Hæstiréttur íslands
Mál nr. 849/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru, sem barst héraðsdómi 19. desember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. desember 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið í heild til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar „líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál.“
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila var veitt gjafsókn 12. apríl 2016, sem takmörkuð var við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, að undanskildum tilvikum samkvæmt 4. og 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991, sem hér eiga ekki við. Að því gættu verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Gunnhildur Ragnarsdóttir, greiði varnaraðila, Kjartani Kjartanssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. desember 2016.
Mál þetta var tekið til úrlausnar um mögulega sjálfkrafa frávísun hluta þess í dag. Það var höfðað 23. febrúar 2016.
Stefnandi er Gunnhildur Ragnarsdóttir, Efstahjalla 3, Kópavogi. Stefndi er Kjartan Kjartansson, Norðurgötu 28, Akureyri.
Ágreiningur aðila snýst í fyrsta lagi um kröfu stefnanda um greiðslu nánar tiltekinnar skuldar. Er ekki álitaefni hér að dæmt verði efnislega um þann kröfulið.
Í 2. lið kröfugerðar stefnanda er höfð uppi krafa um skaðabætur að fjárhæð 1.661.000 krónur með nánar tilteknum vöxtum frá 27. apríl 2012. Kveðst stefnandi hafa keypt bifreið þann dag og greitt fjárhæðina fyrir hana. Hafi stefndi þó náð að ,,plata“ hana til að skrá bifreiðina á hans nafn. Hafi stefndi síðan tekið bifreiðina í sínar vörslur í október 2014 og neitað að afhenda hana. Kveður stefnandi stefnda hafa slegið eign sinni á bifreiðina með ólögmætum hætti. Hafi stefndi selt bifreiðina og sé gerð krafa um bætur að fjárhæð 1.661.000 krónur vegna kaupverðs hennar auk vaxta.
Af þessu verður ráðið að stefnandi krefjist skaðabóta sem nemi kaupverði bifreiðarinnar árið 2012, þrátt fyrir að hún hafi ekki misst vörslur hennar fyrr en árið 2014. Verður ekki annað ráðið en að stefnandi hafi haft full not af bifreiðinni fram að því. Engin rök eru færð fyrir því að bifreiðin hafi ekki rýrnað að verðmæti frá því að stefnandi keypti hana uns stefndi tók hana í sínar vörslur samkvæmt lýsingu stefnanda á atvikum og er ekki tekið fram að á því sé byggt, heldur virðist miðað við að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni þegar hún keypti bifreiðina.
Að þessu gættu þykir bótakrafa stefnanda í þessum lið svo vanreifuð að hún uppfylli ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991 um skýran málatilbúnað. Verður þessum kröfulið vísað sjálfkrafa frá dómi.
Í 3. lið dómkrafna stefnanda er krafist bóta vegna tapaðra leigutekna vegna sömu bifreiðar sumarið 2015. Miðast krafan við leigu að fjárhæð 100.000 krónur á viku í 16 vikur, samtals 1.600.000 krónur. Er byggt á því að henni hafi verið gert tilboð um 100.000 krónur á viku. Þessu til staðfestingar er lagt fram skjal þar sem virðist hafa verið spurt á rafrænum samskiptamiðli hvort stefnandi vildi leigja lyftubíl í viku á 100.000 krónur. Þykir ekki hafa verið með þessu lagður nægilegur grundvöllur að kröfu stefnanda í þessum lið, sbr. e- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður þessum lið því einnig vísað sjálfkrafa frá dómi.
Erlingur Sigtryggsson kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Vísað er sjálfkrafa frá dómi liðum 2 og 3 í kröfugerð stefnanda, Gunnhildar Ragnarsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður bíður efnisdóms.