Hæstiréttur íslands
Mál nr. 719/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Þriðjudaginn 27. október 2015. |
|
Nr. 719/2015.
|
A (Þórdís Bjarnadóttir hrl.) gegn Velferðarsviði Reykjavíkurborgar (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um nauðungarvistun A á sjúkrahúsi, sem ákveðin hafði verið af innanríkisráðuneytinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2015, sem barst héraðsdómi 19. sama mánaðar, en kærumálsgögn bárust Hæstarétti 27. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2015 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 7. sama mánaðar um að sóknaraðili skyldi vistast á sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun verjanda sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2015.
Með kröfu móttekinni 12. október sl., hefur sóknaraðili, A, [...], Reykjavík, farið þess á leit að felld verði úr gildi ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 7. sama mánaðar, um að hún skuli vistast á sjúkrahúsi. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að málskostnaður skipaðs talsmanns síns verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Málið var þingfest 15. október sl. og tekið samdægurs til úrskurðar.
Varnaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og áðurnefnd ákvörðun innanríkisráðuneytisins um vistun sóknaraðila á sjúkrahúsi verði staðfest. Um aðild varnaraðila vísast til 20. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr., laga nr. 71/1997.
Málavextir:
Með kröfu varnaraðila um nauðungarvistun til innanríkisráðuneytisins frá 6. október sl. fylgdi læknisvottorð B geðlæknis, dagsett sama dag. Þar kemur fram að sóknaraðili sé [...] ára. Hún hafi eignast fyrsta barn sitt 27. ágúst sl. en barnið sé nú í umsjá barnaverndar. Sóknaraðili, sem eigi sér sögu um kvíða, þunglyndi og OCD [þráhyggjuárátturöskun] frá unglingsárum, sé á örorkubótum vegna vefjagigtar. Hún hafi komið fyrst við sögu á geðsviði LSH í apríl 2012 og hafi upp frá því verið í eftirliti hjá hjúkrunarfræðingi. Aðdragandi komu hennar á geðdeild í þetta sinn hafi verið sá að hún leitaði á bráðmóttöku barnadeildar LSH að kvöldi 10. september sl. Hafi barnið þá verið lagt inn vegna ástands móður. Í kjölfarið hafi sóknaraðili verið lögð inn á geðdeild um skamma hríð. Hinn 17. september sl. hafi hún komið í fylgd lögreglu á geðdeild. Hún hafði þá skv. lögreglu neitað að láta barnið af hendi á vistheimilinu og verið mjög æst. Í viðtali við lækni hafi hún verið afar æst og ekki til neinnar samvinnu. Ekki hafi verið klár merki geðrofs en vegna skorts á innsæi og æsings hafi verið gripið til þess ráðs að nauðungarvista hana í 48 klst. og gefa henni geðlyf gegn vilja hennar til koma í veg fyrir að hún ylli sjálfri sér eða öðrum skaða. Hún hafi fengið að fara aftur heim og mætt í viðtöl hjá hjúkrunarfræðingi. Hafi ástand sóknaraðila versnað jafnt og þétt á næstu vikum og endað með því að hún hafi aftur verið nauðungarvistuð í 48 klst. Hún hafi ekki viljað þiggja meðferð. Við skoðun hjá C geðlækni 6. október sl. hafi sóknaraðili vaðið úr einu í annað í frásögn sinni og hafi verið mjög erfitt að halda þræði í frásögn hennar sem snerist m.a. um að hún hefði nýlega, með sjáandahæfileikum sínum, bjargað tveimur hvolpum frá dópsala. Hún hafi verið metin manísk, innsæislaus og með miklimennskuhugmyndir um eigin krafta og mikilvægi sem séu á mörkum ranghugmynda. Við skoðun B sama dag hafi sóknaraðili vaðið úr einu í annað í frásögn sinni. Geðslag hafi verið hækkað og geðbrigði einnig. Hún hafi stórar hugmyndir um sjálfa sig, segist hafa verið best í heimi í öllum þeim störfum sem hún hafi tekið sér fyrir hendur. Ekki hafi komið fram klár geðrofseinkenni í viðtali en innsæi sóknaraðila í núverandi ástand væri skert. Hún teldi sig ekki þurfa neina aðra meðferð en hún hefði fengið til þessa. Læknirinn staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum. Fram kom í máli hans að þörf væri á að nauðungarvista sóknaraðila vegna veikinda hennar. Hún hefði verið í miklu örlyndisástandi við komu á geðdeild og léki grunur á um að hún væri með geðhvarfasýki á byrjunarstigi. Rík ástæða væri til að tryggja öryggi hennar og sjúkdómsgreina hana.
C geðlæknir, sem hefur verið læknir sóknaraðila í núverandi innlögn hennar á deild 32C, gaf einnig símaskýrslu fyrir dóminum. Fram kom í máli hennar að nauðsynlegt væri að sóknaraðili yrði áfram nauðungarvistuð svo að hægt væri að veita henni viðeigandi meðferð. Sóknaraðili væri ennþá í örlyndisástandi og með ekkert innsæi í veikindi sín. Hún væri með óraunhæfar hugmyndir um eigin getu. Grunur væri á að hún væri með geðhvarfasjúkdóm. Það þyrfti að gefa sóknaraðila lyf og vernda hana frá utanaðkomandi áreiti til að ná henni niður.
Sóknaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum. Hún kannaðist við hafa verið í örlyndisástandi en hins vegar væri ástæðulaust að vista hana á sjúkrahúsi. Hún myndi taka þau lyf sem læknar ráðlegðu henni. Hún taldi geðlæknanna ekki átta sig á að hún hefði verið að grínast með sumt af því sem hún hafi sagt, t.d. að hún hafi yfirnáttúrulega hæfileika. Hún kvaðst verða fyrir miklu tekjutapi með því að vera vistuð á sjúkrahúsi en hún væri frumkvöðull í markaðssetningu á netinu.
Talsmaður sóknaraðila vísar til þess að skilyrði 19. gr. laga nr. 71/1997 um nauðungarvistun sóknaraðila séu ekki fyrir hendi og því beri að fella ákvörðun innanríkisráðuneytisins úr gildi.
Talsmaður varnaraðila krefst þess að ákvörðun innanríkisráðuneytisins um nauðungarvistun sóknaraðila verði staðfest. Skilyrði nauðungarvistunar séu og hafi verið uppfyllt og vísar hann um það til framlagðs vottorðs og símaskýrslna geðlækna fyrir dóminum.
Niðurstaða:
Fyrir liggur að sóknaraðili var við komu á bráðamóttöku geðdeildar í örlyndisástandi sem má jafna til alvarlegs geðsjúkdóms. Virðist umrætt ástand hafa varað í nokkrar vikur en sóknaraðili var fyrst innlögð 11. september sl. vegna þess. Þá eru verulegar líkur taldar á að sóknaraðili sé haldin alvarlegum sjúkdómi, geðhvarfasýki, sem þarfnast frekari greiningar og meðhöndlunar. Sóknaraðili hefur hins vegar ekki nægilegt innsæi í vanda sinn og telur sig ekki þurfa á meðferð á sjúkrahúsi að halda. Í ljósi þessa og að virtum þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn, sérstaklega vottorði geðlæknisins B og símaskýrslu hans og C geðlæknis fyrir dóminum, verður að telja að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. laga nr. 71/1997 hvað varðar ástand sóknaraðila. Enn er brýn nauðsyn á að hún dvelji áfram á sjúkrahúsi og fái þar viðeigandi meðferð. Nauðungarvistun hennar er því óhjákvæmileg og verður ekki séð að vægari úrræði dugi. Með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997, og með hagsmuni sóknaraðila sjálfs í huga og líkur hennar á bata með inngripi nú, verður því að staðfesta ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að hún skuli vistast á sjúkrahúsi.
Málskostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 124.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Staðfest er ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 7. október sl. um að sóknaraðili, A, skuli vistast á sjúkrahúsi.
Kostnað af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 124.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði.