Hæstiréttur íslands

Mál nr. 524/2015


Lykilorð

  • Manndráp
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 3. desember 2015.

Nr. 524/2015.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

(Björgvin Jónsson hrl. f.h. einkaréttarkröfuhafa)

Manndráp. Skaðabætur.

X var ákærð fyrir manndráp með því að hafa veist að sambúðarmanni sínum með hnífi með þeim afleiðingum að hann hlaut bana af. Háttsemi X þótti sönnuð og var hún sakfelld fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Talið var að þótt mikil áfengisneysla X kynni að hafa verið meginorsök verknaðar hennar, sem og athafna hennar fyrst eftir hann, hefði það ekki áhrif á ákvörðun refsingar fyrir brotið, sbr. 17. gr. og 1. mgr. 70. gr. sömu laga. Var X dæmd til að sæta fangelsi í 16 ár og greiða foreldrum A skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærða krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, til vara að héraðsdómur verði ómerktur, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hún þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð þeirra verði lækkuð.

B krefst þess aðallega að ákærðu verði gert að greiða sér 3.286.107 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Þá krefst C þess aðallega að ákærðu verði gert að greiða sér 3.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Til vara krefjast þau bæði staðfestingar hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfur sínar. Einnig krefjast þau þess að héraðsdómur verði staðfestur um málskostnað þeim til handa og að ákærðu verði gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.

Við úrlausn máls þessa verður ekki litið til dóms Hæstaréttar 3. júní 2010 í máli nr. 105/2010 með þeim hætti sem gert í hinum áfrýjaða dómi. Það fær því ekki breytt að héraðsdómur verður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talinn útlagðan kostnað verjanda síns og málsvarnarlaun hans, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Þá verður henni gert að greiða einkaréttarkröfuhöfum málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.093.456 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur, og útlagðan kostnað hans, 43.300 krónur.

Ákærða greiði B og C hvoru fyrir sig 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. júlí 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. júní sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 5. maí 2015 á hendur ákærðu, X, kt. [...], [...], [...];

„fyrir manndráp, með því að hafa milli klukkan 12:00 og 14:00 laugardaginn 14. febrúar 2015, veist að sambýlismanni sínum A, fæddum [...], í íbúðarherbergi sem þau bjuggu í að [...], [...], með hnífi og stungið hann einni stungu í brjóstið hægra megin þannig að hnífurinn gekk inn í hægra lunga hans með þeim afleiðingum að hann hlaut bana af völdum blæðingar úr lunganu.

Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur

B móðir brotaþola f. [...], búsett í [...], krefst þess að ákærðu verði gert að greiða henni bætur vegna útfarar brotaþola skv. 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að fjárhæð kr. 286.107. Einnig er gerð krafa um greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 3.000.000, skv. 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, en til vara skv. grunnreglu 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1281, reynist ákærða ósakhæf, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 14. febrúar 2015, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða málskostnað skv. 3. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

C faðir brotaþola f. [...], búsettur í [...], krefst þess að ákærðu verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 3.000.000, skv. 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en til vara skv. grunnreglu 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1281, reynist ákærða ósakhæf, auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 14. febrúar 2015, en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða málskostnað skv. 3. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Kröfur ákærðu í málinu eru þær aðallega að hún verði sýknuð af öllum kröfum ákæruvalds. Til vara krefst ákærða þess að henni verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist hennar verði dregin frá þeirri refsingu sem ákveðin verði að fullri dagatölu. Þá krefst ákærða þess að allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun skipuðum verjanda til handa. Hvað varðar bótakröfur þær sem teknar eru upp í ákæru krefst ákærða þess aðallega að kröfunum verði vísað frá dómi. Til vara krefst ákærða sýknu af bótakröfunum en til þrautavara að kröfurnar verði lækkaðar verulega.

I

Laust fyrir kl. 15:00, laugardaginn 14. febrúar 2015, barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um að bráðaliðar frá slökkviliði höfuðborgar­svæðisins væru á leið að húsi nr. [...]  við [...] í [...] til þess að reyna endurlífgun. Héldu tveir lögreglumenn þegar af stað þangað og komu þeir á vettvang samtímis sjúkrabifreiðum. Þar voru fyrir ákærða, dóttir hennar, D, og [...] ára gamalt barnabarn ákærðu, E.

Í frumskýrslu lögreglu er bókað að lögreglumönnunum hafi verið vísað í herbergi í kjallara hússins. Í sófa í herberginu hefði legið maður, A, sambýlismaður ákærðu, og hefði hann virst látinn. Bráðaliðar hafi þegar hafið tilraunir til endurlífgunar og hafi maðurinn verið færður á herbergisgólfið til þess að auðvelda þær. Tilraunir þessar hafi ekki borið árangur og þeim verið hætt rúmum hálftíma eftir að þær hófust, eða kl. 15:29. Þegar hér var komið sögu hafi sjúkraflutningamenn veitt athygli skurði undir rafskautspúða sem settur hafði verið hægra megin á bringu hins látna. Hafi virst sem þeir hafi ekki tekið eftir skurðinum þegar skautinu var komið fyrir.

Í lögregluskýrslu, sem rituð er af F rannsóknarlögreglumanni, kemur fram að hinn látni hafi verið klæddur í hvítan stuttermabol, svartar og hvítar íþróttabuxur og svarta sokka. Sjá hafi mátt blóðkám á buxunum, en ekkert blóð hafi verið sjáanlegt á bolnum og ekkert gat hafi verið á honum eftir hníf eða annað eggvopn. Í herberginu hafi fundist svartur síðerma rúllukragabolur og hafi verið gat á honum eftir eggvopn og ætlað blóð í kringum gatið. Þá hafi fundist buxur, drapplitaðar með belti, á gólfi við eldhúsvask. Blóðkám hafi verið á buxunum. Í eldhúsvaski hafi verið gulur svampur með ætluðu blóði í og rauður stuttermabolur. Bolurinn hafi verið gegnblautur eins og það hefði runnið á hann vatn, en þegar hreyft hafi verið við honum hafi blóð runnið frá honum. Í efstu skúffunni í eldhúsinnréttingunni hafi fundist hnífur, stuttur grænmetishnífur með grænu skefti, og hafi strax vaknað grunur um að blóð væri á hnífsblaðinu. Er framangreind lýsing á fatnaði hins látna í samræmi við það sem fram kemur um hann í frumskýrslu lögreglumanns sem fyrstur kom á vettvang.

Húsið að [...] er fjölbýlishús á tveimur hæðum auk kjallara. Í fyrirliggjandi skýrslu G, rannsóknarlögreglumanns í tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, kemur fram að í kjallara hússins sé gangur, geymsla sem tjaldað sé fyrir, baðherbergi, þvottahús fyrir alla íbúa hússins og herbergi, sem sé við hliðina á þvottahúsinu. Lágt sé til lofts í herberginu og á suðurhlið þess sé einn gluggi með opnanlegu fagi. Vettvangi er annars lýst svo í þessari skýrslu: „Í herberginu sem er alrými um 20 fermetrar að stærð er eldhúsinnrétting með eldavél, ísskápur, fataskápur, svefnsófi sem er útdraganlegur, sófaborð, tveggja sæta leðursófi, sjónvarpstæki sem var fest í þar til gerða festingu á vegg fyrir ofan leðursófann.“ Þá segir í skýrslunni að ekki hafi verið hægt að sjá merki um að átök hefðu átt sér stað í herberginu, en búið hafi verið að færa stofuborðið og rúmið svo að viðbragðsaðilar gætu framkvæmt lífgunartilraunir. Hinn látni hafi legið á bakinu á gólfinu í herberginu og höfuð hans snúið í áttina að glugganum.

Eftir að lögregla hafði rætt við þá sem staddir voru á vettvangi var tekin sú ákvörðun að handtaka ákærðu og færa hana á lögreglustöð vegna gruns um að hún hefði átt þátt í andláti sambýlismanns síns. Við lögreglurannsókn gekkst hún ekki við því.

II

Í málinu liggur frammi skýrsla um rannsókn á hnífnum sem áður er getið um og lögregla lagði hald á. Í henni kemur fram að heildarlengd hnífsins sé 18,1 cm, blaðlengd 8,3 cm þegar mælt sé meðfram egg, en 7,9 cm mælt eftir miðju blaðs. Þá sé mesta breidd blaðs 1,8 sm. Blaðið sé með ávalri egg og ávölum bakka. DNA-rannsókn á bletti á hnífsblaðinu leiddi í ljós að þar væri um að ræða blóð úr hinum látna. Á skefti hnífsins fundust ekki lífsýni nothæf til DNA-rannsóknar.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var blóðsýni tekið úr ákærðu klukkan 19:15 hinn umrædda dag. Þá lét hún í té þvagsýni um sama leyti. Rannsókn á sýnunum, sem framkvæmd var af Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, leiddi í ljós að styrkur etanóls í blóðsýninu var 1,96‰ en 2,47‰ í þvagsýninu. Af hálfu lögreglu var óskað eftir því að rannsóknastofan legði á það mat út frá þessum niðurstöðum hvert hafi verið áfengismagn í blóði viðkomandi á milli klukkan 12 og 14 þennan dag, eða fimm til sjö klukkustundum fyrir töku sýnanna. Í matsgerð rannsóknastofunnar segir svo um þetta: „Etanólstyrkur í blóði viðkomandi er 1,96‰ kl. 19:15 og 2,47‰ í þvagi. Ekki var tekið annað blóðsýni svo brotthvarfshraði etanóls úr blóði þessa einstaklings er ekki þekktur. Þar sem svo langur tími líður fram að sýnatöku er eingöngu hægt að gefa vísbendingu um etanólstyrk á umræddum tíma, þ.e. um 5 til 7 klukkustundum fyrr. Þar sem sakborningur neytti ekki áfengis eftir kl. 14:57 má reikna með að etanólstyrkur hafi verið 0,4 til 0,8‰ hærri kl. 16 (þ.e. blóðstyrkur 2,3‰ til 2,8‰). Ekki er hægt að reikna lengra aftur, þar sem sakborningur ber við drykkju á sterku áfengi um kl. 14.“

Blóð- og þvagsýni úr hinum látna voru rannsökuð með sama hætti og reyndist styrkur etanóls í blóðsýninu vera 2,74‰ en 1,87‰ í þvagsýninu. Kemur fram í matsgerð um þessa rannsókn að styrkur etanóls í blóði og þvagi bendi til þess að hinn látni  hafi verið verulega ölvaður þegar hann lést. Þá bendi hlutfall etanóls í blóði og þvagi til þess að hinn látni hafi neytt þess skömmu áður en hann lést.

Með bréfi 17. febrúar 2015 fór lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fram á það að réttarkrufning færi fram á líki A. H, sérfræðingur í meinafræði, framkvæmdi réttarkrufninguna. Í málinu liggur frammi skýrsla sem hún ritaði vegna krufningarinnar, dagsett 3. júní 2015.

Í tilvitnaðri skýrslu kemur fram að fundist hafi langsum afmarkað sár, hægra megin á brjóstkassa, 136 cm fyrir ofan hæl og 4 cm hægra megin við miðlínu líkamans. Sárið hafi verið 1,4 cm x 0,7 cm og verið rekjanlegt 6,5 cm inn í hægra efra lungnablað (þar um 2 cm djúpt inn í lungnavefinn). Sárið hafi sýnt skýrt horn að neðan og sljótt horn að ofan. Hægra lunga hafi verið samfallið, með skýrt sár á efra blaði (um 1 cm á lengd), samsvarandi sárinu utan á líkamanum en aðeins lægra í hæð. Fundist hafi 2050 ml af blóðvökva í hægra brjóstholi og 1020 g af blóðkökkum í hægra brjóstholi. Líkið hafi hvorki borið merki um varnarsár né merki um önnur sjálfveitt sár.

Í skýrslunni segir svo um dánarorsökina:

„Krufningin leiddi í ljós að dánarorsök hefur verið blæðing út um sár með skörpum brúnum á efra lungnablaði hægra megin. Sárið í lunganu var u.þ.b. 2 cm djúpt en opnaði engar stærri æðar. Engu að síður var að finna mikið magn fljótandi (2050 ml) og storknaðs (1020 g) blóðs í brjóstholi hægra megin. Af þessum sökum er unnt að ganga út frá því að nokkur tími hafi liðið á milli tilkomu sársins og andlátsins. Hugsanlega hafi liðið 30 mínútur þar á milli. Blæðingar í innri þekju hjartans renna frekari stoðum undir þessa tilgátu. Ennfremur má gera ráð fyrir því að maðurinn hafi verið sjálfráður gerða sinna í nokkurn tíma eftir að hann varð fyrir áverkanum. Raunar má ætla að hann hafi frá upphafi átt erfitt með andardrátt þar sem gera má ráð fyrir að við áverkann hafi komist loft í brjósthol (loftbrjóst, pneumothorax). Þar sem vinstra lungað var heilt hefur maðurinn hins vegar ekki orðið fyrir skyndilegri og bráðri andnauð.“

Um sárið segir svo:

„Formfræði (morphology) sársins, sem er með hvössum enda að neðanverðu, víðum (0,2 cm) enda að ofanverðu og sléttum brúnum til hliðar, bendir til þess að notað hafi verið tól með hvassri brún, líklega hnífur með einni egg. Unnt var að fylgja sárinu eftir niður á 6,5 cm dýpi. Ekki greindist húðfleður á brúnum sársins sem hefði getað verið vísbending um lendingu skaftsins á yfirborði húðarinnar. Að því leyti má ganga út frá því að lengd hnífsblaðsins hafi verið a.m.k. 6,5 cm, þótt líklega hafi það verið lengra. Breidd hnífsblaðsins hefur líklega ekki verið meiri en 1,4 cm á fyrstu 6,6 lengdarsentimetrunum. Hugsanlegt er að blaðið hafi verið mun mjórra þar sem hnífurinn getur hafa bætt við skurði í sárinu. Á grundvelli fyrirliggjandi formfræði verður þetta þó að teljast ólíklegt. Hnífurinn með græna skeftinu, sem fannst á vettvangi, gæti hafa valdið áverkanum sem fyrir lá. Stefna stungusársins er örlítið á ská frá hægri að ofanverðu til vinstri að neðanverðu og hefur hún opnað brjóstholið á milli 3. og 4. rifbeins og skilið eftir skurð í beinið við efri brún 4. rifbeins.“

Varðandi það hvort umræddur áverki hafi verið af eigin völdum eða af völdum utanaðkomandi segir svo í skýrslunni: „... ber fyrst að horfa til þess að við ytri skoðun á líkinu var ekki unnt að staðfesta neina áverka vegna virkra eða óvirkra varnarviðbragða ... Slík sár eru vanalega fyrir hendi þegar um er að ræða hnífaárás af utanaðkomandi völdum, að því gefnu að sá sem fyrir árásinni verður sé sjálfráður gerða sinna og árásin komi honum ekki að óvörum. Þetta bendir til þess að áverkinn sé til kominn af eigin völdum og einnig sú staðreynd að aðeins er um eina stungu að ræða. Aftur á móti er það óvenjulegt fyrir áverka af eigin völdum að stungan fór í gegnum fötin. Þegar um er að ræða áverka af eigin völdum hefur líkamshlutinn sem um ræðir í flestum tilvikum verið flettur klæðum. Í slíkum tilvikum eru ennfremur vanalega fyrir hendi prufuskurðir eða –stungur. Þetta á ekki við þegar um er að ræða áverka af utanaðkomandi völdum. Einnig er staðsetning og formfræði sársins frekar ódæmigerð fyrir áverka af eigin völdum, þótt líkamsstaðurinn sé vel aðgengilegur fyrir einstaklinginn sem í hlut á.“

Í skýrslunni segir um hníf þann sem lögregla haldlagði við rannsókn málsins: „Hnífur fannst á vettvangi, með grænu skafti, var talinn geta verið tólið sem olli sárinu. Blaðið var eineggja, neðri hlið mældist 8 cm, efri hlið 7,5 cm. Rauðbrúnir blettir voru sýnilegir á neðri hlið við um 7 cm lengd. Þessi hnífur getur valdið sári eins og í þessu tilviki. Lítill munur á máli sársins og tólsins getur stafað af hreyfingum við stunguna og teygjanleika vefs.“

Um tímasetningu andlátsins segir í niðurlagi skýrslunnar:

„Í því sambandi er aðeins unnt að byggja á fyrstu líkeinkennum (líkblettum og líkstirðnun). Þegar krufningin fór fram 14.02.2015, kl. 18:00, höfðu líkblettirnir runnið saman en gátu þó enn algjörlega færst til. Líkstirðnun var fyrir hendi en ekki orðin alger. Gera má ráð fyrir að líkstirðnun sé orðin alger 6-8 klst. eftir andlát, líkblettir séu runnir saman 1-2 klst. eftir andlátið og að þeir geti færst til í allt að 10 klst. eftir andlátið. Því má þrengja tímapunkt andlátsins niður í 2-6 klst. fyrir tímapunkt krufningarinnar. Þetta þýðir að andlátið hefur væntanlega átt sér stað 14.02.2015 á milli kl. 12:00 og 16:00 og er miðgildi þess tíma kl. 14:00.“

Í niðurlagi skýrslunnar segir svo:

„Á heildina litið er unnt að staðfesta að dánarorsökin hafi verið blæðing vegna opnunar lítilla æða í efra lungnablaði hægra megin sem orsakaðist af stungusári vegna hnífs með einni egg sem hefur verið a.m.k. 6,5 cm löng og miðað við þá lengd ekki breiðari en 1,4 cm. Hnífur með grænu skefti sem fannst á vettvangi kemur til greina sem banavopn. Frá sjónarhóli réttarlæknisfræðinnar er ekki unnt að ákvarða hvort sárið hafi verið af eigin völdum eða af utanaðkomandi völdum. Fyrir hendi eru vísbendingar sem geta bent til hvors tveggja. Gera má ráð fyrir því að maðurinn hafi verið sjálfráður gerða sinna í nokkurn tíma eftir að áverkinn hlaust. Ekki er unnt að ákvarða að hvaða marki vínandainnihald blóðs hefur takmarkað hversu sjálfráður gerða sinna maðurinn var og ekki heldur hversu stórs hluta hins mælda vínanda var neytt eftir að áverkinn átti sér stað. ...

Dánarorsök er ekki náttúruleg, en ekki er unnt að ákvarða hvort um hafi verið að ræða sjálfsvíg eða manndráp.“

Vitnið H kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði tilvitnaða skýrslu sína. Fram kom hjá henni að líklegt væri að hinn látni hafi haldið meðvitund um nokkurn tíma eftir að hann hlaut stungusárið og hann getað hreyft sig nokkurn veginn eðlilega. Ugglaust hafi maðurinn þó átt við öndunarerfiðleika að stríða þar sem lungað hafi þá verið fallið saman. Áverkinn hafi því valdið hægfara meðvitundar­skerðingu hjá manninum.

Vitnið kvað talsvert afl þurfa til þess að valda stungu eins og þeirri sem hér um ræði. Til stuðnings þeirri ályktun sinni vísaði vitnið til þess að hnífurinn hafi lent á rifbeini og skaðað það, en samt gengið áfram inn. Þetta hafi því verið talsvert kröftug stunga.

Þá kom fram hjá vitninu að út frá áverkanum verði ekki fullyrt, hafi einhver annar en hinn látni sjálfur valdið honum, að ásetningur viðkomandi hafi staðið til þess að bana manninum. Vísaði vitnið um það til þess að um eina stungu hafi verið að ræða og þá bendi allt til þess að maðurinn hafi ekki misst meðvitund samstundis. Líklegt verði að telja að ef um einbeittan ásetning hefði verið að ræða til þess að bana manninum hefði komið til frekari átaka.

Almennt sagði vitnið það ódæmigert fyrir áverka af eigin völdum að hnífsegg snúi niður, en ráða megi af sárinu á hinum látna að þannig hafi hnífurinn snúið í þessu tilfelli. Jafnframt kvað vitnið staðsetningu sársins í efra lagi miðað við áverka af eigin völdum. Þeir áverkar séu oftast nær neðar, á magasvæðinu.

Aðspurt sagði vitnið í lungunum að finna stórar æðar sem hefðu, hefðu þær verið rofnar, valdið verulegum blæðingum.

III

Ákærða kom fyrir dóm við þingfestingu málsins 13. maí 2015. Neitaði hún sök og hafnaði bótakröfum. Við upphaf aðalmeðferðar 18. júní sl. ítrekaði ákærða þessa afstöðu sína.

Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi ákærða svo frá að hún hefði verið við drykkju fram til kl. 23:00 að kvöldi föstudagsins 13. febrúar 2015. Hún hefði vaknað um kl. 6:00 morguninn eftir. Ákærða hefði þá hringt og tilkynnt að hún myndi ekki mæta til vinnu síðar um morguninn. Hún hefði síðan lagt sig aftur. Ákærða hefði vaknað einhverju síðar og fengið sér bjór, mögulega tvo, og síðan lagst aftur til svefns. A, sambýlismaður ákærðu og unnusti hennar til níu ára, hefði síðan vakið hana um kl. 8:00 og viljað fara í [...]. Sagði ákærða A hafa verið mjög ölvaðan og taldi ákærða að hann hefði verið við drykkju alla nóttina. Ákærða kvaðst hafa upplýst sambýlismann sinn um að verslunin yrði ekki opnuð fyrr en kl. 10:00 og haldið áfram að sofa.

A hefði vakið ákærðu að nýju nokkru síðar og enn viljað fara í [...]. Hefði ákærða þá hringt í leigubíl fyrir hann og A farið með bílnum skömmu síðar. Taldi ákærða að hún hefði á þessum tímapunkti drukkið áfengi, mögulega tvö lítil vodkastaup. Hún hefði síðan lagst til hvílu enn á ný. Þegar ákærða hafi vaknað upp næst, sem ákærða gat aðspurð ekki sagt til um hvenær hefði verið, hefði A setið látinn í sófa í herberginu. Tók ákærða fram að hún hefði í fyrstu talið hann vera sofandi. Hún hefði gengið að A, hreyft aðeins við honum og ávarpað hann, en A engu svarað. Ákærða hefði þá séð að A var „hvítur“ og gert sér grein fyrir því að hann væri látinn. Hefði á þeirri stundu helst hvarflað að ákærðu að sambýlismaður hennar hefði fengið hjartaáfall.

Ákærða sagði A hafa verið beran að ofan og hann haldið á rauðum bol í hendinni. Hann hefði verið blóðugur og hefði ákærða þrifið blóð af enni hans og brjóstkassa. Hún hefði síðan sett hann í hreinan bol. Rauða bolinn hefði ákærða sett í vaskinn. Um klæðnað hans að öðru leyti bar ákærða að hann hefði verið í íþróttabuxum og ljósum buxum þar yfir, sem dregnar hefðu verið niður að hnjám. Staðfesti ákærða að um væri að ræða þær buxur sem lögregla fann í herberginu og haldlagði undir rannsókn málsins. Ákærða neitaði því að hún hefði klætt hinn látna úr ljósu buxunum. Ákærða hefði því næst hringt í dóttur sína. Aðspurð kvaðst hún ekkert geta sagt um það hversu langur tími hafi þá verið liðinn frá því að hún vaknaði og kom að sambýlismanni sínum látnum.

Ákærða kvaðst ekki geta skýrt af hverju hún hefði ákveðið að þrífa A eins og áður var lýst. Það hefði einfaldlega verið það fyrsta sem kom upp í huga hennar. Neitaði ákærða því aðspurð að tilgangurinn hefði verið sá að freista þess að leyna því að hún hefði stungið sambýlismann sinn. Við þrifin sagðist ákærða hafa notað svamp sem lögregla hefði síðar fundið í vaski í herberginu. Hún hafi ekki þrifið gólfið. Kvaðst ákærða hafa tekið eftir sárinu á bringu A er hún þreif hann en ekki áttað sig á því hvers eðlis það væri. Þá hefði hún ekki vitað hvernig hún gæti náð sambandi við lögreglu og því hefði hún hringt í dóttur sína.

Við rannsókn málsins hjá lögreglu komu fram upplýsingar sem bentu til þess að ákærða hafi farið ásamt sambýlismanni sínum í heimsókn til dóttur sinnar, sem bjó að [...] í [...], rétt fyrir hádegi hinn umrædda morgun. Við skýrslugjöf hjá lögreglu kannaðist ákærða ekki við þetta og í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst hún ekki minnast þessarar heimsóknar til dóttur sinnar og taldi að hún hefði ekki farið út úr húsi þennan morgun.

Ákærða sagði samband hennar og A almennt hafa verið gott. Þau hefðu ekki rifist og ofbeldi ekki þekkst í sambandinu. Kvað ákærða engan ágreining hafa komið upp þeirra á milli í aðdraganda andláts A. Hún hefði enga ástæðu haft til þess að vinna sambýlismanni sínum mein.

Um andlegt ástand A bar ákærða að hún vissi ekki til þess að hann hefði verið þunglyndur. Hins vegar kom fram hjá ákærðu að sambýlismaður hennar hefði verið töluvert drykkfelldur. Ákærða sagðist aðspurð ekki vita til þess að hann hefði hugleitt sjálfsvíg.

Ákærða sagði þau A hafa búið ein í íbúðinni. Íbúðina kvað hún hafa verið ólæsta er atvik máls gerðust. Þá hafi enginn komið í heimsókn til þeirra umræddan morgun. Upplýsti ákærða að sambýlismaður hennar hefði verið búinn að dvelja á Íslandi um mánaðartíma er atvik máls gerðust eftir tveggja og hálfs árs búsetu í [...]. Kvaðst ákærða ekki vita til þess að hann hefði átt sökótt við nokkurn mann. Gat ákærða aðspurð ekki með nokkru móti útskýrt hvernig sambýlismaður hennar fékk áverka þann á brjósti sem dró hann til dauða og taldi að hún ætti að muna það ef hún hefði stungið hann.

Fyrir dómi var borinn undir ákærðu hnífur með grænu skafti, sem lögregla fann í skúffu í eldhúsinnréttingu í herberginu. Staðfesti ákærða að hnífurinn væri í hennar eigu. Ákærða kvaðst aðspurð ekki hafa séð hnífinn umræddan dag og neitaði að hafa gengið frá honum í skúffuna þar sem hann fannst.

Fram kom hjá ákærðu að hún væri rétthent og að sambýlismaður hennar hefði líka verið rétthentur.

IV

Vitnið I leigubifreiðarstjóri skýrði svo frá fyrir dómi að 14. febrúar 2015 hefði hann verið pantaður að [...] í [...]. Þaðan hefði vitnið ekið sambýlismanni ákærðu að vínbúðinni við [...] í [...]. Eftir stopp þar hefði vitnið ekið manninum aftur til baka að [...]. Vitnið hefði beðið fyrir utan húsið um hríð en síðan hefði maðurinn komið til baka ásamt ákærðu. Vitnið hefði síðan ekið parinu að [...] í [...]. Þar hefði vitnið beðið eftir þeim en síðan ekið þeim aftur til baka að [...].

Vitnið kvað bæði ákærðu og sambýlismann hennar hafa verið mjög ölvuð og hefði ákærða verið sýnilega ölvaðri en maðurinn. Í því sambandi nefndi vitnið að maðurinn hefði verið reikull í spori. Þá hefði ákærða dottið í snjóinn fyrir utan [...] og hefði maðurinn aðstoðað hana á fætur.

Fyrir dómi voru tvær greiðslukvittanir bornar undir vitnið, önnur frá því kl. 11:36 hinn 14. febrúar 2015 og hin frá því kl. 11:59 þann sama dag. Staðfesti vitnið að það hefði fengið greitt fyrir aksturinn í tvennu lagi; fyrst eftir ferðina í vínbúðina og síðan að akstrinum loknum. Var á vitninu að skilja að greitt hefði verið í tvennu lagi þar sem ekki hefði legið ljóst fyrir eftir aksturinn í vínbúðina hvort frekari þjónustu vitnisins væri óskað. Staðfesti vitnið jafnframt að það hefði afhent lögreglu greiðslukvittanir vegna þessara viðskipta.

Vitnið sagðist ekki hafa merkt annað en að vel færi á með ákærðu og sambýlismanni hennar. Þau hefðu t.a.m. hlegið og allt virst vera í góðu. Því hefðu fréttir af því sem síðar gerðist komið vitninu algerlega í opna skjöldu.

Vitnið J rannsóknarlögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði framkvæmt rannsókn á vettvangi að [...] mánudaginn 16. febrúar 2015. Tilgang rannsóknarinnar kvað vitnið einkum hafa verið að kanna hvort blóð hefði verið þrifið upp af vettvangi.

Fyrst hefði vitnið leitað með sterku hvítu ljósi. Síðan hefði vitnið notað efnið Luminol sem hafi þann eiginleika að þegar efnið komist í snertingu við blóð þá flúrljómi það. Nauðsynlegt sé við slíka rannsókn að myrkva vettvang og úða efninu síðan yfir. Komi einhverjar blóðleifar fram við rannsóknina séu þær ljósmyndaðar og þess freistað að taka úr þeim sýni.

Til rannsóknar í umræddu tilviki hefði verið eitt lítið herbergi. Á gólfi framan við sófa í herberginu hefði komið fram mjög afgerandi svörun. Þar hefði mátt greina „þrifför“ í efninu, strokur, sbr. framlagðar ljósmyndir. Tók vitnið fram að ekkert hefði hins vegar fundist í sófanum sjálfum. Var það álit vitnisins að augljóst væri að blóð hefði verið þrifið af gólfinu áður en lögregla og viðbragðsaðilar komu á vettvang. „Það er eina skýringin.“ Sagðist vitnið hins vegar engu geta slegið föstu um það hversu mikið blóð hefði verið þrifið upp.

Fram kom hjá vitninu að blóðblettir gætu gefið svörun mjög lengi eftir að þeir koma til. Þá upplýsti vitnið jafnframt að ekki verði greint á milli blóðs úr mönnum annars vegar og dýrum hins vegar með Luminol-rannsókn.

Fyrir dóminn voru einnig kvödd til skýrslugjafar dóttir ákærðu, D, og barnabarn hennar, E. Skoruðust þau bæði undan skýrslugjöf í málinu vegna skyldleika við ákærðu með heimild í b-lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Bæði höfðu vitnin gefið skýrslu vegna aðkomu sinnar að málinu fyrir lögreglu en í ljósi fyrrgreindrar afstöðu þeirra og fyrirmæla 1. mgr. 111. gr. tilvitnaðra laga verður dómur í málinu í engu byggður á því sem fram kemur í skýrslunum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 105/2010.

V

Í málinu liggur frammi skýrsla, dagsett 13. apríl 2015, sem K geðlæknir ritaði vegna geðheilbrigðisrannsóknar sem hann framkvæmdi á ákærðu að beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Í samantekt geðlæknisins kemur meðal annars fram að engar vísbendingar hafi komið fram við rannsóknina um einkenni geðrofs, ranghugmynda, rugls eða ofskynjana. Þá uppfylli ákærða ekki nein skilmerki fyrir persónuleikaröskun. Hún sé líklega yfir meðallagi vel gefin og þekki og skilji reglur og lög samfélagsins og muninn á réttum og röngum athöfnum. Heildarmyndin bendi alls ekki til siðblindu. Þótt ákærða muni ekki skýrt hvað gerst hafi sé hún „... viss um að hún frekar stakk hnífnum fremur en sambýlismaður ...“.

Ákærða hafi sýnt greinileg merki sorgar og vægs þunglyndis á tímabili geðskoðana. Hún eigi sér sögu um misnotkun áfengis og hafi síðustu þrjú árin oft upplifað óminni fyrir atburðum og athöfnum eftir mikla drykkju. Hafi ákærða verið „... mjög ölvuð á meintri atburðar stund ...“. Ákærða hafi enga sektarkennd haft varðandi atburð í byrjun geðskoðana þar sem hún muni atburðarásina ekki og trúi því vart enn hvað gerst hafi. Strax í fyrsta viðtali hafi þó komið fram að hún væri meðvituð um að hún gæti hafa framið hinn meinta verknað og hafi viðurkennt samviskubit yfir því. Sektarkennd hafi komið fram í þriðja viðtali. Segir læknirinn ákærðu virðast vera duglega, vinnusama og stolta konu sem hafi enga sögu um alvarlegt ofbeldi eða afbrot.

Niðurstöður geðlæknisins eru þær að ákærða sé sakhæf samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga. Hún hafi engin merki geðrofs, sturlunar við gang geðrannsóknar eða fyrir atburð. Ekki hafi komið fram merki um persónuleikaröskun, heilaskaða eða greindarskort sem séu af þeirri gráðu að þau firri ákærðu ábyrgð gerða sinna. Ákærða hafi örugglega verið mjög ölvuð umræddan dag. Þau geðrænu einkenni sem lýst sé í matinu leiði ekki til ósakhæfis samkvæmt 16. gr. almennra hegningarlaga. Þau útiloki hvorki fangelsisvist né að refsing komi að gagni. Telur geðlæknirinn að ákærða þurfi að horfast í augu við áfengisvanda sinn þar sem ölvunarástand virðist vera eina sýnilega ástæða gerða ákærðu, hafi það á annað borð verið svo að hún hafi banað sambýlismanni sínum.

Vitnið K geðlæknir kom fyrir dóm og staðfesti og skýrði tilvitnaða skýrslu sína. Í viðtölum sínum við ákærðu sagðist vitnið hafa séð skiljanleg og eðlileg sorgarviðbrögð hjá ákærðu þegar hún hefði rætt um sambýlismann sinn sáluga. Vitnið sagði svo virðast sem ákærða hefði verið mjög drukkin er atvik máls gerðust. Í því ljósi taldi vitnið það „... alveg sannfærandi að hún hafi verið í óminnisástandi stóran part af þessum degi.“

VI

Svo sem fram er komið er ákærðu gefið að sök að hafa orðið sambýlismanni sínum, A, að bana með því að hafa milli klukkan 12 og 14 laugardaginn 14. febrúar 2015, í íbúðarherbergi sem þau bjuggu í að [...] í [...], stungið hann með hnífi í brjóstið. Ákærða neitar sök. Þá hefur hún ekkert getað sagt til um það hvernig andlát sambýlismanns hennar bar að höndum.

Með skýrslu H, 3. júní 2015, þykir sannað að dánarorsök A hafi verið blæðing vegna opnunar lítilla æða í efra lungnablaði, hægra megin, sem orsakast hafi af stungusári eftir hníf með einni egg, sbr. nánari reifun á efni skýrslunnar í kafla II hér að framan. Fyrir liggur að lögregla fann hníf með grænu skefti í skúffu í eldhúsinnréttingu í kjallaraherberginu. Staðfesti ákærða fyrir dómi að hnífurinn væri í hennar eigu. Var hnífurinn haldlagður í þágu rannsóknar málsins. Leitað var eftir blóðleifum og erfðaefni á hnífnum og hann veginn og mældur. Er hnífurinn með 8,3 cm blaði og er mesta breidd blaðs 1,8 cm. Í skýrslu H kemur fram að fyrrnefndu stungusári hafi verið valdið með hnífi með einni egg, sem verið hafi a.m.k. 6,5 cm löng og miðað við þá lengd ekki breiðari en 1,4 cm. Var það niðurstaða meinafræðingsins að hinn haldlagði hnífur kæmi til greina sem banavopnið. Þá hefur verið leitt í ljós með DNA-rannsókn að blóð úr hinum látna var á hnífsblaðinu. Að öllu þessu gættu þykir mega slá því föstu að umræddur hnífur hafi verið notaður þegar sambýlismanni ákærðu var veitt það stungusár sem dró hann til dauða.

Atburðarás hinn umrædda morgun og allt þar til lögregla kom á vettvang rétt fyrir kl. 15 er mjög óljós, en að mestum hluta er ákærða ein til frásagnar um hana að því takmarkaða leyti sem hún hefur getað um hana borið. Hefur ákærða borið á þann veg að hún hafi sofið mestan hluta þess tíma. Fyrir dómi greindi hún svo frá að hún hefði verið við drykkju fram til kl. 23:00 að kvöldi föstudagsins 13. febrúar 2015. Hún hefði síðan drukkið bjór, mögulega tvo, einhvern tímann á milli kl. 6:00 og 8:00. Þá hefði hún drukkið meira áfengi, mögulega tvö lítil vodkastaup, eftir að sambýlismaður hennar fór í [...] og Vínbúðina í [...], sem fyrir liggur, með framburði I leigubifreiðarstjóra, framlagðri greiðslu­kvittun, er vitnið framvísaði við lögreglu, og afritum úr öryggismyndavélum nefndra tveggja verslana, að var laust fyrir kl. 11:30. Samkvæmt framlagðri matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettri 10. mars 2015, reyndust 2,47‰ etanóls í þvagsýni sem ákærða gaf kl. 19:15 þennan dag og þá reyndust 1,96‰ etanóls í blóðsýni sem hún gaf á sama tíma. Þá bar vitnið I að bæði ákærða og sambýlismaður hennar hefðu verið mjög ölvuð er hann ók þeim frá [...] í [...] og að [...] þar í bæ, og til baka aftur, skömmu fyrir kl. 12:00, og hefði ákærða verið sýnilega ölvaðri en maðurinn. Að öllu þessu töldu þykir verða að leggja til grundvallar að ákærða hafi verið talsvert mikið ölvuð þegar sambýlismaður hennar hlaut stunguáverka þann sem dró hann til dauða. Að mati dómsins er það ástand ákærðu líkleg skýring á þeirri staðreynd að hún hefur ekki kannast við að hafa farið með sambýlismanni sínum í fyrrnefnda bílferð að [...], þar sem dóttir hennar býr, þótt telja megi sannað með framburði I, og að nokkru þeim greiðslukvittunum sem vitnið framvísaði við lögreglu, að það hafi hún gert. Má ætla að sú ferð hafi að minnsta kosti tekið 15 til 20 mínútur.

Hvað ástand sambýlismannsins varðar bar ákærða að hann hefði verið mjög ölvaður og taldi ákærða að hann hefði verið við drykkju alla nóttina. Er þessi framburður ákærðu í góðu samræmi við áðurgreint vætti I. Þá liggur fyrir samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettri 16. mars 2015, að 2,74‰ etanóls voru í blóði mannsins er hann lést og 1,87‰ í þvagi. Segir í matsgerðinni að styrkur etanóls í blóði og þvagi „bendi til þess að hinn látni hafi verið verulega ölvaður þegar hann lést.“ Samkvæmt öllu þessu þykir mega slá því föstu að maðurinn hafi verið undir verulegum áfengisáhrifum er hann hlaut stungusár það sem dró hann til dauða.

Húsnæði það sem ákærða leigði og hafði til afnota í kjallara hússins að [...] er lítið, eitt 20 m² herbergi með aðgangi að snyrtingu og sameiginlegu þvottahúsi. Tengjast þessi rými saman með gangi. Fyrir liggur að leðursófi sá sem hinn látni var í þegar lögregla og bráðaliðar komu á vettvang, sem og svefnsófinn er ákærða svaf í samkvæmt áðursögðu, voru í þessu herbergi og því mjög stutt á milli þeirra.

Ákærða bar fyrir dómi að sambýlismaður hennar hefði verið ber að ofan er hún kom að honum látnum í sófanum og með rauðan bol í hendinni. Maðurinn hefði verið blóðugur og hefði ákærða þrifið blóð af enni hans og brjóstkassa og síðan sett hann í hreinan bol. Gat ákærða ekki skýrt af hverju hún ákvað að þrífa hinn látna en neitaði því aðspurð að tilgangurinn hefði verið sá að freista þess að leyna því að hún hefði stungið hann.

 Í rannsóknargögnum lögreglu kemur fram að þegar lögregla kom á vettvang hafi svartur rúllukragabolur legið á herbergisgólfinu, undir stofuborði. Þá hafi rauður stuttermabolur legið blautur í vaski í eldhúsinnréttingu. Á báðum þessum flíkum var gat í brjósthæð, hægra megin við miðju, samsvarandi við staðsetningu stungusársins á brjósti hins látna. Báðar voru flíkurnar blóðugar. Að þessu athuguðu þykir verða að leggja til grundvallar að maðurinn hafi verið í nefndum fatnaði þegar hnífurinn stakkst í brjóst hans. Hvers vegna hinn látni var ekki í þessum fötum er lögreglu og bráðaliða bar að liggur ekki fyrir.

Um klæðnað hins látna bar ákærða jafnframt að hann hefði verið í íþróttabuxum og ljósum buxum þar yfir, sem dregnar hefðu verið niður að hnjám. Í fatahrúgu á gólfi milli vasks og ísskáps fann lögregla ljósar buxur sem í reyndust vera blóðblettir úr hinum látna. Staðfesti ákærða fyrir dómi að um væri að ræða þær buxur sem sambýlismaður hennar hefði verið í yfir íþróttabuxunum. Ákærða neitaði því hins vegar alfarið að hún hefði klætt hann úr buxunum. Hvernig buxurnar enduðu í fatahrúgunni þar sem lögregla síðan fann þær gat ákærða ekki skýrt.

Ekkert haldbært liggur fyrir í málinu sem bendir til þess að samband ákærðu og sambýlismanns hennar hafi verið ofbeldisfullt eða það á annan hátt verið slæmt. Verður af gögnum málsins ekki ráðið að ákærða hafi haft einhverja sérstaka ástæðu til þess að vinna sambýlismanni sínum mein. Þá hefur heldur ekkert fram komið um það í málinu að hinn látni hafi átt við andleg veikindi að stríða. Þannig bar ákærða að hún vissi ekki til þess að hann hefði verið þunglyndur. Vissi hún heldur ekki til þess að hann hefði íhugað sjálfsvíg.

Að mati dómsins verður að teljast vel sennileg sú skýring á engum varnaráverkum á hinum látna að einungis var um að ræða eina stungu. Þá var meintur árásarmaður sambýliskona mannsins og þau stödd á heimili sínu. Auk þess var hinn látni undir töluverðum áfengisáhrifum, svo miklum að sennilegt verður að telja að haft hafi áhrif á árvekni hans og viðbrögð. Það sem fram er komið í málinu og dómnum þykir eindregið benda til þess að ákærða hafi valdið umræddum stunguáverka, er að eftir andlátið þreif ákærða líkið og klæddi það í bol. Eftir það kallaði hún dóttur sína á vettvang en ekki lögreglu, eða eftir atvikum sjúkralið. Jafnframt liggur fyrir að búið var að ganga frá fyrrgreindum hníf í skúffu í eldhúsinnréttingu þegar lögreglu bar að garði. Þá verður að mati dómsins ekki litið fram hjá því mati H meinafræðings að ódæmigert sé fyrir áverka af eigin völdum að hnífsegg snúi niður en ráða megi af því sári sem hér um ræði að þannig hafi hnífurinn snúið. Þá benti meinafræðingurinn einnig á að staðsetning sársins væri í efra lagi miðað við áverka af eigin völdum, þeir áverkar væru oftast nær neðar.

Svo sem fyrr var rakið neitar ákærða sök. Samkvæmt framansögðu var hún undir talsvert miklum áfengisáhrifum er atvik máls gerðust. Að mati dómsins er afar líklegt, sbr. meðal annars framburð K geðlæknis fyrir dómi, að vegna þess ástands muni ákærða ekki atvik umræddan dag heildstætt, svo sem raunar mátti að nokkru leyti ráða af framburði hennar sjálfrar fyrir dómi. Ákærða er því ekki að öllu leyti til frásagnar af athöfnum sínum fyrri hluta dags 14. febrúar sl.

Upplýst er að ákærða og sambýlismaður hennar bjuggu saman í kjallara hússins að [...] er atvik máls gerðust og höfðu gert í um mánaðartíma. Ekki voru aðrir íbúar í kjallaranum. Samkvæmt framburði ákærðu sótti enginn þau heim umræddan morgun og hefur ekkert fram komið í málinu sem bendir til annars en að sá framburður hennar sé réttur. Þá kvaðst ákærða ekki vita til þess að hinn látni hafi átt sökótt við nokkurn mann. Hefur því ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að einhver þriðji aðili hafi komið á heimili sambýlisfólksins umræddan morgun og allt þar til maðurinn lést af völdum stungusársins.

Að því virtu sem að framan er rakið er það mat dómsins að sá vafi sem leikur á sekt ákærðu sé hverfandi. Telur dómurinn því sannað, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærða hafi, á þeim stað og tíma sem í ákæru greinir, veist að sambýlismanni sínum með hnífi og stungið hann einni stungu í brjóstið, hægra megin, þannig að hnífurinn gekk inn í hægra lunga hans, með þeim afleiðingum að hann hlaut bana af völdum blæðingar úr lunganu. Ljóst er samkvæmt framburði H að stunga með hnífi í brjóst hefur almennt mikla hættu í för með sér. Þá réð vitnið af ákomu á rifbeini að stunga sú sem hinn látni varð fyrir hafi verið talsvert kröftug. Atlagan var því stórhættuleg og hlaut ákærðu að vera ljóst að langlíklegast væri að hún myndi leiða til dauða. Samkvæmt öllu þessu verður ákærða sakfelld fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VII

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærðu ekki áður verið gerð refsing. Þótt mikil áfengisneysla ákærðu kunni að hafa verið meginorsök verknaðar hennar, sem og athafna hennar fyrst eftir verknaðinn, hefur það ekki áhrif á ákvörðun refsingar fyrir brotið, sbr. 17. gr. og 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar allt að ævilöngu fangelsi. Svo sem mál þetta liggur fyrir og með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar þykir refsing ákærðu réttilega ákveðin 16 ára fangelsi.

VIII

Í málinu gera foreldrar hins látna, C og B, kröfur um miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna til hvors þeirra um sig á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Auk þess krefst B þess að ákærðu verði gert að bæta henni kostnað við útför hins látna, sbr. 12. gr. sömu laga, samtals 286.107 krónur samkvæmt framlögðum reikningum.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærðu gert að greiða miskabætur til foreldra hins látna, er hæfilega þykja ákveðnar 1.100.000 krónur til hvors þeirra um sig, að viðbættum vöxtum eins og kveðið er á um í dómsorði.

Þá verður ákærða einnig dæmd til þess að bæta B útlagðan kostnað hennar vegna útfarar brotaþola, sbr. 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, samtals 286.107 krónur.

Að endingu verður ákærðu gert að greiða kröfuhöfum málskostnað, svo sem þeir hafa krafist, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er hæfilega þykir ákveðinn 300.000 krónur til hvors þeirra um sig.

IX

Í samræmi við niðurstöðu málsins verður ákærða dæmd til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærðu verður því gert að greiða samtals 832.046 krónur samkvæmt framlögðu sakar­kostnaðaryfirliti ákæruvalds. Hún greiði jafnframt 461.056 krónur vegna réttar­krufningar, sbr. framlagðan reikning þar um frá 4. júní sl., og kostnað vegna komu og vinnu meinafræðings á vettvangi, auk vottorðsgjalds, samtals 101.150 krónur. Þá greiði ákærða enn fremur þóknun skipaðs verjanda, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., er hæfilega þykir ákveðin með hliðsjón af tímaskýrslu verjanda og að virtu eðli og umfangi málsins, að virðisaukaskatti meðtöldum, 2.426.990 krónur. Að endingu verður ákærðu gert að greiða útlagðan kostnað verjanda vegna ferða, samtals 71.760 krónur.

Samkvæmt öllu framangreindu dæmist ákærða til að greiða samtals 3.893.002 krónur í sakarkostnað.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Kristinn Halldórsson, sem dómsformaður, Þorgeir Ingi Njálsson og Ragnheiður Bragadóttir.

D Ó M S O R Ð:

Ákærða, X, sæti fangelsi í 16 ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærða hefur sætt frá 15. febrúar 2015 að fullri dagatölu.

Ákærða greiði samtals 3.893.002 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 2.426.990 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og útlagðan kostnað lögmannsins, 71.760 krónur.

Ákærða greiði B, fæddri [...], 1.386.107 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.1.00.000 krónum frá 14. febrúar 2015 til 13. júní 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.386.107 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.

Ákærða greiði C, fæddum [...], 1.100.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 14. febrúar 2015 til 13. júní 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 300.000 krónur í málskostnað.