Hæstiréttur íslands
Mál nr. 95/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 20. mars 2003. |
|
Nr. 95/2003. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X (Magnús Thoroddsen hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Skilyrðum var talið fullnægt til að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála meðan mál hans var til meðferðar fyrir æðra dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 28. maí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2003.
Ár 2003, föstudaginn 14. mars er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Valtý Sigurðssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður þessi.
Ríkissaksóknari hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 28. maí nk. kl. 16.00.
Í greinargerð ríkissaksóknara, þar sem vísað er til 106. gr., sbr. 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991, segir að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 7. nóvember 2002, hafi X verið sakfelldur fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19,1940. Refsing hans hafi verið ákveðin fangelsi í 3 ár. Dómfelldi hafi áfrýjað dóminum til Hæstaréttar og muni málflutningur fara fram þar 5. maí nk.
Brot það sem dómfelldi hafi verið sakfelldur fyrir sé þess eðlis að telja verði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að hann sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi, en hann hafi sætt gæsluvarðhaldi í þágu málsins frá 16. apríl 2002.
Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2 mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991 vegna þeirra brota sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir frá uppkvaðningu héraðsdóms frá 7. nóvember sl. Vegna alvarleika brots hans verður að telja eðlilegt að hann sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi með tilliti til almannahagsmuna þar til Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm í málinu þó ekki lengur en til miðvikudagsins 28. maí nk. kl. 16.00. Þar sem skilyrði 106. gr. laga nr. 19,1991 eru uppfyllt, er krafa ríkissaksóknara tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Dómfelldi, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 28. maí nk. kl. 16.00.