Hæstiréttur íslands
Mál nr. 604/2012
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Matsgerð
- Fyrning
- Uppgjör
- Fyrirvari
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. september 2012. Hann krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms og að málinu verði vísað heim í hérað til réttrar meðferðar og málflutnings að nýju. Til vara krefst hann þess að stefndu greiði sér sameiginlega 6.608.668 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.893.300 krónum frá 4. desember 2003 til 4. desember 2004, af 6.608.668 krónum frá þeim degi til 6. júní 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti og að gjafsóknarkostnaður í héraði verði staðfestur.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi gengu áfrýjandi og stefndi Tryggingamiðstöðin hf. til bótauppgjörs 13. apríl 2005 vegna þess fjártjóns sem áfrýjandi varð fyrir í umferðarslysi 4. desember 2003.Voru áfrýjanda þá greiddar á grundvelli ábyrgðartryggingar ökutækis 9.953.358 krónur en inn á kröfu hans höfðu áður verið greiddar 829.602 krónur. Til grundvallar uppgjörinu lá matsgerð læknanna C og D 21. mars 2005 en þeirrar matsgerðar öfluðu málsaðilar sameiginlega. Í skaðabótakvittun áfrýjanda vegna uppgjörsins sem undirrituð var af þáverandi lögmanni hans er bótafjárhæðin sundurliðuð þannig, að þjáningabætur séu 407.100 krónur, bætur vegna varanlegs miska 1.743.300 krónur, bætur vegna varanlegrar örorku 7.859.280 krónur, vextir 225.616 krónur og innheimtuþóknun lögmanns 547.664 krónur. Á skaðabótakvittunina er handskrifað að „Gerður er fyrirvari við uppgjör þetta við mat á miska og varanlegri örorku.“
Í máli þessu krefur áfrýjandi stefndu um bætur til viðbótar þeim sem honum höfðu verið greiddar samkvæmt framansögðu. Endanleg fjárhæð þeirrar viðbótarkröfu er 6.608.668 krónur og sundurliðast þannig að miskabætur eru 893.300 krónur, bætur vegna varanlegrar örorku 4.715.368 krónur og miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eru 1.000.000 krónur. Er málsókn áfrýjanda aðallega á því reist að samkvæmt nýjum gögnum sem hann hafi aflað, fyrst og fremst matsgerð E lögfræðings og F læknis, sé heilsa hans verri nú en hún var samkvæmt matsgerð C og D. Þar sem áfrýjandi hafi á sínum tíma tekið við bótum með fyrirvara um miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga og varanlega örorku samkvæmt 5. gr. sömu laga eigi hann viðbótarkröfu á hendur stefndu vegna þess hve heilsufar hans hafi versnað miðað við það sem var þegar fyrra matið fór fram. Til vara kveður áfrýjandi málsóknina reista á ákvæðum 11. gr. skaðabótalaga um endurupptöku ákvörðunar um bætur fyrir varanlegan miska og örorkubætur.
Um lagagrundvöll bótakröfu sinnar vísar áfrýjandi til XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 88. gr., 91. gr., 95. gr. og 97. gr. laganna, og 11. gr. og 26. gr. skaðabótalaga. Þá er í stefnu málsins í héraði svofelld almenn umfjöllun um lagarök áfrýjanda: „[Áfrýjandi] vísar til bótakafla umferðarlaga. Þá er einnig vísað til skaðabótalaga ..., einkum til 1. greinar, 3. gr. 4.gr. 5. gr. 6. gr., 7. gr. og 10. gr. Þá er vísað til þeirrar grundvallarreglu stjórnskipunarlaga að ágreiningur er ekki undanþeginn dómstólum nema um slíkt séu skýr lagaákvæði. Þá skírskotar [áfrýjandi] til 24. gr. vátryggingarsamningalaga nr. 20/1954. Krafa [áfrýjanda] byggist einnig á ákvæðum kröfuréttar um brostnar forsendur, sem og ákvæðum samningalaga. [Áfrýjandi] vísar einnig til reglna vátryggingaréttarins og upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu vátryggingafélaga. Þá byggir [áfrýjandi] á reglum kröfuréttarins um fyrirvara kröfuhafa til skuldara við greiðslu kröfu.“
II
Krafa áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms er í fyrsta lagi á því reist að sérfróðir meðdómendur hafi ekki dæmt í málinu í héraði. Í hinum áfrýjaða dómi beri héraðsdómari saman annars vegar matsgerð C og D og hins vegar matsgerð E og F. Komist héraðsdómari á grundvelli þess samanburðar síðan að þeirri niðurstöðu að skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga til að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur sé ekki fullnægt. Til þess að geta framkvæmt slíkt mat hafi héraðsdómara borið að hafa sér við hlið lækna með sérkunnáttu í eðli þeirra áverka sem um sé fjallað í matsgerðunum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en það hafi hann ekki gert. Í öðru lagi er ómerkingarkrafan á því reist að héraðsdómari hafi ekki með skýrum hætti tekið til umfjöllunar nánar tilgreindar málsástæður áfrýjanda og fullnægi dómurinn samkvæmt því ekki fyrirmælum f. liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Sé þar um að ræða þær málsástæður að heilsufari áfrýjanda hafi hrakað eftir matsgerð C og D frá árinu 2005, að áfrýjandi hafi við uppgjörið 2005 tekið við bótum með fyrirvara, að áfrýjandi hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann ætti viðbótarkröfu á hendur stefndu fyrr en læknisvottorð hafi legið fyrir á árinu 2010 og matsgerð E og F í mars 2011, að ekki hafi verið um það fjallað að áfrýjandi ætti bótakröfu samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og að slík bótakrafa fyrnist á tíu árum.
Áfrýjandi höfðar mál þetta aðallega á þeim grundvelli að hann eigi viðbótarkröfu á hendur stefndu og geti sótt þá kröfu nú, þar sem hún sé ófyrnd og hann hafi við uppgjörið 2005 gert fyrirvara um rétt sinn til að sækja frekari bætur. Úrlausn um það hvort áfrýjandi eigi viðbótarkröfu á hendur stefndu ræðst af þýðingu þess fyrirvara sem hann gerði við bótauppgjörið 2005, þeim fyrningarreglum sem um skaðabótakröfur gilda og því hvort áfrýjandi hafi sýnt fram á með nýjum gögnum að forsendur uppgjörsins í apríl 2005 hafi brostið. Niðurstaða um fyrstu tvö atriðin ræðst af skýringu réttarreglna og var héraðsdómara því við úrlausn þeirra ekki þörf á að kveðja sérfróða meðdómendur til setu í dóminum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991. Niðurstaða um þriðja atriðið ræðst af venjubundnum samanburði á þeim tveimur matsgerðum, sem áður hafa verið nefndar, þar sem eingöngu reynir á lögfræðilega þekkingu héraðsdómara við mat á sönnunargildi matsgerðanna. Var héraðsdómara því ekki þörf á að kveðja sérfróða meðdómendur til setu í dómi til að gera þann samanburð. Getur þetta atriði því ekki leitt til ómerkingar hins áfrýjaða dóms. Áður hefur verið gerð grein fyrir þeim málsástæðum sem áfrýjandi styður málatilbúnað sinn við og fram koma í stefnu til héraðsdóms. Þessar málsástæður voru teknar til umfjöllunar og úrlausnar í hinum áfrýjaða dómi og er því fullnægt áskilnaði f. liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Verður því heldur ekki fallist á með áfrýjanda að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm af þessum sökum.
III
Til viðbótar þeim málsástæðum sem áfrýjandi byggir á í stefnu til héraðsdóms teflir hann fram í greinargerð sinni til Hæstaréttar nokkrum nýjum röksemdum sem stefndu mótmæla sem of seint fram komnum. Í fyrsta lagi að fyrirvarinn við bótauppgjörið í apríl 2005 hafi komið til vegna þess álits þáverandi lögmanns áfrýjanda að matsgerð þeirri, sem lá til grundvallar uppgjörinu, hafi ekki verið treystandi þar sem einstakir áverkar af völdum slyssins hafi ekki verið færðir sérstaklega undir miskatöflur. Í öðru lagi að í matsgerðinni hafi gætt ólögmætra sjónarmiða, þar sem vikið sé að því að enn væri að vænta nokkurs bata hjá áfrýjanda. Í þriðja lagi að stefndi Tryggingamiðstöðin hf. hafi ekki komið heiðarlega fram við bótauppgjörið í apríl 2005 og því eigi 7. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda við um samskipti áfrýjanda og þessa stefnda. Í fjórða lagi að matsgerðarinnar sem lá til grundvallar bótauppgjörinu í apríl 2005 hafi ekki verið aflað í samræmi við ákvæði 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga. Í fimmta lagi að sú venja hafi skapast að örorkunefnd meti varanlega örorku til jafns við miskastig þegar í hlut eiga börn og ungmenni sem hafa enga tekjureynslu. Áfrýjandi tefldi þessum málsástæðum ekki fram til stuðnings kröfum sínum í stefnu til héraðsdóms og geta þær því ekki komið til umfjöllunar hér fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Áfrýjandi gerði við bótauppgjörið í apríl 2005 fyrirvara um rétt sinn til að sækja frekari bætur úr hendi stefndu vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku. Úrlausn um efnisatriði málsins ræðst samkvæmt þessu af því hvort áfrýjandi hafi fært fram í málinu gögn er hnekki niðurstöðu matsgerðarinnar frá mars 2005 og sýni að hann hafi öðlast viðbótarkröfu á hendur stefndu. Matsgerðar C og D frá mars 2005 öfluðu málsaðilar sameiginlega og sömdu um að leggja til grundvallar bótauppgjörinu í apríl 2005, að gættum fyrirvara áfrýjanda. Áfrýjandi átti þess kost, sbr. 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og því ákvæði var breytt með 9. gr. laga nr. 37/1999, að bera matsgerð þessa undir örorkunefnd eða óska eftir dómkvaðningu matsmanna til að hnekkja henni. Það gerði hann ekki en aflaði einhliða matsgerðar E og F frá maí 2011. Af þeirri matsgerð verður ekki dregin sú ályktun að heilsufari áfrýjanda hafi hrakað frá því sem var þegar fyrra matið fór fram og fær seinni matsgerðin þegar af þeirri ástæðu ekki hnekkt niðurstöðu fyrri matsgerðarinnar. Hefur áfrýjandi samkvæmt þessu ekki sýnt fram á að hann hafi öðlast viðbótarkröfu á hendur stefndu vegna þess að heilsufari hans hafi hrakað frá því fyrra matið fór fram, en það er sú málsástæða sem krafa hans á hendur stefndu er reist á. Af þessu leiðir einnig að staðfest er sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að ófyrirséðar breytingar hafi orðið á heilsufari sínu frá fyrra mati í skilningi 11. gr. skaðabótalaga.
Krafa áfrýjanda um miskabætur úr hendi stefndu á grundvelli a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga var ekki meðal þeirra krafna sem til greiðslu kom við bótauppgjörið í apríl 2005. Þá náði fyrirvari áfrýjanda við uppgjörið ekki til slíkra bóta, heldur takmarkaðist samkvæmt orðalagi sínu og málatilbúnaði áfrýjanda við varanlegan miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga og varanlega örorku samkvæmt 5. gr. sömu laga. Ef áfrýjandi taldi sig á þessu tímamarki eiga rétt til miskabóta úr hendi stefndu samkvæmt a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga var honum í lófa lagið að láta slíkt koma fram í fyrirvara sínum, en það gerði hann ekki. Hvað sem því líður er til þess að líta að krafa um miskabætur samkvæmt a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga vegna líkamstjóns, sem hlýst af skráningarskyldu ökutæki, er skaðabótakrafa sem ábyrgðartrygging bifreiðar tekur til, þegar lagaskilyrði eru til þess að dæma slíkar bætur fyrir tjón af notkun ökutækis. Slík skaðabótakrafa fyrnist samkvæmt 99. gr. umferðarlaga á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Ekki síðar en í árslok 2005 lágu fyrir allar upplýsingar um heilsufar áfrýjanda sem gerðu honum kleift að leita fullnustu kröfu sinnar, sbr. 99. gr. laganna. Mál þetta var höfðað 23. júní 2011 og voru þá samkvæmt framansögðu fyrndar kröfur áfrýjanda á hendur stefndu samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga, þar með talin hugsanleg miskabótakrafa samkvæmt a. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.
Með vísan til alls þess er að framan greinir verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Rétt er að málsaðilar beri hvert sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. maí sl., var höfðað 23. júní 2011.
Stefnandi er A, […], Þorlákshöfn.
Stefndu eru Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík og B, […], Reykjavík.
Dómkröfur
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 6.608.668 krónur ásamt 4,5% ársvöxtum frá slysdegi, 4. desember 2003 til 6. maí 2011 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu líkt og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Við málskostnaðarákvörðun verði tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.
Stefndu krefjast aðallega sýknu, en til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu eftir mati dómsins. Til vara þess krafist að málskostnaður falli niður.
Málavextir
Stefnandi þessa máls lenti í umferðarslysi þann 4. desember 2003, sem bótaskylt var úr lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis hjá stefnda Tryggingamiðstöðinni hf.. Gengið var til uppgjörs hinn 13. apríl 2005 á grundvelli matsgerðar læknanna C og D, dags. 21. mars 2005, sem aðilar öfluðu sameiginlega. Málið var gert upp með fyrirvara um mat á varanlegum afleiðingum, miska og örorku. Kveðst stefnandi hafa sett þennan fyrirvara vegna alvarleika slyssins og ungs aldurs síns, sem og vegna þess að hann taldi heilsu sinni enn vera að hraka vegna slyssins.
Fjórum til fimm árum síðar hófst stefnandi handa við að afla sér gagna um heilsufar sitt og líkamstjón vegna slyssins með það í huga að láta meta það á nýjan leik og athuga þar með hvort það væri mat sérfræðimatsmanna og annarra lækna að heilsa hans væri verri en þegar hið fyrra mat fór fram, eða hvort hið fyrra mat hafi verið unnið í samræmi við gildandi lög um skaðabætum nr. 50/1993.
Telur stefnandi, samkvæmt þeim gögnum sem hann aflaði á síðari stigum, að það sé mat sérfræðinga að heilsu hans hafi hrakað eftir að mat C og D var gert.
Stefndi kveðst hafa móttekið beiðni stefnanda um endurupptöku málsins hinn 23. júlí 2010, ásamt viðbótargögnum. Meðal þeirra gagna sem stefnandi aflaði var matsgerð E lögfræðings og F læknis. Er matsgerð þeirra dags. 4. maí 2011. Stefndi kveðst hafa hafnað aðkomu að þessu nýja örorkumati í málinu þar sem ekkert kæmi fram í framlögðum gögnum sem styddi við slíka beiðni.
Er matsgerð þeirra E og F lá fyrir gerði stefnandi bótakröfu á grundvelli matsgerðarinnar en stefndi Tryggingamiðstöðin hafnaði bótakröfunni með bréfi þann 7. júlí 2011.
Stefnandi telur ljóst að það sé mat sérfræðinga að heilsu stefnanda hafi hrakað eftir að mat læknanna C og D lá fyrir og hefur því höfðað mál þetta.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir bótakröfu sína á hendur hinu stefnda félagi á 91. og 92. grein umferðarlaga, samanber 88. grein sömu laga. Til grundvallar kröfum sínum á tryggingafélagið vísar stefnandi einnig til 95. og 97. gr. umferðarlaga.
Hvað varðar fjárkröfu stefnanda þá byggir stefnandi á að versnun hans hafi numið 15% á varanlegri örorku frá fyrra mati sem og miski hans sé að 10 stigum hærri en við fyrra mat. Ljóst sé því að stefnandi eigi kröfu á stefndu vegna versnunar um 10 stig í miska og 15% í varanlegri örorku.
Byggir stefnandi á að hann hafi tekið við bótum með fyrirvara um miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga og varanlega örorku samkvæmt. 5. gr. og eigi því rétt að þess að gera kröfu á stefndu vegna þeirrar versnunar sem hann hafi orðið fyrir frá fyrra mati.
Stefnandi sundurliðar dómkröfu sína með eftirfarandi hætti:
|
Miskabætur. 8.933.000 x 10% |
893.300 kr |
|
Varanleg örorka 1.717.500 x 18,304 x 15% |
4.715.568 kr. |
|
Miskabætur skv. 26. gr. skbl. |
1.000.000 kr. |
|
Samtals krafa |
6.608.668 kr. |
Aðalkrafa stefnanda sé þannig upp byggð.
1. Miskabætur samkvæmt 4. gr. skbl.. 4.000.000 x 10% x (7329/3282) hér sé miski reiknaður upp miðað við 2. mgr. 15. gr. skbl., sbr. 2. mgr. sömu greinar.
2. Varanleg örorka sé reiknuð út frá lágmarkslaunum uppreiknuðum miðað við lánskjaravísitölu til stöðugleikapunkts, sbr. 3 . mgr. 7. gr. skbl. 1.200.000 x (4697/3282) = 1.717.500 kr. margfaldað með aldursstuðli 18.304, sbr. 6. gr. skbl. sem sé margfölduð með 15% hækkun þeirri sem varð í slysinu.
3. Miskabætur samkvæmt 26. gr. skbl. sé rökstudd þannig að tjónvaldur sá er ók á bifreið þá sem stefnandi var í hafi valdið slysinu af stórkostlegu gáleysi og beri honum því að greiða bætur með vísan til 26. gr. skbl., sbr. dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 449/2009, sbr. og 3. mgr. 90. gr. umferðalaga nr. 50/1987, með síðari breytingum. Sé um að ræða skaðabótakröfu sem fyrnist á 10 árum.
Hvað varðar framkomnar röksemdir í bréfi stefnda, dags. 7. júní 2011, þá sé því hafnað að krafa stefnanda sé fyrnd. Ljóst sé að þegar stefnandi tók við bótum með fyrirvara hafi hann gert það á þeim grundvelli að hann taldi mögulegt að heilsa hans gæti versnað á næstu árum eða misserum. Slysið hafi verið gert upp með fyrirvara 13. apríl 2005. Stefnandi hafi notað árin þar á eftir í að láta reyna á vinnugetu sína og athuga hvort heilsa hans gæti orðið með þeim hætti að hann gæti unnið léttari störf. Tilraunir hans báru ekki árangur sem erfiði og hafi því svo farið að hann hafi látið núverandi lögmanni sínum í té umboð í júlí 2010 til þess að kanna mögulegan rétt sinn á bótum til viðbótar því sem hann tók við með fyrirvara á sínum tíma.
Aflað hafi verið gagna frá sérfræðilæknum sem skiluðu vottorðum síðsumars 2010 og þá um haustið. Telur stefnandi að þá fyrst hafi komið í ljós sú versnun sem stefnandi hafði fundið á líkama sínum. Staðfesting á grun hans um versnun frá fyrra mati hafi verið staðfest af sérfræðingum seint á árinu 2010. Í framhaldi af því hafi verið farið í frekari gagnaöflun og síðan í kjölfarið beðið um sérfræðimat sem ekki hafi verið mótmælt né því hnekkt á einn né neinn hátt. Í seinni tíð sé margdæmt af Hæstarétti að fyrningarfrestur byrji ekki að líða fyrr en tjónþoli fái staðfesta breytingu á sínum högum með vottorði eða mati frá sérfræðingum, bæklunar- og taugalæknum. Vísað sé til dóma Hæstaréttar í málum nr. 300/2006, 259/2008, 418/2008, 536/2008 og 378/2009. Í viðkomandi dómum sé byggt á efni 99. gr. umferðarlaga hvað fyrningarfrest varðar. Er talið að viðkomandi frestur byrji í fyrsta lagi að líða þegar tjónþoli fær vitneskju um kröfu sína og á þess fyrst kost að leita fullnustu kröfunnar. Beri að miða upphafstíma fyrningarfests viðbótarkröfu þeirrar sem gerð sé í þessu máli við tímamark sérfræðimatsgerðar E lögfræðings og F læknis ellegar þegar vottorð bæklunarlæknis eða taugalæknis lá fyrir.
Stefnandi ítreki að með samþykki hins stefnda félags hafi verið tekið við bótum fyrir miska og varanlega örorku með fyrirvara á sínum tíma. Hafi það verið gert vegna ungs aldurs stefnanda, þar sem meðal annars hafi ekki verið ljóst hver skerðing vinnugetu stefnanda yrði í kjölfar slyssins. Nú sé komið í ljós að bæði miski og varanleg örorka séu hærri en fyrr hafi verið miðað við. Í samræmi við þann fyrirvara sem var gerður hafi verið sé bæði réttmætt og sanngjarnt og í samræmið við meginreglur kröfuréttar að stefnandi krefjist nú réttra bóta fyrir líkamstjón það sem hann hlaut í slysinu 4. desember 2003.
Til vara byggi stefnandi á því að 11. grein skaðabótalaga nr. 50/1993 eigi við þar sem um ófyrirséða verulega versnun sé að ræða.
Stefnandi vísar til bótakafla umferðarlaga. Þá er einnig vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, einkum til 1. greinar, 3. gr. 4. gr. 5. gr. 6. gr., 7. gr. og 10. gr. Þá er vísað til þeirrar grundvallarreglu stjórnskipunarlaga að ágreiningur sé ekki undanþeginn dómstólum nema um slíkt séu skýr lagaákvæði. Þá skírskotar stefnandi til 24. greinar vátryggingasamningalaga nr. 20/1954. Krafa stefnanda byggist einnig á ákvæðum kröfuréttar um brostnar forsendur, sem og ákvæðum samningalaga. Stefnandi vísar einnig til reglna vátryggingaréttarins og upplýsinga og leiðbeiningaskyldu vátryggingafélaga. Þá byggir stefnandi á reglum kröfuréttarins um fyrirvara kröfuhafa til skuldara við greiðslu kröfu. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og vaxtakröfu við lög nr. 38/2001.
Málsástæður stefnda og lagarök
Aðalkrafa
Um fyrningu
Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á því að heilsufar hans hafi síðustu ár versnað og hann hafi því látið meta afleiðingar slyssins á nýjan leik. Telji stefnandi að þau læknisfræðilegu gögn, sem aflað var á síðari stigum málsins, sýni að heilsu hans hafi hrakað.
Stefndu mótmæla því að þau læknisfræðilegu gögn sem stefnandi aflaði á síðari stigum leiði í ljós versnun á einkennum, en ekki sé vikið nánar að því í stefnu í hverju versun er talin felast. Læknisvottorð G greini frá skoðun læknisins 12. nóvember 2009 þar sem stefnandi sé með eymsli í hálsi og baki sem versni við ystu hreyfimörk. Að undirlagi lögmanns síns leitaði stefnandi til H til að athuga með taugaskaða og hvort ástæða væri til að biðja um taugasálfræðilegt mat vegna heilaskaða. Hvorugt sé staðfest í vottorðinu. Þá sé að auki vísað til læknisvottorð I vegna innlagnar stefnanda á Reykjalund á árinu 2004.
Stefnandi telur að örorkumatsgerð þeirra E og F staðfesti versnun á varanlegri örorku og miska. Þessu mótmæli stefndu. Vegna mats á varanlegum miska meti þeir E og F sömu áverka og einkenni og fyrri matsmenn, en ólíkt fyrri matsmönnum meti þeir stefnanda til 40 miskastiga en ekki 30 miskastiga. Umkvörtunarefni stefnanda séu hins vegar svipuð á matsfundum 2005 og 2011 og læknisskoðun leiði til svipaðrar niðurstöðu í báðum tilvikum. Stöðugleikapunktur sé metinn sá sami í báðum matsgerðum. Fyrri matsmenn mátu skerðingu á tekjuöflunarhæfi allverulega, eða um fjórðungsskerðingu. Á því hafi verið byggt að þá (2005) hafi stefnandi ekki treyst sér í vinnu né skóla og með öllu óljóst hvort af frekari námi yrði. Þá myndu líkamlegar afleiðingar trufla hann til allra þyngri starfa. Síðari matsmenn bendi á að óvíst sé um frekara nám en hann geti unnið léttari störf. Meta þeir örorku hans að álitum 40%.
Af framlögðum gögnum, sem aflað hafi verið, verði ekki ráðið að um versnun sé að ræða frá fyrri einkennum eða að afleiðingar séu aðrar en fyrri gögn og matsgerð báru með sér. Þá verði ekki séð að sérstök læknismeðferð eða endurhæfing hafi farið fram á tímabilinu frá fyrra mati til þess síðara.
Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrnist bótakröfur á grundvelli laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Með matsgerð á árinu 2005 hafi varanlegar afleiðingar umferðarslyss 4. desember 2003 verið staðfestar og gengið til uppgjörs á grundvelli þess mats. Ástand stefnanda á matsfundi þá og áverkar sem metnir voru varanlegir séu þeir sömu og síðari gögn og matsgerð tiltaki. Endurmat byggi því á sömu forsendum og fyrra mat þó svo að matsmenn komist að annarri tölulegri niðurstöðu. Á árinu 2005 hafi því fjögurra ára fyrningarfrestur umferðarlaga byrjað að líða í síðasta lagi. Skipti þá það eitt og sér ekki máli hvort stefnandi sjálfur telji að ástand sitt hafi versnað á tímabilinu.
Um sönnunargildi
Í málinu liggi fyrir tvær matsgerðir. Þeirrar fyrri hafi verið aflað sameiginlega af málsaðilum og sé hún dags. 21. mars 2005. Þeirrar seinni hafi verið aflað einhliða af stefnanda, en stefndi Tryggingamiðstöðin hf., hafi mótmælt réttmæti endurmats á grundvelli sjónarmiða sem reifuð séu í bréfi hinn 17. janúar 2011. Stefndu byggi á að fyrri matsgerð sem aflað var sameiginlega af aðilum hafi ekki verið hnekkt með matsgerð sem aflað sé síðar, einhliða.
Þá sé áður vikið að því að í síðari matsgerð sé við mat á miska lagðir til grundvallar sömu áverkar og einkenni og metnir voru varanlega í fyrri matsgerð en þeir einfaldlega metnir til fleiri miskastiga. Síðari matsmenn, þeir E og F, heimafæri niðurstöður sínar undir núgildandi miskatöflur frá 2006 sem eðlilega hafi ekki verið í gildi þegar slysið varð, 4. desember 2003.
Að auki telji stefndu að tengsl annars matsmanns í síðari matsgerð málsins, E, við lögmann stefnanda sé til þess fallið til að rýra sönnunargildi matsgerðarinnar. Á þriggja ára tímabili hafi lögmaður stefnanda verið með rúmlega 50 slysamál gagnvart stefnda Tryggingamiðstöðinni hf. á grundvelli skaðabótalaga og í ríflega 40 málum hafi lögmaður stefnanda leitað einhliða til E vegna matsstarfa. Aðstæður séu því þannig að draga megi óhlutdrægni matsmannsins í efa.
Um bætur fyrir miska skv. 26. gr. skaðabótalaga
Stefndu mótmæli sértaklega dómkröfu stefnanda um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga.
Í fyrsta lagi hafi stefnandi engan fyrirvara gert um slíka kröfu þegar hann gekk til uppgjörs vegna slyssins 2005, heldur hafi fyrirvari hans takmarkast við mat á miska og varanlegri örorku.
Í öðru lagi verði að telja slíka kröfu fyrnda á grundvelli 99. gr. umferðarlaga en líkt og áður sé getið um fyrnist allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Um miska samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga fari líkt og um aðrar bótakröfur sem gerðar séu í lögboðna ábyrgðartryggingu ökutækis og rekja megi til ökutækis. Krafan hafi því verið fyrnd þegar hún var gerð í kröfubréfi 6. maí 2011.
Varakrafa
Varanleg örorka
Með varakröfu sinni mótmæli stefndu tölulegri framsetningu á dómkröfu stefnanda og telji hana ekki í samræmi við þá aðferðafræði sem skaðabótalög bjóði.
Ef miðað sé við þá hækkun á varanlegri örorku frá fyrri matsgerð, sem liggi fyrir í málinu, sé um 15% hækkun að ræða. Stöðugleikapunktur sé ákvarðaður sá sami í báðum matsgerðum, þ.e. 4. desember 2004.
Í fyrsta lagi reiknist árslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr., sbr. 15. gr. sömu laga. Lánskjaravísitala á stöðugleikapunkti sé 4.697 stig. Lágmarkslaun skaðabótalaga þegar bótafjárhæð er ákvörðuð, sbr. 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga, sé þá 1.200.000 x 4.697/3.282 = 1.717.367 = 1.717.500 krónur.
Í þriðja lagi reiknist aldurstuðull 18,304. Aldur á stöðugleikapunkti sé 18 ár og 141 dagur. Stuðull 18 ára sé 18,476 og 19 ára 18,031. Mismunur sé 0,445 til að finna hlutfall á milli 445/365 = 1,2192. 141 dagur x 1,2192 = 171,907. Stuðull þá 18,476-0,7179 = 18,304.
Varanleg örorka reiknist þá (1.717.500 x 18,304 x 15%) 4.715.568.
Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga.
Stefndu mótmæla fjárhæð dómkröfu vegna miskabóta. Hún sé ekki í samræmi við það sem leiða megi af dómum Hæstaréttar í svipuðum málum.
Krafa um vexti
Stefndu mótmæli vaxtakröfu stefnanda og telja hana ekki samræmi við skaðabótalög eða lög um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Í fyrsta lagi reiknast ekki vextir af bótum fyrir varanlega örorku fyrr en á stöðugleikapunkti sbr. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga en ekki frá slysdegi.
Í öðru lagi sé ljóst að krafa um vexti fyrnist á fjórum árum, sbr. 2. tl. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, en dómkrafa stefnanda taki ekki mið af þeirri staðreynd.
Upphafstíma dráttarvaxta sé mótmælt og telur stefndi að miða eigi við síðara tímamark, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Stefndu vísa til XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 99. gr. laganna; til I. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttar um sönnun skaðabótakröfu.
Málskostnaðarkrafa stefndu styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Stefnandi lenti í bílslysi og slasaðist hinn 4. desember 2003. Eins og fram er komið tók stefnandi við bótum úr hendi stefnda 13. apríl 2005 en gerði fyrirvara um bætur vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku.
Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrnast kröfur á grundvelli laganna á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitnesku um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.
Uppgjör bótanna fór fram á grundvelli matsgerðar læknanna C og D sem þá lá fyrir. Stefnandi aflaði síðar matsgerðar E lögfræðings og F læknis. Er á því byggt af hálfu stefnanda að með matsgerð þeirra sé sýnt fram á að heilsufar stefnanda hafi versnað frá fyrra mati sem nemi 10 stigum vegna varanlegs miska og 15% vegna varanlegrar örorku. Af hálfu stefndu er á því byggt að fyrri matsgerð C og D hafi ekki verið hnekkt með matsgerð E og F sem aflað var einhliða af stefnanda og stefndi átti ekki aðkomu að. Þá sé í hinni síðari matsgerð lagðir til grundvallar sömu áverkar og einkenni er metin voru af C og D en þeir einungis metnir til fleiri miskastiga auk þess sem niðurstöður E og F séu heimfærðar undir núgildandi miskatöflur frá 2006 sem hafi ekki verið í gildi þegar slysið varð 4. desember 2003. Þá byggir stefndi á því að kröfur stefnanda séu fyrndar, sbr. 99. gr. umferðarlaga.
Í matsgerð C og D segir í niðurstöðu að varanlegur miski miðist við tognunaráverka á hægri öxl, tognunaráverka á mjóbak og háls, í minna mæli á brjósthrygg, afleiðingar brota á mjaðmaspöðum og maráverka á mjaðmir og loks vegna áfallastreituröskunar. Heildarmiski vegna þessara áverka telst hæfilega metinn 30 stig og teljast um 2/3 hlutar vera vegna líkamlegs tjóns og 1/3 hluti vegna áfallastreituröskunar.
Í matsgerð E og F segir í niðurstöðum um varanlegan miska:
„Matsmenn miða við að tjónþoli hafi tognað í hálsi, brjóstbaki og mjóbaki, einnig hægri öxl, í umferðarslysinu 4. desember 2003. Þá hlaut hann brot á mjaðmagrind (mjaðmaspöðum) og maráverka á mjöðm. Einnig að hann hafi vegna afleiðinga slyssins glímt við áfallastreituröskun. Er því um að ræða sömu sjúkdómsgreiningar og liggja fyrir í matsgerð C og D, dags. 21. mars 2005, en þar var hann eins og áður segir metinn til 30 stiga varanlegs miska vegna afleiðinga tjónsatburðarins. Nánari sundurliðun á miskastigi og heimfærslu til töflu örorkunefndar er ekki að finna í matsgerðinni, þó er þess getið að 1/3 miskans sé vegna áfallstreituröskunar sem hlýtur þá að vera metin til 10 stiga. Ljóst er því önnur einkenni, líkamleg einkenni, eru metin til 20 stiga miska í matsgerðinni.
Matsmenn miða við varanlegur miski tjónþola vegna afleiðinga umferðarslyssins 4. desember 2003 sé rétt metin eins og hér segir. Er þá til hliðsjónar horft til töflu örorkunefndar um miska sem þá var í gildi og þeirrar töflu sem nú er í gildi (frá 21. febrúar 2006): Miski vegna tognunareinkenna í hálsi og brjóstbaki er metinn til 7 stiga, sbr. liður VI.A.a.2 og VI.A.b.1 í töflu örorkunefndar frá 2006. Miski vegna tognunareinkenna í mjóbaki er metinn til 8 stiga, sbr. liður VI.A.c.2. í sömu töflu. Tekið er fram að tognunareinkenni tjónþola í mjóbaki eru verri samanborið tognunareinkenni í hálsi, og togunareinkenni í hálsi eru verri samanborið við tognunareinkenni í brjóstbaki. Tekið er tillit til samlegðaráhrifa við mat á framangreindu til lækkunar.
Matsmenn miða síðan við að varanlegur miski tjónþola vegna tognunareinkenna frá hægri öxl sé rétt metin sem 5 stig, sbr. til hliðsjónar liður VII.A.a.1. í töflu örorkunefndar frá árinu 2006. Miski vegna einkenna í mjaðmagrind, brots og maráverka er metin til 10 stiga, sbr. til hliðarjónar liður VI.B.a.2. í sömu töflu. Þá er miski vegna áfallastreituröskunar metin til 10 stiga, sbr. til hliðsjónar dönsk tafla um miska frá árinu 2005, liður J1 (let posttraumatisk belastningsreaktion), og einnig matsgerð C og D, dags. 21. mars 2005. Samanlagður miski tjónþola skv. töflumati telst því vera 40 stig - fjörtíu af hundraði.“
Í matsgerð C og D segir m.a. í umfjöllun um varanlega örorku að óljóst sé hvort stefnandi muni ljúka skólanámi og megi ætla að jaftnt líkamlegar sem og geðrænar afleiðingar umferðarslyssins geti hamlað honum verulega við skólanám. Þá megi ætla að líkamleg hömlun muni trufla hann til allra þyngri starfa. Telja matsmenn að varanleg örorka stefnanda sé mjög mikil en hún muni heldur fara minnkandi þegar fram í sæki. Ljóst sé þó að um allverulega skerðingu á tekjuöflunarhæfi A muni verða að ræða. Meta þeir varanlega örorku 25%.
Matsmennirnir E og F miða við að stefnandi eigi, þrátt fyrir afleiðingar slyssins, að geta unnið ýmis léttari störf sem krefjast ekki mikils álags. Þá sé einnig líklegt að andleg einkenni komi til með að há honum talsvert í leik og starfi. Telja þeir varanlega örorku hans töluverða eða 40%.
Fyrir liggur að fyrri matsgerðin var gerð í mars 2005 en sú síðari 4. maí 2011 og í síðara matinu var miðað við aðrar og nýrri miskatöflur. Enda þótt matsmennirnir E og F meti varanlegan miska til fleiri stiga og varanlega örorku hærri en gert var í fyrra mati þykir ekki sýnt fram á annað en að sömu áverkar og einkenni, er stefnandi hlaut í slysinu, hafi verið metin, enda er skýrt er tekið fram í matsgerð E og F að greiningar matsmanna séu þær sömu og að sömu einkenni séu metin. Stefnandi þykir því ekki hafa sýnt fram á að ófyrirséðar breytingar hafi orðið á heilsufari hans frá fyrra mati og eru skilyrði 11. gr. skaðabótalaga því ekki uppfyllt.
Við uppgjör bótanna 13. apríl 2005 var byggt á matsgerð sem aflað var semeiginlega af aðilum máls þessa. Ef stefnandi vildi ekki una því mati átti hann þess kost að bera matsgerðina undir örorkuefnd samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga eða setja fram beiðni um dómkvadda matsmenn. Það gerði stefnandi ekki en aflaði einhliða, án aðkomu stefnda, matsgerðar þeirra E og F. Er ekki fallist á að matsgerð sem aflað er með þeim hætti hnekki niðurstöðu fyrra mats sem aðilar öfluðu sameiginlega.
Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á 91. og 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 88. gr. sömu laga. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að í árslok 2005 hafi legið fyrir allar upplýsingar um heilsufar hans sem gerðu honum kleyft að leita fullnustu kröfu sinnar, sbr. 99. gr. umferðarlaga. Mál þetta var höfðað 23. júní 2011. Voru kröfur stefnanda þá þegar fyrndar, sbr. áðurgreinda 99. gr. umferðarlaga.
Samkvæmt framansögðu ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl, 500.000 krónur, og útlagður kostnaður, 775.557 krónur, eða samtals 1.275.557 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, B og Tryggingamiðstöðin hf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl, 500.000 krónur, og útlagður kostnaður, 775.557 krónur, eða samtals 1.275.557 krónur, greiðist úr ríkissjóði.