Hæstiréttur íslands
Mál nr. 135/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
- Aðfinnslur
|
Mánudaginn 2. mars 2015. |
|
|
Nr. 135/2015.
|
Sp/f Dregg (Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn þrotabúi Dreggjar ehf. (Sigmundur Guðmundsson hdl.) |
Kærumál. Málskostnaðartrygging. Aðfinnslur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu þrotabús D ehf. um að Sp/f D yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar við úrlausn ágreinings um lýsta kröfu Sp/f D í þrotabúið. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem heyrir undir þann kafla laganna er fjallar um málsmeðferð fyrir héraðsdómi, giltu almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt kaflanum, nema annað leiddi af ákvæðum laganna. Af því leiddi að heimilt væri að gera kröfu um tryggingu fyrir málskostnaði í máli sem skiptastjóri hefði beint til héraðsdóms vegna ágreinings um lýsta kröfu, ef skilyrði 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 væru uppfyllt, enda ekki ástæða til að gera í því tilliti greinarmun á því hvort leyst væri úr kröfu samkvæmt XXIV. kafla laga nr. 21/1991 eða kröfu í almennu einkamáli. Var ekki talið að Sp/f D hefði lagt fram gögn til að hnekkja þeim líkum er leiddar hefðu verið að því að hann væri ófær um greiðslu málskostnaðar. Samkvæmt því var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. janúar 2015, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar við úrlausn ágreinings um lýsta kröfu sóknaraðila í þrotabúið. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins er sóknaraðili færeyskt félag, sem stofnað var árið 2009 og mun óbeint hafa verið í eigu Ara Axels Jónssonar, en hann átti jafnframt Dregg ehf. og félögin Sp/f Saga Shipping og Sp/f Dregg Shipping. Dregg ehf. mun hafa selt sóknaraðila flutningaskipið Axel 9. júní 2009. Sagði í afsali að söluverðið væri tvær milljónir bandaríkjadala og væri það að fullu greitt. Bú Dreggjar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 7. maí 2012 og var frestdagur 30. mars sama ár. Varnaraðili lýsti yfir riftun á sölu skipsins til sóknaraðila 25. júlí 2012 og sama dag féllst sýslumaðurinn á Akureyri á kröfu hans um kyrrsetningu skipsins í Akureyrarhöfn, en ekki mun hafa verið fallist á kröfu varnaraðila um að skipið yrði tekið úr umráðum sóknaraðila. Var skipinu siglt í átt til Noregs 28. sama mánaðar þrátt fyrir fyrrnefnda kyrrsetningu. Sóknaraðili afsalaði skipinu til félagsins Sp/f Dregg Shipping og var afsal móttekið hjá færeysku skipaskránni 1. ágúst 2012. Síðastnefnda félagið afsalaði skipinu til Sp/f Saga Shipping 7. sama mánaðar.
Varnaraðili höfðaði 31. júlí 2012 mál á hendur sóknaraðila til riftunar á þeirri ráðstöfun er fólst í afsali til hans á skipinu. Héraðsdómur í Nord-Troms í Noregi féllst á kröfu varnaraðila um að skipið yrði tekið úr umráðum skráðs eiganda með úrskurði 6. september 2012 og kvað sami dómstóll upp dóm 14. sama mánaðar til staðfestingar því. Í kjölfar þess gerðu varnaraðili og sóknaraðili ásamt félögunum Sp/f Saga Shipping og Sp/f Dregg Shipping með sér samkomulag 18. september 2012. Í 1. grein samkomulagsins sagði að með því væri komin á sátt í máli því er varnaraðili rak á hendur sóknaraðila fyrir héraðsdómi í Nord-Troms og málum þeim er rekin hafi verið fyrir íslenskum dómstólum. Sp/f Saga Shipping skuldbatt sig til að gefa út veðskuldabréf til varnaraðila að fjárhæð 250 milljón krónur með veði í skipinu. Áður en kom að greiðslu þess var bú Sp/f Saga Shipping tekið til gjaldþrotaskipta í Færeyjum. Við skipti á þrotabúinu lýsti Sp/f Dregg Shipping kröfu í búið vegna greiðslu á andvirði skipsins. Í kjölfar nauðungarsölu skipsins var varnaraðila úthlutað upp í kröfu sína samkvæmt framangreindu skuldabréfi.
Með kröfulýsingu sóknaraðila 24. september 2013 krafði hann varnaraðila um greiðslu tveggja milljóna bandaríkjadala, auk innheimtukostnaðar á grundvelli 143. gr. laga nr. 21/1991, en það mun vera ætluð greiðsla á andvirði skipsins. Hafnaði skiptastjóri varnaraðila kröfunni og var málefninu beint til héraðsdóms 13. desember 2013 í samræmi við 120., 121. og 171. gr. laga nr. 21/1991. Málið var þingfest 27. febrúar 2014 og krafðist varnaraðili þess þá að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Krafan var tekin til úrskurðar 11. mars sama ár og með úrskurði héraðsdóms 29. janúar 2015 var fallist á hana.
II
Samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sem heyrir undir þann kafla laganna er fjallar um málsmeðferð fyrir héraðsdómi, gilda almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt kaflanum, nema annað leiði af ákvæðum laganna. Af því leiðir að heimilt er að gera kröfu um tryggingu fyrir málskostnaði í máli sem skiptastjóri hefur beint til héraðsdóms vegna ágreinings um lýsta kröfu eins og hér háttar til, ef skilyrði 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 eru uppfyllt, enda er ekki ástæða til að gera í þessu tilliti greinarmun á því hvort leyst sé úr kröfu samkvæmt XXIV. kafla laga nr. 21/1991 eða kröfu í almennu einkamáli. Varnaraðili byggir kröfu sína á b. lið greinarinnar, þar sem kveðið er á um að unnt sé að krefjast tryggingar fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Megintilgangur þess ákvæðis er að tryggja greiðslu á málskostnaði þeim til handa, sem þarf að taka til varna gegn málsókn og verða fyrir útgjöldum af vörnum sínum, þótt fyrirfram sé sýnt að sá sem málið sækir geti ekki greitt málskostnað sem á hann verður felldur.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili ekki lagt fram gögn til að hnekkja þeim líkum sem leiddar hafa verið að því að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði segir og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og þar greinir.
Eins og að framan er rakið var krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar tekin til úrskurðar í héraðsdómi 11. mars 2014, en úrskurður var kveðinn upp nær ellefu mánuðum síðar, 29. janúar 2015, eftir að aðilar höfðu flutt málið að nýju um þennan þátt málsins 27. janúar sama ár. Er þessi dráttur á meðferð málsins aðfinnsluverður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að tveggja vikna frestur sóknaraðila, Sp/f Dregg, til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar hefst við uppsögu þessa dóms.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, þrotabúi Dreggjar ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. janúar 2015.
Mál þetta var tekið til úrskurðar um kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu þann 27. janúar sl.
Sóknaraðili málsins er Sp/f Dregg með heimili í Færeyjum, varnaraðili er þrotabú Dreggjar ehf., kt. [...].
Málið er rekið til úrlausnar ágreinings um viðurkenningu kröfu sóknaraðila sem hann lýsti á hendur varnaraðila, að fjárhæð tvær milljónir Bandaríkjadala, auk innheimtukostnaðar og virðisaukaskatts á hann, samtals 199.100 Bandaríkjadalir. Var kröfunni hafnað af skiptastjóra varnaraðila.
Í þessum þætti málsins krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir hugsanlegum málskostnaði. Sóknaraðili krefst þess að kröfunni verði hrundið.
Með vísan til 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21, 1991 er heimilt að hafa uppi þessa kröfu í málinu, sbr. 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91, 1991.
Samkvæmt áritun endurskoðanda á ársreikning sóknaraðila fyrir árið 2012 var greiðslugeta sóknaraðila takmörkuð við lok reikningsársins og áframhaldandi rekstur háður því að hún yrði bætt. Auk þess var eigið fé sóknaraðila neikvætt um 30.000 krónur (danskar) og hafði tapast allt það fé sem lagt hafði verið til hans í upphafi. Bar stjórn hans skylda að lögum til að taka ákvörðun um fjárhagslega stöðu hans innan nánar greinds frests, en það hafði ekki verið gert. Var því ekki sett fram nein ályktun um ársreikninginn af hálfu endurskoðandans. Áritun sama efnis er á ársreikningi sóknaraðila fyrir árið 2013. Þar segir einnig m.a. að verulegur vafi geti leikið á möguleikum félagsins á áframhaldandi rekstri. Þá segir að stjórn sóknaraðila geti hafa bakað sér refsiábyrgð með því að hafa vanrækt að boða til hluthafafundar innan sex mánaða frá því að helmingur eiginfjár hafði tapast. Samkvæmt þessum reikningi var eigið fé sóknaraðila neikvætt um 43.119 danskar krónur.
Sóknaraðili hefur engin gögn lagt fram til að hnekkja þeim líkum sem leiddar verða að bágri fjárhagsstöðu hans af þessum ársreikningum. Verður að telja að varnaraðili hafi sýnt nægilega fram á það að leiða megi líkur að því að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar, sbr. b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.
Með vísan til framangreinds verður krafa varnaraðila tekin til greina þannig að sóknaraðili skal setja tryggingu fyrir málskostnaði að fjárhæð 600.000 krónur með peningum eða óskilyrtri bankaábyrgð og afhenda dómnum skilríki fyrir henni innan tveggja vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar að telja.
Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Sóknaraðila, Sp/f Dregg, er skylt að setja 600.000 krónur í tryggingu fyrir málskostnaði með peningum eða óskilyrtri bankaábyrgð innan tveggja vikna frá uppkvaðningu þessa úrskurðar að telja.