Hæstiréttur íslands

Mál nr. 464/2016

Molden Enterprises Ltd. (Einar Hugi Bjarnason hrl.)
gegn
Sjóklæðagerðinni ehf. (Skarphéðinn Pétursson hrl.)

Lykilorð

  • Varnarþing
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Með kaupsamningi 2011 keypti SF slhf. einkahlutafélagið S af E Inc., nú M ltd. S ehf. höfðaði mál gegn M ltd. á grundvelli loforðs M ltd. í fyrrnefndum kaupsamningi um að það myndi bæta S ehf. þann kostnað sem yrði vegna starfsloka fyrrum forstjóra S ehf. M ltd. var með heimilisfesti á Möltu en í kaupsamningum var ákvæði um að kæmi upp ágreiningur milli aðila í tengslum við kaupsamninginn bæri þeim skylda til að reka mál vegna slíks ágreinings fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Var tekið fram S ehf. hefði ekki verið aðili að kaupsamningum þótt samningurinn hefði varðað hagsmuni þess og hefði M ltd. því ekki fyrir sitt leyti gengist undir að mál á hendur sér um þá hagsmuni S ehf. yrði rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Var málinu því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2016. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnda en að því frágengnu að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins var undirritaður kaupsamningur milli SF II slhf. sem kaupanda og Egus Inc. sem seljanda 3. júní 2011. Annar samningur var gerður 9. ágúst sama ár, sem í aðalatriðum er samhljóða fyrri samningi. Í 1. gr. beggja samninganna kom fram að kaupandi lofaði að kaupa og seljandi að selja 51% af útistandandi hlutafé í hlutafélaginu Sjóklæðagerðinni. Ákvæði um kaupverð sem kom fram í 4. gr. er einnig samhljóða í báðum samningum. Þá sagði í 3. mgr. 4. gr. beggja samninganna að seljandi ábyrgðist gagnvart kaupanda að kaupréttur fyrrum forstjóra stefnda væri fallinn úr gildi og að forstjórinn ætti ekki kröfu á hendur félaginu. Kæmi til kostnaðar vegna starfsloka fyrrum forstjóra, umfram það sem leiddi af uppgjöri ráðningarsamnings við hann, bætti seljandi stefnda þann kostnað að fullu. Kæmi til málaferla af hálfu fyrrum forstjóra skyldi seljandi eiga rétt til þess að halda uppi vörnum fyrir félagsins hönd í slíku máli. Á árinu 2013 mun Egus Inc. hafa breytt nafni sínu í Ekra Service Inc. en síðar var nafninu breytt í það nafn sem áfrýjandi ber, með heimilisfesti á Möltu.

Mál þetta höfðaði stefndi á hendur áfrýjanda 15. apríl 2015 og var það þingfest á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí sama ár. Í stefnu kom meðal annars fram að það væri höfðað á grundvelli loforðs áfrýjanda samkvæmt 3. mgr. 4. gr. fyrrgreinds kaupsamnings milli SF II slhf. og áfrýjanda um að bæta stefnda þann kostnað að fullu sem hann yrði fyrir vegna starfsloka fyrrum forstjóra stefnda. Í stefnu var vísað til dóms Hæstaréttar 25. september 2014 í máli nr. 84/2014 þar sem fallist var á með fyrrum forstjóra stefnda að kaupréttur hans hefði ekki verið niður fallinn þegar hann var nýttur í febrúar 2011 og stefndi dæmdur til að greiða honum 109.577.514 krónur auk dráttarvaxta. Nemur stefnukrafa málsins þeirri fjárhæð ásamt dæmdum málskostnaði, dráttarvöxtum og tryggingargjaldi. Í 12. gr. samningsins 3. júní 2011, sem er samhljóða 11. gr. samningsins 9. ágúst sama ár, kom fram að kaupsamningurinn og túlkun hans lyti íslenskum lögum og réttarframkvæmd. Kæmi upp ágreiningur milli aðila í tengslum við kaupsamninginn bæri þeim skylda til þess að setja slíkan ágreining niður. Lánaðist þeim það ekki skyldi reka mál vegna slíks ágreinings fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

II

Fyrir héraðsdómi krafðist áfrýjandi þess aðallega að kröfum stefnda yrði vísað frá héraðsdómi og byggði þá kröfu sína á því að málið væri ekki höfðað á réttu varnarþingi, þar sem áfrýjandi væri erlendur aðili með lögheimili á Möltu. Stefndi hefði um heimild sína til að höfða mál á hendur áfrýjanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vísað til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en samkvæmt ákvæðinu er aðilum rétt að semja um meðferð máls í hverri þinghá sem er. Byggði áfrýjandi á því að hann hafi aldrei samið við stefnda um að sá síðarnefndi gæti höfðað mál á hendur sér fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísaði áfrýjandi til fyrrgreinds kaupsamnings en fyrir liggi að stefndi hafi ekki verið aðili að þeim samningi og geti því ekki byggt rétt á honum. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember 2015 var frávísunarkröfu áfrýjanda hafnað.

Eins og fram hefur komið reisti stefndi heimild sína til að reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á áðurgreindu ákvæði um varnarþing í samningi áfrýjanda og SF II slhf. og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Með 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, sem heimilar aðilum einkamáls að semja um meðferð þess í hverri þinghá sem er hér á landi, er vikið frá þeirri almennu reglu að mál verði rekið á heimilisvarnarþingi áfrýjanda, stefnda í héraði, sbr. 32. gr. og 33. gr. sömu laga. Skuldbinding aðila í samningi um að sæta málsókn á hendur sér utan heimilisvarnarþings síns horfir honum almennt til íþyngingar, auk þess sem af því getur leitt að um lögskiptin verði beitt réttarreglum annars ríkis en hann er búsettur í. Gegn andmælum þess sem stefnt er á slíkum grunni í einkamáli verður því að vera ótvíræð stoð fyrir að hann hafi gengist undir að málið verði rekið á hendur sér utan þess varnarþings, sem ella hefði átt við eftir almennum reglum, sbr. dóm Hæstaréttar 18. apríl 2002 í máli nr. 171/2002.

Stefndi var ekki aðili að ofangreindum kaupsamningi, þótt samningurinn hafi varðað hagsmuni hans og áfrýjandi hefur ekki fyrir sitt leyti gengist undir að mál á hendur sér um þá hagsmuni stefnda verði rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Verður áfrýjanda því ekki gert að sæta því að stefndi reki fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál á hendur honum um hagsmuni sína í skjóli varnarþingsákvæðis umrædds kaupsamnings. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá héraðsdómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Sjóklæðagerðin ehf., greiði áfrýjanda, Molden Enterprises Ltd., 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                        

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2016.

Mál þetta var höfðað 15. apríl 2015 af Sjóklæðagerðinni hf., Miðhrauni 11, 210 Garðabæ á hendur Molden Enterprises Limited, 4, V. Dimech Street, FRN 1504, Floriana, Möltu. Málið var dómtekið eftir aðalmeðferð 25. febrúar 2016.

Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 185.616.671 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 183.017.732 krónum frá 1. janúar 2015 til 17. mars 2014 en af  185.616.671 krónu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar.

 

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu. 

Stefndi krafðist í fyrstu frávísunar á málinu á grundvelli þess að hann ætti ekki varnarþing hér. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði dómsins 10. nóvember 2015.

I.

Mál þetta verður rakið til samnings sem félagið SF II slhf. og stefndi, sem þá hét Egus Inc., gerðu í júní 2011 en þar keypti fyrrnefnda félagið 51% hlutafjár í Sjóklæðagerðinni hf.

Í samningnum var ákvæði um að seljandi ábyrgðist gagnvart kaupanda að kaupréttur sem fyrrum forstjóri Sjóklæðagerðarinnar hf. átti væri fallinn úr gildi og hann ætti því ekki kröfur á hendur félaginu. Jafnframt að kæmi til málaferla vegna þess fengi stefndi að taka til varna fyrir hönd félagsins og þá kvaðst hann mundu bæta kaupanda að fullu allan þann kostnað sem væri umfram það sem leiddi af uppgjöri ráðningarsamnings við forstjórann ef slíkur kostnaður kæmi til.

Forstjórinn fyrrverandi höfðaði mál á hendur félaginu þann 19. mars 2012 þar sem  krafist var greiðslu fjárhæðar er næmi mismun kaup- og söluverðs hluta í stefnanda á grundvelli kaup- og söluréttar samkvæmt ráðningarsamningi. Að kröfu stefnda annaðist hann og lögmenn hans rekstur umrædds dómsmáls, í nafni stefnanda í samræmi við umrætt ákvæði samningsins. Málinu lauk með dómi Hæstaréttar Íslands 25. september 2014 í málinu nr. 84/2014, sem staðfesti héraðsdóm um að stefnandi skyldi greiða forstjóranum 109.577.514 krónur auk dráttarvaxta frá 20. apríl 2011 til greiðsludags.

Stefnandi krafði stefnda ítrekað, fyrri hluta október 2014, um greiðslu samkvæmt dómnum en stefndi hafnaði greiðsluskyldu með bréfi 9. október 2014. Því krafðist stefnandi með bréfi 1. desember 2014 greiðslu á 183.017.732 krónum auk dráttarvaxta til greiðsludags. Krafan samanstóð af höfuðstól, dæmdum málskostnaði í héraði og fyrir Hæstarétti, áföllnum dráttarvöxtum og tryggingargjaldi.

II.

Stefnandi kveðst byggja kröfu kröfu sína á meginreglu samningaréttar um að samninga skuli halda, en til grundvallar kröfu hans liggi skýlaust loforð stefnda gagnvart stefnanda og margítrekuð viðurkenning stefnda á greiðsluskyldu sinni.

Stefnandi telur sig réttan aðila málsins enda liggi fyrir loforð um að bæta félaginu kostnað vegna starfsloka fyrrum forstjóra þess. Ákvæðið tengist hagsmunum stefnanda beint og nafngreini jafnframt félagið. Stefnandi byggir á því að kaupsamningurinn veiti honum beinan og sjálfstæðan rétt til að krefjast greiðslu úr hendi stefnda vegna þess kostnaðar sem stefnandi hefur orðið fyrir vegna starfsloka fyrrum forstjóra.

Stefnandi bendir á að fram komi í málsatvikalýsingu úr máli forstjórans gegn félaginu að ágreiningur hafi verið uppi um gildi kaup- og söluréttar hans og fyrirsjáanlegt hefði verið að endaði í málaferlum. Því hafi umrætt skaðleysisákvæði verið til staðfestingar á forsendum samningsaðila, einkum þeirri að stefnanda yrði haldið skaðlausum af slíkum málaferlum, enda rýri að sögn stefnanda kostnaður vegna þessa réttar forstjórans virði hlutabréfanna um tæp 7.5%. Stefnandi áréttar í þessu sambandi að fyrrum forstjóri stefnanda hafi sent formlega tilkynningu um nýtingu kaup- og söluréttar þann 28. febrúar 2011 en því hafi verið hafnað af hálfu stefnanda 10. maí 2011 og talið að slíkur réttur væri niður fallinn. Því megi ljóst vera að við undirritun á kaupsamningi aðila í júní 2011 hafi aðilar vitað um þessa stöðu.

Stefnandi byggir á því að auk mjög skýrs orðalags í sjálfu skaðleysisákvæðinu hafi einnig í tölvuskeytum lögmanns stefnda ítrekað verið staðfest að stefndi skyldi halda stefnanda skaðlausum af kaupréttinum og að allt sem við kæmi kaupréttinum og ágreiningi við fyrrum forstjóra stefnanda væri á ábyrgð og á áhættu stefnda.

Stefnandi bendir á að lögmaður stefnda hefur ávallt komið fram fyrir hönd stefnda gagnvart stjórn og hluthöfum stefnanda, sbr. framlögð gögn, og byggt sé á því að yfirlýsingar hans hafi verið fyllilega skuldbindandi gagnvart stefnanda.

Með tölvuskeyti 19. ágúst 2011 framsendi lögmaður stefnda stjórnarmönnum stefnanda bréf sem hann hafði fengið afhent frá lögmanni fyrrum forstjóra stefnanda vegna kaupréttarins. Í skeytinu vísaði lögmaður stefnda til þess að kauprétturinn væri fallinn úr gildi og vísaði og til þess að stefndi, áður Egus Inc., hefði ábyrgst skaðleysi félagsins og óskaði efir því að stefndi fengi að annast málsvörn fyrir félagið í samræmi við skaðleysisákvæðið. Það hafi síðan verið staðfest með sama tölvuskeyti frá sama 15. mars 2012, fjórum dögum áður en fyrrum forstjóri stefnanda höfðaði mál á hendur stefnanda. Þar komi fram að stefndi sé Sjóklæðagerðin hf. og í framhaldi sagt að kostnaður falli hins vegar á stefnda, sem eigi rétt til að taka til varna í málinu fyrir félagsins hönd.

Sams konar staðfestingar hafi borist stefnanda frá lögmanni stefnda í tölvupósti 25. maí 2013 og síðan í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms, þar sem þess hafi verið krafist að stefndi legði inn á vörslureikning fjárhæð sem samsvaraði kröfu fyrrum forstjóra, dráttarvöxtum og málskostnaði til tryggingar ef til þess kæmi að Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms. Lögmaður stefnda hafi hafnað þeirri kröfu í tölvupósti þann 28. apríl 2014, þar sem slíkur réttur yrði ekki leiddur af ákvæðinu og enn væri það ekki svo að Sjóklæðagerðin hf. ætti kröfu á hendur stefnda og kæmi vonandi ekki til þess.

Stefnandi telur ljóst að í skaðleysisákvæðinu sé ekki verið að vísa til frekari krafna sem myndu rísa vegna starfslokauppgjörs við fyrrum forstjóra. Þ.e. uppgjörs sem hafi farið fram um mánaðamótin maí júní 2011 eða rétt fyrir undirritun kaupsamningsins og hafi verið um áunnið orlof, orlofs- og desemberuppbót og bifreiðahlunnindi samkvæmt ráðningarsamningi.

Stefnandi byggir á því, að komi til álita að umræddur kaup- og söluréttur hafi verið hluti af ráðningarsamningi fyrrum forstjóra og því skuli ábyrgð stefnda á kostnaði stefnanda vegna þeirrar meintu aðstöðu utan skaðleysisyfirlýsingar hans í kaupsamningnum, að þá sé slíkt í hrópandi mótsögn við allar athafnir stefnda eftir að dómsmálið var höfðað. Slíkt gangi einnig gegn framangreindri afstöðu stefnda um að sérstakur samningur hafi verið gerður um kaup- og sölurétt fyrrum forstjóra stefnanda.

Stefnandi kveðst byggja aðallega á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og skuldbindingargildi gagnkvæmra samninga, túlkun þeirra og þriðjamannslöggerninga. Um málskostnað vísi hann til 130. gr. laga nr. 91/1991. 

III.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Málatilbúnaður stefnanda sé þannig að öllu leyti grundvallaður á ákvæði í samningi sem hann er ekki aðili að. Engu máli skipti þótt vikið sé að hagsmunum stefnanda í samningnum eða að hann sé sérstaklega til- og nafngreindur í samningum enda ekkert óeðlilegt við það í ljósi þess að hlutafé í stefnanda var andlag samningsins. Þá beri að líta til þess að umrætt skaðleysisákvæði sé í ákvæði samningsins sem fjallar um kaupverð hlutafjárins og sé þar einnig fjallað um atvik sem leitt gætu til hækkunar kaupverðs. Kaupverðið skyldi greitt seljanda en ekki stefnanda. Renni það frekari stoðum undir að stefnandi sé ekki réttur aðili  málsins.

Í annan stað byggir stefnandi á því að orðalag kaupsamningsins leiði ekki til þeirrar niðurstöðu að greiðsluskylda hafi stofnast af hálfu stefnda til stefnanda. Stefndi hafnar þeirri túlkun stefnanda á ákvæðinu að í því felist að stefnda beri að greiða það tjón stefnanda sem hlotist hefur af uppgjöri vegna kaupréttar stefnanda við fyrrum forstjóra stefnanda. Það sé tjón sem leiði af uppgjöri ráðningarsamnings fyrrum forstjóra stefnanda við stefnanda enda kaupréttur hans hluti af starfskjörum hans hjá stefnanda. Slíkan kostnað hafi stefndi ekki skuldbundið sig til að bæta stefnanda. Því sé sérstaklega mótmælt að með orðalaginu „umfram það sem leiðir af uppgjöri ráðningar­samnings“ sé vísað til starfslokauppgjörs sem fram hafi farið um mánaðamótin maí/júní 2011.

Í þessu sambandi telur stefndi nauðsynlegt að horfa til þess að kauprétturinn leiddi beinlínis af starfssambandi forstjórans við stefnanda og var hluti af ráðningar­samningi hans, eins og stefndi telur raunar staðfest í stefnu. Fái þessi afstaða stefnda einnig stoð í gögnum málsins, sbr. ráðningarsamning við forstjórann frá 1. júlí 2006.

Stefndi telur að þótt stefnandi sé ekki aðili að umræddum samningi sé skaðleysisákvæðið til hagsbóta fyrir stefnanda og því verði hann að bera allan halla af óskýrleika orðalags ákvæðisins um hvaða kostnað stefnda beri að bæta stefnanda. Ekkert komi fram um að stefndi ábyrgist að bæta stefnanda kostnað sem leiði af kaupréttarsamningi fyrrum forstjóra stefnanda við stefnda, heldur sé slíkur kostnaður undanskilinn í ákvæðinu.

Til stuðnings varakröfu sinni metur stefndi það svo að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, með óyggjandi hætti, að allur sá kostnaður sem tilgreindur sé í stefnu sé kostnaður sem stefnda beri að bæta stefnanda. Engir útreikningar fylgi stefnufjárhæð, svo sem um dráttarvexti. Ótækt sé að stefndi verði látinn bera hallann af því að stefnandi hafi greitt fjárhæðina á um sex mánaða tímabili en ekki í einu lagi. Þá sé alls órökstutt hvernig „tryggingargjald“ sé til komið eða hvaða þýðingu það hafi fyrir málið.

Stefndi mótmælir upphafsdegi dráttarvaxta og telur, miðað við málatilbúnað stefnanda og atvik, að miða beri upphafsdag dráttarvaxta í fyrsta lagi við uppkvaðningu dóms í málinu, verði yfirhöfuð fallist á málatilbúnað stefnanda.

Stefndi kveðst vísa til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga. Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

IV.

Í fyrstu verður tekin afstaða til þess hvort stefnandi sé réttur aðili þessa máls og geti byggt stefnukröfur sínar í málinu á samningi sem SF II. slhf. og Egus Inc. gerðu í júní 2011.

Samkvæmt orðalagi samningsins verður ekki annað ráðið en að stefnanda hafi með honum verið veittur sjálfstæður réttur til þess að gera á grundvelli hans ákveðnar kröfur þótt ekki væri hann beinn aðili að samningnum. Það er enda svo að samningurinn fjallað um það eitt að meginstefnu til, að kaupandi keypti og seljandi seldi meirihluta hlutafjár í stefnanda. Það er í samræmi við ákvæði samningsins en líka í samræmi við eðli slíks samnings, að félaginu sjálfu sé veittur réttur til beinnar kröfugerðar á hendur þess sem selur hlutafé, einkum og sér í lagi þegar meirihluti hlutafjár í félagi skiptir um hendur. 

Hið umdeilda ákvæði í framangreindum samningi er svofellt: „Seljandi ábyrgist gagnvart kaupanda að kaupréttur fyrrum forstjóra félagsins sé fallinn úr gildi og að forstjórinn eigi ekki kröfur á hendur félaginu. Komi til kostnaðar vegna starfsloka fyrrum forstjóra, umfram það sem leiðir af uppgjöri ráðningarsamnings við hann, bætir seljandi félaginu þann kostnað að fullu. Kæmi til málaferla af hálfu fyrrum forstjóra skal seljandi eiga rétt til þess að halda upp vörnum fyrir félagsins hönd í slíku máli.“

Í upphafi ákvæðisins er rætt um kaupanda, þ.e. SF II slhf., og að seljandi ábyrgist gagnvart honum að kaupréttur forstjórans sé úr gildi. Síðan er vísað til félagsins, sem að mati dómsins er ótvírætt Sjóklæðagerðin hf., enda væri annað nokkur merkingarleysa í ljósi samhengis orðanna. Því er þannig slegið föstu að félaginu, þ.e. stefnanda, skyldi bættur kostnaður sem af þessu kynni að hljótast og að seljandi ætti rétt til þess að halda uppi vörnum fyrir félagið ef forstjórinn færi í mál. Þar er einnig augljóst, eðli máls samkvæmt, að átt er við Sjóklæðagerðina hf. enda yrði málatilbúnaði fyrrum forstjóra um þennan rétt sinn ekki beint að öðrum aðila. 

Stjórn stefnanda samþykkti fyrir sitt leyti sem forkaupsréttarhafi framangreindan samning og verður því litið svo á að stefnandi hafi fengið tilkynningu strax við gerð samningsins um þau réttindi sem honum voru fengin samkvæmt honum, ef upp kæmu þær aðstæður sem að framan er lýst. Sú vitneskja þriðja aðila um bein réttindi honum til handa á grundvelli samnings styrkir enn framangreinda niðurstöðu. Þá er ljóst að stefnandi og stefndi litu svo á framan af, að með „félaginu“ í hinum umrædda ákvæði hafi verið átt við stefnanda, sbr. umfjöllun hér á eftir.

Dómurinn telur því að þarna sé þriðja aðila, sem stendur og ansi nærri andlagi samningsins alls, veittur réttur á grundvelli hans til að sækja kröfu beint á stefnda. Líta verður einnig svo á að samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar gæti kaupandi hlutabréfanna einnig byggt rétt á þessu ákvæði og almennum reglum einnig, og sótt bætur á grundvelli þess að uppfylltum öðrum skilyrðum. Sá háttur sem hafður var á í samningi aðila var hins vegar mjög eðlilegur og skilvirkur, ef upp kæmu þær aðstæður sem þarna var lýst og varð síðan raunin.

Það hefur ekki verið dregið í efa af stefnda, að nafngreindur hæstaréttarlögmaður hafi haft fullt umboð til að gefa þær yfirlýsingar sem hann gaf í tengslum við mál þetta. Lagður er fram fjöldi tölvuskeyta en einnig umboð til lögmannsins. Sú skýring var hins vegar gefin við aðalmeðferð málsins að skoða yrði þær með hliðsjón af því að þær hefðu verið gefnar áður en dómur Hæstaréttar í máli fyrrum forstjórans var kveðinn upp 24. september 2014.

Í tölvuskeyti á alla stjórn stefnanda, 19. ágúst 2011, tilkynnir lögmaðurinn um bréf frá lögmanni fyrrum forstjóra um kaupréttinn. Svo sagði „Í kaupsamningi ábyrgðist Egus skaðleysi félagsins af þessu. Ég legg til að mér verði falið að halda á þessu máli fyrir félagið, enda í raun Egus sem þetta beinist að.“ Ekki verður dregin önnur ályktun af þessum pósti til stjórnar Sjóklæðagerðarinnar hf. en sú að þarna sé því lýst að ef fallist yrði á kröfur fyrrum forstjóra félagsins að hluta eða öllu leyti, yrði það tjón Egus, þar sem það félag hefði ábyrgst Sjóklæðagerðinni hf. skaðleysi. Önnur framlögð gögn staðfesta sama skilning að mati dómsins.

Þótt þetta sé ekki úrslitaatriði fyrir málið, og að þær yfirlýsingar sem gengu á milli aðila eftir undirritun samningsins frá júní 2011, hafi sem slíkar ekki fellt frekari skyldur á stefnda, heldur en þegar mátti leiða af samningnum, veita þær skilningi stefnanda á hinu umdeilda ákvæði ótvíræðan stuðning.

Því er það niðurstaða dómsins að það megi leiða af meginreglum og nokkuð skýrum ákvæðum í samningi aðila að stefnandi sé réttur aðili þessa máls og geti byggt beint rétt á umræddum samningi frá júní 2011.

-------

Kemur þá næst til skoðunar hvað falist hafi í umræddu ákvæði í margtilvísuðum samningi. Stefndi byggir á því að 3. mgr. 4. gr. samningsins, sem var tekin upp orðrétt hér að framan, hefði ekki tekið til kostnaðar sem kynni að hljótast af kaup- og sölurétti  fyrrum forstjóra Sjóklæðagerðarinnar hf. Tjón sem stefnandi kunni að hafa orðið fyrir megi rekja beint til ráðningarsamnings forstjórans og uppgjörs vegna hans, enda kauprétturinn hluti af starfskjörum forstjórans. Einungis kostnaður umfram það sem leiði að uppgjöri ráðningarsamnings sé bættur. Stefnukröfur feli ekki í sér kostnað umfram það heldur séu hluti af uppgjöri ráðningarsamnings.

 

Á þetta verður ekki fallist. Óútskýrt er þá hvaða áhrif fyrsti málsliður málsgreinarinnar hefur og í hvaða tilgangi hann hafi verið settur inn. Dómnum sýnist einboðið að öll málsgreinin sé til að tryggja skaðleysi vegna krafna fyrrum forstjórans sem voru vel þekktar í fyrirtækinu á þessum tíma eins og tilvist ákvæðisins sjálfs staðfestir. Áhöld voru ljóslega um hvort skilningur í áreiðanleikakönnun á meintu brottfalli réttarins hafi verið réttur og því talin ástæða til að setja inn þetta ákvæði. Málsgreinin í heild verður, að því er best verður séð, með öllu þýðingarlaus ef fallist væri svo á þann skilning sem stefnandi leggur einnig í ákvæðið, þ.e að þar hafi með vísan til umframgreiðslu, alls ekki verið vísað til starfslokauppgjörs sem fram fór við forstjórann um mánaðamótin maí/júní 2011 sem samkvæmt framlögðum gögnum fjallaði um uppgjör á áföllnu orlofi og slíkum aukagreiðslum. Þannig verður ekki séð við hvaða greiðslur sé þá átt og hvaða vernd ákvæðinu var ætlað að veita stefnanda eða kaupanda hlutanna ef skilningur stefnda yrði ofan á.

Dómurinn telur þvert á móti að ákvæðinu hafi verið ætlað að tryggja stefnanda gegn öllum kröfum fyrrum forstjóra stefnanda vegna kaupréttar hans, og sé um það nokkuð skýrt. Því var það rökrétt og eðlilegt af stefnda að óska þess að það félag fengi að verjast slíkum kröfum í nafni stefnanda kæmi til þess að höfðað yrði mál af forstjóranum fyrrverandi. Annars verður ekki séð hvaða hagsmuni stefndi hefði ella haft af eða áhuga á að sinna slíkri málsvörn. Litið verður til þess að þetta ákvæði, líkt og ákvæðið um leiðréttingu á lánum félagsins, í málsgreininni á undan í samningnum, er skýr fyrirvari um eitthvað sem gat leitt til talsverðs tjóns fyrir félagið og hluti af umfjöllun í samningnum um kaupverð sem nam 765.000.000 krónum. 

Dómurinn telur því að umrætt samningsákvæði leiði til þeirrar niðurstöðu að stefnda beri að halda stefnanda skaðlausum af þeim fjárútgjöldum sem kaup- og söluréttur fyrrverandi forstjóra Sjóklæðagerðarinnar hf. kostuðu félagið þegar upp var staðið.

-------

Mótmæli stefnda við fjárhæð stefnukröfu einskorðast við að stór hluti kröfunnar séu dráttarvextir og síðan að ótækt sé, eins og það er orðað, að stefndi beri hallann af því að stefnandi greiddi fjárhæðina út á um sex mánaða tímabili í stað þess að gera það í einu lagi.

Ekki verður annað séð en að stór hluti dráttarvaxta í kröfu stefnanda eigi sér eðlilegar skýringar en krafa fyrrum forstjóra bar samkvæmt dómi Hæstaréttar, dráttarvexti frá 20. apríl 2011. Stefnandi hefur lagt fram útreikning á vöxtunum og síðan tekið tillit til fjögurra innborgana á kröfuna frá 21. október 2014 til 2. mars 2015 til lækkunar á þeim höfuðstól sem dráttarvextir eru reiknaðir af hverju sinni. Stefndi hefur mótmælt þessari aðferð og kveðst ekki þurfa að sæta því að bera hallann af síðbúnum greiðslum stefnanda.

 

Krafa stefnanda er í eðli sínu þannig að um leið og dómur Hæstaréttar féll, stóðu lagaskilyrði til þess að hún safnaði dráttarvöxtum, kysi stefnandi að krefjast þeirra. Hið sama hefði gerst gagnvart stefnda hvort sem stefnandi hefði þá þegar leyst til sín kröfuna, gert það í áföngum eða ekki haft bolmagn til þess, og til að mynda höfðað þess í stað viðurkenningarmál á hendur stefnda. Dómurinn fær þannig ekki séð annað en að dráttarvaxtakrafa stefnanda standist og að sú aðferð stefnanda að taka tillit til innborgananna sé þvert á móti til hagsbóta fyrir stefnda.    

Stefndi telur og að óútskýrt sé hvernig tryggingargjald sé til komið og hver þýðing þess sé fyrir málið. Stefnandi hefur útskýrt það og greint frá því að hann hafi greitt gjaldið, 7.59%, í samræmi við, að hans mati, lagaskyldu í þeim efnum, sbr. bókun í málinu 9. desember 2015. Greiðslan hafi verið innt af hendi 17. nóvember 2014 á grundvelli 9. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. tölulið A-liðar, 7. gr. Dómurinn telur ekki, miðað við eðli greiðslunnar, ástæðu til að draga í efa að þessi skylda hafi verið til staðar en stefnandi lagði fram staðfestingu þess að á árinu 2014 hafi tryggingargjald o.fl. eins og það heitir, numið 7.59, sem eru af höfuðstól kröfu forstjórans fyrrverandi 8.316.933 krónur eins og krafist er. 

-------

Með vísan til framangreinds verður því fallist á kröfur stefnanda. Eftir þeim úrslitum málsins ber, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur. Dómara var úthlutað málinu 15. september sl. og hafði þá ekkert komið að rekstri þess fram að því. 

Af hálfu stefnanda flutti málið Atli Björn Þorbjörnsson héraðsdómslögmaður og af hálfu stefnda flutti málið Þorsteinn I. Valdimarsson héraðsdómslögmaður.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                                              D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Molden Enterprises Limited, greiði stefnanda, Sjóklæðagerðinni hf., 185.616.671 krónu auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. apríl 2015 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.