Hæstiréttur íslands

Mál nr. 187/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Aðilaskipti
  • Niðurfelling máls
  • Kæruheimild


Þriðjudaginn 30

 

Þriðjudaginn 30. apríl 2002.

Nr. 187/2002.

Íslandssími hf.

(Björgvin Jónsson hrl.)

gegn

Björk Kristjánsdóttur

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Aðilaskipti. Niðurfelling máls. Kæruheimild.

B, hluthafi í T ehf., sem var undir gjaldþrotaskiptum, hafði lýst yfir vilja til að halda áfram máli félagsins á hendur Í hf. á eigin kostnað og áhættu, en til hagsbóta þrotabúinu. Í 1. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eru þeir tæmandi taldir, sem geta tekið til sín að gæta hagsmuna þrotabús, sem skiptastjóri ákveður að halda ekki uppi. Talið var, að þar sem B var hvorki lánardrottinn, sbr. 1. mgr. ákvæðisins, né þrotamaður, sbr. 2. mgr. þess, skorti hana heimild til að taka við málinu. Var málið því fellt niður fyrir héraðsdómi með vísan til b. liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að málið yrði fellt niður eða því vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til k. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að málið verði fellt niður, en ella verði því vísað frá dómi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum höfðuðu Tjáskipti ehf. mál þetta á hendur sóknaraðila með stefnu útgefinni 20. apríl 2001 til greiðslu á 15.654.818 krónum með nánar tilgreindum dráttarvöxtum og málskostnaði. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 3. maí sama árs og tók sóknaraðili til varna. Þegar málið var tekið fyrir á dómþingi 24. janúar 2002 til að undirbúa aðalmeðferð þess kom fram að bú stefnandans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 4. desember 2001. Greint var frá því að skiptafundur hefði ekki enn verið haldinn í þrotabúinu og þannig óvíst hvort það tæki við rekstri málsins, en ef ekki yrði af því myndu fyrrum fyrirsvarsmenn félagsins óska eftir að halda málinu áfram á sinn kostnað. Málið var tekið fyrir á ný í þinghaldi 25. mars 2002. Kom þá fram að hvorki myndi þrotabúið halda málinu áfram né hafi neinn kröfuhafi lýst yfir vilja sínum til þess. Varnaraðili, sem hafi verið eigandi að 20% hlutafjár í Tjáskiptum ehf., hefði á hinn bóginn hug á að halda málinu áfram til hagsbóta þrotabúinu, en á sinn kostnað og áhættu. Hafi þrotabúið samþykkt það fyrir sitt leyti. Sóknaraðili andmælti því að varnaraðila væri þetta heimilt og krafðist þess að málið yrði fellt niður eða því vísað frá dómi. Var þessum kröfum hans hafnað með hinum kærða úrskurði.

Varnaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt fundargerð frá skiptafundi, sem haldinn var í þrotabúi Tjáskipta ehf. 8. apríl 2002. Á þeim fundi bar einn kröfuhafa, Jötunheimar ehf., upp það erindi að sér yrði heimilað að halda áfram rekstri þessa máls á eigin kostnað og áhættu, en til hagsbóta þrotabúinu. Var fallist á þetta erindi. Í málatilbúnaði varnaraðila fyrir Hæstarétti kemur meðal annars fram í tengslum við þetta að hún hafi eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar óskað eftir því við sóknaraðila að málið yrði tekið fyrir í héraðsdómi til að breyta aðild að því til samræmis þessu. Því hafi sóknaraðili hafnað.

II.

Samkvæmt k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um hvort mál verði fellt niður. Af j. lið sömu málsgreinar verður á hinn bóginn ályktað að ekki sé unnt að kæra úrskurð héraðsdómara, þar sem hafnað er að vísa máli frá dómi. Vegna þessa getur eingöngu komið til álita fyrir Hæstarétti krafa sóknaraðila um að málið verði fellt niður fyrir héraðsdómi.

Í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er mælt fyrir um heimild lánardrottins, sem hefur lýst í þrotabú kröfu sem ekki hefur verið hafnað, til að halda uppi hagsmunum þess ef skiptastjóri hefur ákveðið að láta þá ekki til sín taka. Verði slíkt gert til hagsbóta þrotabúinu, en á kostnað og áhættu hlutaðeigandi lánardrottins. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar getur þrotamaður, ef um einstakling er að ræða, farið eins að ef enginn lánardrottinn neytir þessarar heimildar. Með þessum lagaákvæðum eru þeir tæmandi taldir, sem geta tekið til sín að gæta hagsmuna þrotabús, sem skiptastjóri ákveður að halda ekki uppi. Hluthafi í félagi, sem er undir gjaldþrotaskiptum, verður ekki í þessu efni lagður að jöfnu við þá, sem hér um ræðir. Skorti því heimild í 130. gr. laga nr. 21/1991 handa varnaraðila til að taka við máli Tjáskipta ehf. á hendur sóknaraðila. Í þinghaldi í héraði 25. mars 2002 var sem áður segir greint frá því að þrotabú Tjáskipta ehf. myndi ekki reka málið áfram og hefði heldur enginn kröfuhafi lýst yfir vilja sínum til þess. Af þessum sökum voru ekki skilyrði til annars en að héraðsdómari myndi þá þegar fella málið niður, sbr. b. lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Í því ljósi getur engu breytt fyrir niðurstöðu málsins að síðar hafi komið fram að kröfuhafi í þrotabúinu hefði hug á að taka við rekstri þess, svo sem varnaraðili vísar nú til í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti. Samkvæmt þessu öllu verður að taka til greina kröfu sóknaraðila um að málið verði fellt niður í héraði.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Mál þetta er fellt niður fyrir héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2002.

Mál þetta var höfðað 2. maí 2001 og tekið til úrskurðar fyrr í dag um hvort fella beri það niður.

Stefnandi er Björk Kristjánsdóttir, kt.291153-3649, Básbryggju 23, Reykjavík en hún rekur málið til hagsbóta fyrir þrotabú Tjáskipta ehf., kt. 600298-2599, á grundvelli 130. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991.

Stefndi er Íslandssími hf., kt. 600898-2059, Borgartúni 30, Reykjavík.

Stefndi krefst þess að málið verði fellt niður eða því vísað frá dómi. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

Stefnandi gerir þær kröfur í þessum þætti málsins að kröfu stefnda um niðurfellingu málsins verði hafnað. Þá krefst stefnandi málskostnaðar í þessum þætti málsins sérstaklega.

I

Krafa stefnanda í máli þessu, að fjárhæð 15.654.818 krónur, er sprottin af samningi sem stefndi og Tjáskipti ehf. gerðu með sér 3. nóvember 1999. Samningurinn var um samstarf á þróun á virðisaukandi símaþjónustu, sjálfvirkri svörun og sérþjónustulausnum. Krafan er aðallega vegna svokallaðrar virðisaukandi símaþjónustu sem Tjáskipti ehf. veitti í símanúmerum sem byrja á 900. Símaþjónustan var veitt í samstarfi við stefnda og sá stefndi um innheimtu á gjöldum vegna hennar. Hluti af kröfunni er vegna meintrar símsvörunar Tjáskipta ehf. fyrir hönd stefnda.

II

 Af hálfu stefnda eru færð þau rök fyrir kröfu um niðurfellingu málsins eða frávísun þess að á skiptafundi í þrotabúi Tjáskipta ehf. hafi skiptastjóri tekið þá afstöðu að máli þessu yrði ekki haldið áfram af hálfu þrotabúsins og engir kröfuhafar hafi lýst því yfir að þeir hygðust halda málinu áfram. Heimild 2. mgr. 130. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 sé varaheimild sem einungis eigi við um þrotabú einstaklinga. Hið gjaldþrota félag sé einkahlutafélag og heimild 2. mgr. 130. gr. nái ekki til eigenda slíks félags. Af hálfu stefnda er því haldið fram að heimild 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 sé þrengri en samsvarandi heimild í 115. gr. eldri gjaldþrotalaga nr. 6/1978. Eldra ákvæðið hafi hljóðað svo að þrotamaður gæti gert þessar ráðstafanir vegna búsins en á sinn kostnað en í núgildandi ákvæði segi að þrotamaður geti einungis gripið til aðgerða samkvæmt 1. mgr. 130. gr. ef um einstakling er að ræða. Af þessu leiði að hæstaréttardómur 1994, bls. 313 verði ekki beitt sem fordæmi í þessu máli.

Þá er því haldið fram af hálfu stefnda að Björk Kristjánsdóttir hafi sem hluthafi ekki beinna hagsmuna að gæta af því að halda málinu áfram. Lýstar kröfur í þrotabúið séu rúmlega 37 milljónir króna en höfuðstóll stefnukröfu í þessu máli nái ekki 16 milljónum króna. Hluthafar í Tjáskiptum ehf. fengju því ekkert í sinn hlut þótt krafan yrði dæmd að fullu.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að í fundargerð skiptafundar komi fram yfirlýsing skiptastjóra um að hann muni ekki f.h. þrotabúsins halda uppi hagsmunum sem búið kunni að eiga á hendur Íslandssíma hf. og enginn kröfuhafa hafi lýst yfir vilja sínum í þá átt. Björk Kristjánsdóttir, sem sé eigandi 20% hlutafjár í Tjáskiptum ehf., hafi óskað eftir því að halda uppi umræddum hagsmunum til hagsbóta fyrir þrotabúið, á eigin kostnað og áhættu. Skiptastjóri hafi samþykkt þá ráðstöfun með vísan til 130. gr. laga nr. 21/1991. Björk Kristjánsdóttir hafi undirritað fundargerðina og þar með tekið á sig þær skuldbindingar sem ákvæðið mæli fyrir um.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ekki hafi staðið til að breyta gildandi rétti með ákvæði 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laganna segi að ákvæði 130. gr. sé að mestu samhljóða ákvæðum 114. og 115. gr. laga nr. 6/1978 og ekki talið að ákvæðið þarfnaðist skýringa. Stefnandi vísar til þess að í dómi Hæstaréttar 1994, bls. 313 hafi ákvæði 115. gr. laga nr. 6/1978 verið skýrt þannig að það stjórnarmönnum í gjaldþrota hlutafélagi væri heimilt að halda áfram málssókn til hagsbóta fyrir þrotabúið. Stefnandi telur að engin rök séu til að skýra 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 með öðrum hætti.

Af hálfu stefnanda eru jafnframt færð fram þau rök að sömu sjónarmið eigi við um hagsmuni hluthafa í gjaldþrota einkahlutafélagi og gjaldþota einstaklings að halda áfram málssókn í þágu þrotabúsins. Björk Kristjánsdóttir og aðrir hluthafar hafi verið í verulegum persónulegum ábyrgðum fyrir skuldum einkahlutafélagsins og Björk sé auk þess hluthafi í félögum sem eigi stórar kröfur inni í búinu. Því er haldið fram að ef mál þetta falli sóknaraðila í hag muni þrotabúið jafnvel verða greiðslufært,

III - Niðurstaða

Óumdeilt er að Björk Kristjánsdóttir er eigandi 20% hlutafjár í Tjáskiptum ehf. sem tekið var til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2001.

Á skiptafundi í þrotabúi Tjáskipta ehf. 20. mars 2001 lýsti skiptastjóri þrotabúsins því yfir að hann myndi ekki fyrir hönd þrotabúsins halda upp hagsmunum sem búið kynni að eiga á hendur Íslandssíma hf. og að enginn kröfuhafa hefði lýst vilja í þá átt. Björk Kristjánsdóttir fékk þá heimild skiptastjórans til að taka við rekstri málsins í eigin nafni til hagsbóta búinu með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991. Ágreiningur í þessum þætti málsins lýtur að því hvort hún geti tekið við aðild málsins sóknarmegin á grundvelli framangreindrar lagaheimildar. Teljist stefnandi ekki hafa heimild til þess að ganga inn í málið telur stefndi að líta verði svo á að ekki verði frekar sótt þing í málinu af hálfu stefnanda og því beri að fella málið niður.

Ljóst er að sömu rök eiga ekki að öllu leyti við um hagsmuni einstaklings sem úrskurðaður hefur verið gjaldþrota af því að halda áfram málshöfðun þrotabúinu til hagsbóta og um hagsmuni hluthafa í einkahlutafélagi af því að halda slíku máli áfram. Munurinn liggur einkum í því að skuldir sem ekki greiðast af eignum þrotabúsins hvíla áfram á gjaldþrota einstaklingi eftir skiptalok en skuldir einkahlutafélags hvíla ekki á hluthöfum nema þeir hafi stofnað til persónulegra ábyrgða. Engu að síður verður að líta svo á að hluthafi í einkahlutafélagi geti haft af því ríka hagsmuni að slíku máli verði fram haldið. Af hálfu stefnanda hafa verið færð haldgóð rök fyrir því að hún hafi ríkra hagsmuna að gæta af því að málssóknin falli ekki niður. Kemur þar einkum til að nærri lagi er að búið eigi fyrir skuldum ef allar dómkröfur í máli þessu ná fram að ganga. Þá eiga félög sem stefnandi er hluthafi í og í fyrirsvari fyrir lýst kröfum að fjárhæð meira en 10 milljónum króna í þrotabúið.

Orðalag 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 bendir til þess að umrædd varaheimild til að halda málshöfðun áfram sé einskorðað við þrotabú einstaklings. Þegar litið er til athugasemda í greinargerð með frumvarpi til laganna, þar sem segir að ákvæðið sé að mestu samhljóða 114. og 115. gr. laga nr. 6/1978 og dóms Hæstaréttar 1994, bls. 313 um túlkun á 115. gr. eldri gjaldþrotalaga, þykir rétt að túlka ákvæðið þannig að heimildin nái einnig til einstaklinga sem eru hluthafar í gjaldþrota einkahlutafélögum.

Samkvæmt framansögðu er fallist á að Björk Kristjánsdóttir taki við aðild málsins sóknarmegin til hagsbóta fyrir þrotabú Tjáskipta ehf. en á eigin kostnað og áhættu. Ber samkvæmt því að hafna kröfu stefnda um að málið verði fellt niður.

Ekki var krafist frávísunar af hálfu stefnu í greinargerð og ekki hafa verið færð rök fyrir frávísunarkröfu í tengslum við þann ágreining sem hér er uppi. Ber því að hafna frávísunarkröfu stefnda.

Með hliðsjón af niðurstöðu um ágreining aðila þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 25.000 krónur í málskostnað í þessum þætti málsins.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Hafnað er kröfum stefnda, Íslandssíma hf. um að mál þetta verði fellt niður eða því vísað frá dómi.

Stefndi, greiði stefnanda, Björk Kristjánsdóttur 25.000 krónur í málskostnað.