Hæstiréttur íslands
Mál nr. 546/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
|
|
Þriðjudaginn 19. ágúst 2014. |
|
Nr. 546/2014.
|
Sýslumaðurinn á Akureyri (Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X (Sigmundur Guðmundsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. ágúst 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. ágúst 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. ágúst 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og varnaraðila ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili er undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við samkvæmt 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en það er frumskilyrði þess að sakborningur verði úrskurðaður í gæsluvarðhald, sbr. upphafsákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Rannsókn málsins er á frumstigi og má ætla að varnaraðili muni torvelda hana, sbr. a. lið sömu málsgreinar, haldi hann óskertu frelsi sínu. Þá verður af sömu ástæðu og með vísan til 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 fallist á með sóknaraðila að uppfyllt séu skilyrði til að varnaraðili sæti einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. laganna meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. ágúst 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. ágúst 2014.
Mál þetta barst dóminum fyrr í dag, með bréfi sýslumannsins á Akureyri og var það þegar tekið til úrskurðar eftir fyrirtöku.
Krafa sýslumannsins á Akureyri er sú að X, kt. [...], [...], [...] verði úrskurðaður í gæsluvarðhald í átta daga eða til föstudagsins 22. ágúst nk. Jafnframt er gerð krafa um að sakborningur sæti því að sitja í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur.
Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er. Loks andmælir kærði kröfu um einangrun.
Í greinargerð sýslumanns segir að lögreglan á Akureyri rannsaki nú ætlað brot kærða, X, gegn ákvæði 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og eftir atvikum gegn ákvæði 1. mgr. 226. gr. sömu laga.
Kveður sýslumaður málsatvik þau að að lögreglunni á Akureyri hafi borist tilkynning miðvikudaginn 13. ágúst sl., klukkan 21:19, um að mæður tveggja drengja hefðu óskað eftir aðstoð lögreglu vegna afskipta nágranna þeirra af sonum þeirra, sem báðir eru fæddir árið [...]. Segir frá því að drengirnir hafi verið að leik á bílastæði við heimili sitt er karlmaður hefði gefið sig á tal við þá. Þessi afskipti hefði síðan leitt til þess að drengirnir hefðu fylgt karlmanninum eftir inn í íbúð hans.
Fram kemur að í samræðum við lögreglumenn á vettvangi hafi nefndir drengir stuttlega greint frá því að umræddur karlmaður hefði hefði rassskellt þá báða, en síðan brotið gegn þeim kynferðislega með nánar lýstum hætti.
Greint frá því að drengirnir hafi lýst karlmanninum og einnig nafngreint hann. Af þeim sökum hafi strax fallið grunsemdir á kærða. Hafi hann verið handtekinn af rannsóknarlögreglumönnum á heimili sínu, klukkan 22:30, færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa.
Í greinargerð sýslumanns segir að rannsókn máls þessa sé á frumstigi, en eftir sé að yfirheyra aðstandendur nefndra drengja og önnur vitni. Þá verði óskað eftir, vegna ungs aldurs drengjanna, að þeir verði yfirheyrðir fyrir dómi. Til þess er vísað að drengirnir hafi farið í læknisrannsókn, en að til standi að færa þurfi a. m.k. annan þeirra til frekari læknisskoðunar og þá eftir atvikum í Barnahúsi í Reykjavík.
Fram kemur að það sé mat lögreglu og ákæruvalds að mikil hætta sé á að kærði muni spilla rannsókn gangi hann laus á meðan frumrannsókn stendur yfir, m.a. með því að hafa samband við drengina og foreldra og eftir atvikum önnur vitni. Þá er á það bent, m.a. fyrir dómi, að þrátt fyrir að fram hafi farið vettvangsrannsókn á heimili kærða, sé henni ekki lokið. Þá hafi enn ekki unnist tími til að rannsaka önnur húskynni eða í bifreiða, sem tilheyri kærða.
Sýslumaður kveðst byggja kröfu sína á a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála svo og b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Þá segir hann að ætluð brot kærða geti varðað við fyrrnefnd ákvæði hegningarlaganna, 1. mgr. 202. gr. og eftir atvikum 1. mgr. 226. gr.
Niðurstaða.
Fyrir dómi hafa varið lagðar fram lögregluskýrslur og önnur gögn, en þar á meðal er framburðarskýrsla kærða sem hann gaf fyrr í dag. Gögn þessa eru í aðalatriðum í samræmi við framangreinda málavaxtalýsingu sýslumanns. Kærði kannast m.a. við að ungir dregnir hafi komið inn á heimili hans í gærkveldi, en hann neitar kæruefninu.
Að ofangreindu virtu er fallist á það að rannsókn málsins sé á algjöru frumstigi. Í ljósi þessa og að öðru leyti með vísan til ofangreinds rökstuðnings sýslumanns þykir efni til að fallast á kröfu hans og úrskurða kærða í gæsluvarðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. ákvæði a-liðar 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála.
Verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. ágúst nk. klukkan 16:00. Þá verður, vegna mikilvægis þess að kærði hafi ekki aðstöðu til að hafa áhrif á hugsanleg vitni í málinu, fallist á kröfu um að kærði sæti á gæsluvarðhaldstímanum einangrun skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008, um meðferð sakamála. Kröfum kærða í máli þessu er því hafnað.
Eyþór Þorbergsson fulltrúi lögreglustjóra gerði kröfu þessa.
Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. ágúst nk. klukkan 16:00.
Heimilt er að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu.