Hæstiréttur íslands
Mál nr. 193/2008
Lykilorð
- Farmsamningur
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 27. nóvember 2008. |
|
Nr. 193/2008. |
Samskip hf. (Lilja Jónasdóttir hrl.) gegn GV heildverslun ehf. (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) |
Farmsamningur. Skaðabætur.
S flutti frystigám með frosnu brauðmeti fyrir GV frá Hollandi til Íslands. Tilgreint var í sjófarmbréfi að hitastig í gáminum skyldi vera 25°C. Daginn eftir að gámurinn kom til landsins fékk S beiðni um að flytja bæri gáminn að starfsstöð GV. S flutti gáminn samkvæmt beiðninni. Gámurinn var ekki tengdur við rafmagn og eyðilagðist farmurinn þar sem hitastig hans var ekki eins og áskilið var í sjófarmbréfinu. GV krafði S um bætur vegna þess tjóns sem hlaust á farminum. Með vísan til 51. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og b. lið 19 gr. skilmála sjófarmbréfsins, þar sem fram kemur að farmflytjandi beri ekki ábyrgð á stöðvun á kælibúnaði að því tilskyldu að hann hafi áður eða við upphaf flutnings viðhaft eðlilega árverkni við að halda kælibúnaðinum í skilvirku ásigkomulagi, var talið að farmflytjandi yrði að tryggja að viðtakanda farms væri kunnugt um afhendingu slíks gáms með kvittun hans á afgreiðsluseðli eða með öðru sannanlegum hætti. Þar sem S tókst ekki sönnun um að GV hefði fengið slíka vitneskju var talið að áhættan hefði verið á S að kælibúnaði frystigámsins hefði ekki verið haldið í skilvirku ásigkomulagi eftir að hann var skilinn eftir á lóð GV. Var því fallist á kröfu GV um bótaskyldu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2008. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að krafan verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi flutti frystigám með frosnu brauðmeti fyrir stefnda frá Hollandi til Íslands og var tiltekið í sjófarmbréfi að hitastig í gáminum skyldi vera -25°C. Umræddur gámur kom til landsins 23. janúar 2006 og var áfrýjanda send beiðni daginn eftir um að flytja bæri gáminn að starfsstöð stefnda að Miðhrauni 16 í Garðabæ og varð áfrýjandi við því. Fyrir liggur að um leið og komið var með umræddan gám til stefnda var annar sambærilegur frystigámur tekinn af sama stað af lóð hans með öðrum bíl á vegum áfrýjanda. Frystigámurinn sem skilinn var eftir á lóð stefnda var á hinn bóginn ekki tengdur við rafmagn og eyðilagðist farmurinn þar sem hitastig hans var ekki eins og áskilið var.
Aðilar eru sammála um að skilmálar sjófarmbréfs í fjölþátta flutningum 15. janúar 2006 hafi gilt frá upphafi flutnings til afhendingar sem fram hafi átt að fara á starfsstöð stefnda.
Áfrýjandi heldur því fram að með því að frystigámurinn var affermdur af flutningabifreið á réttum afhendingarstað hafi afhending gámsins átt sér stað í skilningi 1. töluliðar 9. gr. áðurgreinds sjófarmbréfs og við það hafi áhættan á farminum flust yfir á stefnda. Beri stefndi þannig áhættuna af því að fyrstigámurinn var ekki tengdur rafmagni og tjóninu sem af hlaust.
Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að viðskilnaður áfrýjanda við gáminn á athafnasvæði stefnda geti ekki talist réttmæt afhending, enda verði afhending að miðast við það að stefndi hafi veitt farminum viðtöku. Að öðrum kosti fái stefndi ekki vitneskju um komu gámsins og gefist ekki færi á að tengja hann við rafmagn. Þar sem ekki hafi verið tryggð sönnun fyrir viðtöku á farminum með kvittun hans á afgreiðsluseðil eða á annan slíkan hátt, beri áfrýjandi ábyrgð á tjóninu þar sem frystigámurinn hafi því enn verið á áhættu farmflytjanda.
II
Í 1. mgr. 9. gr. staðlaðra skilmála sjófarmbréfa Samskips í fjölþátta flutningum, sem um flutninginn giltu, segir svo: „Farmflytjandi ber ábyrgð á að farmur glatist eða skemmist frá því að hann veitti farminum viðtöku og þangað til að afhending hefur átt sér stað.“
Í málinu er um það deilt hvenær umræddur gámur var skilinn eftir á lóð stefnda. Á afgreiðsluseðli kemur fram að gámurinn hafi verið afhentur 24. janúar 2006 kl. 00.00. Ekkert hefur verið ritað í reiti seðilsins um upphaf og lok flutnings, fjölda kílómetra eða lengd biðtíma. Báðir bifreiðastjórarnir sem sáu um flutning að og frá starfsstöð stefnda bera hins vegar fyrir dómi að flutningur gámanna hefði farið fram um hádegisbil.
Meðal gagna málsins er tölvupóstur frá Kjartani Ásmundssyni deildarstjóra í tjónadeild til starfsmanns móðurfélags stefnda. Þar svarar hann fyrirspurn um það hvort ekki beri að láta viðkomandi lagerstarfsmenn kvitta fyrir móttöku frystigáma með tilliti til eðli þessara gáma og innihalds þeirra. Þessu svarar Kjartan svo: „Almenna reglan er að kvittað sé fyrir móttöku á vöru Þó er það ekki alltaf hægt eðli mála samkvæmt “.
Eins og áður segir tóku starfsmenn áfrýjanda annan sambærilegan frystigám af sama stað á lóð stefnda um leið og komið var með umræddan gám. Eins og atvikum var háttað gat það því hæglega dulist stefnda að umræddur gámur hefði verið fluttur á starfsstöð hans.
Samkvæmt 51. gr. siglingalaga nr. 34/1985 skal farmflytjandi á eðlilegan og vandvirkan hátt ferma, meðhöndla, stúfa, flytja, varðveita, annast um og afferma vörur sem hann flytur. Samkvæmt b. lið 19. gr. hinna stöðluðu skilmála sjófarmbréfsins ber farmflytjandi ekki ábyrgð á stöðvun á kælibúnaði að því tilskyldu að hann hafi áður eða við upphaf flutnings viðhaft eðlilega árvekni við að halda kælibúnaðinum í skilvirku ásigkomulagi.
Við afhendingu farmflytjanda á frystigámi er ekki unnt að halda kælibúnaði hans í skilvirku ásigkomulagi nema viðtakanda farms verði kunnugt um afhendingu hans. Verður framflytjandi því að tryggja að viðtakanda farms sé kunnugt um afhendingu slíks gáms á grundvelli sjófarmbréfs með því að fá kvittun hans á afgreiðsluseðil eða með öðru sannanlegu móti. Þar sem áfrýjanda hefur ekki tekist sönnun um að stefndi hafi fengið slíka vitneskju verður að telja að það hafi verið á áhættu hans að kælibúnaði frystigámsins var ekki haldið í skilvirku ásigkomulagi eftir að hann var skilinn eftir á lóð stefnda. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um bótaskyldu áfrýjanda.
Fallist er á með áfrýjanda að ekki sé unnt að leggja tollverð vörunnar til grundvallar við útreikning bóta þar sem inn í fjárhæð þess eru reiknaðar 97.155 krónur sem er ákveðinn hluti flutningsgjalda sem reiknast til tollverðs. Samkvæmt kröfugerð stefnda er jafnframt krafist 138.859 króna, sem er samtala alls flutningskostnaðar. Er flutningskostnaður því að hluta til tvíreiknaður. Er fallist á að lækka beri kröfuna um 97.155 krónur.
Af hálfu áfrýjanda er þess jafnframt krafist fyrir Hæstarétti að bótakrafa stefnda verði lækkuð sem nemur álögðum tolli en samkvæmt 8. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 skuli tollur endurgreiðast ef vörur hafa eyðilagst áður en þær eru afhentar viðtakanda. Ekki verður séð að á þessu hafi verið byggt í héraði og er því um að ræða nýja málsástæðu sem er of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kemur hún því ekki til álita við úrlausn málsins.
Forsendur og niðurstaða hins áfrýjaða dóms um aðrar málsástæður áfrýjanda er varðar lækkun á fjárhæð kröfu stefnda er staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.
Samkvæmt úrslitum málsins verður áfrýjandi með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Samskip hf., greiði stefnda, GV heildverslun ehf., 1.260.262 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. janúar 2008 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 450.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 20. desember sl., er höfðað með stefnu, birtri 24. október 2006.
Stefnandi er GV heildverslun ehf., Miðhrauni 16, Garðabæ, en stefndi er Samskip hf., Kjalarvogi 7-15, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru:
Aðallega að stefndi verði dæmdur til þess að greiða honum 1.398.561 krónu með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. janúar 2006 til 23. júní sama árs, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.357.417 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. janúar 2006 til 23. júní sama árs, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað, að mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefnufjárhæðin verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Málsatvik og ágreiningsefni
Stefnandi annast sölu matvæla og flytur þau m.a. inn frá útlöndum. Samkvæmt sjófarmbréfi, útgefnu 15. janúar 2006, gerðu aðilar með sér samning um að stefndi annaðist flutning á gámi fyrir stefnanda frá Rotterdam til Hafnarfjarðar. Gámurinn innihélt 8.490 kg af frosnu brauði. Í farmbréfi kemur fram að hitastig varningsins skuli vera -25°C við flutning.
Gámurinn kom til landsins 23. janúar 2006 og var stefnanda tilkynnt um það. Að morgni næsta dags var óskað eftir því við stefnda að gámurinn yrði fluttur á starfsstöð stefnanda að Miðhrauni 16 í Garðabæ. Beiðnin barst með tölvupósti frá starfsmanni Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf., en það félag er móðurfélag stefnanda. Á sama tíma var óskað eftir því að stefndi sækti tóman gám á starfsstöð stefnanda.
Aðila greinir á um hvenær kæligámurinn kom til stefnanda og hvort starfsmenn stefnanda hafi vitað af komu hans. Hins vegar er óumdeilt að gámurinn var ekki settur í samband við rafmagn á starfsstöð stefnanda og þiðnaði varningurinn í honum og ónýttist. Var honum síðar fargað. Ágreiningur aðila snýst um hvor þeirra beri ábyrgð á því tjóni.
Við aðalmeðferð gáfu skýrslur fyrir dóminum vitnin Sigurður Þór Erlendsson og Guðmundur Pétur Hilmarsson, flutningabílstjórar hjá stefnda, svo og Óli Pétur Pedersen, fyrrum lagerstjóri hjá stefnanda.
Samkvæmt framburði bílstjóranna var þeim að morgni 24. janúar 2006 falið að sinna beiðnum stefnanda um að keyra þangað lestaðan frystigám og sækja annan tóman. Kváðust þeir hafa komið að húsnæði stefnanda að Miðhrauni 16 um hádegisbil sama dag. Hafi tómi gámurinn staðið við innkeyrsludyr að húsi stefnanda og hafi hann verið hífður upp á bíl Sigurðar, en sá lestaði verið hífður af bíl Guðmundar og komið fyrir á sama stað. Sigurður kvaðst ekki muna hvort tómi gámurinn hafi verið tengdur við rafmagn, en taldi þó svo ekki hafa verið. Kvaðst hann nokkrum sinnum áður hafa farið til stefnanda, ýmist til að sækja tóma gáma eða afhenda lestaða. Minntist hann þess ekki að hafa látið kvitta fyrir móttöku eða afhendingu gáms. Hann sagðist yfirleitt ekki láta móttakanda kvitta fyrir gámi, nema þess væri sérstaklega óskað. Þá kvaðst hann aldrei tengja frystigám við rafmagn hjá móttakanda og sagði að það væri ekki hlutverk bílstjóranna.
Aðspurður sagði Guðmundur að þetta hafi verið fyrsta ferð hans með gám til stefnanda. Hann hafi ekki tengt gáminn við rafmagn, enda liti hann svo á að það væri ekki hans hlutverk. Hann sagðist jafnframt ekki hafa látið kvitta fyrir móttöku gámsins og sagði allan gang á því hvort svo væri gert, þótt hann vissi að á akstursbeiðni væri gert ráð fyrir kvittun móttakanda. Í framburði beggja bílstjóranna kom fram að þrír menn hefðu horft á þá athafna sig við hús stefnanda og taldi Sigurður að einn þeirra hafi a.m.k. verið starfsmaður stefnanda. Þá kváðust þeir vera vissir um að starfsmenn stefnanda hafi orðið þeirra varir, enda væri athafnasvæðið við hús stefnanda þröngt og bílar þeirra stórir.
Í vitnisburði Óla Péturs Pedersen kom fram að hann hefði verið í veikindaleyfi þegar umræddur gámur var fluttur til stefnanda. Þegar hann kom úr veikindaleyfinu sá hann að gámurinn hafði ekki verið tengdur við rafmagn. Sagði hann að undir starf sitt hefði m.a. heyrt að taka á móti vörum sem komu með flutningabílum. Spurður um það hver hafi séð um að tengja frystigáma við rafmagn, sagði hann að ýmist hefði hann gert það eða bílstjórar sem komu með gámana. Kvað hann algengara að bílstjórar hafi látið kvitta fyrir móttöku á gámi, hitt hafi þó einnig komið fyrir að bílstjórar hafi ekki látið vita af komu sinni með gáma.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi reisir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að stefndi eigi ekki rétt til þess farmgjalds sem hann hafi greitt stefnda fyrir flutning farmsins. Þeir hafi gert með sér samning um að stefndi annaðist flutning farmsins og hafi stefndi því aðeins átt kröfu um greiðslu að því uppfylltu að hann innti af hendi gagngjald þess, þ.e. þá vinnu sem hann tók að sér. Þar sem stefndi hafi vanefnt samning aðila beri honum að endurgreiða stefnanda farmgjaldið.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að stefndi beri sem farmflytjandi ábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt 21. gr., 1. mgr. 51. gr. og 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Stefndi hafi tekið að sér að flytja varning fyrir stefnanda við hitastig -25°C og koma honum óskemmdum til móttakanda. Við það hafi stefndi ekki staðið og beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hafi hlotist af vanefndum hans.
Stefnandi bendir á að hvorki í akstursbeiðni né í afgreiðsluseðli stefnda komi fram hvenær ekið hafi verið af stað með vöruna, hvenær komið hafi verið með hana á afhendingarstað, hvenær hún hafi verið afhent eða hvort einhver hafi tekið við henni á afhendingarstað. Þá hafi skjölin ekki verið undirrituð um móttöku vörunnar, þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir slíku á eyðublöðum stefnda. Hljóti það að vera stefnda að sýna fram á að starfsmenn stefnanda hafi verið látnir vita um komu gámsins, enda standi það honum næst að tryggja sér sönnun um það. Samkvæmt því byggir stefnandi á því að gámurinn, með þeirri vöru sem stefndi tók að sér að flytja, hafi ekki verið réttilega afhentur og hafi stefndi því enn borið ábyrgð á honum þegar varningurinn skemmdist, sbr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985.
Þá byggir stefnandi á því að í stöðluðu sjófarmbréfi, sem stefndi notist við, sé á því byggt að áhættuskipti verði við afhendingu farms. Þar segi í gr. 9.1 að farmflytjandi beri ábyrgð á að farmur glatist eða skemmist frá því að hann veitti farminum viðtöku og þangað til að afhending hafi átt sér stað. Ákvæði þetta feli efnislega í sér sömu reglu og 68. gr. siglingalaga, að því er varðar áhættuskiptin, en þó þannig að ábyrgð farmflytjanda sé nokkuð rýmri en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði siglingalaga.
Við mat á sakarábyrgð stefnda samkvæmt 68. gr. siglingalaga telur stefnandi að einnig verði að líta til 61. og 62. gr. sömu laga. Þar sé kveðið á um rétt þess sem taki við farmi til þess að skoða hann áður en hann veiti honum viðtöku og um þær skuldbindingar sem viðtaka farms hafi í för með sér fyrir viðtakanda. Ekki sé unnt að líta svo á að farmi hafi verið veitt viðtaka með því að skilja hann eftir á starfssvæði viðtakanda, enda væri þá brotið á rétti viðtakanda samkvæmt 61. gr. siglingalaga. Í því fælist um leið að viðtakandi væri skuldbundinn samkvæmt 62. gr. sömu laga á grundvelli einhliða athafna farmflytjanda. Fái slíkt ekki heldur staðist. Áréttar stefnandi að hann hafi aldrei tekið við farminum og því ómögulegt að líta svo á að hann hafi verið í vörslum hans þegar hann skemmdist.
Verði ekki á það fallist að farmurinn hafi verið í vörslum stefnda þegar hann skemmdist, byggir stefnandi á því að stefndi hafi sýnt af sér vítavert gáleysi og vanrækt tillitsskyldu sína við stefnanda með því að skilja gáminn eftir, án þess að tilkynna starfsmönnum stefnanda um hann. Ljóst sé að farmur í frystigámi skemmist, sé gámurinn ekki settur í samband við rafmagn.
Aðalkrafa stefnanda sundurliðast þannig:
|
Kaupverð farmsins, þ.e. tollverð, tollur og úrvinnslugjald |
kr. 1.156.250,00 |
|
Förgun |
kr. 62.308,00 |
|
Endurgreiðsla farmgjalds |
kr. 138.859,00 |
|
Annar kostnaður, óskilgreindur |
kr. 41.144,00 |
|
Samtals |
kr. 1.398.561,00 |
Varakrafan, 1.357.417 krónur, samanstendur af sömu fjárhæðum, að undanskildum öðrum kostnaði, óskilgreindum.
Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttar um skaðabótaábyrgð innan samninga. Þá vísar hann til siglingalaga nr. 34/1985, einkum 1. mgr. 51. gr. og 68. gr. um skyldur og ábyrgð farmflytjenda og 61. og 62. gr. um afhendingu farms, en um bótafjárhæðina til 70. gr. sömu laga. Um vexti er vísað til 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og um dráttarvexti til 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Kröfu sína um dráttarvexti frá 23. júní 2006 kveðst stefnandi byggja á því að þá hafi verið liðinn mánuður frá því að stefndi var krafinn um greiðslu með bréfi lögmanns stefnanda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Málskostnaðarkrafa er reist á 129., sbr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að tjónið verði ekki rakið til atvika sem félagið beri ábyrgð á. Stefndi hafi afhent stefnanda gáminn í samræmi við samning þeirra og uppfyllt allar skyldur sínar þar að lútandi. Tjónið verði rakið til tómlætis og athafnaleysis stefnanda sjálfs og skorts á eðlilegri árvekni af hans hálfu.
Stefndi mótmælir því að farmurinn hafi eyðilagst vegna vanefnda stefnda á flutningssamningi aðila. Bendir hann á að farmskírteini sé grundvöllur réttarstöðu farmflytjanda og viðtakanda farms sín á milli um flutning og afhendingu vörunnar. Farmskírteinið sé þannig samningur aðila um flutninginn, sbr. 110. gr. siglingalaga nr. 34/1985.
Stefndi heldur því fram að ábyrgð hans samkvæmt fyrirliggjandi flutningssamningi og ákvæðum 68. gr. siglingalaga hafi lokið með afhendingu varningsins á starfsstöð stefnanda 24. janúar 2006. Hafi gámurinn verið afhentur stefnanda réttilega samkvæmt skriflegri beiðni hans, sem borist hafi stefnda kl. 10.06 þann dag og hafi innihald hans þá verið í fullkomnu lagi. Stefnanda hafi mátt vera það ljóst að allir gámar, sem viðskiptamenn óskuðu eftir fyrir hádegi, væru keyrðir út þann sama dag. Tjón stefnanda hafi orðið eftir að gámurinn hafi verið afhentur á starfsstöð stefnanda og þá ekki settur í samband við rafmagn. Samkvæmt venju í viðskiptum stefnanda og stefnda hafi starfsmenn stefnda aldrei tengt gáma í rafmagn hjá stefnanda.
Stefndi bendir á að starfssvæði stefnanda sé vel afmarkað og því hafi stefnanda með eðlilegri árvekni ekki átt að geta dulist að gámurinn væri kominn. Stefnandi hefði sjálfur óskað eftir að fá gáminn afhentan þegar eftir komu hans til landsins og hefðu starfsmenn stefnanda horft á starfsmenn stefnda koma með hann inn á starfssvæðið. Um sé að ræða 40 feta frystigám, um 3 metra á hæð, 12 metra á lengd og rúma 2 metra á breidd.
Þótt beiðni um afhendingu gámsins hafi komið frá móðurfélagi stefnanda, sem sé með aðra starfsstöð en stefnandi sjálfur, geti það eitt ekki skapað ríkari ábyrgð hjá stefnda. Þvert á móti kalli það á ríkari skyldur móðurfélags til þess að upplýsa dótturfélagið um akstursbeiðnina. Telur stefndi að sá skortur á eðlilegri árvekni og upplýsingaflæði kunni að vera skýringin á umræddu tjóni. Greinir stefndi frá því að afhending á þeim gámi sem hér sé fjallað um, hafi verið með nákvæmlega sama hætti og afhending annars gáms 22. nóvember 2005. Í því tilviki hafi akstursbeiðni borist stefnda fyrir hádegi og gámurinn verið keyrður að starfsstöð stefnanda sama dag. Sama dag og óskað var eftir þeim gámi sem hér um ræði, hafi stefnandi jafnframt óskað eftir því að eldri gámurinn yrði fjarlægður þar sem búið væri að tæma hann. Því hafi tveir bílar á vegum stefnda komið á starfsstöð stefnanda 24. janúar 2006, annar til að ná í eldri gám og hinn með þær vörur sem síðar skemmdust.
Stefndi heldur því fram að engu skipti varðandi afhendingu og móttöku stefnanda á umræddum gámi, þótt starfsmenn stefnanda hafi ekki verið látnir kvitta undir svokallaðan afgreiðsluseðil, enda sé hvorki í siglingalögum né farmbréfi kveðið á um skyldu þess efnis. Þá bendir stefndi á, vegna tilvísana stefnanda til 61. og 62. gr. siglingalaga, að umræddur gámur hafi verið innsiglaður af sendanda og hafi innsiglið verið órofið þegar stefndi afhenti gáminn á starfsstöð stefnanda. Stefnda sé ekki heimilt að rjúfa innsiglið og hafi stefnandi ákveðinn frest til þess að tilkynna stefnda, telji hann að farmur hafi orðið fyrir tjóni. Að dómi stefnda eigi því umrædd ákvæði siglingalaga ekki við í þessu tilviki.
Verði talið að umræddur gámur hafi verið í vörslu stefnda þegar varan skemmdist, þ.e. að stefndi hafi ekki verið búinn að afhenda stefnanda gáminn, byggir stefndi á því að sýkna beri hann engu að síður með vísan til i. liðar 2. mgr. 68. gr. siglingalaga og a. og h. liðar 3. tl. 9. gr. í farmsamningi aðila. Telur stefndi að umrætt tjón megi rekja til tómlætis, athafnaleysis og/eða gáleysis stefnanda sjálfs og bendir í því sambandi á að skriflega hafi verið óskað eftir umræddum gámi að morgni 24. janúar 2006. Hafi stefnandi mátt ætla að gáminum yrði ekið að starfsstöð hans þann sama dag, eins og í því tilviki er hann fékk síðasta gám afhentan, sama gám og stefnandi óskaði eftir að yrði fjarlægður til þess að sá gámur sem hér um ræðir kæmist í hans stað í starfsstöð stefnanda. Áréttar stefndi að ávallt séu það starfsmenn stefnanda sem tengi gáminn í rafmagn, en ekki starfsmenn stefnda. Þá kveður stefndi nokkra starfsmenn stefnanda hafi verið viðstadda þegar komið var með umræddan gám til afhendingar inn á starfssvæði stefnanda. Með vísan til þessa mótmælir stefndi því að um vítavert gáleysi hafi verið að ræða af hálfu starfsmanna hans að skilja frystigáminn eftir, án þess að láta starfsmenn stefnanda vita af honum. Þess í stað er fullyrt að tjónið hafi orðið eftir að hann afhenti stefnanda gáminn í samræmi við lög, reglur og venjur þar að lútandi, og megi rekja það til stefnanda sjálfs.
Í greinargerð sinni telur stefndi ástæðu til að geta þess að hann telji stefnanda tryggðan fyrir tjóni sínu, og hafi hann þegar bent stefnanda á þann rétt sinn. Skorar hann á stefnanda að upplýsa um þær farmtryggingar sem í gildi voru á umræddum tíma og hvort hann hafi tilkynnt tryggingafélagi um tjón sitt.
Varakrafa stefnda um verulega lækkun stefnukröfunnar byggist á 4. mgr. 68. gr. siglingalaga.
Stefndi gerir fyrirvara varðandi kröfufjárhæðina, og vísar í þeim efnum til 1. tl. 10. gr. farmskírteinis. Þá mótmælir hann kröfu um endurgreiðslu flutningskostnaðar og greiðslu förgunarkostnaðar, þar sem varan hafi ekki skemmst í hans vörslu. Engin heimild sé heldur til þess í siglingalögum né skilmálum farmbréfsins að bæta óbeinu tjóni eða öðrum kostnaði við lögákveðna bótafjárhæð. Loks byggir stefndi á því að samkvæmt ákvæðum farmbréfsins, 5. tl. 10. gr., beri honum ekki að greiða vexti fyrr en frá uppkvaðningu dóms. Lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2000 séu frávíkjanleg og hafi aðilum verið heimilt að semja um upphafstíma vaxta í farmbréfinu.
Um lagarök vísar stefndi til skaðabótalaga nr. 50/1983, reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, reglna um orsakatengsl og sennilega afleiðingu, svo og til siglingalaga nr. 34/1985.
Niðurstaða
Stefnandi byggir á því að umræddur gámur hafi ekki verið réttilega afhentur, í samræmi við samning aðila og ákvæði siglingalaga nr. 34/1985, og hafi stefndi enn borið ábyrgð á honum þegar varningurinn skemmdist, sbr. 68. gr. siglingalaga.
Við munnlegan flutning málsins hélt stefnandi einnig fram þeirri málsástæðu að vera kynni að farmurinn hafi skemmst áður en gámurinn var fluttur á starfsstöð stefnanda, en tók jafnframt fram að honum væri erfitt að sanna slíkt, þar sem stefndi hefði ekki, þrátt fyrir áskorun í stefnu, lagt fram síritaskífu frystigámsins eða önnur umbeðin gögn sem varpað gætu ljósi á hitastig í gáminum og eftirlit með honum frá upphafi ferðar til afhendingar. Stefndi mótmælti þessari málsástæðu stefnanda, sem of seint fram kominni.
Samkvæmt 110. gr. siglingalaga nr. 34/1985 er farmskírteini grundvöllur réttarstöðu farmflytjanda og viðtakanda farms sín á milli um flutning og afhendingu vörunnar. Farmskírteini var gefið út 15. janúar 2006 fyrir þann flutning sem hér um ræðir og kemur þar fram að við flutning skuli hitastig varningsins vera -25°C. Flutningsskilmála er að finna í sjófarmbréfi í fjölþátta flutningum, sem er meðal gagna málsins. Í gr. 9.1 í sjófarmbréfi segir að farmflytjandi beri ábyrgð á að farmur glatist eða skemmist frá því að hann veitti farminum viðtöku og þangað til afhending hefur átt sér stað. Efnislega svipar ákvæðinu til 1. mgr. 68. gr. siglingalaga, en er þó rýmra að því er varðar áhættuskipti.
Eins og þegar hefur komið fram óskaði starfsmaður Jóhanns Ólafssonar & Co. ehf., sem er móðurfélag stefnanda, eftir því að umræddur frystigámur yrði fluttur til stefnanda að Miðhrauni 16 í Garðabæ að morgni 24. janúar 2006. Um svipað leyti var óskað eftir því að tómur gámur yrði fjarlægður þaðan. Samkvæmt framburði flutningabílstjóra stefnda komu þeir að starfsstöð stefnanda um hádegisbil þennan sama dag, tóku tóma gáminn og settu þann lestaða í hans stað. Óumdeilt er að hvorugur bílstjóranna tengdi frystigáminn við rafmagn. Þá er ekki heldur um það deilt að ekki var kvittað fyrir móttöku hans af hálfu starfsmanna stefnanda.
Meðal gagna málsins er eyðublað sem ber yfirskriftina „Akstursbeiðni“, og stafar frá stefnda. Á því kemur m.a. fram hver pantar akstur, hvenær, tegund gáms og númer, hvert skuli ekið og hvaðan, nafn móttakanda og greiðanda. Neðst á skjalið er gert ráð fyrir nafni bílstjóra og undirritun móttakanda. Skjalið er óundirritað af móttakanda, stefnanda í máli þessu. Við yfirheyrslu fyrir dómi sagði bílstjórinn, er ók með umræddan gám til stefnanda, Guðmundur Pétur Hilmarsson, að umrætt eyðublað væri í þríriti, eitt eintak væri afhent starfsmanni Samskipa hf. þegar ekið væri út af gámasvæði félagsins, en hin tvö tækju bílstjórar með sér og væri annað ætlað móttakanda farmsins. Í þessu tilviki hefði hann þó ekki afhent stefnanda eyðublaðið eða látið kvitta fyrir móttöku gámsins, og því farið með tvö eintök til baka. Eins og áður er rakið kvað bílstjórinn allan gang á því hvort kvittað væri fyrir móttöku gámanna.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir ljóst að margnefndum frystigámi var ekið til stefnanda og honum skilað við innkeyrsludyr um hádegisbil 24. janúar 2006. Hins vegar verður ekki á það fallist að afhending gámsins hafi þá farið fram með þeim hætti að stefnandi hafi um leið veitt honum viðtöku og leyst stefnda með því undan ábyrgð sinni samkvæmt gr. 9.1 í sjófarmbréfi og 1. mgr. 68. gr. siglingalaga. Er þá sérstaklega til þess horft að starfsmönnum stefnanda var á engan hátt tilkynnt um komu gámsins og ekki var kvittað fyrir móttöku hans á akstursbeiðni, sem bílstjóri stefnda hafði þó meðferðis í því skyni. Verður að telja það ámælisvert að bílstjóri skuli ekki undir slíkum kringumstæðum gera móttakanda viðvart um komu gámsins með sannanlegum hætti. Gat honum ekki dulist að farmur í frystigámi kynni að skemmast ef ekki yrðu fljótlega gerðar ráðstafanir til að tengja hann við rafmagn. Sú staðreynd, að starfsmaður móðurfélags stefnanda hafi skriflega óskað eftir gáminum fyrr um morguninn eða hafi í ljósi fyrri samskipta mátt vænta þess að gámurinn yrði afhentur þann dag, breytir þar engu um, enda jafngildir það ekki afhendingu gámsins eða firrir stefnda ábyrgð á réttum efndum samnings aðila. Ekki skiptir hér heldur máli þótt þrír menn hafi horft á gáminn koma inn á starfssvæði stefnanda, þar sem ósannað er að nokkur þeirra hafi verið starfsmaður stefnanda. Hinu sama gegnir um þá málsástæðu stefnda að starfsmönnum stefnanda hafi með eðlilegri árvekni ekki geta dulist að umræddur gámur væri kominn til stefnanda.
Niðurstaða dómsins er því sú að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir vegna skemmda á farminum, sbr. 1. mgr. 68. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og gr. 9.1 í sjófarmbréfi aðila.
Aðalkrafa stefnanda er að fjárhæð 1.398.561 króna. Í kröfufjárhæðinni felst liður sem nefnist „Annar kostnaður, óskilgreindur“, að fjárhæð 41.144 krónur. Engin gögn styðja þennan kröfulið og hefur stefndi mótmælt honum. Verður honum því hafnað.
Í málinu liggja fyrir gögn frá stefnanda um kaupverð farmsins, toll og úrvinnslugjald, svo og reikningar vegna farmgjalds og förgunar hins skemmda varnings. Jafnframt hefur stefnandi lagt fram gögn frá tryggingafélagi, þar sem hafnað er kröfu hans um greiðslu bóta á grundvelli farmtryggingar. Með vísan til 1. mgr. 68. gr. og 1. mgr. 70. gr. siglingalaga, svo og með hliðsjón af þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli skuli svo settur sem tjónsatburður hafi eigi orðið, verður krafa stefnanda því tekin til greina að fjárhæð 1.357.417 krónur, sem er varakrafa hans í málinu. Þykja ekki skilyrði til að lækka kröfuna með vísan til 4. gr. 68. gr. siglingalaga.
Samkvæmt 5. tl. 10. gr. farmbréfs skulu engir vextir heimilir á kröfu gegn farmflytjanda fyrr en dómur hefur gengið. Með vísan til þessa samningsákvæðis, sbr. og dóms Hæstaréttar 7. mars 2002 í málinu nr. 243/2001 verða dráttarvextir dæmdir frá uppkvaðningu dómsins.
Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Samskip hf., greiði stefnanda, GV heildverslun ehf., 1.357.417 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 11. janúar 2008 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda málskostnað að fjárhæð 350.000 krónur.