Hæstiréttur íslands

Mál nr. 223/2012


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Hegningarauki
  • Skilorð
  • Einkaréttarkrafa
  • Málskostnaður
  • Rannsókn
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 14. mars 2013.

Nr. 223/2012:

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Friðriki Þór Friðrikssyni

(Bjarni Hauksson hrl.)

Líkamsárás. Hegningarauki. Skilorð. Einkaréttarkrafa. Málskostnaður. Rannsókn. Aðfinnslur.

F var sakfellur fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa skallað A í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði, hlaut mar á andliti og vör, blóðnasir og tannarbrot. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu F, en þyngdi refsingu hans. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að refsing hans í málinu væri hegningarauki við dóm er hann hlaut 16. september 2010. Miðað við eðli líkamsárásarinnar og afleiðingar hennar var refsing F talin hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði, skilorðsbundið í tvö ár. Þá taldi Hæstiréttur lagastoð skorta fyrir því að gera F að greiða A, sem naut aðstoðar réttargæslumanns í héraði, bætur fyrir að halda fram bótakröfu í málinu og voru því bætur til A lækkaðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. mars 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess að bótakröfu brotaþola, A, verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Brotaþoli hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist staðfestingar á einkaréttarkröfu sinni, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærða er gefið að sök að hafa skallað brotaþola í andlitið aðfaranótt 2. janúar 2010 með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði, hlaut mar á andliti og vör, blóðnasir og tannarbrot. Ákærði neitar því ekki að brotaþoli hafi orðið fyrir meiðslum af sínum völdum í greint skipti, en heldur því fram að ekki hafi verið um að ræða ásetningsverk af sinni hálfu. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu að árásin hafi verið viljaverk ákærða og hefur hann því gerst sekur um brot á 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Eins og fram kemur í héraðsdómi var ákærði dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2010, en honum hefur ekki verið áfrýjað. Refsing ákærða í þessu máli verður hegningarauki við þann dóm. Ber því samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga að dæma þann dóm upp og gera ákærða refsingu í einu lagi fyrir bæði brotin eftir 78. gr. almennra hegningarlaga. Miðað við eðli líkamsárásarinnar sem að framan greinir og afleiðinga hennar er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Verður refsingin bundin skilorði á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða gert að greiða brotaþola 150.000 krónur í miskabætur auk bóta „fyrir kostnað við að halda fram“ bótakröfunni, að fjárhæð 30.000 krónur. Að auki var ákærði dæmdur til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola. Í síðari málslið 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 segir að dæma megi ákærða til að greiða málskostnað vegna einkaréttarkröfu, enda hafi þess verið krafist, nema um sé að ræða brotaþola sem fengið hefur sér skipaðan réttargæslumann. Það að gera ákærða að greiða brotaþola, sem naut aðstoðar réttargæslumanns, bætur fyrir að halda fram bótakröfu í málinu skortir því lagastoð. Af þeim sökum verða bætur til handa brotaþola lækkaðar sem því nemur, en ekki eru efni til að breyta ákvörðun héraðsdóms um miskabætur honum til handa.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.

Samkvæmt gögnum málsins virðist rannsókn þess hafa legið niðri frá því að lögregla tók skýrslu af tveimur vitnum 16. febrúar 2010 og þar til ákærði gaf skýrslu hjá henni 3. ágúst 2011. Ekki hefur komið fram nein skýring á þessum óhæfilega drætti á rannsókninni sem er í andstöðu við skýr fyrirmæli síðari málsliðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Ákærði,  Friðrik Þór Friðriksson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A 150.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. janúar 2010 til 12. október 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, 266.887 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2012.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 6. september sl. á hendur ákærða, Friðriki Þór Friðrikssyni, kt. [...], [...], [...], „fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 2. janúar 2010, við innganginn að veitingastaðnum [...], [...] í Reykjavík, skallað A, kt. [...] í andlitið með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði, hlaut mar á andliti og vör, blóðnasir og tannarbrot.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í málinu gerir Halldór Reynir Halldórsson, hdl. f.h. A, kröfu um skaðabætur á hendur Friðriki Þór Friðrikssyni, kt. [...], að fjárhæð kr. 1.300.000 og með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38, 2001 frá árásardegi þann 2. janúar  2010, þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er birt kærðu en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist lögmannsþóknunar að teknu tilliti til virðisaukaskatts, samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins, komi til þess eða skv. mati dómsins.“

Málavextir

                Samkvæmt framburði ákærða og vitna í málinu svo og staðfestu vottorði Theódórs Friðrikssonar læknis liggur það fyrir að aðfaranótt laugardagsins 2. janúar 2010, var ákærði staddur í skemmtistaðnum „[...]“ við [...].  Lenti honum þar saman við dyravörð, A, svo að ennið á ákærða skall í andlit A.  Hlaut dyravörðurinn af þessu lítils háttar nefbrot, sem rétta þurfti með aðgerð, blóðnasir, mar í andliti og á vör og tannbrot.

                Ákærði neitar sök og segist hann hafa skollið með ennið í andlit mannsins þegar hann beygði sig áfram til þess að víkja sér undan atlögu hans.  Hafi maðurinn nálgast með látum og gert sig líklegan að kýla sig.  Hjá lögreglu sagðist ákærði hafa álitið manninn ætla að stanga sig og er ákærða gerð grein fyrir því.  Ákærði segir mann þennan ekki hafa verið í einkennisfötum og kveðst hann því ekki hafa vitað að hann væri dyravörður.  Kveðst ákærði hafa verið búinn að drekka þrjá bjóra þegar þetta gerðist. 

                A hefur skýrt frá því að hann hafi staðið innan við dyrnar á skemmtistaðnum þegar inn kom maður og kallað eitthvað til fólks sem var þar inni fyrir.  Hafi honum verið svarað og þá komið til lítilsháttar stympinga milli mannsins og eins af fólkinu.  Kveðst hann þá hafa gengið á milli þeirra og sagt að hann vildi ekki hafa neitt „vesen“.  Hafi hann ekki verið ógnandi við mann þennan en hafa haldið handleggnum út frá sér.  Sá, sem inn hafði komið, hafi þá „skallað“ vitnið beint í andlitið með enninu.  Hann kveður manninn greinilega hafa verið undir áhrifum áfengis.  Þá segist hann hafa verið með merki í barminum sem á stóð öryggis- eða dyravörður.  Hann kveðst hafa nefbrotnað við þetta högg og þurft hafi að rétta brotið.  Þá hafi kvarnast úr tveimur framtönnum.  Loks segir hann að hafi sprungið hafi fyrir á vör.

                B sem var að störfum á skemmtistaðnum sem dyravörður í umrætt sinn hefur sagt frá því að hann hafi séð mann „skalla“ A þarna í umrætt sinn.  Hann kveðst ekki lengur muna vel eftir atvikum en hann sé þó viss um að hafa séð þetta gerast.  Hafi ekki verið um slys að ræða.  Hann segir mann þennan hafa komið inn á staðinn, öran í fasi og hafi A ekki sýnt honum ógnandi framkomu áður en maðurinn stangaði hann.

                C lögreglumaður hefur komið fyrir dóm en hann gerði frumskýrsluna í málinu.  Í skýrslu hans er haft eftir ákærða þegar hann var handtekinn við skemmtistaðinn að hann hefði „skallað“ mann sem hefði ráðist á hann og gert það til þess að verjast manninum.  Hann kveðst ekki muna vel eftir atvikum en hann kveðst hafa skrifað niður hjá sér í blokk það sem haft er eftir mönnum þarna á staðnum og byggt á því í skýrslunni.

                D hefur skýrt frá því að hann hafi verið að vinna á barnum í húsinu í umrætt sinn.  Tveir menn hafi verið í inngöngudyrunum og rifist.  Dyravörður hafi gengið þá á milli mannanna og sagt háum rómi: „Slakið á!“ eða eitthvað í þá veru, en þá hafi annar þessara manna „skallað“ dyravörðinn í andlitið.  Hafi dyravörðurinn ekki á neinn hátt hafa gert sig líklegan til þess að ráðast á manninn eða verið ógnandi í fasi.  Hann segir dyrnar vera nálægt barnum, á að giska fimm metra frá.  Hann kveður sig minna að tennur hafi losnað í munni dyravarðarins.  Starfsmenn hússins hafi tekið manninn sem hafði „skallað“ og haldið honum þar til lögreglan kom á vettvang.

Niðurstaða

                Ákærði neitar sök.  Skýring hans á því hvernig höfuð hans skall framan í A er í sjálfu sér ótrúverðug.  A og tveir starfsmenn veitingastaðarins bera það að ákærði hafi „skallað“ A í andlitið.  Verður framburður þeirra ekki skilinn öðru vísi en svo að þetta hafi verið viljaverk hjá ákærða.  Telst ákærði vera sannur að því að hafa ráðist á A með því að stanga hann í andlitið og valda honum þeim áverkum sem greinir í ákærunni.  Ber einnig að hafna þeirri viðbáru ákærða að A hafi gert atlögu að honum.  Hefur ákærði með athæfi sínu orðið brotlegur við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

                Ákærði hlaut skilorðsbundinn varðhaldsdóm fyrir líkamsárás árið 1993 og skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir þjófnað árið 1994.  Loks var hann í september 2010 dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ávana- og fíkniefnalagabrot. Refsing ákærða verður hegningarauki við þann dóm.  Ber að dæma upp þann dóm og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.  Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnu einu ári frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                Að kröfu A ber að dæma ákærða til þess að greiða honum miskabætur, sem ákveðast 150.000 krónur, og bætur fyrir kostnað við að halda fram kröfunni, sem ákveðast 30.000 krónur eða samtals 180.000 krónur.  Þá ber að dæma ákærða til þess að greiða almenna vexti af bótafjárhæðinni samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 2. janúar 2010 til 12. október 2011 en þaðan í frá með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags.

                Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Bjarna Haukssyni hrl. 300.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti og Halldóri Reyni Halldórssyni hdl. 150.000 krónur í réttargæsluþóknun, einnig að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Annan sakarkostnað, 31.050 krónur, ber að dæma ákærða til þess að greiða.

                Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan dóm.

DÓMSORÐ:

                Ákærði, Friðrik Þór Friðriksson, sæti fangelsi í 4 mánuði. Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnu einu ári frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.

                Ákærði greiði A 180.000 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 2. janúar 2010 til 12. október 2011 en þaðan í frá með dráttarvöxtum til greiðsludags.

                Ákærði greiði verjanda sínum, Bjarna Haukssyni hrl. 300.000 krónur í málsvarnarlaun og Halldóri Reyni Halldórssyni hdl. 150.000 krónur í réttargæsluþóknun. 

Ákærði greiði 31.050 krónur í annan sakarkostnað.