Hæstiréttur íslands

Mál nr. 207/2001


Lykilorð

  • Forkaupsréttur
  • Einkahlutafélag
  • Hlutabréf
  • Málskostnaður


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. október 2001.

Nr. 207/2001.

Ágúst Kristmanns

Dreifing ehf. og

Garri ehf.

(Klemenz Eggertsson hdl.)

gegn

Ólafi Guðnasyni ehf.

Sláturfélagi Suðurlands svf. og

XCO ehf.

(Jón Halldórsson hrl.

Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.)

 

Forkaupsréttur. Einkahlutafélag. Hlutabréf. Málskostnaður.

Á seldi D ehf. og G ehf. hlutabréf sín í félaginu B ehf. Ó ehf., S svf. og X ehf., sem einnig áttu hlut í B ehf., neyttu forkaupsréttar síns samkvæmt samþykktum félagsins. Deilt var um hversu víðtækur sá forkaupsréttur skyldi vera og hvort S hefði með tómlæti glatað tilkalli sínu til frekari hluta hins selda hlutafjár en félaginu hafði verið úthlutað. Talið var að engin takmörkun væri á því í lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög, að forkaupsréttarhafar skuli eiga þess kost að kaupa allt framboðið hlutafé án tillits til þess hvert eignarhlutfall þeirra í hlutaðeigandi félagi var fyrir kaupin. Samþykktir B yrðu ekki skýrðar svo, að slíka takmörkun væri þar að finna. Kröfur Ó, S og X voru samkvæmt þessu teknar til greina. Sjónarmiðum um tómlæti var hafnað, þar sem talið var að athugasemdir forkaupsréttarhafa við fyrrgreinda sölu hefðu verið nægilega fram komnar, þótt aðeins einn hefði gert skriflegar athugasemdir við skiptingu hlutafjárins, en málið var höfðað fjórum mánuðum síðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 7. júní 2001. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefndu auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Mál þetta var þingfest í héraði 15. febrúar 2000.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram voru málsaðilar allir hluthafar í Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf. Áfrýjandi Ágúst Kristmanns seldi meðáfrýjendum Dreifingu ehf. og Garra ehf. hlutabréf sín í félaginu, sem skráð voru á nafn Borgar heildverslunar, með afsali 23. apríl 1999. Nafnverð hlutarins var 1.390.462 krónur. Var hann seldur á genginu 3,5 og nam söluverð því 4.866.617 krónum. Stefndu neyttu forkaupsréttar síns samkvæmt samþykktum félagsins og er deilt um, hversu víðtækur hann skuli vera. Þeir gera kröfu til framboðins söluhlutar í hlutfalli við hlutafjáreign sína, þar sem aðrir hluthafar kusu að neyta ekki forkaupsréttar, en í kröfugerð stefndu er miðað við, að áfrýjendurnir Dreifing ehf. og Garri ehf. fái hlutfallslega sinn hlut í hinu selda hlutafé. Áfrýjendur telja hins vegar, að stefndu eigi ekki forkaupsrétt að stærri hlut en 5,86 % af framboðnu hlutafé hver í samræmi við eignarhlut sinn í félaginu. Í málinu er ekki lengur tölulegur ágreiningur og er samstaða um niðurstöðutölur héraðsdóms. Jafnframt er um það deilt, hvort stefndi Sláturfélag Suðurlands svf. hafi með tómlæti glatað tilkalli sínu til frekari hluta hins selda hlutafjár en félaginu var úthlutað 25. ágúst 1999 í samræmi við framangreindan skilning áfrýjenda.

Í 2. mgr. 7. gr. samþykkta Birgðaverslunarinnar Gripið og greitt ehf. segir meðal annars: „Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum í A-flokki. Að félaginu frágengnu hafa hluthafar í A-flokki forkaupsrétt að fölum hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. ...” Fyrir liggur, að öll hlutabréf í félaginu voru í svonefndum A-flokki og stjórn þess ákvað að nýta sér ekki forkaupsrétt sinn.

Í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er kveðið svo á, að taki tilboð til margra hluta eins eða fleiri hluthafa sé eigi unnt að neyta forkaupsréttar að því er varðar nokkra þeirra, nema slíkt sé sérstaklega heimilað í samþykktum. Hér kemur fram sú grundvallarregla, að forkaupsréttarhafi geti ekki látið við það sitja að kaupa einungis hluta þess hlutafjár, sem boðið er til sölu, enda kynnu hagsmunir seljanda þannig að vera fyrir borð bornir. Engin takmörkun er á því í lögunum, að forkaupsréttarhafar skuli eiga þess kost að kaupa allt framboðið hlutafé án tillits til þess, hvert eignarhlutfall þeirra í hlutaðeigandi félagi var fyrir kaupin. Samþykktir Birgðaverslunarinnar Gripið og greitt ehf. verða ekki skýrðar svo, að slíka takmörkun sé þar að finna.

Skilja verður kröfu stefndu um ógildingu á sölu hlutafjár til áfrýjendanna Dreifingar ehf. og Garra ehf. svo, að átt sé við þá úthlutun 25. ágúst 1999, sem fram fór í kjölfar upphaflegu sölunnar til þeirra með afsali 23. apríl á sama ári. Það leiðir af þeirri niðurstöðu að fallast á kröfur stefndu um viðurkenningu á forkaupsrétti, að slík ógildingarkrafa er óþörf.

Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, sem ekki má dæma stefndu til handa í einu lagi, sbr. 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Áfrýjendur skulu greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkenndur er forkaupsréttur stefndu, Ólafs Guðnasonar ehf., Sláturfélags Suðurlands svf. og XCO ehf., að hlut áfrýjanda Ágústar Kristmanns í Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf. til viðbótar skiptingu hlutafjár til forkaupsréttarhafa 25. ágúst 1999, að nafnverði 137.295 krónur til hvers þeirra. Áfrýjanda Ágústi Kristmanns er skylt að selja og afsala hverjum þeirra framangreindum hlut gegn greiðslu á 480.533 krónum úr hendi hvers þeirra.

Áfrýjendur, Ágúst Kristmanns, Dreifing ehf. og Garri ehf., greiði in solidum hverjum stefnda 200.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2001.

 

I.

 

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 15. febrúar sl., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað af Ólafi Guðnasyni ehf., kt. 420178-0349, Skútuvogi 1F, Reykjavík, Sláturfélagi Suðurlands svf., kt. 600269-2089, Fosshálsi 1, Reykjavík og XCO ehf., kt. 681271-1129, Skútuvogi 10B, Reykjavík, á hendur Ágústi Kristmanns, kt. 170231-2369, Eskiholti 10, Garðabæ, Dreifingu ehf., kt. 490287-1599, Vatnagörðum 8, Reykjavík og Garra ehf., kt. 670892-2129, Lynghálsi 2, Reykjavík og Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf., kt. 560597-2589, Skútuvogi 4, Reykjavík, til réttargæslu.

Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær aðallega, að viðurkenndur verði forkaupsréttur stefnenda að hlutafé í Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf., sem skráð var á nafn Ágústar Kristmanns, Borg heildverslun, vegna sölu hlutafjár til Dreifingar ehf. og Garra ehf. samkvæmt afsali dags. 23. apríl 1999 og tilkynningu Klemenzar Eggertssonar, hdl., um skiptingu hlutafjár til forkaupsréttarhafa dags. 25. ágúst 1999, á þann veg að til viðbótar við skiptingu hlutafjár sem þar kom fram hljóti Ólafur Guðnason ehf. hlutafé að nafnverði 137.295 krónur, Sláturfélag Suðurland svf. hlutafé að nafnverði 137.295 krónur og XCO ehf. hlutafé að nafnverði 137.295 krónur, eða samtals að nafnverði 411.885 krónur.  Jafnframt er þess krafist að ógilt verði með dómi sala Ágústar Kristmanns 23. apríl 1999 á hlutafé að nafnverði 411.885 krónur til Dreifingar ehf. og Garra ehf., og að Ágústi verði dæmt skylt að selja og afsala til Ólafs Guðnasonar ehf. hlutafé að nafnverði 137.295 krónur, til Sláturfélags Suðurlands svf. hlutafé að nafnverði 137.295 krónur og til XCO ehf. hlutafé að nafnverði 137.295 krónur gegn peningagreiðslu miðað við gengi 3.5, eða samtals 1.441.597,50 krónur.

Til vara, að viðurkenndur verði forkaupsréttur hvers stefnenda að lægri fjárhæð en tilgreint er í aðalkröfu af nafnverði hlutafjár af hlut Ágústar Kristmanns, Borg heildverslun, sem seldur var Dreifingu ehf. og Garra ehf. 23. apríl 1999.  Þá er þess jafnframt krafist að ógilt verði með dómi sala Ágústar á því hlutafé til Dreifingar ehf. og Garra ehf. og Ágústi Kristmanns verði dæmt skylt að selja og afsala til stefnenda því hlutafé gegn peningagreiðslu miðað við gengi 3.5

Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu, að mati dómsins, auk dráttarvaxta 15 dögum frá dómsuppsögudegi til greiðsludags, samkvæmt lögum nr. 25/1987.

Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara krefjast stefndu sýknu af öllum dómkröfum stefnenda og að stefnendur verði óskipt dæmdir til þess að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu, að mati réttarins.

Réttargæslustefndi tekur undir dómkröfur stefndu og krefst þess, að stefnendur verði óskipt dæmdir til að greiða réttargæslustefnda málskostnað að skaðlausu, að mati réttarins.

Með úrskurði dagsettum 30. júní 2000, var frávísunarkröfu stefndu hafnað.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp í málinu.

 

II.

 

Mál þetta snýst um sölu hlutafjár í eign Borgar heildverslunar í Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf.  Eigandi Borgar heildverslunar er stefndi, Ágúst Kristmanns.  Seldi stefndi, Ágúst Kristmanns, stefndu Garra ehf. og Dreifingu ehf. hlutabréf sín  í réttargæslustefnda, Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf., með afsali dagsettu 23. apríl 1999.  Nafnverð hlutarins var 1.390.462 krónur og var hann seldur á gegnginu 3.5.  Söluverðið var því 4.866.617 krónur.

Hinn 14. júní 1999 tilkynnti Klemenz Eggertsson, héraðsdómslögmaður, f..h. Ágústar Kristmanns vegna Borgar heildverslunar, hluthöfum í Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf., um sölu á hlutabréfum í félaginu til Dreifingar ehf. og Garra ehf.  Gaf hann hluthöfum kost á að beita forkaupsrétti.

Hinn 16. júní 1999 tilkynnti XCO ehf., að félagið óskaði eftir að neyta for­kaups­réttar á öllum hlut Ágústar Kristmanns vegna Borgar heildverslunar, að nafnverði 1.390.462 krónur, á gengi 3.5 eða að söluverði 4.866.617 krónur, en til vara að hlut­falls­legum forkaupsrétti.  Jafnframt var nýrri hlutaskrá frá 7. maí 1999 mótmælt, þar sem ekki hefði verið tekið tillit til forkaupsréttar XCO ehf. varðandi hlut Jóns Gunnars­sonar.

Hinn 19. ágúst 1999 tilkynnti Ágúst Kristmanns, að þrír hluthafar í Birgða­versl­uninni Gripið og greitt ehf., þeir Ólafur Guðnason ehf. heildverslun, Sláturfélag Suð­ur­lands svf. og XCO ehf. hefðu tilkynnt að þeir hyggðust nýta sér forkaupsrétt sinn og skyldi hlutafé skiptast þannig:

Ólafur Guðnason ehf. heildverslunnv.kr.75.641

Sláturfélag Suðurlands svfnv.kr.75.641

XCO ehf.nv.kr.75.641

Dreifing ehf. og Garri ehf.nv.kr.1.163.540

Samtalsnv.kr.1.390.463

 

Hinn 25. ágúst 1999 var tilkynnt um breytta skiptingu hlutafjár, vegna breytingar á eignahlutföllum, samkvæmt hluthafaskrá, þeirra sem nýttu sér forkaupsrétt, og skiptist þá hlutaféð með eftirfarandi hætti:

Ólafur Guðnason ehf. heildverslunnv.kr.81.480

Sláturfélag Suðurlands svf.nv.kr.81.480

XCO ehf.nv.kr.81.480

Dreifing ehf. og Garri ehf.nv.kr.1.146.022

Samtalsnv.kr.1.390.462

 

Hinn 31. ágúst 1999 mótmæltu stefnandi, XCO ehf. skiptingu hlutafjár til for­kaups­réttarhafa og jafnframt voru ítrekuð mótmæli við frágangi hlutafélagaskrár Birgða­verslunarinnar Gripið og greitt ehf. hinn 7. maí 1999.  Sama dag barst svar frá Birgða­versluninni Gripið og greitt ehf., þar sem hlutafélagskrá var sögð færð upp í sam­ræmi við lög og reglur.

Hinn 27. september 1999 mótmælti stefnandi, XCO ehf., skiptingu til for­kaups­réttar­hafa eins og hún var sögð í bréfi dagsettu 25. ágúst 1999 og óskaði eftir skýringu á skiptingunni.

Hinn 14. desember 2000 féll dómur í Hæstarétti Íslands í málinu nr. 285/2000, þar sem Jón Gunnarsson, Dreifing ehf. og Garri ehf. voru sýknaðir af kröfu XCO ehf. um viðurkenningu á forkaupsrétti vegna sölu á hlut Jóns Gunnarssonar í Birgða­versluninni Gripið og greitt ehf. til Dreifingar ehf. og Garra ehf.

Samkvæmt framlögðum gögnum er eignarhlutfall stefnenda í réttargæslustefnda, 5,8599% hvers um sig.  Eftir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar féll er ekki í máli þessu ágreiningur um eignarhlutföll málsaðila í réttargæslustefnda.

 

III.

Stefnendur byggja á því að skipting á framboðnu hlutafé hafi verið röng í umrætt sinn.  Byggja þeir kröfur sínar á samþykktum Birgðaverslunarinnar Gripið og greitt ehf., en þar segir í 7. gr.: „Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum í A-flokki.  Að félaginu frágengnu hafa hluthafa í A-flokki forkaupsrétt að fölum hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína.  Forkaupsréttarhafi hefur tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð.  Þá mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt.”  Skipta verði framboðnum hlut hlutfallslega á milli þeirra sem nýta vilji forkaupsrétt sinn og skipta framboðnum hlut hlutfallslega á milli þeirra miðað við hlutafjáreign hvers fyrir sig.  Þetta hafi ekki verið gert og stefnendur hafi einungis fengið að kaupa 5,86% hver af framboðnu hlutafé, en skipt hafi verið á milli Dreifingar ehf. og  Garra ehf. 82,42% framboðins hlutafjár.  Óeðlilegt sé, að seljandi geti að eigin geðþótta ráðstafað framboðnu hlutafé og það í andstöðu við lög­varin forkaupsréttarákvæði.  Telja verði að sala 82.42% framboðins hlutafjár til Dreif­ingar ehf. og Garra ehf. sé brot á forkaupsrétti annarra hluthafa, þ.e.a.s. stefnenda málsins. 

Forkaupsréttarákvæði séu í flestum samþykktum einkahlutafélaga og algeng í sam­þykktum hlutafélaga.  Forkaupsréttarákvæði sé ekki hægt að setja nema með sam­þykki 2/3 hluthafa félags og hafi því slík ákvæði víðtækt fylgi meðal þeirra.  Forkaupsréttarákvæði tryggi hluthöfum kauprétt þannig að þeir geti tekið þátt í kaupum hlutafjár til að viðhalda sömu áhrifum innan félags og fyrirbyggja minni eða lakari áhrif.  Því fái ekki staðist aðferð stefnda, Ágústar Kristmanns, þar sem í henni felist óheftur ráðstöfunarréttur hans á hlutabréfum, sem séu að hans mati umfram eignarhluta stefnenda.  Þessi aðferð leiði og til þess að forkaupsréttarákvæði missi marks og seljendur hlutafjár gætu ráðstafað því til innanfélagsmanna og raskað stórlega eignarhlutföllum milli hluthafa og því jafnvægi sem forkaupsréttarákvæðin eigi að vernda.  Þessi aðferð leiði og af sér að seljendur hlutafjár gætu selt utan­fél­ags­mönnum í andstöðu við innanfélagsmenn og þar með væru grunnrök for­kaups­réttar algjörlega sniðgengin.

Þegar stefnendur hafi sent tilkynningu um kaupáhuga sinn til Klemenzar Eggerts­sonar hdl. hafi forkaupsréttur þeirra orðið virkur.

Stefnendur höfði mál á hendur Ágústi Kristmanns, þar sem hann hafi selt og gengið rangt frá skiptingu hlutafjár milli forkaupsréttarhafa.  Kaupendum hlutafjárins, Dreifingu ehf. og Garra ehf. sé stefnt, þar sem þeir hafi móttekið og greitt hærri fjárhæð en þeir hafi átt rétt á og þurfi því að sæta því að sölusamningur/afsal, dagsett 23. apríl 199, verði ógilt að hluta.  Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf.sé stefnt til réttargæslu, þar sem félagið þurfi að leiðrétta hlutaskrá sína.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, einkum 14. grein, sbr. 4. kafla og 19. grein þeirra laga.  Þá vísar stefnandi til samþykkta birgða­versl­unarinnar Gripið og greitt ehf., einkum 7. greinar.  Vísað er og til meginreglna hluta­félaga-, eigna- og samningaréttar.  Einnig er vísað til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 2. mgr. 25. gr., 1. mgr. 19. gr. og 1. mgr. 21. gr.

Kröfu um málskostnað byggja stefnendur á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

IV.

Stefndu byggja kröfu sína um sýknu á því, að orðalag í samþykktum hluta­fél­ags­ins sé mjög skýrt.  Sams konar orðalag hafi og verið haft í samþykktum hluta­félaga, þar sem forkaupsrétti er fyrir að fara og hafi svo verið um langan aldur.  Eftir orð­anna hljóðan sé ótvírætt átt við hlutfall hvers og eins að heildarhlutafé félagsins, en ekki einhvers konar hlutfallsskiptingu innbyrðis milli þeirra hluthafa, sem neyta for­kaupsréttar í hinum selda eignarhluta.

Aðeins hafi þrír hluthafar neytt forkaupsréttar síns.  Í hlut þessara þriggja for­kaups­réttarhafa komi því hlutafé í samræmi við hlutafjáreign þeirra í heild­ar­hlutafénu, sem til sölu hafi verið.  Það væri mjög óeðlileg niðurstaða að það ætti að leiða til aukningar á hlut þeirra, sem tilkynni að þeir nýti sér forkaupsrétt sinn þegar einungis hluti forkaupsréttarhafa neyti forkaupsréttar.

Stefndu telja að meginreglu hlutafélagalöggjafarinnar um jafnræði hluthafa hafi verið gætt með því að öllum hafi verið gefinn kostur á að neyta forkaupsréttar síns í hlut­falli við hlutafjáreign sína í félaginu.  Hluthöfum hafi því ekki verið mismunað.

Stefndu mótmæla þeirri fullyrðingu stefnenda, að Garra ehf og Dreifingu ehf., hafi borið að tilkynna að þeir vildu neyta forkaupsréttar, þar sem þeir hafi verið kaup­endur í allt hlutaféð.

Stefndu byggja og á þeirri málsástæðu að dómkröfur stefnendanna, Ólafs Guðna­sonar ehf. og Sláturfélags Suðurlands svf. séu fallnar niður fyrir tómlæti þeirra, en þeir hafi engar athugasemdir gert við skiptingu hlutafjár fyrr en með málshöfðun þessari og hafi jafnframt greitt kaupverðið fyrirvaralaust.

Um lagarök vísa stefndu til samþykkta félagsins og grundvallarreglna hluta­félaga­réttarins.  Einnig vísa þeir til reglna kröfuréttarins um tómlæti og réttaráhrif fyrir­varalausrar greiðslu.

Kröfu um málskostnað byggja stefndu á 1. mgr. 130. gr. sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Réttargæslustefndi hefur tekið undir dómkröfur stefndu.  Byggir hann á því að for­kaupsrétti stefnenda hafi verið fullnægt.  Hafi stefnendur átt rýmri forkaupsrétt en full­nægt hafi verið.  Þá sé réttur til frekari forkaupsréttar fallinn niður.  Í c. lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 138/1994, sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir því að forkaupsrétti verði beitt að frestur til greiðslu kaupverðs sé eigi lengri en þrír mánuðir frá því að kaup séu ákveðin og ef fyrir liggji tilboð sem forkaupsréttarhafi gangi inn í, skuli þó ákvæði þess tilboðs um greiðsluskilmála gilda.  Fyrir liggi að stefndu hafi greitt þann hluta hins selda, sem þeir hafi fengið í sinn hlut.  Stefnendur hafi jafnframt greitt þann hlut, sem þeir hafi fengið við söluna.  Hins vegar hafi stefnendur ekki greitt þann hlut, sem þeir krefji nú um innan lögákveðins frests.  Þegar af þeirri ástæðu sé réttur þeirra fallinn niður fyrir vangeymslu.

Réttargæslustefndi kveður að ekki verði séð að stefnendurnir Ólafur Guðnason ehf. og Sláturfélag Suðurlands svf. setji fram kröfu í málinu um að kaupa annað og meira en þeim hafi verið selt á grundvelli forkaupsréttar.  Ekki verði séð að þeir hafi mótmælt þessari afgreiðslu, gert um hana fyrirvara eða gert athugasemd við hlutaskrá félagsins.  Aðgerðarleysi þeirra komi í veg fyrir að þeir geti nú sett fram kröfu.

Stefndu telja fullyrðingar stefnanda í stefnu um forkaupsrétt og svokölluð grunn­rök forkaupsréttar að hlutafé vera rangar og eiga hvorki stoð í lögum né öðru sem snúi að hlutum í hlutafélagi.  Byggir réttargæslustefndi á því að framlögð hlutaská sé rétt.

 

V.

Stefnandi og stefndi voru allir hluthafar í réttargæslustefnda.  Í máli þessu er deilt um hversu víðtækur forkaupsrétt stefnenda er vegna sölu stefnda, Ágústar Kristmanns á hlutabréfum sínum í réttargæslustefnda. Stefnendur byggja málssókn sína á því, að ákvæði samþykktanna veiti þeim forkaupsrétt að öllum framboðnum hlut, sem Ágúst Kristmanns seldi meðstefndu, Dreifingu ehf. og Garra ehf., sem einnig eru eigendur að réttargæslustefnda, og skipta beri hlutnum hlutfallslega á milli þeirra, sem nýta vilji forkaupsrétt, miðað við hlutafjáreign hvers og eins.  Stefndu byggja hins vegar á því, að forkaupsrétti stefnanda hafi verið fullnægt með því að heimila hverjum þeirra kaup á 5,86% af framboðnu hlutafé.

Það er almenn regla að eigandi hlutar í einkahlutafélagi getur framselt hann að vild nema annað leiði af lögum, samþykktum félags eða öðrum samningum, sbr. 13. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.  Með 14. gr. laganna er heimilað að ákveða með samþykktum að við eigendaskipti að hlut, önnur en við erfð eða búskipti, skuli þær hömlur settar á framsal að hluthafar eða aðrir hafi forkaupsrétt.  Þessi heimild laganna var nýtt með 7. gr. samþykkta réttargæslustefnda.  Í 2. mgr. 7. gr. samþykkta réttargæslustefnda segir svo: „Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum í A-flokki.  Að félaginu frágengnu hafa hluthafar í A-flokki for­kaupsrétt að fölum hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína.  Verði ágreiningur um verð hluta skal það ákveðið með mati tveggja óvilhallra manna, sem dómkvaddir skulu til þess starfa.  Forkaupsréttarhafi hefur tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð.  Þá mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt.”

Fyrir liggur í málinu að einungis hafa verið gefin út bréf í A-flokki.  Einnig liggur fyrir að stjórn réttargæslustefnda ákvað að nýta sér ekki boðinn forkaupsrétt sinn.   

Eins og áður greinir hefur í samþykktum réttargæslustefnda verið settar hömlur á framsal við eigendaskipti með því að veita bæði stjórn félags réttargæslustefnda og hlut­höfum í réttargæslustefnda forkaupsrétt að fölum hlut. Er forkaupsrétturinn ekki tak­markaður.  Er kveðið á um forkaupsrétt í 2. mgr. 7. gr. samþykktanna.  Í upphafi málsgreinarinnar er stjórn félagsins veittur forkaupsréttur að öllum fölum hlut.  Samkvæmt greininni njóta hluthafar sama forkaupsréttar ef félagið ákveður að nýta sér hann ekki.  Verður því að telja að með orðalagi greinarinnar sé verið að kveða á um skiptingu á þeim forkaupsrétti milli hluthafa sem nýta sér forkaupsrétt í viðkomandi skipti og sem þegar hefur verið kveðið á um í upphafi greinarinnar.

Fyrir liggur að stefnendur allir óskuðu eftir því að neyta forkaupsréttar við fyrr­greinda sölu stefnda, Ágústar Kristmanns á hlutabréfum sínum í réttargæslustefnda innan lögboðins frests.  Einnig liggur fyrir að stefnendur greiddu, innan lögboðins frests, fyrir þann hluta, sem stefndi, Ágúst Kristmanns, ákvað að selja stefnendum, sem hann taldi vera í samræmi við forkaupsréttar þeirra.  Samkvæmt gögnum málsins voru strax gerðar skriflegar athugasemdir af hálfu stefnanda, XCO ehf., og mótmælt skiptingu hlutafjárins.  Í framhaldi af því var mál þetta höfðað.  Gagnvart stefndu voru því nægjanlega fram komnar athugasemdir forkaupsréttarhafa, þó svo aðeins einn hafi  gert skriflegar athugasemdir við skiptingu hlutafjársins við fyrrgreinda sölu. Verður því ekki talið að stefnendur hafi glatað rétti sínum fyrir vangeymslu.

Með vísan til framanritaðs verður fallist á endanlegar dómkröfur stefnenda og ber að veita þeim forkaupsrétt að umbeðnum hluta og jafnframt að ógilda sölu þess hluta, sem seldur var stefndu, Dreifingu ehf. og Garra ehf., í bága við forkaupsrétt stefnenda.  Er því fallist á þá kröfu stefnenda að viðurkenndur verði forkaupsréttur þeirra að hlut stefnda, Ágústar Kristmanns í réttargæslustefnda að nafnverði 137.295 krónur hvers.  Er stefnda,  Ágústi Kristmanns, skylt að selja og afsala til stefnenda þessu hlutafé í rétt­argæslustefnda, samtals að nafnverði 411.885 krónur gegn greiðslu 1.441.597.50 krónur.  Jafnframt er ógilt sala stefnda, Ágústar Kristmanns, til meðstefndu, Dreif­ingar ehf. og Garra ehf., á þeim hlut.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefndu in solidum til að greiða stefn­endum in solidum 300.000 krónur í málskostnað.

Hevör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

Viðurkenndur er forkaupsréttur stefnenda, Ólafs Guðnasonar ehf., Sláturfélag Suð­ur­lands svf. og XCO ehf., að hlut stefnda, Ágústar Kristmanns, í réttar­gæslu­stefnda, Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf.,  til viðbótar skiptingu hlutafjár til for­kaups­réttarhafa, dags. 25. ágúst 1999, að nafnverði 137.295 krónur til hvers þeirra.  Er stefnda, Ágústi Kristmanns, skylt að selja og afsala til  til Ólafs Guðnasonar ehf., hlutafé að nafn­verði 137.295 krónur, Sláturfélags Suðurlands svf. hlutafé að nafnverði 137.295 krónur og til XCO ehf. hlutafé að nafnverði 137.295 krónur á genginu 3,5, gegn greiðslu samtals 1.441.597,50 krónur.  Jafnframt er ógilt sala stefnda, Ágústar Kristmanns, 23. apríl 1999 til  meðstefndu, Dreifingar ehf. og Garra ehf. á framan­greindum hlut.

Stefndu greiði in solidum stefnendum 300.000 krónur í málskostnað.