Hæstiréttur íslands
Mál nr. 196/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 8. apríl 2014. |
|
Nr. 196/2014. |
Þorsteinn
Hjaltested (Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson hrl.) gegn Glitni
hf. (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál.
Afhending gagna. Skjal. Sératkvæði.
Þ kærði úrskurð héraðsdóms þar
sem hafnað var kröfu hans um að F yrði gert að leggja fram nánar tilgreint gagn
í dómsmáli sem rekið var um kröfu Þ við slit G hf. Í dómi Hæstaréttar var tekið
fram að ágreiningslaust væri að G hf. hefði undir höndum skjal það sem Þ gerði
kröfu um að F afhenti. Samkvæmt ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 væri
meginreglan sú að sönnur með skjölum eða öðrum sýnilegum gögnum verði færðar í
einkamáli með því að aðilarnir leggi fram gögn af þessum toga, sem þeir hafi
sjálfir undir höndum, en heimildum 3. mgr. 67. gr. og 2. og 3. mgr. 68. gr.
laganna til að leggja á þriðja mann skyldu til að afhenda gögn verði því aðeins
beitt að hjá því verði ekki komist. Var Þ ekki talinn hafa sýnt fram á að honum
nægði ekki það úrræði til sönnunarfærslu sem mælt væri fyrir um í 1. mgr. 68.
gr. laga nr. 91/1991 og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Fjármálaeftirlitinu yrði gert skylt að afhenda fyrir dómi skýrslu þá sem úrskurðurinn tekur til og Fjármálaeftirlitið gaf út í desember 2007. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og Fjármálaeftirlitinu gert skylt að afhenda nánar tilgreinda kafla úr skýrslunni.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Fyrir héraðsdómi krafðist sóknaraðili þess að Fjármálaeftirlitinu yrði með úrskurði gert skylt að afhenda fyrir dómi skjal með heitinu „Skýrsla um athugun hjá Glitni banka hf. starfshættir í verðbréfaviðskiptum“. Samkvæmt gögnum málsins er skýrsla þessi, sem Fjármálaeftirlitið tók saman, dagsett í desember 2007 og er hún auðkennd með þeim hætti að efni hennar sé trúnaðarmál. Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfu sóknaraðila um að Fjármálaeftirlitinu yrði gert skylt að afhenda skýrsluna fyrir dómi. Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili breytt kröfugerð sinni og í stað þess að krefjast afhendingar skýrslunnar fyrir dómi í heild sinni krefst hann nú afhendingar nánar tilgreindra kafla hennar.
Sóknaraðili óskaði eftir því við Fjármálaeftirlitið með tölvubréfi 26. september 2013 að fá aðgang að fyrrgreindri skýrslu. Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir afstöðu Fjármálaeftirlitsins til erindisins eins og hún birtist í bréfi þess 15. október 2013 en efni bréfsins er nánar rakið í hinum kærða úrskurði. Að fenginni þeirri afstöðu óskaði sóknaraðili eftir því við varnaraðila í tölvubréfi 24. október 2013 að hann veitti Fjármálaeftirlitinu heimild til þess að afhenda sóknaraðila umrædda skýrslu en því hafnaði varnaraðili í tölvubréfi degi síðar. Á dómþingi í héraði 31. október 2013 krafðist sóknaraðili þess með bókun að Fjármálaeftirlitinu yrði gert skylt með úrskurði að afhenda skjalið fyrir dómi en dómari ákvað að taka sér frest til að taka afstöðu til þeirrar kröfu. Við fyrirtekt málsins 8. janúar 2014 bókaði dómari að samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 þyrfti hann að meta áður en lengra væri haldið hvort mögulegt kynni að vera að sú skýrsla um starfshætti varnaraðila sem sóknaraðili óskaði eftir úr fórum Fjármálaeftirlitsins hefði þýðingu í málinu. Er málið var tekið fyrir á dómþingi 27. janúar 2014 lagði varnaraðili fram bókun þar sem fram kom að hann hefði umrædda skýrslu undir höndum. Skýrslan væri hins vegar að mati varnaraðila tilgangslaus fyrir sönnunarfærslu sóknaraðila, auk þess sem varnaraðila væri vegna efnis skýrslunnar óheimilt að afhenda hana sóknaraðila nema að undangengnum úrskurði.
Samkvæmt framansögðu er ágreiningslaust að varnaraðili hefur undir höndum skjal það sem sóknaraðili krefst að fá afhent tilgreinda kafla úr frá þriðja manni. Samkvæmt ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 er meginreglan sú að sönnur með skjölum eða öðrum sýnilegum gögnum verða færðar í einkamáli með því að aðilarnir leggi fram gögn af þessum toga, sem þeir hafa sjálfir undir höndum, en heimildum 3. mgr. 67. gr. og 2. og 3. mgr. 68. gr. sömu laga til að leggja á þriðja mann skyldu til að afhenda gögn verður því aðeins beitt að hjá því verði ekki komist. Þegar varnaraðili lýsti þeirri afstöðu sinni, sem fram kom í framangreindri bókun hans á dómþingi í héraði 27. janúar 2014, var komin upp sú aðstaða sem um ræðir í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Er fallist á með héraðsdómara að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að honum nægi ekki það úrræði til sönnunarfærslu sem um ræðir í því lagaákvæði. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Þorsteinn Hjaltested, greiði varnaraðila, Glitni hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Eins
og greinir í hinum kærða úrskurði lagði sóknaraðili fram á dómþingi í héraði
31. október 2013 beiðni þess efnis að Fjármálaeftirlitið yrði með úrskurði gert
skylt að afhenda fyrir dómi skjal er ber heitið „Skýrsla um athugun hjá Glitni
banka hf. starfshættir í verðbréfaviðskiptum“ sem eftirlitið gaf út í
desember 2007. Um það vísaði hann til 3. mgr. 67., sbr. 2. mgr. 68. gr., sbr.
1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr.
laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr.
161/2002 um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið hafði þá með bréfi 15.
október 2013 hafnað kröfu sóknaraðila um að láta skjalið allt af hendi.
Málefnið var nokkrum sinnum tekið fyrir á dómþingum í héraði, meðal annars til
að kalla eftir frekari rökstuðningi sóknaraðila fyrir beiðni sinni. Að honum
fengnum og að loknum munnlegum málflutningi kvað héraðsdómur upp hinn kærða
úrskurð þar sem því var hafnað að Fjármálaeftirlitinu væri skylt að afhenda
skjalið.
Í 2. mgr.
68. gr. laga nr. 91/1991 kemur fram að verði vörslumaður skjals ekki við kröfu
aðila um að láta það af hendi getur aðili lagt fyrir dómara gögn sem sýna að
skjalið sé til og í vörslum viðkomandi ásamt skriflegri beiðni um að vörslumaður
verði skyldaður með úrskurði til að afhenda skjalið fyrir dómi. Þá segir í
ákvæðinu að telji dómari ekki útilokað að skjalið hafi þýðingu í málinu kveði
hann aðila og vörslumann fyrir dóm og gefi þeim kost á að tjá sig um beiðnina.
Loks er gert ráð fyrir því í ákvæðinu að dómari kveði upp úrskurð ef með þarf
um skyldu vörslumanns til að afhenda aðila skjalið og þá eftir atvikum með hvað
hætti það verði gert.
Af
því sem fram er komið verður ekki séð að héraðsdómur hafi talið útilokað að
umrætt skjal hafi þýðingu í málinu, sbr. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Var
í hinum kærða úrskurði með öðrum rökum tekin efnisleg afstaða til skyldu
Fjármálaeftirlitsins að afhenda skjalið. Sú niðurstaða er til endurskoðunar
fyrir Hæstarétti án þess þó að gætt hafi verið að aðild Fjármálaeftirlitsins
samkvæmt framangreindu lagaákvæði og er eftirlitið af þeim sökum heldur ekki
aðili að málinu hér fyrir dómi. Úr beiðni sóknaraðila verður ekki með réttu
lagi leyst fyrr en Fjármálaeftirlitinu hefur verið gefinn kostur á að koma að
málinu. Tel ég því að vísa verði málinu heim í hérað til réttrar meðferðar í
samræmi við ákvæði 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2014.
Þetta
mál barst dóminum 24.
febrúar 2012, með bréfi slitastjórnar Glitnis hf. Þá var vísað
til dómsins ágreiningi vegna kröfu sem sóknaraðili, Þorsteinn Hjaltested, kt. 200760-5619, Vatnsenda, Kópavogi, lýsti við slit
Glitnis hf.
Þetta
mál var tekið til úrskurðar, 20. febrúar 2014, um þá kröfu sóknaraðila að þriðja
manni, svonefndum, verði gert að leggja fram skjal fyrir dóminn.
Sóknaraðili
krefst þess nánar til tekið að Fjármálaeftirlitinu, kt.
541298-3209, Höfðatúni 2, Reykjavík, verði með úrskurði gert skylt að afhenda
fyrir dómi skjalið Skýrsla um athugun hjá
Glitni banka hf. starfshættir í verðbréfaviðskiptum, sem Fjármálaeftirlitið
gaf út í desember 2007.
Varnaraðili,
Glitnir hf., kt. 550500-3530, Sóltúni 26, Reykjavík, krefst þess að kröfu
sóknaraðila verði hafnað.
Varnaraðili
krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi sóknaraðila vegna þessa þáttar málsins.
Málsatvik
Í
janúar 2007 eignaðist sóknaraðili talsvert fé. Hann er matreiðslumaður að mennt
en hafði, þegar þarna var komið sögu, unnið við búskap í 10 ár. Vegna reynsluleysis
af umsýslu hárra fjárhæða leitaði hann til þjónustufulltrúa síns í Glitni
banka. Úr varð að hann gerði samning við bankann, 19. febrúar 2007, um
einkabankaþjónustu. Strax daginn eftir fékk sóknaraðili bankanum tvo milljarða
til fjárfestingar og eignastýringar. Starfsmenn Glitnis banka hf. fjárfestu
fyrir hönd sóknaraðila meðal annars í ýmsum afleiðum og byggingarverkefnum.
Sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir fjártjóni af þeim sökum sem nemi tæpum
milljarði króna.
Dagana
6.-19. mars 2007 athugaði Fjármálaeftirlitið starfshætti Glitnis banka hf. með
heimsókn og gagnaöflun. Athugun eftirlitins var afmörkuð við viðskiptahætti í
verðbréfaviðskiptum, svo sem eignastýringu, einkabankaþjónustu, miðlun og eigin
fjárfestingar, Kínamúra og regluvörslu. Fjármálaeftirlitið afhenti bankanum
skýrsluna 21. desember 2007. Í viðauka við skýrsluna tilgreindi eftirlitið
athugasemdir sínar og kröfur um úrbætur. Bankanum var veittur frestur til 1.
maí 2008 til þess að bæta úr. Tekið var fram að í skýrslunni væru viðkvæmar
upplýsingar og því ætti efni hennar einungis erindi við starfsmenn þeirra
deilda sem hefðu verið teknar til skoðunar.
Í
desember 2008 samþykkti Alþingi með lögum nr. 142/2008 að skipa sérstaka rannsóknarnefnd
til þess að rannsaka aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008.
Nefndin afhenti Alþingi, 12. apríl 2010, skýrslu með niðurstöðum rannsókna
sinna.
Héraðsdómur
Reykjavíkur skipaði Glitni banka slitastjórn 12. maí 2009. Hún birti innköllun
til kröfuhafa í fyrra sinn 26. maí sama ár. Sex mánaða kröfulýsingarfresti
lauk 26. nóvember. Sóknaraðili lýsti tveimur kröfum. Annars vegar almennri
kröfu, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 104.282.911 krónur og hins
vegar sértökukröfu, samkvæmt 109. gr. laganna að fjárhæð 19.356.525 krónur og
almennri kröfu að fjárhæð 827.773.333 krónur. Sáttaumleitanir báru ekki
árangur og því vísaði slitastjórn Glitnis ágreiningnum til héraðsdóms samkvæmt
171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Ágreiningsmálið var þingfest 13. mars 2012 og frestað ítrekað vegna umfangsmikillar
gagnaöflunar málsaðila.
Málsástæður og lagarök málsaðila
Á
dómþingi 31. október 2013 lagði sóknaraðili fram kröfu þess efnis að Fjármálaeftirlitinu
yrði með úrskurði gert skylt að afhenda fyrir dómi skjalið Skýrsla um athugun hjá Glitni banka hf. starfshættir í
verðbréfaviðskiptum sem Fjármálaeftirlitið gaf út í desember 2007.
Til
stuðnings þessari kröfu vísaði sóknaraðili til 3. mgr. 67. gr., sbr. 2. mgr.
68. gr., sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr.
21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um
fjármálafyrirtæki.
Sóknaraðili
færði þau rök fyrir kröfu sinni að í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis væri
fjallað um skýrslu Fjármálaeftirlitsins á starfsháttum Glitnis í verðbréfaviðskiptum.
Í skýrslu eftirlitsins hafi meðal annars verið gerð úttekt á einkabankaþjónustu
bankans á þeim tíma þegar atvik þessa máls gerðust. Sóknaraðili byggi á því að
starfsháttum einkabankaþjónustu og verðbréfaviðskipta hafi verið stórlega
ábótavant. Hann telur að í skýrslunni séu upplýsingar sem geti haft verulega
þýðingu fyrir sönnunarfærslu hans í málinu
Sóknaraðili
kveðst, eftir að hann áttaði sig á tilvist skýrslunnar, hafa óskað eftir því
við Fjármálaeftirlitið að það afhenti honum skýrsluna. Í bréfi 15. október síðastliðinn
féllst eftirlitið á að veita honum aðgang að forsíðu skýrslunnar, efnisyfirliti
og kafla 1.0 um afmörkun athugunarinnar. Hins vegar hafnaði eftirlitið því að
afhenda sóknaraðila aðra hluta skýrslunnar þar sem hún fjallaði annars vegar
um upplýsingar um viðskipti og rekstur eftirlitsskylds aðila, aðila sem
tengdust honum, og annarra sem Fjármálaeftirlitinu væri óheimilt að greina
frá samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með
fjármálastarfsemi, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og hins vegar
upplýsingar um viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna fjármálafyrirtækis
sem væru bundnar trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Að
þessu svari fengnu óskaði sóknaraðili eftir því við varnaraðila að hann veitti
Fjármálaeftirlitinu heimild til þess að afhenda sóknaraðila skýrsluna. Því
hafnaði varnaraðili í tölvuskeyti 25. október.
Við
fyrirtöku málsins 8. janúar 2014 óskaði varnaraðili eftir fresti til þess að kanna hvort skýrslan væri í fórum
hans og væri hún það hvort varnaraðili teldi sér fært að afhenda sóknaraðila
hana en þó þannig að persónugreinanlegar upplýsingar yrðu afmáðar. Á dómþingi
27. janúar 2014 hafnaði varnaraðili því að afhenda sóknaraðila skýrsluna þótt
hún væri í fórum hans. Varnaraðili vísaði til trúnaðarskyldu sinnar samkvæmt
58. gr. laga nr. 161/2002 en taldi skýrsluna jafnframt tilgangslausa fyrir sönnunarfærslu
sóknaraðila.
Lögmenn
fluttu málið 20. febrúar sl. um þá kröfu sóknaraðila, að Fjármálaeftirlitinu
yrði gert skylt að leggja fyrir dóminn skýrslu sína um starfshætti Glitnis.
Sóknaraðili
áréttaði að hann teldi skýrsluna hafa mikla þýðingu fyrir sönnunarfærslu í
málinu. Í þeim hluta skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem lagður hafi verið
fram sem dómskjal sé tekið fram að skýrsla Fjármálaeftirlitsins sýni að
regluvörslu í Glitni banka hafi verið verulega ábótavant. Jafnframt hafi
eftirlitið gert margvíslegar athugasemdir við einkabankaþjónustu bankans,
eignastýringu, utanumhald kvartana, að starfsmenn noti farsíma til að tala
við viðskiptavini þannig að hljóðupptökur af samskiptum við viðskiptavini
séu ekki til og fleira. Í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar segi jafnframt að
þegar skýrsla eftirlitsins sé lesin sé með ólíkindum að í henni sé lýst alþjóðlegum
banka sem hafi starfsleyfi.
Sóknaraðili
byggi kröfu sína við slit Glitnis á því að bankinn hafi, þegar hann veitti
sóknaraðila einkabankaþjónustu, brotið gegn gegn rétti sóknaraðila og hafi jafnframt
valdið honum tjóni. Séu í skýrslunni þær ávirðingar, sem sé lýst í skýrslu
Rannsóknarnefndar Alþingis, geti skýrslan fært stoðir undir málsástæður
sóknaraðila. Þetta sé einungis ein skýrsla og því ekki íþyngjandi fyrir
Fjármálaeftirlitið að afhenda hana.
Það
styðji jafnframt kröfu sóknaraðila um framlagningu skjalsins að varnaraðili ýi
að ýmsu sem standi í skýrslunni í fram lagðri bókun. Ekki gangi að reifa hvað
kunni að vera í skýrslunni en hafna því síðan að leggja hana fram. Til þess að
vita nákvæmlega hvað komi fram í skýrslunni sé nauðsynlegt að fá hana lagða fram.
Til
stuðnings þeirri kröfu sinni að kröfu sóknaraðila verði hafnað vísar varnaraðili
til dóms Hæstaréttar í máli nr. 699/2010 og gerir rök dómsins að sínum. Varnaraðili
telur jafnframt ekki nægja að skilyrði laganna séu fyrir hendi þar sem þriðji
maður verði því aðeins þvingaður til þess að afhenda gögn að þeim sem krefjist
gagnanna standi ekki aðrar leiðir til boða.
Varnaraðili
bendir á að vegna einkabankaþjónustu Glitnis hafi Fjármálaeftirlitið skoðað
samninga 30 viðskiptavina bankans. Þar sem skoðunin hafi farið fram í mars 2007
hafi hún ekki tekið til samninga sem voru gerðir eftir 1. mars 2006. Samningur
sóknaraðila hafi verið gerður í mars 2007 og hann því ekki meðal þeirra sem
eftirlitið skoðaði.
Að
auki taldi varnaraðili sóknaraðila ekki hafa tengt málsástæður sínar nægjanlega
við samandregnar niðurstöður Fjármálaeftirlitsins en bæri að gera skýra grein
fyrir því hvað ætti að leiða í ljós með viðkomandi skjali. Þar sem sóknaraðili
hafi ekki gert það hafi hann ekki fært rök fyrir því að skýrslan hafi þýðingu
fyrir sönnunarfærslu hans í málinu. Varnaraðila sýnist að skýrslunni sé ætlað
að styðja málsástæður sem hafi ekki komið fram í greinargerð sóknaraðila og því
sé sönnunarfærsla sóknaraðila tilgangslaus, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr.
91/1991.
Niðurstaða
Þegar
meta þarf hvort vörslumanni skjals, sem er ekki aðili að dómsmáli, sé skylt að
afhenda skjal samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 þarf fyrst að athuga
hvort skilyrði 3. mgr. 67. gr. laganna séu uppfyllt.
Í
því ákvæði segir að sé skjal í vörslum manns sem sé ekki aðili að máli geti
málsaðili krafist þess að fá það afhent til framlagningar í máli sé vörslumanni
skjalsins skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni
skjalsins sé slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu.
Að
mati dómsins er sú skýrsla sem sóknaraðili krefst að Fjármálaeftirlitið verði
úrskurðað til þess að leggja fram í dómi hvorki þess eðlis að eftirlitinu sé
skylt að afhenda málsaðilanum það án tillits til málsins né starfsmönnum
eftirlitsins skylt að bera vitni um það í málinu.
Samkvæmt
dómi Hæstaréttar í máli nr. 699/2010 leiðir það af ákvæðum X. kafla laga nr.
91/1991 að sönnur með skjölum og öðrum sýnilegum sönnunargögnum verða að meginreglu
færðar í einkamáli með því að aðilarnir leggi fram gögn af þessum toga, sem
þeir hafa sjálfir undir höndum, en heimildum 3. mgr. 67. gr. og 3. mgr. 68. gr.
sömu laga til að leggja á þriðja mann skyldu til að afhenda gögn verði því
aðeins beitt að hjá því verði ekki komist. Þegar málsaðili, sem skorað hefur
verið á að afhenda skjal sem er í vörslum hans, verði ekki við þeirri áskorun
geti dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskoranda um efni skjalsins.
Samkvæmt
bókun varnaraðila, 27. janúar sl., er skýrsla Fjármálaeftirlitsins um viðskiptahætti
Glitnis í fórum hans. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 699/2010 verður ekki skilinn
á annan hátt en þann að úr því svo sé, sé ekki nægilegt tilefni til þess að
krefjast þess af öðrum, sem kann að hafa skjalið í vörslum sínum, að hann
afhendi það sóknaraðila nema sóknaraðili færi rök fyrir því að sú
sönnunarfærsla fullnægi ekki þörfum hans.
Að
mati dómsins hefur sóknaraðili ekki fært rök að því að honum nægi ekki það
úrræði til sönnunarfærslu sem honum er veitt með 1. mgr. 68. gr. laga nr.
91/1991. Af þessum sökum er hafnað þeirri kröfu hans að Fjármálaeftirlitinu
verið gert skylt að leggja fram í dómi Skýrslu
um athugun hjá Glitni banka hf.
Rétt
þykir að málskostnaður vegna þessa þáttar málsins bíði efnisdóms.
Ingiríður
Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað
er þeirri kröfu sóknaraðila, Þorsteins Hjaltested, að Fjármálaeftirlitinu verði
með úrskurði gert skylt að afhenda fyrir dómi skjalið Skýrsla um athugun hjá Glitni banka hf. starfshættir í
verðbréfaviðskiptum, sem Fjármálaeftirlitið gaf út í desember 2007.
Ákvörðun
málskostnaðar bíður efnislegrar niðurstöðu málsins.