Hæstiréttur íslands

Mál nr. 590/2015

Sam-félagið ehf. (Sigurður Sigurjónsson hrl.)
gegn
Vífilfelli hf. (Heimir Örn Herbertsson hrl.)

Lykilorð

  • Skuldamál
  • Samningur
  • Kröfugerð
  • Dómur

Reifun

V hf. krafði S ehf. um endurgreiðslu láns í tengslum við kaup S ehf. á drykkjarvörum af V hf. Talið var að með viðskiptasamningi aðila hefði V hf. veitt S ehf. lán með því að afhenda félaginu fyrirfram afslátt vegna viðskiptanna og að V hf. hefði ekki leyst S ehf. undan greiðsluskyldu með bréfi í tengslum við niðurfellingu á einkasölurétti samkvæmt samningnum. Þar sem um verulega vanefnd hefði verið að ræða af hálfu S ehf. á samningi aðila hefði V hf. verið heimilt að fella allar eftirstöðvar skuldarinnar í gjalddaga með stefnu í málinu. Var S ehf. því gert að greiða eftirstöðvar lánsins en varakrafa félagsins kom ekki til álita í málinu þar sem hún var talin fara í bága við 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2015. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að hafnað verði kröfu stefnda um dráttarvexti og að staðfest verði að endurgreiðslum áfrýjanda til stefnda verði háttað til samræmis við 8. grein samnings aðila 28. apríl 2006. Í því tilviki krefst hann þess að málskostnaður verði látinn niður falla á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að áfrýjanda verði gert að greiða sér 27.369.216 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 30. apríl 2014 til greiðsludags. Jafnframt að málskostnaðarákvæði héraðsdóms verði staðfest og áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti.

Varakrafa áfrýjanda hér fyrir dómi og í héraði felur það í sér að greiðsluskylda hans verði bundin við framtíðarviðskipti aðila og svari til afsláttar sem hann hefur notið í þeim. Með því móti yrði skírskotað til atvika sem síðar kunna að koma fram. Fer  krafan í bága við 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kemur því ekki til álita. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sam-félagið ehf., greiði stefnda, Vífilfelli hf., 450.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2015.

                Þetta mál, sem var tekið til dóms 11. maí 2015, er höfðað af Vífilfelli hf., kt. [...], Stuðlahálsi 1, Reykjavík, með stefnu birtri 24. júní 2014, á hendur Sam-félag­inu ehf., kt. [...], Álfa­bakka 8, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjár­hæð 56.821.398 kr. ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 30. apríl 2014 til greiðsludags, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga.

                Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda.

                Til vara krefst hann þess að hafnað verði kröfum stefnanda um dráttarvexti og að dómurinn staðfesti, að endurgreiðslu láns stefnda við stefnanda verði háttað til sam­ræmis við ákvæði 8. gr. samnings aðila, dagsetts 28. apríl 2006.

                Hann krefst þess jafnframt að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum máls­kostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

Málsatvik

                Stefnandi framleiðir gosdrykki og flytur inn ýmsan varning en stefndi rekur keðju kvikmyndahúsa. Málsaðilar hafa verið í viðskiptasambandi í 32 ár. Þeir gerðu, 28. apríl 2006, viðskiptasamning um kaup stefnda á drykkjarvörum af stefnanda til sölu í tilteknum kvikmyndahúsum og sölustöðum stefnda. Samkvæmt samn­ingnum var stefndi skuldbundinn til að kaupa eingöngu drykkj­ar­vörur af stefn­anda til end­ur­sölu á framan­greindum stöðum. Samn­ing­ur­inn var að því leyti sam­bæri­legur öðrum við­skipta­samningum sem stefn­andi gerði á þessum tíma.

                Vegna málsástæðna beggja þykir nauðsynlegt að reifa nokkur ákvæði samn­ings­ins sérstaklega.

                Í 3. gr. samningsins segir:

Með samningi þessum skuldbindur kaupandi [stefndi, Sam-félagið] sig til að veita selj­anda [stefnanda, Vífilfelli] einkasölurétt í kvikmyndahúsum sínum. Í einkasölurétti þessum felst eftirfarandi:

  1. Kaupandi skuldbindur sig til að selja eingöngu gosdrykki, kolsýrt vatn, íþrótta- og orku­drykki og safa sem framleiddir eru hjá seljanda eða fluttir inn af honum.

                    Í 5. gr. segir meðal annars:

    Kaupandi skuldbindur sig til þess að fullnægja eftirtöldum skilyrðum undir öllum kringumstæðum;

  1. að selja eingöngu vörur frá seljanda í samræmi við 1. og 3. gr.

  2. ...

  3. að vera ekki í verulegum og viðvarandi vanskilum við seljanda.

                    Í 6. gr. er mælt fyrir um endurgjald fyrir einkasöluréttinn:

    Sem endurgjald fyrir einkaréttinn nýtur kaupandi afsláttar af vörum frá seljanda í sam­ræmi við fylgiskjal nr. 2. Afsláttur þessi miðast við þau greiðslukjör, sem kaupandi nýtur hverju sinni og ekki sé um veruleg eða viðvarandi vanskil að ræða.

    Allir afslættir vegna post mix viðskipta (...) greiðast fyrirfram skv. nánari ákvæðum í 8. gr.

                    Í 7. gr. er rætt um eftirstöðvar fyrir fram greidds afsláttar skv. eldri samningi:

    Eftirstöðvar fyrirframgreidds afsláttar frá fyrri viðskiptasamningi aðila, dags. 18. mars 2004, skv. yfirliti í fylgiskjali 3, eru við mánaðamót mars / apríl kr. X.xxx.xxx,-. Við opnun nýs kvikmyndahúss í Grafarvogi fellur ofangreindur viðskiptasamningur úr gildi og eftirstöðvar fyrirframgreidds afsláttar skv. þeim samningi falla niður á þeim tíma­punkti.

    Greind niðurfærsla er bundin því skilyrði að samningi þessum sé ekki sagt upp, honum rift eða hann falli úr gildi af öðrum ástæðum. Falli samningurinn úr gildi vegna upp­sagnar, riftunar eða af öðrum viðlíka ástæðum, þá hækkar skuldin vegna fyrir­fram­greidds afsláttar, um sem nemur eftirstöðvum niðurfellingarinnar. Eftirstöðvar niður­fell­ing­ar­innar taka breytingum á samningstímanum, þ.e. þær lækka hlutfallslega miðað við keypt magn framleiðsluvara seljanda.

                    Í 8. gr. segir svo:

    Seljandi lánar kaupanda kr. 177.500.000,- sem greiðist þannig, kr. 100.000.000, 30. apríl og kr. 77.500.000, 30. ágúst 2006. Lánið er tengt afsláttar­kjörum kaupanda á post­mixi og endurgreiðist mánaðarlega 75,21 kr. pr. keyptan RTD líter (hver póst­mix­kútur inniheldur 115,2 RTD lítra). Til trygg­ingar á fullum og réttum efndum samn­ings þessa, þ.m.t. endur­greiðslu lánsins sam­kvæmt samningi þessum gefur kaup­andi út ábyrgðir sem Vífilfell sam­þykkir. Trygg­ing­ar­nar eru til endurgreiðslu lánsins og van­efnda á viðskiptaskuld eða öðrum kröfum sem seljandi á á hendur kaupanda, þar með talið ábyrgðar sem seljandi kann að veita kaupanda. Ef brot verða á samningi þessum eða annað það kemur upp, sem leiðir til ógildis samningsins eða riftunar hans, getur Vífilfell hf. þá þegar gengið á ábyrgðirnar og hafið innheimtu. ... Seljandi mun afhenda forsvarsmönnum kaupanda ábyrgðirnar að samningstíma loknum, enda hafi þeir efnt hann að fullu.

    Áætlaður endurgreiðslutími er 4 ár í samræmi við áætluð magnkaup skv. 11. gr.

    Ofangreint lán er skuld kaupanda in solidum við seljanda þar til kaupandi hefur að fullu keypt það magn sem um ræðir í 11. grein.

    Mánaðarlega mun seljandi gefa út kreditreikning í samræmi við sölu fyrir áunnum afslætti sem færist til lækkunar á láninu. Virðisaukaskattur af kreditreikningnum er milli­færður til lækkunar á hefðbundinni viðskiptaskuld.

    Séu að 4 árum liðnum, eftirstöðvar á láninu skv. 1. ml. gr. 8, skulu samningsaðilar leit­ast til þess að semja um eftirstöðvarnar.

                    Í 9. gr. er yfirlit yfir úrræði vegna vanefnda:

    Standi annar aðili samnings þessa ekki í skilum með greiðslur afborgana, vaxta eða kostnaðar af viðskiptaskuldum, uppfylli ekki skilyrði 5. gr., hætti viðskiptum við mót­aðila, brjóti hann gegn hagsmunum mótaðila, leiti hann nauðasamninga, sé kvik­mynda­húsi eða gosverksmiðju lokað af þar til bærum yfirvöldum eða sé gert hjá samn­ings­aðila árangurslaust fjárnám, verði bú hans tekið til gjaldþrotaskipta, eða brjóti hann gegn efni samnings þessa að öðru leyti í verulegum atriðum er kaupanda jafnt sem seljanda heimilt án fyrirvara að rifta samningi þessum.

    Tilkynna skal mótaðila skriflega og með sannanlegum hætti um riftunina og ástæður hennar. ... Jafnframt skal kaupandi endurgreiða þegar að fullu eftirstöðvar láns skv. gr. 8.  Sama gildir ef samningur þessi fellur úr gildi eða er rift af öðrum ástæðum en þeim sem getur hér að ofan.

    Verði ekki staðið í skilum með greiðslu afborgana af fyrirframgreiddum afslætti eða  við­skiptagerningum á réttum gjalddögum skal kaupandi greiða dráttarvexti af skuld­inni samkvæmt lögum nr. 38 frá 2001 um vexti og verðtryggingu, ásamt síðari breyt­ingum.

    Kaupandi og seljandi ábyrgjast fullar og réttar efndir samnings þessa.

                    Í 11. gr. er fjallað um gildistíma:

    Samningur þessi gildir frá opnun nýs kvikmyndahúss kaupanda í Grafarvogi (áætlað í des­em­ber 2006) og þar til kaupandi hefur selt 2.360.000 lítra (tilbúnir til neyslu) af post mix gosi skv. samningi þessum. Samningsaðilar áætla skv. gefnum forsendum að samn­ings­tíminn verði 4 ár.

                    Stefnandi lítur svo á að með samningnum hafi hann lánað stefnda 177.500.000 kr. með fyrirframgreiddum afslætti af „post-mix“ viðskiptum, þ.e. við­skiptum með hrá­efni, gosdrykkjarþykkni/síróp, til að búa til gos á krana.

                    Eins og rakið er í samningnum var endurgreiðsla lánsins miðuð við afslátt­ar­kjör stefnda vegna viðskipta við stefn­anda á tiltekinn hátt. Áætlaður endur­greiðslu­tími láns­ins var fjögur ár miðað við áætl­anir samningsaðila um það magn drykkj­ar­vöru sem stefndi myndi selja.

                    Stefndi lítur svo á að þrátt fyrir að upphaflega hafi verið áætlað, að samn­ing­ur­inn gilti í fjögur ár sé það reyndin að samningurinn sé enn í gildi.

                    Eins og lýst er í 8. gr. samningsins lækkaði skuld stefnda reglu­lega þegar stefn­andi gaf út kredit­reikninga vegna kaupa stefnda á hrá­efni af stefnanda á grund­velli við­skipta­samn­ings­ins. Árlegar end­ur­greiðslur námu frá u.þ.b. 17 millj­ónum króna til ríf­lega 26 millj­óna króna, allt eftir seldu magni drykkja. Upp­haf­legar áætl­anir um end­ur­greiðslu­hraða lánsins stóð­ust ekki en stefn­andi lét við það sitja að afborg­anir af lán­inu héldu áfram eins og verið hefði og gerði hvorugur samnings­aðila athuga­semdir við það.

                    Stefndi mun aldrei hafa gefið út þær ábyrgðir sem nefndar eru í 8. gr. og stefn­andi ekki gengið eftir því að hann gæfi þær út.

                    Stefndi lítur svo á að hann hafi endurgreitt fyrirframgreidda afsláttinn sam­kvæmt fyrirmælum ákvæðisins til þessa dags. Hann telur jafnframt að fyrir­fram­greiðsla afsláttarins sé við­skiptakvöð á hann vegna skuld­bind­ingar um að versla ein­göngu með drykkj­ar­vörur við stefnanda.

                    Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í máli nr. 11/2011 að stefnandi hefði notið ráðandi stöðu á markaði fyrir gos­drykki til endursölu á Íslandi á árunum 2007-2009. Það hefði meðal annars þau áhrif, að mati eftir­lits­ins, að stefnandi mætti ekki áskilja sér einkarétt til sölu á gosdrykkjum hjá við­skipta­vinum sínum. Stefnandi var ósam­mála þessari niðurstöðu og skaut henni til áfrýjun­ar­nefndar samkeppnismála. Í úrskurði nefndarinnar var niðurstaða Sam­keppn­is­eftirlitsins um markaðsráðandi stöðu stefn­anda staðfest en stjórnvaldssekt eftirlitsins lækkuð verulega. Stefnandi skaut niður­stöðu áfrýjunarnefndarinnar til dómstóla. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úrskurð hennar úr gildi, 18. nóv­em­ber 2013, með dómi í máli nr. E-1410/2012. Honum áfrýjaði Sam­keppn­is­eftir­litið til Hæstaréttar sem staðfesti héraðs­dóm.

                    Stefnandi tekur fram að þrátt fyrir að hann hefði verið ósammála niðurstöðu Sam­keppn­is­eftirlitsins á sínum tíma, og sé enn, hafi hann orðið að bregðast við þeirri ákvörðun sem eftirlitið tók og laga markaðsfærslu sína að þeim möguleika að hann teld­ist vera í mark­aðs­ráðandi stöðu. Af þeim sökum hafi hann gert ýmsar breytingar á samn­ingum við við­skipta­vini sína. Hann hafi meðal annars ekki lengur krafist einka­réttar til sölu á drykkj­ar­vörum hjá þeim, og hafi því þurft að segja slíkum ákvæðum upp. Eftir sem áður hafi þeim við­skipta­vinum, sem staðið hafi í skuld við stefnanda, verið boðið að end­ur­greiða hana, eins og áður, með þeim afsláttarkjörum sem þeir nutu. Eini mun­ur­inn hafi verið sá að þeim hafi ekki lengur verið skylt að eiga ein­göngu við­skipti við stefn­anda. Hugnað­ist það við­skiptavini betur að endurgreiða skuld sína með pen­ingum hafi það vita­skuld verið mögulegt.

                    Stefnandi kveðst, vegna þessara aðstæðna, hafa sent nokkrum viðskiptavina sinna, þar á meðal stefnda, staðlað bréf, 18. desember 2012, þar sem hann tilkynnti þeim upp­sögn til­tek­inna ákvæða við­skipta­samn­ings aðila. Í upp­sögn­inni hafi falist að felld væri niður sú kvöð í við­skipta­samningnum að viðkomandi viðskiptavini væri skylt að kaupa ein­ungis af stefnanda til­teknar drykkjarvörur.

                    Stefnandi lítur svo á að með orðalagi bréfsins hafi hann vísað til ákvæðis 3. gr. og þeirra töluliða ákvæðis 5. gr. viðskiptasamn­ings­ins við stefnda sem lutu að einka­sölu­­réttinum. Tekið hafi verið fram að stefnda væri vel­komið að eiga áfram við­skipti við stefn­anda. Þá var sérstaklega tekið fram að stæði stefndi í skuld við stefn­anda vegna við­skipta þeirra væru fulltrúar stefnanda reiðubúnir til viðræðna um upp­gjör slíkra krafna. Stefnandi telur skilning stefnda á efni bréfsins end­ur­speglast í því að eftir að stefndi hafi fengið bréfið hafi hann haldið áfram að kaupa gos­drykkj­ar­þykkni af stefnanda og þar með haldið áfram að end­ur­greiða skuld sína við stefn­anda vegna fyrir­fram­greidda afsláttarins á sama hátt og áður.

                    Stefndi sér efni þessa bréfs stefnanda, 18. desember 2012, öðrum augum en stefn­andi og telur hann hafa lýst yfir því einhliða að viðskiptasamningnum frá því í apríl 2006 væri sagt upp: Með vísan til fram­an­greinds tilkynnist yður hér með að við­skipta­samn­ingi yðar við Vífilfell hf. er sagt upp. Í því felst að öll ákvæði við­skipta­samn­ings­ins sem lagt hafa viðskiptakvaðir á hendur fyrir­tæki yðar eru óskuld­bind­andi fyrir yður.

                    Stefndi áréttar að hann hafi greitt að fullu skuldir við stefnanda vegna vara sem hann hafi keypt af honum.

                    Árið 2013 ræddu málsaðilar um gerð nýs viðskiptasamnings. Í þeim viðræðum var meðal annars rætt um viðskiptaskuld stefnda og hvort og hvernig samist gæti um ann­ars konar uppgjör hennar. Stefnandi kveðst hafa gert stefnda ýmis tilboð þar að lút­andi. Stefndi hafi aldrei lýst þeirri afstöðu að hann teldi sér ekki skylt að endur­greiða skuld­ina.

                    Stefndi sendi stefnanda bréf, 23. október 2013. Þar segir að hann hafi fallist á upp­sögn viðskiptasamningsins af hálfu stefnanda á sínum tíma en í bréfi stefnanda hafi falist að öll ákvæði viðskiptasamningsins um við­skipta­kvaðir á hendur stefnda hefðu orðið óskuld­bindandi. Stefndi gerði einnig grein fyrir því mati sínu að aðilar myndu ekki ná saman um við­skiptakjör en stefndi myndi þrátt fyrir það halda áfram að eiga við­skipti við stefn­anda „ef svo bæri undir“.

                    Um svipað leyti mun stefndi hafa gert viðskiptasamning við Ölgerð Egils Skalla­gríms­sonar. Frá ára­mótum 2013/2014 hafa nánast engin við­skipti verið milli stefn­anda og stefnda. Stefn­andi gerir engar athugasemdir við þá ákvörðun stefnda að gera við­skipta­samning við Ölgerð Egils Skallagrímssonar þar sem stefndi hafi verið leystur undan þeirri viðskiptakvöð stefnanda að mega ein­göngu kaupa drykkj­ar­vörur af honum. Eftir standi hins vegar að stefndi skuldi stefnanda 56.821.398 kr. sem honum beri að endur­greiða.

                    Stefnandi sendi stefnda bréf, 31. mars 2014, þar sem stefnda var boðið að end­ur­greiða skuld sína samkvæmt útreiknaðri meðaltalsendurgreiðslu á mánuði þar til skuldin yrði að fullu greidd. Þá var einnig tekið fram að stefnda væri frjálst að stað­greiða skuldina að fullu þá þegar. Í bréfinu var stefnda einnig boðið að halda áfram við­skiptum við stefn­anda og að nýta boðinn viðskiptaafslátt til mánaðarlegrar endur­greiðslu á skuld sinni en eftirstöðvar hverrar afborgunar, ef einhverjar væru, yrðu greiddar með pen­ingum. Í nið­ur­lagi bréfsins var tekið fram að tilboðið væri gert með fyrir­vara um að sam­komu­lag næðist á milli aðila. Að öðrum kosti áskildi stefn­andi sér rétt til að gera ýtrustu kröfur á hendur stefnda. Stefndi svaraði ekki bréfi stefn­anda.

                    Frá sjónarhóli stefnda krafði stefnandi hann um greiðslu 56.821.398 kr. með bréf­inu 31. mars 2014. Í því hafi stefnandi jafnframt haldið því fram, að með uppsögn við­skipta­samnings aðila hefði stefndi ekki verið leystur undan öllum við­skipta­kvöðum, þ.e. endurgreiðslu fyrir­fram­greidds afsláttar. Að auki hafi stefnandi fullyrt, að stefndi hefði aldrei lýst því yfir, að hann teldi sig óbundinn eða honum óskylt að end­ur­greiða hinn fyrir­fram­greidda afslátt.

                    Frekari samskipti aðila eftir þetta, öll að frumkvæði stefnanda, hafa ekki leitt til lausnar. Lögmaður stefnanda sendi lögmanni stefnda tölvupóst 27. maí 2014 þar sem ítrekað var að skuldin skyldi greidd. Stefnda var gert viðvart um að leysa yrði málið án tafar, að öðrum kosti yrði stefnandi að innheimta kröfuna með atbeina dóm­stóla. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir stefnanda hafi skuldin ekki fengist greidd. Stefn­anda sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

    Málsástæður og lagarök stefnanda

                    Stefnandi byggir kröfu sína á því að af viðskiptasamningi málsaðila og því hvernig þeir unnu samkvæmt honum leiði að stefnda beri að greiða stefnanda skuld­ina.

                    Fyrir liggi að stefnandi hafi lánað stefnda 177.500.000 kr. með samningi 28. apríl 2006. Óumdeilt sé að ógreiddar eftirstöðvar lánsins nemi nú 56.821.398 kr. Stefn­andi hafi aldrei, hvorki beint né óbeint, gefið stefnda til kynna að hann þyrfti ekki að endur­greiða lánið að fullu. Frá því að stefnandi hafi veitt stefnda lánið og fram til ára­móta 2013 og 2014 hafi stefndi greitt mánaðarlega af láninu á þann hátt sem lýst hafi verið. Árlegar endur­greiðslur stefnda hafi numið frá u.þ.b. 17 milljónum króna og til u.þ.b. 26 milljóna króna. Vegna atvika sem varði stefnda hafi honum gengið hægar að end­ur­greiða lánið en gert var ráð fyrir í viðskiptasamningnum en stefn­andi hafi sætt sig við að árlegar endur­greiðslur lánsins væru á því bili sem þær voru.

                    Frá og með áramótum 2013 og 2014 hafi stefndi ekkert greitt upp í skuld sína og hafi hann þannig, að mati stefnanda, vanefnt skyldur sínar verulega. Í stað þess að stefn­andi fengi að meðaltali mánaðarlegar endurgreiðslur upp í lánið að fjárhæð 1,5 til ríf­lega 2 milljónir króna hafi stefnandi engar greiðslur fengið. Með því að stefndi hafi á þennan hátt vanefnt verulega þá skyldu sína að endurgreiða skuldina telji stefn­andi sér heimilt að gjaldfella hana í heild sinni og beri að líta á stefnu þessa máls sem til­kynn­ingu um slíka gjaldfellingu. Af því leiði að stefnda beri að endurgreiða eftir­stöðvar skuldar sinnar í heilu lagi með dráttarvöxtum eins og krafist er.

                    Stefnandi telur það ljóst að með því að segja upp þeim ákvæðum við­skipta­samn­ings aðila sem lögðu við­skipta­kvaðir á stefnda hafi ekki falist nein viðurkenning hans á því að stefnda væri óskylt að endurgreiða þá fjárhæð sem hann hefði fengið að láni. Megin­ástæður þess að stefn­andi hafi þurft að grípa til þessa úrræðis hafi verið ákvarð­anir Sam­keppnis­eftir­litsins en í upp­sögn viðskiptasamningsins hafi fal­ist, eins og áður segi, að þau ákvæði samn­ings­ins sem lögðu viðskiptakvaðir á stefnda urðu óskuld­bind­andi fyrir hann. Stefndi hafi haldið óskertum við­skipta­kjörum og sú breyt­ing á við­skipta­samn­ingi aðila sem stefn­andi hafi til­kynnt stefnda um hafi að öllu leyti verið íviln­andi fyrir stefnda. Einnig liggi fyrir að við­skipta­sam­band þeirra og endur­greiðslur stefnda til stefnanda hafi haldið áfram eftir upp­sögn samn­ings­ákvæð­anna og fram eftir öllu árinu 2013 án nokk­urra athuga­semda stefnda. Á sama tíma hafi máls­aðilar verið í samn­inga­við­ræðum um gerð nýs við­skipta­samn­ings og uppgjör skuldar­innar í tengslum við það. Á árinu 2014 hafi þeir einnig rætt um uppgjör skuld­ar­innar. Stefndi hafi því aldrei getað staðið í þeirri trú að skuldin hefði fallið niður á ein­hvern hátt í heild eða að hluta.

                    Stefnandi hafi ávallt verið reiðubúinn að eiga viðskipti við stefnda og selja honum vörur. Þegar stefndi hafi tilkynnt stefnanda, 23. október 2013, að þeir myndu ekki ná saman um við­skipta­kjör á grund­velli nýs við­skipta­samn­ings og ákveðið að hætta viðskiptum við stefnanda hafi, eðli málsins samkvæmt, brostið forsendur fyrir end­ur­greiðslum láns­ins sem miðaðar hefðu verið við afslátt­ar­kjör til stefnda. Eftir standi að stefndi geti endurgreitt skuld­ina með peningum úr því hann vilji ekki halda áfram að gera það með afsláttar­kjörum á grund­velli viðskipta við stefnanda.

                    Þar sem stefndi hafi kosið að hafna viðvarandi viðskiptum við stefnanda og kaupa vörur af honum, þrátt fyrir að hafa staðið það til boða, og þar sem stefndi hafi van­efnt verulega, um margra mánaða skeið, að endurgreiða skuldina á sam­bæri­legan hátt og áður, krefjist stefnandi þess að stefndi endurgreiði skuldina í heild með pen­ingum. Telji dómurinn að réttara væri að mæla fyrir um mildara endur­greiðslu­fyrir­komu­lag á skuldinni bendi stefnandi á að hann hafi þegar boðið stefnda að end­ur­greiða skuldina með mánaðarlegum peningagreiðslum sem taki mið af meðal­tali afborg­ana stefnda á lánstímanum.

                    Stefnandi krefst dráttarvaxta af stefnufjárhæðinni frá 30. apríl 2014 en þá var lið­inn mánuður frá því að hann sendi stefnda bréf þar sem afstaða stefnanda var skýrt reifuð og krafist uppgjörs skuldarinnar að fullu.

                    Stefnandi hafi ítrekað boðið stefnda að semja um skuldina og hafi boðið honum ýmsar leiðir í því efni. Það hafi allt verið án árangurs. Því sé ljóst að stefndi ætli sér ekki að endurgreiða skuldina. Stefnandi byggi á því að stefnda beri að endur­greiða skuld sína að fullu og vísar til þess sem að framan er rakið.

                    Kröfu sinni til stuðn­ings vísar stefnandi einnig til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar um skuld­bind­ing­ar­gildi samninga og efndir fjárskuldbindinga. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verð­trygg­ingu nr. 38/2001. Krafa stefnanda um málskostnað sæki stoð sína í 129. og 130. gr. laga um með­ferð einkamála nr. 91/1991. Val á varnar­þingi styðjist við 33. gr. sömu laga.

    Málsástæður og lagarök stefnda

                    Aðalkröfu sína um sýknu byggir stefndi á því að allar skuldbindingar milli aðila sem voru reistar á hinum gagnkvæma viðskiptasamningi hafi fallið niður við ein­hliða upp­sögn stefnanda á honum. Stefnandi geti ekki í senn bæði haldið og sleppt, þ.e. komið sjálfum sér undan ákvæðum samn­ings­ins en í sömu andránni gert þá kröfu að viðsemjanda hans sé ætlað að axla auknar skyldur umfram efni samningsins.

                    Stefnandi hafi einhliða lýst yfir því að stefndi væri laus undan öllum við­skipta­kvöðum samkvæmt samningi aðila. Á það hafi stefndi fallist með bréfi sínu 23. októ­ber 2013. Viðskiptakvaðir hafi verið allar íþyngjandi skyldur, sem stefndi tókst á hendur með samningi aðila. Þær skyldur hafi annars vegar falist í því að eiga engin við­skipti um gosdrykki og gosdrykkjavörur við aðra en Vífilfell og hins vegar í því að end­ur­greiða Vífilfelli afslátt á umsaminn hátt samkvæmt 8. gr. samnings aðila, sem greiddur var út við samningsundirritun. Skuldir stefnda við stefnanda hafi verið við­skipta­skuldir vegna daglegra viðskipta og séu ekki skilgreindar sem kvaðir. Þær hafi stefndi greitt að fullu.

                    Með einhliða yfirlýsingu sinni hafi stefndi fallist á einhliða breytingu stefn­anda á samningi aðila að því leyti að viðskiptakvaðir væru felldar niður. Telja verði að krafa stefnanda eigi þegar af þeirri ástæðu ekki við rök að styðjast og beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

                    Í yfirlýsingum stefnanda felist að hann hafi breytt viðskiptagrundvelli aðila ein­hliða. Með því hafi forsendur fyrir viðskiptum aðila algerlega brostið. Vegna þess­arar ein­hliða yfirlýsingar stefnanda hafi stefndi ekki getað greitt hinn fyrir­fram greidda afslátt á sama hátt og hefðu viðskipti málsaðila verið óbreytt. Af þeirri ástæðu verði yfir­lýs­ing stefn­anda ekki skilin á annan hátt en þann að felld sé niður ein­hver endur­greiðslu­kvöð vegna afsláttar.

                    Það er varakrafa stefnda að dómurinn staðfesti að ákvæði samnings aðila er lúti að endurgreiðslu stefnda til stefnanda standi óhögguð til samræmis við ákvæði 8. gr. samnings aðila dags. 28. nóvember 2006. Varakröfu sína byggi stefndi á því að stefn­anda hafi verið óheimilt að segja einhliða upp gagnkvæmum viðskiptasamningi á milli aðila og fella þar með úr gildi skýr ákvæði samningsins um hvernig bæri að standa að greiðslum á milli aðila.

                    Í 9. gr. samningsins frá 28. apríl 2006 séu tæmandi talin þau van­efnda­úr­ræði sem heimili samningsaðilum að rifta umræddum samningi. Við einhliða upp­sögn stefn­anda á gagnkvæmum samningi aðila beri stefnandi fyrir sig að vegna úrlausna sam­keppnisyfirvalda hafi nauðsyn borið til að endurskoða heildstætt við­skipta­samn­inga. Þetta geri stefnandi þrátt fyrir að hvergi komi fram í ákvörðun sam­keppn­is­yfir­valda að viðskiptasamningur aðila sé ólögmætur. Þvert á móti varði brot stefn­anda gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 við tiltekin ákvæði viðskipta­samn­ings aðila.

                    Hafi brot stefnanda hins vegar verið það alvarleg að þau hafi varðað ógildingu samn­ingsins, sbr. 1. mgr. 33. gr. samkeppnislaga, komi skýrt fram í 2. mgr. sömu greinar að öll önnur samningsákvæði sem teljist hafa efnislegt og efnanlegt sjálfstæði frá þeim ákvæðum sem brutu í bága við bannákvæði laganna haldi gildi sínu áfram.

                    Hafi stefnanda máls borið að segja upp samningi aðila þar sem hann hafi brotið gegn bannákvæðum samkeppnislega standi eftir að stefnanda hafi verið óheim­ilt að fella einhliða úr gildi það ákvæði samningsins er laut að því hvernig skyldi staðið að end­ur­greiðslu á milli aðila.

                    Með hliðsjón af meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga sé það ekki á færi stefnanda, eins og atvikum sé háttað, að segja einhliða upp samn­ings­sam­bandi við stefnda og gera þá kröfu að stefndi taki á sig með íþyngjandi hætti meiri skyldur en ráð var fyrir gert í hinum upphaflega samningi. Í upphafi hafi verið samið um á hvaða hátt stefndi ætti að endurgreiða umrætt lán. Stefnanda sé með öllu óheimilt að fella frekari og þyngri kvaðir á stefnda og grípa þannig einhliða inn í gagn­kvæmt samningssamband aðila og breyta því með íþyngj­andi hætti. Þannig sé ljóst að gjald­felling meintra eftirstöðva sé óheimil og órök­studd með öllu. Það fari gegn ákvæðum samnings aðila.

                    Stefndi eigi í viðskiptum við stefnanda og hafi engin breyting orðið á fram­kvæmd þess uppgjörsfyrirkomulags sem ríkti í samskiptum aðila þótt við­skiptin séu minni. Þannig haldi stefnandi eftir afslætti vegna útsendra reikn­inga til stefnda. Þessi við­tekna og athugasemdalausa venja stefnanda við framkvæmd upp­gjörs styðji enn frekar við varakröfu stefnda. 

                    Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfu­réttar um efndir skuldbindinga og samninga. Hann vísar til sam­keppn­is­laga nr. 44/2005, einkum 33. gr. Krafa stefnda um málskostnað er byggð á ákvæðum XXVI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum ákvæða 129. og 130. gr.

    Niðurstaða

                    Stefnandi segir það grundvöll kröfu sinnar að hann hafi veitt stefnda lán sem stefndi hafi hætt að greiða af. Þar sem vanefndin hafi verið veruleg hafi stefnandi gjald­fellt lánið í heild með stefnunni.

                    Enda þótt stefndi noti aldrei orðið lán í greinargerð sinni virðist hann strangt til tekið ekki vefengja að hann hafi tekið lán hjá stefn­anda með því að fá afhentan fyrir fram afsláttinn af því gosdrykkjarþykkni sem hann ráðgerði að kaupa af stefnanda.

                    Við aðalmeðferð byggði hann þó á því að hann hefði ekki tekið lán hjá stefnda. Þvert á móti hafi stefnandi greitt honum fé fyrir að skipta aðeins við sig. Stefn­andi hafi síðan leyst hann að fullu og öllu undan þeim samningi og þar með leyst stefnda undan þessari einkasöluskyldu. Þar sem afhending fjár­mun­anna hafi ekki verið lán heldur endurgjald fyrir einka­sölu­rétt, sem stefnandi hafi með bréfinu 18. des­em­ber 2012 lýst yfir að hann væri hættur að nýta, beri stefnda ekki að greiða stefn­anda neitt.

                    Eins og segir í samningi málsaðila, 28. apríl 2006, veitti stefnandi stefnda afslátt sem endurgjald fyrir þá skuldbindingu að selja einungis drykkjarvörur frá stefn­anda. Sá afsláttur var annars vegar veittur samtímis því að stefndi keypti pakkaðar drykkj­ar­vörur af stefnanda hvort sem var í málmdós, plasti, gleri eða fernu og hins vegar afhentur fyrir fram fyrir við­skipti með gosdrykkjarþykkni (síróp) á kútum sem stefndi endur­seldi við­skipta­vinum sínum sem gos úr krana.

                    Frá þessum fyrirframafhenta afslætti var þannig gengið að samningsaðilar ráð­gerðu að stefndi seldi 2.360.000 lítra af drykkjarhæfu gosi á fjögurra ára tímabili. Óvíst er hversu mörgum hundraðshlutum af listaverði stefnanda sá afsláttur nam en í krónum talið nam hann 75,21 krónu á hvern lítra drykkjarhæfs goss. Afsláttur af því magni nam því (2.360.000 l. x 75,21 kr.) 177.495.600 krónum og afhenti stefnandi stefnda í samræmi við það 177.500.000 kr.

                    Í 8. gr. samningsins er þessi fyrirframafhenti afsláttur kallaður lán. Þar er einnig tekið fram að til tryggingar greiðslu þessa láns skuli stefndi gefa út ábyrgðir sem stefnandi samþykki. Afhenda átti stefnda ábyrgðirnar í lok samningstímans, hefði hann þá efnt samn­ing­inn að fullu. Í 3. mgr. 8. gr. segir að lánið sé skuld kaupanda þar til hann hafi að fullu keypt það magn sem tilgreint er í 11. gr. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skyldu málsaðilar leitast við að semja um eftirstöðvar lánsins yrðu þær ein­hverjar að fjórum árum liðnum. Í 2. mgr. 9. gr. er tekið fram að sé samningi rift skuli kaup­andi endurgreiða að fullu eftirstöðvar láns skv. 8. gr.

                    Sá skilningur verður því ótvírætt lesinn úr texta samningsins að með því að afhenda stefnda afsláttinn fyrir fram hafi stefnandi veitt stefnda lán.

                    Vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála 30. september 2011, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði notið ráðandi stöðu á gos­drykkj­ar­markaði, taldi hann sér skylt að segja upp ákvæðum viðskiptasamninga um einka­sölurétt hans. Af því tilefni sendi stefnandi viðskiptavinum sínum, stefnda þeirra á meðal, staðlað bréf. Þar segir að vísu að viðskiptasamningi sé sagt upp. Stefnandi útfærir í bréfinu nánar merkingu orða sinna og tekur fram að í þessu felist að öll ákvæði við­skipta­samn­ingsins sem hafi lagt við­skipta­kvaðir á við­semjandann séu óskuld­bind­andi.

                    Stefndi lítur svo á að með þessu bréfi hafi hann ekki einvörðungu verið leystur undan skyldunni til þess að eiga einungis viðskipti við stefnanda heldur jafn­framt að fullu verið leystur undan skyldunni til að endurgreiða stefnanda fyrir­fram­greidda afsláttinn.

                    Það er vissulega íþyngjandi að þurfa að endurgreiða lán. Af orðalagi bréfs stefn­anda þykir ótvírætt að með því felli hann ekki niður aðrar skyldur viðsemjanda síns en þær sem skil­greina má sem kvaðir samkvæmt viðskiptasamningnum en það er sú skylda, sem stefndi gekkst undir, að eiga einungis viðskipti við einn gos­drykkja­heild­sala, stefnanda. Dóm­ur­inn fellst því ekki á það að með þessu bréfi hafi stefnandi leyst stefnda undan skyld­unni til að endur­greiða lánið heldur einungis þeirri skyldu að skipta aðeins við stefn­anda.

                    Gjörðir stefnda, eftir að hann tók við bréfinu og allt til loka árs 2013, sýna að hann leit ekki svo á að hann væri algerlega óbundinn af viðskiptasamningi sínum við stefn­anda. Árið 2013 keypti hann til dæmis meira gosdrykkjarþykkni (síróp) af stefn­anda en árið 2012.

                    Í framburði fyrir dómi kom fram að í gegnum tíðina, þegar málsaðilar hefðu gert með sér nýjan við­skipta­samn­ing, hefðu þeir fundið flöt á því að gera upp afslátt sem stefnandi hefði afhent fyrir fram en stefndi hafði ekki fyllilega endurgreitt með kaupum á gosdrykkjarþykkni. Þetta fyrir­komulag sést jafnframt af 7. gr. þess samn­ings sem málsaðilar gerðu í apríl 2006. Af 2. mgr. 7. gr. sést jafnframt að slíkt sam­komu­lag gat fallið úr gildi og raknaði þá peningaskuldin við.

                    Meðal gagna málsins eru tillögur hvors aðila um sig að nýjum samningi sem gerðar eru, að því er virðist, síðsumars eða í byrjun hausts 2013. Í báðum þessum til­lögum er gerð grein fyrir því hvernig eigi að gera upp eftirstöðvar eldri samnings.

                    Stefndi leggur til að eftirstöðvar samningsins, 10. september 2013, 63.406.198 kr., verði gerðar upp með nánar útfærðu markaðssamstarfi. Stefndi leggur jafn­framt til að stefnandi greiði honum nýjan fyrirframgreiddan afslátt, 90 milljónir króna.

                    Stefnandi leggur til að eftirstöðvar samningsins, 1. október 2013, 61.924.598 kr., verði gerðar upp með markaðssamstarfi sem yrði útfært á örlítið annan hátt en sam­kvæmt tillögum stefnda. Nýr fyrirframgreiddur afsláttur er hins vegar ekki meðal til­lagna stefn­anda.

                    Af þessu verður ekki annað ályktað en að stefndi hafi síðsumars 2013 litið svo á að hann skuld­aði stefnanda afslátt/lán sem honum hafi ekki enn tekist að endur­greiða með því að kaupa af honum gosdrykkjarþykkni.

                    Því stenst ekki sú málsástæða hans nú að hann hafi litið svo á að hann hefði, þegar hann tók við bréfi stefnanda 18. desember 2012, verið leystur frá öllum ákvæðum viðskiptasamningsins.

                    Stefndi sendi stefnanda bréf 23. október 2013, tíu mánuðum eftir að hann tók við bréfi stefnanda, og kvaðst „á sínum tíma“ hafa fallist á einhliða upp­sögn stefnanda á við­skipta­samn­ingi dagsettum 28. apríl 2006. Þrátt fyrir þetta verður ekki annað séð en hann hafi haldið áfram að kaupa gosdrykkjar­þykkni af stefn­anda út árið 2013 þar sem stefnandi gaf út sex kreditreikninga á stefnda í nóv­em­ber og des­ember 2013. Með þeim var stað­fest að stefndi hefði á þessum tveimur mánuðum endurgreitt sam­tals 3.698.990 krónur af fyrirframafhenta afslætt­inum.

                    Þegar litið er til texta viðskiptasamningsins 28. apríl 2006, texta þeirra tillagna sem máls­aðilar skiptust á síðsumars 2013 um hvernig mætti gera upp ógreiddan hluta þess samnings og viðvarandi viðskipta stefnda við stefnanda allt árið 2013 þykir nægj­an­lega í ljós leitt að stefndi hafi allan samningstímann og í ár eftir að stefndi sendi staðl­aða bréfið 18. desember 2012, litið svo að á honum bæri að endur­greiða stefn­anda þá fjár­muni sem hann afhenti stefnda, á árinu 2006, sem fyrirframgreiddan afslátt.

                    Ályktunum sem draga má af þessum athöfnum stefnda getur hann ekki hnekkt með því bréfi sem hann ritaði stefnanda 23. október 2013.

                    Það er varakrafa stefnda að litið verði svo á að ákvæði viðskiptasamningsins um endur­greiðslu stefnda til stefnanda standi óhögguð. Fyrir henni færir hann þá málsástæðu að stefn­anda hafi verið óheimilt að segja einhliða upp gagnkvæmum viðskiptasamningi máls­aðila og fella þar með úr gildi ákvæði hans um endurgreiðslu.

                    Dómurinn fellst ekki á þessa málsástæðu enda telur dómurinn að með bréf­inu, 18. desember 2012, hafi stefnandi ekki gert annað en leysa stefnda undan skyld­unni til þess að skipta einungis við stefnanda. Ákvæði samningsins um endurgreiðslu var því ekki fellt úr gildi. Eins og áður segir sýna gjörðir stefnda að hann hafi lagt sama skiln­ing í bréf stefnanda.

                    Varakröfu sína styður stefndi einnig því að engin breyting hafi orðið á uppgjöri umsam­ins afsláttar í viðskiptum málsaðila þar sem stefnandi veiti stefnda enn afslátt þegar hann sendi honum reikninga vegna vörukaupa.

                    Í þessu máli er einvörðungu til umfjöllunar endurgreiðsla þess afsláttar sem stefnda var afhentur fyrir fram vegna ráðgerðra kaupa hans á gosdrykkjarþykkni af stefn­anda. Þótt stefndi kunni enn að kaupa einhverjar vörur af stefnanda og fái enn umsam­inn afslátt af þeim getur það ekki haft þýðingu fyrir þá kröfu sem hér er til úrlausnar, því gosdrykkjarþykkni hefur stefndi ekki keypt af stefnanda frá áramótum 2013 og 2014.

                    Þá þarf að taka afstöðu til þess hvort stefnanda hafi verið heimilt að fella lánið allt í gjalddaga með stefnu þessa máls, sem var birt stefnda 24. júní 2014.

                    Í 1. mgr. 9. gr. samningsins segir að brjóti annar hvor aðilinn gegn efni samn­ings­ins í verulegum atriðum sé hvorum um sig heimilt án fyrirvara að rifta samn­ingnum. Sé samningnum rift skuli kaupandi, skv. 2. mgr. 9. gr., endurgreiða þegar að fullu eftirstöðvar láns skv. 8. gr. Í 3. mgr. 9. gr. segir að verði ekki staðið í skilum með greiðslu afborgana af fyrir­framgreiddum afslætti eða viðskiptareikningum á réttum gjald­dögum skuli kaup­andi greiða dráttarvexti af skuldinni, samkvæmt lögum nr. 38 frá 2001 um vexti og verð­trygg­ingu.

                    Þessi ákvæði sýna að málsaðilar höfðu í texta samningsins búið sig undir að komið gæti til þess að eftirstöðvar lánsins yrðu greiddar í einu lagi með fjármunum.

                    Samkvæmt 3. tölulið 5. gr. skuldbindur kaupandi sig til þess að vera ekki í veru­legum eða viðvarandi vanskilum við seljanda.

                    Samkvæmt viðskiptasamningnum átti að endurgreiða lánið á fjórum árum. Miðað við það hefði stefndi átt að selja svo mikið gos af krana og kaupa svo mikið gos­drykkjarþykkni af stefnanda að afslátturinn sem hann endurgreiddi stefnanda árlega hefði numið (177.500.000 kr. / 4 ár) 44.375.000 kr. Viðskipti á grund­velli samn­ings­ins virðast hafa hafist rétt fyrir áramót 2007 og 2008 og stóðu til ársloka 2013. Í reynd hafði stefndi endurgreitt stefnanda á þessu ára­bili (123.161.494 kr. / 6 ár) því sem næst 20.527.000 kr. árlega að jafnaði.

                    Í lok mars 2014 sendi stefnandi stefnda bréf þar sem hann hvatti til þess að málið yrði leyst. Í bréfinu kom fram að þá 72 mánuði sem viðskipti á grundvelli samningsins 28. apríl 2006 hefðu staðið hefði stefndi að jafnaði greitt rétt ríflega 1.710.000 kr. mánaðarlega. Stefnandi stakk meðal annars upp á því að stefndi héldi áfram að endurgreiða lánið með því að greiða þessa fjárhæð mánaðarlega.

                    Honum var einnig boðið að greiða skuldina með því að taka upp viðskipti við stefn­anda að nýju og þá með enn hærri afslætti af gosdrykkjarþykkni (sírópi) en um hafði samist í apríl 2006. Stefnandi bauð stefnda í þriðja lagi að greiða skuldina með bland­aðri aðferð. Stefndi brást ekki við þessu bréfi.

                    Með símtölum og tölvuskeytum reyndi stefnandi að fá stefnda til þess að greiða en í lok maí 2014 kom í ljós að nauðsynlegt var að höfða mál.

                    Þegar stefnandi birti stefnuna var rétt tæplega hálft ár liðið frá því stefndi keypti síðast gosdrykkjarþykkni af stefnanda. Hefðu viðskipti þeirra gengið eins og þau höfðu áður gert hefði skuld stefnda við stefnanda átt að hafa lækkað um 10.000.000 kr. á þessu tímabili. Þegar litið er til þess að stefndi hafði engan vilja til að greiða skuld­ina, hann hefði með réttu átt að hafa greitt ekki lægri fjárhæð en tíu millj­ónir króna inn á hana þegar málið var höfðað þykir vanefnd hans hafa verið svo veru­leg að stefnanda hafi verið heim­ilt að fella alla skuld­ina í gjalddaga með stefnunni.

                    Það er því niðurstaða dómsins að með viðskiptasamningi, 28. apríl 2006, hafi stefn­andi veitt stefnda lán með því að afhenda honum fyrir fram afslátt vegna við­skipta með gosdrykkjarþykkni. Það er jafnframt niðurstaðan að með bréfi 18. des­em­ber 2012 hafi stefnandi einungis aflétt af stefnda skyldunni til þess að eiga ein­vörð­ungu við­skipti við stefnanda en bréfið hafi ekki haft nein áhrif á skyldu stefnda til þess að greiða áfram af láninu. Það er í þriðja lagi niðurstaða dómsins að vanefnd stefnda frá ára­mótum 2013 og 2014 fram til 24. júní 2014 hafi verið veruleg og því hafi stefn­anda verið heimilt að fella allar eftirstöðvar skuldarinnar í gjalddaga með stefnunni.

                    Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 30. apríl 2014 þegar liðinn var mánuður frá því að hann sendi stefnda bréf og hvatti hann til að ganga til samninga en ella myndi stefn­andi leita með kröfuna til dómstóla. Í þessu bréfi gengur stefnandi ekki lengra en áskilja sér rétt, nái málsaðilar ekki samkomulagi, til þess að gera ýtrustu kröfur, þar á meðal að fella skuldina í heild í gjalddaga. Hann lét þó ekki verða af því fyrr en með stefn­unni og var hún birt stefnda 24. júní 2014. Stefnandi þykir því ekki eiga rétt til drátt­ar­vaxta fyrr en að liðnum mánuði frá þeim degi, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

                    Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála, ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til virðis­auka­skatts, hæfilega ákveðinn 850.000 kr.

                    Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

    D Ó M s o r ð

                    Stefndi, Sam-félag­ið ehf., greiði stefnanda, Vífilfelli hf., 56.821.398 kr. ásamt drátt­ar­vöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 24. júlí 2014 til greiðsludags.

                    Stefndi greiði stefnanda 850.000 kr. í málskostnað.