Hæstiréttur íslands

Mál nr. 202/2001


Lykilorð

  • Fiskveiðibrot


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. september 2001.

Nr. 202/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Karli Heimi Einarssyni

(Jakob R. Möller hrl.)

 

Fiskveiðibrot.

Skipstjórinn K var ákærður fyrir fiskveiðibrot með því að hafa lagt úr höfn til fiskveiða á fiskiskipi, sem hafði leyfi til veiða með dagatakmörkunum, án þess að tilkynna Fiskistofu um upphaf veiðiferðar sinnar. K bar því við að honum hefði verið ómögulegt að tilkynna Fiskistofu um upphaf veiðiferðarinnar þar sem ekki hefði verið unnt að ná símsambandi á þeim stað þar sem hann lagði úr höfn. Hæstiréttur taldi að K hefði borið að sjá svo um að honum væri fært að tilkynna um upphaf veiðiferðar sinnar er hann lét úr höfn í umrætt sinn. Það væri því á ábyrgð K að ásetja sér að halda úr höfn án þess að fullnægja skýlausri skyldu sinni. Var K gert að greiða 400.000 króna sekt í ríkissjóð en sæta ella fangelsi í 45 daga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu af I. lið ákæru, en til vara að honum verði ekki gerð refsing fyrir þá háttsemi og til þrautavara að refsing verði lækkuð. Jafnframt er þess krafist að ákærða verði ekki gerð refsing fyrir þá háttsemi, sem lýst er í II. lið ákæru.

Ákærði byggir meðal annars á því að honum hafi verið ómögulegt að tilkynna Fiskistofu um upphaf veiðiferðar sinnar í svokallaðan Símakrók Fiskistofu þar sem ekki hafi reynst unnt að ná símsambandi frá Reykjarfirði á Ströndum, en þar lagði hann úr höfn til veiða á fiskiskipinu Skuld SF 333 um kl. 3.00 aðfaranótt 24. júlí 2000. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1999 um veiðar krókabáta fiskveiðiárið 1999/2000, sem sett er með stoð í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða með síðari breytingum, er skipstjóra skylt að tilkynna Fiskistofu um upphaf veiðiferðar áður en lagt er úr höfn og telst veiðiferð hafin þegar sú tilkynning berst. Skal senda hana í gegnum Símakrók, sjálfvirkan þjónustusíma Fiskistofu. Ákærða bar að sjá svo um að honum væri fært að tilkynna upphaf veiðiferðar sinnar er hann lét úr höfn umrætt sinn. Var það því á hans ábyrgð að ásetja sér að halda úr höfn án þess að fullnægja þessari skýlausu skyldu sinni og stoðar ákærða ekki að bera fyrir sig að þetta hafi verið honum ómögulegt. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en vararefsingu, sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Karl Heimir Einarsson, greiði 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í  45 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jakobs R. Möller hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur. 

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 26. apríl 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 9. apríl sl. að undangengnum munn­legum málflutningi, hefur sýslumaðurinn í Bolungarvík höfðað hér fyrir dómi þann 6. febrúar sl. með ákæru á hendur Karli Heimi Einarssyni, kt. 110467-5169, Sandbakka 8, Höfn, Hornafirði,

„fyrir eftirgreinda háttsemi:

I.

Fyrir fiskveiðilagabrot með því að hafa, mánudaginn 24. júlí 2000 um kl. 03:00, lagt úr höfn til fiskveiða á fiskiskipinu Skuld SF-333, skipaskrárnúmer 6529, sem hafði leyfi til veiða með dagatakmörkunum, án þess að tilkynna áður um upphaf veiðiferðarinnar í Símakrók, sjálfvirkan þjónustusíma Fiskistofu.

Telst þessi háttsemi varða við 2. mgr. 8. gr., sbr. 16. gr., reglugerðar nr. 515/1990 um veiðar krókabáta fiskveiðiárið 1999/2000, sbr. ákvæði til bráða­birgða nr. XXIII í lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

II.

Fyrir brot á löggjöf um atvinnuréttindi vélstjórnarmanna með því að hafa, greint skipti, siglt skipinu án vélgæslumanns.

Telst sú háttsemi varða við a. lið 1. mgr. 2. gr., sbr. 14. gr., laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, sbr. 2. gr. laga nr. 60/1995.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Skipaður verjandi ákærða krefst þess fyrir hans hönd að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt fyrri lið ákæru, til vara að honum verði ekki gerð refsing fyrir brot sem þar greinir en til þrautavara að refsing verði færð niður úr því lágmarki er í lögum greinir.

Þá er þess krafist að ákærða verði ekki gerð refsing fyrir háttsemi þá er greinir í II. lið ákærunnar og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun.

Þann 24. júlí 2000 kl. 8:15 fóru Kristján Guðmundsson 2. stýrimaður og Eggert Richardsson háseti á varðskipinu Óðni til eftirlits um borð í mb. Skuld SF-333, skipaskrárnúmer 6529, á stað 66° 28´n og 21° 50´v, eða um 13 sjómílur austur af Hornbjargi þar sem báturinn var á handfæraveiðum.  Kom í ljós að síðasta tilkynning bátsins í svokallaðan Símakrók Fiskistofu var úr höfn til veiða 24. júlí kl. 7:44.  Þá kom í ljós að ákærði, sem var skipstjóri bátsins, hafði ekki réttindi vélgæslumanns og enginn vélgæslumaður var um borð. 

Í málinu liggur frammi afrit veiðileyfis til Steinars Smára Guðbergssonar vegna Skuldar GK-333 nú SF-333.  Segir þar í 1. tl. að leyfið veiti rétt til veiða með handfærum í samræmi við leyfilega sóknardaga bátsins,  en fjöldi þeirra er nánar greindur í 2. tl.  Í 4. tl. segir að skipstjóri skuli tilkynna Fiskistofu um upphaf og lok sóknardags í samræmi við 8. gr. reglugerðar nr. 515/1999 og skuli senda tikynningar í gegnum Símakrók, sjálfvirkan þjónustusíma Fiskistofu.  Í 5. tl. er tekið fram að utan leyfilegra sóknardaga séu allar veiðar á bátnum í atvinnuskyni bannaðar.  Í 8. tl. segir að brot gegn m.a. ákvæðum laga nr. 38/1990 með síðari breytingum og ákvæðum leyfisbréfsins varði sviptingu veiðileyfis og öðrum viðurlögum skv. ákvæðum laganna. 

Með bréfi dagsettu 1. febrúar 2001 fól ríkislögreglustjóri sýslumanninum í Bolungarvík meðferð máls þessa.

Ártal reglugerðar hefur misritast í ákæru en reglugerðin er nr. 515/1999 en ekki 515/1990.  Misritun þessi þykir ekki eiga að valda frávísun málsins, enda var vörn ákærða ekki áfátt af þeim sökum.

Ákærði ber að hann hafi í greint sinn lagt úr höfn í Reykjafirði.  Hafi hann reynt að hringja í þjónustusíma Fiskistofu, þ.e. svokallaðan Símakrók, til að tilkynna brottför en ekki náð sambandi vegna þess að símasamband sé afar slæmt á þessum slóðum.  Hann hafi reynt af og til að hringja á leið sinni á miðin, en ekki náð sambandi fyrr en kl. 07:36 svo sem fram komi á yfirliti frá Landsímanum um notkun NMT síma um borð í bátnum.  Aðspurður kvaðst hann hafa verið byrjaður veiðar er samband náðist.

Fyrir dóminn komu einnig vitnin Reimar Vilmundarson og Sigurður Þorsteinn Stefánsson, sem báðir eru kunnugir í Reykjafirði.  Báru þeir báðir að mjög erfitt sé að ná þar símasambandi og sé það aðeins unnt á stöku stað. 

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1999 skal skipstjóri tilkynna Fiskistofu um upphaf veiðiferðar áður en lagt er úr höfn.  Telst veiðiferð hafin þegar tilkynning berst.  Tilkynningar skal senda í gegn um Símakrók, sjálfvirkan þjónustusíma Fiskistofu. 

Ákærða, sem kaus að haga veiðum með þeim hætti að leggja úr höfn í eyðifirði á Austur-Ströndum þar sem símasamband er slæmt, bar sjálfum að gæta þess að hann gæti tilkynnt brottför með fullnægjandi hætti.  Brot hans var fullframið er hann hélt úr höfn til veiða án þess að hafa tilkynnt brottför áður, sbr. tilvitnaða 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1999.  Samkvæmt 16. gr. reglu­gerð­arinnar varða brot á henni viðurlögum samkvæmt ákvæðum IV. kafla laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða með síðari breytingum.  Samkvæmt 20. gr. þeirra laga, sbr. 27. gr. laga nr. 57/1996 varða brot gegn ákvæðum þeirra, reglum settum samkvæmt þeim og ákvæðum leyfisbréfa sektum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi, en stórfelld og ítrekuð ásetningsbrot skulu að auki varða fangelsi allt að 6 árum.  Við fyrsta brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 400.000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 4.000.000 kr. eftir eðli og umfangi brots.  Sá ágalli er á heimfærslu til refsiákvæða í ákærunni að aðeins er vísað til 16. gr. reglugerðarinnar, en með því að þar er þó vísað til IV. kafla laga nr. 38/1990, sem m.a. inniheldur nefnda 20. gr., þykir ekki eiga að vísa málinu frá dómi af þessari ástæðu, enda var vörn ákærða ekki áfátt vegna hennar.

Ekki er um það deilt að ákærði hafði ekki vélgæsluréttindi og sigldi bátnum án vélgæslumanns eins og í ákæru greinir.  Samkvæmt a. lið 1. mgr. 2. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 113/1984 um atvinnu­réttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, sbr. 2. gr. laga nr. 60/1995 skal á skipi með 75 -220 kw. vél vera einn vélgæslumaður sem má vera hinn sami og skipstjóri á skipum að 20 rúmlestum að nánar greindum skil­yrðum uppfylltum.  Samkvæmt rannsóknargögnum er mb. Skuld SF-333 með 170 kw. vél.  Eftir þessu ber að sakfella ákærða fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í II. lið ákæru og varðar við þargreind refsiákvæði.  Verður refsing ekki felld niður með skírskotun til þess að ákærði kveðst kunna vel með vélina að fara.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki sætt refsingum.  Refsingu hans ber að tiltaka samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga.

Ofangreind 20. gr. laga nr. 38/1990, sbr. 27. gr. laga nr. 57/1996, þykir bera vott um skýran vilja löggjafans til þess að brot gegn lögunum og reglum settum samkvæmt þeim sæti þungum viðurlögum.  Verður með hliðsjón af því ekki talið að skilyrði séu til þess að beita heimildum í 74. gr. almennra hegningarlaga til að færa refsinguna niður úr því lágmarki sem löggjafinn hefur sett.  Með heimild í lokamálslið 2. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga verður refsingin þó ekki ákveðin hærri en lágmarkinu nemur.  Ákærði verður því dæmdur til að greiða 400.000 kr. sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms, en sæta 40 daga fangelsi ella.

 Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakar­kostnaðar, þ.m.t. málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðs­sonar hdl., sem ákveðast 150.000 kr.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsorð:

Ákærði, Karl Heimir Einarsson, greiði 400.000 kr. sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja en sæti ella fangelsi í  40 daga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin máls­varnar­laun skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar, hdl., 150.000 kr.