Hæstiréttur íslands

Mál nr. 635/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Mánudaginn 15. nóvember 2010.

Nr. 635/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Oddgeir Einarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember  2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 25. nóvember 2010 klukkan 16 og sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hann þess að hann þurfi ekki að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 25. nóvember nk. kl. 16.  Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði, X, hafi sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála frá 4. nóvember sl., til dagsins í dag kl. 16, skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sterklega grunaður um sölu, framleiðslu og dreifingu fíkniefna.

Í tengslum við rannsókn lögreglu á meintri framleiðslu fíkniefna í sumarbústað við A í [...] hafi lögregla framkvæmt 20. október sl., að undangengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, húsleit á heimili kærða X, að B í [...], þar sem lögregla hafi fundið tæp tvö kíló af marihúana, rúm 200 gr. af amfetamíni, mikið magn amfetamínvökva, rúmar 5 milljónir króna í reiðufé og húslykil, merktum húsnæði að C í [...]. 

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. september nr. R-350/2010 hafi lögreglu verið veitt heimild til að koma fyrir eftirfararbúnaði í bifreið meðkærða Y [...] í því skyni að kanna með ferðir bifreiðarinnar.  Sú könnun hafi leitt í ljós að bifreiðinni hafi m.a. margsinnis verið ekið að umræddu húsnæði að C í [...].  Að undangengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 20. október sl. hafi lögregla framkvæmt húsrannsókn í geymslurýminu, þar sem lögregla hafi fundið og lagt hald á kannabisræktun.  Hafi ræktuninni verið mjög vel fyrir komið í húsnæðinu og ljóst að mikil vinna og skipulagning hafi farið í að útbúa húsnæðið, sjá nánar skýrslu lögreglu.

Lögregla hafi leitað kærða X í um tvær vikur er hann gaf sig fram við lögreglu 3. nóvember sl. 

Kærði hafi hjá lögreglu viðurkennt að hafa staðið að kannabisræktuninni að C í [...], svo og að hafa framleitt amfetamín á heimili sínu að B í [...].  Hann kveðst þó ekki hafa lagt stund á sölu fíkniefna.

Kærði, sem hafi verið án atvinnu um alllangt skeið, kveður að hið mikla reiðufé sem hafi fundist á heimili hans sé gjöf annars vegar frá foreldrum sínum í [...] og hins vegar guðmóður í [...].  Hann kveðst hafa komið með peningana hingað til lands í evrum og selt hér á landi fyrir íslenskar krónur.

Rannsókn málsins miði vel fram, en málið sé talið tengjast vel skipulagðri framleiðslu og dreifingu fíkniefna. 

Ljóst sé að taka þarf frekari skýrslur af kærða.   Þá liggi fyrir lögreglu að hafa uppi á foreldrum hans og guðmóður í því skyni að yfirheyra þau, svo og þeim aðilum sem eigi að hafa keypt hinn erlenda gjaldeyri af honum.  En það sé ætlun lögreglu að umrætt reiðufé sé afrakstur fíkniefnasölu kærða.

Í ljósi þess að rannsókn málsins er á viðkvæmu stigi sé afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina, þannig að kærði fái ekki tækifæri til að  torvelda rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra hugsanlega samseka eða vitni. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með vísan til framangreinds og hjálagðra gagna liggur fyrir að kærði er undir rökstuddum grun um aðild að skipulagðri framleiðslu og dreifingu fíkniefna, sem getur varðað hann fangelsisrefsingu. Kærði hefur viðurkennt framleiðslu fíkniefna en neitar því að hafa lagt stund á sölu þeirra. Rannsókn málsins er ólokið og verður að telja að rannsóknarhagsmunir séu enn fyrir hendi og er fallist á að ætla megi að kærði geti torveldað rannsókn málsins, t.d. með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gangi hann laus. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er því fullnægt til að hann sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Með sömu rökum er fallist á að  kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga. Ekki eru efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Er því fallist á kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, kt. [...] skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 25. nóvember nk. kl. 16.  Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.