Hæstiréttur íslands

Mál nr. 194/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Skuldajöfnuður


Þriðjudaginn 12

 

Þriðjudaginn 12. júní 2001.

Nr. 194/2001.

Guðfinnur S. Halldórsson

(Leó E. Löve hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Jónatan Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Skuldajöfnuður.

Bílasalinn G hafði bifreið til sölumeðferðar á bílasölu sinni. K fékk umráð bifreiðarinnar gegn tiltekinni greiðslu, en ekki var gengið formlega frá kaupunum og tilkynning um eigendaskipti ekki gerð. G tók bifreiðina aftur í sína vörslu án vitundar K, sem lék sama leikinn stuttu síðar er bifreiðin var á verkstæði á vegum G. Sýslumaður gerði fjárnám í bifreiðinni að kröfu vátryggingafélagsins S á grundvelli veðskuldabréfs útgefnu af G, sem tryggt var með veði í bifreiðinni. G mótmælti framgangi gerðarinnar og reisti kröfu sína á því að krafan væri að fullu greidd með skuldajöfnuði við kröfu um húftryggingarbætur úr hendi S vegna þjófnaðar á bifreiðinni. Ágreiningur var með G og K, kaupanda bifreiðarinnar, um eignarhald hennar og höfðu þeir báðir beitt sjálftöku til að ná umráðum hennar. Taldi héraðsdómur að sú athöfn K að taka bifreiðina í sínar vörslur hefði ekki verið þjófnaður í skilningi húftryggingarskilmála S og því hefði G ekki átt tilkall til húftryggingarbóta. Var kröfu hans um ógildingu aðfarargerðar hafnað. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá honum 13. desember 2000 fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð alls 976.540 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Guðfinnur S. Halldórsson, greiði varnaraðila, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., 40.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2001.

Mál þetta var var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2. febrúar sl. 

Sóknaraðili er Guðfinnur S. Halldórsson, kt. 211049-4489; Lækjargötu 4, Reykjavík.

Varnaraðili er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að fjárnámsgerð nr. 011-2000-15483 sem fram fór hjá sýslumanninum í Reykjavík hinn 13. desember 2000 verði felld úr gildi. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila, auk virðisaukaskatts, en sóknaraðili er ekki virðisaukaskattskyldur sem einkaaðili.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að kröfu sóknaraðila um ógildingu aðfarargerðar nr. 011­2000-15483 verði hafnað og að fjárnámið standi áfram óhaggað. Þá krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað eftir mati dómsins.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 28. mars sl.  Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, áður en úrskurður var kveðinn upp.

I

Málsatvik

Málavextir eru þeir að fram fór fjárnám hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila hinn 13. desember sl.  Fjárnámið var gert á grundvelli veðskuldabréfs upphaflega að fjárhæð 678.920 kr., sem útgefið var af sóknaraðila 4. mars 1998 til varnaraðila. Til tryggingar greiðslu skuldarinnar var skuldareiganda veðsett bifreiðin YJ 988 með 1. veðrétti. Var jafnframt tilskilið að bifreiðin skyldi ávallt vera ábyrgðar- og kaskótryggð hjá varnaraðila, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Við fjárnámsgerðina var framgangi gerðarinnar mótmælt af hálfu sóknaraðila á þeim grundvelli að krafan hefði áður verið greidd með skuldajöfnuði.  Mótmælin voru ekki tekin til greina og fór gerðin fram.  Með bréfi dags. 17. janúar sl. var krafist úrlausnar héraðsdóms um aðfarargerðina.

Samkvæmt framlögðum gögnum er forsaga málsins sú að sóknaraðili hafði bifreiðina YJ 988, sem skráð var eign Eignarhaldsfélagsins Jöfurs, til sölumeðferðar á bílasölu sinni.  Á tímabilinu frá 7. október 1997 til 12. febrúar 1998 greiddi Miðlun og ráðgjöf, einkafirma Kristjáns Arnar Elíssonar, 290.000 kr. í peningum og 390.000 kr. með víxlum sem innborgun vegna kaupa á bifreiðinni og fékk umráð hennar.  Ekki var gengið formlega frá þeim kaupum og tilkynning um eigendaskipti var ekki gerð.  Sóknaraðili tók bifreiðina aftur í sína vörslu og var skráður eigandi hennar frá 4. mars 1998. Af hálfu Miðlunar og ráðgjafar var taka bifreiðarinnar kærð til lögreglu, sem ekki taldi tilefni til aðgerða í málinu.  Hinn 17. mars 1998 tók Kristján Örn Elíasson bifreiðina YJ 988 í sína vörslu þar sem hún var á bifreiðaverkstæði í Reykjavík á vegum sóknaraðila. Sóknaraðili kærði tökuna til lögreglustjórans í Reykjavík með bréfi dags. 25. mars 1998. Í bréfi lögreglustjórans í Reykjavík til sóknaraðila dags. 27. apríl 1998 kemur fram að lögreglan taldi sig ekki hafa heimildir til þess að taka bifreiðina úr vörslum Kristjáns og var sóknaraðila bent á að leita réttar síns á grundvelli aðfararlaga. Sóknaraðili lét ekki reyna á rétt sinn fyrir dómi, en með bréfi lögmanns sóknaraðila til varnaraðila dags 4. maí 1998 var því lýst yfir að þar sem bifreiðinni YJ 988 hefði verið stolið ætti sóknaraðili rétt á húftryggingarverði bifreiðarinnar að fjárhæð 1.210.000 kr. Í bréfinu kom jafnframt fram að sóknaraðili lýsti yfir skuldajöfnuði með þessari kröfu annars vegar gagnvart fyrrgreindu láni frá varnaraðila sem um ræðir í málinu og hins vegar gagnvart bílaláni frá varnaraðila sem veitt var með veði í bifreiðinni JA 498 og ber einkanúmerið GUFFI.

Bótakröfu sóknaraðila var hafnað með bréfi varnaraðila dags. 5. maí 1998.

Vanskil urðu á skuld sóknaraðila við varnaraðila samkvæmt fyrrgreindu veðskuldabréfi.  Innheimtuaðgerðir leiddu til þess að bifreiðin YJ 988 var seld nauðungarsölu 2. september 2000 og greiddust 361.417 kr. af söluandvirði upp í kröfu varnaraðila.  Í framhaldi af því var krafist þeirrar aðfarar, sem um er deilt í máli þessu.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi að fullu greitt áhvílandi veðskuld á bifr. YJ 988 með skuldajöfnun, en það sé skuld sú sem fjárnám var gert fyrir 13. desember sl. Skuldajöfnunin hafi farið fram með formlega réttum hætti samkvæmt fyrrgreindu bréfi dags. 4. maí 1998. Auk skuldajöfnunarinnar liggi fyrir að öll umráð bifreiðarinnar hafi verið varnaraðila tæk þegar í ársbyrjun 1999 og átti þá af hans hálfu að vera hægt að selja bifreiðina YJ 988, hvort sem var frjálsri sölu eða á nauðungaruppboði. Það geti ekki talist sóknaraðila til nokkurs vansa að bifreiðin var ekki komin í umráð varnaraðila við þær aðstæður sem lýst hefur verið. A.m.k. myndi tómlæti af hálfu varnaraðila varpa allri ábyrgð á hann. Þá verði að líta til þess að fjárhagslegur og um leið annar styrkur varnaraðila, m.ö.o. aðstöðumunur, hljóti að færa honum ríkar skyldur.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir kröfur sínar á því að skuldajöfnuður sá sem sóknaraðili byggir á hafi verið óheimill þar sem sóknaraðili hafi ekki átt þá kröfu á hendur varnaraðila sem hann notaði til skuldajöfnunar. Krafa sú sem notuð var til skuldajöfnunar byggðist á því að sóknaraðili hefði átt rétt á greiðslu húftryggingar vegna þjófnaðar á bifreiðinni YJ 988 eins og áður er rakið. Því er mótmælt á eftirfarandi grundvelli.

Í fyrsta lagi er byggt á því að ekki hafi verið um þjófnað að ræða í lagalegum skilningi heldur hafi verið um að ræða ágreining sóknaraðila og Kristjáns Arnar Elíassonar um það hver væri eigandi hinnar umdeildu bifreiðar og verði því að líta á þær vörslutökur sem áttu sér stað sem gertæki og ólögmæta sjálftöku en ekki þjófnað. Þegar af þessari ástæðu hafi sóknaraðili ekkert tilkall átt til húftryggingarbóta.

Í öðru lagi er á því byggt að sóknaraðili hafi aldrei látið reyna á réttmæti tilkalls síns til bifreiðarinnar með þeim lögformlegu úrræðum sem eðlilegt hefði verið að grípa til við þær aðstæður sem sköpuðust, þ.e. að krefjast innsetningar með beinni aðfarargerð eins og mælt sé fyrir um í lögum um aðför nr. 90/1989 eða með almennu einkamáli, þrátt fyrir skýrar ábendingar þar um frá lögreglu.  Ástæða þess hafi hugsanlega verið sú að sóknaraðili hafi óttast að hann næði ekki fram rétti sínum með þeim hætti.

Í þriðja lagi er á því byggt að lögreglurannsókn sú sem fram fór vegna málsins hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að ekki væri um refsimál að ræða heldur einkamál. Í þessari niðurstöðu hljóti að felast það mat að samkvæmt  fyrirliggjandi gögnum þá hafi ekkert bent til þess að refsiverður verknaður hafi átt sér stað, þ.á m. þjófnaður.

Í fjórða lagi er á því byggt að allan tímann hafi sóknaraðila verið ljóst hver hefði haft bílinn undir höndum án þess að reyna með þeim úrræðum sem tiltæk voru að ná honum aftur.

Þótt komist verði að þeirri niðurstöðu að um þjófnað hafi verið að ræða þá hafi þau skilyrði sem fram koma í tryggingarskilmálum ekki verið uppfyllt, m.a. um að senda inn skriflega tilkynningu án tafar um leið og hið bótaskylda atvik gerðist eins og áskilið sé í 13. gr. skilmála. Samkvæmt 16. gr. skilmálanna sé heimilt að gera kröfu um greiðslu húftryggingar 4 vikum eftir að tilkynnt hafi verið með fullnægjandi hætti um hið bótaskylda atvik en sóknaraðili hafi tilkynnt og gert kröfu í sömu tilkynningunni.

Með vísan til framanritaðs beri að hafna kröfum sóknaraðila í máli þessu.

IV

Niðurstaða

Grundvöllur fjárnámsgerðar þeirrar sem um er deilt í máli þessu er krafa varnaraðila vegna skuldabréfs útgefnu af sóknaraðila hinn 4. mars 1998 og sem tryggt var með veði í bifreiðinni YJ 988.  Byggir sóknaraðili á því að sú krafa sé að fullu greidd með skuldajöfnuði við kröfu um húftryggingarbætur úr hendi varnaraðila vegna þjófnaðar á bifreiðinni YJ 988.  Því er mótmælt af hálfu varnaraðila sem telur að sóknaraðili hafi ekki öðlast slíka bótakröfu.

Ljóst er af gögum máls að verulegur ágreiningur var með sóknaraðila og Kristjáni Erni Elíassyni um eignarhald bifreiðarinnar YJ 988 og beittu þeir báðir sjálftöku til að ná  umráðum hennar. Lögregla taldi ekki efni til að sinna víxlkærum þeirra um þjófnað á bifreiðinni.  Fyrir lá að Kristján Örn Elíasson hafði tekið bifreiðina í sínar vörslur þegar sóknaraðili tilkynnti varnaraðila um þjófnað á henni með bréfi dags. 4. maí 1998 og krafðist jafnframt skuldajafnaðar á húftryggingarbótum og áhvílandi veðskuld bifreiðarinnar.  Þegar þetta er virt verður ekki talið að um þjófnað hafi verið að ræða í skilningi greinar 1.2. í húftryggingarskilmálum varnaraðila og átti sóknaraðili því ekki tilkall til húftryggingarbóta.  Ber því að hafna kröfu sóknaraðila um ógildingu aðfarargerðar nr. 011-2000-15483.

Sóknaraðili skal greiða varnaraðila málskostnað sem ákveðst 60.000 kr.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu sóknaraðila um ógildingu aðfarargerðar nr. 011­2000-15483, sem fram fór 13. desember 2000, er hafnað.

Sóknaraðili, Guðfinnur S. Halldórsson, greiði varnaraðila, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. 60.000 kr. í málskostnað.