Hæstiréttur íslands

Mál nr. 509/2013


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Verðbréfaviðskipti
  • Afleiðusamningur
  • Ógilding samnings
  • Brostnar forsendur
  • Kröfugerð
  • Aðfinnslur


Dómsatkvæði

Fimmtudaginn 16. janúar 2014.

Nr. 509/2013.

Einar Pétursson

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

LBI hf.

(Pétur Örn Sverrisson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Verðbréfaviðskipti. Afleiðusamningur. Ógilding samnings. Brostnar forsendur. Kröfugerð. Aðfinnslur.

Á árinu 2008 gerðu málsaðilar með sér tvo framvirka afleiðusamninga um kaup E á hlutabréfum í E hf. af L hf. Samkvæmt þeim skyldi L hf. afhenda E nánar tilgreinda hluti í E hf. gegn greiðslu fjárhæða sem tóku mið af markaðsvirði þeirra á samningsdegi. Samningarnir voru hvorki efndir á gjalddaga né eftir það. Höfðaði L hf. mál gegn E til heimtu skuldar vegna viðskiptanna og byggði á því að skuldbindandi samningar hafi komist á milli aðila um framvirk kaup E á hlutabréfum og ekkert gæti réttlætt að vikið yrði frá þeim. E krafðist sýknu. Fyrir Hæstarétti byggði hann m.a. á því að skilyrði laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti hafi ekki verið uppfyllt svo hann gæti átt í viðskiptum af þeim toga sem um ræddi í málinu. L hf. hafi brugðist þeim skyldum sem lögin lögðu á hann gagnvart viðskiptamönnum sínum. Þá hafi fjárhagsleg staða L hf. verið orðin mjög veik þegar samningarnir voru gerðir en um það hafi E og flestum öðrum en L hf. sjálfum þá verið alls ókunnugt um. Taldi E að m.a. af þessum sökum bæri að ógilda samningana. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að E hafi borið sem kaupanda að eiga frumkvæði að efndum með því að bjóða fram greiðslu af sinni hálfu og leita eftir því að fá afhent þau hlutabréf sem samningarnir tóku til. Fyrst þá hafi L hf. borið að hafa bréfin tiltæk. L hf. hafi því verið heimilt að höfða mál og krefjast efnda gegn því að afhenda það gagngjald sem honum hafi borið að láta af hendi, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samningar aðila hafi ekki verið efndir á gjalddaga af ástæðum er vörðuðu E og atvik, sem gerðu L hf. ókleift að inna umsamda gagngreiðslu af hendi, hafi orðið eftir það tímamark. Stæði hvorki ákvæði 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 né aðrar ástæður því í vegi að krafa L hf., sem byggði á fjárhagslegu uppgjöri með skuldajöfnuði, fengi komist að í málinu. Taldi Hæstiréttur ekkert það fram komið sem styddi það að L hf. hafi ekki fylgt fyrirmælum laga um að upplýsa E um eðli og áhættu við gerð samninga um framvirk kaup á hlutabréfum eða ekki aflað þeirra upplýsinga um E sem bankanum hafi borið að gera. Yrði að leggja til grundvallar að E hafi skilið þá samninga sem um ræddi og gert sér grein fyrir áhættu í viðskiptum með hlutabréf. Leit Hæstiréttur í þessu sambandi til yfirlýsingar E um þekkingu sína og öflun sérfræðiráðgjafar, upphaf og umfang viðskiptanna og reynslu hans að öðru leyti. Taldi rétturinn E ekki hafa sýnt fram á að L hf. hafi brotið gegn fyrirmælum laga með því að heimila honum að eiga þau viðskipti sem um ræddi í málinu. Þá hafnaði Hæstiréttur því að samningunum yrði vikið til hliðar á grundvelli ákvæða laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða ólögfestra reglna fjármunaréttar um ógildi samninga. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um greiðsluskyldu E.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. júlí 2013. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

          Málsaðilar gerðu 25. júlí 2008 tvo framvirka afleiðusamninga um kaup áfrýjanda á hlutabréfum í Exista hf. af stefnda, sem þá bar heitið Landsbanki Íslands hf., en gjalddagi samkvæmt samningunum var ákveðinn 29. ágúst sama ár. Samkvæmt þeim skyldi stefndi afhenda áfrýjanda annars vegar 300.000 hluti og hins vegar 100.000 hluti í félaginu gegn greiðslu nánar tilgreindra fjárhæða sem tóku mið af markaðsvirði þeirra á samningsdegi. Í skilmálum samninganna fólst jafnframt að stefndi lánaði áfrýjanda allt kaupverð hlutabréfanna sem gert yrði upp á gjalddaga með því að áfrýjandi legði það inn á viðskiptareikning stefnda og sá síðarnefndi afhenti áfrýjanda hlutabréfin. Færi uppgjör ekki fram á gjalddaga skyldu reiknast dráttarvextir á samningsfjárhæðir, en ef áfrýjandi óskaði eftir að framlengja samningana á gjalddaga þyrftu aðilar að semja um það sérstaklega með tveggja daga fyrirvara. Samningarnir voru hvorki efndir á gjalddaga né eftir það og frekari samningar voru ekki gerðir á milli aðila. Markaðsvirði hlutabréfanna lækkaði verulega á samningstímanum. Með þessum samningum höfðu verið framlengdir eldri samningar sama efnis, en þeir voru ekki lagðir fram í málinu þótt ráða megi að þeir hafi verið gerðir 30. apríl 2008. Stefndi höfðaði mál þetta til innheimtu samningsfjárhæða með stefnu, sem þingfest var 5. nóvember 2009, en því lauk með dómi héraðsdóms 29. apríl 2013.

          Þegar atvik málsins urðu höfðu aðilarnir á tímabilinu frá 4. febrúar 2005 gert 149 samninga um hlutabréf í ýmsum félögum og er óumdeilt að flestir þeirra hafi verið framvirkir afleiðusamningar um kaup áfrýjanda á slíkum bréfum. Munu 139 þessara samninga hafa verið gerðir í gildistíð laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, en 10 í gildistíð laga nr. 108/2007 um sama efni sem tóku gildi 1. nóvember 2007. Þá liggur fyrir að á gjalddaga hafi samningarnir ýmist verið gerðir upp með hagnaði eða tapi fyrir áfrýjanda eða þeir verið framlengdir með samkomulagi aðilanna. Auk áfrýjanda gaf Ólafur Jörgen Hansson skýrslu fyrir dómi, en hann starfaði sem verðbréfamiðlari hjá stefnda á því tímabili sem að framan var getið og kom fram fyrir hans hönd í viðskiptum við áfrýjanda. Upphaf viðskiptanna kvað vitnið hafa verið að áfrýjandi leitaði til stefnda og óskaði eftir að fá lán til að kaupa hlutabréf. Honum hafi verið bent á tvo kosti í þeim efnum þar sem annar hafi verið sá að gera framvirk afleiðuviðskipti um kaup á slíkum bréfum. Áfrýjandi hafi viljað hafa þann háttinn á og í kjölfarið hafi honum verið gerð grein fyrir áhættu sem fylgdi slíkum viðskiptum og hann undirritað almenna skilmála fyrir öll markaðsviðskipti hjá stefnda, þar á meðal afleiðuviðskipti.  Þá bar vitnið að í slíkum viðskiptum væri það jafnan viðskiptamaðurinn sem tæki ákvörðun um hvort hann vildi eiga eða selja þau hlutabréf sem samningur tæki til hverju sinni. Vitnið kvaðst jafnframt hafa metið það svo að áfrýjandi skildi eðli hinna framvirku samninga og vissi hvað hann var að gera. Aðspurður fyrir dómi um hið síðastnefnda svaraði áfrýjandi að „maður gerir sér grein fyrir því hvernig hagnaður og tap getur myndast í svona samningi.“

          Fyrir Hæstarétti kveðst áfrýjandi einkum reisa kröfur sínar á því að skilyrði laga nr. 108/2007 hafi ekki verið uppfyllt svo hann gæti átt í viðskiptum af þeim toga sem um ræðir í málinu. Stefndi hafi brugðist skyldum sem lögin lögðu á hann gagnvart viðskiptamönnum sínum, sbr. einnig reglugerð nr. 995/2007 um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Þá hafi fjárhagsleg staða stefnda verið orðin mjög veik þegar samningarnir voru gerðir, en um það hafi áfrýjanda og flestum öðrum en stefnda sjálfum þá verið alls ókunnugt um. Verðmyndun hlutabréfa, sem stefndi bauð til sölu, hafi ekki verið í samræmi við veruleikann á árunum 2007 og 2008. Af þessum ástæðum og öðrum, sem nánar greinir í héraðsdómi, beri að ógilda nefnda samninga. Stefndi byggir á að skuldbindandi samningar hafi komist á milli aðila um framvirk kaup áfrýjanda á hlutabréfum og til grundvallar viðskiptunum hafi legið þeir almennu skilmálar sem áður var getið. Hann heldur einnig fram að ekkert í samningunum sjálfum, samskiptum aðilanna eða atvikum, sem síðar komu til, geti réttlætt að vikið verði frá samningum þeirra. Ekki er ágreiningur um að áfrýjandi hafi verið almennur fjárfestir í merkingu laga nr. 108/2007.

II

          Samkvæmt samningum málsaðila skuldbatt stefndi sig til að selja og afhenda áfrýjanda á gjalddaga 29. ágúst 2008 nánar tilgreind hlutabréf í Exista hf. og þann dag skyldi áfrýjandi leggja samningsverðið inn á viðskiptareikning stefnda. Uppgjör samninganna átti að fara fram samdægurs fyrir klukkan 16. Áfrýjanda bar sem kaupanda að eiga frumkvæði að efndum með því að bjóða fram greiðslu af sinni hálfu og leita eftir því að fá afhent þau hlutabréf sem samningarnir tóku til, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 2. maí 2013 í máli nr. 631/2012. Fyrst þá bar stefnda að hafa bréfin tiltæk, en óumdeilt er að hann réði yfir og gat afhent áfrýjanda hlutabréf í Exista hf. á þeim tíma. Var honum heimilt að höfða mál og krefjast efnda gegn því að afhenda það gagngjald sem honum bar að láta af hendi, sbr. 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

          Í héraðsdómi er greint frá atvikum sem leiddu til þess að frá 28. október 2010 var stefnda ekki lengur unnt að afhenda umsamin hlutabréf. Exista hf. hafði þá nokkru áður verið breytt í einkahlutafélag, en fyrrnefndan dag var haldinn hluthafafundur í félaginu í þeim tilgangi að efna nauðasamning félagsins, sem staðfestur var af Héraðsdómi Reykjavíkur 10. sama mánaðar, svo sem greindi í tilkynningu þess til ríkisskattstjóra 4. nóvember 2010. Á fundinum var samþykkt að lækka hlutafé félagsins um 14.644.414.321 krónu til jöfnunar á tapi og jafnframt að hækka það um 13.562.336.251 krónu með útgáfu nýrra hluta að nafnverði ein króna hver. Í tilkynningunni kom einnig fram að kröfuhafar hafi greitt áskriftarverð hinna nýju hluta að fullu með skuldajöfnuði. Af þessu tilefni breytti stefndi kröfu sinni með bókun í þinghaldi 22. mars 2011 á þann veg að krafist var greiðslu úr hendi áfrýjanda án gagngreiðslu stefnda sjálfs, enda væri honum ekki lengur unnt að afhenda umsamin hlutabréf. Fjárhæð kröfunnar var óbreytt frá stefnu, en jafnframt gerði hann til vara kröfu um greiðslu lægri fjárhæðar. Varakrafan var fundin þannig að frá aðalkröfu var dregin fjárhæð sem svaraði til virðis umsaminna hlutabréfa í Exista hf. á gjalddaga. Héraðsdómur tók varakröfu stefnda til greina og unir hann þeirri niðurstöðu. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu.

          Samkvæmt almennum skilmálum fyrir markaðsviðskipti stefnda var honum heimilt en ekki skylt að beita skuldajöfnuði milli allra samninga, sem féllu undir skilmálana, þannig að hagnaður og tap hvors aðila samningsins yrði gert upp í einu lagi. Krafa stefnda byggir á fjárhagslegu uppgjöri afleiðusamninganna með skuldajöfnuði eða nettun þeirra greiðslna sem málsaðilum var hvorum um sig skylt að inna af hendi. Samningar aðilanna voru ekki efndir á gjalddaga af ástæðum sem vörðuðu áfrýjanda og atvik, sem gerðu stefnda ókleift að inna umsamda gagngreiðslu af hendi, urðu eftir það tímamark. Uppgjör með skuldajöfnuði gerir áfrýjanda að minnsta kosti ekki verr settan en ef samningarnir hefðu verið efndir eftir efni sínu á gjalddaga. Eins og málið er vaxið stendur hvorki ákvæði 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 né aðrar ástæður því í vegi að krafa stefnda fái komist að í málinu.

III

          Í upphafi viðskipta málsaðila með hlutabréf undirritaði áfrýjandi almenna skilmála fyrir viðskiptamenn stefnda. Aðilarnir gerðu síðan fjölmarga samninga um framvirk kaup áfrýjanda á hlutabréfum í ýmsum félögum og voru viðskiptin samfelld um þriggja og hálfs árs skeið. Áðurnefnd ummæli áfrýjanda um eigin hæfni til að stunda þessa tegund viðskipta fá samrýmst því að augljóslega hafði hann öðlast mikla reynslu af þeim á umræddu árabili. Í samningunum 25. júlí 2008 og eldri samningum aðila lýsti áfrýjandi sérstaklega yfir að hann hefði kynnt sér eðli framvirkra samninga og notið sérfræðiráðgjafar annars en stefnda áður en hann undirritaði samningana.  Hann átti einnig að baki langa reynslu í öðrum viðskiptum auk þess sem hann var stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félags, sem hafði meðal annars þann tilgang að kaupa og selja hlutabréf og önnur verðbréf. Þá teljast framvirkir samningar sem þessir um hlutabréf ekki til flókinna fjármálagerninga, sbr. til hliðsjónar áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 631/2012.

          Lög nr. 108/2007 fólu í sér veigamiklar breytingar frá eldri lögum, meðal annars um aukna vernd fyrir fjárfesta. Lögin leggja hins vegar ekki bann við því að almennir fjárfestar stundi afleiðuviðskipti, en hafa að geyma strangari fyrirmæli en eldri lög, meðal annars um upplýsingagjöf til viðskiptamanna, öflun upplýsinga um þá, ráðleggingar til þeirra og fleira. Um þetta verður að gæta að því að í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 108/2007 kemur fram í umfjöllun um þau ákvæði sem áfrýjandi vísar til að þau eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar stofnað er til nýrra viðskipta eða nýrrar tegundar viðskipta eftir gildistöku laganna og ekki hafi áður verið aflað þeirra upplýsinga sem nýju lögin gera kröfu um. Þegar virtar eru framangreindar yfirlýsingar áfrýjanda um þekkingu sína og öflun sérfræðiráðgjafar, upphaf og umfang viðskiptanna og reynsla hans að öðru leyti verður að leggja til grundvallar að hann hafi skilið þá samninga sem um ræðir og gert sér grein fyrir áhættu í viðskiptum með hlutabréf. Ekkert er fram komið sem styður það að stefndi hafi ekki fylgt fyrirmælum laga um að upplýsa áfrýjanda um eðli og áhættu við gerð samninga um framvirk kaup á hlutabréfum eða ekki aflað þeirra upplýsinga um áfrýjanda sem honum bar að gera. Áfrýjandi hefur samkvæmt þessu ekki sýnt fram á að stefndi hafi brotið gegn fyrirmælum laga með því að heimila honum að eiga þau viðskipti sem um ræðir í málinu.

          Loks ber að líta til þess að áfrýjandi gerir þá kröfu að samningarnir frá 25. júlí 2008 verði ógiltir á þeim grundvelli að ekki hafi verið gætt ákvæða laga nr. 108/2007. Í þeim eru hins vegar engar reglur um ógildi samninga vegna annmarka af þeim toga sem haldið er fram í málinu að verið hafi. Vegna þessa verður ekki leitað stoða fyrir kröfu áfrýjanda í öðrum réttarheimildum en ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða ólögfestum reglum fjármunaréttar um ógildi samninga, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. janúar 2011 í máli nr. 638/2010. Af slíkum ástæðum hefur áfrýjandi borið fyrir sig 30. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936, þar á meðal að aðstöðumunur hafi verið á málsaðilum, og að forsendur hafi brostið fyrir gerð samninganna. Þá hafi hlutabréfin verið gölluð í skilningi laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hafnað að málsástæður, sem á þessu eru reistar, leiði til þess að samningarnir verið ógiltir. Hinu sama gegnir um þá varnarástæðu áfrýjanda að hann hafi sjálfur rift samningum aðilanna 22. janúar 2009. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

          Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

          Um rekstur málsins athugast að frá því það var endurupptekið 27. september 2010 liðu rúmlega tvö og hálft ár þar til dómur var kveðinn upp. Á því tímabili var málinu frestað alls átján sinnum, í flestum tilvikum til frekari gagnaöflunar. Þessi dráttur á málsmeðferð og margítrekaðar frestveitingar eru aðfinnsluverðar.

Dómsorð:

       Hinn áfrýjaði dómur skal óraskaður.

Áfrýjandi, Einar Pétursson, greiði stefnda, LBI hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2013.

                Mál þetta, sem dómtekið var hinn 4. mars sl., var höfðað fyrir dómþinginu af Landsbanka Íslands, á hendur Einari Péturssyni, með stefnu þingfestri 5. nóvember 2009.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda verði gert að greiða honum 15.290.430 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 29. ágúst 2008 til greiðsludags og vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

                Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum 12.250.430 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 29. ágúst 2008 til greiðsludags og vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. 

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

                Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað að skaðlausu, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

                Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.

II

                Málavextir eru þeir, að hinn 25. júlí 2008 gerðu stefnandi og stefndi með sér tvo samninga um framvirk kaup stefnda, annars vegar á 300.000 hlutum í Exista hf. og hins vegar á 100.000 hlutum í Exista hf.  Stefndi hafði áður, þ.e. 4. febrúar 2005, samþykkt almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda.  Með samningunum skuldbatt stefnandi sig til að selja stefnda framangreinda hluti og stefndi skuldbatt sig til að inna af hendi kaupverðið, samningsfjárhæðina, á gjalddaga samningsins, sem var ákveðinn í báðum samningunum 29. ágúst 2008.  Uppgjör átti að fara fram á gjalddaga fyrir kl. 16.00.

                Samningsfjárhæð samkvæmt samningunum var 13.617.060 krónur samkvæmt samningi nr. 11994-2, og 1.673.370 krónur samkvæmt samningi nr. 11993-2.

                Á gjalddaga samningsins stóð stefndi ekki skil á samningsfjárhæðinni.

                Mál vegna kröfu þessarar var upphaflega höfðað af Landsbanka Íslands hf., með birtingu stefndu hinn 29. október 2009.  Útivist varð af hálfu stefnda við þingfestingu málsins og var málið því dómtekið og kveðinn upp dómur í samræmi við dómkröfur stefnanda, eins og þær voru þá, hinn 14. apríl 2010.   

                Stefndi krafðist endurupptöku málsins og var málið endurupptekið með úrskurði dagsettum 27. september 2010.

                Upphaflegar dómkröfur stefnanda hljóðuðu á um að stefndi greiddi stefnanda 15.290.430 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 29. ágúst 2008 til greiðsludags, gegn útgáfu afsals fyrir 400.000 hlutum í Exista hf.

                Á hluthafafundi Exista hf. hinn 28. maí 2010 var samþykkt að breyta félaginu í einkahlutafélag, sbr. 132. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög.  Hinn 8. september 2010 samþykktu kröfuhafar Exista ehf. frumvarp til nauðasamninga félagsins.  Hinn 10. október 2010 var nauðasamningur Exista ehf. staðfestur af Héraðsdómi Reykjavíkur.  Í staðfestum nauðasamningi Exista ehf. var gert ráð fyrir því að kröfur kröfuhafa yrðu gerðar upp með ákvörðun hluthafafundar félagsins um lækkun hlutafjár og með útgáfu nýrra hluta í félaginu til kröfuhafa.  Hinn 28. október 2010 var haldinn hluthafafundur í Exista ehf. í þeim tilgangi að efna staðfestan nauðasamning félagsins, eins og segir í tilkynningu Exista ehf. til hlutafélagaskrár, dagsettri 4. nóvember 2010.  Á fundinum var samþykkt að lækka hlutafé félagsins um 14.644.414 krónur til jöfnunar tapi, sbr. 1. tl. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.  Þá var hlutafé félagsins hækkað um 13.562.336.251 krónu með útgáfu jafnmargra nýrra hluta, að nafnvirði 1 króna hver.  Í tilkynningu Exista ehf. til hlutafélagaskrár kemur fram að áskriftarverð hinna nýju hluta hafi verið greitt að fullu með skuldajöfnuði.

III

                Stefnandi byggir kröfu sína á því að skuld stefnda við hann, samkvæmt þeim samningum sem um ræði, sé 15.290.430 krónur.  Stefnandi byggir á því að stefndi hafi skuldbundið sig til að leggja kaupverð 300.000 hluta í Exista hf. annars vegar og kaupverð 100.000 hluta í Exista hf. hins vegar, þ.e. hina svonefndu samningsfjárhæð, inn á reikning stefnanda á gjalddaga samninganna, sem í báðum tilvikum hafi verið ákveðinn 29. ágúst 2008.  Byggir stefnandi á því að engin greiðsla hafi borist frá stefnda.

                Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og fjárskuldbindinga.

                Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

                Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.

                Eins og að framan greinir breytti stefnandi kröfum sínum undir rekstri málsins á þann veg, að fallið var frá loforði stefnanda um útgáfu afsals á allt að 400.000 hlutum í Exista hf., gegn greiðslu stefnda.

                Stefnandi kveður ástæður þeirrar breytingar vera þá að hlutafé stefnanda í Exista hf., síðar í Exista ehf., hafi verið meðal þess hlutafjár sem lækkað hafi verið til jöfnunar á tapi með ákvörðun hluthafafundar Exista ehf. hinn 28. október 2010, þar sem framkvæmdir hafi verið tilteknar aðgerðir á grundvelli staðfests nauðasamnings félagsins.  Ljóst sé því að það hlutafé sé ekki lengur til reiðu til afhendingar af hálfu stefnanda, enda hafi nýtt hlutafé verið gefið út og hafi verið greitt fyrir það hlutafé með skuldajöfnun gagnvart kröfuhöfum félagsins.

                Fyrir liggi að stefnandi hafi haft til afhendingar þá hluti í Exista hf., sem honum hafi borið að afhenda samkvæmt afleiðusamningum málsaðila, á þeim degi er samningar hafi verið gerðir og enn fremur á gjalddaga samninganna.  Að sama skapi hafi stefnandi haft hlutina til reiðu til afhendingar þegar mál þetta hafi upphaflega verið höfðað með birtingu stefnu hinn 29. október 2009 og þegar útivistardómur hafi fallið í málinu hinn 14. apríl 2010.  Þá hafi stefnandi haft til reiðu til afhendingar hluti í einkahlutafélaginu Exista frá þeim tíma er breyting á félagsformi hafi tekið gildi í kjölfar hluthafafundar 28. maí 2010 og allt þar til hlutafé í Exista ehf. hafi verið lækkað með framangreindri ákvörðun hluthafafundar Exista ehf. hinn 28. október 2010.  Stefnandi telur þó ekki að á honum hvíli skylda samkvæmt afleiðusamningi aðila, eða lögum eða reglum sem um afleiðuviðskipti gildi almennt, til þess að eiga undirliggjandi hlutabréf á samningsdegi eða eftir gjalddaga samninganna, þegar stefndi hafi þráast við að standa við skyldur sínar samkvæmt samningnum.  Þar sem stefnanda sé nú ekki tækt, vegna atvika sem orðið hafi eftir höfðun málsins, uppkvaðningu útivistardóms og endurupptöku málsins með úrskurði 27. september 2010, að afhenda þá hluti sem afleiðusamningar málsaðila geri ráð fyrir, sé stefnanda nauðsynlegt að gera breytingar á dómkröfum sínum á framangreindan hátt.

                Þá setti stefnandi jafnframt fram varkröfu með bókuninni 22. mars 2011, um lækkun á dómkröfu sinni.  Stefnandi kveður ástæðu þess vera athugasemd sem fram hafi komið í greinargerð stefnda.  Kröfuna byggi hann á fjárhagslegu uppgjöri afleiðusamninga aðila með skuldajöfnun, nettun þeirra greiðslna sem aðilum sé skylt að inna af hendi samkvæmt samningunum.  Á dómskjali sem lagt var fram með fyrrgreindri bókun, megi sjá þá greiðslu sem stefnda hafi borið að inna af hendi á gjalddaga samninganna, og eins virði þeirra undirliggjandi hlutabréfa sem stefnanda hafi borið að inna af hendi sem gagngjald, sem fundið sé út með því að margfalda fjölda hluta með lokagengi hlutabréfa á gjalddaga samninganna, þegar greiðsla og afhending hafi átt að eiga sér stað.  Tilgreining lokagengis hlutabréfanna á gjalddaga samninganna á fyrrgreindu yfirliti sé sú sama og tilgreining lokagengis hlutabréfanna á gjalddaga samninganna á yfirliti sem stefndi lagði fram.  Aðilar séu þá eins settir fjárhagslega, eins og stefndi hefði greitt stefnanda umsamda fjárhæð og stefnandi í kjölfarið afhent stefnda umsaminn fjölda hlutabréfa í Exista hf., eins og síðar til komin atvik er varði félagið og hlutafé í félaginu, s.s. afskráning félagsins og lækkun hlutafjár eftir umsamda gjalddaga, hafi engin áhrif haft á fjárhagslegt uppgjör aðila vegna samninganna. 

                Á fyrrgreindu yfirliti sem stefnandi lagði fram, megi nánar sjá hvernig fjárhæð varakröfu sé fundin út með því að skuldajafna greiðslu samningsfjárhæðar, sem stefnda hafi borið að inna af hendi samkvæmt samningunum, gagnvart virði þeirra hlutabréfa sem stefnanda hafi borið að afhenda sem gagngjald fyrir greiðslu samningsfjárhæðar.  Útkoma þeirrar skuldajöfnunar sé neikvæð fyrir stefnda er nemi 12.250.430 krónum, sem samsvari tapi stefnda samkvæmt samningunum á umsömdum gjalddögum.  Breyting á kröfugerð rúmist innan upphaflegrar dómkröfu, þar sem hlutafé í Exista ehf. hafi verið lækkað með ákvörðun hluthafafundar félagsins á grundvelli staðfests nauðasamnings, og nýtt hlutafé jafnframt gefið út.  Um heimild til breytinga á kröfugerð með framlagningu varakröfu vísar stefnandi til meginreglna réttarfars um að stefnanda sé heimilt að breyta kröfugerðinni til ívilnunar fyrir stefnda, sbr. gagnályktun frá 1. mgr. 11. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann sé ekki fagfjárfestir.  Kröfur stefnanda séu byggðar á tveimur framvirkum samningum um kaup stefnda á hlutabréfum í Exista hf.  Gjalddagi samninganna sé tilgreindur 29. ágúst 2008, en samningarnir hafi verið gerðir 25. júlí 2008.  Exista hf. hafi verið skráð í Kauphöllinni OMX ICE Equities, eins og ákvæði sé um í samningnum.  Samningarnir hafi verið framlengingar á eldri framvirkum samningum um sömu hlutabréf, sbr. samninga nr. 11994-0 og 11993-0, báðir dagsettir 7. febrúar 2008.

                Samningarnir hafi verið opnir eftir gjalddaga þeirra 29. ágúst 2008.  Í því felist að samningarnir hafi ekki verið efndir.  Sem kunnugt sé hafi orðið bankahrun hér á landi á fyrstu dögum októbermánaðar 2008 og fjármálakreppa.  Hinn 6. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið stöðvað viðskipti með hlutabréf í Exista hf. í kauphöllinni OMX.  Fjármálaeftirlitið hafi aftur heimilað viðskipti 9. desember 2008, en hlutabréf í Exista hf. hafi verið afskráð í kauphöllinni 22. desember 2008.  Í skjóli nætur 6. október 2008 hafi verið sett lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þ.e. svonefnd neyðarlög.  Á grundvelli laganna hafi Fjármálaeftirlitið ákveðið 7. október 2008 að taka stjórn Landsbankans yfir með því að skipa honum fimm manna skilanefnd til að fara með öll málefni hans.  Síðan hafi komið í ljós að fjárhagsstaða Landsbankans hafi verið, fyrir hrun, mjög alvarleg.  Skilanefnd stefnanda hafi lýst því yfir fyrir fjárlaganefnd Alþingis og opinberlega, vegna Icesave-málsins, að eignir Landsbankans dugi ekki fyrir forgangskröfum í búið, eins og þær hafi staðið 22. apríl 2009 við upphaf slitameðferðar.  Þessa alvarlegu stöðu hafi ekki verið unnt að ráða í af opinberum upplýsingum eða ummælum æðstu stjórnenda og starfsmanna bankans um fjárhagsstöðu bankans á þeim tíma sem meintir samningar hafi orðið til.  Upplýsingar frá bankanum hafi allar verið á þann veg að bankinn stæði vel.  Verðmyndun á hlutabréfum í bankanum hafi ekki verið í neinum tengslum við raunveruleikann og byggir stefndi á því að bankinn hafi ekki verið hæfur til að selja viðskiptamönnum sínum fjármálagerninga á árunum 2007 og 2008.

                Sem skráð hlutafélag á markaði, sem lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, hafi þar að auki gilt um, hafi stefnanda borið rík upplýsingaskylda gagnvart yfirvöldum, viðskiptamönnum sínum og markaðinum.  Með opinberum upplýsingum stefnanda og lykilstjórnenda hans hafi verið gefið í skyn að verðmyndun hlutabréfa í bankanum væri eðlileg og að markaðsgengi endurspeglaði raunverulegt verðmæti bréfa.  Viðskiptamönnum bankans hafi verið rétt að treysta þessu og treysta því að þeir ættu í viðskiptum við trúverðugan og fjárhagslega vel stæðan banka, sem væri annt um viðskiptavini sína og viðskiptavild.  Það sem hér hafi verið sagt um stefnanda eigi einnig við um hina viðskiptabankana, þ.e. Glitni banka hf. og Kaupþing banka hf. og helstu eigendur þeirra, en helsta eign Exista hf. hafi verið eignarhlutur í Kaupþingi banka hf.  Verðmyndun íslenskra hlutabréfa í kauphöllinni OMX hafi verið út úr korti og hafi spilaborgin hrunið eins og hendi væri veifað fyrstu dagana í október 2008.  Byggir stefndi á því að það sé sannað að stefnandi hafi vitað, eða mátt vita, að verðmyndun hlutabréfa í þessum félögum hafi á árunum 2007 og 2008 verið óeðlileg og að stefnandi hafi notið viðskiptatrausts á röngum forsendum.  Upplýsingum um innri vandamál og hættu á bankakreppu í því sambandi hafi verið haldið leyndum fyrir stefnda og almenningi.  Frá því að hrunið hafi orðið hafi stærstu fyrirtækin sem þar hafi átt hlut að máli ásamt eftirlitsaðilum, verið andlag rannsókna af ýmsu tagi.  Sett hafi verið sérstök lög nr. 142/2008, um skipan sérstakrar rannsóknarnefndar, til að leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.  Rannsóknarnefndin, sem skipuð hafi verið þremur sérfræðingum, hafi skilað ítarlegri skýrslu,  Niðurstaða hennar hafi verið sú að eftirlitsaðilar og stjórnvöld, nánar tiltekið Fjármálaeftirlitið, Seðlabanki Íslands hf. og fjármálaráðuneytið, viðskiptaráðuneytið og forsætisráðuneytið, hafi brugðist mikilvægum skyldum sínum í aðdraganda bankahrunsins.  Þá hafi stjórnun viðskiptabankanna og þeirra, sem að þeim hafi staðið, verið verulega ábótavant.  Lánveitingar til tengdra aðila hafi farið úr hófi fram og með þeim hafi viðskiptabankarnir stuðlað að allt of háu hlutabréfaverði með gáleysislegum lánveitingum og fjármögnun á eigin hlutabréfum og tengdra aðila.  Landsbankinn hf., Kaupþing hf. og Exista hf. séu meðal þeirra fyrirtækja sem fjallað sé um í skýrslunni sérstaklega í þessu samhengi og komist sé að þeirri niðurstöðu að upplýsingar, sem birst hafi opinberlega um eigið fé þeirra, hafi verið rangar í veigamiklum atriðum.  Niðurstaðan í skýrslunni sé sú að hlutabréfaverð í þessum félögum hafi verið óhæfilega hátt af ástæðum, sem vörðuðu félögin sjálf, og skort hafi á viðhlítandi eftirlit með þeim.  Liður í þessu sé að frá því síðsumars 2007 hafi erlendir fjármálamarkaðir lokast fyrir viðskiptabönkunum.  Í stað þess að fjármagna sig með hefðbundnum hætti hafi viðskiptabankarnir brugðið á það ráð að fjármagna sig með háum lánveitingum frá Seðlabanka Íslands hf.  Þannig hafi verið farið fram hjá ákvæðum laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands með vitneskju bankastjórnar Seðlabanka Íslands á þeim tíma.

                Stefndi hafi tilkynnt stefnanda um riftun samninganna með bréfi, dagsettu 22. janúar 2009.  Ástæða riftunarinnar hafi verið sú að hlutabréf í Exista hf. hafi verið afskráð í kauphöllinni OMX og því ljóst að stefnandi gæti ekki efnt samningana, þ.e. skilað hlutabréfum í Exista hf. skráð í kauphöllinni.  Til viðbótar hafi verið bent á að viðskiptahættir stefnanda væru ein helsta ástæða fjármálakreppunnar.  Hafi þess verið krafist að stefnandi léti stefnda í té alla fjármuni, sem hann hafi haft í vörslum fyrir stefnda, og skilaði honum tryggingum sem settar hafi verið.

                Stefnda hafi borist dreifibréf stefnanda með yfirliti yfir afleiðusamninga við stefnanda miðað við 12. febrúar 2009.  Þeim, sem hafi haft opnar afleiður, hafi verið boðið að loka þeim samningum.  Stefndi hafi svarað með bréfi, dagsettu 10. mars 2009 með ítarlegum rökstuðningi. 

                Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að hann hafi lýst yfir riftun samninganna sem stefnt sé út af, með bréfi, dagsettu 22. janúar 2009.  Riftuninni hafi ekki verið mótmælt í tíma og teljist hún því endanleg.

                Í kröfugerð stefnanda í málinu sé krafist greiðslu tiltekinna fjárhæða gegn afhendingu hlutabréfa í Exista hf.  Eins og stefndi hafi ítrekað bent á geti stefnandi ekki afhent téð hlutabréf í Exista hf.  Hlutabréfin hafi verið afskráð í kauphöllinni OMX 22. desember 2008.  Það hafi verið alveg skýrt í samningunum að frumskylda stefnanda hafi verið sú að afhenda hlutabréfin og að þau væru skráð í kauphöllinni OMX ICE Equities.

                Verði ekki fallist á framangreint byggir stefndi á því, að hlutabréfin, sem samningarnir hafi verið um, hafi verið gölluð samkvæmt meginreglum kröfuréttarins og í skilningi laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, sbr. 17. og 18. gr.  Bréfin hafi verið fjarri því að samsvara því verðmæti sem skjölin beri með sér að gert hafi verið ráð fyrir og stefndi hafi mátt treysta.  Þetta hafi stefnanda, sem lykilþátttakanda á íslenskum hlutabréfamarkaði, mátt vera ljóst auk þess sem fjárhagsstaða hans hafi verið þannig að hann hafi ekki verið hæfur til að eiga umrædd viðskipti, eins og komið hafi verið fyrir honum.

                Stefnda hafi verið rétt að rifta kaupunum af þeim sökum einnig, sbr. 39. gr. kaupalaga, eða eftir atvikum að krefjast skaðabóta/afsláttar sömu fjárhæðar og stefnukröfum nemi, en hvort tveggja leiði til sýknu.  Vísar stefndi til ákvæða lausafjárkaupalaga um þessi vanefndaúrræði.

                Stefndi byggir einnig á því, að samningarnir hafi komist á með svikum stefnanda og séu því ekki skuldbindandi, sbr. 30. gr. samningalaga.  Merking hugtaksins „svik“ í ákvæðinu sé önnur en í refsirétti og sönnunarkröfur séu aðrar og vægari.  Nægilegt sé, til þess að 30. gr. samningalaga eigi við, að sýnt sé fram á að aðili samnings hafi haft tiltækar upplýsingar, sem ætla megi að hafi verið ákvarðandi fyrir gerð samnings, hafi leynt þeim fyrir gagnaðila og fengið hann þannig til að gera löggerning.  Eins og áður hafi verið rakið hafi staða Landsbankans sem fjármálafyrirtækis verið allt önnur og lakari en bankinn hafi gefið til kynna.  Um þetta hafi stefnanda borið að upplýsa, samkvæmt reglum samningaréttar og reglum ýmissa laga, sbr. ákvæði um upplýsingagjöf í hlutafélagalögum nr. 2/1995, lögum um verðbréfaviðskipti nr. 107/1997 og lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.  Hafi stefndi vitað hið rétta í málinu, m.a. um áhyggjur háttsettra embættismanna hér á landi og í Bretlandi um afdrif Icesave-reikninga og tilheyrandi hættu á bankahruni, hefði hann af augljósum ástæðum ekki samið við stefnanda um framvirk hlutabréfakaup, stefnandi hefði ekki notið trausts sem fjármálaráðgjafi og gagnaðili í viðskiptum.

                Stefndi byggir og á því að einu gildi hvort hlutabréfin, sem samningarnir hafi verið um, hafi verið í Landsbankanum sjálfum eða öðrum lykilfyrirtækjum á íslenska hlutabréfamarkaðinum.  Þessir aðilar hafi stundað viðskiptahætti, sem ekki standist skoðun samkvæmt áðurnefndum lögum og hafi stefnanda átt að vera það ljóst í ljósi stöðu hans á markaðinum.

                Enn fremur byggir stefndi á 36. gr. samningalaga og krefst þess að samningnum verði vikið til hliðar að öllu leyti.   Ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri fyrir sig meinta samninga gegn stefnda.  Röksemdir séu þær sem grein hafi verið gerð fyrir að framan, en skilyrði 36. gr. séu vægari en annarra ógildingarreglna samningalaganna.  Varðandi stöðu aðila sé lögð rík áhersla á að stefndi sé einstaklingur sem verði gjaldþrota nái kröfur stefnanda fram að ganga.  Stefnandi sé hins vegar viðskiptabanki, sem sé einn helsti orsakavaldur að efnahagskreppu heillar þjóðar.  Með kröfugerð stefnanda í málinu hyggist hann hagnast á kostnað stefnda, af viðskiptaháttum sem hafi verið gagnrýndir mjög harkalega, m.a. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  Komið hafi í ljós að efni samningsins sé hreinn veðmálagerningur og stórkostlegur munur sé á verðmæti greiðslna, sem eigi að skipta um hendur samkvæmt samningnum, í gagnkvæmum samningi ótengdra aðila.  Varðandi atvik við samningsgerðina og þau sem síðar hafi komið til vísar stefndi til bankahrunsins og aðdraganda þess, sem stefnandi, ef einhver, hefði átt að geta séð fyrir.  Stefndi hafi hins vegar verið grunlaust peð í miklu stærra tafli.  Afar ósanngjarnt sé ef stefndi á að bera allt tjón af þessu, með tilheyrandi greiðsluþroti, og stefnandi að hagnast að sama skapi.

                Stefndi vísar loks til reglna samningaréttarins um rangar og brostnar forsendur, ástæður séu hinar sömu og gerð hafi verið grein fyrir hér að framan og það sama sé að segja um réttaráhrif.

                Stefndi byggir einnig á því að stefnandi hafi í veigamiklum atriðum brotið gegn skyldum sínum gagnvart Fjármálaeftirlitinu, gagnvart markaði og gagnvart stefnda.  Ekki hafi verið gætt ákvæða 14. gr. laganna nr. 10/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. einnig nánari ákvæði í 31. gr. reglugerðar nr. 995/2007.  Afleiðuviðskipti séu afar áhættusöm og í raun réttri veðmál um hvað gerist í framtíðinni.  Stefnandi sem fjármálafyrirtæki hafi haft á að skipa áhættustýringardeild til að jafna eigin áhættu á viðskiptum af þessu tagi.  Stefndi hafi verið í allt annarri og lakari stöðu að þessu leyti og hefði þurft að upplýsa hann rækilega um áhættuna.  Það hafi farist fyrir hjá stefnanda. 

Þá verði ekki séð að afleiðusamningarnir uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til samninga af því tagi samkvæmt áðurnefndri reglugerð nr. 994/2007, sbr. einkum 37. og 38. gr.  Í því sambandi sé bent á að verð, eða annar verðmælikvarði fyrir undirliggjandi hlutabréf, skuli vera áreiðanlegt og birt opinberlega og réttarstaða aðila við uppgjör eigi að vera trygg.          Samkvæmt orðanna hljóðan í samningunum hafi málsaðilar átt að efna þá 29. ágúst 2008.  Stefnandi hafi þá átt að afhenda stefnda hlutabréf og stefndi skyldi þá greiða kaupverðið.  Þetta hafi ekki gerst og stefnandi hafi ekki boðið fram efndir.  Engar forsendur séu til að efna hlutabréfakaup þegar liðið sé vel á annað ár frá því að efndir hefðu átt að fara fram og stefnandi geti ekki úr því sem komið sé efnt samninginn.

Til vara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda á grundvelli sömu málsástæðna og hann byggir sýknukröfu sína.  Bendir stefndi á að gengi í samningunum sé út í hött, einnig að það sé fráleitt af stefnanda að ætlast til þess að stefndi taki í dag við verðlausum hlutabréfum í Exista hf. sem hafi verið afskráð úr kauphöllinni OMX, en þau hafi ekki verið það á gjalddaga samningsins.

Til viðbótar bendir stefndi á að hann hafi látið stefnanda í té tryggingar, m.a. peningamarkaðsbréf og fasteignaveðtryggingu, sem stefnandi hafi ekki staðið skil á.

Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda, en dráttarvaxta sé krafist frá 29. ágúst 2008.  Þetta eigi sér enga stoð, sbr. það sem að framan greini um að samningarnir hafi verið látnir standa opnir og stefndi hafi ekki enn og muni ekki geta efnt samninginn að sínu leyti.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991.  Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og eignist því ekki frádráttarrétt við greiðslu virðisaukaskatts af lögmannsþjónustu. 

V

                Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda á tveimur samningum sem málsaðilar gerðu með sér um framvirk kaup stefnda á hlutum í Exista hf.  Byggir stefnandi á því að samningarnir hafi verið á gjalddaga 29. ágúst 2008.

                Kröfur stefnda eru einkum á því reistar að hann hafi í viðskiptum við stefnanda ekki notið þeirrar fjárfestaverndar sem almennum fjárfestum sé tryggð í lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og reglugerð nr. 995/2007, um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, svo og að sú fjárfestingarráðgjöf sem stefnandi hafi veitt honum hafi verið ófullnægjandi og í andstöðu við fyrrgreind lög og reglugerð.  Byggir stefndi á því að ekki hafi verið gætt ákvæða 14. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sbr. 31. gr. reglugerðar nr. 995/2007, en umdeildir samningar uppfylli ekki kröfur 37. gr. og 38. gr. reglugerðarinnar. Þá byggir stefndi á því að samningarnir hafi verið opnir eftir gjalddaga þeirra, en í því felist að samningarnir hafi ekki verið efndir.  Byggir stefndi á því að hlutabréfin í bankanum hafi ekki verið í samræmi við veruleikann, sem og verðmyndun hlutabréfa í kauphöll á árunum 2007 og 2008.  Fjármálaeftirlitið hafi hinn 6. október 2008 stöðvað viðskipti með hlutabréf í Exista hf. í kauphöllinni, en heimilað þau aftur 9. desember s.á.  Exista hf. hafi svo verið afskráð í kauphöllinni 22. desember 2008.  Þá hafi komið í ljós eftir að skilanefnd hafði verið sett yfir bankann, að eignir bankans dygðu ekki fyrir forgangskröfum í búið, eins og þær hefðu verið við upphaf slitameðferðar.  Þessa stöðu hafi hins vegar ekki verið unnt að ráða af opinberum upplýsingum stjórnenda bankans, en þær hafi allar verið á þá lund að bankinn stæði afar vel.  Bankinn hafi því ekki verið hæfur til að selja viðskiptamönnum sínum fjármálagerninga á árunum 2007 og 2008.  Byggir stefndi á því að stefnandi hafi mátt vita að verðmyndun hlutabréfa í kauphöll hafi á þessum árum verið óeðlileg. 

Stefndi byggir og á því, að hann hafi rift samningunum með bréfi, dagsettu 22. janúar 2009, og ástæða þeirrar riftunar hafi verið sú að hlutabréf í Exista hf. hafi verið afskráð í kauphöllinni, og því ljóst að stefnandi gæti ekki efnt samningana.  Stefnandi hafi ekki mótmælt riftuninni og teljist hún því endanleg.

Stefndi byggir einnig á því, að umrædd hlutabréf hafi verið gölluð í skilningi 17. og 18. gr. laga nr. 50/2000.  Hafi stefnda verið rétt að rifta kaupunum með vísan til 39. gr. kaupalaga eða eftir atvikum að krefjast skaðabóta eða afsláttar, sömu fjárhæðar og stefnukrafan hljóði á um. 

Þá byggir stefndi á að samningarnir hafi komist á með svikum og séu því ekki skuldbindandi samkvæmt 30. gr. samningalaga.

Enn fremur byggir stefndi á 36. gr. samningalaga, og krefst þess að víkja beri samningunum til hliðar að öllu leyti, sem og reglna samningaréttarins um rangar og brostnar forsendur. 

Samkvæmt gögnum málsins sem og skýrslu stefnda hér fyrir dómi höfðu aðilar gert með sér fjölda afleiðusamninga, svipaða þeim sem hér eru til umfjöllunar, eða frá því í ársbyrjun 2005.  Samhliða gerð þeirra undirritaði stefndi almenna skilmála fyrir viðskiptavini.  Við gerð þessara samninga giltu lög nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti.  Ekki er ágreiningur um það að stefndi var á þessum tíma almennur fjárfestir í viðskiptum við stefnanda.  Það stóð þó ekki í vegi fyrir því að honum væri heimilt að eiga viðskipti með afleiður, samkvæmt lögum nr. 33/2003.  Í málinu er ekkert það fram komið sem bendir til þess að stefnandi hafi ekki fylgt fyrirmælum laganna um að upplýsa stefnda um eðli og áhættu þeirra viðskipta sem fólust í gerð skiptasamninga, eða að stefnandi hafi ekki aflað þeirra upplýsinga um stefnda sem honum bar samkvæmt ákvæðum þeirra.  Með lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, sem tóku gildi 1. nóvember 2007, voru lög nr. 33/2003 felld brott.  Þótt hin nýju lög feli í sér veigamiklar breytingar frá eldri lögum, svo sem um aukna fjárfestingarvernd til handa almennum fjárfestum og fagfjárfestum, leggja lögin ekki bann við því að almennum fjárfestum verði heimilað að stunda afleiðuviðskipti.  Hins vegar eru þar strangari fyrirmæli en áður um upphaf slíkra viðskipta, svo sem um form samninga, upplýsingagjöf til viðskiptavina og öflun upplýsinga um þá, ráðleggingar til þeirra og mat á hæfni þeirra, sbr. m.a. 9., 14. og 15. gr. þeirra.  Byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki farið að fyrirmælum laganna og því hafi hann ekki notið þeirrar fjárfestaverndar sem lögin áskilji honum. 

Fram er komið að stefndi stofnaði fyrst til viðskipta við stefnanda með skiptasamningi á fyrrihluta árs 2005.  Eftir það átti hann samfelld viðskipti með slíka samninga, allt til þess að viðskiptunum var lokað.  Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 108/2007 kemur fram í umfjöllun um þau ákvæði sem að ofan greinir og stefndi vísar til, að þau eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar stofnað er til nýrra viðskipta eða nýrrar tegundar viðskipta eftir gildistöku laganna, og ekki hafi áður verið aflað þeirra upplýsinga sem hin nýju lög geri kröfu um.  Þá liggur fyrir að með undirritun sinni á samningana lýsti stefndi því yfir og staðfesti að hann hefði kynnt sé eðli skiptasamninga og aflað sér sérfræðirágjafar áður en hann undirritaði samningana.  Þegar þetta er virt getur stefndi ekki nú, þegar hann hefur orðið fyrir tapi, haldið því fram að hann hafi ekki skilið þá samninga sem hér um ræðir.  Af því sem fram er komið í málinu verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi hlotið að hafa gert sér grein fyrir því að viðskiptum þessum fylgdi áhætta enda grundvallaratriði í viðskiptum aðila að mögulegur ávinningur eða tap væri háð gengi þeirra hlutabréfa í því fyrirtæki sem samningarnir miðuðust við.  Þá er ekkert það fram komið í málinu sem bendir til þess að stefnda hafi ekki verið veitt ráðgjöf í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur.  Hefur stefndi því á engan hátt sýnt fram á að stefnandi hafi brotið reglur gildandi laga, þegar hann heimilaði stefnda að eiga þau viðskipti sem hér um ræðir.   Þá ber og að líta til þess, að í málinu gerir stefndi kröfu um að umdeildir samningar séu ógildir á grundvelli þess að ekki hafi verið gætt ákvæða fyrrgreindra laga.  Í lögum nr. 108/2007 eru hins vegar engar reglur um ógildi samnings vegna annmarka af þeim toga sem um ræðir í málinu.  Vegna þessa verður ekki leitað stoða fyrir kröfu stefnda í öðrum réttarheimildum en ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum eða ólögfestum reglum fjármunaréttar um ógildingu samninga.  Hefur stefndi borið fyrir sig að forsendur hafi brostið fyrir gerð samninganna.  Við úrlausn á þessari málsástæðu stefnda verður einkum að líta til eðlis umdeildra samninga, en með þeim tók stefndi áhættu af þróun markaðsverðs hlutabréfa í Exista hf. í von um hagstæða framvindu að gjalddaga.  Sú áhætta verður almennt ekki takmörkuð við að hagnaður eða tap sé innan einhverra marka og að stefndi sé þar með laus undan skuldbindingu sinni fyrst hlutabréfin urðu verðlítil á gjalddaga, og síðar verðlaus.  Um þetta verður einnig að gæta að því að sveiflur á virði hlutabréfa stafa af ýmsum ástæðum.  Kaupandi hlutabréfa getur þannig almennt ekki gengið út frá því að ekki verði tap á slíkri fjárfestingu og því síður að hún skili hagnaði.  Fyrir liggur í málinu að stefndi hafði um tíma notið ávöxtunar af eignum sínum hjá stefnda vegna samninga sem þessara.  Skylda stefnda samkvæmt samningunum er skýr og hann tók áhættuna af því að virði hlutabréfanna lækkaði.  Þá kom fram í samningi aðila, eins og að framan er rakið, að stefndi hefði kynnt sér eðli framvirkra samninga.  Vegna þess, sem áður kom fram um eðli viðskipta aðila, er efni samninganna ekki slíkt að tilefni sé til að víkja honum til hliðar.  Af málatilbúnaði stefnda verður ráðið að upplýsingar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sé ætlað að styðja þær málsástæður stefnda, sem byggja á 36. gr. og 30. gr. laga nr. 7/1936.  Atriði sem þar koma fram geta hins vegar ekki talist sönnun á þeim staðhæfingum stefnda, og eru þær því ósannaðar og verður því tilvitnuðum ákvæðum samningalaga ekki beitt við úrlausn málsins, vegna atvika, sem haldið er fram að hafi verið fyrir hendi við samningsgerðina.  Þá verður ekki talið að þó svo að fyrir liggi að töluverður aðstöðumunur hafi verið á aðilum nægir það ekki eitt og sér til að sýna fram á að skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 sé fullnægt.  Samkvæmt því verður hvorki séð að efni samninganna né atvik eftir samningsgerðina gefi tilefni til að víkja samningunum til hliðar. 

Stefndi byggir á því að hann sé óbundinn af samningunum vegna brostinna forsenda.  Hér er áréttað að það fylgir því áhætta að eiga viðskipti með hlutabréf.  Það er aldrei hægt að treysta því að þau einungis hækki í verði og skili hagnaði svo sem stefndi gerir í málatilbúnaði sínum.  Það er ekki forsendubrestur að hlutabréf þau sem stefndi gerði samninga um hafi ekki skilað hagnaði svo sem hann óskaði.  Hrun bankanna sem varð hér á landi í október 2008 getur eitt og sér ekki orðið til þess að losa stefnda undan því að standa við skuldbindingar sínar. Rannsókn bankahrunsins og háttsemi stjórnenda Landsbankans breytir því ekki að stefndi verður að standa við skuldbindingar sínar hver svo sem niðurstaða rannsóknarinnar verður.  Eru fullyrðingar stefnda um meinta markaðsmisnotkun stefnanda hæfi hans til að selja viðskiptamönnum sínum fjármálagerninga sem og svik við gerð umræddra samninga með öllu ósannaðar.  Með vísan til framanritaðs verður ekki talið að stefndi hafi sýnt fram á að samningarnir hafi komist á með svikum eða að hlutabréfin hafi verið gölluð í skilningi laga nr. 50/2000.

Stefndi byggir og á því að hann hafi með bréfi, dagsettu 22. janúar 2009, rift umræddum samningum.  Eins og að framan greinir var gjalddagi í viðskiptum aðila 29. ágúst 2008.  Þegar það er virt sem og orðalag umrædds bréfs, en þar er ekki minnst á riftun gerninganna, er ekki unnt að líta svo á að um riftun hafi verið að ræða, enda virðist stefndi ekki hafa litið svo á í samskiptum sínum við stefnanda eftir ritun bréfsins.  Þá er ekki unnt að líta svo á að hlutabréfin hafi verið gölluð þó svo verðmæti þeirra hafi ekki svarað til væntinga stefnda, og stefnda hafi þar með verið heimil riftun af þeim sökum, sbr. 39. kaupalaga, eða eigi rétt á skaðabótum eða afslætti.  Eðli umræddra viðskipta eru þau, að við gerð slíkra samninga skiptir ekki máli um skuldbindingargildi þeirra hvort markaðsverð hlutabréfa breytist mikið eða lítið eftir samningsgerð.  Aðilarnir eru skuldbundnir eftir sem áður.  Bar stefnda því að efna samningana á gjalddaga hans, enda ekki samið um framlengingu samninganna.

Með bókun í þinghaldi hinn 22. mars 2011, eftir höfðun dómsmáls þessa, breytti stefnandi kröfu sinni á þá lund að einungis var krafist greiðslu úr hendi stefnda, þar sem honum var ekki lengur unnt að afhenda umsamin hlutabréf í Exista hf.  Þá gerði stefnandi kröfu til vara um greiðslu lægri fjárhæðar, en krafist er í aðalkröfu.  Verður að telja að 111. gr. laga  nr. 91/1991 sé því ekki til fyrirstöðu að kröfur þessar komist að í málinu.  Verður og fallist á það með stefnanda að samningunum hafi verið lokað á gjalddaga, þar sem ekki var samið um framlengingu á gildi þeirra.  Þegar litið er til þess verður stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda fjárhæð, í samræmi við stöðu samninganna á lokunardegi, með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.  Samkvæmt því verður því fallist á varakröfu stefnanda, eins og hún er fram sett. 

                Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.

                Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Einar Pétursson, greiði stefnanda, LBI hf., 12.250.430 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 29. ágúst 2008 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.