Hæstiréttur íslands

Mál nr. 47/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                        

Miðvikudaginn 23. janúar 2013.

Nr. 47/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. janúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 18. febrúar 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins. 18. febrúar  2013, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að þann 13. janúar sl. hafi lögreglu borist tilkynning um meint kynferðisbrot kærða, X gegn barnabarni sínu, A, kt. [...]. Muni hún hafa greint frá því að kærði hefði verið að “horfa á kynfæri hennar”. Þá kvað hún hann “þuklað” kynfæri hennar sumarið 2012. Hafi hún greint unnustu kærða frá þessu sem kvað kærða hafa gengist við þessu þegar á hann hafi verið gengið. Einnig hafi hann viðurkennt að hafa brotið gegn annarri telpu B , kt. [...], sem búi í sama stigagangi og kærði.

Kærði hafi verið handtekinn 13. janúar sl. og yfirheyrður í kjölfarið. Hann hafi viðurkennt að hafa brotið gegn A í júní eða júlí sl. en þá hafi hann farið “óvart niður á kynfæri hennar og meira.” Hafi það verið innanklæða. Þá hafi hann viðurkennt að hafa brotið gegn B á árinu 2007 eða 2008 en þá hafi hún verið að renna sér niður stigahandrið og hann tekið utan um hana aftanverða og haldið með báðum höndum um klof hennar.

Skýrslur hafi verið teknar af telpunum í Barnahúsi þann 18. janúar sl. B kvaðst enga minningu hafa um brot kærða en fyrir liggja gögn er sýni að atvikið var tilkynnt til barnaverndaryfirvalda á árinu 2008.

A hafi hinsvegar greint frá nokkrum tilvikum sl. sumar þar sem kærði hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi. Hafi hún getað lýst vel tveimur tilvikum, í annað skiptið hafi kærði káfað á kynfærum hennar innanklæða, “káfað í kringum kynfærin” en í hitt skiptið hefði kærði farið með fingur inn í leggöng, “kítlað hana inní pjöllunni.”

Þá hafi aðrir fjölskyldumeðlimir kærða borið um kynferðislega áreitni hans gegn sér en þau mál séu rannsökuð sérstaklega. Virðist svo vera að sök sé fyrnd í sumum tilvikum.

Eins og rakið hafi verið sé fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi brotið gegn A, barnabarni sínu. Brotin, sem séu ítrekuð, séu talin varða við 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og kunni að varða allt að 16 ára fangelsisrefsingu.

Rannsóknin sé langt á veg komin en sálfræðingur leggi nú mat á andlegt heilbrigði kærða.

Telja verði að skilyrði gæsluvarðhalds á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, séu uppfyllt, einkum þegar litið sé til alvarleika brotsins og eðlis þess. Ætla megi að kærði glími við hvatir til stúlkubarna á alvarlegu stigi. Að mati lögreglu sé með vísan til þessa óréttlætanlegt að kærði gangi laus og sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

                Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi er kærði undir sterkum grun um kynferðisbrot gegn barnabarni sínu sem og annarri stúlku. Við skýrslutöku hjá lögreglu í dag og hér fyrir dómi viðurkenndi hann að hafa brotið gegn barnabarni sínu í fimm skipti og að í eitt skipti hefði hann farið með hönd sína inn í kynfæri stúlkunnar. Kemur það heim og saman við það sem stúlkan sagði í skýrslutöku í Barnahúsi, eins og rakið er í greinargerð sóknaraðila. Þá hefur kærði viðurkennt að hafa brotið tvívegis gegn hinni stúlkunni og í annað skiptið strokið kynfæri hennar. Háttsemi sú sem kærði er grunaður um gagnvart barnabarni sínu varðar við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn síðargreinda ákvæðinu getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi eða meira er því fullnægt.

Þau brot sem kærði er undir grun um að hafa framið beinast að barnungum stúlkum. Þá hefur kærði viðurkennt að hafa kynferðislegar hneigðir til barna. Þegar litið er til eðlis brotanna og alvarleika þeirra er á það fallist að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Ekki er efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma og er því fallist á kröfugerð sóknaraðila eins og hún er fram sett.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði,    X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 18. febrúar 2013 kl. 16:00.