Hæstiréttur íslands

Mál nr. 376/2003


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Vinnulaun


Föstudaginn 2

 

Föstudaginn 2.apríl 2004.

Nr. 376/2003.

Bjarni J. Einarsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Nesfiski ehf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

 

Sjómenn. Vinnulaun.

B starfaði sem 1. vélstjóri á fiskiskipi í eigu N. Stöðvaðist skipið vegna vélarbilunar um tveggja og hálfs mánaðar skeið og fékk B greidda kauptryggingu á því tímabili, en taldi sig eiga rétt til meðallauna næstliðins árs. Talið var að stöðvun skipsins hafi verið vegna óviðráðanlegra ytri atvika og að B hafi fengið laun sín greidd í samræmi við kjarasamninga. Var N sýknað af kröfu hans um frekari launagreiðslur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. september 2003. Hann krefst þess að stefndi greiði 1.207.341 krónu auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. apríl 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Heklu hf. er stefnt til réttargæslu en engin krafa er gerð á hendur fyrirtækinu. Fyrir Hæstarétti hefur það ekki látið málið til sín taka.

Með vísan til forsenda héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                              Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Bjarni J. Einarsson, greiði stefnda, Nesfiski ehf., 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2003.

                Mál þetta var þingfest 11. september 2002 og tekið til dóms 20. mars síðastliðinn.

                Stefnandi er Bjarni J. Einarsson [...], Árbraut 18, Blönduósi en stefndi er Nesfiskur ehf., [...], Gerðarvegi 32, Garði.  Réttargæslustefndi er Hekla hf., [...], Laugavegi 170-174 Reykjavík.

                Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.207.341 krónu auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. apríl 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði þá látinn niður falla.

                Á hendur réttargæslustefnda eru ekki gerðar kröfur og hann gerir engar kröfur í málinu.

I.

                Stefnandi starfaði sem 1. vélstjóri á Berglín GK-300 sem er 254 brúttólesta ístogari í eigu stefnda.  Hann hóf störf hjá stefnda í ágúst 1998 og sagði upp störfum í júní 2000. Skriflegur ráðningarsamningur var ekki gerður.  Skipinu var haldið til veiða allan þennan tíma en misbrestur varð þó á úthaldi skipsins tímabilið 28. september 1999 til 14. október 1999, frá 6. nóvember 1999 til 11. nóvember 1999 og frá 14. desember 1999 til 3. mars 2000 vegna þrálátrar vélarbilunar. 

                Stefndi fékk greidda kauptryggingu og orlof á meðan skipið lá vélarvana við bryggju.  Í síðasta stoppi vann hann alla virka daga við skipið meðan á viðgerð stóð. Stefnandi heldur því fram að honum hafi verið tilkynnt af skipstjóra í kjölfar vélarbilunarinnar 14. desember 1999 að viðgerð tæki aðeins um vikutíma og haldið yrði til veiða að því búnu.  Að þeirri viku liðinni hafi skipstjóri tilkynnt að viðgerð myndi dragast í viku í viðbót.  Þá hafi verið tilkynnt um brottför í lok janúar 2000.  Svona hafi þetta gengið koll af kolli fram í byrjun mars 2000.  Sagði stefnandi að hann hefði sagt starfi sínu lausu ef hann hefði vitað að svona langur dráttur yrði á því að skipið færi á veiðar.

                Í stefnu er vélarbilunin rakin ítarlega.  Kemur þar meðal annars fram að skipt var um aðalvél 1998 og ný vél af gerðinni Caterpillar frá réttargæslustefnda sett í skipið.  Hún bilaði hins vegar nokkrum sinnum. Þann 14. desember bilaði vélin er skipið var statt út á sjó og þurfti að draga það til hafnar. Fljótlega var komist að þeirri niðurstöðu að vélin væri ónýt og í framhaldi af því var pöntuð ný vél.

                Stefnandi kveðst hafa verið óánægður með þá ákvörðun stefnda að greiða einungis kauptryggingu á meðan skipið hafi verið frá veiðum vegna hinna tíðu bilana á aðalvél þess.  Skipverjum hafi þótt réttargæslustefndi bera ábyrgð á þessum töfum og því hafi verið gerðar kröfur á hendur honum með bréfi 22. mars 2001.  Réttargæslustefndi hafi hafnað skaðabótaskyldu með bréfi 27. mars 2001.  Innheimtubréf lögmanns hafi síðan verið sent til stefnda 6. nóvember 2001.

                Stefnandi sundurliðar kröfur sínar þannig að samkvæmt upplýsingum frá stefnda hafi hásetahlutur numið samtals 5.016.646 krónum tímabilið 1. september 1998 til 31. ágúst 1999 eða að meðaltali 13.706 krónur á dag.  Stefnandi hafi 1.25  hásetahlut samkvæmt 2. mgr. gr. 1.01 í kjarasamningi aðila.  Efndabætur stefnanda reiknist því út frá 6.908.548 krónum með orlofi.  Fæðispeningar hafi numið 807.000 á dag eða samtals 290.520 fyrir tímabilið.  Heildarárslaun stefnanda hafi því numið 7.199.068 krónum eða að meðaltali 19.669 krónur á dag.  Stefnandi geri efndabótakröfu fyrir tímabilið 14. desember 1999 til 3. mars 2000 að frádregnum greiðslum stefnda á sama tímabili.  Stefnandi hafi fengið greiddar 366.179 krónur frá stefnda umrætt tímabil.  Þannig nemi kröfur stefnanda samtals 1.207.341 krónu (19.669 x 80 = 1.573.520 – 366.179).

II.

                Stefnandi byggir á því að um launarétt hans tímabilið 14. desember 1999 til 3. mars 2000 fari samkvæmt 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og túlkun Hæstaréttar Íslands á því ákvæði í málinu nr. 326/2000: Róbert Pálsson gegn Þormóði ramma-Sæberg hf.  Stefnda hafi verið í lófa lagið að skipta um vél í skipinu á um vikutíma.  Tveggja og hálfs mánaðar dráttur hafi kostað stefnanda umtalsverðar fjárhæðir og það sé á ábyrgð stefnda og réttargæslustefnda.  Almennar reglur vinnuréttarins skyldi atvinnurekanda til að gera allt sem í hans valdi standi til þess að halda uppi þeirri starfsemi sem launþeginn sé ráðinn til að sinna.

                Ákvæði 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga og ákvæði í kjarasamningi aðila byggi á því að stefnanda sé tryggður hlutur úr afla.  Byggir stefnandi á því að hann eigi rétt til ígildis aflahlutar þann tíma er skipið hafi verið frá veiðum vegna framangreindra atvika.

                Ennfremur er á því byggt að það sé andstætt almennum reglum vinnuréttar að samningsbundnum kjörum stefnanda sé breytt með þessum hætti. 

                Loks byggir stefnandi á 16. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.  Þetta ákvæði feli í sér að stöðvi útgerð rekstur skips eða breyti útgerðarháttum í verulegum atriðum á gildistíma úrskurðar skuli það tilkynnt áhöfn skriflega með að minnsta kosti 10 daga fyrirvara.  Þá sé útgerð skylt að greiða áhöfn bætur fyrir skertan aflahlut.  Ákvæði þetta eigi þó ekki við ef óviðráðanlegar ástæður valdi því að útgerð þurfi að stöðva rekstur skips eða breyta útgerðarháttum þess.

III.

                Stefndi kveðst hafa tekið þá ákvörðun er skipið hafi stöðvast vegna vélarbilunar um miðjan desember 1999 að greiða öllum undirmönnum kauptryggingu á meðan skipið væri stopp enda þótt að þeir ættu ekki nema viku uppsagnarfrest.  Stýrimenn og hásetar hafi unnið eftir áramótin nokkra daga við að þrífa og mála millidekk og við aðrar lagfæringar um borð.  Skipverjar hafi virst vera sáttir við þetta í stað þess að útgerðin segði þeim upp störfum með viku fyrirvara eins og lög og kjarasamningur aðila geri ráð fyrir.  Komið hafi í ljós rétt fyrir jól hversu alvarleg bilunin hafi verið.  Hafi þá strax verið ákveðið að panta nýja vél.  Afgreiðslufrestur hafi verið þrír mánuðir en stefnda hafi tekist að stytta hann verulega.

                Stefndi mótmælir kröfum stefnanda og byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi efnt skyldu sína við stefnanda samkvæmt sjómannalögum nr. 35/1985 og kjarasamningi undirmanna á fiskiskipum.  Hafi stefnandi átt einhvern frekari rétt hafi hann glatað honum vegna aðgerðarleysis.

                Stefndi mótmælir því að skipstjóri hafi tilkynnt stefnanda um að lagfæringar vegna vélarbilunarinnar tækju aðeins eina viku.  Tafir skipsins frá veiðum um tveggja og hálfs mánaðar skeið hafi ekki verið geðþóttarákvarðanir stefnda eins og látið sé liggja að í stefnu.  Stefndi vísar því alfarið á bug að hann hefði getað sett niður aðra aðalvél í skipið á sjö dögum. Slíkar fullyrðingar séu með ólíkindum þar sem almennur afgreiðslufrestur sé allt að þremur mánuðum.  Allt hafi verið gert til að stytta þennan tíma og loks hafi tekist að fá nýja vél með flugi til landsins um miðjan febrúar.  Hafi þá strax verið hafist handa við að setja vélina niður í skipið.

                Stefndi hafi tekið þá ákvörðun að segja engum úr áhöfninni upp starfi þó að stefndi í að stoppið yrði langt.  Áhöfnin hafi virst ánægð með þessa ráðstöfun.  Það hafi ekki verið fyrr en rúmlega einu og hálfu ári síðar sem stefnandi hafi gert kröfur um viðbótargreiðslur. Stefndi mótmælir því að stefnandi geti átt rétt á greiðslu aflahlutar þegar hann hafi verið afskráður og skipið legið við bryggju vegna vélarbilunar.  Óviðráðanlegar ástæður hafi leitt til þess að skipið hafi verið frá veiðum í tvo og hálfan mánuð. Auk þess hafi skipið veitt þrefaldan sinn kvóta þetta fiskveiðiár þrátt fyrir vélarstoppið. Skipverjar hafi því í raun einskis misst af launum.

                Það stríði gegn almennum reglum vinnuréttar að starfsmenn dragi svo lengi að setja fram kröfur um viðbótargreiðslur.  Stefnanda hafi borið að setja kröfur fram strax og tilefni hafi verið til en láta ella kyrrt liggja.

                Lækkunarkröfu sína styður stefnandi þeim rökum að þa sé rangt sem í stefnu greini að stefnandi hafi aðeins fengið greiddar kauptryggingu að fjárhhæð 366.179 krónur. Hann hafi einnig fengið greidda yfirvinnu samkvæmt kjarasamningi meðan hann hafi unnið við viðgerð á vél. Samtals hafi hann því fengið greiddar 719.285 krónur fyrir umrætt tímabil. Verði fallist á að stefnanda beri einhver viðbótarlaun er þess krafist að miðað verði við laun hans árið 1999 eða tekjum fyrir mars 2000.  Þá gerir stefndi þá kröfu að vextir verði ekki reiknaðir fyrr en frá þingfestingardegi málsins.  Í því sambandi vísar stefndi til 5. gr. laga nr. 38/2001.

                Að öðru leyti vísar stefndi til reglna samninga- og vinnuréttar, kjarasamnings aðila og sjómannalaga nr. 35/1985.

IV.

                Stefnandi réðist sem 1.vélstjóri á togarann Berglín GK-300 í ágúst 1998 og starfaði þar fram í júní 2000.  Togarinn stöðvaðist vegna vélarbilunar í um tveggja og hálfsmánaðarskeið frá 14. desember 1999 til 3. mars 2000.  Á þeim tíma fékk stefnandi greidda kauptryggingu en auk þess yfirvinnu samkvæmt kjarasamningi aðila vegna vinnu hans um borð meðan viðgerð stóð yfir, samtals að fjárhæð 719.285 krónur. Hann telur sig hins vegar eiga rétt á aflahlut sem taki mið af meðallaunum hans árið á undan. 

                Þessa kröfu sína rökstyður stefnandi í fyrsta lagi með því að viðgerð og niðursetning nýrrar vélar hafi dregist úr hömlu til mikils tjóns fyrir stefnanda.  Stefnda hafi borið að sjá svo  um að þessi tími yrði sem stystur.  Heldur stefnandi því fram að það hefði aðeins tekið um eina viku að skipta um vél ef vel hefði verið að verki staðið.  Stefnandi hafi mátt vænta þess er hann réði sig á skipið að því yrði haldið stöðugt til veiða og hann fengi laun í samræmi við það. Reglur vinnuréttarins mæli svo um að launþegi megi vænta þess að atvinnurekandi haldi uppi þeirri starfssemi sem launþeginn hafi verið ráðinn til að sinna. 

                Ósönnuð þykir sú fullyrðing stefnanda að viðgerð og niðursetning á nýrri vél hefði aðeins þurft að taka um eina viku.  Stefndi hefur bent á að afgreiðslufrestur á nýrri vél sé um þrír mánuðir og hefur ekkert í málinu hnekkt þeirri staðhæfingu.  Ófyrirsjáanleg atvik leiddu því til þess að skipið stöðvaðist, atvik er stefndi fékk ekki við ráðið. Samkvæmt sjómannalögum og kjarasamningi aðila eru launakjör á fiskiskipum tvískipt.  Annars vegar skipta skipverjar og útgerðarmaður með sér verðmæti afla skips en hins vegar, þegar ekkert veiðist eða skip stöðvast, greiðir útgerðarmaður svokallaða kauptryggingu. Stefndi greiddi stefnanda kauptryggingu meðan skipið var bundið við bryggju vegna vélarbilunar og umsamda yfirvinnu vegna vinnu hans um borð á þessum tíma. Hvergi í sjómannalögum né í kjarasamningi aðila eru ákvæði þess efnis að öðruvíssi skuli með fara. Er því ekki unnt að fallast á með stefnanda að stefndi hafi átt að greiða aflahlut þegar svo stóð á.        Í öðru lagi telur stefnandi dóm Hæstaréttar 29. mars 2001 í málinu nr. 326/2000 fordæmisgefandi varðandi túlkun á 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Í því máli var útgerð skips hætt, veiðiheimild skipsins færð yfir á önnur skip í eigu útgerðar, skipverjum sagt upp störfum og þeim greidd kauptrygging í uppsagnarfresti.  Var talið að útgerð hefði átt að haga ráðstöfunum sínum á þann veg að starfslok áhafnar féllu saman við stöðvun á úthaldi skipsins til veiða.  Meðallaun undanfarna mánuði voru því dæmd í uppsagnarfresti.  Í þessu máli eru atvik með öðrum hætti.  Vélarbilun varð til þess að skipið var frá veiðum  um tveggja og hálfsmánaðarskeið.  Ófyrirsjáanleg atvik leiddu til þess að skipið stöðvaðist en ekki atvik er stefndi verður talinn bera ábyrgð á.  Er því ekki unnt að fallast á með stefnanda að þessi dómur Hæstaréttar sé fordæmi í þessu máli. 

                Loks byggir stefnandi á ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðanefnd sjómanna og útvegsmanna um það er útgerð breytir útgerðarháttum skips eða stöðvar rekstur þess.  Ekki verður talið að þetta ákvæði eigi við í málinu heldur ákvæði 3. mgr. sömu greinar um að ákvæði 1. mgr. eigi ekki við ef óviðráðanlegar ástæður stöðvi úthald skips.

                Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki talið að stefndi hafi breytt samningsbundnum kjörum stefnanda heldur greitt laun samkvæmt kjarasamningi aðila.  Það styður og sýknukröfu stefnda að Berglín GK-300 veiddi þrefaldar sínar veiðiheimildir fiskveiðiárið 1. september 1999 til 31. ágúst 2000 þrátt fyrir umrædda vélarbilun og stöðvun á úthaldi skipsins frá 14. desember 1999 til 3. mars 2000.

                Niðurstaða málsins verður því sú að stefndi verður sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

                Stefndi, Nesfiskur ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Bjarna J. Einarssonar, í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.