Hæstiréttur íslands
Mál nr. 71/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Hald
- Sakarkostnaður
|
|
Þriðjudaginn 4. mars 2003. |
|
Nr. 71/2003. |
Kolbrún Björnsdóttir(Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn tollstjóranum í Reykjavík (enginn) |
Kærumál. Hald. Sakarkostnaður.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu um að T bæri að afgreiða úr tolli nánar tiltekna vörusendingu til K og hafnað kröfu hennar um málskostnað. K krafðist aðallega ómerkingar úrskurðarins þar sem héraðsdómari hafi sýnilega misskilið hvers hún krefðist eftir að ljóst var orðið að fella yrði málið niður, þar sem T hafði lýst því yfir að fallið væri frá haldlagningu sendingarinnar. K hélt því fram að bókun í þingbók sem laut að því að viðurkennd yrði skylda T til að afhenda henni vörusendinguna hafi eingöngu varðað áskorun hennar um það efni. Talið var, að hafi K fallið frá umræddri kröfu, sem hún hafði áður gert fyrir héraðsdómi, hafi yfirlýsingar hennar í tengslum við það vart verið svo ljósar sem skyldi. Hvað sem því liði gæti engin haldbær ástæða leitt til þess að ómerkja ætti hinn kærða úrskurð vegna þess eins að þar hafi verið tekin afstaða til kröfu, sem K kynni að hafa verið búin að falla frá. Ekki varð ráðið af gögnum málsins að lögmaðurinn, sem fór með málið fyrir K, hafi verið skipaður verjandi hennar. Brast þannig skilyrði samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála til að dæma henni sakarkostnað úr ríkissjóði vegna þóknunar lögmanns hennar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2003, þar sem vísað var frá dómi kröfu um að varnaraðila bæri að afgreiða úr tolli nánar tiltekna vörusendingu til sóknaraðila og hafnað kröfu hennar um málskostnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að „hinn kærði úrskurður verði ómerktur, og að lagt verði fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur að taka kröfu kæranda um málskostnað til úrskurðar, en til vara er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði ógiltur og Hæstiréttur úrskurði um málskostnað milli aðila.” Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum málsins fékk sóknaraðili, sem er grasalæknir að mennt, vörusendingu frá ensku fyrirtæki, The Herbal Apothecary, sem kom til landsins með skipi 12. nóvember 2001. Í sendingu þessari, sem var rúmlega 100 kg að þyngd, munu að mestu hafa verið jurtir, sem að sögn sóknaraðila voru ætlaðar til heilsubóta. Á vegum varnaraðili var vörusendingin könnuð 13. nóvember 2001 og gögn um hana síðan lögð fyrir Lyfjastofnun, sem greindi varnaraðila frá því 14. sama mánaðar að hún gæti ekki „orðið við beiðni um áritun vörureikninga” fyrir sendingunni, þar sem ætla mætti að nota ætti jurtirnar til lyfjaframleiðslu, sem sóknaraðili hefði ekki leyfi til að leggja stund á. Mun varnaraðili af þessum sökum hafa neitað sóknaraðila um tollafgreiðslu sendingarinnar. Sóknaraðili var kvödd 4. júní 2002 til skýrslugjafar hjá varnaraðila vegna ætlaðra tollalagabrota. Varnaraðili tilkynnti sóknaraðila 22. júlí sama árs að fyrirhugað væri að gera vörusendinguna upptæka að frátöldum nánar tilteknum hluta hennar. Þessu mótmælti sóknaraðili með bréfi til varnaraðila 13. ágúst sama árs. Eftir þetta verður ekki séð af gögnum málsins að neitt hafi verið gert vegna vörusendingarinnar fyrr en sóknaraðili leitaði með bréfi 24. janúar 2003 eftir úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli 79. gr. laga nr. 19/1991 um lögmæti halds, sem varnaraðili hafði lagt á hana. Krafðist sóknaraðili þess í bréfinu að haldlagningin yrði felld úr gildi og viðurkennd skylda varnaraðila til að afhenda henni vörusendinguna. Þá krafðist hún jafnframt málskostnaðar. Af þessu tilefni var mál þetta þingfest í héraði 10. febrúar 2003. Í því þinghaldi lýsti varnaraðili yfir að fallið væri frá haldlagningu sendingarinnar. Málið var aftur tekið fyrir í héraðsdómi 13. sama mánaðar, þar sem varnaraðili ítrekaði þessa yfirlýsingu. Var þá eftirfarandi fært í þingbók: „Lögmaður sóknaraðila tekur fram að lýst hafi verið yfir að fallið sé frá haldlagningu á sendingunni, sem mál þetta snýst um, og staðið hefur að nauðsynjalausu í tæpa 15 mánuði, og við svo búið virðist óhjákvæmilegt að fella málið niður. Sóknaraðili gerir kröfu um að úrskurðað verði um málskostnað fyrir vinnu í 111/2 klst. Tímakaupið sé 8.500 krónur auk virðisaukaskatts. Sóknaraðili gerir kröfu um tollafgreiðslu og afhendingu vörunnar þegar í stað og lýsir yfir áskilnaði um að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur varnaraðila auk þess að áskilja sér rétt til að leita annarra réttarúrræða vegna málsins.” Jafnframt var færð til bókar endursögn af andsvörum varnaraðila, þar á meðal að kröfu um málskostnað væri mótmælt, svo og að ekki væri unnt að verða við kröfu um tafarlausa afhendingu sendingarinnar, því tollskrárnefnd á vegum varnaraðila ætti eftir að fjalla um málið. Sem fyrr segir var hinn kærði úrskurður síðan kveðinn upp í málinu 18. febrúar 2003.
Sóknaraðili reisir aðalkröfu sína um ómerkingu hins kærða úrskurðar á því að héraðsdómari hafi sýnilega misskilið hvers hún krefðist eftir að ljóst var orðið að fella yrði málið niður. Hafi sóknaraðili ekki gert kröfu um að kveðið yrði á um það í úrskurðinum að varnaraðila bæri að tollafgreiða vörusendinguna, sem áður er getið, heldur hafi framangreind bókun í þingbók varðað áskorun hennar til varnaraðila um það efni. Geti sóknaraðili „ekki við það unað að frávísunarúrskurður liggi fyrir, um kröfugerð sem hann hefur aldrei haft uppi”, svo sem segir í kæru hennar til Hæstaréttar, en af þeim sökum krefjist hún þess aðallega að úrskurðurinn verði ómerktur og til vara að hann verði felldur úr gildi. Að því er þetta varðar liggur ekki annað fyrir í gögnum málsins um endanlegar dómkröfur sóknaraðila í héraði en það, sem áður greinir um efni bréfs hennar til Héraðsdóms Reykjavíkur 24. janúar 2003 og bókun þar í þingbók 13. febrúar sama árs, auk þess sem segir um þetta í hinum kærða úrskurði. Hafi sóknaraðili fallið í þinghaldi síðastgreindan dag frá kröfunni, sem hún gerði í áðurnefndu bréfi um að viðurkennd yrði skylda varnaraðila til að afhenda henni vörusendinguna, hafa yfirlýsingar hennar í tengslum við það ekki verið svo ljósar sem skyldi. Hvað sem því líður getur engin haldbær ástæða leitt til þess að ómerkja ætti hinn kærða úrskurð vegna þess eins að þar hafi verið tekin afstaða til kröfu, sem sóknaraðili kann að hafa verið búin að falla frá.
Mál til að fá muni leysta úr haldi sæta meðferð fyrir dómi eftir reglum laga nr. 19/1991. Í þeim lögum eru ekki heimildir til að dæma aðila málskostnað, en um sakarkostnað, sem eftir atvikum má fella á ríkissjóð, eru ákvæði í XIX. kafla þeirra. Samkvæmt a. lið 1. mgr. 164. gr. laganna, eins og henni var breytt með 35. gr. laga nr. 36/1999, telst meðal annars til sakarkostnaðar þóknun verjanda. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði verður ekki ráðið af gögnum málsins að lögmaðurinn, sem fer með það fyrir sóknaraðila, hafi verið skipaður verjandi hennar. Brestur þannig skilyrði til að dæma í máli þessu sóknaraðila sakarkostnað úr ríkissjóði vegna þóknunar lögmanns hennar.
Samkvæmt framangreindu verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2003.
Ár 2003, þriðjudaginn 18. febrúar er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu í Reykjavík af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður um kröfu sóknaraðila um að hún fái greiddan málskostnað og um að vara hennar verði tollafgreidd og afhent þegar í stað.
Málavextir.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 24. janúar sl. og krafðist þess, með vísan til 79. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991, að hald sem lagt var á vörusendingu til hennar yrði fellt úr gildi. Fyrir liggur að hún flutti inn til landsins, í nóvember 2001, 105 kg af jurtum af ýmsu tagi frá fyrirtækinu Herbal Apothecary í Bretlandi. Var lagt hald á vörusendinguna vegna þess að hún var talin innihalda efni til lyfjagerðar og vegna þess að ekki voru tilgreindir réttir tollflokkar í aðflutningsskýrslu. Vörunum var haldið til 13. þ.m. að fulltrúi tollstjóra lýsti því yfir í þinghaldi að haldlagning vörunnar vegna opinbers máls væri felld niður.
Sóknaraðili gerir nú kröfu um að vara sú sem hald var lagt á verði tollafgreidd og afhent þegar í stað. Ekki verður séð að það sé á valdi dómsins að mæla fyrir um það í þessu máli að umrædd vara verði tollafgreidd og afhent sóknaraðila. Ber því að vísa henni frá dómi.
Þá er gerð krafa um það að úrskurðað verði um málskostnað fyrir vinnu lögmanns í 11½ klst @ 8.500 krónur auk virðisaukaskatts. Kröfu þessari er alfarið mótmælt en til vara er krafist lækkunar. Í málinu er skýrsla sem tekin var af sóknaraðila 4. júní sl. og hafði hún þá réttarstöðu sakbornings. Viðstaddur var Stefán Geir Þórisson hrl. og er hann í skýrslunni titlaður verjandi hennar. Við athugun hefur komið í ljós að lögmaðurinn hefur ekki verið skipaður til þess starfa á vegum Héraðsdóms Reykjavíkur, sbr. VI. kafla oml. og ekki er að sjá að hann hafi fengið til þess formlega tilnefningu hjá tollyfirvöldum, sbr. 36. gr. laganna. Verður ekki betur séð en að lögmaðurinn hafi verið talsmaður sóknaraðila í málinu, sbr. 37. gr. þessara laga. Ber því að synja kröfu hans um að dómurinn kveði á um greiðslu málskostnaðar í þessu máli.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Vísað er frá dómi kröfu sóknaraðila um það að vörusending til hennar verði tollafgreidd og afhent þegar í stað.
Synjað er kröfu sóknaraðila um það að dómurinn kveði á um greiðslu málskostnaðar í þessu máli.