Hæstiréttur íslands

Mál nr. 179/2009


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Dómsátt


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. nóvember 2009.

Nr. 179/2009.

K

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.

Margrét Gunnlaugsdóttir hdl.)

gegn

M

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Börn. Forsjá. Dómsátt.

M og K deildu um forsjá tveggja sona sinna. K krafðist þess að dómsátt milli hennar og M um að þau færu sameiginlega með forsjá barnanna yrði felld úr gildi og henni yrði dæmd forsjá þeirra. Hæstiréttur vísaði til þess að það væri meginregla barnalaga nr. 76/2003 að sameiginleg forsjá fráskilinna foreldra yfir barni væri háð því grundvallarskilyrði að samkomulag væri þeirra á milli um þá skipan og nægði ágreiningur um hana af hendi annars foreldris til þess að hún liði undir lok. Í því efni gæti engu breytt að foreldrar hefðu ákveðið með samningi, þótt dómsátt væri, að sameiginleg forsjá stæði í tiltekinn tíma. Með málshöfðun hefði K lýst yfir ágreiningi við M um skipan forsjár sona þeirra, en þar sem gildistíma sáttarinnar væri að auki lokið væru ekki efni til að kveða sérstaklega á það í dóminum að hún væri felld úr gildi. Í málinu lágu ekki fyrir önnur gögn um hæfni aðilanna til að fara með forsjá barnanna en matsgerð dómkvadds manns, sem aflað hafði verið undir rekstri fyrra dómsmáls þeirra. Var af niðurstöðum hennar talið ljóst að K hefði talist M fremri að hæfni til að fara með forsjá sona þeirra, en M hafði ekki gert kröfu í málinu um að honum yrði falin forsjáin. Var því orðið við kröfu K um að henni yrði falin forsjá sona aðilanna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. apríl 2009. Hún krefst þess að dómsátt milli hennar og stefnda um að þau fari sameiginlega með forsjá barna sinna, A og B, sem fæddir eru 2002 og 2004, verði felld úr gildi, áfrýjanda verði dæmd forsjá þeirra til 18 ára aldurs og stefnda verði til sama tíma gert að greiða meðlag með þeim. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins gengu aðilarnir í hjúskap á árinu 2002 og lauk samvistum þeirra í apríl 2007. Áfrýjandi höfðaði mál á hendur stefnda í maí 2007 og krafðist að sér yrði dæmd forsjá fyrrnefndra tveggja sona þeirra. Undir rekstri þess máls var aflað ítarlegrar matsgerðar dómkvadds manns um hæfi aðilanna til að fara með forsjá sona þeirra. Samkvæmt niðurstöðu matsgerðarinnar, sem dagsett var 23. nóvember 2007, var forsjárhæfni áfrýjanda talin „í ágætu meðallagi“, en stefnda „í meðallagi.“ Við aðalmeðferð þess máls í héraði 4. mars 2008 var gerð dómsátt milli aðilanna, þar sem kveðið var á um að þau færu sameiginlega með forsjá sona sinna, sem hefðu lögheimili hjá áfrýjanda, en með þeim skyldi stefndi greiða meðlag. Í sáttinni var jafnframt mælt fyrir um umgengni drengjanna við stefnda og tekið loks fram að „samkomulag þetta gildir í eitt ár.“ Að liðnum tæpum fjórum mánuðum frá gerð dómsáttarinnar höfðaði áfrýjandi mál þetta 26. júní 2008 og gerði fyrir héraðsdómi sömu dómkröfur og hún gerir nú fyrir Hæstarétti samkvæmt áðursögðu.

Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. barnalaga nr. 76/2003, svo sem þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 69/2006, fara foreldrar sameiginlega með forsjá barns síns eftir hjónaskilnað nema annað sé ákveðið. Í 32. gr. barnalaga er mælt fyrir um heimildir foreldra til að gera samning um forsjá barns, sem getur verið sameiginleg eða hjá öðru þeirra, en slíkan samning má gera til ákveðins tíma, þó að lágmarki sex mánuði. Greini foreldra á um forsjá barns sker dómari á hinn bóginn úr máli, sbr. 1. mgr. 34. gr. laganna. Af þessu er sú meginregla ljós að sameiginleg forsjá fráskilinna foreldra með barni er háð því grundvallarskilyrði að samkomulag sé þeirra á milli um þá skipan og nægir ágreiningur um hana af hendi annars foreldris til að hún líði undir lok. Í því efni getur engu breytt að foreldrar hafi ákveðið með samningi, þótt dómsátt sé, að sameiginleg forsjá standi í tiltekinn tíma. Með höfðun þessa máls hefur áfrýjandi lýst yfir ágreiningi við stefnda um skipan forsjár sona þeirra og þarf samkvæmt framansögðu ekki annað til svo að skilyrði standi ekki lengur til að áfrýjandi teljist bundin af ákvæðum dómsáttarinnar frá 4. mars 2008 um tímabundna sameiginlega forsjá. Með því að gildistíma sáttarinnar er nú að auki lokið eru á hinn bóginn ekki efni til að kveða sérstaklega á um það í dómi þessum að hún sé felld úr gildi.

Í málinu liggja ekki fyrir önnur gögn um hæfni aðilanna til að fara með forsjá sona sinna en áðurnefnd matsgerð, sem aflað var undir rekstri fyrra dómsmáls þeirra. Þótt þeirri matsgerð hafi verið lokið fyrir nærfellt tveimur árum hefur ekkert verið fært fram, sem bendir til að aðstæður aðilanna hafi breyst svo að máli skipti með tilliti til matsefnisins. Af fyrrgreindum niðurstöðum matsgerðarinnar er ljóst að áfrýjandi hefur talist stefnda fremri að hæfni til að fara með forsjá sona þeirra. Í málinu hefur stefndi ekki gert kröfu um að sér verði falin forsjáin. Þegar að þessu virtu eru ekki efni til annars en að verða við dómkröfu áfrýjanda um að henni verði falin forsjá sona aðilanna. Um greiðslu meðlags með þeim fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir, en hvorugur aðili hefur gert kröfu um að mælt verði fyrir um umgengni við börnin.

Eftir þessum úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjanda, K, er falin forsjá sona sinna og stefnda, M, þeirra A og B, sem fæddir eru [...] 2002 og [...] 2004, til fullnaðs 18 ára aldurs. Til sama tíma greiði stefndi einfalt meðlag með sonum sínum eins og það er ákveðið á hverjum tíma af Tryggingastofnun ríkisins.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2009.

                Mál þetta höfðaði K, kt. [...],[...],[...], með stefnu birtri 26. júní 2008 á hendur M, kt. [...],[...],[...].  Málið var dómtekið 3. mars sl.

                Stefnandi krefst þess að dómsátt milli aðila um að þau fari sameiginlega með forsjá þeirra A, kt. [...], og B, kt. [...], verði felld úr gildi og að henni verði einni falin forsjá drengjanna til 18 ára aldurs.  Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greið einfalt meðlag með drengjunum til 18 ára aldurs þeirra.  Loks krefst stefnandi málskostnaðar. 

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. 

                Málsaðilar gengu í hjúskap 16. mars 2002. Í kjölfarið settust þau að á Íslandi. Þau eignuðust tvo drengi, A og B. Aðilar slitu samvistum í apríl 2007. Kom þá upp ágreiningur um forsjá drengjanna.  Var höfðað mál fyrir héraðsdómi og við aðalmeðferð málsins þann 4. mars 2008 var gerð sátt um að aðilar færu sameiginlega með forsjá þeirra.  Skyldu þeir eiga lögheimili hjá stefnanda og stefndi greiða einfalt meðlag með hvorum þeirra. Um umgengni föður segir í sáttinni:  Umgengni við föður er frá lokum leikskóla á fimmtudegi til mánudagsmorguns aðra hvora helgi...  Drengirnir verði hjá föður sínum á komandi páskum (frá fimmtudegi til mánudags) og á páskum næsta ár hjá móður.  Þá skal ákveða fyrir 1. maí ár hvert hvernig sumarleyfinu skuli háttað en hvort um sig fær fjórar vikur.  Drengirnir skulu vera hjá móður á aðfangadag og jóladag og hjá föður á annan í jólum, gamlársdag og nýársdag. 

                Síðan voru í sáttinni ákvæði um símtöl við drengina á afmælum og hátíðis­dögum, um greiðslu skattskulda stefnda og að sótt skyldi um lögskilnað.  Loks var tekið fram að samkomulagið gilti í eitt ár. 

                Rúmum þremur mánuðum eftir að sáttin var gerð var stefnan í þessu máli gefin út.  Stefnandi skýrði það svo fyrir dómi að hún hefði í raun ekki verið sátt við að samið væri um sameiginlega forsjá.  Taldi hún þetta hindra heimsóknir hennar til ættingja í [...]. 

                Við meðferð framangreinds máls var Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur kvödd til að leggja mat á forsjárhæfni aðila og hvort þeirra teldist hæfara til að fara með forsjána.  Var matsgerðin lögð fram í þessu máli og ekki krafist nýrrar mats­gerðar eða yfirmats.  Þá var efni matsgerðarinnar ekki mótmælt, en í málflutningi taldi lögmaður stefnda hana ekki geta haft gildi í nýju máli. 

                Matsgerðin er ítarleg, en í niðurstöðum hennar segir: 

                M lýsti sér sem valdalausu fórnarlambi K sem sé ofbeldisfull og geðveik kona og hættuleg sonum þeirra. Persónuleikapróf K og samskipti mats­manns við hana renna ekki stoðum undir þá mynd af henni. Sú mynd sem starfsmenn leikskóla drengjanna draga upp eftir nokkurra ára samskipti við hana er jákvæð. Um­sagnir nágrannakonu og leigjanda eru jákvæðar. Lýsingar annarra eru að verulegu leyti eftir frásögnum M við þá. Neikvæð atriði hafa komið fram frá afgreiðslumanni og móður M auk þess að koma frá M sjálfum. 

                K lýsir M að mestu leyti vel, en þó að samskipti þeirra um fjármál hafi verið erfið. Starfsmenn leikskólans hafa stundum átt í erfiðleikum með samskipti við hann. Persónuleikapróf sýnir hvatvísi, streitu, skort á dómgreind á eigin hegðun og oft neikvæða hegðun í garð annarra. Matsmaður sá sömu einkenni í samskiptum sínum við hann. 

                Nú eru sjö mánuðir liðnir síðan leiðir M og K skildu. Á þeim tíma hefur ekkert gerst sem rennir stoðum undir alvarlegar ásakanir M á hendur K um geðveiki og ofbeldi í garð drengjanna.  Tilkynningar til Barnaverndar Reykjavíkur leiddu til áætlunar um meðferð málsins. Því hefur ekki verið lokað sem barnaverndarmáli en sú tillaga virðist liggja fyrir í minnispunktum. 

                Matsmaður telur báða foreldra hæfa til að fara með forsjá drengjanna. Stuðst var við ASPECT-forsjárhæfniprófið og niðurstöður þess sýna forsjárhæfni hennar í ágætu meðallagi. Niðurstöður þess sýna forsjárhæfni föður í meðallagi. 

                Aðilar gáfu skýrslur fyrir dóminum. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Í stefnu segir að forsendur fyrir dómsáttinni séu brostnar.  Útilokað sé að fara með forsjá ásamt stefnda. Vinni hann gegn stefnanda leynt og ljóst og innræti drengjunum neikvætt viðhorf gagnvart móðurmáli stefnanda og föðurlandi. 

                Þá telur stefnandi að það sé drengjunum fyrir bestu að hún fari með forsjá þeirra. Þeir séu háðir umönnun hennar og mun tengdari henni en stefnda. Vísar stefnandi um þetta til framangreindrar matsgerðar. 

                Stefnandi vísar til 2. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Í greinargerð stefnda kemur fram að það sé rangt að hann hafi ekki samþykkt skilnað að borði og sæng eða lögskilnað. Hann hafi hins vegar neitað að játa á sig hjúskaparbrot. Þar sem krafa stefnanda sé á þessu byggð sé botninn dottinn úr kröfu­gerðinni. Því verði að hafna kröfu um ógildingu sáttarinnar og um skipan forsjár. 

                Stefndi mótmælir því í greinargerð að hann hafi unnið gegn stefnanda með því að innræta drengjunum neikvæð viðhorf. 

                Í málflutningi byggði stefndi á því að dómsáttin hafi átt að gilda í eitt ár. Því beri að vísa málinu frá dómi. Þá mótmælti hann því að hegðun  sín væri til vandræða. Þá hefði matsgerð er aflað hefði verið í hinu fyrra máli ekki gildi í þessu máli. Þá hefði matsmaður ekki komið fyrir dóm. Loks vísaði hann til þess skilmála í skilnaðarleyfi að forsjáin væri sameiginleg. 

                Stefndi vísar til barnalaga nr. 76/2003. 

                Forsendur og niðurstaða

                Nú er liðið rúmt ár frá því að gerð var sátt milli aðila þessa máls um að þau færu sameiginlega með forsjá sona sinna. Sáttin átti samkvæmt efni sínu að gilda í eitt ár. Ár var ekki liðið frá gerð sáttarinnar þegar mál þetta var höfðað og verður því að leysa úr því hvort sáttin sé fallin niður af öðrum ástæðum. 

                Í stefnu segir að stefnandi hafi verið treg að samþykkja sameiginlega forsjá. Stefnandi lýsti því einnig í aðilaskýrslu sinni. Byggt er á því að forsendur fyrir sáttinni séu brostnar eins og lýst er að framan. Þessum fullyrðingum mótmælir stefnandi. Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings fullyrðingum sínum og hefur hún því ekki sannað slík atvik að fallast megi á að forsendur fyrir sáttinni séu brostnar. 

                Samkvæmt þessu var sátt aðila bindandi er mál þetta var höfðað 26. júní 2008. Þarf þá ekki að fjalla um þá málsástæðu stefnanda að það sé drengjunum fyrir bestu að hún fari ein með forsjána. Verður að sýkna stefnda af kröfum stefnanda. Rétt er að málskostnaður falli niður. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, M, er sýknaður af kröfum stefnanda, K, í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.