Hæstiréttur íslands
Mál nr. 75/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Aðild
- Litis pendens áhrif
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
Þriðjudaginn 2. mars 2010. |
|
|
Nr. 75/2010. |
Steinunn Rósborg Sigurðardóttir (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Arion banka hf. (Helgi Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Aðild. Litispendensáhrif. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli S gegn A hf. var vísað frá dómi. Krafðist S þess í málinu að fá greiddan út helming eignasafns í eignastýringu hjá A hf. sem hún taldi sig eiga tilkall til. Talið var að mál sem rekið væri til staðfestingar á kyrrsetningu sem sýslumaður hafði framkvæmt hjá eiginmanni S í eignasafninu gæti ekki staðið því í vegi að S fengi með dómi skorið úr um kröfu sína sem hún byggði á því að hún ætti helmingshlut í eignasafninu, enda væri hún ekki aðili að málinu milli A hf. og eiginmanns hennar. Hvorki ákvæði 18. né 94. gr. laga nr. 91/1991 stæðu því í vegi að hún gæti höfðað mál til að freista þess að ná fram kröfu sinni. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í máli þessu krefst sóknaraðili greiðslu á fjárhæð sem nemur verðmæti helmings hluta eignastýringarsafns í fjárvörslu hjá varnaraðila, sem hún telur að hún eigi tilkall til eins og nánar er lýst í hinum kærða úrskurði. Deila aðilar málsins meðal annars um hvort eiginmaður sóknaraðila eða þau bæði séu skráðir eigendur safnsins. Varnaraðili, sem þá hét Nýi Kaupþing banki hf., höfðaði mál með stefnu 21. ágúst 2009 á hendur eiginmanni sóknaraðila til staðfestingar á kyrrsetningu sýslumannsins í Hafnarfirði 18. ágúst 2009 á öllu eignasafninu. Sú málshöfðun getur ekki staðið því í vegi að sóknaraðili fái með dómi skorið úr um kröfu sína sem byggir á því að hún eigi helmingshlut í eignasafninu, enda er hún ekki aðili að áðurgreindu dómsmáli milli varnaraðila og eignmanns síns. Hvorki ákvæði 18. gr. né 94. gr. laga nr. 91/1991 standa því í vegi að hún geti höfðað mál til að freista þess að ná fram kröfu sinni. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Arion banki hf., greiði sóknaraðila, Steinunni Rósborgu Sigurðardóttur 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2010.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 29. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Steinunni Sigurðardóttur, Mýrarkoti 6, Álftanesi á hendur Nýja Kaupþingi hf., nú Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík með stefnu birtri í nóvember 2010.
Dómkröfur stefnanda er þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 49.179.500 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. ágúst 2009 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst aðallegar að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu. Til þrautavara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda.
Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.
Í þessum þætti málsins er krafa stefndu um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefnda og krefst málskostnaðar.
Ágreiningsefni
Stefnandi krefst þess að vera skráð ásamt eiginmanni sínum fyrir eignarstýringarsafni nr. 4070500 hjá stefnda. Hinn 18. ágúst sl. fékk stefndi nefnt eignarstýringarsafn kyrrsett hjá sýslumanninum í Hafnarfirði. Er nú rekið staðfestingarmál vegna þess gegn eignmanni stefnanda í Héraðsdómi Reykjaness.
Málsástæður og lagarök stefnda fyrir frávísun
Stefndi styður frávísunarkröfu sína við 4. mgr. 94. gr. eml. Þar segir að þegar mál hafi verið þingfest verði dóms ekki krafist um þær kröfur sem eru gerðar í því í öðru máli og ef dóms er krafist þannig um kröfu í öðru máli, skal vísa henni frá dómi. Staðfestingarmál vegna kyrrsetningar var þingfest 9. september 2009, en stefna þess mál var þingfest í nóvember 2009.
Í báðum málunum er fjallað um sömu hagsmunina, þ.e. þá fjármuni sem liggja á eignarstýringarsafni nr. B 470500 og eru í eigu Einars Þórs Einarssonar. Í staðfestingarmáli vegna kyrrsetningar mun verða fjallað um lögmæti kyrrsetningarinnar á fjármunum í eignarstýringarsafninu. Í þessu máli virðist sem ágreiningur snúist um tilkall stefnanda til helmingshlutdeildar í inneign Einars Þórs í eignarstýringarsafninu. Stefndi telur einsýnt, með vísan til 94. gr. eml., að vísa eigi málinu frá dómi.
Stefndi bendir á að stefnanda hefði verið heimilt að ganga inn í fyrrgreint kyrrsetningarmál með meðalgöngu á grundvelli 40. gr. laga nr. 31/1990, hvort sem það er til niðurfellingar kyrrsetningargerðarinnar eða til að sækja skaðabætur vegna hennar.
Í öðru lagi byggir stefndi frávísun málsins á því að aðild þess sé ekki í réttu horfi. Í málinu sé ágreiningur um inneign sem sé í eigu Einars Þórs og óumdeilt að málið varðar lögvarða hagsmuni hans. Þrátt fyrir það á hann enga aðild að málinu. Stefndi telur að þetta sé annmarki á málatilbúnaði stefnanda sem fari í bága við 2. mgr. 18. gr. eml. og almennar réttarfarsreglur um að kröfur verði ekki hafðar uppi um sakarefni sem varðar rétt þriðja manns án aðildar hans.
Í þriðja lagi byggir stefndi frávísunina á vanreifun málsins. Stefndi telur málatilbúnað stefnanda óskýran og í stefnu sé engin tilraun gerð til að útskýra eða rökstyðja kröfugerðina. Í stefnu sé til að mynda í engu getið á hvaða grundvelli krafan sé gerð eða af hverju stefnandi eigi að fá þessa fjárkröfu dæmda frá stefnda. Í stefnunni sé ekki nokkur grein gerð fyrir réttarsambandi aðila eða af hverju aðild málsins sé með þeim hætti sem hún er. Stefndi telur stefnuna ekki uppfylla skilyrði 1. mgr. 80. gr. eml. um skýran, glöggan og afdráttarlausan málatilbúnað. Því eigi að vísa málinu frá dómi.
Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísun
Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefnda. Hann telur að staðfestingarmál það sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjaness eigi ekki að standa því í vegi að dómur verði lagður á þetta mál. Þar séu kröfur milli annarra aðila og byggðar á öðrum grundvelli. Hann leggur áherslu á að samkvæmt 10. gr. í samningi um eignarstýringu þurfi að tilkynna stefnda ef breyting verði á rétthöfum eignasafnsins. Það hafi verið gert með bréfi 20. júlí 2009, þar sem tilkynnt var að stefnandi ætti safnið með eiginmanni sínum, enda væri safnið hjúskapareign þeirra. Með vísan til 11. gr. sama eignarstýringarsamnings hafi samningnum verið sagt upp hinn 31. júlí 2009 og þess farið á leit að allt safnið yrði lagt inn á bankareikning stefnanda. Hvorugt hafi verið gert. Þá hafi lögmaður stefnanda sent bankastjóra stefnda bréf 17. ágúst 2009 og krafist þess að farið yrði að kröfum umbjóðanda hans. Daginn eftir, 18. ágúst 2009, hafi komið fram krafa um kyrrsetningu og hún tekin til greina hjá sýslumanni.
Þá hafnar stefnandi því að Einar Þór Einarsson, eiginmaður stefnanda, þurfi að vera aðili að máli þessu. Það sé ekki ágreiningur á milli hjónanna.
Stefnandi hafnar einnig þeirri málsástæðu stefnda að vísa eigi málinu frá vegna vanreifunar. Stefnandi telur ágreininginn alveg skýran og hafa komið skýrt fram í stefnu og framlögðum gögnum enda hafi stefndi skilað ítarlegri greinargerð sér til varnar. Krafa stefnanda er á grundvelli fyrirliggjandi samnings. Hald bankans á verðmætum er með öllu óheimil og það eigi að greiða út þá fjárhæð sem krafist er.
Niðurstaða
Í lok stefnu kveður stefnandi að dómkröfur séu til þess að hún fái andvirði af eignasafni sínu greitt út með dráttarvöxtum og kostnaði. Stefnan er þannig sett fram að fjallað er um málavexti, málsástæður og lagarök í einum kafla sem gerir það að verkum að málatilbúnaður verður ekki svo skýr sem skyldi. Það eitt nægir þó ekki til að vísa eigi málinu frá dómi, enda megi reikna með því að málið skýrist frekar við efnismeðferð þess, komi til hennar.
Ágreiningur málsins lýtur að því að stefnandi krefst þess að fá greiddar rúmar 49 milljónir sem mun vera hálft eignasafn B#470500 í eignarstýringu hjá stefnda. Samning um eignarstýringu gerði stefndi við eiginmann stefnanda hinn 4. júní 2004. Stefnandi var ekki aðili að þeim samningi. Stefnandi er að krefjast helmings eignasafnsins sem er á nafni eiginmanns hennar og væntanlega í hans eigu. Því hefði verið rétt að eiginmaður stefnanda ætti aðild að máli þessu.
Fyrir Héraðsdómi Reykjaness er nú rekið mál til staðfestingar á kyrrsetningu sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði framkvæmdi hjá eiginmanni stefnanda þar sem kyrrsett var eign eiginmanns stefnanda í eignasafni hans hjá stefnda. Þau meginskjöl sem stefnandi byggir kröfur sína á, þ.e. tilkynning, dags 20. júlí 2009 til stefnda, um að hluti eignasafnsins sé hennar hjúskapareign og að þau hafi sagt upp eignarstýringar-samningum hinn 31. júlí 2009, liggja fyrir í því máli. Mál þessi varða sömu hagsmuni og verður því að vísa máli þessu frá dómi.
Með vísan til 18. gr. og 94. gr. laga um meðferð einkamála er máli þessu vísað frá dómi. Stefnandi skal greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Steinunn Sigurðardóttir, greiði stefnda, Arion banka hf., 80.000 kr. í málskostnað.