Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-10
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Stjórnsýsla
- Stjórnvaldsákvörðun
- Sveitarfélög
- Kjarasamningur
- Ráðningarsamningur
- Miskabætur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 12. janúar 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. desember 2023 í máli nr. 687/2022: A gegn B og gagnsök. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um miskabætur og ógildingu ákvörðunar forstöðumanns hjúkrunarheimilis sem henni var kynnt í júlí 2020 og fól í sér breytingu á störfum og verksviði hennar. Leyfisbeiðandi telur að ákvörðun um breytingu á starfi hennar megi rekja til atvika frá apríl 2020, sem eigi það sammerkt að varða samskipti leyfisbeiðanda og tiltekins vistmanns.
4. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda en taldi ólíkt héraðsdómi að hin umþrætta ákvörðun hefði verið stjórnvaldsákvörðun. Í dómi Landsréttar segir að ákvörðunin hafi verið reist á málefnalegum sjónarmiðum og var ekki fallist á með leyfisbeiðanda að ætlunin hafi verið að refsa henni. Landsréttur féllst ekki á að gagnaðila hefði fremur borið að áminna leyfisbeiðanda en að taka hina umþrættu ákvörðun. Þá var litið til þess að viðhlítandi skoðun á atvikum og mögulegum úrræðum hefði verið framkvæmd áður en ákvörðunin var tekin og ekki brotið gegn rétti leyfisbeiðanda við meðferð málsins. Auk þess var ekki talið að breyting á starfi hennar hefði verið meira íþyngjandi en efni stóðu til. Loks taldi rétturinn að leyfisbeiðandi hefði með engu móti sýnt fram á að ákvörðunin eða framferði forstöðumanns hjúkrunarheimilisins hefði falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart henni. Einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði þar sem hann taldi að hin umþrætta ákvörðun hefði brotið gegn 10. gr., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því ætti að taka til greina kröfu leyfisbeiðanda um ógildingu ákvörðunarinnar og greiðslu miskabóta.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því í fyrsta lagi að sakarefni málsins sé mikilvægt almennt séð. Með hinni umþrættu ákvörðun hafi starfsmaður verið fluttur úr einu starfi í annað á grundvelli ávirðinga í starfi. Þannig reyni á hvort við slíka aðstöðu skuli forstöðumaður grípa til úrræða eftir kjarasamningi með áminningu eða uppsögn eða hvort forstöðumaður geti stytt sér leið fram hjá settu marki án þess að fylgja málsmeðferðarreglum með því að flytja starfsmann í annað starf gegn vilja hans. Þá hafi sakarefnið almennt gildi enda varði það hversu ríkar kröfur skuli gera til rannsóknar mála eins og þessara þar sem slys verði á vistmanni og starfsmanni kennt um atvikið. Í öðru lagi byggir leyfisbeiðandi á að sakarefnið sé mikilvægt fyrir leyfisbeiðanda persónulega þar sem hún hafi verið niðurlægð og jaðarsett með hinni umþrættu ákvörðun. Í þriðja lagi vísar leyfisbeiðandi til þess að dómurinn sé bersýnilega rangur að efni til og samræmist ekki þeim ríku kröfum sem gerðar séu til rannsóknar mála, meðalhófsreglu og hinnar óskráðu réttmætisreglu. Því til frekari rökstuðnings vísar leyfisbeiðandi til sératkvæðis eins dómara fyrir Landsrétti.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.