Hæstiréttur íslands

Mál nr. 250/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. júlí 2001.

Nr. 250/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Magnús Björn Brynjólfsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

X kærði þá ákvörðun héraðsdóms að banna honum för frá Íslandi þar til dómur félli í máli hans, þó eigi lengur en 15. október 2001. Ákæra hafði verið gefin út á hendur X þar sem honum var gefið að sök tilraun til manndráps og tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar með því að hafa ráðist á A og veitt honum tvö stungusár með hnífi og skömmu síðar kastað hnífnum í áttina að B. Hæstiréttur staðfesti ákvörðun héraðsdóms.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júlí 2001. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2001, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 15. október nk., eins og segir í hinni kærðu ákvörðun. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest að öðru leyti en því að farbannið standi eigi lengur en til mánudagsins 15. október nk.

Hinn 29. júní 2001 var gefin út ákæra á hendur varnaraðila fyrir tilraun til manndráps og tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar með því að hafa 5. janúar 2001 veitt A tvö stungusár með hnífi og skömmu síðar kastað hnífnum í áttina að B. Varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi af þessum sökum til 9. febrúar 2001, en með ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 12. sama mánaðar var honum að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík bönnuð för úr landi allt til 2. apríl sl. Sú ákvörðun var staðfest með dómi Hæstaréttar 16. febrúar 2001. Lögreglustjórinn í Reykjavík krafðist þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2. apríl sl. að varnaraðila yrði bönnuð för úr landi allt til 2. júlí 2001. Var sú krafa tekin til greina og staðfest með dómi Hæstaréttar 5. apríl sl. Þess var enn krafist fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 29. júní sl. að varnaraðila yrði bönnuð för úr landi allt þar til dómur félli í máli hans, þó eigi lengur en til 15. október 2001. Var sú krafa tekin til greina með hinni kærðu ákvörðun, sem verður staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

X er bönnuð för frá Íslandi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til mánudagsins 15. október nk. kl. 16.00.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2001

 

Kærða, X, til heimilis að […], er bönnuð för frá Íslandi þar til dómur fellur í máli hans, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 15. október nk. kl. 16.00.

 

Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari