Hæstiréttur íslands

Mál nr. 283/2007


Lykilorð

  • Áfrýjunarfjárhæð
  • Áfrýjunarheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


         

Fimmtudaginn 14. febrúar 2008.

Nr. 283/2007.

Öndvegi ehf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.

Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

gegn

Magis SpA

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

 

Áfrýjunarfjárhæð. Áfrýjunarheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Ö krafðist þess aðallega að tveimur liðum í dómkröfum M, um greiðslu á 3.189,59 evrum og 15.060 krónum yrði vísað frá héraðsdómi og hann jafnframt sýknaður af kröfum M um að honum yrði gert að þola að birgðir hans af nánar tilgreindum stólum yrðu gerðar upptækar, án endurgjalds. Dómur var felldur á mál þetta í héraði á grundvelli samþykkis Ö á öllum kröfum M öðrum en um málskostnað. Að gefnu fyrrgreindu samþykki Ö stóðu aðeins eftir fjárkröfur M en óumdeilt er að höfuðstóll þeirrar kröfu nam 316.204 krónur. Gat Ö því ekki lengur talist hafa hagsmuni, sem metnir yrðu til fjár við ákvörðun áfrýjunarhagsmuna samkvæmt 2. og 3. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála af öðru en fyrrgreindri samanlagðri fjárhæð höfuðstóls þessara kröfuliða. Hún náði ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar og varð því að vísa málinu frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2007. Hann krefst þess aðallega að tveimur liðum í dómkröfum stefnda, um greiðslu á 3.183,59 evrum og 15.060 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. janúar 2005 til greiðsludags, verði vísað frá héraðsdómi og hann jafnframt sýknaður af kröfu stefnda um að honum verði gert að þola að birgðir hans af nánar tilgreindum stólum verði gerðar upptækar án endurgjalds. Til vara krefst áfrýjandi sýknu af kröfuliðunum tveimur, sem fyrst voru nefndir. Í báðum tilvikum krefst hann þess að málskostnaður í héraði verði felldur niður, en ella lækkaður. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að staðfest verði ákvæði héraðsdóms, sem áfrýjun taki til. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi höfðaði mál þetta 18. janúar 2005 og krafðist þess í fyrsta lagi að viðurkennt yrði að áfrýjanda væri óheimilt að flytja inn, bjóða til sölu, selja, flytja út eða ráðstafa á annan hátt stólum af tveimur tilgreindum tegundum, sem væru eftirlíkingar af tilteknum stólum, sem stefndi framleiddi. Í öðru lagi krafðist stefndi þess að áfrýjanda yrði gert að þola að birgðir hans af þessum stólum yrðu gerðar upptækar án endurgjalds. Í þriðja lagi að staðfest yrði lögbann, sem sýslumaðurinn í Reykjavík lagði 10. janúar 2005 við þeirri háttsemi áfrýjanda, sem um ræddi í fyrstnefnda kröfuliðnum. Í fjórða lagi og fimmta krafðist stefndi þess að áfrýjanda yrði gert að greiða sér annars vegar skaðabætur að fjárhæð 6.366 evrur og hins vegar 15.060 krónur vegna kostnaðar af því að farga vörubirgðum áfrýjanda, sem um ræddi í öðrum kröfuliðnum, en undir rekstri málsins lækkaði fjárhæð skaðabótakröfunnar í 3.183,59 evrur. Loks krafðist stefndi málskostnaðar.

Þegar málið var tekið fyrir á dómþingi í héraði 15. desember 2006 lýsti áfrýjandi því yfir að hann féllist á allar framangreindar kröfur stefnda að frátalinni kröfu um málskostnað. Í þinghaldi 18. janúar 2007 lagði áfrýjandi síðan fram gögn, sem hann taldi sýna fram á að hann hefði greitt stefnda 3.183,59 evrur og 15.060 krónur ásamt umkröfðum vöxtum, auk þess sem hann lagði fram yfirlit um vörubirgðir, sem annar kröfuliður stefnda sneri að, ásamt boði um að afhenda þær. Stefndi taldi sig hvorki geta tekið afstöðu til þess í þinghaldinu hvort framangreindir liðir í kröfum hans hafi verið greiddir né hvort áfrýjandi hefði boðið fram allar birgðir, sem hann hafi haft undir höndum af stólunum, sem málið varðaði. Í þinghaldinu var fært til bókar að ágreiningur stæði ekki orðið um annað en málskostnað og var málið síðan flutt um það atriði eitt. Með hinum áfrýjaða dómi 23. febrúar 2007 voru allar áðurgreindar dómkröfur stefnda teknar til greina og honum dæmdar 800.000 krónur í málskostnað.

Áfrýjunarstefna var gefin út í málinu 23. maí 2007. Um áfrýjunarfjárhæð sagði þar eftirfarandi: „Með dómi héraðsdóms var áfrýjanda gert að greiða stefnda skaðabætur að fjárhæð EUR 3.183,59 og kr. 15.060,- auk dráttarvaxta og málskostnaðar að fjárhæð kr. 800.000. Þá var í dóminum kveðið á um staðfestingu lögbanns.“ Samkvæmt áfrýjunarstefnunni krafðist áfrýjandi þess aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi og til vara að hann yrði sýknaður af kröfum stefnda, en í báðum tilvikum yrði málskostnaður felldur niður. Að því frágengnu krafðist áfrýjandi þess að héraðsdómur yrði staðfestur um annað en málskostnað, sem aðallega yrði felldur niður, en til vara lækkaður. Í öllum tilvikum krafðist áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Í greinargerð hér fyrir dómi var kröfum hans síðan breytt í það horf, sem að framan greinir.

Svo sem ráðið verður af framansögðu var dómur felldur á mál þetta í héraði á grundvelli samþykkis áfrýjanda á öllum kröfum stefnda öðrum en um málskostnað. Að gefnu því samþykki hafði áfrýjandi ekki lengur neina fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðunni, sem síðan fékkst í héraðsdómi um viðurkenningarkröfu stefnda og kröfu hans um staðfestingu lögbanns. Gegndi sama máli um niðurstöðu héraðsdóms um að áfrýjandi yrði að þola án endurgjalds að láta af hendi vörubirgðir, sem annar liður í dómkröfu stefnda sneri að. Stóðu þá aðeins eftir fjárkröfur stefnda, en samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi lagði fram í héraði, taldi hann sig hafa staðið skil á þeim með greiðslu á samtals 463.243 krónum til stefnda 16. janúar 2007. Útreikningar áfrýjanda á þessari fjárhæð hafa ekki sætt andmælum, en samkvæmt þeim voru 316.204 krónur af henni greiðsla á höfuðstól krafna stefnda. Án tillits til þess að áfrýjandi hafði samþykkt kröfur stefnda um þetta áður en málið var dómtekið í héraði og taldi sig að auki hafa þá þegar staðið full skil á þeim, gat áfrýjandi ekki lengur talist hafa hagsmuni, sem metnir yrðu til fjár við ákvörðun áfrýjunarhagsmuna samkvæmt 2. og 3. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum, af öðru en fyrrgreindri samanlagðri fjárhæð höfuðstóls þessara kröfuliða. Hún náði ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar, sem í gildi var við útgáfu áfrýjunarstefnu. Áfrýjandi getur ekki borið því við að tekin hafi verið bindandi afstaða til heimildar hans til að áfrýja héraðsdómi með útgáfu áfrýjunarstefnu, þar sem hann hafði meðal annars tekið fram varðandi áfrýjunarfjárhæð að í héraðsdómi hafi verið kveðið á um staðfestingu lögbanns, en lét á hinn bóginn hjá líða að greina í því samhengi frá atvikum, sem leiða samkvæmt áðursögðu til þess að fjárhagslegir hagsmunir hans af þeirri niðurstöðu teljist í raun engir. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Áfrýjandi, Öndvegi ehf., greiði stefnda, Magis SpA, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2007.

Mál þetta var þingfest 27. janúar 2005 og dómtekið 21. október 2005.  Dómur var kveðinn upp 15. desember 2005.  Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 12. október 2006, var sá dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.  Málið var síðan dómtekið að ósk aðila 18. janúar sl. án þess að fram færi munnlegur málflutningur.                                                        

Stefnandi er Magis spa, Via Magnadola 15, 31045 Motta di Livenza (Treviso), Ítalíu.

Stefndi er Öndvegi ehf., Síðumúla 20, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda nú eru eftirfarandi:

1.        Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að flytja inn, bjóða til sölu, selja, flytja út eða ráðstafa með öðrum hætti eintökum af stól, þ.e. barstól, vörunúmer TD0103CA, og lægri stól með hærra baki, vörunúmer TD2368DA, en stóllinn er eftirlíking af stólnum Bombo er framleiddur er af stefnanda. 

2.        Að stefndi verði dæmdur til að þola að birgðir hans af framangreindum stól verði gerðar upptækar án endurgjalds til handa stefnanda (sic).

3.        Að staðfest verði með dómi lögbann er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði hinn 10. janúar 2005 við því að stefndi flytji inn, bjóði til sölu, selji, flytji úr landi eða ráðstafi með öðrum hætti stól sem er eftirlíking af stólnum Bombo.

4.        Að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð EUR 3.183,59 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá birtingardegi stefnu þessarar til greiðsludags.

5.        Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur vegna kostnaðar við förgun birgða sem hann fengi afhentar við upptöku að fjárhæð ISK 15.060 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá birtingardegi stefnu þessarar til greiðsludags.

6.        Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk matskostnaðar 226.590 krónur.

 

Í þinghaldi 15. desember 2006 lýsti stefndi því yfir að hann féllist á allar dómkröfur stefnanda nema kröfu um málskostnað.  Samþykktu báðir aðilar dómtöku málsins án munnlegs flutnings en munnlegur málflutningur fór fram um málskostnaðarkröfur málsaðila 18. janúar sl. þar sem ágreiningur var um þær kröfur og var málið síðan dómtekið.

Málavextir

Stefnandi málsins, Magis spa, er hlutafélag skráð á Ítalíu og framleiðir húsgögn.        Stefano Giovannoni, sem mun vera þekktur ítalskur hönnuður, hannaði stólinn Bombo árið 1996 að beiðni stefnanda.  Stefnandi kveðst hafa sett fram óskir um sérstæða, listræna hönnun með löngum líftíma sem hefði möguleika á að verða hönnunarfyrirmynd (e.: design icon). 

Stefnandi kveður stóllinn fyrst hafa verið boðinn til sölu á Ítalíu á Salone Intemazionale del Mobile í Mílanó á tímabilinu 17. - 21. apríl 1996.  Hann hafi hlotið stöðu sem hönnunarfyrirmynd og fengið margar viðurkenningar, Design/Blueprint verðlaun 1997, hafi birst á ítölsku frímerki og birst á Italian Design on Tour exhibition frá árinu 2001.

 Stefnandi hefur samkvæmt nytjaleyfissamningi við Stefano Giovannoni einkarétt til framleiðslu og sölu á Bombo-stólnum. Stóllinn er framleiddur bæði sem hækkanlegur barstóll (kollur) og í lægri útgáfu með hærra baki, báðar útgáfurnar í mörgum litum, m.a. svörtum, gráum og hvítum lit.

Sem framleiðandi þekktrar hönnunar í háum gæðaflokki kveður stefnandi að sér sé afar umhugað um að koma í veg fyrir eftirlíkingar af vörum sínum.

Stefnandi kveðst nýlega hafa orðið var við að í versluninni Heima, verslun sem stefndi hafi opnað vorið 2004, hafi verið til sölu stóll sem sé eftirlíking af Bombo- stólnum.  Ekkert vörumerki sé að finna á eintökum stólsins en umbúðir beri vörumerkið KINETIC.  Samkvæmt reikningi frá versluninni hafi útsöluverð barstóls (vörunúmer TD0103CA) verið 15.900 krónur en stóll með háu baki (vörunúmer TD2368DA) muni hafa verið seldur á 19.700 krónur.  Stólarnir hafi verið fáanlegir að minnsta kosti í svörtum, gráum og hvítum lit.

Lögmaður stefnanda ritaði stefnda bréf 7. desember sl. þar sem því var haldið fram að sala stefnda á stól sem líktist Bombo-stólnum bryti gegn höfundalögum og samkeppnislögum.  Þess var óskað að stefndi undirritaði og afhenti stefnanda staðfestingarbréf þess efnis að stefndi viðurkenndi brot sitt og lofaði að framkvæma ekki nánar tilgreind atriði í bréfinu, en staðfestingarbréf þetta fylgdi bréfi lögmanns stefnanda.  Lögmaður stefnda svaraði bréfi lögmanns stefnanda innan tilskilins frests með bréfi dags. 13. desember 2004 og hafnaði öllum kröfum lögmanns stefnanda.

Stefnandi setti, hinn 22. desember sl., fram beiðni um lögbann við því að stefndi flytti inn, byði til sölu, seldi, flytti úr landi eða ráðstafaði með öðrum hætti birgðum af stólnum.  Jafnframt krafðist stefnandi þess, með heimild í 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann o.fl., að sýslumaður gerði viðeigandi ráðstafanir til þess að hindra að ekki yrði af frekari sölu eða ráðstöfun vörunnar.

Hinn 10. janúar 2005 lagði sýslumaðurinn í Reykjavík lögbann við því að stefndi flytji inn, bjóði til sölu, selji, flytji úr landi eða ráðstafi með öðrum hætti stól sem er eftirlíking af stólnum Bombo.  Þar sem því var lýst yfir af lögmanni stefnda fyrir sýslumanni að stefndi myndi fara að lögum vegna lögbannsins hafnaði sýslumaður því að svipta stefnda vörslum birgða af vörunni.

Stefnandi höfðaði síðan mál þetta til viðurkenningar á réttindum stefnanda, til eignaupptöku óseldra birgða, staðfestingar lögbannsins, skaðabóta og málskostnaðar.

Í greinargerð stefnda segir að stefndi hafi séð hinn umdeilda stól, og fleiri sambærilega, til sölu á alþjóðlegri sýningu í Köln í Þýskalandi í janúar 2003.  Í mars 2004 hafi stefndi farið á aðra sýningu þar sem stólarnir voru aftur til sýnis.  Stefndi hafi þá skoðað bæði verslun og verksmiðju framleiðanda stólanna sem hann hefur haft til sölu í verslun sinni.  Á þessari sýningu hafi hann pantað hina umdeildu stóla.  Stólarnir voru komnir til landsins og sala hafin á þeim í Heima ehf. í maí 2004.  Það hafi svo verið í desember sem athugasemdir voru gerðar við sölu Heima ehf. á stólunum af hálfu lögmanns stefnanda.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að Bombo-stóllinn njóti verndar hér á landi sem nytjalist samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. lög nr. 80/1972 um heimild ríkisstjórninni til handa til að staðfesta Bernarsáttmálann til verndar bók­menntum og listaverkum.  Um vernd Bombo-stólsins sem verks ítalsks hönnuðar er vísað til 5. gr. sáttmálans.  Um vernd sæmdarréttar vísast til 4. mgr. 60. gr. höfundalaga.

Stefnandi heldur því fram að sala stefnda á ofangreindum stól brjóti gegn höfundarréttindum að Bombo-stólnum samkvæmt 3., sbr. 2. gr. og samkvæmt 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Salan sé auk þess brot á 20. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.

Um kröfulið 1.

Stefnandi kveður kröfu um viðurkenningu réttinda byggjast á því að stefnandi hafi einkarétt til að selja og dreifa með öðrum hætti hér á landi eintökum af stólnum Bombo og að innflutningur stefnda, sala og önnur ráðstöfun eintaka af umræddum stól, barstól í vörunúmeri TD0103CA, og lægri stól með háu baki í vörunúmeri TD2368, brjóti gegn þeim rétti þar sem sá stóll sé eftirlíking af Bombo-stólnum.  Framangreindan einkarétt hafi stefnandi öðlast með nytjaleyfissamningi við höfund Bombo-stólsins.  Stefnandi telur ótvírætt að inn­flutningur og sala umrædds stóls brjóti gegn einkarétti til framleiðslu og dreifingu Bombo-stólsins samkvæmt 3. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og gegn sæmdarrétti höfundar samkvæmt 4. gr. höfundalaga.

Bombo-stóllinn sé árangur sjálfstæðs framlags höfundar hans.  Hönnun stólsins einkennist af léttu og stílhreinu yfirbragði.  Meginhluti stólsins sé framleiddur í einu stykki.  Einstakir þættir hönnunarinnar sem einkenni stólinn séu m.a. einn lóðréttur fótur er hvíli á flatri hringlaga gullplötu, ávöl lögun meginstykkisins, bæði bak- og sætishlutans, sporöskjulaga lögun fótskemils barstólsins og lögun handfangs til að hækka og lækka stólinn.  Stóllinn er stefndi hafi haft til sölu sé afar nákvæm eftirlíking Bombo-stólsins, öll hin einstöku atriði er einkenni Bombo-stólinn birtist í eftirlíkingunni, heildarmynd stólanna sé hin sama og stærðir nánast þær sömu.  Eigi það bæði við um eftirlíkingarstólinn sem barstól og lægri stól með hærra baki.

Höfundarréttur að Bombo-stólnum og brot gegn honum með sölu eftirlíkinga hafi að sögn stefnanda verið staðfestur í erlendum dómsúrlausnum auk þess sem fjöldi söluaðila hafi dregið ólögmætar eftirlíkingar úr sölu og þær verið eyðilagðar.

Það að stefndi bauð stólinn til sölu í verslunum sínum sé til þess fallið að valda ruglingi hjá viðskiptavinum og valda hættu á að þeir álíti ranglega að eftirlíkingin sé stóllinn Bombo eða að tengsl séu milli hennar og stólsins Bombo.  Aðgerðir stefnda við að bjóða fram stólinn og við sölu hans hafi því falið í sér brot á 20. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.  Sala eftirlíkinganna rýri orðspor stólsins Bombo og feli í sér misnotkun á viðskiptavild hans.  Stefndi hafi einbeittan vilja til að brjóta gegn ákvæðinu, sbr. blaðagrein er birst hafi skömmu eftir opnun verslunarinnar Heima, sem stefndi opnaði vorið 2004, en þar sé haft eftir fyrirsvars­manni hennar að mikið af vörum verslunarinnar séu eftirgerðir af þekktri hönnun.

Stóllinn Bombo hafi verið til sölu hér á landi um nokkurra ára skeið og eftirlíkingin hafi því verið stað­göngu­vara gagnvart Bombo-stólnum.  Vegna þess komi brotið enn harkalegar niður á stefnanda.

Um kröfulið 2

Krafa stefnanda um eignaupptöku sé byggð á skýrri og ótvíræðri heimild í 1. mgr. 55. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og 44. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997.  Innflutningur og sala stefnda á eintökum af eftirlíkingunni hafi brotið í bága við ákvæði laganna og séu því skilyrði til eignaupptöku ótvírætt fyrir hendi.  Stefnandi kveður hagsmuni sína fyrir borð borna án eignaupptöku þar sem óeðlilegt sé að birgðir af ólögmætum eintökum er eigi sé heimilt að selja eða ráðstafa, verði áfram í vörslu stefnda.

Lögmaður stefnda hafi upplýst munnlega að óseldar birgðir af barstólnum séu 90 stykki og af lægri stólnum með hærra baki u.þ.b. 10 stykki.

Um kröfulið 3

Krafa stefnanda um staðfestingu lögbanns er byggð á því að þar sem stefnandi eigi þau réttindi sem höfð séu uppi í máli þessu og skilyrði hafi verið til lögbanns samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. beri að staðfesta lögbannið.

Um kröfulið 4

Krafa stefnanda um skaðabætur undir þessum lið sé byggð á 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Um sé að ræða bætur fyrir fjárhagslegt tjón.  Samkvæmt upplýsingum er stefndi hafi lagt fram í lögbannsmálinu hafði hann þá selt 61 stól.  Að svo stöddu sé því sett fram krafa um greiðslu skaðabóta vegna sölu á þessum fjölda stóla.

Krafan taki til þess ágóða er hann hefði haft af sölu sama fjölda eintaka af Bombo-stólnum og seld hafi verið af eftirlíkingunni, sbr. 1. mgr. 56. gr. höfundalaga.  Ágóði af hverju eintaki er selt hafi verið hér á landi á árinu 2003 sé EUR 52,19.  Miðað sé við að stefndi hafi selt 61 eintak af eftirlíkingunni og í samræmi við dómvenju er gerð krafa um skaðabætur er nema tvöfaldri þeirri fjárhæð eða EUR 6.366.

Yrði eingöngu fallist á að brotið hefði verið gegn 20. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 sé um bótagrundvöll skaðabótakröfu vísað til almennu skaðabótareglunnar.

Um kröfulið 5

Krafa um skaðabætur til að standa straum af förgun birgða sé byggð á því að eftir að stefnandi hafi fengið afhentar birgðir af eftirlíkingunni sé honum nauðsynlegt að farga þeim.  Kostnaður við förgun birgðanna sé sagður vera 12,55 krónur fyrir hvert kíló, sbr. gjaldskrá móttökustöðvarinnar í Gufunesi.  Með vísan til þess að samkvæmt merkingu á umbúðum vegur hver pakkning barstóls 12 kg nemur kostnaður vegna eyðingar 100 eintaka að lágmarki 15.060 krónum, (12,55 x 12 x 100 krónur) og sé gerð krafa um greiðslu þeirrar fjárhæðar úr hendi stefnda.

Um kröfulið 6

Krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda og lagarök

Greinargerð var lögð fram af hálfu stefnda í málinu en þar sem stefndi hefur nú fallist á kröfur stefnanda, að málskostnaðarkröfu undanskilinni, þykir ekki ástæða til þess að rekja málsástæður stefnda.

Niðurstaða

Eins og áður er getið var dómur í máli þessum kveðinn upp 15. desember 2005.  Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 12. október 2006, var sá dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.  Málið var tekið fyrir að nýju í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. nóvember 2006.  Voru lögð fram gögn af hálfu stefnanda, þ. á m. matsgerð Þórdísar Zoëga húsgagnahönnuðar.  Þá var málinu frestað til sáttaumleitunar en sættir tókust ekki.

Í þinghaldi 15. desember 2006 var lögð fram yfirlýsing stefnda, Öndvegis ehf.  Í yfirlýsingunni segir: 

„Stefndi fellst á að honum sé óheimilt að flytja inn, bjóða til sölu, selja og flytja út eða ráðstafa með öðrum hætti eintökum af stól, þ.e. barstól, vörunúmer TD0103CA, og lægri stól með hærra baki, vörunúmer TD2368DA, en stóllinn telst eftirlíking af stólnum Bombo sem stefnandi framleiðir. 

Stefndi fellst á að birgðir hans af framangreindum stól verði gerðar upptækar án endurgjalds og muni þær verða afhentar í komandi viku.          

Stefndi fellst á að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð EUR 3.183,59 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. janúar 2005 eða samtals EUR 4.763,41 (miðað er við greiðslu í dag).

Stefndi fellst á að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 15.060 vegna förgunar birgða, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. janúar 2005 eða samtals 21.743 (miðað er við greiðslu í dag).“

Lögmaður stefnda lýsti því jafnframt yfir í þinghaldinu að fallist væri á kröfu um staðfestingu lögbanns.  Þá lýsti lögmaður stefnda því yfir að af hálfu stefnda væri fallist á að málið yrði dómtekið.

Ágreiningur í málinu lýtur því einvörðungu að málskostnaðarkröfum málsaðila en báðir aðilar gera kröfu um að hinn greiði þeim málskostnað í samræmi við framlögð málskostnaðaryfirlit.

Í þinghaldi 18. janúar 2007 lagði lögmaður stefnanda fram áskorun til lögmanns  stefnda um efndir samkvæmt nefndri yfirlýsingu stefnda.  Lögmaður stefnda lagði þá fram gögn, dskj. nr. 47, staðfestingu á greiðslu krafna samkvæmt liðum 4 og 5 í stefnu, nr. 48, staðfestingu á tilraunum stefnda til afhendingar á birgðum samkvæmt lið nr. 2 í stefnu.  Lögmaður stefnda lýsti því yfir að þessar tilraunir hefðu ekki borið árangur þar sem stefnandi hafi ekki viljað taka við birgðunum.  Þá lagði lögmaður stefnda fram nr. 49 yfirlýsingu stefnda um fjölda stóla til afhendingar og stöðu lagers eftir afhendingu þeirra stóla.

Bókað var eftir lögmanni stefnanda að 2. janúar sl. hafi verið beint áskorun til lögmanns stefnda um að fullnægja loforði um efndir á dómkröfum en ekki hafi gefist færi á því að kanna fyrir þinghaldið hvort greiðsla hafi borist.  Ekki hafi legið fyrir af hálfu stefnda fyrr en í þessu þinghaldi yfirlýsing um fjölda stóla í birgðum og lögmaður stefnanda hafi ekki getað veitt stólunum viðtöku án þess að yfirfara skjöl málsins með tilliti til þess að rifja upp hvaða upplýsingar hafi legið fyrir um fjölda stóla fram að því.

Eftir lögmanni stefnda var bókað að orðið hafi verið við áskorun lögmanns stefnanda fyrir þetta þinghald.  Lögmaður stefnda hafi lagt fram að eigin frumkvæði upplýsingar um stöðu birgða.

Lögmaður stefnda lýsti því síðan yfir að hann samþykkti að málið yrði dómtekið án flutnings, en tekið verði tillit til þeirra gagna sem lögð hafi verið fram í þessu og síðasta þinghaldi af hálfu stefnda.  Jafnframt lýsti hann því yfir að hann væri því samþykkur að flutningur um málskostnaðarkröfur aðila færi fram í þinghaldinu.

Fyrir liggur að stefndi hefur samþykkt kröfur stefnanda í málinu.  Hins vegar liggur ekki fyrir staðfesting stefnanda á því að stefndi hafi orðið við áskorun stefnanda um fullar efndir eða að stefndi hafi fullnægt kröfum stefnanda í málinu.  Gögn sem stefndi hefur lagt fram eru ruglingsleg.  Ekki er gerð nein grein fyrir þessum gögnum eða þeim fjárhæðum sem þar eru tilgreindar og eru ekki í samræmi við dómkröfur.  Af þessum gögnum verður ekki ráðið með fullnægjandi hætti að stefndi hafi fullnægt dómkröfum í máli þessu.

Í ljósi yfirlýsingar stefnda, sem áður er getið, ber því að taka til greina kröfur stefnanda samkvæmt kröfuliðum 1 til 2 og 4 til 5.  Lögbann er lagt var á 10. janúar 2005, við því að stefndi flytji inn, bjóði til sölu, selji, flytji úr landi eða ráðstafi með öðrum hætti stól sem er eftirlíking af stólnum Bombo, telst uppfylla ákvæði 24. gr. laga nr. 31/1990 og ber að staðfesta það.

Með dómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum 12. október 2006, var dómur héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju, eins og áður greinir.  Í dómi sínum felldi Hæstiréttur niður málskostnað bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.  Telja verður því að afstaða hafi þegar verið tekin til málskostnaðar í þeim hluta málsins en líta verði til þess sem eftir standi.

Stefndi hefur fallist á kröfur stefnanda í málinu og verða þær teknar til greina.  Ber stefnda því að greiða stefnanda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.  Eftir atvikum þykir málskostnaður til handa stefnanda hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.  Er þá tekið tillit til útlagðs kostnaðar 79.948 krónur og matskostnaðar 226.590 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

                                                                   Viðurkennt er að stefnda, Öndvegi ehf., er óheimilt að flytja inn, bjóða til sölu, selja, flytja út eða ráðstafa með öðrum hætti eintökum af stól, þ.e. barstól, vörunúmer TD0103CA, og lægri stól með hærra baki, vörunúmer TD2368DA, en stóllinn telst eftirlíking af stólnum Bombo sem stefnandi, Magis spa, framleiðir. 

                                                                   Stefndi, Öndvegi ehf., er dæmdur til að þola að birgðir hans af framangreindum stól verði gerðar upptækar án endurgjalds.

                                                                   Staðfest er lögbann er sýslumaðurinn í Reykjavík lagði, hinn 10. janúar 2005, við því að stefndi, Öndvegi ehf., flytji inn, bjóði til sölu, selji, flytji úr landi eða ráðstafi með öðrum hætti stól sem er eftirlíking af stólnum Bombo.

Stefndi, Öndvegi ehf., greiði stefnanda, Magis spa, skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón að fjárhæð EUR 3.183,59 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. janúar 2005 til greiðsludags.

                                                                   Stefndi, Öndvegi ehf., greiði stefnanda, Magis spa, skaðabætur vegna kostnaðar við förgun birgða sem hann fær afhentar við upptöku að fjárhæð 15.060 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. janúar 2005 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.