Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-136

Sjávarsýn ehf. (Víðir Smári Petersen lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Einkahlutafélag
  • Samruni
  • Rekstrartap
  • Tekjuskattur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 4. maí 2020 leitar Sjávarsýn ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 7. apríl sama ár í málinu nr. 291/2019: Íslenska ríkið gegn Sjávarsýn ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenska ríkið leggst ekki gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felldir verði úr gildi úrskurðir Ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar þar sem kveðið var á um að skilyrði til yfirfærslu taps við samruna leyfisbeiðanda og dótturfélags í hans eigu hefðu ekki verið uppfyllt og að gagnaðila yrði gert að endurgreiða honum álagða skatta. Leyfisbeiðandi sameinaðist dótturfélagi sínu á reikningsárinu 2012 undir nafni og kennitölu leyfisbeiðanda og færði við sameininguna yfirfæranlegt tap dótturfélagsins frá reikningsárunum 2008 og 2009 til frádráttar tekjum í skattframtölum sínum árin 2013 og 2014. Með úrskurði í febrúar 2016 felldi Ríkisskattstjóri niður ónotað rekstrartap dótturfélagsins í skattframtölum leyfisbeiðanda og beitti álagi á vanframtalda tekjustofna. Yfirskattanefnd staðfesti úrskurð Ríkisskattstjóra en taldi að fella bæri álagið niður.

Með héraðsdómi 28. mars 2019 voru úrskurðir skattyfirvalda felldir úr gildi og krafa leyfisbeiðanda um endurgreiðslu tekin til greina. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að þótt játa yrði hluthöfum töluvert frelsi til að haga skipulagningu félaga með þeim hætti sem þeir kysu hverju sinni hvíldi á leyfisbeiðanda að sýna fram á að venjulegur og eðlilegur rekstrartilgangur hefði legið að baki samrunanum, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Hefði leyfisbeiðanda ekki tekist það.

Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi og lúti að atriðum á sviði skattaréttar sem hafi ekki fyrr komið til kasta Hæstaréttar. Í þeim efnum vísar hann meðal annars til þess að mikilvægt sé að fá úrlausn réttarins um það hvers konar eignir geti fallið undir skilyrði 1. mgr. 54. gr. laga nr. 90/2003. Þá reyni í fyrsta sinn á það hvort starfsemi eignarhaldsfélags teljist uppfylla skilyrði 3. málsliðar sama ákvæðis um að yfirtekið félag hafi rekstur með höndum. Einnig reyni með nýjum hætti á skilyrðið um það að samruni sé gerður í venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi, þar sem til álita komi sú spurning hvort endurskipulagning samstæðu með sameiningu félaga innan hennar uppfylli skilyrði 4. málsliðar ákvæðisins. Auk þess telur leyfisbeiðandi málið varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng. Dómurinn hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði um að samruni hafi verið gerður í venjulegum og eðlilegum rekstrartilgangi hafi ekki verið uppfyllt. Við mat á skilyrðinu hafi Landsréttur litið til þess hver eignastaða hins yfirtekna félags hafi verið í samanburði við eignastöðu leyfisbeiðanda þrátt fyrir að orðalag ákvæðisins veiti ekki svigrúm til þess. Til viðbótar hafi Landsréttur ranglega komist að þeirri niðurstöðu að 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 hafi átt við um heimild skattyfirvalda til endurákvörðunar í málinu en að mati leyfisbeiðanda hafi 2. mgr. sama ákvæðis með réttu átt að gilda. Hafi tímarfrestur samkvæmt því ákvæði verið liðinn þegar úrskurður Ríkisskattstjóra var kveðinn upp.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.