Hæstiréttur íslands

Mál nr. 339/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Fjárnám
  • Greiðsluaðlögun


                                                                                              

Fimmtudaginn 22. maí 2014.

Nr. 339/2014.

 

Sigurjón Ásbjörn Hjartarson

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Fjárnám. Greiðsluaðlögun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem bú S var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu L hf. á grundvelli árangurslauss fjárnáms. Kröfu sína á hendur S reisti L hf. á sex nánar tilgreindum samningum um fjármögnunarleigu. S hélt því m.a. fram að samningarnir væru að efni til lánssamningar og að ákvæði þeirra um tengingu greiðslna við gengi erlendra gjaldmiðla væru ólögmæt í skilningi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá byggði S á því að með móttöku umboðsmanns skuldara á umsókn hans um greiðsluaðlögun 22. nóvember 2010 hefði hann komist í svokallað greiðsluskjól samkvæmt ákvæðum laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Fjárnámsgerðin 9. apríl 2013, sem L hf. reisti kröfu um gjaldþrotaskipti á, hefði þannig verið ólögmæt. Í dómi Hæstaréttar var fallist á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að umræddir samningar um fjármögnunarleigu væru leigusamningar og því hefðu ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki girt fyrir að aðilunum hefði verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Þá var tekið fram að af c. lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 leiddi að óheimilt hefði verið að fá gert fjárnám í eigum S eftir móttöku umsóknar hans um greiðsluaðlögun. Það kæmi hins vegar ekki í veg fyrir að krafa um gjaldþrotaskipti næði fram að ganga. Fjárnámsgerðin væri enda sönnunargagn um ógjaldfærni S og gæti það eitt út af fyrir sig engu breytt um slíkt sönnunargildi þess hvort gerðarbeiðanda hafi brostið heimild til að leita fjárnáms. S hefði að öðru leyti í engu hnekkt þeim líkindum fyrir ógjaldfærni sinni, sem leidd yrðu af fjárnámsgerðinni. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst héraðsdómi 6. maí 2014 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. apríl 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins beindi varnaraðili 14. maí 2013 til héraðsdóms kröfu um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í kröfunni kom meðal annars fram að varnaraðili teldi sóknaraðila standa í skuld við sig að höfuðstól samtals 45.050.620 krónur á grundvelli sex nánar tilgreindra samninga um fjármögnunarleigu, svo og að krafan væri sett fram með stoð í 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 með því að árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá sóknaraðila 9. apríl 2013. Krafa varnaraðila var tekin fyrir á dómþingi 3. júlí 2013 og tók sóknaraðili til varna gegn henni. Svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði lúta þær í meginatriðum annars vegar að því að óheimilt hafi verið að gera fjárnám hjá sóknaraðila á fyrrgreindum tíma vegna ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga og hins vegar að með réttu eigi varnaraðili enga fjárkröfu á hendur sóknaraðila.

Í málinu liggur fyrir staðfesting umboðsmanns skuldara 2. júlí 2013 á því að honum hafi borist 22. nóvember 2010 umsókn frá sóknaraðila um greiðsluaðlögun eftir ákvæðum laga nr. 101/2010, svo og að tímabundin frestun greiðslna samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða við lögin, sbr. 11. gr. þeirra, sem hófst við móttöku umsóknarinnar, væri ekki fallin niður við ritun þeirrar staðfestingar. Þegar mál þetta var tekið fyrir í héraðsdómi 13. janúar 2014 var fært til bókar að sóknaraðili hafi upplýst í þinghaldinu að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi hafnað umsókn hans um greiðsluaðlögun, en samkvæmt 6. mgr. áðurnefnds bráðabirgðaákvæðis við lög nr. 101/2010 féll tímabundin frestun greiðslna niður þegar þau málalok voru fengin. Af þessu er ljóst að fjárnámið, sem lokið var án árangurs hjá sóknaraðila 9. apríl 2013 og varnaraðili studdi kröfu um gjaldþrotaskipti við, fór fram meðan tímabundin frestun greiðslna sóknaraðila stóð yfir. Samkvæmt c. lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 var gerðarbeiðanda, sem í því tilviki var sýslumaðurinn á Selfossi, óheimilt að fá gert fjárnám í eigum sóknaraðila á því tímabili. Að því verður á hinn bóginn að gæta að árangurslaust fjárnám, sem krafa um gjaldþrotaskipti er studd við eftir 1. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, er sönnunargagn um ógjaldfærni skuldara og getur það eitt út af fyrir sig engu breytt um slíkt sönnunargildi þess hvort gerðarbeiðanda hafi með réttu brostið heimild til að leita fjárnáms, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 18. febrúar 2011 í máli nr. 58/2011. Í málatilbúnaði sóknaraðila hefur því hvorki verið hreyft að hann sé eða verði innan skamms tíma fær um að greiða kröfu varnaraðila né að fyrir hendi séu eignir, sem benda mætti á ef fjárnám yrði gert fyrir henni. Sóknaraðili hefur því í engu hnekkt þeim líkindum fyrir ógjaldfærni sinni, sem leidd verða af fjárnámsgerðinni 9. apríl 2013. Að því gættu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, sem varða aðrar varnir gegn kröfu sóknaraðila, verður niðurstaða úrskurðarins staðfest.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sigurjón Ásbjörn Hjartarson, greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. apríl 2014.

Með beiðni, dagsettri 6. maí 2013, sem móttekin var 14. sama mánaðar, krafðist Lýsing hf., kt. 621101-2420, Ármúla 3, Reykjavík, þess að bú Sigurjóns Ásbjarnar Hjartarsonar, kt. 200455-2749, til heimilis að Brjánsstöðum, Grímsnes- og Grafningshreppi, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Málið fékk númerið G-105/2013.

Ofangreint mál var þingfest þann 3. júlí 2013. Mætt var af hálfu skuldara sem mótmælti kröfunni. Var þá þingfest ágreiningsmál þetta, sbr. 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991. Að fenginni staðfestingu þess að varnaraðili hefði skotið ákvörðun umboðsmanns skuldara, um að hafna beiðni skuldara um greiðsluaðlögun, til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála var málinu frestað þar til niðurstaða kærunefndarinnar lægi fyrir. Með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 92/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, og dóms Hæstaréttar í málinu nr. 693/2011 var málinu frestað. Í þinghaldi þann 13. janúar 2014 upplýsti varnaraðili að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi hafnað umsókn varnaraðila um greiðsluaðlögun. Varnaraðili, sem ítrekaði mótmæli við kröfu sóknaraðila, lagði fram greinargerð og var málinu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu sóknaraðila til 27. janúar sl. Þann dag lagði sóknaraðili fram greinargerð. Málinu var aftur frestað meðan beðið var dóms í máli Hæstaréttar nr. 638/2013, en það mál hafði fordæmisgildi varðandi mál það sem hér er til meðferðar. Dómur Hæstaréttar í framangreindu máli féll þann 13. mars sl.  Munnlegur málflutningur fór síðan fram þann 28. mars sl., og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum.  

I.

Sóknaraðili, Lýsing hf., krefst þess að bú varnaraðila, Sigurjóns Ásbjarnar Hjartarsonar, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Fram kemur í kröfu sóknaraðila að krafan byggi á 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kröfu sinni til stuðnings vísar sóknaraðili til þess að þann 9. apríl 2013, hafi verið gert árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila og ekkert gefi til kynna að skuldari sé fær um að standa í skilum nú þegar eða innan skamms. Þá er því lýst að krafa hans byggi á fjárkröfu að höfuðstól 45.050.620 kr., samkvæmt sex fjármögnunarleigusamningum, um bifreiðar og vinnuvélar, en samningunum hafi öllum verið rift þann 16. mars 2011. Umræddir samningar fylgdu kröfu sóknaraðila, sem og afrit af riftun samninganna, auk annarra gagna. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

II.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað. Byggir varnaraðili kröfu sína á því að hið árangurslausa fjárnám, sem sóknaraðili byggi kröfu sína á, hafi verið ólögmætt auk þess sem sóknaraðili sé ekki lánardrottinn í skilningi 65. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu.

III.

Óumdeilt er að aðilar máls þessa gerðu, á árunum 2004 – 2007, með sér sex samninga sem ýmist bera yfirskriftina „samningur um fjármögnunarleigu“ eða „fjármögnunarleigusamningur“. Þessa samninga kveður sóknaraðili vera í vanskilum og hafi þeim vegna þess verið rift með skeyti dagsettu 16. mars 2011, sem afhent hafi verið varnaraðila næsta dag. Samkvæmt yfirskrift allra samninganna eru þeir gengistryggðir. Samningarnir skiptast í sérstaka skilmála, greinar nr. 1-10, og almenna skilmála, greinar nr. 11-35. Ágreiningur aðila snýr efnislega að því hvort umræddir samningar teljist vera leigusamningar líkt og heiti þeirra gefur til kynna, eða lánasamningar, líkt og varnaraðili heldur fram. Af þessum sökum er rétt að gera grein fyrir efni samninganna.

Í öllum samningunum er sóknaraðili tilgreindur sem leigusali, varnaraðili sem leigutaki og loks er seljandi, sem í öllum tilvikum er þriðji aðili, tilgreindur í 3. gr., sem ber heitið „seljandi“. 1. gr. samninganna ber heitið „hið leigða“. 2. gr. ber heitið „leigugrunnur“ og er leigugrunnur viðkomandi samnings tilgreindur í íslenskum krónum með og án virðisaukaskatts. Skipting leigugrunns án virðisaukaskatts er síðan tengdur við nánar tilgreindar erlendar myntir, auk þess sem fram koma upplýsingar um gengi og fjárhæð hinna erlendu mynta. 4. gr. samninganna ber heitið „grunnleigutími“ og þar er tilgreindur grunnleigutími, dagsetning fyrstu greiðslu, fjöldi greiðslna, fjöldi mánaða og greiðsludagsetningar. 5. gr. ber heitið „greiðslutilhögun“ og þar skal gera grein fyrir skiptingu greiðslna innan árs, tengt viðkomandi erlendri mynt. 6. gr. ber heitið „mánaðarleg framhaldsleiga hefst frá lokum grunnleigutíma“. Þar skal tilgreina upphafsdagsetningu framhaldsleigu auk fjárhæð leigunnar, tengda viðkomandi erlendri mynt. 7. gr. ber heitið „vátryggt hjá“ og þar skal vátryggingarfélag tilgreint sem og tryggingartegund. 8. gr. ber heitið „greiðslutryggingar“ og þar skal ábyrgðarmaður/eigandi veðs tilgreindur. Um slíka tilgreiningu er ekki að ræða í þeim samningum sem hér um ræðir. 9. gr. ber heitið „fylgiskjöl með samningi“. Slíkra fylgiskjala er aðeins getið í einum samninganna, samningi nr. 112910-11-12-13, þar sem segir „reikningur“ án nánari tilgreiningar. Loks ber 10. gr. hinna sérstöku skilmála samninganna heitið „sérstakir skilmálar“. Þar skal í fyrsta lagi tilgreina fjárhæð hlutaleigu sem leigutaki skal greiða og gjalddaga, í öðru lagi gengi miðað við tiltekinn samningsdag og í þriðja lagi skal tilgreina prósentu libor vaxta á samningsdegi auk prósentu álags. 

Eins og áður greinir eru ákvæði hinna almennu skilmála samninganna í greinum 11-35. Hér verða þau ákvæði rakin sem helst snerta ágreining aðila. Neðangreind ákvæði eiga það sammerkt að vera efnislega samhljóða í öllum samningunum sex. Í 12. gr. er tekið fram að leigusamningurinn framlengist ótímabundið að loknum grunnleigutíma skv. 6. gr. samningsins. Í sömu grein er tekið fram að leigutaki geti þó sagt hinum framlengda leigusamningi upp skriflega með eins mánaðar fyrirvara enda skili hann hinu leigða. Í 13.-14. gr. segir að leigusala sé heimilt að endurreikna leiguna miðað við breytingar á gengi og libor vöxtum. Í 15. gr. kemur fram að leigusali sé einn eigandi hins leigða og sé leigutaka óheimilt að stofna til nokkurra löggerninga um hið leigða og það sé ekki gilt andlag aðfarar skuldheimtumanna leigutaka. Ákvæði 28. gr., sem ber heitið riftun, er samhljóða í þremur samninganna, samningum nr. 133-231, 135-783 og 142-512. Þar eru tilgreindar sem dæmi fimm riftunarástæður. Samkvæmt því er leigusala m.a. heimilt að rifta samningi ef leigutaki greiðir ekki samningsbundnar greiðslur á umsömdum gjalddaga og eru vanskil eldri en fimmtán dagar riftunarástæða. Í hinum þremur samninganna, samningum nr. 112-910-11-12-13, 118-737 og 120-845, eru einnig samhljóða riftunarákvæði í 28. gr., en þar eru tilgreindar sem dæmi níu riftunarástæður, m.a samhljóða ákvæði um greiðslufall og rakið er hér að ofan að því undanskildu að ekki er ákvæði um tilskilinn fjölda vanskiladaga. Í 29. gr. er fjallað um skil leigumunar. Í öllum samningunum sex er samhljóða ákvæði um það að sé samningi sagt upp samkvæmt 19. gr. (vanefndir seljanda), 21. gr. (tjón á leigumun) eða 28. gr. (riftun), skuli leigutaki tafarlaust skila hinu leigða á þann stað er leigutaki tilgreinir. Í 30. gr. er fjallað um uppgjör milli samningsaðila vegna framangreindra loka samnings. Samkvæmt öllum samningunum skal leigutaki við uppgjör greiða alla ógjaldfallna leigu, skatta, gjöld, vátryggingar og annan kostnað með dráttarvöxtum. Einnig skal leigutaki greiða allar gjaldfallnar leigugreiðslur ásamt vöxtum og kostnaði, auk kostnaðar vegna uppsagnar eða riftunar og vegna innheimtuaðgerða. Frá skuld leigutaka, sbr. hér að framan, skuli m.a. dragast frá verðmæti hins leigða.

IV.

Sóknaraðili kveðst eiga ógreidda kröfu samkvæmt sex fjármögnunarleigusamningum, og nemur hún samkvæmt gjaldþrotaskiptakröfunni með dráttarvöxtum og kostnaði samtals 54.790.670 krónum.

Varnaraðili mótmælir kröfunni í fyrsta lagi á þeim grunni að hin árangurslausa fjárnámsgerð hafi verið ólögmæt þar sem varnaraðili hafi verið í svokölluðu greiðsluskjóli.   

Varnaraðili telur í öðru lagi að samningar þeir sem sóknaraðili byggir kröfu sína á séu lánasamningar og falli undir gildissvið VI. kafla laga nr. 38/2001 og því séu ákvæði þeirra um gengistryggingu ólögmæt og óskuldbindandi fyrir varnaraðila. Þá telur varnaraðili fyrirsjáanlegt að aðila greini á um forsendur endurreiknings samninganna, verði gengistrygging þeirra dæmd ólögmæt. Kveður varnaraðili að samkvæmt sínum útreikningum, sem taki mið af dómafordæmum um ólögmæta gengistryggingu, gildi fullnaðarkvittana og meginreglum kröfuréttar, sé hann með öllu skuldlaus við sóknaraðila. Kveðst varnaraðili þvert á móti hafa ofgreitt sóknaraðila vegna samninganna. Þá sé til þess að líta að umræddir samningar hafi verið samdir einhliða af sóknaraðila og innihaldi að meginhluta til staðlaða samningsskilmála. Af þessu leiði að sóknaraðili geti ekki talist lánardrottinn í skilningi 65. gr. laga nr. 21/1991.

Máli sínu til stuðnings vísar varnaraðili til eftirtaldra sex málsástæðna. Í fyrsta lagi hafi varnaraðili haft frumkvæði að kaupum á samningsandlagi samninganna og komið fram gagnvart seljanda sem kaupandi. Í öðru lagi hafi leiguverð verið ákvarðað út frá fjármögnunarkostnaði sóknaraðila, en ekki verðmæti samningsandlagsins. Í þriðja lagi vísar varnaraðili til þess að þar sem greiðslur samkvæmt samningum hafi borið vexti hafi verið um afborganir á láni að ræða, en ekki leigugreiðslur, sem almennt beri ekki vexti. Í fjórða lagi hafi greiðsluskylda varnaraðila ekki verið tengd afnotum samningsandlaganna. Í fimmta lagi hafi sóknaraðili getað krafið varnaraðila um fullar greiðslur til loka samningstímans og í sjötta lagi hafi eignamyndum á samningstíma tilheyrt varnaraðila, en ekki sóknaraðila, og bendi það til þess að um lán hafi verið að ræða, enda hefði því verið öfugt farið ef um leigusamning væri að ræða.  

Varnaraðili byggir í sjöunda lagi á því að við lok samnings hafi varnaraðili eignast samningsandlagið á fyrirfram umsömdu verði. Vísar varnaraðili í fyrsta lagi til þess að í fyrri viðskiptum aðila, þ.e. tólf af átján fjármögnunarleigusamningum aðila, hafi varnaraðili eignast samningsandlagið við lok leigutíma. Þá vísar varnaraðili til framburðar Guðríðar Ólafsdóttur starfsmanns sóknaraðila, sem hafi samið alla samninga milli aðila, í skýrslutöku fyrir héraðsdómi í máli Hæstaréttar nr. 638/2013, Suðurverk ehf. gegn Lýsingu hf. Í öðru lagi vísar varnaraðili og til þess að ljóst sé af staðlaðri tilkynningu sóknaraðila til varnaraðila vegna samningsins nr. 112910 að þrátt fyrir ákvæði 6. og 12. gr. samninganna hafi verið um það samið frá öndverðu að varnaraðili eignaðist tækin gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu í lok samningstíma. Í þriðja lagi  hafi greiðsluseðlar þeir, er varnaraðili móttók frá sóknaraðila, skilmerkilega borið hverjar eftirstöðvar samningsins voru á hverjum tíma, þ.e. „núvirði ógreiddrar leigu án vsk/lokagjalds“, en eftir dóma þá er féllu á árinu 2010, sóknaraðila í óhag, hafi orðið „lokagjald“ verið fellt út. Í fjórða lagi hafi sóknaraðili sent varnaraðila yfirlit yfir stöðu samninga, þar sem nefnt „lokagjald“ hafi verið tilgreint, og hafi þessi yfirlit borið yfirskriftina „Samningar og skuldayfirlit“ og „Heildaryfirlit samninga/lána“. Í fimmta lagi hafi upplýsingar á heimasíðu sóknaraðila einnig borið með sér að við lok samningstíma ættu leigutakar þess kost að kaupa hið leigða. Í sjötta lagi  hafi varnaraðila, hvenær sem er á samningstíma, verið unnt að greiða samningana upp ásamt lokagjaldi og fengið samningsandlögum afsalað til sín, samkvæmt þjónustugjaldskrá sóknaraðila. Í áttunda lagi vísar varnaraðili til þess að ársreikningar sóknaraðila beri með sér að út frá því hafi verið gengið að formleg skráning eignarhalds leigumuna væri aðeins til tryggingar á efndum lánasamninga, en ekki væri um raunverulegt eignarhald að ræða.

Til stuðnings því að í raun hafi verið um lánasamninga að ræða reifar varnaraðili í greinargerð sinni einnig viðskipti sóknaraðila við ótengda þriðja aðila, og ákvæði tilboða sóknaraðila til viðskiptavina sinna. Ekki er ástæða til að reifa þá málsástæðu varnaraðila frekar, enda varðar mál þetta eingöngu þá sex samninga sem krafa sóknaraðila byggir á.

V.

                Eins og áður er rakið var munnlegum málflutningi í máli þessu frestað þar til dómur félli í Hæstarétti í máli Suðurverks ehf. gegn Lýsingu hf., mál dómsins nr. 638/2013. Að dómnum gengnum, en áður en til aðalmeðferðar kom í málinu, sendi dómari málsaðilum orðsendingu þann 20. mars sl., þar sem óskað var eftir samantekt um málsástæður í máli þessu sem fordæmi hafi ekki fengist um með áðurnefndum dómi Hæstaréttar. Var málið einkum flutt með tilliti til þessa.

Sóknaraðili gerir kröfu um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og vísar til árangurslausrar fjárnámsgerðar nr. 033-2013-00254, sem óumdeilt er að fór fram hjá varnaraðila þann 9. apríl 2013, að honum fjarstöddum að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Varnaraðili mótmælir kröfunni í fyrsta lagi á þeim grunni að hin árangurslausa fjárnámsgerð hafi verið ólögmæt og vísar í því sambandi til þess að embætti umboðsmanns skuldara hafi móttekið umsókn varnaraðila um greiðsluaðlögun einstaklinga, samkvæmt lögum nr. 101/2010, þann 22. nóvember 2010. Þannig hafi varnaraðili, er ofangreind fjárnámsgerð fór fram, verið í svokölluðu greiðsluskjóli, og því hafi á umræddum tíma verið óheimilt að gera fjárnám í eigum hans, sbr. c. – lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010. Þessu hafnar sóknaraðili.

Um tímabundna frestun greiðslna samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010, gilti á þeim tíma sem fjárnámsgerðin fór fram 1. mgr. II. töluliðar bráðabirgðaákvæða áðurnefndra laga. Þar segir að frá gildistöku laganna, þ.e. 1. ágúst 2010 til 1. júlí 2011, hefjist tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. laganna við móttöku  umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun. Í c-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 er kveðið á um að á meðan á frestun greiðslna standi sé lánardrottnum óheimilt að gera fjárnám, kyrrsetningu eða löggeymslu í eigum skuldara eða fá þær seldar nauðungarsölu. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að gert verði fjárnám í eignum skuldara og er það í samræmi við tilgang laga nr. 101/2010 og annarra skyldra úrræða sem gripið var til í kjölfar efnahagshrunsins sem höfðu það m.a. að markmiði að forða gjaldþrotum og nauðungarsölum íbúða, eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 101/2010. Með fjárnámsgerð sýslumannsins á Selfossi nr. 033-2013-00254 var ekki gert fjárnám í eignum varnaraðila og ber endurrit úr gerðabók þess merki að skuldari hafi engar eignir átt sem hægt hafi verið að gera fjárnám í, sbr. 2. tölulið 63. gr. laga nr. 90/1989, sbr. lög nr. 95/2010, sbr. einnig 63. gr. sömu laga. Umrædd fjárnámsgerð sem sóknaraðili vísar til kröfu sinni til stuðnings var því lögmæt enda tryggja ákvæði d-liðar 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 að úrskurður gangi ekki um að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta meðan beðið er afdrifa umsókna um greiðsluaðlögun, sbr. og dóm Hæstaréttar í málinu nr. 693/2011. Þá gat varnaraðili krafist endurupptöku gerðarinnar, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 67. gr. laga nr. 90/1989, sbr. lög nr. 95/2010, sem hann gerði ekki.

Í öðru lagi mótmælir varnaraðili kröfunni með vísan til þess að sóknaraðili sé ekki lánardrottinn í skilningi 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Vísar varnaraðili til þess að fjármögnunarleigusamningar nr. 112910, 118737, 120848, 133231, 145512 og 135783, sem sóknaraðili kveðst eiga ógreidda kröfu á hendur varnaraðila samkvæmt, séu lánssamningar en ekki leigusamningar og samkvæmt útreikningum varnaraðila sé hann skuldlaus við sóknaraðila. 

Í greinargerð varnaraðila vísar hann til sjö málsástæðna máli sínu til stuðnings. Við munnlegan flutning málsins snerist málatilbúnaður aðila að mestu leyti um sjöundu málsástæðu varnaraðila, þ.e. að í upphafi viðskipta aðila um fjármögnunarleigusamningana sex hafi verið samið um að varnaraðili yrði að loknum grunnleigutíma og gegn greiðslu lokagjalds, eigandi þeirra véla og tækja sem samningarnir tóku til, sem leiði til þess að umræddir samningar séu lánasamningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 en ekki leigusamningar eins og sóknaraðili byggi á.  

Sóknaraðili hafnar öllum málsástæðum varnaraðila. Varðandi fyrstu sex málsástæður varnaraðila vísar sóknaraðili til þess að um sé að ræða sömu málsástæður og áfrýjandinn Suðurverk ehf. hafi haft uppi í sambærilegu máli gegn sóknaraðila þessa máls, en dómur í því máli féll eins og áður segir í Hæstarétti þann 13. mars 2014, máli dómsins nr. 638/2013, en þeim málsástæðum hafi Hæstiréttur hafnað með vísan til niðurstöðu héraðsdóms. Fallist er á með sóknaraðila að framangreindur dómur Hæstaréttar hafi fordæmisgildi hvað varðar sex fyrsttöldu málsástæður varnaraðila í máli þessu, en talið verður að fjármögnunarleigusamningar þeir sem um er deilt í þessu máli séu í öllum meginatriðum sama efnis og þeir samningar sem um var deilt í  framangreindu hæstaréttarmáli.   

Sóknaraðili hafnar sjöundu málsástæðu varnaraðila og vísar í því sambandi til þess að við túlkun samninga aðila verði fyrst og fremst að horfa til texta þeirra, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 757/2012. Þá vísar sóknaraðili til fordæmisgildis dóma Hæstaréttar í málinum nr. 652/2011 og 638/2013. Ákvæði 12. gr. samninganna aðila um leigutíma sé skýrt og þá verði, samkvæmt 34. gr., engar breytingar gerðar á samningunum nema með skriflegum viðauka sem báðir aðilar samþykki. Þá sé í samningunum ekki gert ráð fyrir kauprétti og því þurfi að koma til sérstakt samþykki sóknaraðila eigi til þess að koma. Sóknaraðili hafnar því að byggt verði á framburði vitna fyrir héraðsdómi í máli Hæstaréttar nr. 638/2013. Þá vísar sóknaraðili til þess að með dómum í sambærilegum málum hafi Hæstiréttur hafnað því að umrætt lokagjald í fjármögnunarsamningum sóknaraðila sé sönnun þess að samið hafi verið um kauprétt, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 638/2013. Þá sé færsla fjármögnunarleigusamninga í bókhaldi sóknaraðila í samræmi við ársreikningalög og kröfur IAS 17, alþjóðlegan reikningsskilastaðal, og bendi það til þess að um leigusamning sé að ræða.

                Dómur Hæstaréttar í málinu nr. 638/2013, sem fjallar um fjármögnunarleigusamninga sem sóknaraðili þessa máls gerði við fyrirtækið Suðurverk ehf., eru að mati dómsins eins og áður segir í öllum meginatriðum sama efnis og þeir samningar sem um er deilt í þessu máli.  Í framangreindum dómi Hæstaréttar var sönnunarbyrði um eignayfirfærslu samningsandlaga að loknum samningstíma lögð á stefnanda málsins í héraði, Suðurverk ehf., sem eins og varnaraðili í þessu máli, hélt því fram að samningarnir væru lánssamningar en ekki leigusamningar. Byggði Suðurverk ehf. á sömu málsástæðum í héraði hvað varðar eignayfirfærslu í lok leigutíma og varnaraðili þessa máls. Með vísan til þess fellst dómurinn á það með sóknaraðila að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 638/2013 hafi fordæmisgildi um ágreining aðila þessa máls.

                Ákvæði 12. gr. samninga þeirra sem mál þetta varðar og ber heitið „leigutími“ er samhljóða í öllum sex samningunum. Þar segir: „Leigutíminn er tilgreindur í 4. og 6. gr. Leigutaki getur ekki sagt leigusamningi þessum upp nema með eins mánaðar fyrirvara þegar einn mánuður er til loka grunnleigutíma skv. 4. gr. Segi leigutaki samningum ekki upp með framangreindum hætti framlengist hann ótímabundið skv. 6. gr. Leigutaki getur sagt hinum framlengda leigusamningi upp skriflega með 1 mánaðar fyrirvara. Segi leigutaki samningi þessu upp, gilda ákvæði 29. gr. um skil hins leiga og kostnað af þeim.“ Í 34. gr., sem ber heitið „breytingar“ segir: „Breytingar á samningi þessum má einungis gera með skriflegum viðauka, undirrituðum af samningsaðilum.“ Óumdeilt er að þeim sex samningum sem mál þetta varðar, var ekki breytt að því leyti sem hér skiptir máli með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 34. gr. Með vísan til þessa, skýrra ákvæða samninganna um grunnleigutíma samkvæmt. 4. gr., framhaldsleigu að loknum grunnleigutíma samkvæmt 6. gr., texta samninganna sjálfra og dóma Hæstaréttar í málunum nr. 638/2013 og 652/2011, hefur varnaraðili að mati dómsins hvorki fært fram sönnur þess að hann hafi átt fyrirvaralausan rétt til að kaupa samningsandlög að grunnleigutíma loknum án þess að til þyrfti að koma sérstakt samþykki sóknaraðila né að honum hafi verið skylt að kaupa tækin. Á sama hátt og í máli Hæstaréttar nr. 638/2013 ræður það ekki úrslitun um sönnun fyrir þessari málsástæðu varnaraðila þótt fyrri samningum aðila, allt frá árinu 1997, hafi lokið með greiðslu svokallaðs lokagjalds. Þá er fallist á það með sóknaraðila að framburður Guðríðar Ólafsdóttur fyrir héraðsdómi í máli Suðurverks ehf. gegn sóknaraðila, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 638/2013, sanni ekki að samið hafi verið um kauprétt við lok grunnleigutíma þeirra samninga sem mál þetta fjallar um. Þá þykja staðlaðar tilkynningar, greiðsluseðlar og stöðuyfirlit, sem stafað hafa frá sóknaraðila, upplýsingar á heimasíðu sóknaraðila, ársreikningar og þjónustuskrá sóknaraðila, ekki sönnun þess að við upphaf viðskipta með umrædda sex fjármögnunarleigusamninga hafi verið samið um kauprétt varnaraðila, sbr. og margnefndan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 638/2013.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er falist á það með sóknaraðila að samningar þeir sem mál þetta varðar séu leigusamningar og því hafi ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki girt fyrir að aðilum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Verði því við það miðað í máli þessu að varnaraðili sé í skuld við sóknaraðila vegna viðskipta samkvæmt umræddum fjármögnunarleigusamningum.

Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 getur lánardrottinn krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að uppfylltu einhverju skilyrði 1.-5. töluliðar áðurnefndrar greinar, enda sýni skuldari ekki fram á að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum þegar þær koma í gjalddaga eða verði það innan skamms tíma. Varnaraðili hefur enga grein gert fyrir eignum sínum og skuldum og því ekki fært sönnur á að hann sé gjaldfær eða verði það innan skamms tíma. Eru því skilyrði 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 uppfyllt fyrir því að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta og verður því fallist á kröfu sóknaraðila í máli þessu.

Með vísan til þess og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal varnaraðili greiða sóknaraðila málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

Af hálfu sóknaraðila flutti Hjalti S. Mogensen hdl. málið.

Af hálfu varnaraðila flutti Almar Þ. Möller hdl. málið.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Bú varnaraðila, Sigurjóns Ásbjarnar Hjartarsonar, kt. 200455-2749, Brjánsstöðum. Grímsnes- og Grafningshreppi, er tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.