Hæstiréttur íslands

Mál nr. 240/1998


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Örorka
  • Skaðabætur
  • Miskabætur


Prentsm

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999.

Nr. 240/1998.

Jóhannes Konráð Jóhannesson

(Jóhannes Albert Sævarsson hdl.)

gegn

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ólafur Axelsson hrl.)

Vinnuslys. Örorka. Skaðabætur. Miskabætur.

J starfaði hjá verktakanum H að rafsuðu við hafnargerð. Stóð hann á fleka, skjólmegin við stálþil sem rekið hafði verið niður utan fjöruborðs en hvasst var í veðri og nokkur hreyfing á flekanum. J skrikaði fótur á blautum flekanum og féll aftur fyrir sig. Meiddist hann á baki og hlaut talsverða örorku af slysinu. Stefndi hann tryggingafélaginu S til greiðslu bóta, en H hafði keypt ábyrgðartryggingu af S.

Talið að þar sem  slysið hefði ekki verið tilkynnt í samræmi við ákvæði reglna um tilkynningu vinnuslysa yrði H að bera halla af því að rannsókn vegna slyssins fórst fyrir. Talið að á hefði skort um varúðarreglur, viðbúnað og eftirlit vegna rafsuðuvinnunnar af hálfu H. Hefði J verið látinn sinna erfiðu verki við aðstæður sem óviðunandi voru frá öryggissjónarmiði. Var S því gert að greiða J bætur, en J var gert að bera þriðjung tjóns síns sjálfur, enda mátti honum vera ljóst, að óvarlegt var að vinna umrætt verk við þær aðstæður sem uppi voru.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi hefur skotið málinu til Hæstaréttar með stefnu 5. júní 1998. Hann krefst greiðslu úr hendi stefnda að fjárhæð 8.180.277 krónur, ásamt ársvöxtum, sem tilgreindir eru í héraðsdómi, af 6.194.130 krónum frá 17. október 1991 til þingfestingar málsins í héraði 12. desember 1996, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 8.180.277 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann greiðslu á 7.484.762 krónum, með sömu ársvöxtum af 5.730.453 krónum frá 17. október 1991 til 12. desember 1996 og sömu dráttarvöxtum af 7.484.762 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og málið hefði ekki verið gjafsóknarmál fyrir héraðsdómi.

Stefndi krefst staðfestingar á hinum áfrýjaða dómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Meðal þeirra er endurrit af þinghaldi 18. janúar 1999 í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem Björgúlfur Pétursson trésmiður, fyrrum starfsmaður Hagvirkis-Kletts hf., kom fyrir dóm sem vitni í málinu. Ennfremur læknisvottorð til vinnuveitanda og Tryggingastofnunar ríkisins frá heimilislækni áfrýjanda, Haraldi Tómassyni, útgefin í nóvember 1991 - febrúar 1992.

I.

Mál þetta er risið af slysi, sem áfrýjandi varð fyrir 17. október 1991 í Sundahöfn í Reykjavík, þar sem hann var að vinnu við lengingu á viðlegukanti Vogabakka við Kleppsvík. Var hann starfsmaður fyrirtækisins Hagvirkis-Kletts hf., sem var verktaki að þessu mannvirki. Föst starfsstöð hans var á vélaverkstæði fyrirtækisins í Hafnarfirði, og var hann sendur þaðan ásamt fleiri vélvirkjum til að annast vélsmíðavinnu við mannvirkið. Heyrði hópurinn þar undir verkstjóra frá fyrirtækinu, sem stjórnaði framkvæmdum á staðnum.

Nokkur ágreiningur er um atvik að slysinu, og er þeim lýst í héraðsdómi eftir staðhæfingum hvors aðila um sig. Í þetta sinn átti áfrýjandi að vinna að rafsuðu við stálþil viðlegukantsins, sem rekið var niður utan fjöruborðs í sömu stefnu og kanturinn, sem fyrir var, þ.e. eftir beinni línu sem næst frá norðri til suðurs. Fyllt var að þilinu eftir því sem vinnu miðaði við festingu stagteina og annan frágang, en sjór lá að því báðum megin í suðurendann, sem vissi inn víkina. Var suðuvinnan unnin á sjó af fleka eða pramma, sem tengdur var við þilið með böndum. Flekinn var á leigu hjá fyrirtækinu og fannst ekki, þegar mál þetta kom fyrir dóm, en að sögn vitna var hann klæddur timbri og um eða innan við 10 fermetra að stærð. Gólfið var slétt og með lágri brík við brúnir, en án handriða og fótfesta eingöngu sandur, sem á það var borinn til að verjast hálku.

Háð var stöðu flóðs og fjöru, hvenær hægt var að starfa að vélsmíði á flekanum. Við hana unnu ýmist einn eða tveir menn saman, og virðist samvinnu einkum hafa þurft við meðan unnið var að því að ná festu á stykkjum þeim, sem sjóða átti við þilið. Gat og annar maðurinn stutt að því að halda flekanum kyrrari en ella, ef hreyfing var á sjó. Af framburði verkstjórans og annarra vitna verður helst ráðið, að tveir menn hafi ávallt verið saman á flekanum, þegar unnið var sjávarmegin við þilið. Hins vegar hafi þetta ekki verið föst regla, þegar unnið var landmegin.

Óumdeilt er, að áfrýjandi hafi farið út á flekann til vinnu einn síns liðs um kl. 13.00 eftir matarhlé umræddan dag. Verkstjórinn var þá ekki lengur á staðnum. Erindi áfrýjanda var að sjóða við þilið sæti fyrir bita, sem stagteina átti að festa við. Voru þetta þung járnstykki, en nákvæm mál liggja ekki fyrir. Hvass vindur var af norðri og hreyfing á sjó við flekann, þótt hann væri í skjóli af þilinu. Bleyta var á flekagólfinu vegna úrkomu um morguninn, en hiti var laust yfir frostmarki. Áfrýjandi kom aftur skömmu síðar og tjáði félögum sínum, sem sáu ekki til hans á flekanum, að hann hefði dottið og orðið fyrir höggi. Hann bar lítil ytri einkenni meiðsla, en fann til sársauka í ökkla og baki. Meðal þeirra, sem hann skýrði frá atvikinu, var vitnið Björgúlfur Pétursson, en af hálfu áfrýjanda er því haldið fram, að þetta vitni sé sá maður, sem hann hafi nefnt Jón Árnason við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Samkvæmt fyrrgreindum vitnisburði Björgúlfs virðist áfrýjandi hafa mátt ætla, að hann væri fulltrúi verkstjórans, en honum hafði þó ekki verið falið beint eftirlit með verkinu, heldur einkum að sinna skilaboðum til verkstjórans. Verkstjórinn kveður sér hafa verið sagt daginn eftir, að áfrýjandi hefði dottið og rekið sig í.

Áfrýjanda var ekki ljóst fyrst í stað, hvort hann væri alvarlega meiddur. Hann virðist hafa farið af vinnustað síðar þennan dag og verið fjarverandi daginn eftir, sem var föstudagur, og einnig næsta mánudag, hinn 21. október, en þá fór hann til skoðunar hjá heimilislækni sínum. Hann virðist hafa horfið aftur til vinnu fljótlega eftir þessa skoðun og haldið henni áfram tvær vikur eða lengur, en síðan gefist upp vegna verkja, sem hrjáðu hann. Hinn 19. nóvember leitaði áfrýjandi aftur til læknisins, auk þess sem hann gekk eftir því við vinnuveitanda sinn, að slysið yrði tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins. Samkvæmt fyrrgreindum vottorðum læknisins mat hann áfrýjanda óvinnufæran dagana 17. - 22. október og síðan samfellt frá og með 19. nóvember. Var sú staða óbreytt, þegar áfrýjandi leitaði til Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis í febrúar 1992, þrátt fyrir sjúkraþjálfun, sem heimilislæknirinn hafði ráðlagt honum. Áfrýjandi kveðst ekki hafa starfað að iðn sinni eftir þennan tíma, en sjúkrasögu hans framan af er lýst í héraðsdómi.

II.

Samkvæmt 1. gr. reglna nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa ber atvinnurekanda eða fulltrúa hans að tilkynna lögreglu og Vinnueftirliti ríkisins um slys á vinnustað svo fljótt sem verða má og ekki síðar en innan sólarhrings, ef ætla má, að áverki af þeim geti valdið langvinnu eða varanlegu heilsutjóni. Hafi slys ekki þessi einkenni, en valdi þó fjarveru frá vinnu einn eða fleiri daga auk slysdagsins, skulu þau samkvæmt 2. gr. tilkynnt vinnueftirlitinu svo fljótt sem kostur er og ekki síðar en innan 14 daga, á þar til gerðum tilkynningarblöðum.

Slys áfrýjanda var ekki tilkynnt fyrr en rúmum mánuði síðar. Var það forstöðumaður vélaverkstæðisins, sem gekk frá tilkynningu til vinnueftirlits 25. nóvember 1991. Sú tilkynning leiddi ekki til rannsóknar vegna slyssins, og er það miður, einkum þar sem með henni hefði mátt ganga úr skugga um ástand flekans og tilhögun vinnu á honum. Með hliðsjón af fyrrgreindum atvikum og ákvæðum reglnanna verður vinnuveitandi áfrýjanda að bera halla af því, að rannsókn fórst fyrir. Lögreglurannsókn fór hins vegar fram í mánuðunum nóvember 1994 - janúar 1995 að frumkvæði áfrýjanda, en var einungis fólgin í skýrslutöku af honum og þremur vinnufélögum hans. Umsögn um slysið frá Vinnueftirliti ríkisins var gefin 6. mars 1995 að beiðni lögmanns áfrýjanda, en var að mestu almenns eðlis.

III.

Áfrýjandi var einn til frásagnar um það, sem fyrir kom á flekanum í þetta sinn. Af framburði hans og vitna í málinu ásamt efni skýrslna og læknisvottorða verður þó ráðið með greinilegum hætti, að hann hafi misst fótanna og fallið aftur fyrir sig á flekagólfið, þar sem hann hafi lent á hægri öxl og vindingur komið á bak hans. Jafnframt hafi hann orðið fyrir snúningi á hægri ökkla og hruflast á fótlegg. Segir hann þetta hafa gerst meðan hann var að lyfta stoðjárni, sem hann hugðist sjóða fast. Í héraðsdómi er að því vikið, að áfrýjandi hafi ýmist lýst ástæðum fallsins þannig, að hann hafi misstigið sig, hrasað eða runnið til. Á þessu þrennu verður þó ekki gerður stórfelldur munur, einkum þegar til þess er litið, að hann stóð á fljótandi vinnupalli með sléttu og blautu yfirborði.

Við það ber að miða, eins og gert er í héraðsdómi, að vegna hvassviðris hafi sjór verið ókyrr innan þils, þar sem áfrýjandi var staddur, þótt vindáttin stæði suður með þilinu og skjól væri af því og kantinum, sem upp var kominn. Hafi áfrýjanda þannig verið hætta búin af hreyfingu á flekanum, sem erfitt gat verið að bregðast við, en hann var einn að vinnu með þung járnstykki. Á þetta verður að líta sem meginorsök slyssins.

Fallast má á það með héraðsdómi, að áfrýjandi hafi ekki sýnt nægilega fram á, að hann hafi verið sendur til verksins gegn vilja sínum. Við það verður að miða, að þetta verk hans eftir hádegið hafi verið meðal þeirra verkefna, sem vélsmiðunum voru sett fyrir yfir daginn, og staða sjávarfalla hentað til að sinna því. Fyrir liggur skýr staðfesting þess af hálfu verkstjórans, að viðgengist hafi, að menn stæðu einir að suðuvinnu á flekanum, þegar unnið var innan þils. Hafi það ekki verið föst regla, að þeir væru þá við annan mann, heldur farið eftir atvikum og aðstæðum. Hann hafði sjálfur farið af staðnum annarra erinda og ekki falið öðrum að líta til með vélsmiðunum í sinn stað.

Að athuguðu því, sem hér var rakið, verður að telja, að á hafi skort um varúðarreglur, viðbúnað og eftirlit vegna suðuvinnunnar af hálfu vinnuveitandans, sem hafði gerð mannvirkisins með höndum. Hafi áfrýjandi verið látinn sinna erfiðu verki við aðstæður, sem ófullnægjandi voru frá öryggissjónarmiði. Er þá litið til alls þess, sem fram er komið um atvik að slysinu, ásamt þeirri staðreynd, að það sætti ekki rannsókn í öndverðu. Af  þessu leiðir, að vinnuveitandinn verður talinn bera skaðabótaábyrgð á slysinu og afleiðingum þess, en stefndi, sem var vátryggjandi hans, hefur tekið á sig að axla þá ábyrgð í hans stað.

Áfrýjanda mátti vera ljóst, að hættusamt væri og óvarlegt að vinna verkið við þær aðstæður, sem fyrr greinir, en hann var reyndur vélsmiður og hafði unnið að þessum verkum um nokkurt skeið. Er því rétt, þegar málsatvik eru virt í heild, að ábyrgð á slysinu verði skipt með þeim hætti, að áfrýjandi beri hana sjálfur að 1/3 hluta, en stefndi bæti honum tjón hans að 2/3 hlutum.

IV.

Áfrýjandi var 43 ára að aldri, þegar slysið varð. Afleiðingum þess er lýst í meginatriðum í héraðsdómi, en sjúkrasaga hans varð löng og flókin. Júlíus Valsson læknir mat læknisfræðilega örorku hans af völdum slyssins 16. desember 1992  og síðan aftur 22. nóvember 1993. Voru niðurstöður hans endanlega á þá leið, að örorkan næmi 100% í tólf mánuði og síðan varanlega 25%, og eru þær ekki vefengdar af hálfu stefnda.

Kröfu sína um skaðabætur reisir áfrýjandi á þessu mati og líkindareikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 12. nóvember 1996 um vinnutekjutap eftir slysið í hlutfalli við hina metnu örorku. Er reikningurinn annars vegar miðaður við tekjur áfrýjanda samkvæmt skattframtölum fyrir árin 1988 - 1991, þ. e. slysárið sjálft og næstu þrjú ár þar á undan, en hins vegar við tekjur áranna 1989 - 1991. Nema árstekjur að meðaltali 1.725.800 krónum í fyrra tilvikinu eftir kauplagi á útreikningstíma, og er aðalkrafa áfrýjanda reiknuð eftir því. Í síðara tilvikinu nemur meðaltalið 1.588.500 krónum, og er það grundvöllur varakröfunnar. Áfrýjandi rökstyður þennan reikningshátt með því, að tekjum slysársins hafi svipað mjög til tekna ársins 1988, en tekjur áranna 1989 og 1990 verið fast að helmingi lægri sakir þess, að hann hafi þá verið atvinnulaus um langan tíma. Jafnframt hafi það ekki verið fyrr en á slysárinu, sem hann hafi öðlast full réttindi í iðn sinni. Sé þannig sanngjarnt að miða aflahæfi hans við öll fjögur árin. Með hliðsjón af dómvenju þykir  rétt að miða fremur við meðaltal áranna 1989 - 1991, enda stendur það nær meðaltekjum iðnaðarmanna, svo sem tíðkast hefur að reikna þær. Álag, sem áfrýjandi hefur reiknað á heildarkröfu sína til viðbótar niðurstöðum tryggingafræðingsins, verður ekki tekið til greina.

Varakrafa áfrýjanda er sundurliðuð í héraðsdómi. Tekur hún í fyrsta lagi til bóta fyrir tímabundna örorku, er áfrýjandi reiknar sem laun eftir fyrrgreindu meðaltali í 8 mánuði, enda hafi hann fengið greidd laun frá vinnuveitanda sínum til loka febrúar 1992. Telur hann bætur þá eiga að nema 587.515 krónum, eftir frádrátt á dagpeningum frá Tryggingastofnun ríkisins. Áfrýjandi hefur ekki lagt fram beinar upplýsingar um tekjur sínar á árinu 1992, en gögn málsins gefa til kynna, að hann hafi þá verið lítt fær til vinnu. Að þessu athuguðu þykir rétt að taka þennan kröfulið til greina með 400.000 krónum.

Krafa um bætur fyrir varanlega örorku nemur 6.271.800 krónum vegna tapaðra vinnutekna, en 376.300 krónum vegna tapaðra lífeyrisréttinda. Frá fyrri fjárhæðinni verður dregin eingreiðsla örorkubóta úr lögbundinni slysatryggingu hjá Tryggingastofnun ríkisins, 281.953 krónur. Ennfremur verður hún lækkuð með tilliti til hagræðis af skattfrelsi og eingreiðslu hennar, en bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda skerðast ekki. Samkvæmt kröfugerð áfrýjanda koma loks til frádráttar bætur til hans úr samningsbundinni slysatryggingu, 770.918 krónur, sem ógetið er í héraðsdómi. Með hliðsjón af því, sem hér var greint, teljast bætur vegna örorkunnar hæfilega ákveðnar 3.800.000 krónur samanlagt.

Áfrýjandi krefst einnig miskabóta vegna slyssins, sem hafi valdið honum langvinnum þjáningum. Verða þær ákveðnar 400.000 krónur.

Heildarbætur vegna slyssins ákvarðast þannig 4.600.000 krónur. Á stefndi að greiða áfrýjanda 2/3 hluta þeirra eða 3.066.667 krónur. Frá þeirri fjárhæð verða dregnar 340.000 krónur, sem voru á eigin áhættu vinnuveitandans í ábyrgðartryggingu þeirri, er greiðsluskylda stefnda markast af, og hefur áfrýjandi viðurkennt þann frádráttarlið.

Eftir þessu verður stefnda gert að greiða áfrýjanda samtals 2.726.667 krónur, með vöxtum og dráttarvöxtum eins og nánar segir í dómsorði. Verður upphafstími þeirra ákveðinn eins og áfrýjandi hefur krafist, en vaxtahæð eftir kröfugerð hans og ákvæðum 7. gr. vaxtalaga.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað í héraði verður staðfest.

Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og um er mælt í dómsorði, og renni hann í ríkissjóð að þeim hluta, sem þar greinir. 

Dómsorð:

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði áfrýjanda, Jóhannesi Konráð Jóhannessyni, 2.726.667 krónur, með ársvöxtum sem nemur 3,9% frá 17. október 1991 til 1. nóvember sama ár, 3,75% frá þeim degi til 11. sama mánaðar, 3,7% frá þeim degi til 21. sama mánaðar, 3,4% frá þeim degi til 1. desember sama ár, 2,8% frá þeim degi til 21. sama mánaðar, 2,6% frá þeim degi til 1. febrúar 1992, 2,1% frá þeim degi til 11. sama mánaðar, 1,8% frá þeim degi til 21. sama mánaðar, 1,6% frá þeim degi til 1. mars sama ár, 1,5% frá þeim degi til 21. sama mánaðar, 1,1%  frá þeim degi til 1. maí sama ár, 1% frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. janúar 1993, 1% frá þeim degi til 21. mars sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. apríl sama ár, 0,8% frá þeim degi til 11. ágúst sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, 0,8% frá þeim degi til 11. sama mánaðar, 0,5% frá þeim degi til 1. júní 1995, 0,6% frá þeim degi til 1. febrúar 1996 og 0,65% frá þeim degi til 12. desember 1996, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað í héraði á að vera óraskað.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 650.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Af þeirri fjárhæð renni 302.855 krónur í ríkissjóð vegna gjafsóknar áfrýjanda í héraði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 13. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Jóhannesi Konráð Jóhannessyni, Laufrima 22, Reykjavík, með stefnu þingfestri 12. desember 1996 á hendur Sjóvá- Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 9.291.195 ásamt 4% ársvöxtum af kr. 6.194.130 frá 17.10.1991 til 01.11. s.á., en með 3,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. sama mánaðar, en með 3,5% ársvöxtum frá þeim degi til 01.12. s.á., en með 3% ársvöxtum frá þeim degi til 01.02.1992, en með 2,5% ársvöxtum frá þeim degi til 11. sama mánaðar, en með 2% ársvöxtum frá þeim degi til 21.03. s.á., en með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 01.05. s.á., en með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 11.08.1993, en með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11.11. s.á., en með 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 01.06. 1996, en með 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum skv. III. kafla l. nr. 25/1987 af kr. 9.291.195 frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess, að stefndi verður dæmdur til að greiða kr. 8.595.680 ásamt 4% ársvöxtum af kr. 5.730.453 frá 17.10.1991 til 01.11. s.á., en með 3,75% ársvöxtum frá þeim degi til 21. sama mánaðar, en með 3,5% ársvöxtum frá þeim degi til 01.12. s.á., en með 3% ársvöxtum frá þeim degi til 01.02.1992, en með 2,5% ársvöxtum frá þeim degi til 11. sama mánaðar, en með 2% ársvöxtum frá þeim degi til 21.03. s.á., en með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 01.05. s.á., en með 1% ársvöxtum frá þeim degi til 11.08.1993, en með 1,25% ársvöxtum frá þeim degi til 11.11. s.á., en með 0,5% ársvöxtum frá þeim degi til 01.06. 1996, en með 0,65% ársvöxtum frá þeim degi til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum, þ.m.t. vaxtavöxtum skv. III. kafla l. nr. 25/1987 af kr. 8.595.680 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins, þ.m.t. 24,5% virðisaukaskatts á málskostnaðarfjárhæð og að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en stefnandi hefur fengið gjafsókn til reksturs málsins. Jafnframt er þess krafizt, að dráttarvextir af málskostnaði verði höfuðstólsfærðir á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12. mánuðum eftir að 15 dagar verða liðnir frá dómsuppsögu. Að auki krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til greiðslu á útlögðum kostnaði stefnanda.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að skaðlausu, en til vara, að kröfur stefnanda verði verulega lækkaðar og hvor aðila beri kostnað sinn af málinu.

I. Málavextir:

Ágreiningur er um málavexti, en stefnandi kveðst hafa slasazt í vinnuslysi við Vogabakka í Reykjavík þann 17. október 1991, þar sem hann vann sem starfsmaður Hagvirkis-Kletts hf. að lengingu viðlegukants á vinnusvæði Samskipa hf. Kveðst stefnandi hafa verið sendur einn út á fleka til vinnu, þar sem hann hafði það verkefni að sjóða festingar fyrir fríholt og stuðningsteina á viðlegukantinn. Slysdaginn hafi verið vindur norðan 8 stig, og hafi flekinn verið óstöðugur vegna sjógangs. Slysið hafi orðið með þeim hætti, að stefnandi rann til vegna hálku og ísingar, sem myndazt hafði á yfirborði flekans. Vegna öldugangs hafi flekinn verið á stöðugri hreyfingu til og frá landi, þegar slysið átti sér stað. Að öllu jöfnu hafi tveir menn unnið á flekanum, og hafi það verið hlutverk annars að halda honum stöðugum, meðan hinn vann.

Við fallið hafi stefnandi komið illa niður á bak og rekið hægri fót og hægri öxl í.

Stefndi gerir þær athugasemdir við málavaxtalýsingu stefnanda, að enginn sjónarvottur hafi verið að slysinu. Stefnandi hafi ekki gefið yfirmönnum sínum til kynna, að um áverka væri að ræða, eða að aðdragandi slyssins hafi verið slíkur, að tilefni hefði verið til að kalla á vinnueftirlitið eða lögreglu til þess að rannsaka málið, enda hafi hann farið löngu seinna til læknis. Hann hafi farið einn út á flekann, sem hafi verið brot á þeim verklagsreglum, sem viðhafðar voru, að það skyldu alltaf vera tveir á flekanum.

Ljóst verði að teljast af verklýsingu stefnanda sjálfs á verkefni sínu, þegar slysið bar að höndum, að flekinn hafi verið við innanvert þilið, þ.e. landmegin, og þar með í skjóli fyrir veðri og vindum. Stefnandi hafi einn tekið þá ákvörðun að fara út á flekann í þetta tiltekna skipti, án nokkurs samráðs við yfirmenn sína. Stefnandi hafi ekki getað runnið til í frosthálku, þar sem hiti hafi verið ofan við frostmark þennan meinta slysdag.

Stefnandi kveðst hafa leitað til Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis þann 17. febrúar 1992, sem gaf út áverkavottorð dags. 17. marz 1992. Kemur þar fram, að stefnandi hafi haldið áfram í vinnunni daginn, sem slysið varð, en snarversnað, aðallega með verki í mjóbaki, hægri öxl og aftan í hægra læri, og hafi það verið leiðsluverkur frá bakinu og niður í lærið aftanvert hægra megin. Hann hafi síðan verið frá vinnu í viku, reynt að vinna í tvær vikur en gefizt þá upp og hafi ekki unnið eftir það. Skoðun læknisins leiddi í ljós, að stefnandi var „hvellaumur neðst í mjóbaki við palpation, mest í einum punkti í kringum L4-L5. Auk þess var hann með töluvert skertar hreyfingar vegna sársauka á sama stað. Aftur á móti var taugaskoðun í ganglimum eðlileg.“ Fram kemur í vottorðinu, að stefnandi hafði hafið sjúkraþjálfun en fundizt framfarir litlar. Gaf læknirinn honum bólgueyðandi sprautu í auma punktinn í bakinu og sendi hann síðan í röntgenmyndatöku af mjóhrygg og öxlum.

Stefnandi kom aftur í skoðun til bæklunarlæknisins í tvígang í marzmánuði, í síðara skiptið þann 13. marz, og hafði honum þá snarversnað í bakinu án nokkurra átaka og var mjög illa haldinn að sögn.

Þann 4. marz 1993 og 12. júlí s.á. gaf bæklunarlæknirinn út ný áverkavottorð, þar sem fram kemur, að líðan stefnanda sé slæm og „hafi jafnvel farið versnandi“. Hann hafi farið í endurhæfingarmeðferð á Reykjalund, sem ekki virtist bera árangur.

Þann 16. desember 1992 mat Júlíus Valsson læknir örorku stefnanda, og studdist þá m.a. við áverkavottorð Sigurjóns Sigurðssonar læknis og vottorð Þóris Ragnarssonar, sérfræðings á heila- og taugaskurðdeild Borgarspítalans, dags. 30.11.1992. Kemur fram í því vottorði, að stefnandi hafi fyrst leitað til heimilislæknis síns, Haraldar Tómassonar, áður en hann leitaði til Sigurðar Sigurjónssonar. Jafnframt kemur þar fram, að tölvusneiðmynd hafi sýnt brjósklos á milli IV. og V. lendarliðbola vinstra megin.

Niðurstaða Júlíusar Valssonar er sú, að tímabundin örorka stefnanda hafi verið 100% í tvo mánuði og varanleg örorka 15%. Með bréfi, dags. 22. janúar 1993, leiðrétti læknirinn prentvillu vegna hinnar tímabundnu örorku stefnanda og kvað hana hafa átt að vera 12 mánuði.

Þann 22. nóvember 1993 mat læknirinn örorku stefnanda á ný og studdist þá við ný gögn jafnframt þeim eldri. Segir svo í niðurstöðu hans:

„Slasaði er fjörtíu og fimm ára gamall maður, er var metinn til 15% varanlegrar örorku vegna vinnuslyss þann 18. október 1991 (17. okt. 1991) í desember 1992. Hann hefur nú verið í viðamikilli endurhæfingu og meðferð en ekki lagast í baki og er með sífelld óþægindi sem versna við allt álag. Tölvusneiðmynd hefur sýnt miðlægt brjósklos sem að öllum líkindum má rekja til áðurnefnds vinnuslyss og hefur bakskurðaðgerð ekki þótt ráðlögð (sic).

Rúm tvö ár eru nú liðin frá því að áðurnefnt vinnuslys átti sér stað og má því telja að þau einkenni sem slasaði hefur í dag og sem rekja má til slyssins séu varanleg.

Ólíklegt má telja að slasaði geti í framtíðinni unnið almenn verkamannastörf vegna bakverkja.

Þykir rétt að taka áðurnefnt örorkumat undirritaðs til endurmats og til hækkunar og þykir nú varanleg örorka vegna vinnuslyssins þann 18.10.91 (17.10.91) vera hæfilega metin tuttugu og fimm prósent (25%).“

Í greinargerð til tryggingaráðs, dags. 26. janúar 1994, sundurgreinir læknirinn örorkumatsprósentuna þannig, að 15% séu vegna bakáverkans, þ.m.t. brjósklos, sem hafi að einhverju leyti gengið til baka, 5% vegna annarra stoðkerfiseinkenna, t.d. frá axlarsvæðinu og 5% vegna svokallaðrar post traumatiskrar neurosu, sem stefnandi sé greinilega haldinn.

Stefnandi er nú metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins af völdum slyssins.

Stefnandi kveður hvorki Vinnueftirlit ríkisins né lögreglu hafa verið kvadda til vegna slyssins, og hafi stefnandi sjálfur þurft að hlutast til um, að vinnuveitandi hans tilkynnti slysið til Vinnueftirlits ríkisins, en sú tilkynning hafi farið fram þann 25. nóvember 1991. Þá hafi stefnandi sjálfur farið fram á skýrslutökur hjá lögreglu af vitnum, sem unnu með stefnanda, þegar slysið varð.

Í bréfi vinnueftirlitsins, dags. 6. marz 1995 kemur eftirfarandi fram:

Samkvæmt upplýsingum veðurfarsdeildar Veðurstofu Íslands hafi hitastig á slysdegi verið 1,7°C og vindur norðan 8 stig. Dagana áður hafði verið vægt frost, innan við -2°C.

Ekki eru gerðar kröfur um fallvarnir á vinnupalla fyrr en þeir ná tveggja metra hæð.

Ekki eru til neinar sérstakar kröfur um fljótandi vinnupalla í reglugerðum.

Stefnandi kveður, að þar sem svo hagi til, eins og aðstæður voru í tilfelli stefnanda, geri vinnueftirlitið kröfur um, að starfsmenn klæðist flotgöllum og vinni tveir og tveir saman. Líklegt megi telja, að nokkur hreyfing hafi verið á prammanum, sem notaður var sem vinnupallur, þar sem vindur var 8 vindstig. Eins og fram sé komið, hafi stefnandi verið sendur einn út á prammann í umrætt skipti. Mesta vindhviða á slysdegi hafi samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands mælzt 45 hnútar á milli kl. 12-15, en slysið hafi orðið fljótlega upp úr kl. 13:00. Kveður stefnandi, að vegna hræðslu við að verða sagt upp vinnunni, hafi menn ekki þorað annað en að fara einir út á flekann, fengju þeir um það fyrirmæli.

II.  Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að hann hafi orðið fyrir verulegum meiðslum vegna vinnuslyss, er hann lenti í þann 17. október 1991 og að Hagvirki-Klettur hf. hafi borið ábyrgð á tjóni hans samkvæmt húsbóndaábyrgðarreglu skaðabótaréttarins eða samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Hagvirki-Klettur hf. hafi verið með ábyrgðartryggingu hjá stefnda, sem stefnandi telji, að eigi að bæta það tjón, sem hann varð fyrir í slysinu. Hagvirki-Klettur hf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness þann 6. október 1994 og sé því ekki stefnt í máli þessu. Skiptum hafi lokið þann 15. janúar 1996, og hafi ekkert komið upp í almennar kröfur í búið.

Stefnandi kveðst einnig byggja á því, að varanleg læknisfræðileg örorka sín sé sönnuð með læknisvottorðum og örorkumatsgerð Júlíusar Valssonar læknis, en hann hafi greint örorku stefnanda tímabundna í 12 mánuði 100% og varanlega 25%. Þessi sönnunargögn, er varði læknisfræðilega örorku, hafi um áratuga skeið verið lögð til grundvallar úrlausnum dómstóla í skaðabótamálum. Einnig hafi tryggingafélög á borð við stefnda gert upp samkvæmt læknisfræðilegri örorku, án atbeina dómstóla, mikinn fjölda mála.

Stefndi hafi hafnað bótaskyldu, þar sem félagið telji, að um óhappatilvik hafi verið að ræða, en aðstæður hafi ekki verið með þeim hætti, þegar slysið varð, að það leiði til skaðabótaskyldu vinnuveitanda. Það sé málsástæða hjá stefnanda, að starfsmaður Hagvirkis-Kletts hf., verkstjóri stefnanda við Holtagarða í Reykjavík, hafi á slysdegi sýnt af sér saknæma háttsemi, þegar hann sendi stefnanda einan til starfa við rafsuðu út á pramma, þar sem verið var að lengja viðlegukant við Holtagarða. Verkstjórinn hafi vitað eða mátt vita, að pramminn var óstöðugur í því veðri, sem var á slysstað á slysdegi. Ekki hafi verið óhætt að senda einn mann til að vinna það verk, sem unnið hafi verið á prammanum, þar sem mikill veltingur hafi verið í þeim 8 vindstigum, sem Veðurstofa Íslands hafi staðfest, að hafi verið á slysdegi. Það hafi verið vitað, að einn maður gat ekki hættulaust bæði unnið við rafsuðu og reynt að halda prammanum stöðugum á sama tíma. Til þess hefði þurft tvo menn, og jafnvel í því tilviki sé óvíst, hvort tekizt hefði að halda prammanum stöðugum vegna sjógangs. Vinnueftirlit ríkisins geri kröfu um, þegar svo hagi til sem á slysstað, að starfsmenn klæðist flotgöllum og vinni tveir saman. Flekinn hafi verið háll vegna bleytu og ísingar, sem lagzt hafði á yfirborð prammans. Slydda eða slydduél höfðu gengið yfir þá um nóttina. Stefnandi telji, að orsaka slyssins sé að leita í aðstæðum og aðbúnaði á vinnustað, hálku, vindi og sjógangi, en ekki hafi verið um óhappatilvik að ræða eða ógætni stefnanda. Aðstæður hafi allar hafi verið með þeim hætti, að það var ábyrgðarhlutur af verkstjóra að senda stefnanda einan til vinnu á prammanum á umræddum degi. Hagvirki-Klettur hf. beri vinnuveitendaábyrgð á tjóni stefnanda, sem hlauzt vegna saknæmrar háttsemi verkstjóra í starfi.

Jafnvel þótt ekki verði leitt í ljós með óyggjandi hætti, hvaða verkstjóri Hagvirkis-Kletts hf. það var, sem gaf fyrirmæli um, að stefnandi starfaði einn úti á prammanum við þær ófullnægjandi aðstæður, sem voru á slysstað, beri vinnuveitandi engu að síður bótaábyrgð á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð eða samkvæmt almennu skaðabótareglunni beint, þar sem verkstjórar fyrirtækisins voru að framfylgja fyrirmælum um vinnulag og verktilhögun, sem mótuð hafði verið af stjórnendum félagsins. Eins og áður sé komið fram, hafi Hagvirki-Klettur hf. verið úrskurðað gjaldþrota þann 6. október 1994. Félagið hafði keypt ábyrgðartryggingu hjá stefnda vegna þess tjóns, sem kynni að hljótast í eða af starfsemi félagsins. Ábyrgðartrygging þessi hafi verið í gildi, þegar stefnandi slasaðist.

Það sé málsástæða hjá stefnanda, að sannað líkamstjón sé til þess fallið að valda minnkun á starfsorku. Minnkunin sé að sjálfsögðu persónubundin og því mismikil. Þá geti skerðingin komið öll fram strax, en líklegra sé, að hlutar hennar komi ekki fram fyrr en síðar á lífsleiðinni. Í tilviki stefnanda sé ljóst, að mikil skerðing á starfsorku sé þegar komin fram og ekki sé útilokað, að frekari skerðing eigi eftir að koma fram síðar. Stefnandi hafi orðið að hverfa úr þeirri starfsgrein, sem hann var í, þegar slysið átti sér stað, og frá þeim störfum, sem menntun og kunnátta hans lá til. Eðlilegt sé, að tekið verði tillit til þessa við ákvörðun bótanna.

Miskabótakröfu stefnanda að fjárhæð kr. 750.000 sé stillt í hóf. Þeirri fjárhæð sé ætlað að bæta öll óþægindi stefnanda af völdum áverkanna, allar þjáningar auk röskunar á stöðu og högum. Það þurfi ekki að fjölyrða um óþægindi og þjáningar stefnanda. Við matsgerðir og læknisvottorð sé litlu að bæta. Helzt því, að varanleg örorka taki eingöngu á skerðingu til starfa en ekki á áhrifum áverkanna á tómstundir stefnanda og ótalmargt annað.

Krafizt sé almennra sparisjóðsvaxta Landsbanka Íslands frá slysdegi 17. október 1991 til þingfestingardags, sbr. 7. gr. l. nr. 25/1987. Gerð sé krafa um dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags í samræmi við 15. gr. sömu laga.

Ágreiningur stefnanda og stefnda í þessu máli sé fyrst og fremst um bótaskylduna.

Stefnandi vísar til ólögfestrar meginreglu íslenzks skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna, húsbónda- eða vinnuveitenda­ábyrgðar­reglunnar svokölluðu.

Til vara kveðst stefnandi reisa kröfur sínar á því, að Hagvirki-Klettur hf. hafi borið ábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt almennu skaðabótareglunni.

Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á lögum nr. 46/1980 um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum á IV. kafla a, um skyldur atvinnurekanda og b, um skyldur verkstjóra, og ákvæði 86. gr.

Varðandi miskabætur vísar stefnandi til 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Um vexti vísar stefnandi til l. nr. 25/1987, einkum 7. og 15. gr.

Kröfu um málskostnað styður stefnandi við l. nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.

Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er reist á l. nr. 50/1988 og reglugerð nr. 562/1989. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur.

Sundurliðun dómkrafna stefnanda:

Stefnandi kveðst styðja kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda við 2. mgr. 25. gr. l. nr. 91/1991.

Jón Erlingur Þorláksson tryggingastærðfræðingur hafi reiknað út tjón stefnanda í þessu máli. Aðalbótakrafan byggi á meðaltekjum stefnanda árin 1988-1991, eða á þremur árum fyrir slysið auk slysársins sjálfs. Ástæða þess, að miðað sé við 4 ár í útreikningi aðalkröfu, sé, að stefnandi var atvinnulaus hluta úr tekjuárunum 1989 og 1990. Talið sé, að tekjuviðmiðun 4ra ára gefi raunsærri mynd af tjóni stefnanda. Stefnandi hafi slasazt síðla árs 1991, og sé það tekjuár því vel marktækt við útreikning á tjóninu. Stefnandi hafi þá haft hærri tekur en áður, þar sem hann hafði aflað sér fullra réttinda sem vélsmiður. Varabótakrafa stefnanda byggi á meðaltekjum stefnanda árin 1989-1991.

Aðalbótakrafa

1.Örorkutjón:

1.1.Tímabundið tekjutjón

kr.

928.400

1.2.- dagpeningar Tryggingastofnunar

kr.

-267.018

1.3.Varanlegt örorkutjón

kr.

6.813.900

1.4.- örorkubætur Tryggingastofnunar þ. 06.01.1993

kr.

-281.953

Samtals

kr.

7.193.329

30% frádráttur v. skattfrelsis bóta v. varanlegs örorkutjóns og eingreiðsluhagræðis

kr.

-2.157.999

Samtals

kr.

 5.035.330

1.5.Töpuð lífeyrisréttindi

kr.

408.800

Samtals

kr.

5.444.130

2.Miskabætur

kr.

750.000

Samtals

kr.

6.194.130

3.Álag 50%-

kr.

3.097.065

Alls eftirstöðvar tjóns til greiðslu

kr.

9.291.195

Varabótakrafa:

1.Örorkutjón:

1.1.Tímabundið tekjutjón

kr.

854.433

1.2.- dagpeningar Tryggingastofnunar

kr.

-267.018

1.3.Varanlegt örorkutjón

kr.

6.271.800

1.4.- örorkubætur Tryggingastofnunar þ. 06.01.1993

kr.

-281.953

Samtals

kr.

6.577.362

- 30% frádráttur v. skattfrelsis bóta v. varanlegs

örorkutjóns og eingreiðsluhagræðis

kr.

-1.973.208

Samtals

kr.

4.604.153

1.5.Töpuð lífeyrisréttindi

kr.

376.300

Samtals

kr.

4.980.453

2.Miskabætur

kr.

750.000

Samtals

kr.

5.730.453

3.Álag 50%-

kr.

2.865.227

Alls eftirstöðvar tjóns til greiðslu

kr.

8.595.680

Undir báðum kröfuliðum sé krafizt vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga af sundurliðaðri kröfu sbr. hér að framan frá slysdegi til þingfestingardags, en dráttarvaxta samkvæmt 15. gr. sömu laga af stefnufjárhæðinni (50% álagi) frá þeim degi til greiðsludags.

Það 50% álag, sem gerð sé krafa um í máli þessu, sé tilkomið, þar sem gera megi ráð fyrir, að máli þessu verði skotið til Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar frá 1977, bls. 516, komi fram, að ekki sé hægt að hækka kröfur frá því fyrir héraðsdómi á grundvelli nýs útreiknings tryggingastærðfræðings. Með þessi réttarfarssjónarmið í huga sé gerð krafa um tilgreint 50% álag, þar sem gera megi ráð fyrir, að vegna launahækkana í landinu verði sannanlegt tjón stefnanda orðið meira, þegar málið kemur fyrir í Hæstarétti.

III. Málsástæður stefnda:

Stefndi kveður stefnanda ekki geta átt beina aðild að stefnda sem ábyrgðartryggjanda Hagvirkis-Kletts hf. og bæri því að sýkna hann af þeirri ástæðu. Upplýst sé, að stefnandi lýsti aldrei kröfum sínum í þrotabú Hagvirkis-Kletts hf., svo sem honum hafi borið, og til þess hafi hann haft öll tækifæri. Engu að síður kveðst stefndi ekki muni bera fyrir sig þessa málsástæðu og samþykkir því aðild sína að málinu. Hins vegar beri að taka til greina til lækkunar, verði bótaskylda dæmd, eigin áhættu tryggingartakans og vangreidd iðgjöld.

Stefndi kveður, að eins og stefnandi lýsi slysinu, sé ljóst, að ekkert orsakasamband sé á milli athugasemda vinnueftirlitsins um tvo á fleka og flotvinnugalla og sjálfs slyssins. Hafi því skýrslan, sem gerð sé löngu seinna og byggi eingöngu á lýsingu stefnanda, enga þýðingu í málinu. Stefnandi hafi ekkert tilefni gefið vinnuveitanda sínum til að láta fara fram rannsókn á atvikinu, og verði því öll sönnunarbyrði um vafaatriði lögð á hann, enda sé krafa hans sett fram það löngu seinna, að erfitt sé að upplýsa málið. Verði hann því að bera hallann af þessum ástæðulausa drætti sínum.

Því sé haldið fram af hálfu stefnda, að slysið verði eingöngu rakið til óhapps eða eigin gáleysis stefnanda. Stefnandi hafi unnið við rafsuðu á landi og einnig á flekanum, þegar færi gafst, m.a. vegna sjávarhæðar. Hann hafi einn tekið þá ákvörðun að fara á flekann í þetta tiltekna skipti, enda verði að ætla, að það hafi verið hættulítið, þar sem öll vinna á honum fór fram við innanvert þilið. Ef veltingur á flekanum hafi verið slíkur, svo sem stefnandi lýsi, hafi honum mátt vera ljóst, að það hafi verið tilgangslaust að fara út á flekann til rafsuðu, þar sem slík vinna undir slíkum kringumstæðum, hafi verið vonlaus. Af veðurlýsingu megi ráða, að hálka á fleka hafi ekki getað verið vegna ísingar. Stefndi telji því, að slysið verði ekki rakið til bótaskyldrar háttsemi atvinnurekandans, og því beri að taka aðalkröfu hans til greina.

Verði hins vegar talið, að bótaskylda sé fyrir hendi, beri að lækka kröfur stefnanda verulega.

Enginn ágreiningur sé gerður um það, að við þessa vinnu sína og við þetta fall hafi stefnandi hlotið 25% varanlega örorku, sbr. örorkumat Júlíusar Valssonar læknis á dskj. nr. 10. Ekki sé heldur ágreiningur um, að hin varanlega örorka leiði til samsvarandi tekjutaps, svo sem örorkutjónsútreikningur Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings geri ráð fyrir. Hins vegar beri, við þá aðferðarfræði, að styðjast við 3 næstu tekjuár á undan. Sé slysárið notað til viðmiðunar, sé árinu 1988 mótmælt sem viðmiðunarári og öfugt.

Tímabundnu tekjutapi er mótmælt sem órökstuddu, enda byggi það alfarið á líkindaútreikningi tryggingastærðfræðingsins.

Frádráttur vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis beri að vera a.m.k. 40%, enda miði útreikningar við 4,5% framtíðarávöxtun.

Miskabætur séu í engu samræmi við dómaframkvæmd og sérstakt álag styðjist ekki við nein rök.

Þá beri að draga frá bótakröfum eigin áhættu tryggingartakans og vangreidd iðgjöld.

Dráttarvexti beri að reikna fyrst frá dómsuppsögudegi, eins og dómaframkvæmd hafi sýnt.

IV. Forsendur og niðurstaða:

Ágreiningslaust er, að slysið varð þann 17. október 1991, þrátt fyrir missagnir þar um í gögnum málsins. Þá er ekki ágreiningur um aðild.

Engin vitni voru að slysi stefnanda. Í gögnum málsins er ýmist haft eftir honum, að hann hafi misstigið sig og fallið, hrasað og dottið aftur fyrir sig, eða runnið til á hálku.

Fyrstu frásagnir stefnanda af slysinu er að finna í tilkynningu til vinnueftirlits ríkisins, dags. 25. nóvember 1991, þar sem aðdragandanum er lýst svo, að hann hafi misstigið sig, þegar hann var að lyfta upp járnbita, en stefnandi hefur staðfest fyrir dómi að hafa lesið þá skýrslu yfir og ekki gert athugasemdir við hana þá. Hið sama kemur fram í áverkavottorði Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis, dags. 17. marz 1992. Kemur þar jafnframt fram, að stefnandi leitaði ekki strax til læknis og kom fyrst til bæklunarlæknisins þann 14. febrúar 1992.

Í örorkuvottorði dags. 2. desember 1992 er aðdraganda slyssins lýst svo, að stefnandi hafi hrasað og dottið aftur fyrir sig, en um þá lýsingu er vísað til tilkynningar um slys og læknisvottorð.

Í umsókn um gjafsókn á dskj. nr. 25, dags. 27. febrúar 1996 er aðdraganda slyssins lýst svo, að það hafi verið með þeim hætti, að stefnandi hafi runnið til vegna ísingar, sem myndazt hafði á yfirborði flekans. Í stefnu er slysinu lýst á sama hátt.

Fyrir dóminum lýsti stefnandi slysinu svo, að hann hefði farið út á prammann og runnið til, þar sem pramminn var á fleygiferð og slinkur kom á bandið, sem átti að festa prammann við þilið. Hann kvaðst hafa meitt sig á öxl, baki og fæti, en bakverkurinn hefði lagazt fljótlega. Hann hafi reynt að vinna en orðið frá að hverfa vegna verkja. Næstu viku hafi hann verið heima, en hafi síðan reynt að vinna í tvær vikur en gefizt þá upp. Hann skýrði ennfremur svo frá, að flekinn hefði verið sandborinn, og hann hefði sjálfur verið klæddur skóm með gúmmísóla og stáltá.

Í stefnu heldur stefnandi því fram, að afleysingaverkstjóri hafi verið við störf þennan dag, sem stefnandi þekkti ekki nafnið á. Í skjali, sem stefnandi og samstarfsmenn hans, Örvar Guðmundsson og Valdimar Aðalsteinsson undirrituðu, dags. 29.09.1993, dskj. nr. 9, kemur fram, að afleysingaverkstjórinn þann dag fyrir verkstjórann, Valþór Sigurðsson, hafi heitið Jón Árnason.

Fyrir dóminum bar stefnandi, að verkstjórinn, Valþór, hafi verið á staðnum um morguninn og sent hann einan gegn vilja sínum út á prammann, og stefnandi hafi ekki þorað annað en að fara af ótta við að missa vinnuna. Eftir hádegið hafi verið kominn afleysingaverkstjóri, sem hann kvaðst ekki geta nafngreint, sem hafi sent hann út á prammann aftur.

Ekki hefur tekizt að upplýsa hvort afleysingaverkstjóri var þetta síðdegi, en verkstjórinn, Valþór Sigurðsson, bar fyrir dómi, að ekki hefði verið venja að kalla til afleysingaverkstjóra, þegar hann brá sér frá, það hafi eingöngu verið gert, ef hann var frá einhverja daga. Hann kvaðst ekki kannast við tilgreindan Jón Árnason. Hann kvaðst ekki muna, hvort hann hefði verið við vinnu þennan dag, en kveðst hafa fengið upplýsingar um atvikið næsta dag. Hann skýrði ennfremur svo frá, að stefnanda hefði verið heimilt að kalla til aðstoðarmann eftir þörfum. Menn hefðu aldrei verið sendir einir á fleka utan þils, en það hafi komið fyrir, að menn væru einir á fleka innan þils, þar sem sjaldan væri þar úfinn sjór. Það hafi verið misjafnt, hvort hann skipti sér af því, hve margir færu í senn út á flekann. Aðspurður kvaðst hann ekki kannast við ágreining við starfsmenn vegna þessarar vinnu. Hann kvað verkefnin hafa farið eftir sjávarstöðu og veðri. Verkstjóri hafi tekið ákvörðun í samráði við viðkomandi starfsmann, en menn hafi vitað nokkuð í hvaða störf þeir áttu að ganga og hafi það verið lagt í hendur vélsmiðunum, hvernig að þeirra vinnu var staðið, en yfirleitt hafi aðeins verið hægt að vinna á fleka í skamman tíma í senn vegna sjávarstöðu, eða 4-5 klst. Hann mótmælti því, að ágreiningur hefði verið við menn um það, að hann hafi viljað senda þá eina út á prammann gegn vilja þeirra. Þessi framburður fær stoð í framburði vitnisins Ásgeirs Jóhannesar Kristjánssonar, sem var kranamaður á vinnustað og deildi matar- og kaffitímum með stefnanda og vinnufélögum hans. Stangast sá framburður á við framburð stefnanda og vitnanna Örvars Guðmundssonar, Valdimars Aðalsteinssonar og Haraldar Eiríkssonar.

Í málinu liggur fyrir vottorð um veðurfar umræddan dag frá Veðurstofu Íslands, þar sem fram kemur að veður er mjög hvasst þennan dag. Með hliðsjón af því vottorði þykir mega leggja til grundvallar þá fullyrðingu stefnanda, að sjógangur hafi verið innanþils, þar sem hann var að vinna. Ennfremur kemur fram, að hiti var yfir frostmarki og því ólíklegt, að ísing hafi verið á flekanum, þegar atvikið átti sér stað.

Eins og að framan greinir hefur framburður stefnanda verið nokkuð á reiki í skjölum málsins og ekki samræmi milli þess sem þar kemur fram og þess, sem hann bar fyrir dómi. Fyrstu frásagnir hans af slysinu benda til þess að um óhappatilvik hafi verið að ræða, en ekki aðstæður, sem vinnuveitendur hans bera ábyrgð á. Þykja þær frásagnir trúverðugri en atvikalýsing, sem gefin er meira en 4 árum eftir atburðinn. Þá er ósannað, að stefnandi hafi verið sendur á flekann gegn vilja sínum umrætt síðdegi. Verður að telja, að stefnandi hafi mátt sjá, að varasamt var að fara út á flekann við þessar kringumstæður, með vísan til veðurlýsingar veðurstofu og þess, hvernig stefnandi sjálfur hefur lýst veðrinu og aðstæðum, sem hann þekkti vel. Hann tók því áhættu, sem ósannað er, að vinnuveitandi hans beri ábyrgð á.

Aðild stefnda er reist á því, að hann hafi verið ábyrgðartryggjandi Hagvirkis-Kletts hf. Með vísan til framanritaðs ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 302.855, þ.m.t. útlagður kostnaður samkvæmt reikningum, kr. 52.855, greiðist úr ríkissjóði. Virðisaukaskattur er ekki innifalinn.

Dóminn kváðu upp Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari og meðdómsmennirnir Ragnar Ingimarsson verkfræðingur og Halldór Hannesson verkfræðingur.

Dómsorð:

Stefndi, Sjóvá- Almennar tryggingar hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Jóhannesar Konráðs Jóhannessonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 302.855, greiðist úr ríkissjóði.