Hæstiréttur íslands
Mál nr. 820/2013
Lykilorð
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Ökuréttarsvipting
|
|
Fimmtudaginn 27. mars 2014. |
|
Nr. 820/2013. |
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Mikael
Má Pálssyni (Björgvin Jónsson hrl.) |
Akstur undir
áhrifum ávana- og fíkniefna. Ökuréttarsvipting.
M var
sakfelldur fyrir að hafa í sex skipti ekið bifreið sviptur ökurétti og óhæfur
til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Með brotunum
rauf M skilyrði reynslulausnar og var honum gert að afplána eftirstöðvar fyrri
refsingar. Þá átti M langan sakaferil að baki. M var gert að sæta fangelsi í
tvö ár og upptöku fíkniefna auk þess sem áréttuð var ævilöng ökuréttarsvipting
hans.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Ákærði á að baki samfelldan sakaferil allt frá árinu 2002 fyrir ýmis brot
gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, lögum um ávana- og fíkniefni nr.
65/1974 og umferðarlögum nr. 50/1987. Með dómi 17. maí 2002 var ákærði dæmdur í
sex mánaða skilorðbundið fangelsi fyrir
rán, rangar sakargiftir, ölvunarakstur og akstur sviptur ökurétti. Hinn 29.
apríl 2003 hlaut hann átta mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir þjófnað og
fíkniefnalagabrot, en sá dómur var hegningarauki við fyrrnefndan dóm. Hann var
30. desember 2003 dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af átta mánuði
skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir fíkniefnalagabrot og var dómurinn frá 29. apríl
2003 þá tekinn upp og dæmdur með því máli. Ákærði hlaut 18 mánaða fangelsisdóm
3. febrúar 2004 fyrir rán, þjófnað og fíkniefnalagabrot auk þess sem hann var
sakfelldur fyrir ölvunarakstur og akstur án ökuréttar og sviptur ökurétti í tvö
ár frá 25. febrúar 2004. Með dómi 7. apríl 2004 var ákærði dæmdur í 30 daga
fangelsi fyrir rangar sakargiftir og akstur sviptur ökurétti og var sá dómur hegningarauki
við dómana frá 17. maí 2002, 29. apríl 2003, 30. desember 2003 og 3. febrúar
2004. Ákærði var 13. maí 2004 dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir
fíkniefnalagabrot og 16. september sama ár í tveggja mánaða fangelsi fyrir
umferðarlagabrot, þar á meðal akstur án ökuréttinda. Þá var ákærði 13. júní
2006 dæmdur í fjögurra ára fangelsi
meðal annars fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og að aka bifreið án þess að
hafa öðlast ökuréttindi. Ákærði var 14. maí 2007 dæmdur í fjögurra mánaða
fangelsi, þar af tvo mánuði skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir fíkniefnalagabrot. Þá
var hann 5. mars 2010 dæmdur í 15 mánaða
fangelsi fyrir ýmis brot, þar á meðal akstur undir áhrifum fíkniefna. Með dómi
31. janúar 2011 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, meðal annars fyrir
akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda og var sá dómur hegningarauki við
dóminn frá 5. mars 2010. Með dómi 16. febrúar 2012 var ákærði dæmdur í fimm
mánaða fangelsi fyrir ölvunarakstur, akstur undir áhrifum fíkniefna og án
ökuréttar. Þá var hann sviptur ökurétti í fimm ár frá 20. febrúar 2012. Að
lokum gekkst ákærði 16. maí 2012 undir greiðslu 60.000 króna sektar með sektargerð
lögreglustjóra fyrir að aka sviptur ökurétti og 3. apríl 2013 gekkst hann undir
greiðslu 120.000 króna sektar með sektargerð lögreglustjóra fyrir sams konar
brot. Ákærða var 8. júní 2012 veitt reynslulausn í tvö ár á eftirstöðvum 220
daga refsingar. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hlaut hann dóm 17. janúar
2014 fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti.
Ákærði, sem er vanaafbrotamaður, hefur með þeim brotum, sem í ákæru greinir, rofið skilyrði fyrrgreindrar reynslulausnar. Ber því að taka upp 220 daga eftirstöðvar refsingarinnar, sem honum var veitt reynslulausn á, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, og ákveða refsingu í einu lagi fyrir brot þau, sem nú er dæmt um og með hliðsjón af þeirri fangelsisrefsingu sem óafplánuð er samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði á langan sakaferil að baki. Hann ók undir áhrifum sterkra fíkniefna og í blóði hans mældist hátt gildi þeirra. Þá sýndi hann einbeittan brotavilja og hélt áfram brotum eftir að honum var birt ákæra í máli þessu. Horfir framangreint til refsiþyngingar, sbr. 6. og 8. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. sömu laga er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um ökuréttarsviptingu, upptöku og sakarkostnað
verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar
með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að
meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Mikael Már Pálsson, sæti fangelsi í tvö ár, en
að öðru leyti skal héraðsdómur vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 341.421
krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti,
Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness :
Mál þetta, sem þingfest var 10.
október sl. og dómtekið samdægurs, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,
dagsettri 17. september 2013, á hendur Mikael Má Pálssyni, kt.
[...], dvalarstaður: [...],
„fyrir
eftirtalin umferðar-, fíkniefna- og lögreglulagabrot framin árið 2013, með því
að hafa:
- Miðvikudaginn 27. febrúar ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti
og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna
(í blóði mældist amfetamín 85 ng/ml og kókaín 20 ng/ml) norður Vatnsendaveg og inn Breiðahvarf í Kópavogi,
þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
M.
007-2013-009703
Telst
brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr.
1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.
- Mánudaginn 15. apríl ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og
óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í
blóði mældist amfetamín 315 ng/ml og kókaín 155 ng/ml) norður Lækjargötu að Öldugötu í Hafnarfirði, þar
sem lögregla stöðvaði aksturinn og að hafa í umrætt sinn haft í vörslum
sínum 0,05 g af kókaíni sem lögregla fann við leit í bifreiðinni.
M: 007-2013-18544
Telst
brot þetta varða við 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, allt sbr.
1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og
fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr.
14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr.
233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
- Þriðjudaginn 16. apríl ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og
óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í
blóði mældist amfetamín 305 ng/ml og kókaín 65 ng/ml) vestur Suðurbraut í Hafnarfirði og inn á
bifreiðastæði við leikskólann Smáralund, þar sem lögregla stöðvaði
aksturinn og í umrætt sinn ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að staðnæmast
heldur hlaupið burt og á sama tíma haft í vörslum sínum 29,79 g af
amfetamíni.
M: 007-2013-018972
Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr.
45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr.
50/1987 með áorðnum breytingum, 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 2. gr.,
sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr.
13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um
ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð
nr. 848/2002.
- Þriðjudaginn 23. apríl ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og
óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í
blóði mældist amfetamín 235 ng/ml, kókaín 30 ng/ml og MDMA 345 ng/ml) suður Kársnesbraut í
Kópavogi, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn til móts við Kársnesbraut
nr. 108.
M: 007-2013-020421
Telst
brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr.
1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.
- Föstudaginn 10. maí ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og
óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í
blóði mældist amfetamín 60 ng/ml og kókaín 145 ng/ml) um Hringbraut í Reykjavík við BSÍ, þar sem
lögregla stöðvaði aksturinn. M: 007-2013-023830
Telst
brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr.
1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.
- Sunnudaginn 4. ágúst ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og
óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í
blóði mældist amfetamín 200 ng/ml, kókaín 145 ng/ml og tetrahýdrókannabínól
2,7 ng/ml) austur
Vesturlandsveg, inn Álafossveg, þaðan inn á Helgafellsveg og loks norður
Ásaveg í Mosfellsbæ þar sem lögregla stöðvaði aksturinn og að hafa ekið
bifreiðinni í umrætt sinn á röngum vegarhelmingi, of hratt miðað við
aðstæður og án þess að fylgja leiðbeiningum lögreglu um umferð.
M: 007-2013-040353
Telst
brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., 1. mgr. 48. gr., 1. mgr. 14.
gr., 3. mgr. 5. gr., 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 36. gr., allt sbr. 1. mgr. 100.
gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.
Þess
er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls
sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga
nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr.
66/2006. Þá er krafist upptöku á 29,79 g
af amfetamíni og 0,05 g af kókaíni, sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og
2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“
Ákærði
kom fyrir dóminn og játaði greiðlega sök. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum
164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu
er sækjanda og verjanda hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og
ákvörðun refsingar. Ákærði krafðist vægustu refsingar. Er játning ákærða í
samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín en þau
eru í ákæru rétt fært til refsiákvæða. Ákærði
hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar.
Samkvæmt
sakavottorði, sem liggur frammi í málinu, á ákærði nokkuð langan brotaferil að
baki frá árinu 2002. Af þeim brotum hefur ákærða sex sinnum verið gerð refsing
fyrir ölvunar- eða fíkniefnaakstur. Þá hefur ákærða einnig sex sinnum verið
gerð refsing fyrir að aka sviptur ökurétti. Hafa öll þessi brot ítrekunaráhrif
við ákvörðun refsingar nú en taka verður tillit til þess að í sumum tilvikum
eru dómar hegningarauki við fyrri dóma.
Samkvæmt dómaframkvæmd hefur
refsing fyrir hvert ítrekað brot gegn 45. og 45. gr. a umferðarlaga, umfram
fyrstu ítrekun, varðað þrjátíu daga fangelsi og brot gegn 1. mgr. 48. gr.
umferðarlaga, að aka sviptur ökurétti, ítrekað í annað sinn, varðað þrjátíu
daga refsingu. Hafa refsingar við ítrekanir eftir það þyngst sem nemur þrjátíu
daga fangelsi. Ákærða var gerð refsing fyrir hraðakstur og að aka sviptur
ökurétti með dómi 3. apríl 2013. Með því broti rauk ákærði reynslulausn á 220 dögum
sem honum var veitt 8. júní 2012 til tveggja ára. Með broti samkvæmt 1. lið
ákærunnar rauf ákærði aftur sömu reynslulausn og með öllum brotum sem lýst er í
ákærunni eftir það. Ákærða var veitt reynslulausn þann 15. ágúst 2005 vegna
nokkurra dóma á 260 dögum í tvö ár. Ákærði rauf þá reynslulausn 27. febrúar
2009 og var sú reynslulausn dæmd upp. Með hliðsjón af ofansögðu og sakarferli
ákærða ber að dæma reynslulausn, er ákærða var veitt þann 8. júní 2012 upp, með
vísan til af 65. gr. laga 49/2005, sbr. 60. gr., sbr. 77. gr. laga nr. 19/1940.
Þá verður ákærða gerð refsing samkvæmt 1. ákærulið samkvæmt 78. gr. laga nr.
19/1940.
Er
refsing ákærða nú ákveðin, fangelsi í tvö og hálft ár. Ekki eru skilyrði til að
skilorðsbinda refsinguna. Þá ber að árétta ævilanga ökuréttarsviptingu ákærða.
Þá skal ákærði sæta upptöku á fíkniefnum eins og segir í dómsorði.
Ákærði
greiði allan sakarkostnað, sem er samkvæmt yfirliti 976.648 krónur, og þóknun
verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hrl., 116.087 krónur að meðtöldum
virðisaukaskatti.
Ástríður
Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði,
Mikael Már Pálsson, kt. 230980-4549, sæti fangelsi í
tvö og hálft ár.
Áréttuð
er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.
Ákærði
sæti upptöku á 29,79 g af amfetamíni og 0,05g af kókaíni.
Ákærði
greiði allan sakarkostnað, 1.092.735 krónur, þar með talda þóknun skipaðs
verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hrl. 116.087 krónur að meðtöldum
virðisaukaskatti.