Hæstiréttur íslands
Mál nr. 441/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárnám
|
|
Þriðjudaginn 10. september 2013. |
|
Nr. 441/2013.
|
Benedikt Arnar Víðisson (sjálfur) gegn Íslandsbanka hf. (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu B um að ógilt yrði fjárnám sem sýslumaður gerði hjá honum fyrir kröfu Í hf. á grundvelli skuldabréfs. Talið var að aðfararbeiðni Í hf. og skuldabréf það sem lá til grundvallar beiðninni hefðu uppfyllt skilyrði laga nr. 90/1989 um aðför og að rétt hafi verið staðið að framkvæmd aðfarargerðarinnar. Þá var því hafnað að tiltekin ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða ástæður sem B reisti kröfu sína um ógildingu fjárnámsins á, ættu við í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 21. júní 2013 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 10. júní 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði fjárnám, sem sýslumaðurinn á Hvolsvelli gerði hjá honum 10. apríl 2013 fyrir kröfu varnaraðila að fjárhæð samtals 13.197.409 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
Sóknaraðili krefst þess að áðurgreint fjárnám, sem gert var að kröfu varnaraðila, verði fellt úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Benedikts Arnars Víðissonar, um ógildingu á fjárnámi, sem sýslumaðurinn á Hvolsvelli gerði 10. apríl 2013 hjá sóknaraðila, fyrir kröfu varnaraðila, Íslandsbanka hf., að fjárhæð 13.197.409 krónur.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 10. júní 2013.
Sóknaraðili er Benedikt Arnar Víðisson, kt. 180474-5879, Hellishólum, 861 Hvolsvelli.
Varnaraðili er Íslandsbanki hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2, 155 Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerð nr. 031-2013-00132, sem fram fór hjá sýslumanninum á Hvolsvelli þann 10. apríl 2013 að kröfu varnaraðila, verði ógild. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að aðfarargerð sýslumannsins á Hvolsvelli frá 10. apríl sl. verði staðfest. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Mál þetta, sem barst dómnum þann 17. apríl sl., var þingfest þann 26. sama mánaðar. Málið var næst tekið fyrir þann 7. maí sl. Engar athugasemdir bárust frá sýslumanni. Munnlegur málflutningur fór fram þann 14. maí sl. og að honum loknum var málið tekið til úrskurðar.
Málavextir
Mál þetta er tilkomið vegna aðfararbeiðni Íslandsbanka hf., hér eftir varnaraðili, á hendur Benedikt Arnari Víðissyni, hér eftir sóknaraðili, dagsettri 18. febrúar 2013, sem tekin var fyrir hjá sýslumanninum á Hvolsvelli þann 10. apríl sl. sem aðfarargerð nr. 031-2013-00132.
Tildrög málsins eru þau að þann 11. október 2011 gaf sóknaraðili út skuldabréf nr. 510-158952, fyrir skuld við varnaraðila að fjárhæð 11.551.570 krónur. Ljósrit skuldabréfsins liggur frammi. Skuldina skyldi greiða ásamt vöxtum með 472 afborgunum á eins mánaðar fresti. Gjalddagi fyrstu afborgunar og vaxta skyldi vera 1. október 2011, en fyrsti vaxtadagur 8. september 2011. Vextir með föstu vaxtaálagi eru tilgreindir 6,15%, en samkvæmt bráðabirgðaákvæði var samið tímabundið um lægri vexti á tímabilinu 8. september 2011 til 1. apríl 2013. Í 7. gr. skilmála skuldabréfsins kemur fram að krefjast megi aðfarar samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 til fullnustu skuldar samkvæmt skuldabréfinu án undangengins dóms. Undir skuldabréfið skrifar sóknaraðili nafn sitt í reit sem ber heitið undirskrift lántaka. Fyrir aftan nafn sóknaraðila er ritað „M.F“. Þá liggur fyrir að vottar að undirskrift lántaka voru tveir starfsmenn varnaraðila.
Í málavaxtalýsingu varnaraðila kemur fram að umrætt skuldabréf, útgefið 11. október 2011, sé tilkomið vegna höfuðstólslækkunar á erlendu skuldabréfi, útgefnu af sóknaraðila til varnaraðila þann 20. september 2004. Þann 8. september 2011 hafi eftirstöðvar þess bréfs verið 18.314.674 krónur, en með höfuðstólslækkuninni hafi skuldin verið lækkuð í 11.551.570 krónur.
Með aðfararbeiðni, dagsettri 18. febrúar 2013 krafðist varnaraðili þess að aðför færi fram hjá sóknaraðila til tryggingar skuldinni samkvæmt áðurnefndu skuldabréfi að höfuðstól 12.230.907 krónur. Beiðnin var tekin fyrir af sýslumanninum á Hvolsvelli þann 10. apríl sl., og mætti sóknaraðili sjálfur til gerðarinnar og lýsti því yfir að hann kannaðist ekki við kröfuna og varð ekki við áskorun um að greiða hana. Að ábendingu varnaraðila var gert fjárnám í tryggingarbréfi nr. 7800, að fjárhæð 5.000.000 krónur og tryggingarbréfi nr. 12966 að fjárhæð 5.800.000 krónur með veði í fasteigninni Valsheiði 28 í Hveragerði. Í bókun segir að sóknaraðili hafi lýst því yfir að hann áskilji sér rétt til að bera fjárnámið undir héraðsdóm til ógildingar.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína um ógildingu á aðfarargerðinni á því að skuldabréf það sem aðfararbeiðni varnaraðila byggði á sé ógilt vegna misneytingar af hálfu varnaraðila við samningsgerðina. Skuldabréfið sé einhliða samið af varnaraðila og undirskrift sóknaraðila, sem hafi haft réttarstöðu neytanda, sé til komin vegna afarkosta sem starfsmenn varnaraðila hafi sett sóknaraðila. Sóknaraðila hafi verið stillt upp við vegg og gert að skrifa undir umrætt skuldabréf, ella myndi hann missa fasteignir sínar sem á hvíli stökkbreytt gengistryggð lán. Þá hafi varnaraðili áður tæmt sparisjóðsreikning sóknaraðila, alls 8.500.000 krónur. Sóknaraðili hafi talið sig m.a. vera háðan varnaraðila sem hafi hagnýtt sér þann aðstöðumun sem sé með aðilum.
Máli sínu til stuðnings vísar sóknaraðili til þess að hann hafi ritað „M.F“ á eftir undirskrift sinni undir skuldabréfið, en framangreindir bókstafir séu skammstöfun á orðunum með fyrirvara. Með framangreindri áritun hafi sóknaraðili talið sig vera að koma því vel til skila, vegna síðari tíma, að hann hafi undirritað skuldabréfið með fyrirvara um lögmæti og með fyrirvara um hans besta rétt, enda hafi það margoft komið fram í samtölum hans við starfsmenn varnaraðila að hann, þ.e. sóknaraðili, gæti ekki annað en óskað eftir að þeir ráðlegðu honum heilt. Sóknaraðili hafi ekki talið sig eiga annarra kosta völ en að fara að ráðum starfsmanna varnaraðila og undirrita skuldabréfið.
Sóknaraðili rekur samskipti sín við varnaraðila eftir árið 2008. Varnaraðili hafi nokkrum sinnum haft samband við sig og krafist þess að hann skrifaði undir margs konar pappíra vegna stökkbreyttra gengislána. Þau viðskipti hafi einkennst af flýti og óþreyju af hálfu varnaraðila. Einnig hafi fljótfærni og óttaþrungið andrúmsloft einkennt vinnubrögð varnaraðila sem hafi aldrei útskýrt fyrir sóknaraðila hvers eðlis undirskriftirnar væru. Sóknaraðili hafi undirritað alla pappíra til að koma í veg fyrir að varnaraðili tæki eignir hans og krefðist aðfarar eins og raunin hafi síðan orðið í máli þessu. Sóknaraðili hafi margreynt að semja við varnaraðila án árangurs. Varnaraðili hafi hafnað því að hann beri ábyrgð á horfnu fé sem forverar hans hafi geymt fyrir sóknaraðila. Varnaraðili telji sig því eingöngu hafa tekið yfir réttindi en ekki skyldur forvera síns samkvæmt ákvörðun fjármálaeftirlitsins þann 14. október 2008.
Sóknaraðili hafi margoft reynt að semja um skuldir sínar við varnaraðila, en án árangurs. Þess í stað hafi varnaraðili tvisvar stefnt sóknaraðila í tengslum við stökkbreytt gengistryggð lán og svikin loforð.
Til vara byggir sóknaraðili á því að víkja skuli skuldabréfi því sem aðfararbeiðni varnaraðila byggði á til hliðar í heild þar sem það teljist ósanngjarnt eða andsætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig. Sóknaraðili vísar til þess að mikill aðstöðumunur hafi ríkt milli sóknaraðila og varnaraðila og taka verði tilliti til neytendaverndar.
Um lagarök vísar sóknaraðili til 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um varakröfu vísar sóknaraðili til 36. gr. og a-d-liðar 36. gr. laga nr. 7/1936.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að uppfyllt hafi verið skilyrði aðfararlaga þegar fjárnám hafi verið gert hjá sóknaraðila. Umrætt skuldabréf sé fyrir ákveðinni peningaupphæð auk vaxta og undirskrift sóknaraðila sé vottuð af tveimur vitundarvottum. Í 7. tl. skilmála skuldabréfsins komi fram berum orðum að sé skuldin gjaldfallin megi krefjast aðfarar án undangengins dóms eða réttarsáttar. Þannig hátti til í máli þessu. Aldrei hafi verið greitt af skuldinni og sé skuldabréfið í vanskilum frá útgáfudegi. Vegna þessa hafi greiðsluáskorun verið birt fyrir sóknaraðila þann 14. janúar 2013. Þá vísar varnaraðili til þess að þar sem krafan hafi verið tryggð með tryggingarbréfi áhvílandi á eign sóknaraðila, telji varnaraðili að sóknaraðili eigi ekki rétt á að varna því að fjárnám verði gert í eign hans.
Varnaraðili hafnar því að sóknaraðila hafi verið settir afarkostir og hann þvingaður til að skrifa undir umrætt skuldabréf í október 2011 og þannig hafi varnaraðili beitt sóknaraðila misneytingu í skilningi laga nr. 7/1936. Varnaraðili vísar til þess að ekki hafi verið gengið á hlut sóknaraðila með útgáfu umrædds skuldabréfs þegar skuld hans hafi verið lækkuð um liðlega sex milljónir króna. Augljóst sé að skilyrði misneytingarákvæðis 31. gr. laganna sé ekki uppfyllt. Það dugi ekki eitt og sér að annars vegar sé um að ræða fjármálafyrirtæki og hins vegar einstakling. Bersýnilegur munur þurfi að vera á hagsmunum þeim sem samið sé um og því endurgjaldi sem kemur í staðinn til að um misneytingu sé að ræða. Það eigi ekki við í máli þessu þar sem varnaraðili hafi lækkað skuld sóknaraðila um liðlega sex milljónir. Þá dregur varnaraðili í efa að ástand sóknaraðila, andleg eða líkamleg heilsa hans, hafi verið með þeim hætti að misneytingarákvæði eigi við. Sama eigi við um aldur sóknaraðila. Þá dregur varnaraðili í efa að sóknaraðili teljist einfaldur og/eða fákunnugur, hvað þá léttúðugur í skilningi 31. gr. laga 7/1936. Þá geti sóknaraðili ekki talist háður varnaraðila enda sé ekki hægt að leggja að jöfnu samband fjármálafyrirtækis og viðskiptavinar við vináttusamband, frændsemi, mægðir eða önnur frændsemi- eða fjölskyldubönd. Með sömu rökum eigi hvorki við 253. gr. almennra hegningarlaga né 36. eða 36. gr. a-d laga nr. 7/1936.
Varnaraðili bendir á að honum hafi verið óskylt að lækka kröfur sínar á hendur sóknaraðila þegar hann gerði upp löglegt lán í erlendum gjaldmiðli með útgáfu skuldabréfs þess sem mál þetta varðar. Það hafi varnaraðili engu að síður gert og skuld sóknaraðila hafi þar með lækkað. Þrátt fyrir meginreglu samninga- og kröfuréttar um að samningar skuli standa, hafi sóknaraðili aldrei greitt af umræddu skuldabréfi og því hafi skuldin verið gjaldfelld og ítrekar varnaraðili að öll skilyrði aðfararlaga hafi verið uppfyllt til að þess að fjárnám hafi verið gert hjá sóknaraðila.
Um lagarök vísar varnaraðili til 7. tl. 1. gr., 7. gr. og 3. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og almennra reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingagildi samninga. Um málskostnað vísar varnaraðili til 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Eins og rakið hefur verið hér að framan leitar sóknaraðili eftir því að felld verði úr gildi aðfarargerð sem gerð var að kröfu varnaraðila í tveimur tryggingarbréfum með veði í fasteigninni Valsheiði 28 í Hveragerði. Studdist aðfararbeiðnin við skuldabréf, útgefnu af sóknaraðila þann 11. október 2011, til varnaraðila.
Skuldabréf það sem er grundvöllur aðfararbeiðni varnaraðila ber heitið húsnæðislán, jafnar afborganir og er nr. 510-158952. Óumdeilt er að umrætt skuldabréf á rót sína að rekja til þess að sóknaraðili óskaði skriflega eftir höfuðstólslækkun og myntbreytingu á veðskuldabréfi sem bar heitið veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum, húsnæðislán, nr. 509273/516343-347, útgefnu af sóknaraðila til varnaraðila þann 20. september 2004. Varnaraðili byggir á því að lán þetta hafi verið löglegt lán í erlendum gjaldmiðlum og er því ekki mótmælt af hálfu sóknaraðila. Þá verður ekki ráðið af kröfugerð sóknaraðila að hann byggi á því að útreikningur fjárhæðar kröfu varnaraðila í aðfararbeiðni sé rangur.
Skuldabréfið nr. 510-158952 er fyrir ákveðinni peningaupphæð, upphaflega að fjárhæð 11.551.570 krónur. Óumdeilt er að aldrei hafði verið greitt af skuldabréfinu og að greiðsluáskorun hafi verið birt sóknaraðila þann 14. janúar 2013. Eru því uppfyllt skilyrði 7. gr. laga nr. 90/1989, um aðför. Þá er í 7. tl. skilmála skuldabréfsins tekið fram að aðför megi gera til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsátta. Að mati dómsins uppfyllir aðfararbeiðni varnaraðila skilyrði 10. gr. laga nr. 90/1989 og ber endurrit úr gerðarbók sýslumanns með sér að rétt hafi verið staðið að framkvæmd aðfararinnar sem sóknaraðili var sjálfur viðstaddur.
Kemur þá til skoðunar hvort undirritun sóknaraðila í reitinn undirskrift lántaka feli í sér loforð um skilyrðislausa skyldu til að greiða ákveðna peningagreiðslu en fyrir liggur að sóknaraðili ritaði bókstafina „M.F.“ eftir nafn sitt í reitinn undirskrift lántaka. Sóknaraðili heldur því fram að framangreind áritun feli í sér fyrirvara um lögmæti bréfsins og besta rétt hans. Að mati dómsins þykir framangreind áritun sóknaraðila ekki vera það skýr eða ótvíræð að hún geti leyst hann undan greiðsluloforði því sem hann gaf með undirritun sinni undir skuldabréfið nr. 510-158952.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og þess að undirritun sóknaraðila undir skuldabréfið nr. 510-158952 er vottuð af tveimur vitundarvottum, er fallist á það með varnaraðila að umrætt skuldabréf uppfylli skilyrði 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um ógildingu á aðfarargerðinni á atriðum sem varða efnislegt réttmæti kröfu varnaraðila og vísar í því sambandi aðallega til 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og til vara til 36. gr. og 36. gr. a-d, sömu laga. Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum sóknaraðila.
Sóknaraðili vísar til þess að skuldabréf það sem var grundvöllur aðfarargerðarinnar hafi varnaraðili samið einhliða og sé undirritun sóknaraðila til komin vegna afarkosta sem starfsmenn varnaraðila hafi viðhaft gagnvart sóknaraðila. Í málflutningi byggði sóknaraðili á því að líta verði heildstætt á málið og verður málflutningur sóknaraðila ekki skilinn á annan veg en svo að hann telji að líta beri heildstætt á öll samskipti og viðskipti sóknar- og varnaraðila í gegnum árin. Varðandi skuldbindingar sínar við varnaraðila vísar sóknaraðili til þess að um hafi verið að ræða fjögur gengislán sem að hans sögn hafi stökkbreyst að verðmæti eftir efnahagshrunið. Því sé uppfyllt það skilyrði 31. gr. laga nr. 7/1936 að bersýnilegur mismunur sé á hagsmunum sóknaraðila og því endurgjaldi sem varnaraðili gerir kröfur til. Á þetta getur dómurinn ekki fallist enda umfjöllunarefni máls þessa það eitt að leysa úr ágreiningi um gildi tiltekinnar aðfarargerðar og þeirra gagna og heimilda sem hún grundvallaðist á. Þá liggur fyrir að með höfuðstólslækkun veðskuldabréfsins nr. 509273/516343-347 lækkaði skuld sóknaraðila úr 18.313.674 krónum í 11.551.570 krónur, eða um 6.763.104 krónur. Þá var einnig var samið um lægri vexti af skuldabréfinu á tímabilinu 8. september 2011 til 1. apríl 2013.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að hann hafi verið háður varnaraðila í skilningi 31. gr. laga nr. 7/1936. Að mati dómsins verður sambandi aðila þessa máls ekki jafnað við frændsemi, mægðir eða önnur fjölskyldutengsl, vináttu eða samband vinnuveitanda og launþega, eins 31. gr. laga nr. 7/1936 hefur verið túlkuð.
Koma þá til skoðunar ákvæði 36. gr. og 36. gr. a-d laga nr. 7/1936. Ákvæði greinarinnar um samninga og samningsskilmála þykja eiga við um aðdraganda og samningsgerð þá sem aðfararbeiðni varnaraðila byggði á og naut sóknaraðili í þeim viðskiptum réttarstöðu neytenda, sbr. 36. gr. a laga nr. 7/1936. Sóknaraðili heldur því fram að við heildstætt mat á hagsmunum hans verði að líta til þess að lánasamningar varnaraðila séu ósanngjarnir og andstæðir góðri viðskiptavenju enda hafi sóknaraðila verið stillt upp við vegg og hann ekki átt annarra úrkosta en að samþykkja allt sem varnaraðili lagði fyrir hann í gegnum árin.
Í máli þessu er, eins og áður er rakið, aðeins til umfjöllunar ágreiningur um gildi tiltekinnar aðfarargerðar og þeirra gagna og heimilda sem hún grundvallaðist á. Fyrir liggur að í umsókn um höfuðstólslækkun og myntbreytingu fasteignaveðlánsins í erlendri mynt, sem sóknaraðili undirritaði þann 11. október 2011 í tengslum við útgáfu skuldabréfs þess sem mál þetta varðar, kemur fram að sóknaraðili hafi kynnt sér forsendur og skilyrði höfuðstólslækkunar veðskuldabréfsins nr. 509273/516343-347. Þá er í umsókninni sérstakur fyrirvari þar sem segir að með því að nýta sér framangreint úrræði hafi sóknaraðili ekki fyrirgert mögulegum betri rétti sínum, komist Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að skilmálar í erlendum lánum bankans, samkvæmt samskonar skuldaskjölum, uppfylli ekki þau skilyrði sem rétturinn setur fram fyrir því að lán geti talist erlent og gildi þessi fyrirvari um þau skuldaskjöl sem komi í stað hins erlenda láns. Fyrir liggur að sóknaraðili afþakkaði að veðskuldabréfið nr. 509273/516343-347 yrði endurútreiknað samkvæmt lögum nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2011 um vexti og verðtryggingu, með yfirlýsingu um afþökkun endurútreiknings, dagsettri 12. október 2011. Í framangreindri yfirlýsingu er sérstakur fyrirvari þess efnis að sóknaraðila hafi verið kynntar niðurstöður endurútreiknings samkvæmt framangreindum lögum. Einnig er tekið fram að sóknaraðili hafi ekki fyrirgert mögulegum betri rétti sínum komi til þess að lagasetning eða dómafordæmi leiði til þess að viðhafa skuli aðra aðferð við endurútreikning samkvæmt lögunum nr. 151/2010. Í lok yfirlýsingarinnar segir að jafnframt hafi lántakandi, hér sóknaraðili, ekki fyrirgert mögulegum betri rétti sínum komist Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að viðhafa skuli aðra aðferð við endurútreikning samskonar lána. Að framansögðu virtu þykir dómnum sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á að samningur aðila, veðskuldabréfið nr. 510-158952, teljist ósanngjarn, andstæður góðri viðskiptavenju eða skort hafi á skýrleika hvað varðar fyrirvara, greiðsluskyldu, greiðslukjör og aðfararheimild, sbr. ákvæði 36. gr., 36. gr. a -c laga nr. 7/1936. Í þessu sambandi er til þess að líta að ætla má að menntun sóknaraðila, en hann var á umræddum tíma nemandi í lög- og viðskiptafræði við háskólann á Bifröst, hafi auðveldað honum skilning á stöðluðum samningum. Þá fellst dómurinn ekki á það með sóknaraðila að það eitt út af fyrir sig að um hafi verið að ræða viðskipti milli hans sem einstaklings við fjármálastofnun feli í sér slíkan aðstöðumun að ógilda skuli skuldabréf það sem mál þetta varðar, né að varnaraðili hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína samkvæmt II. kafla laga nr. 121/1994 um neytendalán, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Að mati dómsins á ákvæði 36. gr. d laga nr. 7/1936 ekki við í máli þessu og sama gildir um 253. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda hefur sóknaraðili í engu rökstutt tilvísun til framangreindra ákvæða. Að lokum hefur sóknaraðili í engu rökstutt þá málsástæðu sína að varnaraðili hafi tæmt sparisjóðsreikning sóknaraðila að fjárhæð 8.500.000 krónur eða á hvern hátt sú málsástæða tengist skuldabréfi því sem var grundvöllur aðfararbeiðni varnaraðila sem mál þetta fjallar um.
Með vísan til alls framanritaðs fellst dómurinn ekki á það með sóknaraðila að skilyrði séu til þess að ógilda beri skuldabréf nr. 510-158952 og er því kröfu sóknaraðila um ógildingu á hinni umdeildu aðfarargerð hafnað.
Rétt þykir eftir atvikum að hvor aðila beri sinn hluta málskostnaðar.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ:
Aðfarargerð nr. 031-2013-00132, sem fram fór hjá sýslumanninum á Hvolsvelli þann 10. apríl 2013, er staðfest.
Málskostnaður fellur niður.