Hæstiréttur íslands
Mál nr. 661/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Réttindaröð
- Lífeyrisskuldbinding
|
|
Föstudaginn 2. nóvember 2012. |
|
Nr. 661/2012.
|
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (Þórey Sigríður Þórðardóttir hrl.) gegn Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Réttindaröð. Lífeyrisskuldbinding.
Lífeyrissjóðurinn L lýsti kröfu við slit fjármálafyrirtækisins S hf. vegna lífeyrisskuldbindinga sem hvíldu á S hf. en krafan var til komin vegna ógjaldfallinna lífeyrishækkana samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Krafa L var hvorki reist á vinnusamningi né fól hún í sér beint endurgjald fyrir vinnu. Með vísan til þess auk almennra sjónarmiða við skýringu 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og samræmisskýringar við 4. tl. sömu greinar var því hafnað að krafa L væri forgangskrafa í skilningi 1. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til ýmissa sjónarmiða um skýringu 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 og 4. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 var því hafnað að krafa samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu ætti undir síðarnefnda ákvæðið. Var því ekki fallist á með L að krafa lífeyrissjóðsins yrði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit S hf. heldur væri hún almenn krafa sbr. 113. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2012. Þar var hafnað kröfu sóknaraðila um að krafa hans gegn varnaraðila, nr. 126 í kröfuskrá, vegna lífeyrisskuldbindinga yrði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila. Var viðurkennt að þeirri kröfu skyldi við slitin skipað í skuldaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans á hendur varnaraðila verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar og dóma Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 326/2003, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár, bls. 2950, og 26. október 2012 í máli nr. 624/2012 verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, greiði varnaraðila, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. október 2012.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., til dómsins 17. nóvember 2011 með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga. Sóknaraðili er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Við þingfestingu málsins 24. janúar 2012 óskuðu aðilar eftir því að skipta sakarefninu þannig að fyrst yrði skorið úr um rétthæð kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila, en ágreiningur um fjárhæð kröfunnar látinn bíða. Með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laganna, féllst dómari á að skipta sakarefninu með þessum hætti.
Í þessum þætti málsins gerir sóknaraðili aðallega þá kröfu að krafa hans nr. 126 í kröfuskrá varnaraðila, sem tilkomin er vegna lífeyrisskuldbindinga sem hvíla á varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sé viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að krafan sé viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að aðalkröfu sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði með dómi að krafan njóti stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Við aðalmeðferð málsins lýstu aðilar því yfir að ágreiningslaust væri að sóknaraðili ætti kröfu gegn varnaraðila vegna ógjaldfallina lífeyrishækkana samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997. Hins vegar væri deilt um fjárhæð þessarar kröfu svo og rétthæð samkvæmt lögum nr. 91/1991. Svo sem fyrr greinir er í þessum þætti málsins einungis skorið úr um rétthæð kröfu sóknaraðila samkvæmt lögum nr. 91/1991 en ágreiningur um fjárhæð bíður frekari meðferðar.
Málsatvik
Málsatvik eru óumdeild. Varnaraðili er sparisjóður sem um gilda lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hinn 21. mars 2009 vék Fjármálaeftirlitið frá stjórn varnaraðila og skipaði honum skilanefnd með vísan til 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Eftir beiðni stjórnar varnaraðila var kveðinn upp úrskurður um töku varnaraðila til slitameðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 23. júní 2009 og félaginu skipuð slitastjórn. Innköllun vegna slitameðferðar birtist í Lögbirtingablaði í fyrra sinn 22. júlí 2009 og lýsti sóknaraðili kröfu samtals að fjárhæð 727.575.570 kr. Kröfunni var lýst sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili er lífeyrissjóður sem starfar á grundvelli laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og starfar í tveimur fjárhagslega sjálfstæðum deildum, A-deild og B-deild. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 1/1997 greiða sjóðfélagar 4% af föstum launum sínum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót í iðgjald til sjóðsins. Launagreiðendur greiða hins vegar 8% af sama stofni. Um upphæð ellilífeyris í B-deild gildir sú grunnregla samkvæmt 24. gr. laganna að hún miðast við hundraðshluta af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast. Fer hundraðshlutinn eftir iðgjaldagreiðslutíma og starfshlutfalli sjóðsfélagans og er 2% fyrir hvert ár í fullu starfi sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir. Nánari ákvæði um töku lífeyris, þ. á m. örorkulífeyris og makalífeyris, er að finna í 24.-31. gr. laganna.
Í III. kafla laga nr. 1/1997 er ekki að finna ákvæði sem miða að því að hækka það hlutfall af launum sem greitt er til sóknaraðila þannig að sjóðurinn standi undir skuldbindingum sínum, sbr. hins vegar ákvæði 13. gr. laganna um A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 32. gr. laga nr. 1/1997 ábyrgist ríkissjóður hins vegar greiðslu lífeyris samkvæmt lögunum og greiðist hann með 1/12 árslífeyris fyrir fram í hverjum mánuði. Þá er í 33. gr. laganna kveðið á um þá aðstöðu að hækkun verði á áður úrskurðuðum elli-, örorku-, og makalífeyri vegna almennrar hækkunar á launum opinberra starfsmanna. Segir í greininni að þá endurgreiði ríkissjóður og aðrir þeir launagreiðendur, sem tryggja starfsmenn sína í sjóðnum, þá hækkun er þannig verður á lífeyrisgreiðslum. Hafi sjóðfélagi greitt iðgjald til sjóðsins vegna starfa hjá fleiri en einum launagreiðanda skulu skipti á skuldbindingum milli launagreiðenda reiknast samkvæmt launum sem áunninn réttur er reiknaður eftir og í hlutfalli við réttindaávinning hjá hverjum launagreiðanda.
Meðal fyrrverandi starfsmanna varnaraðila eru sjóðfélagar í fyrrnefndri B-deild sóknaraðila. Samkvæmt gögnum málsins er hér annars vegar um að ræða tiltekna starfsmenn sjálfseignarstofnunarinnar SPRON, en hins vegar starfsmenn Sparisjóðsins Pundið sem mun hafa sameinast SPRON á árinu 1984. Í málinu er ekki um það deilt að þegar rekstur SPRON var færður í hlutafélagaform á árinu 2007 og varnaraðili formlega stofnaður hafi hann tekið yfir skuldbindingar vegna umræddra starfsmanna gagnvart B-deild sóknaraðila. Kemur fram í greinargerð varnaraðila að fram til þess tíma er varnaraðila var skipuð skilanefnd hafi verið greitt til sóknaraðila mánaðarlega fjárhæðir sem svöruðu til lífeyrishækkana fyrrverandi starfsmönnum með réttindi í B-deild samkvæmt útsendum greiðsluseðlum frá sóknaraðila. Er þannig ágreiningslaus í málinu að varnaraðili beri ábyrgð á hækkun lífeyris til umræddra starfsmanna samkvæmt fyrirmælum áðurnefndrar 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997. Jafnfram er óumdeilt að annars vegar er þar um að ræða hækkun lífeyris sem þegar hefur verið greiddur til sjóðfélaga (gjaldfallinn lífeyrir), en hins vegar hækkanir vegna lífeyrisréttinda sem ekki eru orðin virk. Í gögnum málsins eru þessar hækkanir sundurliðaðar miðað við tímabilið fyrir og eftir úrskurð héraðsdóms um töku varnaraðila til slitameðferðar.
Með bréfi 7. febrúar 2011 samþykkti varnaraðili hluta kröfu sóknaraðila eða 26.868 kr. sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Var þannig aðeins samþykktur sá hluti kröfunnar sem var vegna gjaldfallinnar ógreiddrar lífeyrishækkunar við upphaf slitameðferðar varnaraðila. Í bréfinu var hins vegar lýst þeirri afstöðu að sóknaraðili ætti ekki frekari kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli 1. mgr. 33. gr. laga nr. 10/1997, einkum vegna þess að slit fjármálafyrirtækis hefði ekki þau áhrif að allar kröfur féllu sjálfkrafa í gjalddaga. Fyrir dómi hefur varnaraðili horfið frá þeirri málsástæðu. Er þannig á það fallist af hálfu varnaraðila að sóknaraðili eigi kröfu vegna hækkunar lífeyris til framtíðar enda þótt útreikningum og forsendum sóknaraðila þar um sé mótmælt. Að þessu virtu þykir ekki ástæða til að rekja frekar afstöðu slitastjórnar varnaraðila til þessa atriðis eða víkja að mótmælum sóknaraðila í bréfi hans 24. sama mánaðar við umræddri afstöðu slitastjórnar varnaraðila.
Samkvæmt gögnum málsins áttu aðilar tvo fundi til sátta, hinn 24. mars 2011 og 15. nóvember sama ár, sem hvorugur skilaði árangri.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína á lögbundinni ábyrgð varnaraðila á greiðslu hluta eftirlauna samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997, en samkvæmt ákvæðinu beri launagreiðandi ábyrgð á þeirri hækkun sem verði á eftirlaunum á hverjum tíma. Krafa grundvallast á útreikningum tryggingastærðfræðings sem lagður hefur verið fram í málinu og sundurliðast sem hér segir:
|
Hlutur varnaraðila í lífeyrishækkunum sem eru fallnar fyrir 23.06.09 |
124.877.350 kr. |
|
Hlutur varnaraðila í lífeyrishækkunum sem falla til eftir 23.06.09 |
553.526.327 kr. |
|
Gjaldfallin ógreidd lífeyrishækkun þann 23.06.2009 |
25.490 kr. |
|
Dráttarvextir á gjaldfallna lífeyrishækkun fram til 23.06.2009 |
1.378 kr.
|
|
Samtals: |
678.430.545 kr. |
Sóknaraðili telur að krafan sé komin til fyrir endurgjald fyrir vinnu, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafnar tilvísunum varnaraðila til dóma Hæstaréttar Íslands þar sem greiðslur samkvæmt starfslokasamningi eða hlunnindi hafi ekki verið talin endurgjald fyrir vinnu. Sóknaraðili leggur áherslu á að sú krafa sem hér um ræðir hafi engin tengsl við hlunnindi enda sé hún áunnin vegna vinnuframlags á löngum tíma og ætluð til framfærslu með sama hætti og önnur laun og orlof. Um sé að ræða lögbundna ábyrgð launagreiðanda sem ávinnist og reiknist á grundvelli vinnuframlags. Ekki sé unnt að semja um greiðslur í lífeyrissjóð án þess að vinnuframlag standi þar að baki og megi þar m.a. nefna að ekki sé heimilt að greiða iðgjald til sóknaraðila af starfslokasamningum.
Enginn eðlismunur sé að baki eftirlaunagreiðslum, sem starfsmenn hafa gert fullar væntingar til og hafa unnið sér inn á löngum tíma og byggðar eru á vinnuframlagi, og þeim kröfum sem tilgreindar séu sem forgangskröfur í 1., 3. og 4. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Krafa sóknaraðila sé því fullkomlega samkynja enda byggð á sömu undirstöðurökum og liggja að baki launakröfum, endurgjaldi fyrir vinnu og iðgjaldi sem ætlað er til ávinnslu lífeyrisréttinda sem tilgreind eru í þessum ákvæðum.
Sóknaraðili áréttar einnig að aðild starfsmanna varnaraðila hafi ekki verið skyldubundin og því byggt á frjálsri aðild viðkomandi starfsmanna samkvæmt samningum milli starfsmanna og varnaraðila. Afar óeðlilegt verði að telja að sá hluti eftirlauna, sem varnaraðili beri lögum samkvæmt ábyrgð á að greiða, sbr. 33. gr. laga nr. 1/1997, verði ekki viðurkenndur sem forgangskrafa. Slík niðurstaða leiddi til þess að ábyrgðin félli óskipt á ríkissjóð, sbr. 32. gr. laga nr. 1/1997.
Sóknaraðili vísar til ákvæða laga nr. 21/1991, einkum 110., 112. gr., 113. gr. og 118. gr., ákvæða laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sérstaklega 33. gr., og ákvæða laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, einkum 1. mgr. 102. gr. sbr. breytingarlög nr. 44/2009 og 99. gr. Jafnframt er vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar og almennra jafnræðisreglna. Að síðustu er byggt á almennum reglum kröfuréttar um gjaldfellingu krafna vegna vanefnda.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili vísar til þess að lög nr. 21/1991 séu reist á þeirri grundvallarreglu að kröfuhafar njóti jafnræðis við skiptin. Því sé það meginregla laganna að kröfur njóta stöðu sem almennar kröfur skv. 113. gr. laganna og verði öll frávik að styðjast við skýr lagafyrirmæli annaðhvort í 109.-112. gr. laganna eða sérlögum. Kröfugerð sóknaraðila skorti stoð í slíkum fyrirmælum. Hvorki 33. gr. laga nr. 1/1997 né 112. gr. laga nr. 21/1991 geti þannig leitt til þeirrar niðurstöðu að krafa sóknaraðila teljist forgangskrafa.
Varnaraðili vísar til þess að forgangur krafna samkvæmt 1.-4. tölulið 112. gr. laga nr. 21/1991 byggi á því sjónarmiði að kröfurnar séu persónulegs eðlis og í beinum tengslum við störf launþega. Af þessari ástæðu verði töluliðir 2.-4. skýrðir til samræmis við 1. tölulið ákvæðisins með samræmisskýringu, þ.e. kröfurnar verði að vera í beinum tengslum við vinnuframlag launþega á tilteknu tímabili. Skýra verði 112. gr. laga nr. 21/1991 þrengjandi með hliðsjón af því að hún sé undantekning frá meginreglu laganna um jafnræði kröfuhafa og sé það viðhorf staðfest í lögskýringargögnum og dómaframkvæmd.
Að því er 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 snertir vísar varnaraðili til þess að stærstur hluti kröfu sóknaraðila hafi ekki fallið í gjalddaga fyrir frestdag. Kröfugerð sóknaraðila byggi á áætlunum sóknaraðila um framtíðarskuldbindingar varnaraðila gagnvart sóknaraðila eftir upphaf slitameðferðar varnaraðila þann 23. júní 2009. Þegar af þeirri ástæðu eigi ákvæðið ekki við um kröfu sóknaraðila. Varnaraðili vísar einnig til þess að kröfur samkvæmt ákvæðinu séu einstaklingsbundnar, þ.e. aðeins launþegi eigi aðild að kröfu um greiðslu launa og annars endurgjalds fyrir eigið vinnuframlag samkvæmt ráðningarsamningi á grundvelli ákvæðisins. Sé það í samræmi við almennar reglur vinnumarkaðsréttar sem og lagasjónarmið um eignarréttindi launþega samkvæmt ráðningarsamningi. Af þeim sökum geti sóknaraðili, sem er lífeyrissjóður, ekki átt aðild að kröfu á grundvelli ákvæðisins.
Framangreindu til stuðnings vísar varnaraðili einnig til þess að staðfest hafi verið í framkvæmd að forgangsréttur launþega nái aðeins til nettólauna, þ.e. þegar búið er að draga frá skatta og launatengd gjöld, svo sem iðgjöld til lífeyrissjóðs. Forgangsréttur nái ekki til krafna, sem launagreiðandi hafi dregið af launum launþega en ekki staðið skil á, heldur fari staða slíkra krafna eðlilega eftir því hvort þeim hafi verið veittur sjálfstæður forgangsréttur eða ekki. Varnaraðili vísar þessu til stuðnings til dómaframkvæmdar um þrengjandi skýringu ákvæðisins.
Að því er varðar 3. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 er því hafnað að krafa sóknaraðila lúti að orlofsfé eða orlofslaunum í skilningi ákvæðisins. Tilvísun sóknaraðila til ákvæðisins sé óútskýrð og vanreifuð.
Um ákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 heldur varnaraðili því fram að rökin að baki því að kröfur um gjöld til lífeyrissjóða teljist forgangskröfur séu einkum þau að kröfurnar verði til vegna starfa launþega í þjónustu vinnuveitanda og standi því í nánum tengslum við skyldur vinnuveitanda til launagreiðslna. Forgangur iðgjalda takmarkist að sama skapi við iðgjöld sem séu í beinum og órjúfanlegum tengslum við laun starfsmanna sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag eða eftir hann. Á því er byggt að kröfur samkvæmt ákvæðinu geti aðeins komið til álita séu þær í beinum tengslum við kröfur skv. 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laganna.
Hugtakið gjöld beri samkvæmt þessu að skýra þröngt og til samræmis við ákvæði 1. töluliðar greinarinnar. Með gjöldum sé átt við lágmarksiðgjöld samkvæmt 2. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og 13. og 23. gr. laga nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og eftir atvikum kröfur vegna samnings um viðbótartryggingarvernd, sbr. einnig d-lið 5. gr. laga nr. 88/2003 um ábyrgðasjóð launa. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins geti forgangsrétturinn hins vegar ekki tekið til krafna umfram lágmarksiðgjald samkvæmt lögum eða kjarasamningnum. Framangreindur skilningur verður einnig ráðinn af forsögu ákvæðisins um forgang iðgjaldskrafna, sbr. 10. gr. laga nr. 29/1963.
Undir ákvæði 4. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 falli því einungis kröfur um 4% hlutfall sjóðfélaga af föstum launum sínum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót og 8% hlutfall launagreiðanda af sömu upphæð í iðgjöld til sjóðsins. Krafa sóknaraðila byggi hins vegar á ábyrgð launagreiðanda á hækkunum samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1991 og sé því ekki um iðgjöld. Þá er nefnt að greiðslur úr sjóðnum séu ekki aðeins vegna ellilífeyris, heldur einnig vegna örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris. Um sé að ræða verðbætur sem séu allt annars eðlis en iðgjöld sem greidd eru til lífeyrissjóða eftir þeim lagaákvæðum sem að framan voru rakin.
Varnaraðili bendir enn fremur á þá framkvæmd innheimtu að endurgreiðslukrafan verði ekki gjaldkræf fyrr en löngu eftir að laun urðu gjaldkræf. Ekki verði heldur fram hjá því litið að launagreiðendur geti gert upp skuldbindingar sínar skv. 33. gr. laga nr. 1/1997 með útgáfu skuldabréfs en slík ráðstöfun sé ekki tæk vegna greiðslu iðgjalda. Að sama skapi er bent á að ábyrgðasjóður launa ábyrgist ekki kröfu sóknaraðila líkt og iðgjaldakröfu, sbr. 5. gr. laga nr. 88/2003.
Í ljósi alls þessa hafnar varnaraðili því að krafa sóknaraðila njóti forgangs réttar skv. 1., 3. eða 4. tl. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila
Niðurstaða
Við aðalmeðferð málsins var því lýst yfir að ágreiningslaust væri að sóknaraðili ætti kröfu gegn varnaraðila vegna ógjaldfallinna lífeyrishækkana samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Er þar bæði um að ræða hækkun lífeyrisgreiðslna sem mun fyrirsjáanlega leiða af hækkun launa áður en varnaraðili var tekinn til slitameðferðar hinn 23. júní 2009 og hækkanir sem gert er ráð fyrir að muni falla til eftir þetta tímamark. Aðilar deila um fjárhæð kröfu sóknaraðila vegna þessara hækkana, en sem fyrr segir er sá ágreiningur ekki til úrlausnar í þessum þætti málsins. Er því ekki lengur á því byggt af hálfu varnaraðila að krafa sóknaraðila vegna ógjaldfallinna hækkana hafi ekki orðið gjaldkræf við upphaf slitameðferðar varnaraðila. Þá er ekki deilt um fjárhæð kröfu sóknaraðila vegna lífeyrishækkunar sem var gjaldfallin og ógreidd 23. júní 2009. Sakarefni þessa þáttar málsins lýtur þar af leiðandi eingöngu að rétthæð kröfu sóknaraðila samkvæmt XII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sem aðilar eru sammála um að hafi orðið gjaldkræf við upphaf slitameðferðar varnaraðila samkvæmt grunnreglu 99. laga nr. 21/1991.
Í 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eru taldar upp í átta töluliðum kröfur sem að réttri tiltölu ganga framar svonefndum almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laganna. Ákvæðin fela í sér frávik frá þeirri meginreglu gjaldþrotaskiptaréttar að eignir þrotabús skiptist jafnt á milli kröfuhafa þrotamanns. Við skýringu ákvæðanna verður því almennt að ganga út frá því að þau verði skýrð samkvæmt orðanna hljóðan þannig að rýmkandi lögskýring eða lögjöfnun komi ekki til greina. Eru þessi viðhorf í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands um skýringu 112. gr. laga nr. 21/1991 og samband greinarinnar við 113. gr. laganna, sbr. einkum dóm réttarins 1. september 2003 í máli nr. 326/2003. Leiðir af þessu að krafa sóknaraðila verður ekki viðurkennd sem forgangskrafa án þess að hún verði heimfærð undir einhvern tölulið málsgreinarinnar.
Ákvæði 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 tekur til „krafna um laun og annars endurgjalds fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns“. Af gögnum málsins er ljóst að krafa sóknaraðila er hvorki reist á vinnusamningi né felur hún í sér beint endurgjald fyrir vinnu. Þá leiðir af samræmisskýringu við 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 að utan hugtakanna „laun“ og „annað endurgjald“ falla þær fjárhæðir sem launagreiðanda er skylt að halda af launum launþega og greiða til lífeyrissjóðs. Með vísan til þeirra almennu sjónarmiða sem gilda um skýringu 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og áður eru rakin verður að hafna málsástæðum sóknaraðila þess efnis að nægilegt sé að krafa sóknaraðila sé samkynja þeim kröfum sem ákvæðið tekur til. Af sömu ástæðu verður málsástæðu sóknaraðila viðvíkjandi 2. tölulið 112. gr. laga nr. 21/1991 einnig hafnað.
Í 4. tölulið 112. gr. laganna er m.a. fjallað um kröfur um gjöld til lífeyrissjóða. Ákvæðið er takmarkað við gjöld sem þrotamanni hefur borið að greiða samkvæmt lögum eða kjarasamningi á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag eða eftir frestdag. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 21/1991 kemur fram að umræddu ákvæði sé ætlað að svara til 4. töluliðar 84. gr. laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl. að öðru leyti en því að það taki einnig til gjalda til stéttarfélaga, sbr. þágildandi fyrirmæli 8. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Tilvitnað ákvæði 4. töluliðar 84. gr. laga nr. 3/1878 mælti fyrir um gjöld til lífeyrissjóða sem vinnuveitendum bæri að greiða samkvæmt kjarasamningum eða lögum „og reiknuð eru sem hlutfallstala af kaupi launþega“. Í samræmi við þetta segir í áðurgreindum athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 21/1991 að í framkvæmd reyni mest á forgangsrétt vegna krafna um vinnulaun, laun í uppsagnarfresti, orlofsfé eða orlofslaun og „iðgjöld til lífeyrissjóða“.
Samkvæmt framangreindu verður að skýra hugtakið „gjöld til lífeyrissjóða“ samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 á þá leið að um sé að ræða þau gjöld sem vinnuveitanda ber að greiða lífeyrissjóði sem ákveðið hlutfall af launum launþega samkvæmt kjarasamningi eða lögum og standa lífeyrissjóði skil á. Fær slík niðurstaða einnig nokkra stoð í samræmisskýringu við 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laganna svo og því tímamarki sem vísað er til í þessum tveimur ákvæðum.
Líkt og áður greinir er krafa sóknaraðila ekki byggð á iðgjöldum, miðuðum við ákveðið hlutfall launa, sem varnaraðila bar að standa sóknaraðila skil á heldur sérstakri ábyrgð varnaraðila á hækkun lífeyris samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 vegna hækkana á viðmiðunarlaunum lífeyrisþega. Að mati dómara er ljóst af forsögu umrædds ákvæðis, svo og núgildandi löggjöf um varnaraðila, að því er ætlað að tryggja nægilega fjármögnun B-deildar sjóðsins til lengri tíma litið. Er þetta einnig ljóst af grundvelli kröfu sóknaraðila sem grundvallast á tryggingarfræðilegum forsendum um fyrirsjáanlega þróun lífeyrisskuldbindinga sjóðsins. Verður kröfu sóknaraðila því ekki jafnað til þeirra launatengdu lífeyrissiðgjalda sem veittur er forgangur í 4. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt öllu framangreindu verður hafnað aðalkröfu sóknaraðila á þá leið að lýst krafa hans verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með vísan til samkomulags aðila verður krafa sóknaraðila hins vegar viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Rétt þykir að málskostnaður bíði endanlegrar úrlausnar málsins.
Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, um að krafa hans gegn varnaraðila, Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf., vegna lífeyrisskuldbindinga sem hvíla á varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 1/1997 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. lið nr. 126 í kröfuskrá varnaraðila, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Viðurkennt er að sóknaraðili eigi slíka kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitin.
Málskostnaður verður ekki dæmdur.