Hæstiréttur íslands

Mál nr. 179/2017

Eygló Sif Steindórsdóttir (Grímur Sigurðarson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjafsókn
  • Lögmaður
  • Þóknun
  • Aðfararheimild

Reifun

E krafðist þess að málflutningsþóknun lögmanns hennar vegna reksturs máls E og L hf. í héraði yrði hækkuð, en málinu hafði lokið með dómsátt og ákvörðun um málskostnað verið lögð í úrskurð héraðsdóms, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með vísan til yfirlits yfir unna tíma lögmanns E var fallist á að hækka þóknunina úr 730.000 krónum í 900.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 15. mars 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2017, þar sem felldur var niður málskostnaður í máli varnaraðila gegn sóknaraðila, en allur gjafsóknarkostnaður skyldi greiðast úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns sóknaraðila, 730.000 krónur. Málinu var að öðru leyti lokið með dómsátt 2. mars 2017. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málflutningsþóknun lögmanns síns vegna reksturs málsins í héraði verði ákveðin 1.624.152 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en til vara að þóknunin verði ákveðin að mati réttarins.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og fyrr greinir lauk máli aðila með dómsátt en ákvörðun um málskostnað var lögð í úrskurð héraðsdóms, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 91/1991. Með hinum kærða úrskurði var gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þar með talin þóknun lögmanns hennar sem greiðast skyldi úr ríkissjóði, ákveðin 730.000 krónur ,,að meðtöldum virðisaukaskatti.“

Sóknaraðili hefur lagt fram sundurliðað yfirlit yfir unna tíma lögmanns síns í málinu og telur með vísan til þess að þóknunin sem lögmanninum var ákveðin í héraðsdómi hafi verið of lág. Með hliðsjón af framangreindu yfirliti er fallist á að hækka þá þóknun í 900.000 krónur. Í samræmi við dómvenju er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun slíkrar þóknunar.

Dómsorð:

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, Eyglóar Sifjar Steindórsdóttur, í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Gríms Sigurðarsonar hæstaréttarlögmanns, 900.000 krónur.

 

               

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2017.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri stefndu þann 26. janúar 2016. Stefnandi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík og stefnda er Eygló Sif Steindórsdóttir, Asparlundi 9, Garðabæ.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að honum verði með dómi heimilað að gera fjárnám inn í veðrétt sem stefnandi á í eignarhlutum stefndu í fasteigninni að Asparlundi 9, Garðabæ, fnr. 206-9268, samkvæmt tryggingarbréfi nr. 0140-63-005483, útgefnu 1. nóvember 2005, til tryggingar á skuldum Gullsmiðju Óla ehf., við stefnanda skv. lánssamningi nr. 0140-74-401832, upphaflega að fjárhæð 12.000.000 kr. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda.auk virðisaukaskattar.

                Stefnda krefst þess að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefnda málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál að viðlögðum virðisaukaskatti

                Í þinghaldi 2. mars sl. lögðu aðilar fram dómssátt um annað en greiðslu málskostnaðar. Í sáttinni felst heimild stefnanda til að gera fjárnám, frá og með 3. apríl 2017, inn í veðrétt sem stefnandi á í eignarhlutum stefndu í fasteigninni að Asparlundi 9, Garðabæ, fnr. 206-9268, enda hafi stefnda ekki áður gefið út afsal fyrir eigninni til stefnanda. Var málið tekið til úrskurðar um málskostnað.

                Rétt þykir að málskostnaður falli niður með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

                Stefnda nýtur gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi útgefnu 1. júní 2016. Allur málskostnaður hennar greiðist því úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Gríms Sigurðarsonar hrl., sem er hæfilega ákveðin 730.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

                Ingibjörg Þorsteinsdóttir kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Gríms Sigurðarsonar hrl., 730.000 krónur.