu hafi verið eðlileg við skoðun. Háls og bak hafi verið eymslalaus og ekki eymsli yfir hrygg. Eðlilegar hreyfingar hafi verið á baki og útlimum. Frekari líkamsskoðun hafi verið án athugasemda. Brotaþoli hafi staðið stöðugur, hann ekki svimað og hann gengið óstuddur. Í lok vottorðsins greinir frá því áliti að áverki sé í samræmi við frásögn brotaþola.
II
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Þar greindi ákærði svo frá að sonur hans hafi ekki verið kominn heim klukkan tíu að kvöldi 28. desember 2012. Hann hafi hugsað að ef til vill hafi eitthvað gerst, því að vanalega komi hann tímanlega heim. Ákærði hafi farið út og fengið sér sígarettu. Hann hafi heyrt skrítið hljóð og hugsað með sér að mögulega tengdist það syni hans. Nokkrir strákar hafi verið að kasta snjóboltum í hús og hafi ákærði gripið í höndina á einum stráknum. Ákærði hafi spurt hvers vegna þeir hafi kastað snjóboltum í húsið og sagt þeim að ef þeir hættu því ekki, þá myndi hann hringja í lögregluna. Flestir strákanna hafi hlaupið burtu, en ákærði hafi viljað spyrja þann sem hann hafi haldið hvort hann hafi séð son sinn. Hann hafi gengið með strákinn og strákurinn hafi sagt honum að sonur hans væri rétt hjá [...]. Hann hafi spurt strákinn hvort hann gæti gengið með honum. Ákærði telji að strákurinn hafi verið dálítið hræddur, en ákærði hafi ekki ráðist á hann. Allt í einu hafi strákurinn farið úr úlpunni, ákærði hafi staðið eftir með úlpuna, en strákurinn hafi losnað. Þá hafi strákurinn hlaupið til vina sinna, sem hafi staðið um 30 til 40 metra frá þeim, og þegar þeir hafi hlaupið í burtu hafi ákærði kallað á eftir stráknum hvort hann vildi ekki fá úlpuna til baka. Hann hafi skilið úlpuna eftir á jörðinni og farið heim, en svo hafi honum dottið í hug að athuga hvort strákarnir hafi komið aftur til baka til að sækja úlpuna. Þegar hann hafi gert það, hafi úlpan enn verið á jörðinni. Hann hafi tekið úlpuna því að hann hafi hugsað til þess að strákurinn og sonur ákærða væru jafngamlir og að sonur hans gæti skilað úlpunni daginn eftir. Þá kvað ákærði það geta verið að hann hafi verið með snjó í hendinni og sett í andlit stráksins, en hann hafi alls ekki gert annað það sem fram komi í ákærunni. Aðspurður um hvort ákærði muni klukkan hvað um kvöldið ákærði hafi átt í samskiptum við brotaþola, kvaðst ákærði það hafa verið um tíu, því að sonur hans eigi að mæta heim um tíuleytið.
Þegar ákærði var beðinn um að lýsa aðdraganda þess að hann hafi endað á lögreglustöð bar ákærði að konan hans hafi hringt í hann um kvöldið og tjáð honum að hún myndi gista hjá dóttur þeirra til að passa barnabörnin. Hún hafi sagt ákærða að sonur hennar væri hjá henni. Þetta hafi verið seint, hann hafi verið búinn að fá sér nokkra drykki og búinn að taka ákvörðun um að fara að sofa. Um klukkan tólf hafi lögreglukona komið heim til hans, spurt hann til nafns og handtekið hann án þess að útskýra nokkuð. Hann hafi verið í áfalli yfir því, þar sem hann hafi ekki áttað sig á ástæðu þessa. Hann hafi skammað strákana fyrir að kasta snjóboltum í húsið. Hann hafi verið mjög reiður. Aðspurður um hvernig hann hafi munað eftir atvikum þennan dag kvaðst ákærði muna þau vel. Hann hafi fengið sér nokkra drykki eftir að hann hafi komið heim til sín. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa verið ölvaður þegar hann hafi hitt strákana. Þá var borinn undir ákærða framburður hans hjá lögreglu þess efnis að þar hafi hann sagt að hann hafi verið búinn að drekka frá því klukkan sex um kvöldið og hann beðinn um að útskýra það. Ákærði kvað það vel geta verið að hann hafi verið búinn að fá sér einn bjór um klukkan sex, en ekki meira en það. Eftir að hann hafi komið heim, hafi hann fengið sér þrjá drykki, en ekki verið drukkinn. Aðspurður um hvar atburðirnir hafi átt sér stað kvað ákærði þá hafa átt sér stað á bílastæði við [...]. Þar við séu hús ákærða og húsið sem strákarnir hafi kastað snjóboltum í, auk annarra húsa.
Aðspurður um hvers vegna ákærði hafi gripið í brotaþola, bar ákærði að hann hafi gripið þann strák sem hafi verið næstur honum til að spyrja hvort þeir hafi séð son ákærða, hjálpa sér að leita að honum og spyrja hvers vegna strákarnir hafi kastað snjóboltum í húsið. Aðspurður um hvort honum hafi fundist brotaþoli skyldugur til að leita að syni hans kvaðst hann ekki vita „af hverju hann hafi sleppti svo hratt“, hann hafi bara viljað spyrja hann hvort hann hafi séð son sinn. Ákærði hafi ekki öskrað á brotaþola, enginn hafi öskrað. Ákærði hafi talað við hann og spurt hann hvort hann væri tilbúinn að ganga með honum að skólanum og athuga hvort sonur sinn væri þar. Aðspurður um hvort ákærði muni eftir að hafa haldið í brotaþola og gengið eitthvað áfram með hann, svaraði ákærði játandi. Aðspurður um hvort hann hafi vitað til þess að brotaþoli hafi viljað vera hjá ákærða þegar hann hafi haldið í hann, bar ákærði að brotaþoli hafi bara gengið með honum þar til þeir hafi komið út á götu, þá hafi hann sloppið úr úlpunni. Þá var ákærði spurður um af hverju brotaþoli hafi þurft að koma sér úr úlpunni til að komast frá ákærða ef þeir hafi bara gengið saman. Ákærði kvað svolítið erfitt að segja til um það. Kannski hafi hann verið hræddur þar sem ákærði hafi verið búinn að segja strákunum að hann myndi hringja í lögregluna ef þeir myndu ekki hætta að kasta snjóboltum í húsið. Aðspurður um hvort það geti verið að brotaþoli hafi ekki komist öðruvísi frá ákærða þar sem ákærði hafi dregið hann, bar ákærði að hann hafi spurt brotaþola hvort hann væri tilbúinn að ganga með sér að skólanum, ekkert annað. Hann hafi getað sagt nei, en ekki gert það. Hann hafi ekki reynt að sleppa frá ákærða, heldur hafi þeir gengið saman. Þá var borið undir ákærða að brotaþoli hafi borið hjá lögreglu að ákærði hafi beðið hann um að hjálpa sér að leita að syni sínum, hann hafi ekki viljað það, en ákærði hafi gripið í hann og rifið hann að grindverki við götuna. Aðspurður um hvort hann kannist við eitthvað af þessu kvað ákærði þetta vera ósatt. Þegar borið var undir ákærða að hjá lögreglu hafi brotaþoli og vitnin E, F og D allir borið á þá leið að ákærði hafi gripið í brotaþola og tekið hann með sér, kvað ákærði þá segja ósatt. Ákærði kvaðst halda að þeir væru að segja ósatt þar sem þeir væru vinir. Aðspurður um hvort ákærði hafi dregið brotaþola eitthvað á gangstéttinni, hvort hann hafi leitt hann eitthvað áfram, svaraði ákærði neitandi. Aðspurður um hvort ákærði hafi kýlt brotaþola með krepptum hnefa svaraði ákærði einnig neitandi. Þegar borið var undir ákærða að brotaþoli og vitnið E hafi borið um að ákærði hafi kýlt brotaþola í andlitið kvað ákærði það ósatt. Það hafi verið dimmt úti og hinir strákarnir hafi staðið um 40 metra frá ákærða og brotaþola. Þegar borið var undir ákærða að hjá lögreglu hafi brotaþoli og vitnin E, F og D allir borið á þá leið að ákærði hafi tekið brotaþola í hálfgert hálstak og ýtt honum upp að grindverkinu, með því að taka í hálsmál og ýta honum upp að grindverkinu, kvað ákærði það vera ósatt. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa tekið brotaþola upp á eyrunum. Aðspurður um hvort brotaþoli hafi eitthvað kvartað, mótmælt eða borið sig aumlega yfir því sem ákærði hafi gert, kvað ákærði hann ekki hafa neitað ákærða eða hafa viljað sleppa frá honum. Þeir hafi bara gengið saman og atburðarásin í heildina hafi tekið um þrjár til fjórar mínútur.
Aðspurður um það sem ákærði hafi sjálfur borið um, að brotaþoli gæti hafa verið hræddur, kvað ákærði það vel geta verið að hann hafi verið hræddur. Ef hann hafi gert eitthvað rangt, þá hafi hann að sjálfsögðu getað verið hræddur og líka þar sem ákærði hafi skammað hann. Aðspurður um hvers vegna ákærði hafi tekið snjó og nuddað í andlit brotaþola kvaðst ákærði halda að það hafi verið óvart því að hann hafi staðið við girðinguna og þar hafi verið snjór, hann hafi ekki meint það illa. Það hafi verið snjór út um allt. Hann hafi hallað sér öðrum hvorum megin við brotaþola og lent með snjó í hendinni. Hann hafi sett sjó í andlit brotaþola, en það hafi ekki verið meint illa. Aðspurður um hvort ákærða finnist það eðlilegt að troða snjó framan í tólf ára gamalt barn, kvað ákærði slíkt „oft gert eins og grín í [...]“. Aðspurður um hvort ákærða hafi fundist strákurinn taka þessu sem gríni, með hliðsjón af því að ákærði hafi sjálfur sagt að brotaþoli hafi hugsanlega verið hræddur, svaraði ákærði að þetta hafi verið grín sem ekki hafi verið illa meint, þeir hafi bara verið að tala saman. Aðspurður um hvað brotaþoli hafi sagt þegar ákærði hafi beðið hann um hjálp við að leita að syni sínum kvað hann brotaþola ekki hafa svarað. Hann kvaðst halda að brotaþoli hafi ekki viljað hjálpa sér, því að hann hafi sloppið úr úlpunni. Hann kvaðst ekki hafa sleppt brotaþola þar sem hann hafi í fyrstu ekki reynt að fara frá sér, en brotaþoli hafi gert það allt í einu. Aðspurður um hvort hann muni til þess að vitnið E hafi sagt ákærða að fara af brotaþola eða sleppa honum, kvaðst ákærði ekki muna það, þeir hafi ekki staðið nálægt. Aðspurður um hvort hann hafi heyrt í hinum strákunum, kvað ákærði það geta verið að þeir hafi sagt eitthvað, en ef svo hafi verið hafi ákærði ekki skilið það. Það geti verið að hann hafi heyrt í þeim. Hann hafi verið að tala við brotaþola, sem hann hafi haldið. Það geti verið að þeir hafi öskrað eitthvað, en hann sé ekki viss um að hann hafi heyrt það þar sem hann hafi verið upptekinn að tala við brotaþola. Aðspurður kvað ákærði það vera rétt að hann hafi haldið brotaþola. Aðspurður hvort hann muni hvort brotaþoli hafi verið ber að ofan þegar hann hafi komist frá ákærða, kvað ákærði hann hafa verið í bol, en ekki beran að ofan. Þegar borið var undir ákærða það sem fram hafi komið í vitnisburði vitnisins H hjá lögreglu að brotaþoli hafi hlaupið frá ákærða í geðshræringu og ber að ofan, kvaðst ákærði vera viss um að brotaþoli hafi verið í fötum.
Aðspurður um af hverju ákærði hafi haldið brotaþola kvaðst hann hafa verið að spyrja um son sinn. Aðspurður um hvort ákærði telji það hafa verið rangt af honum að halda brotaþola, svaraði ákærði að næst myndi hann ekki segja neitt við krakka ef þau gerðu eitthvað rangt. Þegar borið var undir ákærða það sem fram hafi komið í framburði brotaþola hjá lögreglu að hann hafi sagt ákærða að hann vissi ekki hvar sonur hans væri, en að ákærði hafi viljað að brotaþoli myndi hjálpa ákærða að leita að syni sínum, sagði ákærði að hann hafi spurt brotaþola um hvort hann hafi séð son sinn. Brotaþoli hafi sagst hafa séð son hans einhvers staðar við skólann. Þegar hann hafi spurt hann hvort hann gæti hjálpað sér að leita að honum, hafi hann sloppið með því að fara úr úlpunni. Aðspurður um hvort ákærði hafi veitt brotaþola einhverja áverka svaraði ákærði neitandi. Þegar borið var undir ákærða að fram kæmi í fyrirliggjandi læknisvottorði að brotaþoli hafi verið með roða eftir áverka á vinstra kinnbeini, framan við eyra, kvaðst ákærði ekki hafa skýringar á því. Þegar ákærði var spurður að því hvort það gæti verið að áverkinn stafaði af því að ákærði hafi nuddað snjó í andlit brotaþola kvaðst ákærði ekki hafa nuddað svo fast. Ákærði haldi að það geti verið að þegar brotaþoli hafi sloppið úr úlpunni, þá hafi hann rekið sig í rennilás eða meitt sig við að fara úr úlpunni. Ákærði kvaðst algjörlega neita því að hafa valdið brotaþola þessum áverka. Þegar borið var undir hann það sem hvort tveggja kæmi fram í frumskýrslu lögreglu og í læknisvottorðinu, að brotaþoli hafi verið augljóslega skelkaður, kvaðst ákærði ekki hafa hrætt ákærða, kannski hafi hann verið hræddur þar sem strákarnir hafi kastað snjóboltum í húsið.
Aðspurður um hvort ákærði hafi vitað að brotaþoli hafi verið tólf ára, kvaðst ákærði hafa vitað það, eða haldið að hann væri kannski þrettán ára. Aðspurður um hvort hann hefði skýringar á þessum mikla mun á eigin framburði og framburði brotaþola og vitnanna E, F og D hjá lögreglu, kvaðst ákærði ekki hafa neinar skýringar þar á, en ekki skilja hvers vegna þessir strákar segðu ósatt. Aðspurður um hvort það hafi verið myrkur úti þegar hann hafi átt samskipti við strákana kvað ákærði svo hafa verið, en þó hafi verið götuljós. Aðspurður um hversu langt hafi verið í hina strákana þegar ákærði og brotaþoli hafi verið saman, kvað ákærði það hafa verið um 40 metra. Þegar borið var undir ákærða að strákarnir hafi fyrir lögreglu lýst atburðum þetta kvöld með mikilli nákvæmni og séu sammála og ákærði spurður að því hvort honum þætti líklegt að þeir hafi getað séð það sem gerðist svaraði ákærði neitandi. Aðspurður um hvort ákærði telji drengina alla vera að haga frásögn sinni þannig að ákærði komi illa út, kvaðst ákærði halda það, að þeir væru að reyna að koma ákærða í slæm mál. Hann kvaðst ekki vita af hverju, honum finnist hann ekki hafa gert neitt rangt, en þeir vilji „sýna að ég gerði svaka árás“. Aðspurður um hvort ákærði hafi verið í einhverjum samskiptum við þennan drengjahóp áður, eða einhver sem ákærði þekki, kvað ákærði alla í [...] þekkja þessa stráka, þetta sé hópur sem haldi sig saman og geri „alls konar hluti“. Aðspurður um hvort hann hafi getað gefið þeim einhverja ástæðu til að gera eitthvað á hans hlut annað en að skamma þá, kvað hann svo ekki vera.
Aðspurður um það sem fram kæmi í frumskýrslu lögreglu að ákærði hafi verið mjög ölvaður og ógnandi þegar lögregla hafi komið í vettvang, kvaðst ákærði hafa verið mjög reiður þar sem hann hafi ekki fengið neinar útskýringar á því af hverju hann hafi verið handtekinn. Að hans mati hafi hann ekki gert neitt rangt sem skýrði handtökuna. Þá var ákærða kynnt að þessi framburður hans væri í ósamræmi við það sem fram kæmi í frumskýrslu lögreglu, þar kæmi fram að reynt hafi verið að spyrja ákærða á vettvangi, sonur ákærða hafi hleypt lögreglumönnum inn, en ákærði hafi bara öskrað. Þegar ákærði var spurður að því hvers vegna hann hafi öskrað á lögreglumennina eða hvort að það sem fram kæmi í frumskýrslunni væri þá ósatt, kvaðst ákærði ekki muna til þess að hann hafi öskrað. Hann muni bara til þess að þeir hafi spurt hann hvort hann héti Adam, þegar hann hafi svarað því játandi hafi þeir handtekið hann. Aðspurður um hvort hann hafi verið ölvaður á þessum tíma kvað ákærði svo hafa verið, það geti verið ástæðan fyrir að hann muni minna eftir þessum atvikum en öðrum. Aðspurður um hvort ákærði hafi verið ölvaður þegar lögregla hafi komið seint um kvöldið, kvaðst hann hafa verið án konunnar sinnar þetta kvöld, hann hafi verið búinn að fá sér nokkra drykki og það geti líka verið að hann hafi verið búinn að fá sér einhvern bjór klukkan sex. Hann hafi fundið fyrir áhrifum áfengis þegar lögregla hafi komið heim til hans, en ekki þegar hann hafi átt samskipti við strákana fyrr um kvöldið. Aðspurður um hvort hann hafi ráðist á, bitið eða reynt að hrækja á lögreglumennina kvað ákærði sér hafa verið illt í höndunum vegna handjárnanna og kannski hafi verið misskilningur út af því. Aðspurður um hvort það væri þá ósatt sem fram kæmi í lögregluskýrslu að ákærði hafi ráðist á, bitið eða reynt að hrækja á lögreglumennina kvaðst ákærði hafa reynt að lyfta sér upp svo að hann þyrfti ekki að liggja í lögreglubifreiðinni og gæti setið, en hann muni ekki eftir því sem lýst er í lögregluskýrslunni. Aðspurður um hvort ákærði hafi verið í einhverju andlegu ójafnvægi þetta kvöld kvaðst ákærði ekki hafa verið neitt sérstaklega reiður vegna þess sem gerst hafi fyrr um kvöldið. Hann hafi ekki skilið af hverju brotaþoli hafi skilið eftir úlpuna og hann hafi ekki hugsað mikið út í þetta. Hann hafi reiðst vegna handtöku lögreglu. Honum finnist þetta ekki hafa átt að gerast svona, heldur hefði verið hægt að greina honum frá því að hann hafi gert eitthvað rangt og biðja hann um að mæta svo til lögreglu til skýrslugjafar, en ekki handtaka hann. Aðspurður um hvort ákærði hafi ekki verið orðinn reiður þegar hann hafi átt í samskiptum við brotaþola, kvaðst ákærði ekki hafa verið orðinn reiður, en hann hafi hugsað að klukkan hafi verið orðinn tíu og vanalega sé sonur hans mættur heim á þessum tíma. Hann hafi einungis orðið reiður seinna um kvöldið þegar lögregla hafi komið.
Aðspurður um hvort þetta mál hafi haft einhver áhrif á hann, kvað ákærði sér líða illa að þurfa að koma fyrir dóm. Honum finnist það ekki rétt þar sem hann hafi ekki gert „neitt sérstaklega rangt“. Þegar ákærði var spurður að því hvort einhver annar í þessu máli hafi gert eitthvað rangt, bar ákærði að kannski hefði hann átt að fara með úlpuna strax til foreldra brotaþola og segja frá því hvað þeir hafi verið að gera og af hverju hann hafi verið með þessa úlpu. Þá var ákærði spurður um persónulega hagi sína. Hann kvaðst hafa atvinnu, hann starfi við [...] hjá [...] og hafi unnið þar í níu ár. Aðspurður kvaðst hann telja sakfellingu í þessu máli hafa áhrif á atvinnu hans. Hann myndi lenda í vandræðum þar sem hann hafi hreint sakavottorð. Hann kvaðst eiga þrjú fullorðin börn og einnig fjórtán ára son. Aðspurður með vísan til ákæru málsins kvaðst ákærði viðurkenna að hafa tekið snjó og nuddað í andlit brotaþola og haldið honum, en hann kannist hins vegar ekki við að hafa dregið brotaþola eða annað það sem lýst sé í ákærunni.
Móðir brotaþola, B, gaf skýrslu sem vitni fyrir dómi. Hún kvaðst hafa setið inni í stofu þegar tveir vinir brotaþola, vitnin D og F, hafi komið hlaupandi heim til hennar og brotaþola. Rétt á eftir hafi vitnið E komið, hann hafi haldið á peysu brotaþola. Hún hafi spurt þá hvað gengi á, þeir skyldu ekki hlaupa inn eins og þeir ættu heima þarna. Síðan hafi hún áttað sig á að það hafi eitthvað alvarlegt gerst og spurt strákana hvað væri að. Þeir hafi sagt henni að það hafi verið ráðist á brotaþola. Hún hafi spurt þá hver hefði gert það og hvenær og þá hafi þeir sagt henni að [...] maður hefði ráðist á hann og kýlt í andlit hans, hent honum yfir grindverk og rifið hann úr úlpunni. Því næst hafi hún hringt í lögregluna sem hefði komið. Svo hafi strákarnir lýst atvikum. Lögregla hafi beðið móðurina að fara með brotaþola og fá skýrslu um áverka. Síðan hafi lögregla beðið hana um að fara til lögreglunnar í Keflavík til að kæra, hún ætti að fara þangað 4. janúar.
Aðspurð um hvernig brotaþoli hafi verið klæddur þegar hann hafi komið heim kvaðst hún ekki muna það nákvæmlega því að sjokkið hafi verið það mikið. Aðspurð kvað hún peysu brotaþola hafa snúið öfugt þegar hún hafi tekið við henni. Aðspurð um ástand brotaþola kvað hún hann fyrst hafa verið hálfhlæjandi, hún hafi hins vegar séð á honum að hann hafi verið í sjokki. Aðspurð um ástand hinna strákanna kvað hún þá líka hafa verið í sjokki, þeir hafi sagt henni frá því í æsingi að ráðist hefði verið á brotaþola. Aðspurð um hvort hún hafi séð áverka á brotaþola, kvaðst hún ekki hafa séð áverka, sem betur fer hafi ákærði ekki náð þannig höggi á hann. Aðspurð um líðan brotaþola eftir árásina kvað hún hann hafa verið kvíðinn og hræddan, en hann vilji ekki viðurkenna neitt slíkt sjálfur. Hún taki hins vegar eftir „alveg rosalegum breytingum á honum gagnvart kvíða og hræðslu“. Hún sé mikið búinn að vera að berjast við það að koma honum í skólann. Henni finnist þetta hafa haft slæm áhrif á hann. Sonur ákærða hafi ítrekað spurt brotaþola út í þetta. Brotaþoli hafi tekið þessu mjög illa. Svo hafi líka verið annar strákur, sem ekki hafi látið brotaþola í friði. Henni finnist þetta hafa haft „rosalega leiðinleg áhrif“ á brotaþola gagnvart skólanum og hans skólagöngu.
Að lokinni skýrslugjöf móður brotaþola gaf brotaþoli skýrslu fyrir dómi að móður sinni viðstaddri. Greindi hann frá því að hann og vinir hans hafi verið hjá [...] og svo hafi ákærði komið. Strákarnir sem hafi verið með honum hafi verið vitnin D, F og E. Hann muni ekki alveg hvað ákærði hafi gert, en ákærði hafi spurt vitnið E hvar sonur ákærða væri, en hann hafi ekki vitað það. Svo hafi ákærði komið til sín, tekið sig og „labbaði bara með mig“ og spurt hann hvar sonur hans væri. Brotaþoli hafi sagt ákærða að hann vissi ekki hvar sonur hans væri og þá hafi hann af einhverri ástæðu tekið snjó og troðið í andlitið á honum. Svo hafi brotaþoli gengið áfram. Þegar brotaþoli hafi reynt að fara, þá hafi ákærði tekið hann og „hent honum við grindverk“. Síðan hafi hann sagt eitthvað sem brotaþoli hafi ekki skilið og svo hafi hann sagt: „ég lemja“ og kýlt brotaþola. Það sé það eina sem hann muni.
Aðspurður um hvort þetta hafi allt gerst á [...] í [...] kvað brotaþoli svo vera. Aðspurður um hvort ákærði hafi verið ölvaður þegar þetta hafi gerst svaraði brotaþoli játandi. Hann hafi fundið það á lyktinni og hvernig ákærði hafi hagað sér, hann hafi fundið mikla áfengislykt af ákærða. Aðspurður kvað hann ákærða hafa talað við sig á íslensku. Aðspurður um hvað hann hafi fyrst sagt við brotaþola og vini hans kvað hann ákærða hafa spurt sig hvar sonur hans væri. Hann hafi sagt ákærða að hann vissi það ekki. Aðspurður um hvort ákærði hafi tekið eitthvað í hann eftir að hann hafi sagt honum að hann vissi ekki hvar sonur hans væri, svaraði brotaþoli játandi. Þegar hann var beðinn um að lýsa því nánar kvað brotaþoli ákærða hafa togað í hann, en hann hafi ekki dregið hann. Hann hafi streist á móti ákærða og viljað fara frá honum. Þegar brotaþoli var beðinn um að lýsa því nánar hvernig það hafi gerst að ákærði hafi haldið í hann og labbað með hann sagði brotaþoli þá hafa verið á gangstéttinni. Hann hafi haldið í sig allan tímann frá þeim stað sem hann hafi upphaflega gripið í hann og þangað til brotaþoli hafi sloppið frá ákærða. Hann hafi ekki viljað vera með ákærða þann tíma. Ákærði hafi togað sig með sér og að hann hafi ekki getað sloppið frá ákærða. Þegar brotaþoli var spurður nánar út í hvað hafi gerst við grindverkið sagði hann: „Hann ýtti mér við það“. Hann kvað bak sitt hafa lent á grindverkinu og hann hafi meitt sig smá. Honum hafi ekki brugðið. Aðspurður hvort ákærði hafi sagt eitthvað meira eftir að hann hafi hent brotaþola á grindverkið kvað brotaþoli hann hafi sagt: „ég lemja“. Hann hafi slegið sig í kinnina. Hann kvaðst aðspurður ekki muna hvernig höndin á ákærða hafi verið þegar ákærði hafi slegið hann. Höggið hafi verið fast og sig hefði svimað „bara eitthvað smá“, en svo hafi hann náð að sleppa, en hann viti ekki hvernig. Hann hafi sloppið frá ákærða stuttu eftir að hann hafi slegið hann eða kýlt. Aðspurður um hvar í andlitið ákærði hafi kýlt hann eða slegið, kvað brotaþoli það hafa verið vinstra megin, en hann sé ekki alveg viss. Þegar hann hugsi til baka haldi hann að það hafi verið vinstra megin.
Aðspurður um hvað ákærði hafi gert við snjó í samskiptum þeirra tveggja kvað brotaþoli hann hafa tekið upp snjó og sett í andlitið á sér. Þetta hafi verið mikið af snjó og honum hafi þótt þetta slæmt. Ákærði hafi haldið sér þegar hann hafi troðið snjó í andlitið á honum, hann hafi ekki komist í burtu frá ákærða, hann hafi verið fastur og reynt að komst í burtu. Aðspurður um hvort hann muni hvar í andlit brotaþola ákærði hafi nuddað snjó kvað brotaþoli hann hafa nuddað snjó yfir allt andlitið. Aðspurður um hvort það hafi verið fast eða laust sagði brotaþoli að það hafi verið fast sums staðar en laust annars staðar, það hafi verið fast á enninu og vinstri kinninni. Aðspurður um hvar vinir hans hafi verið á meðan á þessu stóð kvaðst brotaþoli ekki vita það. Aðspurður um hvort þeir hafi séð eitthvað af þessu svaraði brotaþoli játandi. Vinir hans hafi örugglega staðið hjá [...], en vitnið D hafi farið í einhver hús að biðja um hjálp. Þegar borið var undir brotaþola að ákærði hefði borið fyrir dómi að vinir brotaþola hafi staðið dálítið langt í burtu, kannski 40 eða 50 metra í burtu, kvað brotaþoli það geta passað. Aðspurður um hvort hann hafi séð vini sína kvaðst hann hafa séð þá í einhverja smástund, hann hafi litið á þá, en svo hafi hann litið aftur. Aðspurður um hvort þeir hafi verið það langt í burtu að hann hafi séð þá illa eða hvort hann hafi séð þá vel, svaraði brotaþoli „ég sá þá svona eiginlega vel“, en „samt svona voru þeir náttúrulega aðeins minni“. Aðspurður kvað brotaþoli myrkur hafa verið úti. Illa hafi gengið hjá vini hans að fá aðstoð, fæstir hafi verið heima. Aðspurður um hvort hann hafi sagt vinum sínum sem verið hafi með honum frá því hvað ákærði hafi gert við hann svaraði brotaþoli neitandi. Aðspurður um hvort ákærði hafi gert eitthvað við eyru brotaþola kvaðst brotaþoli ekki muna eftir því. Aðspurður hvernig hann hafi náð sleppa frá ákærða með því að fara úr úlpunni, kvaðst brotaþoli hafa stigið ofan á tánna á ákærða „ég renndi frá svona, svo setti ég ermina bara inn og togaði mig bara svona úr“, peysan hafi líka farið eitthvað smá af, en hann hafi bara sett hana aftur á. Aðspurður kvaðst brotaþoli hafa verið í bol, peysu og úlpu. Þegar hann hafi sloppið frá ákærða hafi hann bara verið í bol. Úti hafi verið kalt og snjór. Aðspurður hvort hann hafi eitthvað verið ber að ofan lýsti brotaþoli því að bolurinn hafi farið upp þegar hann hafi farið úr úlpunni og hann hafi náð að „láta hann og svo hélt ég á peysunni bara“. Aðspurður kvaðst brotaþoli hafa farið heim til foreldra vitnanna D og F þegar hann hafi náð að sleppa frá ákærða.
Aðspurður um hvort brotaþoli hafi einhverja hugmynd um af hverju ákærði hafi gert allt það við hann sem hann hafi lýst fyrir dóminum, kvaðst brotaþoli ekki vita það. Hann hafi reyndar fundið út að ákærði hafi sagt að þetta hafi verið vegna þess að þeir hafi verið að kasta snjó í hús, en brotaþoli muni ekki hvort þeir hafi verið að gera það eða ekki. Brotaþoli kvaðst aðspurður ekki hafa kastað snjóboltum í hús, en kannski hafi vinir hans kastað snjó í eitt hús. Aðspurður kvað brotaþoli ákærða hafa hótað sér að kýla sig ef hann myndi reyna að fara. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa verið að stríða ákærða eða ergja hann. Hann kvaðst aðspurður ekki vita hvað hafi orðið um úlpuna sína, hann haldi að ákærði hafi tekið hana. Aðspurður um hvernig honum hafi liðið eftir að þetta hafi gerst kvaðst ákærði ekki vita það. Aðspurður um hvort hann hafi verið eitthvað hræddur eða skelkaður eftir árásina svarði brotaþoli „ekki eitthvað mikið“, en hann hafi reyndar verið hlæjandi þegar hann hafi komið heim því að ákærði hafi sagt: „ég lemja“. Aðspurður um hvort þetta hafi verið skemmtileg lífsreynsla eða leiðinleg kvað brotaþoli þetta hafa verið leiðinlega lífsreynslu. Aðspurður um hvort honum hafi verið illt einhvers staðar eða hann fundið einhvers staðar til eftir þetta, svaraði brotaþoli: „í bakinu og í hérna í kinninni“.
Vitnið D gaf skýrslu fyrir dómi að móður sinni viðstaddri. Þar bar hann að hann hafi ásamt brotaþola og vitnunum F og E verið „að labba“ þegar þeir hafi séð ákærða. Hann, F og E hafi farið aðra leið, en ákærði hafi spurt brotaþola hvort hann gæti hjálpað sér að finna son sinn. Því hafi brotaþoli neitað. Þá hafi ákærði gripið í úlpuna hans, haldið þannig í hann og labbað af stað með hann. Þeir hafi heyrt brotaþola öskra og séð ákærða setja snjó í andlit hans. Snjóinn hafi ákærði sett beint framan í brotaþola. Ákærði hafi haldið í peysu brotaþola og teygt höndina niður til að ná í snjó sem hann hafi sett í andlit brotaþola. D kvaðst svo hafa hlaupið til nágranna og beðið um að hringt yrði á lögregluna, en fengið það svar að þeir ættu að „redda þessu sjálfir“. Þá hafi hann bankað annars staðar, en þar hafi enginn verið heima. Brotaþoli hafi náð að klæða sig úr peysunni og svo hlaupið heim til D. Foreldrar sínir hafi sagt honum að fara með brotaþola heim til brotaþola. Þegar hann var spurður nánar um það þegar brotaþoli hafi komist burt frá ákærða kvað hann ákærða hafa klætt brotaþola úr úlpunni. Aðspurður kvaðst D hafa upplifað atburðarásina þannig að brotaþoli hafi viljað komast frá ákærða þegar hann hafi haldið honum. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð ákærða kýla brotaþola eða taka í eyrun hans. Hann kvaðst hafa séð ákærða ýta brotaþola á grindverk, það hafi gerst áður en ákærði hafi sett snjó í andlit brotaþola. Aðspurður kvaðst D viss um að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis á meðan á þessu stóð. Hann hafi séð það á ákærða og fundið af honum lykt. Þegar D var spurður nánar um hvers vegna ákærði hafi komið til strákanna kvað hann ákærða hafa komið til þeirra til að fá þá til að leita að syni sínum. Aðspurður kvað hann strákana ekki hafa kastað snjóboltum í hús og ákærða ekki hafa skammað strákana fyrir það. Aðspurður kvað hann ákærða ekki hafa hótað sér eða strákunum. Aðspurður kvaðst hann hafa séð ákærða áður, hann og sonur ákærða hafi verið vinir. Aðspurður kvað hann sér hafa liðið skringilega á meðan á þessu hafi staðið, hann hafi verið „smá“ hræddur. Honum hafi ekki staðið á sama um samskipti ákærða og brotaþola. Aðspurður um hvernig brotaþoli hafi komist frá ákærða, kvað hann brotaþola fyrst hafa haldið í peysuna, svo hafi hann beygt sig og náð að smeygja handleggjunum úr. Hann hafi fyrst sloppið úr úlpunni og svo úr peysunni. Hann hafi náð í peysuna og hlaupið með hana. Eftir það hafi hann verið „tæknilega séð á bolnum bara“ og þunnri peysu. Hann kvaðst ekki hafa verið of langt í burtu til að geta séð það sem hann hafi lýst fyrir dóminum. Það hafi verið dimmt úti, en þetta hafi gerst fyrir neðan ljósastaur. Hann hafi séð vel og greinilega það sem hann hafi séð.
Vitnið F gaf skýrslu fyrir dómi að móður sinni viðstaddri. Aðspurður um hvað hafi gerst á [...] 28. desember 2012 bar hann að hann hafi ásamt brotaþola, D og E verið að labba. Ákærði hafi verið að leita að syni sínum og spurt hvort þeir vissu um hann, en þeir hafi allir svarað honum neitandi. Svo hafi ákærði spurt brotaþola, sem hafi ekki svarað honum, og þá „tók hann bara í hann og labbaði burtu með hann“. Ákærði hafi ætlað að fá brotaþola til að hjálpa sér að leita að syni sínum. Aðspurður kvaðst F hafa heyrt ákærða biðja um það. Hann hafi tekið í brotaþola með því að grípa ofarlega í handlegginn á honum og labbað með hann upp [...]. Þegar ákærði hafi gripið í brotaþola, hafi hann fyrst um sinn ekki komist í burtu frá ákærða, en hann hafi reynt það. Ákærði hafi hent snjó í brotaþola, hann hafi tekið snjóinn og hent fast í andlitið á honum. Aðspurður kvaðst hann hvorki hafa séð ákærða kýla brotaþola eða taka í eyrun á honum. Aðspurður kvaðst hann hafa séð ákærða troða snjó framan í brotaþola og ýta honum á grindverk. Hann hafi ekki séð ákærða gera meira við brotaþola. Þegar hann var beðinn um að lýsa því nánar hvað gerst hafi við grindverkið kvað hann ákærða hafa ýtt brotaþola á grindverkið. Þegar hann var beðinn um að lýsa því nánar hvað hafi gerst þegar ákærði hafi troðið snjó framan í andlit brotaþola kvað hann ákærða hafa tekið snjó og nuddað í andlitið á honum, yfir allt andlitið. Ákærði hafi haldið brotaþola á meðan á því hafi staðið og brotaþoli hafi ekkert getað gert. Hann hafi komist í burtu „aðeins eftir á“ með því að klæða sig úr úlpunni. Brotaþoli hafi verið hræddur þegar hann hafi verið sloppinn í burtu. F kvaðst halda að brotaþoli hafi bara verið á bolnum eftir að hann hafi sloppið frá ákærða. Aðspurður kvað hann ákærða hafa verið undir áhrifum áfengis í umrætt sinn, hann viti það af því að það hafi sést á honum. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa fundið áfengislykt af honum, en hann sé sannfærður um að hann hafi verið fullur. Hann kvaðst telja að ákærði hafi verið „lítið fullur“. Aðspurður um hvað ákærði hafi viljað þeim kvað hann ákærða hafa verið að leita að syni sínum. Þeir strákarnir hafi ekki verið að kasta snjóboltum í hús, ákærði hafi ekki skammað þá eða talað um að þeir hafi verið að kasta snjóboltum í hús. Aðspurður kvað hann ákærða ekki hafa hótað þeim og það hafi ekki verið læti í ákærða. Hann kvaðst ekki þekkja ákærða og hann hafi ekki séð ákærða gera neitt þessu líkt áður. Aðspurður um hvað hann hafi sjálfur verið að gera á meðan á öllu þessu hafi staðið, kvaðst hann hafa verið að reyna að hjálpa, með því að segja ákærða að sleppa brotaþola „og svona“, hann hafi kallað það. Aðspurður um hvort hann hafi verið hræddur, svaraði hann „smá“. Hann kvaðst hafa séð allt það sem hann hafi séð mjög vel. Það hafi verið myrkur úti, en ljósastaur hafi gert það að verkum að hann hafi séð vel. Þetta hafi gerst nálægt ljósastaur.
Vitnið E gaf skýrslu fyrir dómi að móður sinni viðstaddri. Þegar hann var beðinn um að lýsa því sem hann hefði orðið vitni að á [...] 28. desember 2012 bar hann að ákærði hafi komið fullur og spurt hvar synir sínir væru. Hann hafi tekið brotaþola með sér frá [...] yfir að öðru húsi við [...]. Hann hafi haldið í úlpu brotaþola. Svo hafi E og strákarnir heyrt öskur, þeir hafi hlaupið til ákærða og brotaþola og þá hafi ákærði verið búinn að berja brotaþola í andlitið, taka hann úr úlpunni. Aðspurður um hverjir hafi verið á staðnum með E kvað hann það hafa verið brotaþola og vitnin F og D. Ákærði hafi alltaf verið spyrjandi hvar synir sínir væru. E kvaðst hafa gengið að ákærða og sagt honum að hætta og þá hafi ákærði sleppt brotaþola. Aðspurður kvaðst hann ekki muna hvað strákarnir hafi verið að gera á götunni áður en ákærði hafi komið, þeir hafi eitthvað verið að labba úti. Þegar hann var beðinn um að lýsa aðdraganda þess að ákærði hafi komið að þeim, kvað hann þetta oft gerast í [...], ákærði gangi oft fullur um bæinn og byrji að tala við fólk. Hann kvaðst oft áður hafa séð ákærða fullan og vera viss um að hann hafi verið fullur í umrætt sinn, hann hafi gengið þannig og talað. Hann kvaðst ekki hafa fundið það á lyktinni því að hann hafi ekki staðið við hliðina á ákærða, en ákærði hafi verið áberandi fullur. Aðspurður kvað E ákærða aldrei hafa talað um það við strákana að þeir hafi kastað snjóboltum í hús. Hann sagði þá ekki hafa verið að kasta snjóboltum í hús.
Aðspurður um hvort hann hafi séð ákærða kýla brotaþola svaraði hann játandi. Hann hafi ekki kýlt hann með krepptum hnefa, en slegið hann einhvern veginn með hnúunum. Hann hafi slegið hann í andlitið ofan við gagnaugað, „í ennið eiginlega“. Hann hafi séð þetta gerast nokkrum sinnum, þetta hafi gerst áður en E hafi komið á staðinn og svo eftir að hann hafi komið á staðinn. Svo hafi þeir farið til nágranna F og D á [...] og beiðið um hjálp, en nágrannarnir hafi ekkert gert. Aðspurður um hvort ákærði hafi haldið brotaþola kvað hann ákærða hafa haldið honum með vinstri hendinni og kýlt hann með hægri. Hann hafi haldið í úlpuna hans. Einhvern veginn hafi hann líka farið að því að taka brotaþola úr úlpunni. Þegar E var beðinn um að lýsa því hvernig ákærði hafi slegið brotaþola bar hann fingurgómana vanta á ákærða. Hann hafi verið með opinn lófa og með hálfkrepptan hnefa. Hann kvaðst hafa verið í svolítilli fjarlægð frá þessu þannig að það geti verið að hann hafi hitt hann í gagnaugað eða í ennið, en hann hafi séð að þetta hafi verið hálfkrepptur hnefi. Hann haldi að ákærði hafi slegið brotaþola þrisvar, en hann sé ekki viss. Hann sé ekki viss hvar höggin hafi lent á brotaþola, en einhvers staðar í kringum gagnaugað. Hann telji sig „100% á því“ að höggin hafi lent vinstra megin á brotaþola. Aðspurður um hvort hann hafi séð ákærða ýta brotaþola á grindverk svaraði E játandi. Aðspurður hvernig hann hafi lent svaraði hann: „Bakið eða sem sagt lappirnar fyrst bara og svo féll hann“. Hann kvaðst aðspurður ekki hafa séð ákærða taka í eyrun á brotaþola eða muna eftir að ákærði hafi tekið upp snjó. Aðspurður kvað hann brotaþola hafi reynt að komast í burtu þegar ákærði hafi haldið honum. Hann kvaðst halda að þetta hafi gerst við [...]. Brotaþoli hafi streist á móti og svo hlaupið í burtu þegar ákærði hafi sleppt honum. Það hafi verið mjög augljóst að brotaþoli hafi ekki viljað vera hjá ákærða. Brotaþoli hafi öskrað mikið og ákærði hafi líka gargað á móti. Hann muni ekki nákvæmlega hvernig brotaþoli hafi sloppið frá ákærða, hann minni að hann hafi tekið hann úr úlpunni og haldið í peysuna. Þegar hann hafi sloppið úr peysunni hafi hann hlaupið í burtu. Brotaþoli hafi verið á bolnum þegar hann hafi hlaupið í burtu. Aðspurður um hvort hann þekki ákærða kvaðst hann þekkja G, son ákærða, eitthvað aðeins. Aðspurður um hvort hann hafi verið hræddur eða smeykur á meðan á samskiptum ákærða og brotaþola hafi staðið svaraði hann neitandi. Hann hafi verið reiður á meðan á þessu hafi staðið.
Aðspurður um hvort hann muni eftir því að ákærði hafi hótað brotaþola eða þeim strákunum, kvaðst hann ekki muna eftir því sem ákærði hafi sagt við brotaþola. Hann muni bara eftir því að hann hafi spurt hann hvar synir hans væru. Þegar borið var undir E að þegar tekin hafi verið skýrsla af honum hjá lögreglu 22. október 2013, þá hafi hann borið um að ákærði hafi hótað að berja brotaþola og að drepa hann, kvaðst hann ekki muna eftir því. Aðspurður um hve langur tími hann telji að hafi liðið frá því að ákærði hafi komið að tala við þá strákana þar til brotaþoli hafi sloppið frá ákærða kvaðst hann telja að það hafi verið um tíu til fimmtán mínútur. Þegar borið var undir hann að hann hefði við skýrslutöku hjá lögreglu sagst halda að þetta hafi staðið í um hálftíma, kvað hann það sennilega vera of langt. Aðspurður um hve langt frá ákærða og brotaþola hann hafi staðið þegar þeir hafi togast á kvaðst hann hafa staðið um einni húsalengd frá þeim, svona tíu metrum. Úti hafi verið myrkur, þetta hafi verið að kvöldi til. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa átt í erfiðleikum með að sjá hvað hafi gerst, hann hafi séð allt greinilega, en muni ekki eftir „öllum atburðum sem gerðust þetta kvöld“. Aðspurður um hvort hann og brotaþoli hafi eitthvað spjallað um þetta kvaðst hann halda að hann hafi ekki talað við brotaþola í ár. Aðspurður um hvort lögregla hafi komið á staðinn og rætt við þá kvað hann lögreglu hafa komið heim til brotaþola, hann hafi verið á staðnum en ekki talað við lögregluna. Hann hafi ekki heyrt hvað brotaþoli hafi haft að segja.
Vitnið H gaf skýrslu fyrir dómi. Þar kvaðst hún aðspurð kannast við það að hafa gefið skýrslu hjá lögreglu vegna þessa máls, hún hafi gefið hana símleiðis. Aðspurð um það sem hún hafi orðið vitni að 28. desember 2012 kvaðst hún hafa verið úti í garði að taka myndir og heyrt öskur og læti. Af hljóðunum að dæma hafi verið eins og verið væri að misþyrma einhverjum eða pína einhvern. Hún hafi farið inn, henni hafi ekki staðið á sama þar sem hún hafi verið ein heima með börn, hljóðin hafi verið ógnvænleg. Þá hafi vitnið D komið hlaupandi og bankað á hurðina hjá henni og beðið hana að hjálpa sér, því að það væri maður að lemja vin hans ofar í götunni. Hún hafi ekki séð þau atvik, hún hafi bara heyrt hljóðin. Hún hafi ekki talið sig geta gert neitt sjálf með fullt af börnum heima hjá sér. Hún hafi ekki vitað við hvað barnið hafi átt að etja, hún hafi sagt D frá því. Svo hafi hún séð þegar hann hafi verið að labba út af lóðinni að hann byrjaði að kalla og öskra á einhvern sem hafi komið ofar úr götunni: „Hlauptu, hlauptu, hlauptu, fljótur, fljótur, fljótur, hlauptu“. Þann hafi hún séð þegar hann hafi farið framhjá henni, hann hafi verið klæðalítill, ber að ofan, hlaupandi eftir götunni. D hafi hvatt hann óspart áfram, en hún hafi ekki séð neinn á eftir honum. Hún kvaðst ekki vita nafnið á drengnum sem hafi hlaupið eftir götunni, en hún viti hvar hann eigi heima. Hún viti ekki hvort hann eða bróðir hans heiti [...], en hann búi eða hafi búið á [...]. Hún viti ekki hvað móðir hans heiti og þekki ekki fjölskylduhagi drengsins. Aðspurð um hvort verið geti að viðkomandi hafi verið í bol, svaraði hún neitandi. Hún telji að hann hafi verið ber að ofan í kuldanum. Aðspurð um þessi læti, kvaðst hún hafa heyrt öskur, angistaróp í barninu. Hún hafi ekki séð ákærða.
Vitnið C lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi. Þar kvaðst hann minna að tilkynningin til lögreglu hefði verið sú að ölvaður [...] hefði ráðist á strák og stolið af honum úlpu. Hann hafi farið ásamt lögreglumanninum J til [...] að heimili brotaþola og móður hans til að ræða við brotaþola, móður hans og fleiri drengi, vini brotaþola. Mikil geðshræring hafi verið á meðal þeirra þegar rætt hafi verið við þau. Erfiðlega hafi gengið að fá upp hvað hafi nákvæmlega gerst, en alla vega ljóst að eitthvað hafi gerst. Miðað við lýsingar og upplýsingar frá strákunum hafi mjög fljótt verið ljóst hver hafi verið að verki. Leitað hafi verið að ákærða, en hann ekki fundist fljótlega. C hafi hitt son ákærða rétt við hús ákærða og spurt hann um föður hans. Sonurinn hafi tjáð honum að hann héldi að ákærði væri heima og þeir farið saman heim til ákærða. Lögreglumenn hafi beðið í gangi heimilisins og ákærði hafi komið til þeirra. Þeir hafi ætlað að fá upplýsingar frá ákærða um hvað hefði gerst, en ákærði hafi verið mjög „aggressífur“ og æstur og gert sig líklegan til að ráðast á lögreglumennina. Því hafi C tekið ákvörðun um að handtaka ákærða, en það hafi endað í hálfgerðum slagsmálum við ákærða. Hann hafi svo verið færður í fangaklefa og í framhaldi af því hafi aðrir lögreglumenn farið og fengið úlpu brotaþola, sem verið hafi á heimili ákærða. Henni hafi verið skilað.
Aðspurður kvaðst C ekki muna hvort allir strákarnir hafi verið á vettvangi þegar lögregla hafi komið á heimili brotaþola. Þar hafi að minnsta kosti verið tveir eða þrír strákar, en hann kvaðst ekki muna hvaða strákar hafi verið þar ásamt brotaþola og móður hans. Brotaþoli hafi verið skelkaður og það hafi sést roði á honum. Móðir hans hafi verið í miklu uppnámi og sagt að hann hafi komið heim í öfugri peysu og ekki í úlpunni sinni. Strákarnir hafi verið „gjammandi ofan í hvern annan“ um hvað hefði gerst og í upphafi hafi verið erfitt að átta sig á því hvað hafi gerst. Þeir hafi verið í töluverðu uppnámi. Aðspurður um hvort hann hafi séð áverka á brotaþola kvaðst hann hafa séð roða í andlitinu. Hann kvaðst ekki muna hvar í andlitinu roðinn hafi verið, hann verði að vísa um það til þess sem segi í frumskýrslu lögreglu, það sem hann hafi sagt þar hljóti að vera rétt. Aðspurður um andlegt ástand ákærða kvað hann ákærða greinilega hafa verið undir áhrifum áfengis og mjög æstan. C hafi aldrei komist að til að spyrja ákærða hvað hafi gerst. Hann hafi komið hlaupandi, sett andlitið óþægilega nálægt C og honum hafi fundist ákærði gera sig líklegan til að ráðast á lögreglumennina. Þegar C var kynnt að fyrir dómi hafi ákærði borið um að lögreglumennirnir hafi bara vaðið inn og handtekið sig kvað hann það vera rangt. Sonur ákærða hafi boðið þeim inn í gang á heimili ákærða til að ræða við ákærða. Lögreglumennirnir hafi reynt að útskýra fyrir ákærða hvers vegna lögreglan væri þarna komin, en það hafi ekki gengið sökum æsings.
Vitnið I, læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, gaf skýrslu fyrir dómi gegnum síma. Hún kvaðst kannast við að hafa meðhöndlað brotaþola eftir að hann hafi orðið fyrir ætlaðri líkamsárás 28. desember 2012. Og ritað fyrirliggjandi læknisvottorð. Hún kvað brotaþola hafa komið í fylgd móður sinnar að kvöldi 28. desember 2012. Hann hafi haft roða vinstra megin á kinnbeini fyrir framan eyra. Ekki hafi verið rof á húð eða greinanlegt beinbrot við skoðun. Annað við skoðun hafi verið án athugasemda. Hún kvað brotaþola hafi virkað hræddan, hann hafi andað ört og virkað skelkaður.
III
Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa 28. desember 2012, skammt frá [...] við [...] í [...], ráðist á brotaþola og sýnt honum yfirgang og ruddalega framkomu. Fyrst með því að grípa í hann, draga hann um gangstíg og henda honum að grindverki, síðan tekið hann upp með því að halda í bæði eyru hans, taka snjó og nudda í andlit hans, því næst kýlt hann með krepptum hnefa hægri handar í vinstri kinn, en brotaþoli hafi náð að komast í burtu frá ákærða stuttu seinna með því að klæða sig úr úlpu, peysu og bol sem ákærði hafi haldið í. Afleiðingar árásarinnar hafi verið þær að brotaþola hafi svimað eftir hnefahögg ákærða, verið skelkaður og hlotið roða á vinstra kinnbeini framan við eyra.
Undir rekstri málsins hefur verið fallið frá því að því ákæruatriði að ákærði hafi tekið brotaþola upp með því að halda í bæði eyru hans. Ákærði hefur viðurkennt að hafa nuddað snjó í andlit brotaþola og gripið í hann, en neitað sakargiftum að öðru leyti. Framburður ákærða hefur tekið breytingum við meðferð málsins fyrir dómi og þá þykir leitt í ljós að ákærði var undir áhrifum áfengis þegar atvik málsins áttu sér stað. Meta verður framburð ákærða með hliðsjón af framangreindu og þykir hann ekki trúverðugur að öllu leyti. Vitnin F, D, E og brotaþoli eru allir ungir að árum og báru þeir í öllum aðalatriðum á sama veg hjá lögreglu og fyrir dómi. Þó kom fram hjá brotaþola og vitninu E fyrir dómi að þeir myndu ekki atburðina að kvöldi 28. desember 2012 vel að öllu leyti og lítilsháttar misræmis gætti um aukaatriði atburðarásarinnar hjá vitninu E. Með hliðsjón af öðrum gögnum málsins, þykir framangreint þó ekki draga úr trúverðugleika framburðar brotaþola og vitnisins E.
Með vísan til þess sem ákærði, brotaþoli og vitnin D og F hafa borið fyrir dómi er ljóst að ákærði tók í umrætt sinn snjó og nuddaði í andlit brotaþola. Þá er að sama skapi ljóst, samkvæmt lýsingum ákærða, brotaþola, D, F og E fyrir dómi, að samskipti ákærða og brotaþola hafi hafist á því að ákærði hafi gripið í brotaþola þegar ákærði hafi viljað fá brotaþola til að hjálpa sér að leita að syni sínum. Ákærði hefur neitað því að hafa dregið brotaþola með sér eftir gangstéttinni og hent honum upp að grindverki, en brotaþoli, D, F og E hafa allir borið efnislega á sama veg um að ákærði hafi haldið brotaþola, brotaþoli hafi ekki viljað vera hjá honum og reynt að komst í burtu. Ákærði hafi svo togað brotaþola með sér og gengið þannig með hann. Þegar brotaþoli var beðinn um að lýsa því hvernig það hafi gerst að ákærði hafi haldið í hann og labbað með hann sagði brotaþoli þá hafa verið á gangstéttinni. Ákærði hafi haldið í sig allan tímann frá þeim stað sem hann hafi upphaflega gripið í hann og þangað til hann hafi sloppið frá ákærða. Hann hafi togað sig með sér og að hann hafi ekki getað sloppið frá ákærða. Framangreind háttsemi ákærða fellur að mati dómsins undir þá verknaðarlýsingu í ákæru að ákærði hafi dregið brotaþola um gangstíginn. Þá báru brotaþoli og hinir drengirnir allir um að ákærði hafi hent brotaþola eða eftir atvikum ýtt honum upp að grindverki. Því þykir fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi dregið brotaþola með sér um gangstíginn og hent honum upp að grindverki líkt og í ákæru greinir.
Ákærði hefur neitað að hafa kýlt brotaþola og valdið honum þeim áverka í andliti sem lýst er í ákæru. Fyrir dómi kvaðst ákærði muna vel eftir atvikum þennan dag þó svo að hann hafi sagt það vel geta verið að hann hafi verið búinn að fá sér einn bjór um klukkan sex, en ekki meira en það. Eftir að hann hafi komið heim hafi hann fengið sér þrjá drykki, en ekki verið drukkinn. Þegar borið var undir ákærða fyrir dómi að brotaþoli og vitnið E hafi borið um það hjá lögreglu að ákærði hafi kýlt brotaþola í andlitið kvað ákærði það ósatt. Þegar borið var undir hann að í fyrirliggjandi læknisvottorði kæmi fram að brotaþoli hafi verið með roða eftir áverka á vinstra kinnbeini, framan við eyra, kvaðst ákærði ekki hafa skýringar á því. Þegar ákærði var spurður að því hvort það gæti verið að áverkinn stafaði af því að hann hafi nuddað snjó í andlit brotaþola kvaðst hann ekki hafa nuddað svo fast. Hann haldi að verið geti að brotaþoli hafi meitt sig þegar hann hafi sloppið úr úlpunni.
Fyrir dómi báru brotaþoli, F, D og E allir um að ákærði hafi verið ölvaður þegar hann hafi ráðist á brotaþola. Samkvæmt því sem segir í frumskýrslu lögreglu bar brotaþoli, þegar lögregla kom að heimili hans umrætt kvöld, að ákærði hafi kýlt sig með krepptum hnefa vinstra megin í andlitið. Þegar hann mætti til skýrslutöku hjá lögreglu 4. janúar 2013 bar hann á sama veg. Hvort tveggja við skýrslugjöf hjá lögreglu og fyrir dómi bar brotaþoli um að ákærði hafi sagt: „Ég lemja“, áður en hann hafi veitt honum högg. Þegar brotaþoli gaf vitnaskýrslu við aðalmeðferð málsins kvaðst hann ekki muna hvernig höndin á ákærða hafi verið þegar ákærði hafi slegið hann í kinnina. Höggið hafi verið fast og sig hefði svimað „bara eitthvað smá“. Hann hafi sloppið frá ákærða stuttu eftir að ákærði hafi slegið hann eða kýlt. Aðspurður um hvar í andlitið ákærði hafi kýlt hann eða slegið, kvaðst hann minna að það hafi verið vinstra megin. Vitnið E bar hjá lögreglu um að ákærði hafi kýlt hann með krepptum hnefa hægri handar í hægra gagnauga. Fyrir dómi bar hann um að ákærði hafi slegið brotaþola með hálfkrepptum hnefa vinstra megin í andlitið. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af því sem segir í fyrirliggjandi læknisvottorði og öðrum gögnum málsins, þykir leitt í ljós, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi veitt brotaþola hægri handar högg í vinstri kinn brotaþola í umrætt sinn, en ósannað þykir hvernig ákærði beitti hægri hönd sinni við þá atlögu. Framburður brotaþola um að sig hafi svimað við það þykir trúverðugur og er ekki dreginn í efa. Af framburði brotaþola og annarra vitna sem um það báru fyrir dómi og með hliðsjón af öðrum gögnum málsins, verður ráðið að brotaþoli hafi orðið skelkaður af árás ákærða. Að mati dómsins þykir að sama skapi hafið yfir skynsamlegan vafa, að brotaþoli hafi vegna árásar ákærða hlotið roða á vinstra kinnbein framan við eyra, hvort sem þær afleiðingar hafi stafað af hægri handar höggi ákærða eða öðrum þáttum árásar hans á brotaþola. Í þessu sambandi ber að líta til þess að brotaþoli leitaði þetta sama kvöld til læknis og var þar greindur með þann áverka í andliti sem lýst er í ákæru.
Telja verður að með atlögu sinni að brotaþola hafi ákærði sýnt af sér yfirgang og ruddalega framkomu gagnvart brotaþola sem aðeins var barn að aldri. Þá þykir sannað með framburði ákærða og vitna fyrir dómi, að brotaþoli hafi sloppið frá ákærða með þeim hætti sem greinir í ákæru, að því frátöldu að ósannað er að brotaþoli hafi klætt sig úr bolnum. Með vísan til framangreinds, játningar ákærða að öðru leyti og annarra gagna málsins, þykir sannað að ákærði hafi haft í frammi háttsemi þá sem greinir í ákæru, að teknu tilliti til þeirrar breytingar sem gerð hefur verið á ákærunni undir rekstri málsins og að því frátöldu að ósannað þykir að ákærði hafi kýlt brotaþola með krepptum hnefa í umrætt sinn. Þá þykir sannað að afleiðingar árásarinnar hafi verið þær sem lýst er í ákæru. Er háttsemin réttilega heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, en rétt þykir að heimfæra háttsemina undir 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 í stað 1. mgr. þeirrar greinar, enda þykir vörnum ákærða ekki hafa orðið áfátt af þeim sökum. Verður ákærði sakfelldur fyrir háttsemi sína og gerð refsing fyrir.
IV
Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu sem áhrif hefur við ákvörðun refsingar nú. Ákærði hefur játað brot sín að hluta, en líta verður til þess að árás ákærða beindist að tólf ára gömlu barni er það virt ákærða til refsiþyngingar, sbr. 1. og 3. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til framangreinds og með hliðsjón af 77. gr. sömu laga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi tvo mánuði, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingar hans og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 skal ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, sem er samtals 555.100 krónur. Um er að ræða 28.000 krónur vegna fyrirliggjandi læknisvottorðs, 313.750 krónur í málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Unnars Steins Bjarndal héraðsdómslögmanns, og 213.350 krónur í þóknun skipaðs réttargæslumanns, Súsönnu Bjargar Fróðadóttur héraðsdómslögmanns. Hefur þá í báðum tilvikum verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
V
Í málinu gerir Súsanna Björg Fróðadóttir, skipaður réttargæslumaður brotaþola, miskabótakröfu á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta. Bótakrafan var birt ákærða á dómþingi 25. mars síðastliðinn. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum og beindist brot hans gegn tólf ára gömlu barni. Hefur ákærði með háttsemi sinni valdið brotaþola miska og þjáningum og verður hann dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur ásamt vöxtum. Samkvæmt því sem fram kemur í bótakröfu, sem er á meðal gagna málsins og hefur verið tekin upp í framhaldsákæru, er krafist vaxta af höfuðstól samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 31. maí 2013, en í munnlegum málflutningi við aðalmeðferð var eins og fram er komið krafist vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga af höfuðstól frá 28. desember 2012, þeim degi sem umrædd árás átti sér stað. Ákærði hefur hafnað bótakröfunni og krafist sýknu af henni, og til vara að hún verði lækkuð. Við munnlegan málflutning var ekki mótmælt nýjum upphafsdegi vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga af hálfu ákærða. Eftir framangreindu verður ákærði dæmdur til að greiða 200.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum eins og tilgreindir eru í dómsorði.
Hákon Þorsteinsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Adam Mazurek, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 555.100 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans, Unnars Steins Bjarndal héraðsdómslögmanns, 313.750 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Súsönnu Bjargar Fróðadóttur héraðsdómslögmanns, 213.350 krónur.
Ákærði greiði B, fyrir hönd ólögráða sonar hennar, A, 200.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. desember 2012 til 25. apríl 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.