Hæstiréttur íslands
Mál nr. 202/2010
Lykilorð
- Líkamsárás
- Sönnun
- Sakarkostnaður
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 2010. |
|
Nr. 202/2010. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) (Sveinn Andri Sveinsson hrl. f.h. brotaþola) |
Líkamsárás. Sönnun. Sakarkostnaður. Sératkvæði.
X var ákærður fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa slegið A í höfuðið með glasi í höfuðið og valdið henni nefbroti og nánar tilgreindum áverkum. Óumdeilt var í málinu að A sparkaði milli fóta ákærða í aðdraganda þess að hún fékk glasið í höfuðið. Til álita kom hvort lögfull sönnun væri fram komin um að ákærði hefði haft ásetning til líkamsárásar umrætt sinn. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að af forsendum héraðsdóms virtist mega ráða að sönnun um ásetning ákærða væri byggð á framburði A, sem taldi hann hafa haft ásetning til verknaðarins, um leið og hafnað væri skoðun tveggja vitna af öndverðum meiði um sama efni. Þessi sönnunarfærsla um huglæga afstöðu ákærða til verknaðarins fengist ekki staðist. Skorður 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, við því að Hæstiréttur endurmeti niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, gætu ekki átt við um mat á framburði sem alls ekki væri til þess fallinn að ráða úrslitum um sök sakaðs manns, eins og hér væri raunin. Var ákærði því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. mars 2010. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu og refsingu ákærða.
Ákærði krefst sýknu af ákæru og þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, en hún ella lækkuð.
Bótakrefjandi, A, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar til 12. júlí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar héraðsdóms um skaðabætur sér til handa.
Ákæruvaldið unir við þá niðurstöðu í hinum áfrýjaða dómi að lagt skuli til grundvallar við úrlausn málsins að A hafi sparkað í klof ákærða, áður en hún fékk bjórglasið úr hendi hans í andlit sitt.
Ákærði hefur ekki mótmælt því að glasið hafi lent í andliti stúlkunnar og valdið þeim áverkum sem í ákæru greinir. Hann hefur hins vegar ekki viljað kannast við að ásetningur hans hafi staðið til þess að meiða hana og reisir sýknukröfu sína á því að ekki liggi fyrir sönnun um slíkan ásetning.
Samkvæmt framansögðu eru þau meginatriði málsatvika nú óumdeild, að A hafi sparkað milli fóta ákærða og strax í kjölfarið fengið glasið í andlit sitt úr hendi hans. Deilan lýtur að því, hvort lögfull sönnun sé fram komin um að ákærði hafi haft ásetning til líkamsárásar á stúlkuna.
Ekki er fyrirfram unnt að hafna því að ákærði kunni að hafa brugðist ósjálfrátt við sparki stúlkunnar með þeim hætti að slæma bjórglasinu, sem hann hélt í hendi sér, í andlit hennar, það er án þess að hafa haft ásetning til þess að beina því þangað og meiða hana. Af forsendum héraðsdóms, sem þó eru ekki að öllu leyti skýrar um þetta, virðist mega ráða að sönnun um ásetning ákærða sé byggð á framburði stúlkunnar, sem taldi hann hafa haft ásetning til verknaðarins, um leið og hafnað er skoðun tveggja vitna á því sama, en þau höfðu látið í ljós annað álit á þessu. Þessi aðferð við sönnunarfærslu um huglæga afstöðu ákærða til verknaðarins fær ekki staðist. Slík sönnunarfærsla getur ekki byggst á skoðun þess sem fyrir áverka verður á hugarástandi ákærða. Þegar reistar eru skorður í 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála við því að Hæstiréttur endurmeti niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, getur það ekki átt við um mat á framburði sem alls ekki er til þess fallinn að geta ráðið úrslitum um sök sakaðs manns, eins og hér er raunin. Með því að ekki hefur verið færð fram í málinu sönnun um ásetning ákærða til þess verknaðar sem honum er gefinn að sök, verður hann sýknaður af ákærunni og bótakröfu A vísað frá héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.
Allur sakarkostnaður málsins skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin voru fyrir rekstur málsins í héraði með hinum áfrýjaða dómi og ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti fyrir rekstur þess fyrir Hæstarétti í dómsorði. Samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins um sakarkostnað telst kostnaður vegna skýrslu Þórunnar Finnsdóttur sálfræðings, 95.000 krónur til sakarkostnaðar.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.
Bótakröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn sá sakarkostnaður sem ákveðinn var í héraði og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Sératkvæði
Viðars Más Matthíassonar
Niðurstaða héraðsdóms um atvik máls og huglæga afstöðu ákærða, og þar með um sakfellingu hans, er reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna, sem gáfu skýrslu fyrir dómi. Meðal vitnanna var brotaþoli, A. Ekki eru í máli þessu forsendur til að endurskoða þetta mat héraðsdóms, sbr. 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ekki eru leiddar líkur að því að þetta mat héraðsdóms sé rangt og eru skýringar ákærða á því hvernig sú atburðarrás varð að stórt bjórglas, sem hann var með í höndunum, lenti með afli í andliti brotaþola og olli því líkamstjóni, sem raun varð á, fráleitar. Er þess vegna ekki ástæða til að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu til nýrrar meðferðar, sbr. 3. mgr. 208. gr. laganna. Ég tel því að staðfesta eigi hinn áfrýjaða dóm um sakfellingu ákærða fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og tel, með vísan til 3. mgr. 218. gr. b í sömu lögum, að refsing hans sé hæfilega ákveðin í héraðsdómi og eigi að vera bundin skilorði svo sem þar er ákveðið.
Við líkamsárás ákærða nefbrotnaði brotaþoli og hlaut skurð á nefrót, sem þurfti að sauma svo og mar í andliti. Hún hefur þurft á meðhöndlun lækna að halda vegna þessara meiðsla og meðal annars gengist undir lýtaaðgerð. Þá hefur hún leitað til sálfræðings og liggur skýrsla hans fyrir í málinu. Með tilliti til afleiðinga líkamsárásarinnar fyrir brotaþola tel ég miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.
Ég fellst á úrlausn héraðsdóms um lögmannskostnað og sakarkostnað að því viðbættu að ég tel að kostnaður við skýrslu Þórunnar Finnsdóttur sálfræðings, 1. september 2009, eigi að teljast til sakarkostnaðar í héraði.
Ég tel að ákærði eigi að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, svo og bætur til brotaþola vegna kostnaðar við að halda kröfu sinni fram fyrir Hæstarétti, sem ég tel hæfilega ákveðnar 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. febrúar 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. f.m., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 10. júlí 2009, á hendur X, kt. [...], nú til heimilis að [...] í Reykjavík.
Ákærða er gefin að sök „sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 1. janúar 2009, á skemmtistaðnum Yello, Hafnargötu 28, Reykjanesbæ, slegið fyrrum kærustu sína, A, með glasi í andlitið með þeim afleiðingum að hún nefbrotnaði og fékk skurði á nefið.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.“
Í ákærunni er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þar er jafnframt getið bótakröfu, sem A gerir á hendur ákærða. Krefst hún þess að ákærða verði gert að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 1.600.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar til 12. júlí 2009, en dráttavöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ennfremur er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað vegna bótakröfunnar, þar með talda þóknun réttargæslumanns við lögreglurannsókn.
Ákærði krefst sýknu af refsikröfu og frávísunar á bótakröfu. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði.
I
Lögreglan á Suðurnesjum var kvödd að veitingastaðnum Yello við Hafnargötu í Reykjanesbæ að morgni nýársdags 2009 vegna líkamsárásar sem þar á að hafa átt sér stað. Segir í lögregluskýrslu að við komu lögreglumanna á vettvang hafi þeim verið tjáð að ákærði í málinu, X, hefði kastað glasi í andlit kærustu sinnar A. Mikið hafi blætt úr andliti A og hafi hún verið flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar. Ákærði, sem hafi verið talsvert ölvaður og vart viðræðuhæfur sökum „derrings“, hafi verið færður á lögreglustöð og vistaður þar í fangaklefa. Þá kemur fram í lögregluskýrslu að rætt hafi verið við tvo menn sem hefðu gefið sig fram við lögreglu sem vitni. Er haft eftir öðrum þeirra, B, að A hafi ýtt við ákærða og slegið hann einu sinni í andlitið. Ákærði hafi í kjölfar þess að A sló hann hent bjórglasi í andlit hennar. Hinn maðurinn, C, hafi staðfest lýsingu B en bætt því við að áður en ákærði kastaði glasinu hafi A sparkað í kynfæri hans. Loks er í þessari frumskýrslu lögreglu haft eftir ákærða að hann hafi verið að rífast við A, hún hafi sparkað í kynfæri hans og hann þá skvett úr bjórglasi sem hann hélt á og síðan kastað glasinu frá sér. Hafi glasið lent í öðru glasi, sem farið hafi í andlit A.
Samkvæmt vottorði læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja leiddi skoðun sem A gekkst undir þar að morgni nýársdags 2009 í ljós að hún var nefbrotin. Þá var hún með tvo skurði á nefi eða við það.
Við skýrslugjöf hjá lögreglu 9. janúar 2009 var A afdráttarlaus í þeim framburði sínum að ákærði hafi slegið hana í andlitið með bjórglasi og að um stórt og þykkt glas hafi verið að ræða. Áður hafi hún sparkað ákærða í lærið.
Í vitnisburði sínum hjá lögreglu 18. maí 2009 bar C á þann veg um atvik að ákærði hafi hent 500 ml bjórglasi í andlit A í kjölfar þess að hún sparkaði í punginn á honum. Hafi glasið brotnað þegar það lenti í andliti A. Er meðal annars bókað eftir honum varðandi þetta að ákærði hafi „haldið glasinu í hægri hendi, svona eðlilega, svo þegar hann fékk höggið hafi hann kastað glasinu framan í A, hann hafi ekki slegið hana með því heldur kastað því“. Hafi höggið verið það mikið að glasið hafi að öllum líkindum brotnað á andliti A, hún hafi fengið skurði í andlitið sem bent hefðu til þess. Inntur eftir því hvort honum hafi fundist það vera ásetningur ákærða að henda glasinu framan í A kvaðst C halda að ákærði hafi ekki ætlað að gera það og kvaðst halda „að hann hafi gert þetta út af sársaukanum sem fylgdi því að fá spark í punginn“. Þá er haft eftir vitninu að ákærði og A hefðu bæði sett sig í samband við vitnið og beðið það að um vitna sér í hag. Þannig hafi A beðið vitnið um að segja ekki frá því að hún hefði sparkað í ákærða og ákærði hafi farið þess á leit við vitnið að það skýrði svo frá að hún hefði ítrekað sparkað í hann áður en hann henti glasinu. Fram kom hjá C að hann hafi verið undir áhrifum áfengis í umrætt sinn.
Á meðal gagna málsins er skýrsla sem lögreglumaður skráði eftir B eftir að hafa rætt við hann í síma 15. maí 2009. Er þar haft eftir honum að ákærði og A hafi verið að rífast og hafi hún sparkað nokkrum sinnum í ákærða, meðal annars í klofið. Vitnið hafi þegar hér var komið sögu snúið baki í þau og því ekki séð það sem síðar gerðist þeirra í milli.
Í skýrslu sem tekin var af ákærða laust fyrir hádegi 1. janúar 2009 lýsti hann samskiptum sínum og A þessa nótt og aðdraganda þess að bjórglas lenti í andliti hennar. Þau hefðu rifist og ákærði meðal annars tjáð henni að ekkert væri lengur á milli þeirra. Þá hafi hann haft á orði að hún hefði komið til Keflavíkur þessa nótt beinlínis í þeim tilgangi að eyðileggja kvöldið fyrir honum. Um atvik í kjölfar þessa er eftirfarandi bókað eftir honum: „X segist hafa verið með stórt bjórglas í hendi en hann hafi verið nýbúinn að kaupa sér stóran 500 ml bjór á barnum og segist hafa haldið báðum höndum fyrir ofan höfuðið á sér og verið með bjórinn í annarri hendinni. [ ] X segir að A hafi sparkað í klofið á sér en á meðan hafi hún haldið í jakka hans að framanverðu og sparkað í klofið á sér með hælnum því hún hafi verið í háhæluðum skóm. X segist þá hafa misst bjórglasið á A sem hafi farið í andlitið á henni. X segist hafa dottið niður af sársauka en A hafi farið frá og haldið fyrir andlitið á sér.“ Við skýrslugjöf hjá lögreglu 12. júní 2009 hélt ákærði sig við þennan framburð sinn og kvaðst aðspurður ekki minnast þess að hafa látið þau orð falla um aðdraganda þess að A fékk bjórglas í andlitið sem höfð eru eftir honum í frumskýrslu lögreglu og áður er vitnað til.
II
Ákærði skýrði svo frá við dómsmeðferð málsins að hann hafi umrædda nýársnótt verið staddur á skemmtistaðnum Yello í Reykjanesbæ, þar sem hann hafi hitt fyrrum kærustu sína, A. Hún hafi farið að rífast við hann. Þau hefðu staðið á dansgólfinu og ákærði haldið á bjórglasi. Hafi hún ráðist á hann og slegið hann. Kvaðst ákærði þá hafa spurt hana hvað hún væri að gera og sagt henni að láta sig í friði og beðið hana um að fara. Þá hafi hún rifið í bol sem hann var klæddur í og sparkað þrisvar sinnum í hann. Við spörkin hafi hann sett hendurnar upp fyrir haus. Þriðja sparkið hafi lent í klofi hans. Viðbrögð hans við því sparki hafi verið þau að snúa sér undan og við það hafi glasið þeyst úr hendi hans og lent í andlitinu á henni. Hann hafi ekki slegið hana með glasinu og ekki heldur kastað því í hana, heldur hafi hann misst það þegar hann sneri upp á líkama sinn í kjölfar þess að A sparkaði í klofið á honum. Í öllu falli hafi ásetningur hans ekki staðið til þess að henda glasinu í andlitið á henni. Fram kom hjá ákærða að glasið hafi verið fullt þegar þetta gerðist, en hann hafi verið nýbúinn að kaupa sér bjór. Þá kom fram hjá ákærða að eftir að þetta atvik átti sér stað hafi A flutt inn til hans og búið hjá honum fram til apríl 2009. Þá hafi hann greitt fyrir læknisþjónustu og lyf sem hún þurfti á að halda í kjölfar atviksins. Hann hafi ekki litið svo á að þau hefðu tekið upp samband að nýju, en hann hafi viljað leggja sitt af mörkum til að aðstoða hana þar sem hann hafi ekki vitað hvort hún fengi einhverja aðstoð annars staðar frá. Þau hafi svo rætt um það að hún myndi draga kæru til baka. Hún hafi hins vegar lagt fram kæru þegar hann hafi hætt að „þjóna“ henni. Þegar ekki hafi verið gert allt fyrir hana og henni verið neitað um eitthvað þá hafi hún hótað honum með þessu máli og að hún færi með það alla leið. Aðspurður um það hvort hægt væri að túlka greiðslu hans á lækniskostnaði hennar að einhverju leyti sem viðurkenningu á sök kvað ákærði að honum fyndist hann að hluta til ábyrgur þó hann hefði ekki slegið hana með glasinu eða kastað því vísvitandi í hana.
Í vitnisburði sínum fyrir dómi skýrði A svo frá að hún og ákærði hefðu byrjað að rífast um leið og fundum þeirra bar saman á veitingastaðnum Yello hina umræddu nótt. Hann hafi verið mjög dónalegur við hana og kallað hana ýmsum ónöfnum fyrir framan vini sína. Þegar kunningi ákærða hafi komið til þeirra og óskað henni gleðilegs árs hafi ákærði ýtt viðkomandi upp að henni og viðhaft dónaleg orð í hennar garð. Hún hafi þá gefið ákærða kinnhest. Þau hefðu svo haldið áfram að rífast og hann viðhaft niðrandi orð um hana. Kvaðst hún hafa sparkað einu sinni í hné eða læri hans í kjölfar þess að hann hafi hrint henni eða stuggað með öðrum hætti við henni. Hún þvertók hins vegar fyrir að hafa sparkað í klofið í ákærða. Eftir þetta hafi ákærði hreytt einhverju út úr sér og svo kýlt hana með glasinu. Aðspurð um það hvort mögulegt væri að ákærði hefði misst glasið úr hendi sér og það lent við það á nefi hennar svaraði hún því neitandi og kvaðst hún ekki skilja hvernig hann gæti haldið slíku fram. Ákærði hafi haldið á glasinu, miðað á andlit hennar og kýlt hana með því. Kvaðst hún nánar aðspurð ekki vera í vafa um að ákærði hefði gert þetta viljandi. Kvaðst hún muna eftir hendinni og glasinu koma að sér, en þó gæti verið að hann hafi kastað því þegar hendi hans hafi verið ca. 10 cm frá andliti hennar.
Vitnið C kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafa séð A sparka í punginn á ákærða. Ákærði hafi þá haldið á bjórglasi og það farið úr hendi hans og í andlit A. Hafi ákærði haldið glasinu í hægri hendi í brjósthæð og það kastast í A í kjölfar þess að hún sparkaði í ákærða. Kvaðst C hafa fengið yfir sig bjór úr glasinu. Eftir sparkið hafi ákærði hnigið niður. Blætt hafi úr andliti A. Nánar aðspurður um þetta skýrði C svo frá að ákærði hafi kastað eða „vippað“ glasinu frá sér og að það hafi hann gert strax eftir að A sparkaði í hann, þetta hafi allt gerst í sömu andránni. Hann var þó á því að ákærði hafi ekki kastað glasinu vísvitandi í andlit A, ekki hafi að því leyti verið um viljaverk að ræða, en hann hafi viljandi kastað glasinu frá sér. Var vitnisburður C í fyrstu afdráttarlaus um þetta, en svar sem hann síðar gaf við spurningu verjanda fól það í sér að hann tengi saman þennan verknað ákærða og þann sársauka sem hann hafi örugglega fundið fyrir við sparkið. Aðspurður um það hvort ákærði og A hafi reynt að hafa áhrif á það með hvaða hætti hann skýrði frá málsatvikum svaraði hann því til að A hafi reynt það en ákærði ekki. Í skýrslu sem hann gaf hjá lögreglu væri þannig ranglega eftir honum haft að ákærði hafi beðið hann um að vitna sér í hag á þann veg sem áður er lýst. Fram kom hjá C að hann og ákærði hefðu fermst saman og verið saman í skóla á þeim tíma. Þá kvaðst hann þekkja A í gegnum vinkonu hennar.
Í skýrslu sem B gaf fyrir dómi kom fram að hann hafi verið við vinnu á veitingastaðnum Yello þá nótt sem hér um ræðir. Kvaðst hann ekkert geta borið um þá líkamsárás sem ákærða er gefin að sök í málinu. Hið sama eigi við um atvik í undanfara hennar að öðru leyti en því, að hann hafi orðið vitni að rifrildi sem átt hafi sér stað á milli ákærða og A og sem hún hafi átt upptökin að. Frásögn sem eftir honum væri höfð í lögregluskýrslum um nánari atvik væri þannig ekki byggð á því sem hann hafi sjálfur séð heldur því sem aðrir hefðu sagt honum. Kom fram hjá honum að hann og ákærði hefðu æft saman hnefaleika fyrir nokkrum árum og að þeir þekktust þannig. Þá kvaðst hann kannast við A.
Auk framangreindra komu fyrir dóminn sem vitni þær D, E og F, en þær kváðust hafa verið staddar á veitingastaðnum Yello aðfaranótt nýársdags 2009, og þeir Vilhjálmur Skúli Steinarsson og Sveinbjörn Halldórsson lögreglumaður.
Vitnið D kvaðst í vitnisburði sínum hafa staðið á að giska 4-5 metra frá ákærða og A þegar umrætt atvik átti sér stað. Hafi A sparkað oftar en einu sinni í klofið á ákærða. Ákærði hafi haldið á bjórglasi og það hafnað í andliti A í kjölfar þess að hún sparkaði í hann. Þegar D var beðin um að lýsa því nánar hvernig það bar til að glasið fór í andlit A svaraði hún því til að hún væri helst á því að þetta hafi verið slys. Þannig væri tæpast hægt að líta svo á að ákærði hafi hent glasinu vísvitandi frá sér. Verður helst af vitnisburði D ráðið að það að glasið þeyttist eða datt úr hendi ákærða megi rekja til þess að hann hafi misst jafnvægið í kjölfar þess að A sparkaði í hann. Þá megi vel vera að við þessar aðstæður hafi verið um ósjálfráð viðbrögð af hálfu ákærða að ræða. Aðspurð kvaðst D ekki hafa séð hvort glasið brotnaði þegar það fór í andlit A. Þá kom fram hjá henni að hún og ákærðu væru vinir. Hún kvaðst hins vegar ekki þekkja A.
F skýrði svo frá í skýrslu sinni að A og ákærði hefðu verið að rífast og að þau hefðu kallað hátt hvort á annað. Hún hafi af þeim sökum litið í áttina til þeirra og þá séð hreyfingu á hendi ákærða í áttina að A. Hún hafi ekki séð hvort ákærði hafi þá haldið á einhverju en á hinn bóginn heyrt brothljóð, sem hugsanlega hafi þó borist annars staðar frá. A hafi í kjölfarið gripið fyrir andlitið á sér og kvaðst vitnið hafa séð að blætt hafi úr því. Var F helst á því að þau hafi bæði setið rétt hjá dansgólfinu þegar þetta gerðist, en þó gæti verið að þar væri um misminni að ræða. Fram kom hjá F að hún kannist við A en ekki sé vinskapur á milli þeirra.
Í vitnisburði sínum skýrði E svo frá að hún hafi fylgt A á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í kjölfar þess atviks sem hér er til umfjöllunar, en þær séu vinkonur. Strax þarna um nóttina hafi A tjáð henni að ákærði hafi kastað glasi í andlitið á henni eða lamið hana með því. Kvaðst E ekki hafa orðið vitni að samskiptum ákærða og A inni á veitingastaðnum og enga hugmynd haft um það sem gerst hafði fyrr en til hennar kom aðili sem hún ekki gat nafngreint og sagði henni frá því að ákærði hefði kastað glasi í andlit A.
Ekki þykja efni til að rekja frekar framburð ákærða og framangreindra vitna fyrir dómi. Þá þykir ekki heldur ástæða til að gera sérstaklega grein fyrir því sem fram kom í vætti annarra vitna við dómsmeðferð málsins.
III
Í málinu er fyllilega í ljós leitt með framburði vitna og vottorði læknis að A hlaut þá áverka sem í ákæru greinir þegar hún fékk bjórglas í andlitið þar sem hún var stödd á veitingastaðnum Yello við Hafnargötu í Reykjanesbæ að morgni nýársdags 2009. Er ákærða gefið að sök að hafa slegið A í andlitið með glasinu. Fyrir liggur að til deilna kom á milli þeirra sem stigmögnuðust, en upptök þeirra eru óljós og verða ekki rakin frekar til annars þeirra en hins. Ákærði neitar sakargiftum og tekur neitun hans til þess að enda þótt glasið hafi farið úr hendi hans og í andlit A hafi af hans hálfu skort ásetning til þeirrar líkamsárásar sem hann er sakaður um. Heldur ákærði því þannig fram að hann hafi misst glasið, en það verði rakið til þess að A hafi sparkað í klofið á honum. A hefur á hinn bóginn verið afdráttarlaus í þeim vitnisburði sínum að um ásetningsverk hafi verið að ræða. Fyrir dómi var hún helst á því að ákærði hafi slegið hana í andlitið með glasinu, en vera megi að hann hafi kastað því frá sér rétt áður en það skall á andliti hennar.
Við skýrslugjöf hjá lögreglu 1. janúar og 12. júní 2009 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins skýrði ákærði svo frá að hann hafi staðið á dansgólfinu með uppréttar hendur og haldið á bjórglasinu í annarri hendinni þegar A hafi sparkað í klofið á honum. Við það hafi hann misst glasið og það farið í andlit hennar. Framburður ákærða um að hann hafi verið með hendurnar í þessari stöðu fær ekki stoð í framburði vitna fyrir dómi og samræmist ekki heldur þeirri lýsingu þeirra að hann hafi kastað glasinu frá sér. Fyrir dómi greindi ákærði síðan fyrst frá atriðum sem falla betur að þessari lýsingu og þeim áverkum sem A hlaut. Er framburður ákærða að þessu leyti áður rakinn. Hefur framburður hans þannig í öllu falli ekki verið markviss og staðfastur um atriði sem hafa umtalsverða þýðingu við sakarmat.
Allt frá því að skýrsla var fyrst tekin af A við lögreglurannsókn málsins 9. janúar 2009 hefur hún í öllum meginatriðum skýrt með hliðstæðum hætti frá atvikum inni á veitingastaðnum. Þannig gekkst hún strax við því að hafa sparkað í ákærða áður en hún fékk glasið í andlitið. Hefur hún jafnan borið á þann veg að um spark í lærið hafi verið að ræða, en ekki í klofið svo sem ákærði heldur fram og tvö vitni hafa greint frá. Er í ljósi þessa vandséð að tilefni hafi verið til þess af hennar hálfu að leitast við að hafa áhrif á vitnisburð C á þann veg sem hann skýrði frá við skýrslugjöf hjá lögreglu. Vitnisburður A um atlögu ákærða fær stoð í vætti C hjá lögreglu og fyrir dómi og vitnisburði þeirra F og E, svo langt sem hann nær. Þar við bætist að sá áverki sem hún hlaut samrýmist vel þeirri lýsingu sem hún hefur gefið á atvikum. Gegn þessu stendur vitnisburður þeirra C og D um tildrög þess að A fékk glasið í andlitið, en þau hafa bæði dregið það í efa, hvort á sinn hátt og svo sem áður er rakið, að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að kasta glasinu í hana. Vitnisburður þeirra um þetta er þó óljós og verða engar marktækar ályktanir af honum dregnar um huglæga afstöðu ákærða. Er og sérstaklega til þess að líta við sakarmat að náinn vinskapur er á milli ákærða og D. Er það að framangreindu virtu mat dómsins að ekkert sé fram komið í málinu sem dregur úr gildi framburðar A um þau atriði sem sakargiftir á hendur ákærða taka til og breytir í þeim efnum engu þótt leggja verði til grundvallar við úrlausn málsins með vísan til vættis þeirra C og D að það spark sem hún veitti ákærða hafi hafnað í klofi hans.
Með vísan til þess sem að framan er rakið telur dómurinn ekki varhugavert að telja að nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sé komin fram fyrir því að ákærði hafi gerst sekur líkamsárás í umrætt sinn með því að kasta bjórglasi vísvitandi í andlit A og þannig orðið valdur að því að hún hlaut þá áverka sem tilgreindir eru í ákæru. Stendur verknaðarlýsing í ákæru því ekki í vegi svo sem hér stendur á að ákærði verði sakfelldur fyrir þessa háttsemi og að hún rúmist þannig innan hennar, sbr. til hliðsjónar dómur Hæstaréttar frá 10. desember 2009 í málinu nr. 251/2009. Vegna hinnar hættulegu aðferðar sem viðhöfð var og sem fólst í því að gleríláti var beitt varðar hún við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
IV
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu sem þýðingu hefur við ákvörðun refsingar hans í þessu máli, en honum hefur þrisvar sinnum verið gerð sektarrefsing fyrir umferðarlagabrot, síðast 6. júní 2003. Þá leiða þau atvik í aðdraganda árásar ákærða, sem áður er getið, til þess að líta ber til ákvæðis 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga við refsiákvörðun. Á móti kemur að um var að ræða harkalega árás sem mikil hætta var samfara, sbr. 3. töluliður 1. mgr. 70. gr. sömu laga. Að þessu og málsatvikum að öðru leyti virtum og með hliðsjón af dómaframkvæmd þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Eftir atvikum og einkum í ljósi þess að ákærða hefur ekki áður verið gerð refsing fyrir hegningarlagabrot þykir mega skilorðsbinda refsingu hans að öllu leyti og svo sem nánar greinir í dómsorði.
Skaðabótakrafa A samkvæmt ákæru nemur svo sem fram er komið 1.600.000 krónum og er hún einskorðuð við miskabætur. Að auki er gerð krafa um greiðslu lögfræðikostnaðar. Fullnægt er skilyrðum til að dæma ákærða til að greiða A miskabætur á grundvelli a. liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja þær hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Þá verður krafa sem tekur til kostnaðar vegna aðstoðar lögmanns við að halda bótakröfunni fram fyrir dómi tekin til greina með 125.500 krónum, en telja verður svo sem hér hagar til að hún rúmist innan upphaflegrar kröfugerðar, sbr. ennfremur 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður ákærða samkvæmt þessu gert að greiða A 425.500 krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir, en bótakrafan var kynnt ákærða 12. júní 2009.
A var tilnefndur réttargæslumaður við rannsókn málsins hjá lögreglu. Ekki var fullnægt skilyrðum 41. gr. laga um meðferð sakamála til tilnefningar hans. Fellur þessi hluti sakarkostnaðar því á ríkissjóð, sbr. til hliðsjónar dómar Hæstaréttar frá 9. desember 2004 í málinu nr. 326/2004 og 23. mars 2006 í málinu nr. 206/2005. Er þóknun hæfilega ákveðin 150.600 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins samkvæmt yfirliti sækjanda um hann og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtölum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Það athugist að til sakarkostnaðar getur ekki talist kostnaður vegna skýrslu sálfræðings sem tilnefndur réttargæslumaður aflaði að eigin frumkvæði. Þá verður þessi kostnaður ekki felldur á ákærða sem hluti skaðabóta og engin efni er til að leggja hann á ríkissjóð.
Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri kvað upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningaralaga nr. 19/1940. sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 425.500 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 300.000 krónum frá 1. janúar 2009 til 12. júlí 2009, en með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.
Þóknun tilnefnds réttargæslumanns brotaþola, Jóns Einars Jakobssonar hæstaréttarlögmanns, 150.600 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði greiði 287.100 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.