Hæstiréttur íslands

Mál nr. 436/2007


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Ábyrgðartrygging
  • Takmörkun ábyrgðar


         

Fimmtudaginn 10. apríl 2008.

Nr. 436/2007.

Síldarvinnslan hf.

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

og gagnsök

 

Vátryggingarsamningur. Ábyrgðartrygging. Takmörkun ábyrgðar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var S ehf. dæmt til að greiða SV hf. 73.400.000 krónur í skaðabætur vegna bruna sem varð í frystihúsi SV hf. við tökur á kvikmyndinni Hafið. Í kjölfarið greiddi S ehf. SV hf. 14.000.000 krónur en lýsti því yfir að það ætti engar frekari eignir. SV hf. krafði vátryggingafélagið SA hf. um greiðslu eftirstöðva tjónsins þar sem S ehf. var með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá félaginu á þeim tíma er tjónið varð. Talið var að tjón það sem varð við brunann hafi fallið utan gildissviðs ábyrgðartryggingarinnar samkvæmt stöðluðum skilmálum hennar. Þá var ekki fallist á að skilmálunum bæri að víkja til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Var SA hf. því sýknað af kröfum SV hf.

    

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 2007. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 62.900.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 73.400.000 krónum frá 8. desember 2001 til 5. mars 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af þeirri fjárhæð frá þeim degi til 1. desember 2004, af 76.900.000 krónum frá þeim degi til 3. mars 2005 og af 62.900.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 25. október 2007. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem aðaláfrýjanda verði gert að greiða í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Síldarvinnslan hf., greiði gagnáfrýjanda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                                                     

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2007.

                                                                         Mál þetta, sem dómtekið var 30. nóvember sl., var tekið til munnlegs málflutnings og dómtekið að nýju 16. maí sl..  Málið er höfðað 14. desember 2005 af Síldarvinnslunni hf., Hafnarbraut 6, Neskaupsstað gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur

    Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefhanda 62.900.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 73.400.000 krónum frá 8. desember 2001 til 5. mars 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af sömu fjárhæð frá þeim degi til 1. desember 2004, af 76.900.000 krónum frá þeim degi til 3. mars 2005, en af 62.900.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

   Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

   Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.  Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

Málavextir         

    Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-18023/2002, sem kveðinn var upp þann 16. nóvember 2004, var félagið Sögn ehf. dæmt til að greiða stefnanda 73.400.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. desember 2001 til 5. mars 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk 3.500.000 króna í málskostnað.

Dómsmálið kom til vegna bruna sem varð við tökur á kvikmyndinni Hafið, sem Sögn ehf. framleiddi árið 2001 og 2002.  Bruninn varð nánar tiltekið í frystihúsi stefnanda að Strandgötu 77 og 79 í Neskaupstað.  Afleiðingar brunans voru þær að húsið gjöreyðilagðist.

Í dómnum er komist að þeirri niðurstöðu, að Sögn ehf. beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem varð á frystihúsi stefnanda, og á nánar tilteknu lausafé sem var í húsinu.  Samkvæmt mati dómkvadds matsmanns nam tjónið alls 73.400.000 krónum.

Sögn ehf. áfrýjaði ekki dómnum og hefur félagið þannig sætt sig við dómsniðurstöðu.  Sögn ehf. lýsti því í kjölfarið yfir gagnvart stefnanda að félagið ætti enga fjármuni til að greiða kröfur stefnanda samkvæmt dómsorði en gæti hugsanlega reitt fram 14.000.000 króna upp í kröfuna.  Var því jafnframt lýst yfir að félagið myndi beiðast gjaldþrotaskipta ef gengið yrði að félaginu.  Samþykkti stefnandi að taka við 14.000.000 króna sem innáborgun á skuldina jafnframt því sem yfirlýsing var gefin um að ekki yrði gengið að félaginu heldur yrði þess freistað að leita eftir greiðslu úr hendi vátryggingarfélagsins Sjóvár-Almennra  trygginga hf.

Sögn ehf. hafði keypt tilteknar tryggingar hjá stefnda, frjálsa ábyrgðartryggingu, film insurance, eignatryggingu, lausafjártryggingu, slysatryggingu launþega og ábyrgðartrygg­ingar vegna bifreiða.

Þar sem Sögn ehf. var með gilda ábyrgðartryggingu hjá hinu stefnda félagi á tjónsdegi, þann 8. desember 2001, telur stefnandi sig eiga beina kröfu á hendur stefnda og geta krafið hann beint um þá fjárhæð sem hann telur vanta upp á að hann fái tjón sitt bætt að fullu.  Hinn 12. júlí 2005 sendi stefnandi stefnda bréf þar sem krafa var gerð um greiðslu úr umræddri ábyrgðartryggingu Sagnar ehf. í samræmi við fyrrgreinda niðurstöðu dóms héraðsdóms. Um lagarök fyrir kröfunni var vísað til 95. gr. vátryggingalaga nr. 20/1954.

Með bréfi, dags. 22. júlí 2005, var kröfu stefnanda hafnað með þeim rökum að gildissvið ábyrgðartryggingarinnar næði ekki til umrædds tjóns.

Með vísan til afstöðu stefnda telur stefnandi nauðsynlegt að höfða mál þetta.

Málsástæður stefnanda og lagarök

   Stefnandi byggir kröfu sína á því að Sögn ehf. hafi verið með gilda ábyrgðartryggingu hjá hinu stefnda félagi á tjónsdegi þann 8. desember 2001 sem nái til þess að bæta tjón stefnanda.  Þar sem nú sé búið að staðreyna bótaskyldu Sagnar ehf., og bótafjárhæð hafi verið ákveðin með niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. E-l8023/2002 eigi stefnandi beina kröfu á hið stefnda félag með vísan til 95. gr. vátryggingarlaga nr. 20/1954.

    Í vátryggingarskírteini, eða Certificate of Insurance, sem dagsett sé þann 4. desember 2001 og sent hafi verið í tölvupósti til forráðamanns Sagnar ehf. sama dag, segi orðrétt, en skírteinið sé á ensku:

„We hereby confirm that Sögn ehf. has taken out with Sjóvá-Almennar tryggingar hf., the following insurance coverage:

1.          Third Party Liability Insurance for the amount of ISK 120.000.000, which is equal to USD 1.140.000. at today's rate of exchange.

Deductible is 10 % each and every loss, minimum ISK 24.000, but maximum ISK 240.000.-“

    Áður en til sviðsetningar brunaatriðisins kom hafi starfsmanni stefnanda verið sýnt ofangreint vátryggingarskírteini enda hafi það verið forsenda fyrir því að veitt yrði leyfi til sviðsetningarinnar að Sögn ehf. væri með fullgilda tryggingu sem tæki til þess tjóns sem kynni að verða á eigum stefnanda.  Við lestur ofangreinds skírteinis sé enda ekkert sem gefi það til kynna að einhverjar takmarkanir séu á ábyrgð gagnvart þriðja manni, hvað þá að tryggingin taki ekki til tjóns sem verði vegna eldsvoða.  Stefnandi hafi því verið í þeirri trú að Sögn ehf. væri með fullgilda tryggingu.  Sérstaklega beri að nefna að umrætt vátryggingarskírteini sé sérstaklega ætlað þriðja aðila til sýningar, sbr. orðalagið: „TO WHOM IT MAY CONCERN.“

   Það hafi frá upphafi verið skýr afstaða forráðamanna Sagnar ehf. að umrædd ábyrgðartrygging tæki til þess tjóns sem varð, sbr. undirrituð fundargerð af fundi sem var haldinn í kjölfar brunans þann 8. desember 2001, en þar segi orðrétt:

„...lýsti Agnes því að framleiðandi myndarinnar væri með sínar tryggingar hjá Sjóvá Almennar. Um væri að ræða frjálsa ábyrgðartryggingu og í skilmálum væri ýtarlega lýst hverju áhættuatriði í myndinni þannig að þar kæmi fram lýsing á því atriði sem olli brunanum á húsinu. “

Jafnframt vísist til skýrslutöku lögreglu af forráðamönnum Sagnar ehf., þeim Agnesi Johansen og Baltasar Kormáki. Um afstöðu forráðamanna Sagnar ehf. til umfangs tryggingarinnar vísist enn fremur til bréfs sem sent hafi verið til Heilbrigðisnefndar Austurlands.  Í bréfinu komi fram sömu röksemdir fyrir leyfisumsókninni og forráðamennirnir höfðu uppi gagnvart stefnanda, en þar komi fram að Hafsauga ehf. sé með ábyrgðartryggingu hjá stefnda, vegna verkefnisins og hafi mönnum þar á bæ verið gerð góð grein fyrir þessu atriði myndarinnar.  Rétt sé að benda á nafnarugling í bréfinu en Hafsauga ehf. hafi ekki verið með ábyrgðartryggingu fyrir verkefninu heldur Sögn ehf.

    Við kaup á ofangreindri tryggingu, svo og öðrum tryggingum, hafi stefndi verið rækilega upplýstur um öll áhættuatriði sem til stóð að taka upp og allar þær áhættur sem væru samfara framleiðslu myndarinnar.  Þannig hafi meðal annars verið send ítarleg lýsing á því brunaatriði sem til stóð að taka upp í frystihúsi stefnanda að Strandgötu 77 og 79 í Neskaupstað.  Um þessa upplýsingagjöf vísist til lýsingar Sagnar ehf. á svokölluðum hættulegum atriðum sem gerð hafi verið að beiðni stefnda.

    Jafnframt vísist til þess að stefndi hafi gert þá kröfu til forráðamanna Sagnar ehf., og þeirra starfsmanna sem höfðu umsjón með sviðsetningu brunans, að þeir framkvæmdu sérstakar prufuíkveikjur með því brunavarnarefni sem hafi verið notað. Hafi þessi krafa verið gerð til að unnt væri að ganga úr skugga um að ekki ætti að geta kviknað í frystihúsi stefnanda.

    Þannig liggi fyrir að stefndi hafi fengið ítarlegar upplýsingar um umrætt brunaatriði en auk þess gert sérstakar kröfur um aðgerðir til að fyrirbyggja tjón vegna sviðsetningar brunans. Hér beri jafnframt að nefna að í ofangreindu vátryggingarskírteini sé annar sérfræðinganna, sem hafi séð um sviðsetningu brunans, tryggður sérstaklega með slysatryggingu launþega.  Vátryggingarskírteinið virðist því vera gefið út í tengslum við fyrirhugaða sviðsetningu.

    Afstaða fulltrúa stefnda, strax eftir brunann, bendi einnig til þess að þeir hafi talið tjónið heyra undir umrædda ábyrgðartryggingu.  Í fundargerð af fundi, sem hafi verið haldinn í kjölfar brunans þann 8. desember 2001, komi fram að fulltrúi stefnda hafí lýst því yfir að tryggingarfélögin myndu bera kostnað af því að verja húsið.

   Þar sem Sögn ehf. hafi talið sig þannig hafa tryggt sig gegn því tjóni sem varð á fasteignum stefnanda, ef tjónið yrði talið skaðabótaskylt af þeirra hálfu, hafi hinu stefnda félagi verið stefnt til réttargæslu í ofangreindu héraðsdómsmáli með stefnu sem þingfest var þann 9. maí 2003.

   Í greinargerð hins stefnda félags í því máli hafi bótaskyldu á grundvelli ábyrgðartryggingarinnar verið hafnað með þeim rökum að tjónið félli utan ábyrgðartryggingarinnar. Vísað hafi verið í almenna skilmála ábyrgðartryggingar þar sem fram komi að vátryggingin taki ekki til tjóns vegna skemmda á munum eða glötunar muna sem hlytist af eldsvoða.  Í svarbréfi stefnda, dagsettu þann 22. júlí 2005, þar sem kröfum stefnanda sé hafnað, sé um röksemdir fyrir höfnun vísað til þessarar sömu greinargerðar.

   Stefnandi telji höfnun stefnda á bótaskyldu haldlausa enda hafi umræddir skilmálar ekki verið kynntir Sögn ehf. fyrr en eftir að hið bótaskylda atvik átti sér stað.  Sögn ehf. hafi keypt ábyrgðartryggingu í þeim tilgangi að tryggja sig fyrir því tjóni sem félagið myndi valda þriðja manni.  Fyrir liggi að stefndi hafi sérstaklega verið upplýstur um umrætt brunaatriði og hafi öllum aðilum verið ljóst að það væri áhættusamasta atriði, sem tekið yrði upp við framleiðslu kvikmyndarinnar Hafið.  Það að tryggingin tæki svo ekki til tjóns sem myndi verða við gerð þess atriðis sé fjarstæðukennt.

   Í vátryggingarskírteini því sem forráðamönnum Sagnar ehf. hafi verið sent þann 4. desember 2001 hafi hvergi verið vísað í skilmála sem gilda hafi átt um trygginguna. Með vísan til þess að Sögn ehf. hafi sérstaklega upplýst stefnda um umrætt brunaatriði, verði að telja að tryggingarfélaginu hafi borið að tilgreina það skýrlega í umræddu skírteini, ef tjón af völdum eldsvoða var undanskilið í skilmálum tryggingar.  Hafi stefnda mátt vera ljóst að verið væri að biðja um tryggingu sem tæki meðal annars til tjóns sem yrði vegna sviðsetningar þessa brunaatriðis.

   Telur stefnandi ljóst, samkvæmt ofangreindu, að skilmálar þeir, sem stefndi hafi vísað til, geti ekki átt að gilda um þá ábyrgðartryggingu sem Sögn ehf. tók, enda væri slík trygging í engu samræmi við þau samskipti sem átt höfðu sér stað í aðdraganda tryggingartökunnar. Þannig telur stefnandi sýnt að stefndi hafi selt Sögn ehf. ábyrgðartryggingu vegna þess tjóns sem hugsanlega hlytist á eigum þriðja manns við framleiðslu myndarinnar, án þess að tjón vegna eldsvoða hafi verið undanskilið.

   Eldsvoðinn hafi orðið vegna gáleysis við sviðsetningu brunaatriðis í kvikmynd.  Því sé haldið fram að með orðinu eldsvoði í skilmálum sé einungis átt við eldsvoða sem verði vegna atvika sem ekki tengjast kvikmyndagerðinni.  Hér beri að nefna að á stefnda hvíli sönnunarbyrðin um það, að umræddir skilmálar, er undanskilji tjón vegna eldsvoða, gildi um umrædda ábyrgðartryggingu, auk þess sem allur vafi á túlkun vátryggingarsamnings beri að skýra vátryggingartaka í hag.

    Jafnvel þótt talið yrði að skilmálarnir teldust hluti af umræddri ábyrgðartryggingu telur stefnandi einsýnt að víkja beri þeim til hliðar, sbr. 36. gr. laga nr. 11/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

    Stefndi hafi veitt Sögn ehf. víðtæka tryggingarráðgjöf og hafi haft allar upplýsingar um þau áhættuatriði sem átti að taka upp vegna framleiðslu umræddrar kvikmyndar.  Stefnda hljóti að hafa verið ljóst að sviðsetning umrædds brunaatriðis hefði í för með sér langmesta áhættu á tjóni af þeim áhættuatriðum sem nefnd hafi verið.  Þannig hafi stefndi haft fulla vitneskju um þá áhættu sem Sögn ehf. ætlaði sér að kaupa tryggingu fyrir og mátti vera ljóst að Sögn ehf. var að kaupa tryggingu gegn því tjóni sem hugsanlega yrði við sviðsetningu kvikmyndaatriðis þar sem sprengingar og eldhætta voru aðaláhættuþættirnir.

    Eins og áður segi hafi það augljóslega verið mat forráðamanna Sagnar ehf. að keypt hefði verið trygging sem tæki til þess tjóns sem varð á fasteignum stefnanda og lausafé.  Miðað við aðdraganda tryggingartökunnar og þess tryggingarskírteinis sem gefið hafi verið út verði að telja afar ósanngjarnt gagnvart vátryggingartaka og stefnanda að vísa til umræddra skilmála.

    Með vísan til ofangreindra raka sé þess þannig krafist að stefndi greiði stefnukröfu til stefnanda á grundvelli ábyrgðartryggingar sem Sögn ehf. hafi verið með hjá félaginu og hafi verið í gildi á tjónsdegi.

    Vaxtakrafa sé í samræmi við dómsorð héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-18023/2002 en þar sé vísað til 8. gr. laga nr. 38/2001 um skaðabótavexti og til 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga um dráttarvexti.  Hámarksfjárhæð bóta samkvæmt nefndri ábyrgðartryggingu hafi verið 120.000.000 króna og sé ljóst að stefnukrafa með vöxtum og kostnaði fari fram úr þeirri fjárhæð.

    Um skyldu stefnda til að greiða þann hluta stefnukröfu er fari fram úr ofangreindri hámarksfjárhæð vísist til 2. og 3. mgr. 92. gr. vátryggingarlaga nr. 20/1954 en þar sé sérstaklega tiltekið að vátryggingarfélagi beri að greiða vexti og kostnað þótt greiðsla af þeim sökum fari fram úr greindri hámarksfjárhæð.

   Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til laga um meðferð einkamála nr. 90/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.

Málsástæður stefnda og lagarök

Aðalkrafa

    Óumdeilt er að Sögn ehf. var með gilda frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda á tjónsdegi 8. desember 2001.  Aðilar máls þessa deila á hinn bóginn um það hvort fyrrnefnt tjón stefnanda eigi undir trygginguna.  Byggir stefndi sýknukröfu sína á því að samkvæmt skýrum skilmálum tryggingarinnar falli tjón stefnanda utan hennar og engin atvik séu fyrir hendi sem réttlæti frávik frá því.  Stefnandi eigi því ekki kröfu á stefnda um greiðslu tjónsins.  Skuli þetta rökstutt nánar.

   Í fyrsta lagi taki tryggingin ekki til ábyrgðar vegna skemmda á munum eða glötunar muna, sem vátryggður hefur að láni, á leigu, til geymslu, sölu, flutnings eða eru af öðrum ástæðum í vörslu hans, þar á meðal muna, sem vátryggður hefur tekið í heimildarleysi, sbr. grein 150.20 í framlögðum vátryggingarskilmálum á dskj nr. 17.

    Óumdeilt sé að stefnandi hafi lánað Sögn ehf. húsnæðið að Strandgötu 77 og 79 á Neskaupstað, þ.e. frystihúsið sem brann, til kvikmyndatöku.  Megi hér t.d. vísa til þess sem fram komi hjá Freysteini Bjarnasyni, þáverandi útgerðarstjóra stefnanda, við rannsókn lögreglu á brunanum.  Megi hér einnig vísa til stefnu og greinargerðar Sagnar ehf. í héraðsdómsmálinu nr. E-18023/2002.

    Samkvæmt framansögðu liggi þannig fyrir að skemmdir urðu á munum, þ.e.a.s. á frystihúsinu og tilteknu lausafé sem þar var, sem Sögn ehf. hafði að láni.  Taki tryggingin ekki til ábyrgðar á slíku tjóni, sbr. grein 150.20 í vátryggingarskilmálum. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

    Í öðru lagi taki tryggingin ekki til ábyrgðar vegna skemmda á munum eða glötunar muna, sem hljótist af eldsvoða, sbr. grein 150.40 í vátryggingarskilmálum.

    Óumdeilt sé að tjón stefnanda sé til komið vegna bruna á fasteign félagsins er varð við tökur á kvikmyndinni Hafið sem Sögn ehf. framleiddi.  Telur stefndi engan vafa leika á því að slíkur bruni teljist til eldsvoða samkvæmt vátryggingarskilmálum. Þessu til stuðnings vísast meðal annars til ákvæða vátryggingarsamningalaga nr. 20/1954 um brunatryggingar.  Jafnframt sé vísað til skilgreininga á eldsvoða í vátryggingarskilmálum brunatrygginga Tryggingamiðstöðvarinnar hf., vátryggjanda stefnanda, á dskj. nr. 30 og nr. 31, og greinargerðar félagsins í héraðsdómsmálinu nr. E-18023/2002.  Megi hér einnig vísa til forsendna héraðsdóms í nefndu máli.  Stefndi mótmæli því harðlega að einhver vafi sé á því hvernig túlka beri vátryggingarskilmálana og að þar hafi einungis verið átt við eldsvoða sem yrði vegna atvika sem ekki tengdust kvikmyndagerðinni.  Eigi sú túlkun stefnanda á skilmálunum sér enga stoð.  Samkvæmt framansögðu liggi þannig fyrir að tjón stefnanda hlaust af eldsvoða. Taki tryggingin ekki til ábyrgðar á slíku tjóni, sbr. grein 150.40 í vátryggingarskilmálum.  Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

    Stefndi leggi áherslu á að tjón stefnanda falli utan þeirrar frjálsu ábyrgðartryggingar sem Sögn ehf. hafði hjá stefnda, eins og að framan sé rakið. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.  Stefndi telur að margar þeirra málsástæðna sem teflt sé fram í stefnu geti ekki átt við í málinu, en telur sig á hinn bóginn ekki komast hjá því að svara þeim með nokkuð ítarlegum hætti.

    Stefndi mótmæli því harðlega að stefnandi geti borið fyrir sig að ekkert í vátryggingarskírteini hafi gefið til kynna að einhverjar takmarkanir væru á frjálsu ábyrgðartryggingunni.  Ef fallist væri á þá skýringu stefnanda þýddi það t.d. að stefndi bæri ábyrgð á tjóni sem Sögn ehf. kynni að hafa valdið af ásetningi.  Væri slíkt fráleitt.  Byggir stefndi á því að stefnanda hafi verið kunnugt um, eða a.m.k. mátt vera vel kunnugt um, að skilmálar umræddrar tryggingar hefðu að geyma undanþáguákvæði, eins og vant sé í stöðluðum samningsskilmálum vátrygginga.  Beri hér að hafa í huga að stefnandi sé með atvinnurekstur og sé vafalaust með ábyrgðartryggingar með sambærilegum skilmálum og gildi um frjálsa ábyrgðartryggingu Sagnar ehf.  Hafi stefndi því skorað á stefnanda að leggja fram upplýsingar um ábyrgðartryggingar sínar og þá skilmála sem um þær gildi.

    Í framhaldi af þessu bendi stefndi á að sú hætta sem var á tjóni á fasteigninni hafi verið sérstök og óvenjuleg, enda hafi átt að sviðsetja bruna í henni.  Hafi þessar aðstæður stefnanda gefið fullt tilefni til að afla sér upplýsinga um hvort fullnægjandi tryggingar væru fyrir hendi.  Stefnandi hafi hins vegar ekki borið undir Tryggingamiðstöðina hf., sem tryggði fasteignina lögboðinni brunatryggingu, hvort sú trygging tæki til mögulegs tjóns.  Þá hafi stefnandi ekki heldur borið undir stefnda hvort frjáls ábyrgðartrygging Sagnar ehf. tæki til mögulegs tjóns, þvert á skýr undanþáguákvæði í almennum skilmálum tryggingarinnar.  Byggir stefndi á því að stefnandi hafi með þessu sýnt af sér gáleysi og verði að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu sjálfur.

    Stefndi mótmæli því að það skipti máli við úrlausn þessa máls, um mögulega greiðsluskyldu stefnda úr frjálsri ábyrgðartryggingu til stefnanda, hvort forráðamenn og starfsmenn Sagnar ehf. hafi talið að umrædd trygging tæki til þess tjóns sem varð. Það sem skipti öllu máli sé að samkvæmt skýrum skilmálum tryggingarinnar taki hún ekki til tjónsins, eins og fyrr sé rakið.  Ef Sögn ehf. hafi lýst því yfir við stefnanda eða gefið til kynna að tryggingin tæki til tjónsins verði félagið sjálft að bera fulla ábyrgð á því. Mögulegur misskilningur Sagnar ehf. um gildissvið frjálsu ábyrgðartryggingarinnar geti ekki leitt til þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda úr tryggingunni.

    Í stefnu sé því haldið fram að það hafi frá upphafi verið skýr afstaða forráðamanna og starfsmanna Sagnar ehf. að umrædd ábyrgðartrygging tæki til tjónsins.  Þá sé ítrekað fullyrt að Sögn ehf. hafi talið sig hafa tryggingu fyrir því tjóni sem kynni að verða á fasteignum og lausafé stefnanda.  Stefndi mótmælir þessum fullyrðingum stefnanda harðlega.  Því til stuðnings sé nærtækt að benda á það sem fram komi í greinargerð Sagnar ehf. í fyrrnefndu héraðsdómsmáli nr. E-18023/2002. Þar segi á bls. 7: „[...] Stefnanda var ljóst að keypt hafði verið ábyrgðartryggingu (sic) vegna tjóns sem kynni að verða valdið við upptökur myndarinnar með saknæmum hætti.  Stefnandi vissi því eða mátti vita að stefndi hafði ekki keypt brunatryggingu enda hefði það verið erfitt þar sem stefnandi var sjálfur með gilda brunatryggingu á fasteigninni hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf.  Ef stefnandi vildi auka við tryggingar vegna upptöku þessa atriðis eða annarra áhættuatriða tengdum fasteignum stefnanda bar honum að kaupa slíkar tryggingar sjálfur eða krefjast þess af framleiðanda myndarinnar að hann gerði það.  Stefnandi gerði hvorugt. [...]“ Á bls. 9 segi síðan svo: „[...] Það skal ítrekað að ef stefnandi taldi þörf á því að keypt yrði víðtækari trygging en ábyrgðartrygging vegna brunaatriðsins (sic) eða annarra áhættuatriða, bar stefnanda að gera það hjá sínu tryggingafélagi, brunatryggjanda fasteignarinnar, eða krefjast þess af framleiðanda myndarinnar að hann gerði það. Það gerði stefnandi ekki og getur stefndi ekki borið ábyrgð á því. [...]“

    Samkvæmt framansögðu megi ljóst vera að Sögn ehf. hafi verið fullkunnugt um þær takmarkanir sem voru á gildissviði frjálsu ábyrgðartryggingarinnar og að hún tryggði ekki tjón vegna bruna.

    Til viðbótar því sem hér hafi verið rakið skuli bent á að Sögn ehf. hafi tekið sérstakar tryggingar hjá stefnda vegna tiltekinna muna í eigu þriðja manns og sem hafi þá, meðal annars, verið tryggðir gegn brunatjóni, sbr. dskj. 19.  Styðji þetta enn frekar að Sögn ehf. hafi verið fullkunnugt um að frjálsa ábyrgðartryggingin væri ekki svo víðtæk sem stefnandi heldur fram.  Að öðrum kosti hefði Sögn ehf., eðli máls samkvæmt, ekki keypt þær tryggingar.

    Stefndi mótmælir því að félaginu hafi borið að tilgreina það sérstaklega í vátryggingarskírteini að tjón af völdum eldsvoða væri undanskilið í skilmálum tryggingarinnar.  Byggir stefndi á því að Sögn ehf., líkt og stefnanda, hafi verið kunnugt um, eða a.m.k. mátt vera vel kunnugt um, að skilmálar umræddrar tryggingar hefðu að geyma undanþáguákvæði, eins og venjan sé í stöðluðum samningsskilmálum vátrygginga.  Hafi Sögn ehf. borið að kynna sér skilmála þeirra trygginga sem það valdi sér, en í skilmálum frjálsu ábyrgðartryggingarinnar komi t.d. skýrt fram að tjón af völdum eldsvoða sé undanskilið.  Hafi Sögn ehf. verið vel kunnugt um að ákveðnir skilmálar giltu um trygginguna, sjá hér tölvupóst félagsins til stefnda hinn 10. desember 2001.  Hér skuli enn áréttað að af fyrrnefndri greinargerð Sagnar ehf., verði skýrlega ráðið að félaginu hafi verið fullkunnugt um að frjálsa ábyrgðartryggingin fæli ekki í sér brunatryggingu fasteignar stefnanda.

    Fullyrðingum stefnanda um samskipti stefnda og Sagnar ehf. í aðdraganda tryggingatökunnar er mótmælt sem röngum og ósönnuðum.  Hvað sem því líði telur stefndi að það geti ekki haft áhrif á úrslit málsins hvað fór á milli stefnda og Sagnar ehf.  Hafi stefnda orðið á einhver mistök við tryggingarráðgjöf gagnvart Sögn ehf. geti slíkt aðeins leitt til ábyrgðar gagnvart því félagi, ekki stefnanda.  Rétt sé að taka skýrt fram að stefndi telur sig engin mistök hafa gert og og telur sig hafa veitt Sögn ehf. fullnægjandi ráðgjöf við tryggingartökuna.  Hafi Sögn ehf. verið kunnugt um, eða mátt vera vel kunnugt um, þær tryggingar sem félagið keypti og gildissvið þeirra, eins og fyrr sé rakið.

    Í framhaldi af þessu sé rétt að árétta að stefnandi hafi engin samskipti átt við stefnda vegna trygginga Sagnar ehf. og stefnandi hafi aldrei leitað upplýsinga hjá stefnda um gildissvið trygginganna, þrátt fyrir fullt tilefni vegna sérstakra og óvenjulegra aðstæðna.

    Tekið skuli fram að upplýsingar um áhættuatriði hafi ekki verið lagðar fram vegna frjálsu ábyrgðartryggingarinnar, heldur vegna töku hinnar svokölluðu „Film Insurance“.  Aldrei hafi verið rætt um að stefndi skyldi brunatryggja fasteign stefnanda, enda hafi hún verið tryggð lögbundinni brunatryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni hf. og hafi Sögn ehf. verið kunnugt um það, sbr. greinargerð Sagnar ehf. í máli nr. E-1823/2002.

    Í stefnu sé fullyrt að stefndi hafi gert þá kröfu til forráðamanna Sagnar ehf. og þeirra starfsmanna sem höfðu umsjón með sviðsetningu brunans að þeir framkvæmdu sérstakar prufuíkveikjur með því brunavarnarefni sem var notað.  Hafi þessi krafa verið gerð til að unnt væri að ganga úr skugga um að ekki ætti að geta kviknað í frystihúsi stefnanda.  Stefndi mótmælir þessum fullyrðingum sem röngum og ósönnuðum, nú sem fyrr.

    Í stefnu sé einnig ýjað að því að vátryggingarskírteinið hafi verið gefið út í tengslum við fyrirhugaða sviðsetningu á brunanum því þar kæmi fram að annar sérfræðinganna, sem sá um sviðsetninguna, væri tryggður sérstaklega með slysatryggingu launþega.  Stefndi mótmælir þessu.  Hafi einfaldlega verið að staðfesta töku tryggingar, sem óskað hafði verið eftir sama dag.  Um hafi verið að ræða almenna slysatryggingu fyrir starfsmanninn þann tíma sem hann var hér á landi.

    Stefndi mótmæli því að hafa talið í upphafi að tjónið heyrði undir frjálsu ábyrgðartrygginguna. Óumdeilt sé að þann 8. desember 2001 hafi verið haldinn fundur á Hótel Capitano vegna brunans.  Á þeim fundi hafi málin verið rædd almennt og hafi komið fram í máli Helga Kjærnested, svæðisstjóra stefnda, að það tryggingarfélag, sem bótaskylt væri vegna tjónsins, bæri kostnaðinn sem af því hlytist við að verja húsið fyrir frekara tjóni.  Í þeim orðum svæðisstjóra stefnda hafi ekki falist nein viðurkenning á bótaskyldu úr frjálsu ábyrgðartryggingunni. Sjá í þessu sambandi tölvupóst stefnda til Sagnar ehf. á dskj. nr. 25.

    Stefndi mótmælir því að skilyrði séu til að víkja umræddum tryggingaskilmálum til hliðar með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.  Fyrst skuli bent á að um sé að ræða vátryggingarsamning á milli stefnda og Sagnar ehf.  Eigi stefnandi enga aðild að þeim samningi.  Sé því harðlega mótmælt að stefnandi geti krafist breytinga á samningi sem aðrir aðilar hafi gert sín á milli.  Þá mótmælir stefndi því að skilmálarnir séu þess eðlis að víkja beri þeim til hliðar.  Aðilum vátryggingarsamnings sé frjálst að semja um efni hans og hafi stefnda verið heimilt með samningi að takmarka þá áhættu sem hann tók að sér, enda um frjálsa ábyrgðartryggingu að ræða.  Byggir stefndi á því að félaginu hafi verið heimilt að takmarka ábyrgð sína með þeim hætti sem gert var.  Undanþáguákvæðin séu skýr, alls ekki óvenjuleg og sé sambærileg ákvæði að finna í tryggingaskilmálum annarra tryggingafélaga.  Þá geti undanþáguákvæðin ekki talist ósanngjörn þegar meðal annars sé litið til þess að lögum samkvæmt beri að tryggja húseignir sérstaklega gegn bruna, sbr. lög nr. 48/1994 um brunatryggingar.

Varakrafa

    Stefndi krefst þess til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega, en stefndi telur tjón stefnanda að mestu leyti ósannað.  Sé niðurstöðu framlagðrar matsgerðar mótmælt sem rangri og of hárri.  Þá mótmælir stefndi því sérstaklega að félaginu verði gert að greiða dæmdan málskostnað þar sem slíkt eigi ekki undir frjálsu ábyrgðartrygginguna.  Tekið skuli hér fram að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-18023/2002 hafi ekki bindandi réttaráhrif fyrir stefnda, enda hafi félagið ekki verið beinn aðili að málinu.  Stefndi mótmælir að lokum vaxta- og dráttarvaxtakröfum stefnanda.

    Um lagarök vísar stefndi einkum til þágildandi laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, almennra reglna vátryggingaréttar og meginreglu samningaréttar um samningsfrelsi, auk samningalaga nr. 7/1936 og laga nr. 48/1994 um brunatryggingar.

Niðurstaða

    Í 1. mgr. 95. gr. laga nr. 20/1954 segir að þegar staðreynt hefur verið að vátryggður sé skaðabótaskyldur þeim er tjónið beið og upphæð bótanna ákveðin, öðlast sá, sem tjónið beið, rétt vátryggðs á hendur félaginu að því leyti til sem kröfu hans er eigi þegar fullnægt.

    Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 16. nóvember 2004, var staðfest að Sögn ehf. bæri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda sem varð vegna sviðssetningar á brunaatriði við gerð kvikmyndarinnar Hafið.

    Stefnandi byggir kröfur sínar á því að Sögn ehf. hafi verið með gilda ábyrgðartryggingu hjá stefnda á tjónsdegi sem nái yfir tjón stefnanda og beri stefnda því að bæta stefnanda tjón hans sem stefnandi telur nema stefnufjárhæð, sbr. áðurnefnd 95. gr.

    Karl Jóhann Birgisson, rekstrarstjóri útgerðarsviðs stefnanda, bar fyrir dómi að þegar dró að því að umrætt brunaatriði yrði kvikmyndað hafi forstjóri stefnanda beðið hann að ganga eftir því við Sögn ehf. að þetta væri allt vel tryggt.  Hafi hann því snúið sér til tengiliðar síns hjá Sögn ehf, Agnesar Johansen, og óskað staðfestingar á því.  Agnes hafi sýnt honum vátryggingarskírteini frá stefnda á tölvu og hafi honum sýnst það „dekka“ þetta atriði.  Staðfesti Karl Jóhann að honum hafi verið sýnt dskj. nr. 7 sem er yfirlýsing frá 4. desember 2001.

    Stefnandi byggir á því að þessi yfirlýsing stefnda frá 4. desember 2001 sé vátryggingarskírteini og í því séu engar takmarkanir tilgreindar á ábyrgð stefnda gagnvart þriðja manni.  Stefnandi hafi því mátt treysta því  að um fullgilda tryggingu væri að ræða og að umrædd trygging tæki til þess tjóns sem varð.

    Stefnandi vísar til bókunar á fundi sem haldinn var eftir brunann þar sem Agnes Johansen hafi lýst því að í skilmálum um frjálsa ábyrgðartryggingu hefði verið lýst ítarlega hverju áhættuatriði í myndinni þannig að þar kæmi fram lýsing á því atriði sem olli brunanum á húsinu.

    Í framburði Sigfúsar Arnar Sigurhjartarsonar, viðskiptastjóra stefnda, fyrir dómi kom hins vegar fram að sá spurningalisti sem settur var fram og þær lýsingar á áhættuatriðum sem Sögn ehf. gaf hafi ekki staðið í tengslum við umfjöllun um ábyrgðartrygginguna heldur aðrar tryggingar sem Sögn ehf. tók hjá stefnda.  Bar Sigfús að í sambandi við ábyrgðartrygginguna hefði ekki verið rætt hvort hún tæki til bruna enda hefði það ekki gengið upp því stefndi selji ekki þannig tryggingu.  Lögboðin bunatrygging hafi verið til staðar varðandi þessa tilteknu eign sem tjón varð á.

    Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi krafist þess af Sögn ehf. að framkvæmdar yrðu sérstakar prufuíkveikjur með því brunavarnarefni sem var notað.  Agnes Johansen bar fyrir dómi að hún muni ekki eftir því að stefndi hafi farið fram á slíkt.  Ekkert þykir hafa komið fram í málinu sem styður umrædda fullyrðingu stefnanda.

    Stefnandi byggir á því að Sögn ehf. hafi ekki verið kynntir skilmálar tryggingarinnar fyrr en eftir að tjón varð.

    Sigfús Arnar Sigurhjartarson bar fyrir dómi að verklagsreglan hjá stefnda sé sú að hann sjái um útgáfu á tryggingarskírteininu.  Það sé prentað í gíróseðilsformi.  Síðan sjái annar starfsmaður um að senda skírteinið ásamt tryggingarskilmálunum til viðskiptamanns.  Samkomulag hafi orðið milli stefnda og Sagnar ehf. að tryggingin tæki gildi 1. október þótt skírteinið hefði verið gefið út síðar.  Lísa Kristjánsdóttir, starfsmaður á skrifstofu Sagnar ehf. á umræddum tíma, kvaðst fyrir dómi ekki muna til þess að hafa móttekið tryggingarskilmála en kvaðst hafa fengið greiðsluseðla vegna ýmissa trygginga.

    Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er félag sem hefur á boðstólum og selur tryggingar.  Óumdeilt er að Sögn ehf. keypti ýmiss konar tryggingar hjá stefnda í tengslum við töku myndarinnar Hafið, þ.á m. frjálsa ábyrgðartryggingu.  Telja verður að það sé almenn vitneskja að tryggingar, eins og frjáls ábyrgðartrygging, eru háðar ákveðnum stöðluðum skilmálum.  Bar forsvarsmönnum Sagnar ehf. að kynna sér þá áður en gengið var til samninga við stefnda um kaup á tryggingunni og ganga úr skugga um að tryggingin tæki til þeirra þátta í starfsemi félagsins sem félagið óskaði tryggingar á.  Liggur ekki fyrir að stefndi hafi tekið á sig ábyrgð umfram það sem skilmálar kveða á um.  Hvað forsvarsmenn Sagnar ehf. hafa talið í þessu sambandi þykir ekki skipta hér máli. 

    Samkvæmt framburði Lísu Kristjánsdóttur var óskað eftir staðfestingu á því að allt væri tryggt.  Taldi Lísa að þar sem staðfestingin væri á ensku hefði hún verið gerð fyrir meðframleiðendur myndarinnar.  Umrædd staðfesting eða „certificate of insurance“ var það skjal sem Karli Jóhanni var sýnt þegar hann óskaði staðfestingar á því að allt væri vel tryggt hjá Sögn ehf.  Í umræddu skjali segir í íslenskri þýðingu:  „Við staðfestum hér með að Sögn ehf hefur tekið eftirfarandi tryggingar hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf:

1.               Þriðja aðila ábyrgðartrygging að upphæð kr. 120.000.000, sem er að jafngildi USD 1.140.000 á gengi dagsins í dag.  Sjálfsábyrgðin er 10% í sérhverju tjóni, kr. 24.000,- að lágmarki en kr. 24.000,- að hámarki

2.               Bótatrygging fyrir starfsmenn skv. kjarasamningi Paal Morten Hverven.“

    Enda þótt umrætt skjal beri yfirskriftina tryggingarskírteini í íslenskri þýðingu er ljóst af efni þess að það er staðfesting á því að Sögn ehf. hafi tekið ákveðnar tryggingar hjá stefnda.  Er ekki fallist á að Karl Jóhann hafi, af umræddu skjali, mátt ætla að um væri að ræða tryggingarskírteini frjálsrar ábyrgðartryggingar þar sem engir skilmálar eru tilgreindir í skjalinu, sbr. það sem áður segir.  Þá er handskrifað á skjalið að það sé útprentun á staðf. sem barst á e-mail frá Sigfúsi. 

    Eins og áður segir hafði Sögn ehf. keypt frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda.  Tjón, sem varð við umræddan bruna á fasteign stefnanda og lausafjármunum, sem Sögn ehf. hafði að láni, fellur utan við gildissvið tryggingarinnar, sbr. ákvæði 150.20 og 150.40 í skilmálum ábyrgðartryggingarinnar.  Sú málsástæða stefnda að víkja beri til hliðar skilmálum tryggingarinnar á grundvelli 36. gr. laga nr. 11/1936 er órökstudd og er henni hafnað.  Stefnandi hefur því ekki sýnt fram á í máli þessu að hann eigi kröfu á stefnda vegna umrædds tjóns.  Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

    Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

    Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

    Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Síldarvinnslunnar hf.

    Málskostnaður fellur niður.