Hæstiréttur íslands
Mál nr. 535/2006
Lykilorð
- Niðurfelling máls
- Málskostnaður
- Gjafsókn
|
|
Mánudaginn 2. apríl 2007. |
|
Nr. 535/2006. |
M(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn K (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) og gagnsök |
Niðurfelling máls. Málskostnaður. Gjafsókn.
Mál M gegn K var fellt niður að ósk málsaðila, sem jafnframt voru sammála um að leggja það í dóm um málskostnað. Talið var rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti félli niður og að gjafsóknarkostnaður K fyrir réttinum greiddist úr ríkissjóði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 2. ágúst 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 13. september 2006 og áfrýjaði hann öðru sinni 11. október sama ár. Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 7. nóvember 2006. Með bréfi 28. mars 2007 lýstu aðilarnir því yfir að samkomulag hefði tekist um að fella málið niður fyrir Hæstarétti að öðru leyti en því að það gengi til dóms um málskostnað. Þau krefjast hvort um sig málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi hins, en gagnáfrýjandi gerir þá kröfu fyrir sitt leyti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Með vísan c. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 166. gr. sömu laga eins og henni var breytt með 20. gr. laga nr. 38/1994, er málið fellt niður fyrir Hæstarétti.
Rétt er að málskostnaður falli niður fyrir Hæstarétti.
Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Mál þetta er fellt niður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda, K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2006.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af M, , Kópavogi, gegn K, Kópavogi, með stefnu áritaðri um birtingu 28. júní 2005.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.267.741 krónum ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 12. febrúar 2005 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að henni verði dæmdur málskostnaðar úr hendi stefnanda auk virðisaukaskatts samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Með bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 22. nóvember 2005 fékk stefnandi gjafsókn í málinu.
Með bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 11. október 2005 fékk stefnda gjafsókn í málinu.
II.
Málavextir eru þeir að málsaðilar eru fyrrverandi sambúðarfólk og eiga saman tvo syni. Þau voru í skráðri sambúð frá 17. október 2000 til 22. ágúst 2001 en samband þeirra hófst í apríl 1999 og fluttu þau saman í A í ágústmánuði sama ár. Þann 10. mars 2000 slitnaði upp úr sambúð þeirra en einum og hálfum mánuði síðar tóku aðilar aftur upp sambúð og stefnda flutti í A á nýjan leik. Hinn 4. desember 2001 festi stefnda kaup á íbúð í B og fékk hana afhenta 2. mars 2002 og um miðjan marsmánuð flutti stefnandi inn til stefndu á nýjan leik án þess þó að Hagstofu væri send tilkynning um sambúðina. Aðilar slitu sambúð sinni 8. nóvember 2002.
Þann 23. ágúst 2000 tók stefnandi 900.000 krónur út af tékkareikningi sínum og afhenti stefndu en sama dag festi stefnda kaup á Nissan Terrano bifreið fyrir 2.320.000 krónur. Sama dag lagði stefnda 256.259 krónur inn á tékkareikning stefnanda. Stefnda hafði selt WV Golf bifreið sína í apríl sama ár á 850.000 krónur.
Þann 24. apríl 2002 greiddi stefnandi út af tékkareikningi sínum 137.000 krónur til fyrirtækisins Laser-Sjón ehf. til greiðslu á reikningi vegna augnaðgerðar stefndu. Þann 17. maí 2002 greiddi stefnandi aftur 137.000 krónur til sama fyrirtækis vegna augnaðgerðarinnar en samið hafði verið um að reikningur fyrirtækisins fyrir augnaðgerðinni yrði greiddur í tvennu lagi. Reikningarnir eru gefnir út á nafni stefndu.
Þann 21. maí 2002 millifærði stefnandi af tékkareikningi sínum og inn á tékkareikning stefndu 350.000 krónur.
III.
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi veitt stefndu peningalán sem henni sé skylt að endurgreiða samkvæmt almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Sú meginregla gildi að fari greiðsla milli aðila sé um peningalán að ræða nema viðtakandi geti fært viðhlítandi sönnur fyrir því að greiðslan hafi verið gjöf eða endurgjald af einhverju tagi.
Um sé að ræða fjórar mismunandi greiðslur sem runnið hafi beint til stefndu eða verið greiddar í hennar þágu. Greiðslurnar hafi ekki farið fram á sambúðartíma aðila og ekki staðið í neinu sambandi við sambúð þeirra. Ekki sé því unnt að halda því fram að með fjárframlögunum hafi stefnandi verið að sinna framfærsluskyldu sinni gagnkvæmt börnunum. Séu þrjár greiðslnanna inntar af hendi eftir að sambúð aðila lauk og eftir að stefnandi hafði hafið greiðslu meðlags með börnunum.
Stefnandi sendi stefndu innheimtubréf dagsett 12. janúar 2005 og miðar upphafstíma dráttarvaxtakröfu við það tímamark þegar mánuður er liðinn frá þeim degi þegar stefnandi krafði stefndu um greiðslu með sannanlegum hætti. Heildarfjárhæð skuldarinnar nemi 1.267.741 krónum sem sé þannig fengin að frá 900.000 krónum dragist 256.259 krónur sem stefnda greiddi inn á tékkareikning stefnda sama dag og hann greiddi henni 900.000 krónur en við bætist reikningsfjárhæðirnar vegna augnaðgerðanna 274.000 krónur (137.000+137.000) og 350.000 krónur vegna innlagnar stefnanda inn á tékkareikning stefndu.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, sem fái m.a. lagastoð í 45.-49. gr. og 51.-53. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Þá vísi stefnandi til fordæma, m.t.t. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr 185/1999. Kröfu sína um dráttarvexti styður stefnandi við 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en krafan um virðisaukaskatt er reist á ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV.
Stefnda byggir kröfur sínar á því að hún skuldi stefnanda ekkert heldur sé stefnandi í skuld við stefndu vegna sannanlegra útgjalda hennar í hans þágu.
Kröfu stefnanda um að stefnda skuldi stefnanda 900.000 krónur vegna bifreiðakaupa stefndu 23. ágúst 2000 er mótmælt. Í fyrsta lagi krefst stefnda sýknu á grundvelli fyrningar kröfunnar þar sem stefnandi hafi ekki haldið kröfunni upp á stefndu fyrr en með bréfi dagsettu 12. janúar 2005 en þá hefðu verið liðin rúm fjögur ár frá því viðskipti með bifreiðina áttu sér stað. Verði ekki fallist á málsástæðu um fyrningu, byggir stefnda á því að hún hafi aldrei skuldað stefnanda umkrafða fjárhæð enda hafði stefnandi ekki krafist greiðslu hennar fyrr en undir rekstri forsjármáls aðila. Þá hefði umkrafin fjárhæð verið innt af hendi meðan á sambúð aðila stóð enda hafi þau í raun búið saman mun lengur en framlagt vottorð Hagstofu segi til um.
Stefnda vísi jafnframt til þess að hún hafi selt WV Golf bifreið sína á 850.000 krónur skömmu áður en hún keypti Nissan Terrano bifreiðina og hafi hún notað söluandvirðið til bifreiðakaupanna. Þá hafi hún sýnt fram á með gögnum að hún greidi 256.269 krónur inn á reikning stefnanda á kaupsamningsdaginn, m.a. vegna greiðslu kaupverðs og þungaskatts. Stefnandi hefði farið á bílasöluna og gengið frá bifreiðakaupunum fyrir stefndu en sú fjárhæð sem hann greiddi við það tækifæri, hefði öll komið frá stefndu. Stefnda byggir á því að eign hennar í WV Golf bifreiðinni og millifærsla hennar á reikning stefnda á kaupsamningsdegi sanni það. Stefnandi hafi hins vegar ekki sýnt fram á að hann hafi átt peninga til bifreiðakaupanna enda hefði hann verið á atvinnuleysisbótum á þessum tíma.
Að því er varðar kröfu stefnanda á greiðslu á 350.000 krónum krefst stefnda sýknu með vísan til þess að sú fjárhæð hafi að fullu og öllu verið greidd. Stefnda hafi fengið umkrafða fjárhæð í laun fyrir vinnu við framkvæmdir í húsfélaginu að B. Stefnda hafi útvegað þeim stefnanda verkið en þau hefðu boðið í verkið í nafni C ehf. sem þá hafi verið í eigu stefnanda. Stefnda hafi unnið við verkið ásamt stefnanda og hefði orðið að samkomulagi með aðilum að stefnda fengi 350.000 krónur í sinn hlut og hefði fengið fjárhæðina greidda fyrirfram í tengslum við afsal af íbúð stefndu sem hún festi kaup á í B. Þegar reikningurinn fyrir verkið fékkst greiddur, hefði stefnandi fengið andvirði hans í sinn hlut og þannig hefði stefnda greitt skuld sína.
Þá bendir stefnda á að stefnandi hafi ekki sýnt fram á hvernig hann hafi haft fjármagnslega burði til að veita stefndu þau lán sem hann krefst greiðslu á í stefnu þar sem hann hafi þegið atvinnuleysisbætur á þessum tíma auk þess sem framlögð gögn sýni að hann hafi átt í verulegum greiðsluerfiðleikum.
Um lagarök vísar stefnda til ákvæða laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, einkum 3. gr. laganna. Jafnframt vísar stefnda til almennra reglna kröfu- og samningaréttar og almennra reglna um sönnun.
V.
Óumdeilt er að ekki var sameiginlegt fjárfélag með málsaðilum á sambúðartíma þeirra. Samkvæmt gögnum málsins tók stefnandi 900.000 krónur út af tékkareikningi sínum 23. ágúst 2000 og bar stefnandi fyrir dóminum að hann hefði farið á bílasölu með þá fjárhæð og telur að fjárhæðin hafi farið inn á kaupverð Nissan Terrano bifreiðar fyrir stefndu en samkvæmt gögnum málsins undirritaði stefnda sama dag kaupsamning vegna kaupa hennar á Nissan Terrano bifreið á 2.320.000 krónur. Stefnda ber fyrir sig fyrningu að því er þennan kröfulið varðar. Ekki verður á það fallist með stefndu að krafan sé fyrnd þar sem telja verður að skuld sem þessi fyrnist á 10 árum samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 4. gr. laga um fyrningu nr. 14/1905.
Í öðru lagi byggjast mótmæli stefndu á greiðsluskyldu sinni samkvæmt þessum kröfulið á því að stefnandi hafi ekki greitt umrædda fjárhæð inn á bifreiðakaup hennar heldur hefði hún sjálf fjármagnað þau með söluandvirði Golf bifreiðar sinnar, sem sýnt er fram á í gögnum málsins að hún seldi 19. apríl sama ár á 850.000 krónur, auk þess sem hún hafi tekið bílalán. Óumdeilt er og ljóst af gögnum málsins að sama dag tók stefnda 256.269,84 krónur út af tékkareikningi sínum og lagði inn á reikning stefnanda. Hún hefur borið að það sé endurgreiðsla á bifreiðagjöldum og þungaskatti vegna Nissan Terrano bifreiðarinnar sem stefnandi hafi séð um að greiða fyrir hana. Gegn mótmælum stefndu er ósannað að stefnandi hafi lánað stefndu framangreindar 900.000 krónur enda hefur hann ekki getað sýnt fram á það með gögnum að peningarnir hafi runnið til stefnanda. Verður ákærða því sýknuð af kröfu stefnanda að því er varðar 900.000 krónur.
Óumdeilt er að stefnandi greiddi fyrir augnaðgerð stefndu samkvæmt framlögðum reikningum frá Laser-Sjón sem dagettir eru 24. apríl og 17. maí 2002. Stefnda hefur mótmælt greiðsluskyldu sinni samkvæmt reikningunum á þeim forsendum að um það hefði samist að stefnandi greiddi augnaðgerðina fyrir stefndu þar sem sjúkradagpeningar, sem hún fékk greidda, hefðu runnið til reksturs sameiginlegs heimilis þeirra. Stefnandi kannaðist ekki við að þau stefnda hefðu samið um slíkt fyrirkomulag og þar sem ekkert annað er fram komið, sem styður framburð stefndu að þessu leyti, verður að telja ósannað að greiðsla stefnanda á reikningunum séu endurgjald hans til stefndu. Stefnda hefur ekki sýnt fram á að um eitthvað annað en lán hafi verið að ræða og þykja vitnisburðir vitnanna D og E, vinkvenna stefndu, um að stefnda hafi sagt stefnanda hafa gefið sér augnaðgerðina, ekki breyta niðurstöðunni að þessu leyti. Verður því að líta svo á að greiðsla stefnanda á reikningunum vegna augnaðgerðarinnar að fjárhæð samtals 274.000 krónur hafi verið peningalán sem stefndu bar að greiða þegar stefnandi krafðist greiðslu. Verður því stefndu gert að greiða stefnanda framangreinda fjárhæð samkvæmt þessum kröfulið.
Óumdeilt er og sannað með gögnum að stefnandi millifærði 350.000 krónur af reikningi sínum hjá Landsbanka Íslands inn á reikning stefndu þann 21. maí 2002. Af hálfu stefnanda er á því byggt að um lán hafi verið að ræða og hafi stefnda notað peningana upp í útborgun við kaup á íbúð sinni rúmri viku síðar.
Stefnda hefur mótmælt því að framangreind greiðsla hafi verið lán. Þau stefnandi hefðu gert tilboð í verk sem fólst í vinnu við leiksvæði við B sem aðilar hefðu ætlað að vinna að saman. Stefnda heldur því fram að með aðilum hafi samist á þann veg að stefnda fengi umrædda fjárhæð til að borga lokagreiðslu vegna íbúðarkaupanna og fengi þannig greitt fyrir fram inn á þá fjárhæð sem hún ætti að fá fyrir vinnu sína við verkið í B. Lýsti stefnda aðkomu sinni að verkinu á þann veg að hún hefði gert tilboðið í verkið og reikninginn fyrir það auk þess sem hún hefði tekið þátt í lóðarvinnunni. Vitnið F, vinkona stefndu, bar fyrir dóminum að stefnda hefði útvegað umrætt verk og kvaðst hún hafa séð stefndu vinna í lóðinni. Þá bar hún fyrir dóminum að stefnda hafi sagt sér að hún ætti að fá greitt um það bil 350.000 krónur fyrir vinnu sína. Stefnandi hefur mótmælt því að með umræddri greiðslu hafi hann verið að greiða stefndu fyrirfram fyrir hlutdeild hennar í verki því, sem unnið var fyrir húsfélagið að B, enda hefði verkið verið unnið af fyrirtæki í eigu stefnanda og neitaði stefnandi því að um það hefði samist með aðilum um að stefnda fengi greiddar 350.000 krónur fyrir aðkomu sína að verkinu.
Í málinu liggur frammi ljósrit tilboðs C ehf., sem er fyrirtæki í eigu stefnanda, dagsett 15. ágúst 2002 vegna framkvæmda á leiksvæði við B sem þar er nánar lýst. Tilboðið er undirritað af stefnanda fyrir hönd fyrirtækis hans. Samkvæmt framburði stefndu gerði hún umrætt tilboð og útbjó reikning fyrir verkið sem dagsettur er 9. október 2002. Stefndu hefur ekki tekist að sanna, gegn neitun stefnanda, að umrædd greiðsla, sem tekin var út af persónulegum reikningi stefnanda en lögð inn á reikning stefndu í maí 2002, hafi verið innborgun inn á greiðslu sem hún átti að fá fyrir aðkomu sína að verkinu enda var verkið unnið í nafni C ehf. eins og stefndu var kunnugt um. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt vitnið F hafi staðfest hér fyrir dóminum að stefnda hafi unnið við lóðaframkvæmdirnar og haft eftir stefndu að hún ætti að fá greitt fyrir það. Ber því að fallast á það með stefnanda að umkrafin fjárhæð hafi verið lán hans til stefndu. Verður stefnda því dæmd til að greiða stefnanda umkrafðar 350.000 krónur sem hann sannanlega greiddi henni í maí 2002 eins og áður er lýst.
Eftir framansögðu ber stefndu að greiða stefnanda 624.000 krónur. Samkvæmt gögnum málsins krafði stefnandi stefndu fyrst um greiðslu skuldarinnar með innheimtubréfi dagsettu 12. janúar 2005. Með vísan til ákvæða 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 ber stefndu að greiða stefnanda dráttarvexti af dæmdri fjárhæð frá 12. febrúar 2005 til greiðsludags.
Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 400.000 krónur, sem er þóknun lögmanns stefnanda að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Gjafsóknarkostnaður stefndu, 400.000 krónur, sem er þóknun lögmanns stefnanda að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefnda, K, greiði stefnanda, M, 624.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 12. febrúar 2005 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 400.000 krónur, sem er þóknun lögmanns stefnanda, Daggar Pálsdóttur hrl., að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Gjafsóknarkostnaður stefndu, 400.000 krónur, sem er þóknun lögmanns stefndu, Hildar S. Pétursdóttur hdl., að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.