Hæstiréttur íslands
Mál nr. 267/2010
Lykilorð
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
- Dómsuppkvaðning
|
Fimmtudaginn 3. febrúar 2011. |
|
|
Nr. 267/2010. |
Samkeppniseftirlitið (Kristinn Bjarnason hrl.) Gizur Bergsteinsson hdl.) gegn Icelandair ehf. (Árni Vilhjálmsson hrl.) (Helga Melkorka Óttarsdóttir hdl.) og gagnsök |
Ómerking héraðsdóms. Heimvísun. Dómsuppkvaðning.
Þar sem meira en átta vikur höfðu liðið frá munnlegum málflutningi til dómsuppsögu í héraði var hinn áfrýjaði dómur, með vísan í dómaframkvæmd Hæstaréttar, ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og dómsuppsögu á ný.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2010. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný, en til vara krefst hann sýknu af kröfum gagnáfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 18. júní 2010. Hann krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 22. júní 2007 í máli nr. 4/2007, svo og ákvörðun aðaláfrýjanda 30. mars sama ár nr. 11/2007. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt endurriti úr þingbók tók héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, mál þetta fyrir til aðalmeðferðar í þinghaldi 2. nóvember 2009 og var það tekið til dóms að loknum munnlegum flutningi. Í tölvubréfi til dómsformanns 23. nóvember 2009 greindi lögmaður aðaláfrýjanda frá atvikum, sem gæfu að hans áliti tilefni til efasemda um hæfi annars meðdómsmannanna til setu í dómi. Af þessu tilefni var málið tekið fyrir í þinghaldi 2. desember 2009 og aftur 7. sama mánaðar. Í síðarnefnda þinghaldinu gerði aðaláfrýjandi kröfu um að meðdómsmaðurinn viki sæti, sem gagnáfrýjandi andmælti, og var málið munnlega flutt um þetta efni. Með úrskurði 10. desember 2009 var kröfu aðaláfrýjanda hafnað. Þeim úrskurði varð ekki skotið til Hæstaréttar. Enn var málið tekið fyrir á dómþingi 20. janúar 2010 og var þá meðal annars eftirfarandi fært í þingbók: „Lögmenn og dómarar eru sammála um að óþarft sé að flytja málið á ný, jafnvel þótt nokkuð sé um liðið frá því að málið var munnlega flutt. Lögmenn aðila vísa um kröfugerð sína og röksemdafærslu til málflutnings sem fram fór 2. nóvember sl.“ Málið var við svo búið tekið á ný til dóms og hinn áfrýjaði dómur upp kveðinn 2. febrúar 2010.
Í greinargerð aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti er krafa um ómerkingu héraðsdóms reist annars vegar á því að meðdómsmaðurinn, sem um ræðir að framan, hafi verið vanhæfur til að sitja í dómi í málinu og hins vegar að ekki hafi verið tekin afstaða í hinum áfrýjaða dómi til nánar tiltekinnar málsástæðu hans, sem varðar gildi matsgerðar. Fyrir því fyrrnefnda eru ekki næg rök, en um það síðarnefnda er þess að gæta að þær röksemdir, sem aðaláfrýjandi hefur teflt fram og hald gæti verið í, varða efnisatriði máls en leiða ekki til ómerkingar hins áfrýjaða dóms.
Samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal dómur kveðinn upp svo fljótt, sem unnt er eftir dómtöku máls, en hafi mál verið munnlega flutt og dómur ekki gengið innan fjögurra vikna frá því að það var dómtekið skal það flutt á ný nema dómari og aðilar telji það óþarft. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið litið svo á að héraðsdómur verði ekki að réttu lagi kveðinn upp samkvæmt síðastnefndri heimild án þess að mál sé munnlega flutt á ný ef liðnar eru átta vikur frá því að það var upphaflega flutt, enda geti málflutningur ekki komið að því gagni, sem til sé ætlast, þegar uppsaga dóms dragist í þeim mæli, sbr. meðal annars dóm réttarins 6. febrúar 1995 í máli nr. 384/1992. Eins og greinir hér að framan liðu réttir þrír mánuðir frá því að mál þetta var munnlega flutt þar til hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp. Ekki var því unnt að neyta þeirrar undantekningar, sem heimiluð er í 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, til að láta hjá líða með sammæli aðila og dómara að málið yrði flutt að nýju áður en dómur gengi í því og getur hér engu breytt að tafir hafi þar orðið á vegna kröfu um að meðdómsmaður viki sæti, sem fyrst kom fram eftir að málið hafði verið dómtekið í byrjun. Að þessu virtu verður ekki komist hjá því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsuppsögu á ný.
Ákvörðun málskostnaðar í héraði verður að bíða nýs efnisdóms í málinu, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsuppsögu á ný.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.