Hæstiréttur íslands
Mál nr. 114/2006
Lykilorð
- Útlendingur
- Atvinnuréttindi
|
|
Fimmtudaginn 21. september 2006. |
|
Nr. 114/2006. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Eysteini Gunnari Guðmundssyni (Jón Einar Jakobsson hdl.) |
Útlendingar. Atvinnuréttindi.
E var sakfelldur fyrir brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga með því að hafa haft sex nafngreinda litháíska ríkisborgara í vinnu hér á landi án atvinnuleyfis og dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 19. janúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu, en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara mildunar á refsingu.
Málsatvikum er nægilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði byggir sýknukröfu sína einkum á því að þeir litháísku starfsmenn sem um ræðir hafi verið að vinna fyrir danskt félag að nánar tilgreindu verkefni á Íslandi og hafi mennirnir haft gilt atvinnuleyfi í Danmörku og því hafi þeim verið heimilt að starfa hér á landi. Gögn málsins styðja þessa fullyrðingu ákærða ekki svo fullnægjandi sé. Umræddir menn höfðu ekki atvinnuleyfi hér á landi þótt það hafi verið skylt eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Verður því staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga þurfa litháískir ríkisborgarar frá 1. maí 2006 ekki lengur atvinnuleyfi á Íslandi. Hins vegar hefur mat löggjafans á refsinæmi þess að ráða til starfa erlenda menn, sem atvinnuleyfi þurfa, án þess að slíkt leyfi liggi fyrir ekki breyst, sbr. lokamálslið 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þegar haft er í huga að ákærði hefur áður verið sakfelldur fyrir sams konar brot, sem og það sem fyrr segir um breytingu á refsilöggjöfinni frá því brotið var framið, þykir refsing hans hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi og verður hann því staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Eysteinn Gunnar Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 249.133 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Einars Jakobssonar héraðsdómslögmanns, 224.100 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2006.
Mál þetta er höfðað með ákæru 6. desember 2004 á hendur ákærða Eysteini Gunnari Guðmundssyni, [kt. og heimilisfang], „fyrir brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga með því að hafa á tímabilinu frá því í september 2002, sem fyrirsvarsmaður SK Smáverka ehf., [kt.] og Perlunnar ehf., [kt.], ráðið í vinnu til sín a.m.k. 6 útlendinga þá:
A, fæddur 11. apríl 1957,
B, fæddur 22. júní 1973,
C, fæddur 4. júní 1971,
D, fæddur 7. október 1966,
E, fæddur 15. maí 1977 og
F, fæddur 29. ágúst 1962,
alla með ríkisfang í Litháen, til starfa við byggingavinnu hér á landi á vegum G., en þeir störfuðu með stuttum hléum yfir jól og hluta júlí og ágústmánaðar, til september 2003, þrátt fyrir að enginn þeirra væri með atvinnuleyfi á Íslandi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 4. gr., sbr. 15. gr. laga nr. 133/1994 um atvinnuleyfi útlendinga og frá 1. janúar 2003 við 2. mgr. 6. gr. sbr. 17. gr. nýrra laga um atvinnuréttindi útlendinga, laga nr. 97/2002, sbr. ákvæði til bráðabirgða.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Málsvarnarlauna er krafist.
Máli þessu var vísað frá héraðsdómi án kröfu 26. október 2005. Með dómi Hæstaréttar Íslands 8. nóvember 2005 var frávísunarúrskurðurinn úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Málið var flutt að nýju 19. desember sl. og dómtekið í framhaldi af því.
I.
Upphaf máls þessa má rekja til þess er lögreglan á Keflavíkurflugvelli hafði afskipti af Litháanum E 6. október 2003 sem var að taka á móti tveimur löndum sínum á Keflavíkurflugvelli sem voru að koma með flugi frá Frankfurt. Lögreglan grunaði E um að dvelja ólöglega í landinu en hann sagðist ekki vera með vegabréf á sér. Var honum fylgt heim til hans að H þar sem hittust fyrir fjórir aðrir Litháar. Meðan athugað var með vegabréf E hurfu fjórmenningarnir og virtist lögreglunni að þeir hefðu spennt upp gluggajárn og farið út um glugga á íbúðinni en þeir höfðu lokað að sér í einu herbergi íbúðarinnar.
Ákærði skýrði svo frá hjá lögreglu 9. og 17. október 2003 að allir ofangreindir menn, þ.á m. þeir sem í ákæru greinir, væru á hans vegum og bæri hann ábyrgð á þeim og því að atvinnuleyfi þeirra væri útrunnið. Ákærði kvaðst hafa sótt um atvinnuleyfi í Danmörku fyrir þá Litháa sem í ákæru greinir. Það hafi hann gert í nafni fyrirtækisins I sem hann hafi átt í Danmörku. I hafi keypt dekkjaverksmiðju í Hveragerði og til hafi staðið að taka hana niður og flytja til Danmörku og reisa hana þar. Litháarnir hafi komið til landsins í þessu skyni í september 2002 og unnið í Hveragerði fram að jólum 2002 við að rífa verksmiðjuna. Þeir hafi farið heim til sín um jólin en komið aftur til Íslands eftir áramót. Þá hafi verkið í Hveragerði tafist af ýmsum ástæðum og þeir orðið verklausir. Á þessum tíma hafi ákærði rekið tvö fyrirtæki, fyrst S.K. Smáverk ehf. og síðar Perluna ehf., en þessi félög hafi verið undirverktakar hjá G sem sé byggingarfyrirtæki. Þegar Litháarnir hafi verið orðnir verklausir í Hveragerði hafi hann fengið þá til þess að vinna í byggingarvinnu hjá G Það hafi hann gert til þess að minnka skaðann hjá sér. Í framhaldinu hafi mál æxlast þannig að verkefnið í Hveragerði hafi hætt og Litháarnir unnið áfram í byggingarvinnu hjá G.
Fyrir dómi skýrði ákærði á sama veg frá og hjá lögreglu. Litháarnir hafi unnið við byggingarvinnu eftir áramót og fram í september 2003. Sumir með einhverjum hléum en flestir megnið af tímanum. Forsvarsmenn G, þeir J, K og L, komu fyrir dóm og staðfestu að Litháar þeir er í ákæru greinir hafi unnið við byggingarvinnu hjá G frá því í janúar 2003 og fram í september 2003, sumir allan tímann en aðrir með einhverjum hléum.
Í gögnum málsins kemur fram að Litháarnir höfðu allir atvinnuleyfi í Danmörku frá 18. september 2002 til 18. mars 2003 nema E sem hafði atvinnuleyfi frá 25. september 2002 til 25. mars 2003. Þá hefur komið fram í málinu að leyfið gilti til þess dags er nýrri umsókn var hafnað í Danmörku en það var 13. nóvember 2003. Er því óumdeilt að Litháar þeir sem í ákæru greinir höfðu allir atvinnuleyfi í Danmörku til 13. nóvember 2003.
Þá lagði ákærði fram í málinu við aðalmeðferð samning sem ber yfirskriftina samningur og umboð og er dagsettur 15. ágúst 2002. Aðilar samningsins eru I og Smáverk ehf. og undirritar ákærði samninginn fyrir hönd beggja aðila. Þar segir m.a. að I taki að sér að taka niður verksmiðju í Hveragerði og muni senda 6-7 starfsmenn til að vinna verkið. Smáverki ehf. er veitt umboð til að nýta starfskraftana og senda þá í aðra byggingarvinnu ef því er að skipta.
II.
Varnir ákærða byggjast einkum á því að atvinnuleyfi útgefið í Danmörku af dönskum yfirvöldum gildi einnig á Íslandi.
Lög nr. 133/1994 um atvinnuréttindi útlendinga giltu til 1. janúar 2003. Í 1. mgr. 4. gr. laganna segir að óheimilt sé hverjum manni, félagi eða stofnun, sem rekur atvinnu eða starfrækir fyrirtæki, hverju nafni sem það nefnist að ráða útlending til starfa, hvort heldur um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingur flytji til landsins í því skyni án atvinnuleyfis. Segir jafnframt að slíkt leyfi skuli liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Í 3. gr. laganna segir að félagsmálaráðherra veiti atvinnuleyfi. Undanþáguákvæði eru í 4. kafla laganna en ekkert þeirra á við í þessu máli.
Lög nr. 97/2002 tóku við af þessum lögum og gilda frá 1. janúar 2003. Í nýju lögunum eru sambærileg ákvæði í 2. og 3. mgr. 6. gr. og áður var í 1. mgr. 4. gr. eldri laga og rakin er hér að framan. Í 3. kafla laga nr. 97/2002 eru undanþáguákvæði þar sem segir meðal annars í 14. gr. að undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi séu ríkisborgarar í aðildarríkjum samnings um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og aðrir útlendingar sem falla undir reglur samnings um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu með þeim takmörkunum sem þar greinir og nánar skal kveðið á um í reglugerð. Þetta undanþáguákvæði 14. gr. á ekki við í málinu því í ákvæði til bráðabirgða segir að þessi regla gildi ekki að því er varðar rétt ríkisborgara Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklands og Ungverjalands til að starfa hér á landi fyrr en 1. maí 2006, sbr. þó lög nr. 54/2001.
Koma þá næst til skoðunar síðastgreind lög nr. 54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja en af hálfu ákærða var einkum byggt á þeim lögum við aðalmeðferð málsins. Lög nr. 54/2001 tóku gildi 13. júní 2001. Í 1. gr. laganna segir að þau gildi um fyrirtæki sem hefur staðfestu utan Íslands og sendir starfsmenn hingað til lands, sbr. 2. gr., í tengslum við veitingu þjónustu sem starfar að jafnaði utan Íslands en er sendur tímabundið til starfa hér á landi. Í 2. gr. laganna er nánari skilgreining á þessu atriði þar sem segir að fyrirtækið teljist senda starfsmann í skilningi 1. gr. hingað til lands í þeim tilvikum þegar það sendir á sínum vegum og undir sinni stjórn starfsmann í tengslum við samninga um veitingu þjónustu við fyrirtæki hér á landi, þegar það sendir starfsmann til starfsstöðvar eða fyrirtækis í eigu sömu fyrirtækjasamstæðu hér á landi og að lokum þegar það framleigir sem afleysingarfyrirtæki eða atvinnumiðlun starfsmann til notenda fyrirtækis sem hefur staðfestu eða er með starfsemi hér á landi. Í lok 2. gr. segir að það sé ávallt skilyrði að ráðningarsamband sé milli fyrirtækisins og starfsmanns á þeim tíma sem það starfar hér á landi.
Þessi lög þykja ekki koma til álita í málinu því ákærði er ákærður fyrir að ráða í vinnu til sín útlendinga „til starfa við byggingavinnu hér á landi á vegum G“ Fyrir liggur í málinu að Litháarnir sex sem í ákæru greinir unnu í byggingarvinnu að minnsta kosti eftir áramót á vegum G. Vinna þeirra á vegum G frá því í janúar 2003 fram á haust það ár getur engan veginn fallið undir ákvæði framangreindra laga nr. 54/2001. Telst sök ákærða því sönnuð að þessu leyti, að hann hafi ráðið útlendinga til vinnu án þess að þeir hefðu atvinnuleyfi hér á landi. Ekki þykir skipta máli í þessu sambandi að ráðningarsamningur sexmenninganna var við I en ekki Smáverk ehf. og Perluna ehf. eins og í ákæru greinir. Með háttsemi sinni hefur ákærði gerst brotlegur við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 97/2002, en þau lög tóku gildi 1. janúar 2003.
Varðandi sakaferil ákærða skiptir einkum máli dómur sem hann hlaut í Hæstarétti 28. nóvember 2002 fyrir samskonar brot og nú er ákært fyrir. Þá hlaut hann 300.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 4. gr. sbr. 15. gr. laga nr. 133/1994.
Samkvæmt 17. gr. laga nr. 97/2002 verður ákærði dæmdur til greiðslu sektar sem þykir hæfilega ákveðin 500.000 krónur til ríkissjóðs og komi 28 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Einars Jakobssonar hdl., 50.000 krónur, en verjanda voru áður dæmd málsvarnarlaun í málinu með fyrrnefndum úrskurði 26. október sl.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Eysteinn Gunnar Guðmundsson, greiði 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 28 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu að telja.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóns Einars Jakobssonar hdl., 50.000 krónur.