Hæstiréttur íslands

Mál nr. 866/2016

A (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)
gegn
B og C (Andri Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Friðhelgi einkalífs
  • Mannerfðafræðileg rannsókn

Reifun

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr honum og B í því skyni að fá úr því skorið hvort hinn síðarnefndi væri faðir sinn. Í dómi Hæstaréttar kom fram að A hefði fært nægar sönnur á að uppfyllt væru skilyrði 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 til að höfða málið og því yrði að telja ótvírætt að hagsmunir hans samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar af því að fá úr því skorið hvort B væri faðir hans vægju þyngra en hagsmunir C og D samkvæmt sömu málsgrein. Var krafa A því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. desember 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 6. janúar 2017. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að gerð verði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr honum og B í því skyni að fá úr því skorið hvort hann sé faðir sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. 

I

Hinn 24. ágúst 2016 höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðilum til viðurkenningar á að B, fæddur [...], væri faðir sinn. Í stefnu til héraðsdóms er því haldið fram að móðir sóknaraðila, E, sem var fædd [...] og lést [...], hafi ráðið sig um haustið 1925 sem vinnukona til B og eiginkonu hans, en þau voru foreldrar varnaraðila. Þegar móðir sóknaraðila hafi horfið úr vistinni um áramótin 1925 til 1926 hafi hún verið barnshafandi og það markað endi á vist hennar hjá þeim hjónum. Hafi hún kynnst F á árinu 1926 í [...]. Sóknaraðili fæddist [...] og var skírður [...] sama ár. Mun móðir sóknaraðila hafa gifst áðurnefndum F eftir skírnina og var hann skráður faðir sóknaraðila. F lést [...].

Allt frá átta ára aldri kveðst sóknaraðili hafa heyrt ávæning af því að F væri ekki faðir sinn, en hann hafi kynnst móður sóknaraðila eftir að hún var orðin barnshafandi. Kveðst sóknaraðili hafa rætt þetta við móður sína og fengið staðfestingu á að þetta væri sannleikanum samkvæmt. Hafi sóknaraðili ávallt talið B föður sinn.

Sóknaraðili höfðaði 3. mars 2016 vefengingarmál á hendur þremur systkinum sínum og krafðist þess að fyrrnefndur F væri ekki faðir sinn. Undir rekstri málsins fór fram mannerfðafræðileg rannsókn á blóðsýnum úr sóknaraðila og F og samkvæmt niðurstöðu hennar 6. júní 2016 útilokaðist hinn síðarnefndi frá því að vera faðir sóknaraðila. Með héraðsdómi 21. sama mánaðar var því síðan slegið föstu að F væri ekki faðir sóknaraðila.

Í málinu er fram komið að til er lífsýni úr B.

II

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 10. gr. barnalaga getur barn höfðað faðernismál hafi það ekki verið feðrað og sé slíkt mál höfðað skal eftir 2. mgr. sömu greinar stefna þeim manni eða mönnum sem talið er að móðir hafi haft samfarir við á getnaðartíma barns, en að honum látnum megi beina máli að lögerfingjum. Mælt er fyrir um það í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Undir það heyrir réttur sérhvers manns til að þekkja uppruna sinn, þar á meðal faðerni sitt, svo og réttur til að aðrir raski ekki þessari friðhelgi nema brýna nauðsyn beri til, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Að teknu tilliti til hvors tveggja verða áðurnefnd ákvæði skýrð svo að það sé skilyrði þess að faðernismál verði höfðað að líkur hafi verið færðar fyrir því að maður, sem talinn er faðir barns, hafi haft samfarir við móður þess.

Ekki eru efni til að vefengja framburð sóknaraðila um að móðir hans hafi verið í vist hjá foreldrum varnaraðila, sem lokið hafi um áramótin 1925 til 1926, og að hún hafi skýrt sóknaraðila frá því að annar maður en eiginmaður sinn væri faðir sóknaraðila. Var frásögn móður sóknaraðila um hið síðarnefnda staðfest með dómi í fyrrnefndu vefengingarmáli. Í málinu liggja fyrir ljósmyndir, sem sýna fram á hversu líkur sóknaraðili er B og varnaraðilum. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili fært nægar sönnur á að uppfyllt séu skilyrði barnalaga til höfðunar máls þessa. Í því ljósi verður að telja ótvírætt að hagsmunir sóknaraðila samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar af því að fá úr því skorið hvort fyrrgreindur faðir varnaraðila sé faðir sinn vegi mun þyngra en þeir hagsmunir, sem varnaraðilar bera fyrir sig samkvæmt sömu málsgrein. Að þessu virtu verður framangreind krafa sóknaraðila tekin til greina.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Samkvæmt 11. gr. barnalaga skal greiða úr ríkissjóði þóknun lögmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti og verður hún ákveðin eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Krafa sóknaraðila, A, um að gerð verði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr honum og B, er tekin til greina.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Þóknun lögmanns sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2016.

I.

Mál þetta er höfðað 24. ágúst 2016 með stefnu útgefinni sama dag.

Í þinghaldi 18. október sl. lagði stefnandi fram, með bókun í þingbók, kröfu um að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn skv. 15. gr. barnalaga. Stefndu fengu frest til 3. nóvember sl. til að taka afstöðu til kröfunnar. Í því þinghaldi lögðu stefndu fram bókun þar sem kröfunni er mótmælt og þess krafist að henni yrði hafnað. Var þá ákveðinn munnlegur málflutningur um þennan ágreining. Málflutningur fór fram 15. desember sl. og var málið tekið til úrskurðar þann dag. Aðeins sá þáttur málsins er hér til umfjöllunar og úrlausnar.

II.

Stefnandi krefst þess að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn í málinu samkvæmt 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá krefst hann málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefnandi krefst þess að kröfunni verði hafnað.

III.

Stefnandi er sonur E, sem fædd var [...] á [...],[...]. Því er haldið fram í stefnu að haustið 1925 hafi hún ráðið sig sem vinnukonu á heimili B og eiginkonu hans, G, í [...]. Hún hafi horfið úr þeirri vist eftir áramótin 1925/1926 og þá verið barnshafandi. E giftist um vorið F fæddum [...], en F kynntist hún í [...]. Stefnandi fæddist þann [...] þetta ár og var skírður [...] í [...]. F var skráður faðir stefnanda en stefnandi heyrði mjög ungur ávæning að því að hann væri ekki raunverulegur faðir hans, og staðfesti móðir stefnanda þetta í hans eyru. Móðir stefnanda lést þann [...] og F lést þann [...].

Í kjölfar mannerfðafræðilegrar rannsóknar gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. júní 2016, þar sem staðfest var að F gæti ekki verið líffræðilegur faðir sóknaraðila.

Fram kom við skýrslutökur í málinu að móðir stefnanda hafði aldrei orð á því í hans eyru hver gæti verið faðir hans og ræddi það ekki. Hún hafi hins vegar sagt honum að hún hafi verið sjúklingur á [...] og dvalið þar árið 1925, þá ekkja, og hafi ráðið sig um haustið á heimili B og G sem stofustúlka. Þetta hafi hún sagt honum, líkast til þegar hann var á bilinu sjö til ellefu ára. Jafnframt að þegar hún hafi horfið úr vistinni um áramótin 1925 hafi hún verið fjárhagslega sjálfstæð kona.

Stefnandi kvaðst hafa verið kominn til vits og ára þegar H föðursystir hans, þ.e. systir F, hafi sagt honum að hann væri bara hálfbróðir systkinanna.

Aðspurður um það hvenær sá grunur hafi vaknað hjá honum, að B gæti verið faðir hans, kvaðst stefnandi hafa hugsað fyrst út í það þegar hann var orðinn nokkuð fullorðinn maður. Ástæðan var sú að þá hafi ítrekað verið tekinn feill á honum og stefndu, og hann oft spurður á seinni árum hvort hann væri skyldur stefndu.

Í málinu liggur fyrir að samkvæmt manntalsspjaldskrá vegna E [...], er hún sögð búsett að [...] í [...] það ár og skráð sem hjú. Þar er einnig skráð I, hálfsystir stefnanda, sem að hans sögn fylgdi móður hans alltaf. Árið [...] er E skráð að [...], ásamt óskírðu sveinbarni fæddu [...]. Sama heimilisfang er skráð á fæðingar- og skírnarvottorð.

Samkvæmt sömu heimild var skráð vinnukona á heimili B og G við [...], J. E er þar ekki getið.

Við upphaf munnlegs málflutnings um þennan hluta málsins, lagði lögmaður stefnanda fram staðfestingu frá Landspítalanum í tölvuskeyti þess efnis að samkvæmt gagnagrunni spítalans væri til lífssýni úr B fæddum [...].

Fyrir dóminn kom dóttir stefnanda. Ekki er ástæða til að rekja framburð hennar ítarlega, en hún taldi þó að amma hennar hefði ekki rætt þetta við nokkurn mann, og enginn gengið á hana með þetta.

IV.

Stefnandi byggir kröfur sínar á meginreglum barnaréttarins um að barn skuli feðrað og um rétt barns til að þekkja báða foreldra sína. Kveðst hann um þetta einkum vísa til 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, um skyldu til að feðra barn og 3. gr. svo og II. kafla laganna, um dómsmál til feðrunar barns. 

Málsaðild er byggð á 10. gr. barnalaga. Þar sé gert ráð fyrir því að ef barn höfðar mál til viðurkenningar á faðerni sínu, geti það beint kröfum sínum að lögerfingjum meints föður, sem gengju barninu/stefnanda jafnhliða eða næst að erfðum. Stefndu í máli þessu séu synir B, en hann hafi látist 21. september 1974.

Um kröfu þá sem hér er fjallað um vísar stefnandi til þess að almennt sé viðurkennt að einstaklingur hafi af því mikla hagsmuni og eigi ríkan rétt til þess að þekkja uppruna sinn. Stefnandi telur að dómaframkvæmd um kröfur sem þessar hafi verið að breytast og minni sönnunarkröfur séu nú gerðar. Vísar stefnandi um þessa þróun til sératkvæðis í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 224/2006 og síðan dóms réttarins í málinu nr. 800/2013. Þá telur stefnandi að ekki sé hægt að byggja á upplýsingum úr manntalsskrá þar sem ekki liggi fyrir í málinu hvernig þessara upplýsinga var aflað eða hversu áreiðanlegar heimildir þessi gögn séu.

Um varnarþing er vísað til 9. gr. barnalaga nr. 76/2003 en í ákvæðinu segir að faðernismál megi höfða á heimilisvarnarþingi aðila. 

Málið sé gjafsóknarmál með vísan til 11. gr. barnalaga en samkvæmt ákvæðinu skuli greiða þóknun lögmanns stefnanda þegar barn er sjálft stefnandi máls, úr ríkissjóði, svo og annan málskostnað stefnanda.

V.

Stefndu benda á að í máli sem þessu, þar sem stefnandi neytir þeirrar heimildar sem veitt er barni í 1. málslið 1. mgr. 10. gr. barnalaga, nr. 76/2003, til að höfða mál til feðrunar, gildi sú regla 2. mgr. 10. gr. laganna að mál skuli höfðað gegn þeim manni eða mönnum sem eru taldir hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns, og að þeim látnum, tilgreindum lögerfingjum.

Ekki sé á því byggt í málinu, og teljist jafnframt ósannað, að E, móðir stefnanda, sem lifað hafi í tæpa sex áratugi eftir fæðingu stefnanda, hafi haldið því fram að hún hafi haft áskilið samneyti við föður stefndu, og að B væri því faðir stefnanda. Á sama hátt sé ljóst að E heitin mun engar ráðstafanir hafa gert, svo vitað sé, sem lutu að því að skjóta stoðum undir að málum væri svo háttað, svo sem fyrir yfirvöldum eða dómi. Því verði að telja að framangreint skilyrði 2. mgr. 10. gr. laganna sé ekki uppfyllt. Beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af dómkröfum stefnanda, sbr. og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Ekkert liggi fyrir um að móðir stefnanda, E, hafi verið ráðin til vistar eða dvalið á heimili B heitins og fjölskyldu á nefndu tímamarki, eða á getnaðartíma stefnanda, það er haustið 1925, utan framburðar stefnanda sjálfs. Gögn málsins bendi þvert á móti til hins gagnstæða og að E hafi verið búsett annars staðar. Engin gögn hafi komið fram sem benda til þess að E hafi verið við störf á heimili B og fjölskyldu á nefndum tíma. Sé því sérstaklega mótmælt staðhæfingu stefnanda um atvik málsins, þ. á m. að móðir hans hafi verið vistráðin hjá B og eiginkonu hans á umræddum tíma og að móðir hans hafi orðið „barnshafandi í vist hennar hjá þeim B og E“ (sic), og að það hafi „markað endi á veru hennar á því heimili“.

Af hálfu stefndu er einnig áréttað að ekkert hafi verið fært fram í málatilbúnaði stefnanda sem teljist að öðru leyti geta veitt sönnun um, eða gert líklegt, að B sé faðir stefnanda. Móðir stefnanda hafi samkvæmt gögnum málsins aldrei haldið því fram eða staðhæft, að málum væri svo háttað. Bresti því með öllu grundvöll fyrir dómkröfu stefnanda.

Varðandi þá kröfu sérstaklega að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram, telja stefndu að lagaskilyrði skorti til þess að verða við slíkri kröfu. Stefndu hafi ekki heyrt ávæning af þessu máli fyrr en á þessu ári og höfðu aldrei heyrt að móðir stefnanda hafi dvalið á heimili foreldra þeirra enda sé það ósannað. Það felist mikið inngrip í einkalíf fólks og friðhelgi að fallast á kröfu sem þessa og því verði að gera ríkar kröfur til þess að lagaskilyrði séu uppfyllt, einkum 2. mgr. 10. gr. barnalaga.

Stefndu telja að atvik í fyrrgreindu máli Hæstaréttar nr. 800/2013 séu önnur en í þessu máli og marki ekki grundvallarstefnubreytingu í þessum málum.

Um lagarök vísa stefndu m.a. til laga nr. 76/2003, barnalaga, svo og til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sem og almennra sönnunarreglna réttarins. Um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

VI.

Í máli þessu neytir stefnandi þeirrar heimildar, sem veitt er barni sjálfu með 1. málslið 1. mgr. 10. gr. barnalaga til að höfða dómsmál um faðerni sitt. Þegar það er gert gildir sú regla samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar að til varnar í slíku máli skuli vera sá maður eða þeir, sem taldir eru hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns, en að honum eða þeim látnum megi beina máli að lögerfingjum, sem gengju barninu jafnhliða eða næst að erfðum. Móðir stefnanda lést sem áður segir 18. maí 1983, fjölda ára eftir að hann átti þess fyrst kost að höfða dómsmál um faðerni sitt. Því er ekki borið við í málinu að hún hafi nokkru sinni fyrir yfirvöldum eða dómi lýst B föður stefnanda. Þvert á móti bendir allt til þess samkvæmt framburði stefnanda, að hún hafi aldrei tjáð sig um þetta og jafnvel má draga þá ályktun út frá gögnum málsins og framburði stefnanda og vitnisins K, að E hafi ekki litið svo á að B væri barnsfaðir hennar. Ekkert liggur fyrir í málinu af hennar hendi um að hún hafi talið svo vera.

Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar er svo fyrir mælt að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Undir það heyrir réttur sérhvers manns til að þekkja uppruna sinn, þar á meðal faðerni sitt, svo og réttur til að aðrir raski ekki þessari friðhelgi nema brýna nauðsyn beri til, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Að teknu tilliti til þessa hvors tveggja, hefur Hæstiréttur litið svo á að áðurnefnd ákvæði barnalaga verði skýrð svo að það sé skilyrði þess að faðernismál verði höfðað að líkur hafi verið færðar fyrir því að maður, sem talinn er faðir barns, hafi haft samfarir við móður þess. Í dómi réttarins í málinu nr. 800/2013 er því hins vegar slegið föstu að það geti ekki staðið í vegi fyrir höfðun slíks máls þótt móðir barns hafi ekki skýrt frá því að annar en eiginmaður hennar kunni að vera faðir barnsins. Í fyrri dómum réttarins, hefur slíkt verið talið styrkja kröfu um rannsókn.

Í máli þessu er í grunninn byggt á því einu að móðir stefnanda hafi verið vinnukona hjá B og G, eiginkonu hans, frá hausti 1925 en horfið skyndilega af heimilinu í árslok, þá orðin vanfær. Ekkert styður þetta með skýrum hætti nema framburður stefnanda sjálfs og dóttur hans sem byggir jafnframt á frásögn föður hennar um hálfri öld síðar.

Á hinn bóginn hafa af hálfu stefndu verið lögð fram gögn sem gefa til kynna að móðir stefnanda hafi ekki verið búsett á heimili B heldur að svo virðist sem hún hafi verið skráð til heimilis annars staðar. Það athugist að árið 1925 var skráð önnur vinnukona á heimilinu. Það ár giltu lög nr. 18/1901 um manntal í Reykjavík en samkvæmt þeim var húseigendum og húsráðendum skylt að tilkynna til yfirvalda um alla flutninga, er áttu sér stað úr húsum þeirra og í þau, að viðlögðum sektum ef út af bæri. Dómurinn telur ekki óvarlegt að líta á þau gögn sem stefndu hafa lagt fram í málinu varðandi búsetu E og um að hún hafi ekki búið á heimili B samkvæmt manntali Reykjavíkur 1925, sem opinber skjöl í skilningi 71. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en stefnandi dró ekki skjölin sem slík í efa þótt vissulega byggi hann á því að þau gefi þá ekki rétta mynd af stöðu mála.

Því er það að mati dómsins svo að stefnandi hefur ekkert fært fram, hvorki með gögnum frá móður sinni né öðrum, til stuðnings því að uppfyllt gæti verið það meginskilyrði 2. mgr. 10. gr. barnalaga fyrir málsókn þessari, sem áður er getið.

Þrátt fyrir að merkja megi, að því er virðist, að slakað sé nokkuð á kröfum frá því sem áður var í málum sem þessu í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 800/2013, er til þess að líta að þar er lögð áhersla á að vitni báru um að náin vinátta og mikill samgangur hafi verið á milli meints barnsföður og móður, rökstuddur grunur vitna um skyldleika, auk þess sem horft var til líkinda með aðilum.

Fallist verður á að stefnandi hefur samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar mjög ríka hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort faðir stefndu sé faðir hans. Dómurinn telur að í því ljósi beri að skýra 2. mgr. 10. gr. rúmt og strangar kröfur verði ekki gerðar. Á hinn bóginn hljóta að verða gerðar einhverjar lágmarkskröfur og er þá horft til dómaframkvæmdar. Ef of langt yrði gengið í hina áttina verður ekki betur séð en að ákvæðið gæti orðið markleysa, og næstum hver sem er gæti höfðað mál sem þetta gegn næstum hverjum sem er, en telja verður að ákvæðinu sé m.a. ætlað að girða fyrir slíkt.

Mannerfðafræðileg rannsókn samkvæmt 15. gr. barnalaga getur farið fram til að leita sönnunar í dómsmáli, sem rekið er um faðerni barns, eins og fram er komið. Þeirri heimild verður eðli máls samkvæmt ekki beitt nema fyrir hendi séu þau grundvallarskilyrði fyrir höfðun faðernismáls, sem skortir hér á samkvæmt framansögðu. Að því virtu verður hafnað kröfu stefnanda um að slík rannsókn verði gerð í máli þessu.

Rétt þykir að málskostnaður í þessum þætti falli niður.

Samkvæmt 11. gr. barnalaga skal greiða þóknun lögmanns stefnanda úr ríkissjóði, sem með hliðsjón af framlagðri tímaskýrslu lögmanns hans telst hæfilega ákveðin 450.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Hulda Rós Rúriksdóttir hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefndu Andri Árnason hæstaréttarlögmaður.  

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu stefnanda A um að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn í málinu samkvæmt 15. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Málskostnaður fellur niður.

Þóknun lögmanns stefnanda 450.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.