Hæstiréttur íslands
Mál nr. 637/2007
Lykilorð
- Skuldamál
- Einkahlutafélag
|
|
Fimmtudaginn 9. október 2008. |
|
Nr. 637/2007. |
Skálpi ehf. (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Halldóri Kristjánssyni (Magnús Guðlaugsson hrl.) og gagnsök |
Skuldamál. Einkahlutafélög.
Einkahlutafélagið S krafði H um greiðslu 8.000.000 króna og hélt því fram að H hefði tekið sér þá fjárhæð í heimildarleysi úr fyrirtækinu þar sem H starfaði sem framkvæmdastjóri. H hafði lagt inn fé á persónulegan reikning sinn og varið því meðal annars til greiðslu skulda A sem orðið var gjaldþrota. H taldi S hafa beina hagsmuni af greiðslu þessara skulda. Tekið var fram að S ætti ekki aðild að kröfu sem byggð væri á því að H hefði greitt skuldir A eftir gjaldþrot. Þá hafði H einnig sýnt nægilega fram á að fénu, sem S krafðist endurgreiðslu á, hefði öllu verið varið í þágu hagsmuna S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. desember 2007. Hann krefst greiðslu á 8.000.000 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.000.000 krónum frá 15. til 23. ágúst 2006, af 6.000.000 krónum frá þeim degi til 24. sama mánaðar en af 8.000.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 12. febrúar 2008. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Af hálfu aðaláfrýjanda kom fram við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti að hann sætti sig við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um greiðsluskyldu á 305.042 krónum ásamt dráttarvöxtum. Áfrýjunin tæki einungis til þeirrar niðurstöðu héraðsdóms að sýkna gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda í gagnsök í héraði og um málskostnað. Það athugist að láðst hefur að taka í dómsorð hins áfrýjaða dóms ákvæði um þessa sýknu svo sem bar að gera samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Niðurstaða um hana kemur hins vegar fram í forsendum dómsins og eru því ekki efni til að ómerkja hann af þessum sökum.
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi gegndi gagnáfrýjandi starfi framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda frá 1. mars 2006 en stofndagur félagsins var 13. febrúar 2006. Gagnáfrýjandi var einnig framkvæmdastjóri Afþreyingarfélagsins ehf. sem var annar tveggja stofnenda aðaláfrýjanda. Með kaupsamningi 17. febrúar 2006 keypti aðaláfrýjandi tæki og rekstur Afþreyingarfélagsins ehf. Umsamið kaupverð var 54.000.000 krónur og voru 49.000.000 krónur af því greiddar með skuldabréfi til fimm ára með einum gjalddaga á ári, 15. ágúst ár hvert, í fyrsta sinn 15. ágúst 2006. Meðal keyptra eigna voru fjölmargir vélsleðar sem seljandinn hafði á kaupleigu, en félög þessi önnuðust þjónustu við ferðamenn meðal annars í hálendisferðum innanlands. Í málinu er óumdeilt að Afþreyingarfélagið ehf. hafði verið úrskurðað gjaldþrota og skiptastjóri verið skipaður áður en kom að fyrsta gjalddaga fyrrnefnds skuldabréfs 15. ágúst 2006.
Óumdeilt er að gagnáfrýjandi lagði samtals 8.000.000 krónur úr sjóðum aðaláfrýjanda inn á persónulegan bankareikning sinn í þrennu lagi 15., 23. og 24. ágúst 2006. Greiðslur 15. og 23. ágúst, samtals 6.000.000 krónur, voru í bókum aðaláfrýjanda færðar til lækkunar á skuldinni við Afþreyingarfélagið ehf. samkvæmt skuldabréfinu sem fyrr var getið. Ein greiðsla, 2.000.000 krónur 24. ágúst 2006, var hins vegar færð á viðskiptareikning gagnáfrýjanda. Gagnáfrýjandi kveðst hafa ráðstafað öllu þessu fé í þágu aðaláfrýjanda. Hann hafi á vordögum 2006 verið búinn að ná samkomulagi við Tryggingamiðstöðina hf. um að skuldum Afþreyingarfélagsins ehf. vegna vátrygginga, sem í janúar 2006 hafi numið samtals 13.361.586 krónum, yrði lokið með greiðslu á 4.737.584 krónum. Þetta hafi hann greitt í tvennu lagi 23. ágúst og 19. september 2006 til að standa við samkomulagið. Aðaláfrýjandi hafi haft af þessu beina hagsmuni, þar sem ekki hafi verið unnt að skrá þau tæki sem hann hafði keypt af Afþreyingarfélaginu ehf., og vátryggð voru hjá Tryggingamiðstöðinni hf., á nafn aðaláfrýjanda nema gengið væri frá þessari skuld. Í málinu liggur fyrir staðfesting frá Tryggingamiðstöðinni hf. um þetta og vefengir aðaláfrýjandi ekki réttmæti hennar. Þá kveðst gagnáfrýjandi hafa 26. september 2006 greitt skuld aðaláfrýjanda við nafngreindan aðila með 2.211.987 krónum. Hann hefur lagt fram útskrift af greiðsluseðli úr banka sem sýnir þetta. Aðaláfrýjandi mótmælir því ekki að hafa skuldað þetta og að greiðslan hafi farið fram með þessum hætti. Loks hefur gagnáfrýjandi talið upp nokkrar skuldir Afþreyingarfélagsins ehf., sem hann hafi greitt með nefnum fjármunum, til þess að vernda hagsmuni aðaláfrýjanda. Meðal þeirra telur hann skuld vegna húsaleigu fyrir húsnæði sem aðaláfrýjandi hafi tekið yfir er hann keypti rekstur Afþreyingarfélagsins ehf., 519.719 krónur, og nokkrar aðrar tilgreindar skuldir sem einnig hafi varðað hagsmuni aðaláfrýjanda. Samtals kveðst gagnáfrýjandi þannig hafa greitt nokkru hærri fjárhæð en nemur því sem lagt hafi verið inn á bankareikning hans samkvæmt því sem fyrr var rakið.
Aðaláfrýjandi byggir kröfu sína á því að gagnáfrýjandi hafi í heimildarleysi tekið sér þá fjárhæð sem krafist er og beri honum að endurgreiða hana. Fallast má á það með aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi hafi ekki beitt réttum aðferðum er hann tók að greiða kröfuhöfum Afþreyingarfélagsins ehf. beint eftir að bú þess félags hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Aðaláfrýjandi á hins vegar ekki aðild að kröfu af því tilefni. Gagnáfrýjandi hefur sýnt nægilega fram á að fénu, sem aðaláfrýjandi krefst að hann endurgreiði, hafi öllu verið varið í þágu hagsmuna aðaláfrýjanda. Um var að ræða greiðslur á gjaldföllnum kröfum í beinum tengslum við daglegan rekstur aðaláfrýjanda og verður ekki fallist á að gagnáfrýjandi, sem gegndi starfi framkvæmdarstjóra aðaláfrýjanda, hafi þurft sérstakt samþykki félagsstjórnar til að mega inna þær af hendi, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, sem aðaláfrýjandi hefur vísað til.
Samkvæmt framansögðu eru ekki nein efni til að taka kröfu aðaláfrýjanda til greina og verður gagnáfrýjandi sýknaður af henni. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur um annað en málskostnað sem aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti og ákveðst í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Halldór Kristjánsson, er sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda, Skálpa ehf.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um greiðslu aðaláfrýjanda á skuld við gagnáfrýjanda og um dráttarvexti af henni skal vera óraskað.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2007.
Mál þetta, sem var dómtekið 27. september, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 26. febrúar 2007 af Halldóri Kristjánssyni, Bakkastöðu 3a, Reykjavík, gegn Skálpa ehf., Tunguhálsi 8, Reykjavík.
Með gagnstefnu, birtri 10. apríl 2007, höfðaði Skálpi ehf. gagnsök í málinu á hendur stefnanda.
Dómkröfur.
Aðalsök
Aðalstefnandi krefst þess að gagnstefnandi verði dæmdur til að greiða honum skuld að fjárhæð 305.042 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 156.172 kr. frá 7. september 2006 til 8. september 2006, en af 305.042 kr. frá 8. september 2006 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati réttarins.
Gagnstefnandi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum aðalstefnanda og að aðalstefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.
Gagnsök
Gagnstefnandi krefst þess aðallega að aðalstefnanda verði gert að greiða gagnstefnanda 8.000.000 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 138/2001 um vexti og verðtryggingu, af 3.000.000 kr. frá 15. ágúst 2006 til 23. ágúst 2006, en af 6.000.000 kr. frá þeim degi til 24. ágúst 2006 og af 8.000.000 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Aðalstefnandi krefst þess aðallega að gagnsökinni verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda í málinu. Í báðum tilvikum krefst aðalstefnandi þess að gagnstefnandi verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
Gagnstefnandi krefst þess að frávísunarkröfu aðalstefnanda á gagnsökinni verði hrundið og einnig krefst hann málskostnaðar.
Málavextir.
Í febrúar 2006 stofnuðu Afþreyingarfélagið ehf. og Fjallamenn ehf. gagnstefnanda, Skálpa ehf. Aðalstefnandi var ráðinn sem framkvæmdastjóri félagsins og hóf störf 1. mars 2006. Ráðningarsamningi hans var rift með bréfi, dags. 21. september 2006.
Í aðalsök er krafist greiðslu tveggja reikninga er aðalstefnandi telur að hann hafi greitt úr eigin vasa fyrir gagnstefnanda. Gagnstefnandi telur hins vegar að aðalstefnandi hafi misfarið með fé er hann starfaði sem framkvæmdastjóri og hann skuldi gagnstefnanda 8.000.000 kr.
Með bréfi 26. september 2006 óskaði gagnstefnandi eftir skýringum frá aðalstefnanda á því í hvaða tilgangi tilgreindar tólf greiðslur sem inntar voru af hendi á tímabilinu 20. mars 2006 til 24. ágúst 2006 fóru fram og hvaða heimildir aðalstefnandi hafði fyrir þeim.
Með bréfi 4. október 2006 bárust skýringar og upplýsingar frá aðalstefnanda varðandi bókhald gagnstefnanda og einstakar færslur sem framkvæmdar voru af aðalstefnanda sem framkvæmdastjóra félagins. Þar segir m.a. að hluti greiðslnanna hafi verið fyrirframgreidd laun sem dreginn hafi verið af aðalstefnanda við næstu útborgun. Þá hafi verið um að ræða hluta af fyrstu afborgun af skuldabréfi er Skálpi ehf. gaf út til Afþreyingarfélagsins ehf. vegna kaupa á tækjum við stofnun gagnstefnanda.
Með bréfi 17. október 2006 var aðalstefnanda greint frá því að áðurgreindar skýringar á millifærslum hans þættu haldlausar og ekki til þess fallnar að réttlæta umræddar færslur af bankareikningi félagsins. Í bréfinu var þess jafnframt farið á leit við aðalstefnanda að hann myndi greiða tilbaka þá fjármuni sem hann hafði dregið að sér sem framkvæmdastjóri gagnstefnanda. Aðalstefnandi hefur mótmælt því að hafa fengið þetta bréf og telur það síðari tíma tilbúning og kveðst hafa haldið að fullnægjandi skýringar hafi verið gefnar með bréfi 26. september 2006. Fyrst í gagnstefnu hafi honum verið ljóst hið gagnstæða.
Hinn 21. desember 2006 mun gagnstefnandi hafa kært aðalstefnanda til lögreglunnar í Reykjavík.
Aðalstefnandi höfðaði mál þetta með stefnu þingfestri 13. mars 2007. Gagnsök var birt 10. apríl 2007.
Málsástæður og lagarök aðalstefnanda.
Frávísunarkröfu sína á gagnsökinni byggir aðalstefnandi á því að kröfugerðin sé svo vanreifuð að stefnan fullnægi alls ekki þeim skilyrðum, sem fram eru sett um efni stefnu í d og e lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hvergi í gagnstefnunni sé að finna hvaða 8.000.000 kr. það eru, sem gagnstefnandi krefst endurgreiðslu á. Engin lýsing er á því hvaðan þessar ætluðu 8.000.000 kr. koma, hvert þær fóru, né heldur hvenær. Það sé því ekki með nokkru móti unnt að átti sig á málatilbúnaði gagnstefnanda og málatilbúnaður hans allur svo vanreifaður að varða myndi frávísun ex officio, þótt krafan væri ekki höfð uppi. Þá verði heldur ekki ráðið af þeim skjölum, er fylgja virðast gagnstefnunni, hvað gagnstefnandi er að fara, né hvers hann er að krefjast.
Kröfu sína í aðalsök byggir aðalstefnandi á því að meðan hann hafi verið framkvæmdastjóri gagnstefnanda hafi hann greitt úr eigin vasa tvo reikninga á gagnstefnanda. Annars vegar er það reikningur nr. R009695 frá 101 Hótel ehf. að fjárhæð 148.870 en aðalstefnandi greiddi hann 8. september 2006. Sá reikningur var vegna erlendra ferðamanna sem voru hér á landi á vegum gagnstefnanda. Hinn reikningurinn er nr. 254990 frá Brimborg ehf. að fjárhæð 156.283 er hann greiddi 7. september 2006. Sá reikningur er vegna viðgerðar á Ford Econoline í eigu gagnstefnanda.
Sýknukröfu sína á gagnsökinni byggir aðalstefnandi í fyrsta lagi á því að ef skiptastjóri í þrotabúi Ferðaloka ehf. (áður Afþreyingarfélagið ehf.) neiti því að fyrsta afborgun, eða hluti hennar, af skuldabréfi því er gagnstefnandi gaf út til félagsins að höfuðstól 49. millj. kr. sé greidd, sé um að kenna mistökum gagnstefnanda, sem aðalstefnandi beri ekki ábyrgð á.
Aðalstefnanda var, sem framkvæmdastjóra gagnstefnanda, bæði rétt og skylt að greiða þessa afborgun. Ekki var þörf á að bera það undir stjórn, enda hafði stjórn félagsins undirritað skuldabréfið. Ekki var hægt að árita skuldabréfið um greiðslu, þar sem frumrit þess var í vörslum Guðna Halldórssonar, stjórnarformanns gagnstefnanda og ekki mögulegt að ná í Guðna. Aðalstefnandi telur meginregluna vera þá þrátt fyrir tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798, að skuldabréf séu ekki árituð, heldur taki innheimtuaðili ábyrgð á því að bréfið fari ekki úr höndum hans óáritað. Í þessu tilviki var skuldabréfið í vörslum stjórnarformanns skuldara, þannig að áhættan var engin. Hafi stjórnarformaðurinn hins vegar gert þau mistök, að láta bréfið frá sér óáritað um afborgun, vitandi það að fyrsta afbogun var fallin og eftir að afborgun var greidd og eftir að aðalstefnandi hafði látið af störfum, eru það mistök gagnstefnanda, en ekki aðalstefnanda, og það tjón, sem af þeim mistökum leiðir, á ábyrgð gagnstefnanda.
Aðalstefnandi segir að hann hafi ekki náð að gefa út kvittun, þar sem hann hafi farið til vegavinnustarfa á vegum gagnstefnanda við Langjökul, þegar eftir að hann hafði innt af hendi þær greiðslur, er upp eru taldar í bréfinu frá 4. október 2006. Er hann kom til baka á skrifstofu sína, til að sinna þeirri pappírsvinnu sem hlaðist hafði upp, var honum mætt með uppsagnarbréfi og hent út. Aðalstefnandi var á þessum tíma framkvæmdastjóri Afþreyingarfélagsins ehf. og hann því réttur aðili til að veita afborguninni viðtöku f.h. þess félags. Það var einnig í hans valdi, og er enn, að gefa út kvittun fyrir þessari afborgun.
Í öðru lagi byggir aðalstefnandi sýknukröfu sína á því, að hann hafi alls ekki dregið sér þær greiðslur, sem taldar eru upp í bréfi gagnstefnanda frá 26. september 2006. Þvert á móti ráðstafaði aðalstefnandi peningunum, eins og rakið er í bréfi hans frá 4. október 2006, í þágu gagnstefnanda til að uppfylla þá samninga, sem hann hafði gert, sem framkvæmdastjóri Afþreyingarfélagsins ehf. til þess að rekstur gagnstefnanda gæti gengið snurðulaust.
Aðalstefnandi tekur fram að fyrstu þrír liðirnir í bréfinu frá 26. september 2006 var greiðsla á hluta af fyrstu afborgun skuldabréfs að höfuðastól 49 millj. kr., með þeirri undantekningu að 2.211.987 kr. voru afborgun af skuldabréfi vegna Skálpaness, en það skuldabréf hafði gagnstefnandi þegar yfirtekið. Aðalstefnandi telur það algerlega útilokað að það teljist fjárdráttur að framkvæmdastjóri greiði skuldir fyrirtækisins úr sjóði fyrirtækisins.
Aðalstefnandi tekur fram að þær 5.788.013 kr. sem aðalstefnandi greiddi upp í þessa fyrstu afborgun notaði hann til að greiða Tryggingamiðstöðinni hf. 4.737.584 kr. vegna Afþreyingarfélagsins ehf. þannig að leyfi fengist til að umskrá þau tæki yfir á gagnstefnanda, er gagnstefnandi hafið keypt af Afþreyingarfélaginu ehf. Skuld þessari, sem var að fjárhæð 13.376.562 kr., fékk aðalstefnandi að ljúka skv. samkomulagi við Tryggingamiðstöðina hf. með 4.737.584 kr.
Þá greiddi aðalstefnandi húsaleiguskuld Afþreyingarfélagsins ehf. vegna Tunguháls 8, Reykjavík, 519.719 kr., en sú greiðsla var forsenda þess að gagnstefnandi fengi húsaleigusamning um Tunguháls 8, Reykjavík.
Loks greiddi aðalstefnandi ýmsar smærri skuldir við verktaka Afþreyingarfélagsins efh., sem féllust á að vinna áfram fyrir gagnstefnanda.
Aðalstefnandi telur ljóst að hann hafi alltaf borið hagsmuni gagnstefnanda fyrir brjósti í störfum sínum. Vissulega hefði verið heppilegra að leggja þessar greiðslur ekki inn á eigin reikning, en staða Afþreyingarfélagins ehf. á þessum tíma var orðin sú, að Íslandsbanki hf. (nú Glitnir hf.), Háaleitisútibú, tók hverja einustu krónu, er inn á reikninga félagsins kom, upp í yfirdráttarskuld þess.
Málsástæður og lagarök gagnstefnanda.
Í aðalsök byggir gagnstefnandi í fyrsta lagi á því að honum beri ekki skylda að lögum til að greiða umkrafða fjárhæð þar sem aðalstefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings að hann hafi sjálfur greitt þessa reikninga. Hvorki liggja fyrir greiðslukvittanir né hafa verið lögð fram yfirlit yfir bankareikninga í eigu aðalstefnanda sem bera það með sér að hann hafi greitt reikningana. Þannig geti aðalstefnandi ekki sótt greiðslu úr hendi gagnstefnanda nema hann hafi sjálfur með óvíræðum hætti greitt framlagða reikninga. Þeir reikningar sem lagðir hafa verið fram í málinu, annars vegar frá 101 hóteli og hins vegar frá Brimborg, bera ekki með sér að aðalstefnandi hafi greitt þá, hvað sem því líður að viðgerð hafi farið fram eða að gist hafi verið á 101 hóteli. Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna gagnstefnanda.
Verði litið svo á að aðalstefnandi hafi greitt framlagða reikninga er á því byggt að hann geti ekki krafið félagið um greiðslu vegna þeirra þar sem hann hafði dregið sér mikla fjármuni af reikningum gagnstefnanda, sbr. gagnsök málsins.
Í gagnsök byggir gagnstefnandi málatilbúnað sinn í fyrsta lagi á því, að aðalstefnandi skuldi félaginu 8.000.000 kr., en þá fjárhæð hafi hann dregið sér í heimildarleysi. Með þessari háttsemi hafi aðalstefnandi farið langt út fyrir stöðuumboð sitt og hagnast sjálfur á kostnað gagnstefnanda. Gagnstefnandi telur augljóst að þessir gerningar voru ekki gerðir með vitneskju og vilja félagsstjórnarinnar. Með þessu athæfi sínu hafi aðalstefnandi því brotið gróflega gegn þeim lögum og reglum sem honum bar að fylgja sem framkvæmdastjóri gagnstefnanda.
Þessu til stuðnings vísar gagnstefnandi til þess að umdeildar færslur aðalstefnanda komi glögglega fram á yfirliti yfir hreyfingalista vegna viðskiptamanna og lánardrottna. Þar kemur fram að aðalstefnandi greiddi að minnsta kosti 8.000.000 kr. af reikningi gagnstefnanda á tímabilinu 15.-24. ágúst 2006. Með bréfi lögmanns gagnstefnda, dags. 4. október 2006, voru gefnar þær skýringar á þessum ráðstöfunum að um væri „að ræða hluta af fyrstu afborgunum af skuldabréfi því, er Skálpi ehf. gaf út til Afþreyingarfélagsins ehf. vegna kaupa á tækjum“. Í ljós hefur hins vegar komið að ekkert hefur verið greitt af nefndu skuldabréfi, sem gagnstefnandi gaf út sem greiðslu er félagið keypti rekstur, viðskiptavild, nafn og vörumerki, innréttingar, tæki og lagerbirgðir Afþreyingarfélagsins ehf., sbr. kaupsamning dags. 17. febrúar 2006. Afþreyingarfélagið ehf. (nú Ferðalok ehf.) hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Til stuðnings framangreindri umfjöllun um misfærslur gagnstefnda vísar gagnstefnandi til þess að skiptastjóri þrotabúsins hefur alfarið hafnað því að greitt hafi verið af höfuðstól bréfsins þar sem hvorki hafa verið gefnar út kvittanir vegna þessa né verið ritað aftan á bréfið um afborgun.
Gagnstefnandi telur óljóst með hvaða hætti aðalstefnandi ráðstafaði umræddri fjárhæð og eru útskýringar hans að þessu leyti jafnframt haldlausar og rangar. Vegna þessa ber aðalstefnanda að greiða gagnstefnanda umkrafða skuld.
Gagnstefnandi byggir í öðru lagi á því að gerningar gagnstefnda brjóti í bága við ákvæði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og að hann sé skaðabótaskyldur gagnvart félaginu. Í þeim efnum vísar gagnstefnandi einkum til 2. mgr. 44. gr. laganna, en þar er kveðið á um valdsvið framkvæmdastjóra félags og til hvaða ráðstafana hinn daglegi rekstur taki. Ljóst er að þessir heimildalausu gerningar gagnstefnda brutu í bága við tilgreint ákvæði, enda var hann í störfum sínum sem framkvæmdastjóri kominn langt út fyrir þau mörk sem hinn daglegi rekstur félagsins tekur til. Þá braut háttsemi gagnstefnda jafnframt í bága við samþykktir félagsins, sbr. einkum 18. gr., en þar er kveðið á um starfssvið framkvæmdastjóra félagsins. Með vísan til framangreindra ákvæða er ljóst að aðalstefnandi hefur valdið gagnstefnanda tjóni í störfum sínum fyrir félagið og ber honum að bæta það tjón, sbr. 108. gr. laga nr. 138/1994. Misfærslur með fjármuni gagnstefnanda voru gerðar af ásetningi enda hefur komið í ljós að útskýringar gagnstefnda, um að fjármunirnir væru notaðir til að greiða fyrstu afborganir að áðurnefndu skuldabréfi, séu beinlínis rangar. Að örðum kosti er ljóst að misfærslur þessar má telja til gáleysislegs verknaðar af hálfu gagnstefnda og því ljóst að saknæmisskilyrði 108. gr. laga nr. 138/1994 eru uppfyllt.
Gagnstefnandi mótmælir því harðlega að allar umdeildar ráðstafanir aðalstefnanda með fjármuni gagnstefnanda hafi verið með fullri vitneskju og vilja forsvarsmanna félagsins. Aðalstefnandi hefur ekki gefið stjórn félagsins neinar haldbærar skýringar á þessum misfærslum sínum eða stutt málstað sinn með einhverjum þeim hætti sem geti gefið stjórn félagsins tækifæri til að meta stöðu hans á annan veg. Hvað sem öðru líður er ljóst að þessar misfærslur gagnstefnda voru ekki rekstrarforsendur gagnstefnanda enda hefur ekki verið greitt neitt af áðurnefndu skuldabréfi.
Til stuðnings framangreindri málsástæðu um skaðabótaskyldu aðalstefnanda er jafnframt byggt á því að ef sú væri raunin að umdeildir fjármunir hefðu verið notaðir til að greiða afborganir af skuldabréfinu, líkt og gagnstefndi hefur haldið fram, er ljóst að slík háttsemi væri með öllu óheimil enda til þess fallin að hygla ákveðnum kröfuhöfum og ganga á rétt annarra hluthafa gagnstefnanda. Framkvæmdastjóri félags má ekki gera nokkrar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins, sbr. 51. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þegar af þessari ástæðu er gagnstefndi einnig skaðabótaskyldur gagnvart gagnstefnanda jafnvel þótt hann hefði notað umdeilda fjármuni til þess að greiða af skuldabréfinu, sbr. 108. gr. laganna. Þessu til stuðnings vísar gagnstefnandi til þess að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. kaupsamnings milli gagnstefnanda og Afþreyingarfélagsins ehf. áttu kröfur sem viðskiptamenn síðarnefnda félagsins kynnu að eiga á hendur því að vera gagnstefnanda óviðkomandi. Sú skýring aðalstefnanda að hann hafi þurft að ganga frá skuldum Afþreyingarfélagsins ehf. við ákveðna kröfuhafa og undirverktaka, er því með öllu ótæk. Þar sem Afþreyingarfélagið ehf. hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta á þeim tíma er umræddar færslur með fjármuni gagnstefnanda áttu sér stað var jafnframt verið að mismuna kröfuhöfum og hluthöfum með ólögmætum hætti, enda átti Afþreyingarfélagið ehf. 50% hlutafjár í gagnstefnanda og var gagnstefndi einnig í fyrirsvari fyrir það félag.
Gagnstefnandi byggir í þriðja lagi á því að aðalstefnanda beri að greiða félaginu til baka umkrafða fjárhæð vegna ólögmætrar auðgunar hans, sem rekja má til fjárdráttar af bankareikningi gagnstefnanda. Fyrir liggur að miklir fjármunir voru lagðir inn á persónulegan reikning í eigu gagnstefnda án þess að þeim væri síðan varið í rekstrarlegum tilgangi gagnstefnanda. Af framangreindum sökum verður aðalstefnandi að greiða gagnstefnanda þá fjárhæð sem hinni ólögmætu auðgun nemur og kröfufjárhæð málsins tekur mið af. Vísar gagnstefnandi, til stuðnings kröfu sinni, til ólögfestra reglna kröfuréttar um auðgunarkröfur. Í réttarframkvæmd hefur verið talið að réttmætt geti verið að beita auðgunarreglu við ýmsar aðstæður, þótt ekki sé til þess bein heimild í settum rétti, og að í þeim tilvikum verði að meta kröfu eftir eðli máls með hliðsjón af atvikum öllum.
Gagnstefnandi tekur fram að gagnkrafan sé aðeins hluti af því tjóni sem aðalstefnandi hefur valdið gagnstefnanda.
Forsendur og niðurstöður.
Í gagnsök gerir gagnstefnandi kröfu um greiðslu 8.000.000 kr. ásamt dráttarvöxtum. Aðalstefnandi gerir kröfu um frávísun gagnsakarinnar og byggir hana á d. og e. lið 80. gr., svo og 116. gr. laga um meðferð einkamála. Að mati dómsins fullnægir gagnstefnan skilyrðum nefndrar lagagreinar. Ekki fer á milli mála hvert sakarefnið er í málinu. Þá virðist það heldur ekki vefjast fyrir aðalstefnanda og er þá litið til varna hans í málinu. Þá skiptir það ekki máli varðandi mál þetta þótt gagnstefnandi hafi í öðru máli, milli sömu málsaðila, haldið uppi sömu sjónarmiðum og hér, enda hefur ekki verið dæmt í því máli. Því er frávísunarkröfu aðalstefnanda á gagnsök hafnað.
Ágreiningur málsins í aðalsök lýtur að tveimur reikningum, samtals að fjárhæð 305.042 kr., er aðalstefnandi greiddi af eigin fé fyrir hönd gagnstefnanda. Í skýrslu fyrirsvarsmanns gagnstefnanda fyrir dómi viðurkenndi hann kröfu aðalstefnanda, en taldi gagnstefnanda eiga kröfu á móti samanber gagnsök málsins.
Eins og að framan greinir er í gagnsök gerð krafa um greiðslu á 8.000.000 kr. en fyrir liggur í málinu að fjárhæð þessa færði aðalstefnandi af bankareikningi gagnstefnanda inn á bankareikning sinn, þ.e. 3.000.000 kr. hinn 15. ágúst 2006, 3.000.000 kr. hinn 23. ágúst 2006 og 2.000.000 kr. hinn 24. ágúst 2006. Aðalstefnandi heldur því m.a. fram, að með hluta þessarar greiðslu hafi hann staðið skil á hluta fyrstu afborgunar af skuldabréfi því sem gagnstefnandi gaf út til Afþreyingarfélagins ehf. vegna kaupa á tækjum. Skuldabréf þetta er að fjárhæð 49.000.000 kr. og var fyrsti gjalddagi 15. ágúst 2006. Afþreyingarfélagið ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 21. júlí 2006. Engin kvittun liggur fyrir í málinu um að afborgunin hafi verið innt af hendi og skv. framburði skiptastjórans hefur ekkert verið greitt af bréfinu.
Samkvæmt málatilbúnaði gagnstefnanda byggir hann kröfu sína aðallega á því að aðalstefnandi skuldi honum þessa fjárhæð. Þá byggir hann einnig á því að aðalstefnandi sé skaðabótaskyldur gagnvart honum, með því að hann hafi farið út fyrir heimildir sínar sem framkvæmdastjóri. Um skaðabótaskylduna er vísað til laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.
Það liggur óumdeilt fyrir í málinu að aðalstefnandi færði samtals 8.000.000 kr. inn á persónulegan bankareikning sinn. Hann hefur haldið því fram að andvirðið hafi farið til greiðslu ýmissa reikninga til hagsbóta fyrir gagnstefnanda. Gagnstefnandi hefur lagt fram hreyfingalista úr bókhaldi sínu. Annars vegar er það viðskiptayfirlit vegna aðalstefnanda og hins vegar yfirlit fyrir lánadrottna þ.e. Afþreyingarfélagið. Hreyfingalistar þessir eru staðfestir annars vegar af Þorsteini Kristinssyni lögg. end. og hins vegar af Helgu Þorsteinsdóttur hjá Endurskoðun og reikningshaldi og bera með sér að áritun þeirra og að upplýsingarnar séu úr bókhaldi gagnstefnanda. Hreyfingalistarnir eru fyrir tímabilið 1. mars 2006 til 6. og 7. nóvember 2006. Hreyfingalistinn vegna Afþreyingarfélagsins ber með sér að aðalstefnandi hafi 15. og 23. ágúst greitt 6.000.000 kr. til lækkunar á höfuðstól skuldar gagnstefnanda við Afþreyingarfélagið sem var 49.000.000 kr. hinn 1. mars 2006 og samsvarar skuldabréfi því er aðalstefnandi segir að hann hafi greitt af. Þá ber viðskiptayfirlit aðalstefnanda það með sér að hann hafi hinn 24. ágúst 2006 tekið út 2.000.000 kr. og greitt hinn 26. september 2006 afborgun af skuldabréfi, það er vegna Skálpaness, sem tilheyrði gagnstefnanda og var það fært sem lækkun á viðskiptayfirliti hans. Eins og að framan greinir lagði gagnstefnandi fram hreyfingalista þessa úr bókhaldi sínu og var það gert í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. apríl sl. Það er mat dómsins að þegar litið er til þessara upplýsinga úr bókhaldi gagnstefnanda, sem staðfestar eru af löggildum endurskoðanda, þá sé ekki óyggjandi að gagnstefnandi eigi rétt til þeirrar greiðslu sem hann krefur aðalstefnanda um í málinu. Því hefur gagnstefnanda ekki tekist að sýna fram á réttmæti kröfu sinnar og af því verður hann að bera hallann. Verður því ekki hjá því komist að sýkna aðalstefnanda af kröfu gagnstefnanda.
Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða málsins að frávísunarkröfu aðalstefnanda á gagnsökinni er hafnað. Gagnstefnandi greiði aðalstefnanda 304.042 kr. með dráttarvöxtum eins og kveðið er á um í dómsorði.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður í máli þessu.
Af hálfu aðalstefnanda flutti málið Magnús Guðlaugsson hrl.
Af hálfu gagnstefnanda flutti málið Jóhann Hafstein hdl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Frávísunarkröfu aðalstefnanda á gagnsökinni er hafnað.
Gagnstefnandi, Skálpi ehf., greiði aðalstefnanda, Halldóri Kristjánssyni, 305.042 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 156.172 kr. frá 7. september 2006 til 8. september 2006 og af 305.042 kr. frá 8. september 2006 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.