Hæstiréttur íslands
Mál nr. 191/2005
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 24. nóvember 2005. |
|
Nr. 191/2005. |
Halldóra Karlsdóttir(Karl Axelsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Einar Baldvin Axelsson hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Gjafsókn.
H varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi árið 1998 og krafði V hf. um greiðslu bóta. Snerist ágreiningurinn einungis um uppgjör tjónsbóta en ekki bótaskyldu félagsins. Ekki var talið að H hefði sýnt fram á að hún hefði orðið fyrir fjártjóni vegna tímabundins atvinnutjóns. Þá var ekki talið að skilyrði væru uppfyllt til að beita annarri tekjuviðmiðun við útreikning bóta fyrir varanlega örorku en þeirri, sem kveðið hafði verið á um í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og ákvæðið hljóðaði eftir að því var breytt með lögum nr. 42/1996. Ekki var heldur fallist á að aðstæður H hefðu verið með þeim hætti að þágildandi 2. mgr. 9. gr. sömu laga yrði beitt við ákvörðun bóta til hennar fyrir varanlega örorku. Að lokum höfðu ekki verið lögð fram nein gögn til stuðnings kröfu hennar um bætur fyrir annað fjártjón. Var V hf. því sýknað af öllum kröfum H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. maí 2005 og krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.528.738 krónur, en til vara 7.357.242 krónur, með 2% ársvöxtum frá 5. júní 1998 til 19. ágúst 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá degi til greiðsludags. Til frádráttar komi greiðsla stefnda á 2.938.550 krónum. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I.
Áfrýjandi lenti í umferðarslysi 5. júní 1998 og hlaut af því líkamstjón, sem nánar er lýst í héraðsdómi. Bótaskylda stefnda er óumdeild, en ágreiningur er um uppgjör tjónsbóta. Stefndi greiddi 4. október 2004 áfrýjanda 92.500 krónur í þjáningabætur, 1.199.750 krónur fyrir varanlegan miska og 2.714.766 krónur fyrir varanlega örorku auk vaxta og lögmannskostnaðar. Áfrýjandi tók við greiðslunni „með fyrirvara um alla þætti uppgjörs.“ Höfðaði hún málið 28. desember 2004 til heimtu bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, varanlega örorku umfram það sem greitt var 4. október 2004, og annað fjártjón og sjúkrakostnað, allt eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Ekki er í málinu krafist bóta fyrir þjáningar eða varanlegan miska umfram það, sem áður var greitt.
II.
Áfrýjandi hefur engum gögnum stutt að hún hafi orðið fyrir fjártjóni vegna tímabundins atvinnutjóns. Í stefnu til héraðsdóms segir um þennan kröfulið að rétt sé „að hafa til hliðsjónar að stefnandi sinnti að jafnaði heimilisstörfum á heimili sínu en gat það ekki mánuðina eftir slysið.“ Sjálfstæð krafa um bætur vegna heimilisstarfa er þó ekki höfð uppi í málinu, en í kröfugerð að öðru leyti sýnist á því byggt að áfrýjandi hafi verið í fullu starfi við öflun tekna. Tjón samkvæmt þessum lið er ósannað. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður stefndi sýknaður af kröfulið um bætur fyrir tímabundið tekjutap.
Fram er komið að áfrýjandi starfaði við rekstur félagsins O.I. snyrtivara ehf., sem hún átti sjálf að níu tíundu hlutum, en að öðru leyti var það í eigu eiginmanns hennar á slysdegi. Starfstöð félagsins mun hafa verið á heimili áfrýjanda og reksturinn falist í kaupum og sölu á snyrtivörum. Ársreikningar félagsins fyrir árin 1994 til 1998 og skattframtöl áfrýjanda 1985 til 2002 eru meðal gagna málsins. Telur áfrýjandi að við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku fái ekki staðist að leggja til grundvallar uppgjöri árslaun hennar á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð, sbr. þágildandi 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þeim var breytt með lögum nr. 42/1996, en á því ári hafi laun hennar verið mjög lág. Eins og skattframtölin sýni hafi tekjur hennar verið sveiflukenndar á þeim árum, sem þau taki til, og flest árin verið mun hærri en árið fyrir slysdag. Telur áfrýjandi að ákveða eigi viðmiðunarlaun hennar til uppgjörs á bótum á grundvelli reglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, en ákvæðið eigi við um aðstæður hennar. Er samkvæmt því aðallega krafist að tekið verði mið af meðaltekjum iðnaðarmanna við ákvörðun bóta, en til vara tekjum hennar eins og þær voru að meðaltali árin 1988 til 1995.
Samkvæmt ársreikningum varð tap á rekstri O.I. snyrtivara ehf. þrjú ár af þeim fimm, sem þeir taka til, og skattframtöl áfrýjanda bera með sér að laun hennar úr þessum rekstri lækkuðu árlega frá 1992, en 1996, 1997 og 1998 voru þau hin sömu eða 960.000 krónur hvert ár. Að þessu virtu hefur áfrýjandi engum stoðum skotið undir það að óvenjulegar aðstæður hafi verið fyrir hendi árið fyrir þann dag er tjón varð, sem stutt geti að annar mælikvarði en tekjur hennar á þeim tíma gefi réttari mynd af þeim tekjum, sem ætla mætti að hún hefði haft ef tjónsatburður hefði ekki orðið. Tekjuviðmiðun við meðallaun iðnaðarmanna er jafnframt haldlaus. Verður samkvæmt þessu hafnað að beita beri annarri tekjuviðmiðun en þeirri, sem kveðið var á um í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við uppgjör bóta til áfrýjanda fyrir varanlega örorku.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðið hljóðaði á slysdegi, skyldi lækka bætur fyrir varanlega örorku fyrir hvert ár eftir 26 ára aldur tjónþolans og hækkaði hlutfall frádráttar með tilteknum hætti til 70 ára aldurs. Áfrýjandi var 62 ára gömul á slysdegi og við bótauppgjör 4. október 2004 dró stefndi 68% frá kröfu hennar í samræmi við framangreint ákvæði skaðabótalaga. Áfrýjandi krefst þess að bætur fyrir varanlega örorku lækki um 50% en ekki 68% og vísar um það til þágildandi ákvæðis í 2. mgr. 9. gr. skaðabótalaga, sem hún telur eiga hér við. Síðastnefnt ákvæði var undantekningarregla, sem kom til álita að beita þegar tjónþoli var kominn nærri eða fram yfir 70 ára aldursmörkin þegar tjónsatvik varð og líkur bentu að öðru leyti til að hann hefði haldið áfram störfum eftir 70 ára aldur, hefði tjón ekki orðið. Áfrýjandi hafði hvorki á slysdegi náð þeim aldri, sem hér skiptir máli, né gekk rekstur fyrirtækis hennar síðustu árin fyrir slysið með þeim hætti að líklegt verði talið að hún hefði haft atvinnu við það eftir 70 ára aldur. Verður að því virtu ekki fallist á að ákvæðinu verði beitt við ákvörðun bóta til áfrýjanda fyrir varanlega örorku.
Kröfuliður áfrýjanda um bætur fyrir annað fjártjón og sjúkrakostnað er engum gögnum studdur. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um hann því staðfest.
Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest, þar á meðal um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Halldóru Karlsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2005.
Mál þetta, sem var dómtekið 21. mars 2005 er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Halldóru Karlsdóttur, Ársölum 1, Kópavogi á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík með stefnu birtri 28. desember 2004.
Dómkröfur stefnanda eru þær, aðallega að stefndi verði dæmdur til greiðslu 10.528.738 króna ásamt 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 5. júní 1998 til 19. ágúst 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara að stefndi verði dæmdur til greiðslu 7.357.242 króna ásamt 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 5. júní 1998 til 19. ágúst 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess í báðum tilvikum að stefndi greiði honum málskostnað að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, að teknu tilliti til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts.
Til frádráttar komi greiðslur stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., vegna varanlegrar örorku að fjárhæð 2.714.766 krónur auk vaxta af varanlegri örorku 223.784 krónur.
Dómkröfur stefnda eru aðallega þær, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að mati dómsins. Til vara gerir stefndi þær dómkröfur að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.
I.
Málavextir.
Hinn 5. júní 1998 var stefnandi farþegi í bifreiðinni ZY-895 er eiginmaður hennar ók. Lenti hún í árekstri við bifreiðina NI-339 þar sem bifreið stefnanda var ekið í veg fyrir síðarnefndu bifreiðina. Var stefnandi ásamt eiginmanni sínum flutt á sjúkrahús og hlaut stefnandi varanlegan skaða vegna slyssins. Stefnandi var eigandi bifreiðarinnar ZY-895 og var bifreiðin tryggð lögboðinni slysatryggingu ökumanns og eiganda hjá stefnda.
Læknarnir Jónas Hallgrímsson og Leifur Dungal mátu afleiðingar slyssins með matsgerð, dagsett 23. júní 2004. Niðurstöður þeirra voru þær að tímabundið atvinnutjón var metið 100% í þrjá mánuði. Þjáningartímabil sama og tímabil óvinnufærni eða þrír mánuðir, þar af rúmliggjandi í fjóra daga. Varanlegan miska mátu þeir 25% og varanlega örorku 65%.
Lögmaður stefnanda krafði stefnda 19. júlí 2004 um skaðabætur vegna slyssins og var gengið frá uppgjöri 4. október 2004 og tók lögmaður stefnanda við bótunum með fyrirvara um alla þætti uppgjörsins.
Stefnandi telur nauðsynlegt vegna afstöðu stefnda að höfða mál þetta til heimtu fullra bóta vegna slyssins.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfur sínar um skaðabætur á XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, en af þeim leiðir að eigandi vélknúins ökutækis skuli bæta það tjón sem hlýst af notkun þess. Tjón stefnanda, sem rakið verður til slyssins, hlaust af notkun ökutækisins ZY 895, sem var í eigu stefnanda en tryggt hjá stefnda og er því kröfum beint að félaginu. Ekki er ágreiningur um bótaskyldu stefnda.
Tölulegar kröfur stefnanda um skaðabætur byggja á skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 42/1996. Krafa stefnanda um skaðabætur var gerð með bréfi 19. júlí 2004, og miðast kröfur hennar við lánskjaravísitölu þess mánaðar. Stefnandi á rétt á dráttarvöxtum frá og með 19. ágúst 2004, þegar mánuður var liðinn frá kröfugerð hennar, sbr. lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Stefnandi krefst að öðru leyti 2% vaxta af kröfum sínum frá slysdegi og til upphafsdags dráttarvaxta, sbr. 16. gr skaðabótalaga nr. 50/1993.
Aðalkrafa stefnanda er að fjárhæð 10.528.738 krónur og er rökstuðningur hennar eftirfarandi:
Fyrir tímabundið atvinnutjón krefst stefnandi bóta að fjárhæð 254.400 krónur. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1993 skal greiða bætur fyrir tímabundið atvinnutjón frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til ekki er að vænta frekari bata. Stefndi hefur af einhverjum ástæðum alfarið hafnað greiðslu vegna tímabundins atvinnutjóns. Læknarnir Jónas Hallgrímsson og Leifur Dungal komust að því að tímabundið atvinnutjón stefnanda hafi verið í þrjá mánuði.
Krafan byggist á tekjum stefnanda sem voru fyrir slysið 960.000 krónur á ári en 1.017.600 krónur að viðbættu 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Þá telur stefnandi rétt að hafa til hliðsjónar að hún sinnti að jafnaði heimilisstörfum á heimili sínu, en gat það ekki mánuðina eftir slysið. Heildarkrafa vegna tímabundins atvinnutjóns er samkvæmt þessu 254.400 krónur (1.017.600 x 3/12).
Vegna varanlegrar örorku er krafan um bætur byggð á 5.-7. gr. skaðabótalaga. Krafan miðast við meðaltekjur iðnaðarmanna. Til stuðnings er vísað til 2. mgr. 7. gr. en stefnandi telur einsýnt, miðað við sveiflukenndar tekjur stefnanda og aðstæður að öðru leyti, að ákvæðið eigi við um aðstæður stefnanda. Stefnandi telur að sú afstaða stefnda að miða við lægsta punkt í sveiflukenndum tekjum hennar fái ekki staðist. Tilgreindar tekjur voru á slysdegi 2.256.400 krónur. Að viðbættu mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð verða viðmiðunartekjurnar 2.391.784 krónur. Þá eru bætur uppfærðar frá lánskjaravísitölu á slysdegi, 3627 stig, til vísitölu júlímánaðar 2004, 4654 stig, en þá var bótakrafa höfð uppi. Viðmiðunartekjur eru því 3.069.027 krónur. Margföldunarstuðull samkvæmt 6. gr. samkvæmt lögum nr. 50/1993 var á slysdegi 10. Krafa um varanlega örorku er samkvæmt framangreindu 19.948.676 krónur (10 x 3.069.027 x 65%).
Stefnandi bendir á, að samkvæmt 9. gr. skaðabótalaga sé rétt að draga frá kröfunni hlutfall sem fer hækkandi eftir aldri, sbr. 1. mgr. 9. gr. Samkvæmt útreikningi á grundvelli ákvæðisins dragast frá 68% af kröfu stefnanda. Stefnandi byggir á því, að beita eigi undantekningarákvæði 2. mgr. 9. gr. en þar kemur fram að ef ætla megi að tjónþoli hefði verið vinnufær og stundað vinnu eftir að hann er orðinn fullra 70 ára að aldri, megi víkja frá reglu 1. mgr. að nokkru eða öllu. Stefnandi telur ljóst, að ákvæðið sé sérstaklega sniðið að aðstæðum eins og þeim sem uppi eru í máli þessu. Stefnandi var á slysdegi 62 ára gömul og stundaði umfangsmikinn atvinnurekstur ásamt eiginmanni sínum og hafði gert til fjölda ára. Hvorki heilsufar hennar fyrir slysið né aðrir þættir gáfu tilefni til að ætla að hún léti af atvinnurekstrinum um 70 ára aldur. Krafist er að krafan lækki um 50% en ekki um 68% eins og afstaða stefnda stendur til. Krafa um varanlega örorku er samkvæmt þessu 9.974.338 krónur (19.948.676 x 50%).
Vegna kröfu um annað fjártjón og sjúkrakostnað í rýmri merkingu er vísað til 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra ólögfestra reglna skaðabótaréttarins um að tjónþolar skuli vera eins settir fjárhagslega eftir uppgjör bóta og ef líkamstjón hefði ekki orðið. Krafan grundvallast á því að vegna slyssins hefur stefnandi þurft að standa straum af ýmsum kostnaði og útgjöldum. Enn fremur er fyrirsjáanlegt að hún verði fyrir nokkrum útgjöldum í framtíðinni vegna slyssins. Erfitt er að meta þennan kostnað nákvæmlega en að álitum er krafist 300.000 króna.
Aðalkrafan sundurliðast á eftirfarandi hátt:
Tímabundið atvinnutjón kr. 254.400
Varanleg örorka kr. 9.974.338
Annað fjártjón og sjúkrakostnaður kr. 300.000
Samtals kr. 10.528.738
Til frádráttar koma svo greiðslur stefnda eins og í kröfugerð greinir.
Varakrafa er byggð á því að við mat á varanlegri örorku samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga skuli miða við tekjur stefnanda eins og þær voru árin 1988 til 1995 eða síðustu átta ár fyrir slys, en ekki miðað við síðustu 12 mánuði fyrir slysdag. Vísað er til 2. mgr. 7. gr. varðandi varakröfugerðina og sjónarmiða sem færð voru fram til stuðnings aðalkröfu.
Tekjur stefnanda síðastliðin ár fyrir slys voru sem hér segir:
1985 kr. 600.000
1986 kr. 600.000
1987 kr. 700.000
1988 kr. 1.500.000
1989 kr. 1.148.790
1990 kr. 1.314.252
1991 kr. 1.840.000
1992 kr. 1.920.000
1993 kr. 1.867.889
1994 kr. 1.520.607
1995 kr. 1.200.000
1996 kr. 960.000
1997 kr. 960.000
1998 kr. 960.000
Samtals eru tekjurnar síðustu átta ár fyrir slys 12.311.538 krónur eða 1.538.942 krónur að meðaltali á ári. Viðmiðunartekjur verða 1.631.279 krónur að viðbættu 6% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Að teknu tilliti til uppfærslu lánskjaravísitölu frá slysdegi til júlímánaðar 2004, þegar krafa var höfð uppi (3627/4654), er tekjuviðmiðið 2.093.182 krónur. Varakrafa vegna varanlegrar örorku er samkvæmt þessu 13.605.683 krónur (10 x 2.093.182 x 65%). Áskilinn er réttur til að reikna kröfuna út miðað við færri eða fleiri ár fyrir slysdag.
Þá er eins og í aðalkröfu miðað við að frádráttur samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sé 50% en ekki 68% eins og stefndi miðaði við með vísan til sjónarmiða sem rakin eru að því leyti vegna aðalkröfu.
Samkvæmt þessu er varakrafa vegna varanlegrar örorku 6.802.842 krónur (13.605.683 x 50%).
Aðrir bótaþættir, þ.e. tímabundið atvinnutjón og annað fjártjón, eru eins og í aðalkröfu og er því varakrafa stefnanda 7.357.242 krónur, en til frádráttar komi svo greiðslur stefnda, VÍS, eins og í kröfugerð greinir.
Um lagarök er vísað til ákvæða skaðabótalaga, reglna stjórnarskrárinnar um jafnræði og vernd eignarréttar og almennra reglna skaðabótaréttarins. Ábyrgð stefndu byggir á ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987. Vísað er til skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdegi. Þá er vísað til vaxtalaga nr. 38/2001 og loks reglna 129. og 130 gr. laga nr. 91/1991 um málskostnað.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Sýknukrafa stefndu er byggð á því, að stefnandi hafi fengið tjón sitt að fullu bætt samkvæmt þágildandi skaðabótalögum nr. 50/1993 með greiðslu skaðabóta 4. október 2004. Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að tjón hennar sé meira en hún hafi þegar fengið bætt.
Stefndi hafnar kröfum vegna tímabundins atvinnutjóns og telur að stefnandi hafi ekki orðið fyrir raunverulegu tímabundnu atvinnutjóni af völdum slyssins. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum voru launatekjur hennar þær sömu á slysárinu og tvö ár þar á undan, þ.e. 1996 og 1997. Ekki verður því séð af gögnum málsins að hún hafi orðið fyrir raunverulegu tímabundnu atvinnutjóni. Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því, að hún hafi orðið fyrir tjóni og þar með að leggja fram fullnægjandi gögn um launatekjur sínar er staðfesta raunverulegt tímabundið atvinnutjón. Stefndi vísar í þessu sambandi til dómaframkvæmdar Hæstaréttar í sambærilegum málum. Þá bendir hann á að í matsgerð Leifs og Jónasar er sérstaklega tekið fram að niðurstaða þeirra varðandi tímabundið atvinnutjón byggist á fullyrðingum stefnanda sjálfrar.
Stefndi telur að ekkert sé fram komið í málinu annað en að stefnandi hafi verið í 100% starfi þegar hún slasaðist. Kemur því ekki til greina að ákvarða henni bætur vegna tímabundinnar óvinnufærni við heimilisstörf eins og verið er að ýja að í stefnu.
Þá hafnar stefndi bótakröfu vegna varanlegrar örorku. Stefndi byggir á því að skv. 1. mgr. 7. gr. þágildandi skaðabótalaga beri að leggja til grundvallar við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð. Við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku stefnanda hafi verið stuðst við launatekjur stefnanda ári fyrir slysið, að viðbættu 6% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð í samræmi við fyrrnefnda 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.
Ákvæði 2. mgr. 7. gr. þágildandi skaðabótalaga sé undantekningarregla sem beri að skýra þröngt. Stefndi hafnar því að aðstæður stefnanda hafi á einhvern hátt verið óvenjulegar þannig að skilyrði séu til að beita henni. Stefnandi var á slysdegi launþegi og höfðu tekjur hennar hjá sama vinnuveitandanum verið þær sömu frá árinu 1996.
Stefndi byggir á því að 2. mgr. 7. gr. sé fyrst og fremst beitt um sjálfstæða atvinnurekendur er hafa tekjur sem eru undirorpnar tíðum breytingum. Árslaun slíkra aðila sé rétt að ákveða á grundvelli meðaltekna sem tjónþoli hefur haft á síðustu árum fyrir tjón, sem reyndar myndi leiða til sömu niðurstöðu varðandi stefnanda þessa máls, væri hún sjálfstæður atvinnurekandi, þar sem tekjur hennar höfðu nánast verið þær sömu síðustu þrjú árin fyrir slysið.
Um 2. mgr. 9. gr. þágildandi skaðabótalaga bendi stefndi á að víkja megi frá aldurslækkunarreglu 1. mgr. 9. gr. sömu laga, ef ætla megi að tjónþoli hefði verið vinnufær og stundað vinnu eftir að hann er orðinn fullra 70 ára að aldri. Samkvæmt athugasemdum er fylgdu frumvarpi til þágildandi skaðabótalaga nr. 50/1993 verður 2. mgr. 9. gr. eingöngu beitt ef allar líkur benda til þess að tjónþoli hefði verið vinnufær og stundað vinnu eftir 70 ára aldur. Stefnandi þessa máls var 62 ára að aldri á slysdegi. Með engu móti er hægt að segja að allar líkur bentu til þess á slysdegi að hún myndi stunda vinnu eftir 70 ára aldur, eða 8 árum síðar, hefði hún ekki lent í slysinu. Beita verður hér hlutlægum mælikvarða en ekki huglægum við mat á því hvort allar líkur benda til þess að hún myndi stunda vinnu eftir 70 ára aldur. Auk þess er ákvæði 2. mgr. 9. gr. undantekningarregla sem ber að skýra þröngt. Undanþágunni yrði hugsanlega beitt í því tilviki þegar um er að ræða 69 ára sjálfstæðan atvinnurekanda sem slasast og ekkert bendir til þess að hann hafi ætlað sér að setjast í helgan stein í nánustu framtíð. Stefnandi þessa máls var einungis 62 ára gömul á slysdegi og auk þess launþegi og er því alveg ljóst að undanþáguregla 2. mgr. 9. gr. á ekki við um hana.
Þá hafnar stefndi kröfum vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar í rýmri merkingu, sem ósönnuðum og órökstuddum. Af hálfu stefnanda eru engin gögn lögð fram þessum kröfulið til stuðnings.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda er varakrafa stefnda sú að lækka beri dómkröfur stefnanda verulega og að málskostnaður verði látinn niður falla. Vísast nánar til röksemda með aðalkröfu varðandi varakröfuna.
Stefndi fellst ekki á að leggja eigi til grundvallar meðaltekjur iðnaðarmanna sem viðmiðunartekjur við útreikning á bótum vegna varanlegrar örorku. Stefnandi er ekki iðnaðarmaður að mennt og hefur ekkert starfað sem slíkur. Auk þess er ekkert í fyrirliggjandi gögnum málsins sem gefur til kynna að hún hafi nokkurn tíma haft tekjur sem eru nálægt því að vera jafnháar meðaltekjum iðnaðarmanna.
Ef fallist verður á að meta þurfi árslaun sérstaklega áskilur stefndi sér rétt til að leggja fram frekari gögn hvað þetta varðar, þ.e. aðra viðmiðun og lægri en meðaltekjur iðnaðarmanna.
Verði fallist á að ætla megi að stefnandi hefði verið vinnufær og stundað vinnu eftir að hún er orðin fullra 70 ára þykir réttara að miða við að frádráttur sé 60% en ekki 50% eins og stefnandi fer fram á.
Stefnandi gerir kröfu um bætur fyrir annað fjártjón og sjúkrakostnað í rýmri merkingu að fjárhæð 300.000 krónur. Fjárhæð kröfunnar er mótmælt sérstaklega sem allt of hárri, enda er hún með öllu órökstudd.
Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt. Eldri vextir en fjögurra ára frá birtingu stefnu eru fyrndir skv. 2. tl. 3. gr. l. nr. 14/1905, sbr. og t.d. H. 1996: 765 og dráttarvextir eiga ekki rétt á sér fyrr en frá dómsuppsögudegi.
Kröfur um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Forsendur og niðurstöður.
Eins og að framan er rakið átti slysið sér stað 5. júní 1998 og fór fullnaðaruppgjör fram 4. október 2004, sem stefnandi gerði fyrirvara við. Uppgjörið var gert á grundvelli meginreglna skaðabótalaga nr. 50/1993. Í málinu byggir stefnandi aðallega á því að undanþáguákvæði 7. og 9. gr. nefndra laga eigi við, auk þess sem byggt er á 1. og 2. gr. skaðabótalaga.
Stefnandi telur að henni beri bætur vegna tímabundins atvinnutjóns í þrjá mánuði og vísar til 2. gr. laga nr. 50/1993. Í matsgerð læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Leifs N. Dungals kemur fram að tímabundið atvinnutjón stefnanda hafi verið 100% í þrjá mánuði og er tilgreint í matinu að þetta sé að hennar sögn. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn til sönnunar því að hún hafi orðið fyrir tekjumissi vegna tímabundinnar örorku. Gegn mótmælum stefnda telst það tjón því ósannað og er kröfu vegna þess hafnað. Þá er einnig hafnað sem órökstuddu að stefnandi eigi rétt til bóta vegna tímabundinnar óvinnufærni við heimilisstörf .
Af hálfu stefnanda er gerð krafa um bætur vegna varanlegrar örorku að fjárhæð 9.974.338 krónur. Stefnandi gerir þá aðalkröfu að miðað verði við meðaltekjur iðnaðarmanna og varakröfu að miðað verði við laun nokkur ár fyrir slysið. Við uppgjör málsaðila vegna slyssins var miðað við þau laun er stefnandi hafði samkvæmt skattframtali sínu, að viðbættu 6% framlagi í lífeyrissjóð, og var það í samræmi við 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og hún hljóðaði er slysið varð. Stefnandi reisir kröfu sína á þágildandi 2. mgr. 7. gr. sömu laga, það er að tekjur hafi verið afar sveiflukenndar og á ólíkum grundvelli hverju sinni. Í málinu liggur fyrir að árslaun stefnanda slysárið og tvö ár þar á undan hafi verið þau sömu og árið 1995 hafi þau verið lítið eitt hærri. Dómurinn fellst því ekki á að þau gögn sem stefnandi hefur lagt fram sýni að undantekningarákvæði þetta eigi við.
Eins og að framan er rakið var stefnandi 62 ára þegar slysið átti sér stað. Við uppgjör við stefnanda sætti hún 68% lækkun örorkubóta, samanber 1. mgr. 9. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi telur því að réttara sé að beita 50% frádrætti og vísar til 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Þar segir, að heimilt sé að víkja frá reglu 1. mgr. að nokkru eða öllu leyti, ef ætla megi að tjónþoli hafi verið vinnufær og stundað vinnu eftir að hann er orðinn fullra 70 ára að aldri. Umrædd 2. mgr. 9. gr. skaðabótaregla er undanþágu-regla sem ber að skýra þröngri lögskýringu. Að mati dómsins hefur stefnanda ekki tekist að gera líklegt að 2. mgr. 9. gr. laganna eigi við og er þá meðal annars litið til rekstrarafkomu O.I. snyrtivara ehf., og þeirra ársreikninga sem liggja fyrir í málinu. Því er kröfu stefnanda um hærri bætur vegna varanlegrar örorku hafnað.
Stefnandi byggir á því að hún eigi rétt á bótum vegna annars fjártjóns og sjúkrakostnaðar og vísar til 1. gr. skaðabótalaganna nr. 50/1993. Í stefnu málsins er nefnt að stefnda þurfi að standa straum af ýmsum kostnaði eða útgjöldum, án þess að það sé frekar rökstutt eða gögn lögð fram til stuðnings kröfunni. Þá er tilgreint að kostnaðurinn sé til að mæta fyrirsjáanlegum útgjöldum í framtíðinni vegna slyssins. Stefndi hefur upplýst að venja sé að greiða útlagðan kostnað vegna slysa. Gegn mótmælum stefnda er tjón samkvæmt þessum kröfulið ósannað og er kröfunni hafnað.
Samkvæmt framanrituðu er stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins, Eiríks Elísar Þorlákssonar, hdl., sem er hæfilega ákveðinn 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Eiríkur Elís Þorláksson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Sigurður Halldórsson hdl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Halldóru Karlsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Eiríks Elísar Þorlákssonar 300.000 krónur.