Hæstiréttur íslands
Mál nr. 28/2017
Lykilorð
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Skuldajöfnuður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Jón Finnbjörnsson landsréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2017. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 25. janúar 2017. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um viðurkenningu á rétti hans til skuldajafnaðar á kröfu sinni á Byr sparisjóð að fjárhæð 11.660.792 krónur við kröfu aðaláfrýjanda á hendur sér að fjárhæð 6.517.821 króna miðað við stöðu krafnanna 10. október 2008, en að öðru leyti að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 6.517.821 krónu frá 10. október 2008 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að fjárhæð málskostnaðar verði hækkuð frá þeirri, sem sér var dæmd í héraði, og verði aðaláfrýjanda jafnframt gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
I
Gagnáfrýjandi samdi 29. febrúar 2008 við Byr sparisjóð um „lán að jafnvirði kr. 21.109.101 ... sem greitt skal út í eftirtöldum myntum og hlutföllum: EUR 100%“. Kom fram í samningnum að tilgangur lántöku væri að „myntbreyta lánssamningi í íslenskum krónum ... að eftirstöðvum kr. 21.109.101 þann 08.02.2008, yfir í erlendar myntir.“ Lánið átti gagnáfrýjandi að endurgreiða í einu lagi 3. október 2008 og skyldi það bera svonefnda EURIBOR vexti með 4,1% álagi. Áður en kom að gjalddaga lánsins undirrituðu gagnáfrýjandi og BYR sparisjóður yfirlýsingu 25. ágúst 2008 um breytingar á skilmálum samningsins. Í upphafi hennar var tekið fram að gagnáfrýjandi hafi með samningnum fengið lán frá sparisjóðnum „að jafnvirði kr. 21.109.101 ... í erlendri mynt“ með gjalddaga 3. október 2008. Væri skilmálum samningsins breytt þannig að „nýr höfuðstóll lánsins m.v. 21.08.2008, er að fjárhæð: EUR 212.451“ og ætti að endurgreiða það í einu lagi 6. október 2009. Einnig væri samningnum breytt þannig að álag á EURIBOR vexti yrði 5,3% og bæri gagnáfrýjanda að greiða áfallna vexti 6. apríl 2009, en vexti frá þeim tíma á sama gjalddaga og höfuðstól skuldarinnar. Í fyrirsögn yfirlýsingarinnar var tekið fram að hún varðaði „lánssamning nr. 101ERLB080600009“, sem er sama númer og fram kom á forsíðu áðurnefnds samnings, en á yfirlýsinguna var einnig handritað „101ERLB082450001“.
Í málinu liggja fyrir tvær kvittanir, sem BYR sparisjóður gaf út til gagnáfrýjanda vegna endurgreiðslu á framangreindu láni. Sú fyrri var dagsett 6. október 2008 og var þar vísað til þess að „númer samnings“ væri „101ERLB082450001“, en höfuðstóll lánsins fyrir greiðslu væri 212.451 evra. Greidd væri afborgun að fjárhæð 33.259 evrur inn á höfuðstól með 5.985.955 krónum og væru eftirstöðvar lánsins eftir greiðsluna 179.192 evrur. Í síðari kvittuninni, sem var dagsett 10. sama mánaðar, var aftur vísað til samnings með sama númeri og tiltekið að eftirstöðvar lánsins fyrir greiðslu væru síðastnefnd fjárhæð. Samkvæmt kvittuninni var sú fjárhæð greidd ásamt 3.046,33 evrum í vexti eða samtals 182.238,33 evrur með 28.760.853 krónum.
Fjármálaeftirlitið neytti 22. apríl 2010 heimildar í ákvæði VI til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, svo sem þeim hafði verið breytt með lögum nr. 44/2009, til að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar í BYR sparisjóði, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann bráðabirgðastjórn. Um leið var tekin ákvörðun um ráðstöfun tiltekinna eigna sparisjóðsins og skuldbindinga til nýs félags með heitinu BYR hf. Meðal þeirra voru kröfuréttindi sparisjóðsins vegna reikningsviðskipta og skuldbindingar vegna innlána, en tekið var fram að framsal kröfuréttinda á þessum grunni skyldi „ekki svipta skuldara rétti til skuldajöfnunar sem hann átti gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi hans.“ Samkvæmt málatilbúnaði aðaláfrýjanda var BYR sparisjóður síðan tekinn til slita 2. júlí 2010 eftir ákvæðum laga nr. 161/2002 og var gefin út innköllun til lánardrottna, en fresti til að lýsa kröfum við slitin hafi lokið 13. október 2010. Samruni aðaláfrýjanda og BYRS hf. hafi svo verið samþykktur 29. nóvember 2011 og sá fyrrnefndi þar með tekið yfir öll réttindi og allar skyldur þess síðarnefnda miðað við 30. júní sama ár.
Á framangreindu tímabili var gagnáfrýjandi með tékkareikning hjá BYR sparisjóði, sem mun síðan hafa færst til BYRS hf. og eftir það til aðaláfrýjanda, en í málinu hefur verið lagt fram yfirlit vegna reikningsins, sem nær frá 16. apríl 2007 til 31. mars 2014. Yfirlitið ber með sér að á þessum tíma hefur talsvert fé farið um reikninginn í yfir 2000 innborgunum og útborgunum, svo og að gagnáfrýjanda hafi verið heimilt að stofna til skuldar á reikningnum með yfirdrætti. Eftir yfirlitinu var á árinu 2007 ýmist innstæða á reikningnum eða skuld, en upp frá því var samfleytt skuld á honum, sem var þó að öðru jöfnu innan við 7.000.000 krónur fram í ársbyrjun 2014. Var þannig meðal annars yfirdráttarskuld á reikningnum að fjárhæð 6.517.821 króna 10. október 2008 þegar gagnáfrýjandi greiddi upp áðurnefnda skuld sína við BYR sparisjóð, en greiðslur inn á hana þann dag og 6. sama mánaðar komu ekki af reikningi þessum.
Gagnáfrýjandi ritaði bréf 9. september 2011 til slitastjórnar BYRS sparisjóðs, þar sem vísað var til þess að hann hafi tekið „erlent lán ... upphaflega að fjárhæð ISL. kr. 29.391.616.- en lánið var tekið í evrum hinn 29. mars 2006.“ Hann hafi endurgreitt þetta lán 10. október 2008, en eftir það hafi í Hæstarétti gengið dómar þar sem „erlend viðmiðun lána var dæmd ólögmæt.“ Teldi gagnáfrýjandi ljóst að hann hafi af þessum sökum greitt sparisjóðnum of háa fjárhæð og óskaði hann eftir að fá endurútreikning á láninu. Aftur ritaði gagnáfrýjandi bréf til slitastjórnarinnar 23. mars 2012, þar sem vísað var til þess að hann hafi í bréfi 9. september 2011 óskað eftir endurútreikningi á láni að fjárhæð 29.361.616 krónur, sem hann hafi tekið hjá sparisjóðnum 29. mars 2006. Tekið var fram að gagnáfrýjandi hafi endurgreitt þetta lán 6. og 10. október 2008 með þeim fjárhæðum, sem hér áður var getið, og virðist mega ráða af því að erindi þessi hafi þannig varðað lánið, sem samningurinn frá 29. febrúar 2008 var gerður um. Í bréfinu 23. mars 2012 var þess getið að gagnáfrýjandi hafi leitað eftir afstöðu BYRS hf. til þess hvort hann ætti að beina kröfu um endurgreiðslu að því félagi eða slitastjórn sparisjóðsins og hafi BYR hf. svarað því til 28. september 2011 að slík krafa kæmi sér ekki við. Þessu væri gagnáfrýjandi ósammála og teldi hann BYR sparisjóð og aðaláfrýjanda, sem kominn væri í stað BYRS hf., sameiginlega ábyrga fyrir endurgreiðslu til sín. Kvaðst gagnáfrýjandi hafa aflað sér útreiknings á þeirri fjárhæð, sem hann hefði með réttu átt að greiða BYR sparisjóði vegna lánsins, og krefðist hann þess að „slitastjórn“ greiddi sér 20.769.172 krónur, þar af 7.000.000 krónur með skuldajöfnuði við yfirdráttarskuld á fyrrnefndum tékkareikningi gagnáfrýjanda. Sama dag ritaði gagnáfrýjandi efnislega samhljóða bréf til aðaláfrýjanda. Enn beindi gagnáfrýjandi bréfi til slitastjórnarinnar 16. október 2013, þar sem fram kom að hann teldi sig hafa ofgreitt BYR sparisjóði 16.340.605 krónur við endurgreiðslu láns samkvæmt samningnum frá 29. febrúar 2008. Þegar gagnáfrýjandi hafi innt greiðslur sínar af hendi 6. og 10. október 2008 hafi hann staðið í skuld við sparisjóðinn að fjárhæð 7.000.000 krónur vegna yfirdráttar á tékkareikningi, sem honum væri heimilt að skuldajafna við framangreinda kröfu sína vegna ofgreiðslu. Þótt kröfulýsingarfrestur við slit BYRS sparisjóðs væri liðinn teldi gagnáfrýjandi sig mega koma þessari kröfu þar að með stoð í 3. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í málinu hafa ekki verið lögð fram svör slitastjórnarinnar við þessum þremur bréfum gagnáfrýjanda, en fyrir liggur að hún hafi hafnað kröfunni, sem hann lýsti í bréfinu 16. október 2013, á þeim grunni að hún hafi ekki borist innan kröfulýsingarfrests.
Að undangengnum bréfaskiptum við aðaláfrýjanda höfðaði gagnáfrýjandi mál þetta með stefnu 3. mars 2016 og krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur sinn til að skuldajafna kröfu vegna ofgreiðslu til BYRS sparisjóðs á 11.660.792 krónum við kröfu aðaláfrýjanda vegna yfirdráttar á tékkareikningi gagnáfrýjanda, sem hafi numið 6.517.821 krónu 10. október 2008. Einnig krafðist gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjandi yrði dæmdur til að greiða sér dráttarvexti af síðastgreindri fjárhæð frá 10. október 2008 til greiðsludags. Kröfur þessar voru teknar til greina með hinum áfrýjaða dómi, en þó þannig að gagnáfrýjanda voru dæmdir dráttarvextir af 6.517.821 krónu frá 15. mars 2016 til greiðsludags.
II
Gagnáfrýjandi var sem áður segir með tékkareikning hjá BYR sparisjóði þegar Fjármálaeftirlitið neytti 22. apríl 2010 heimildar samkvæmt lögum nr. 161/2002 til að setja bráðabirgðastjórn yfir sparisjóðinn og ráðstafa slíkum reikningum til BYRS hf., sem rann síðan saman við aðaláfrýjanda miðað við 30. júní 2011. Fluttist því tékkareikningur gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda þann dag, en á reikningnum var þá yfirdráttarskuld að fjárhæð 7.043.627 krónur. Reikningsviðskiptum gagnáfrýjanda var haldið áfram við aðaláfrýjanda og urðu þau allnokkur, en eins og málið liggur fyrir virðist þeim hafa lokið 31. mars 2014 og nam þá yfirdráttarskuldin 6.887.605 krónum. Hefði aðaláfrýjandi höfðað mál á hendur gagnáfrýjanda til heimtu þeirrar skuldar hefði gagnáfrýjandi vegna fyrrgreinds skilmála í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 átt þess kost að hafa þar uppi mótbáru á þeim grunni að hann ætti til skuldajafnaðar hærri gagnkröfu á hendur BYR sparisjóði. Vegna ákvæðis 3. töluliðar 118. gr. laga nr. 21/1991 hefði gagnáfrýjandi ekki glatað rétti til að hafa uppi slíka gagnkröfu þótt hann hafi ekki lýst henni við slitameðferð á BYR sparisjóði og hefði þá aðaláfrýjandi orðið að taka efnislega til andsvara gegn slíkri mótbáru ef hann teldi hana ekki á rökum reista. Aðstaða aðaláfrýjanda getur ekki að þessu leyti orðið önnur vegna þess eins að gagnáfrýjandi hafi tekið frumkvæði með höfðun þessa máls í stað þess að halda að sér höndum þar til aðaláfrýjandi kynni að höfða mál til heimtu skuldar vegna yfirdráttarins. Getur aðaláfrýjandi því ekki með réttu borið því við að gagnáfrýjanda hefði verið nauðsynlegt að fá fyrst útkljáð gagnvart BYR sparisjóði hvort hann ætti endurkröfu vegna ofgreiðslu skuldar áður en unnt yrði að krefjast skuldajafnaðar við aðaláfrýjanda.
Í málinu hefur aðaláfrýjandi hvorki borið fyrir sig að gagnáfrýjandi geti ekki með réttu byggt á því að skuldbinding sín við BYR sparisjóð hafi verið háð ólögmætum skilmála um gengistryggingu, svo sem leiða mætti meðal annars af dómum Hæstaréttar 2. október 2013 í máli nr. 498/2013 og 28. maí 2015 í máli nr. 337/2015, né andmælt því að uppfyllt séu skilyrði til að gagnáfrýjandi geti haft uppi kröfu um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Á hinn bóginn verður að gæta að því að skuldin að fjárhæð 6.517.821 króna, sem gagnáfrýjandi stóð í við BYR sparisjóð 10. október 2008 vegna yfirdráttar á tékkareikningi, var meira en að fullu greidd með innborgunum á hann 14. og 29. október og 3. og 4. nóvember sama ár, þótt gagnáfrýjandi hafi samhliða þessu viðhaldið yfirdráttarskuld með áframhaldandi úttektum af reikningnum. Þótt gagnáfrýjandi hefði getað borið fyrir sig gagnvart aðaláfrýjanda skuldajöfnuð við skuld, sem hann stofnaði til við BYR sparisjóð eftir þennan tíma með áframhaldandi reikningsviðskiptum allt þar til starfsemi sparisjóðsins var hætt 22. apríl 2010, verður að líta til þess að yfirdráttarskuld, sem var á reikningnum þann dag, hafði einnig verið greidd upp 1. júní sama ár. Verður þannig að fallast á með aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi standi ekki nú í skuld við hann vegna stöðu tékkareikningsins 10. október 2008 eða á öðru síðara tímamarki á meðan BYR sparisjóður starfaði enn. Verður aðaláfrýjandi þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Íslandsbanki hf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, S.G. múrverks ehf.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2016.
Mál þetta er þingfest 15. mars sl. og dómtekið 12. október sl.
Stefnandi er S.G. múrverk ehf., Hvassabergi 4, Hafnarfirði.
Stefndi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
Að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skuldajafnaðar vegna ofgreiðslu stefnanda til Byrs sparisjóðs 10. október 2008 að fjárhæð 11.660.792 krónur á móti kröfu stefnda á hendur stefnanda vegna yfirdráttarláns stefnanda á reikningi nr. 544-26-7206 hjá stefnda sem stóð í 6.517.821 krónu 10. október 2008. Stefnandi krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 6.517.821 krónu frá 10. október 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.
Málsatvik
Hinn 29. febrúar 2008 gerðu stefnandi og Byr sparisjóður með sér lánssamning. Samningurinn bar yfirskriftina ,,Lánssamningur (Lán í erlendum gjaldmiðlum)“, og samkvæmt honum skyldi stefnandi taka lán ,,að jafnvirði kr. 21.109.101“ og skyldi lánið greitt út ,,í eftirfarandi myntum og hlutföllum: EUR 100%“. Samkvæmt grein 1.2 í samningnum var tilgangur lánsins sá að myntbreyta tilteknum lánssamningi í íslenskum krónum, sem var að eftirstöðvum 21.109.101 króna miðað við 8. febrúar 2008, yfir í erlendar myntir. Samkvæmt grein 2.1 skyldi endurgreiða lánið með einni greiðslu 3. október 2008. Í grein 2.3 var tekið fram að lánið skyldi endurgreiða í íslenskum krónum, miðað við skráð sölugengi lánveitanda á þeim myntum og í þeim hlutföllum sem lánið samanstæði af allt að tíu dögum fyrir gjalddaga. Þá sagði meðal annars í grein 3.2 að lánshlutar í evrum skyldu bera breytilega vexti sem skyldu vera EURIBOR-vextir, að viðbættu 4,10% vaxtaálagi. Með EURIBOR (European Interbank Offered Rate) -vöxtum var átt við vexti á millibankamarkaði í aðildarríkjum Evrópska myntbandalagsins eins og þeir voru auglýstir kl. 11:00 á staðartíma í Brussel. Samkvæmt grein 3.4 skyldi greiða vextina eftir á á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 3. apríl 2008. Í grein 6.1 var lántaka heimilað að óska eftir ,,breytingu á myntsamsetningu lánsins“ þannig að það myndi miðast við aðrar erlendar myntir, eina eða fleiri, samkvæmt nánari ákvæðum í grein 6.2.
Hinn 6. október 2008 kveðst stefnandi hafa greitt afborgun af láninu að fjárhæð 5.985.955 krónur. Í greiðslukvittun er tilgreint að ,,mynt“ sé ,,EUR“, ,,upphæð“ sé 33.259, ,,gengi“ sé 179,98 og ,,ISK upphæð“ sé 5.985.955. Hinn 10. október 2008 kveðst stefnandi hafa innt af hendi vaxtagreiðslu að fjárhæð 480.772 krónur og að auki greitt upp eftirstöðvar lánsins, að fjárhæð 28.280.081 króna. Í framlagðri greiðslukvittun er tilgreint að ,,mynt“ sé ,,EUR“, ,,upphæð“ afborgunar sé 179.192, ,,gengi“ sé 157,82 og ,,ISK upphæð“ sé 28.280.081, en ,,upphæð“ vaxtagreiðslu sé 3.046,33 og ,,ISK upphæð“ sé 480.772. Samtals kveðst stefnandi því hafa greitt 34.746.808 krónur. Númer samnings sem er tilgreint í umræddum greiðslukvittunum er ekki það sama og það númer sem er handritað á samning aðila, en við munnlegan flutning málsins sagði lögmaður stefnanda að tölur í umræddum kvittunum stemmdu við greiddar fjárhæðir og því væru þessar kvittanir vegna umrædds láns.
Stefnandi var einnig með tékkareikning nr. 544-26-7206 hjá Byr sparisjóði. Hinn 10. október 2008 var tékkareikningurinn yfirdreginn um 6.517.821 krónu.
Hinn 22. apríl 2010 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrs sparisjóðs, víkja stjórn sparisjóðsins frá og skipa honum bráðabirgðastjórn. Með ákvörðuninni var tilteknum eignum sparisjóðsins ráðstafað til Byrs hf., þar á meðal skuldbindingum sparisjóðsins vegna innlána viðskiptavina sparisjóðsins. Hinn 29. nóvember 2011 tók gildi samruni Byrs hf. og Íslandsbanka hf. undir nafni þess síðarnefnda. Stefndi hefur því tekið við öllum réttindum og skyldum vegna Byrs hf.
Innköllun til kröfuhafa Byrs sparisjóðs mun hafa verið birt í Lögbirtingablaði 13. júlí 2010 og rann frestur til að lýsa kröfum út 13. október 2010. Stefnandi lýsti ekki kröfu innan kröfulýsingarfrests. Hinn 9. september 2011 fór stefnandi fram á endurreikning lánsins með bréfi sem mun hafa verið sent slitastjórn Byrs sparisjóðs og var tekið fram að stefnandi teldi ljóst að við endurreikning lánsins yrði leitt í ljós að hann hefði ofgreitt af láninu. Með bréfi til slitastjórnar Byrs sparisjóðs 23. mars 2012 krafðist stefnandi þess að slitastjórnin endurreiknaði lánið og gerði kröfu um endurgreiðslu tiltekinnar fjárhæðar, að hluta með því að skuldajafna 7.000.000 króna við yfirdrátt á fyrrnefndum tékkareikningi. Stefnandi sendi slitastjórn Byrs sparisjóðs enn bréf 16. október 2013 og krafðist skuldajöfnuðar við yfirdrátt á fyrrnefndum tékkareikningi að fjárhæð 7.000.000 króna. Slitastjórnin mun hafa hafnað því að taka afstöðu til þess hvort umræddur lánssamningur fæli í sér ólögmæta gengistryggingu og hvort stefnandi hefði ofgreitt af láninu, með vísan til þess að kröfu hefði ekki verið lýst innan kröfulýsingarfrests.
Samskipti áttu sér stað milli lögmanns stefnanda og stefnda í febrúar og mars 2015. Með bréfi til lögmanns stefnanda, dags. 27. febrúar 2015, lýsti stefndi þeirri skoðun að stefnanda bæri að beina kröfu að Byr sparisjóði um skuldajöfnun og endurgreiðslu ofgreidds fjár. Skylda stefnda væri takmörkuð við að staðfesta gagnkröfu skuldajöfnunar og framkvæma skuldajöfnuð, að fenginni yfirlýsingu um samþykki Byrs sparisjóðs á kröfu stefnanda.
Meðal gagna málsins er ódagsettur útreikningur sem stefnandi aflaði, unninn á eða af vefsvæðinu gengislán.is. Í skjalinu kemur fram að þegar framreiknuð útborguð lánsfjárhæð hafi verið dregin frá framreiknuðum greiðslum standi eftir 11.660.792 krónur, sem stefnandi hafi ofgreitt.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt á niðurfellingu yfirdráttarskuldar á umræddum reikningi hjá stefnda, miðað við stöðu hennar 10. október 2008, vegna réttar til skuldajafnaðar gagnvart kröfu stefnda.
Stefnandi vísar til þess að skuldabréfið sem hann gaf út til Byrs sparisjóðs hafi geymt ákvæði um ólögmæta gengisbindingu. Fjárhæð skuldabréfsins hafi verið í íslenskum krónum sem hafi tekið mið af gengi evru. Þessi tenging hafi verið ólögmæt samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og því óskuldbindandi fyrir stefnanda. Í skuldabréfinu komi einungis fram höfuðstólsfjárhæð lánsins í íslenskum krónum. Lánsfjárhæðin hafi verið greidd stefnanda í íslenskum krónum, en ekki erlendum gjaldmiðli, enda hafi það ekki staðið stefnanda til boða og hafi ekki tíðkast í sambærilegum viðskiptum. Þá hafi lánið verið innheimt í íslenskum krónum. Engu breyti þó að í skuldabréfinu komi fram að lánið sé „jafnvirðiˮ 21.109.101 íslenskrar krónu í framangreindri mynt. Samkvæmt áralangri dómaframkvæmd í fjármunarétti sé raunverulegt inntak viðkomandi lánssamnings það sem máli skipti en ekki í hvaða búning samningurinn sé klæddur. Aðalatriðið sé að erlend mynt hafi ekki skipt um hendur.
Hafi Byr sparisjóður ætlað að hafa samninginn í erlendri mynt hefði sparisjóðnum verið í lófa lagið að tilgreina fjárhæð höfuðstóls í hinni erlendu mynt. Sparisjóðnum hafi jafnframt verið í lófa lagið að greiða stefnanda höfuðstólsfjárhæðina í erlendum gjaldmiðli inn á gjaldeyrisreikning í bankanum. Að minnsta kosti beri stefndi sönnunarbyrði fyrir því að umrætt lán til stefnanda hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðli.
Af skýringu á 2. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, leiði að ákvæði VI. kafla laganna séu ófrávíkjanleg. Óheimilt sé að víkja frá ákvæðum 1. mgr. 14. gr. þar sem eingöngu sé heimilað að verðtryggja lánsfé samkvæmt 13. gr., sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reikni samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Því sé óheimilt að verðtryggja skuldbindingar í íslenskum krónum miðað við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Einnig væri refsiákvæði 17. gr. með öllu þýðingarlaust ef ákvæði 13. og 14. gr. væru frávíkjanleg.
Orðalag 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 sé skýrt, auk þess sem það hafi verið skýr vilji löggjafans með setningu laga nr. 38/2001 að útiloka að unnt væri að verðtryggja lánaskuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Stefnandi vísar til ummæla í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 38/2001 og ummæla í athugasemdum við 13. og 14. gr. laganna. Samkvæmt lögunum sé heimilt að verðtryggja sparifé og lánsfé með vísitölu neysluverðs, hlutabréfavísitölu eða safni slíkra vísitalna. Sú upptalning feli í sér tæmandi talningu á verðtryggingarmöguleikum lánveitanda. Í umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, dagsettri 24. apríl 2001, um frumvarp það sem varð að lögum nr. 38/2001 hafi verið á það bent að lagafrumvarpið gerði það að verkum að óheimilt væri að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt. Ljóst sé af framangreindu að Byr hafi mátt vera ljóst frá því lánið var veitt að gengistryggingin væri ólögmæt. Stefnandi vísar einnig til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010 og 155/2011.
Stefnandi byggir á því að þar sem lánasamningurinn við Byr sparisjóð hafi verið ólögmætur hafi hann ofgreitt sparisjóðnum þegar hann gerði upp lánið 10. október 2008. Ofgreiðslan nemi 11.660.792 krónum og stefnandi hafi við það eignast endurkröfu á hendur sparisjóðnum. Á þeim degi hafi stefnandi skuldað sparisjóðnum 6.517.821 krónu vegna yfirdráttarláns á reikningi nr. 544-26-7206. Þegar stefnanda hafi orðið ljós ofgreiðsla sín til Byr sparisjóðs hafi hann sett fram kröfu til slitastjórnar sparisjóðsins. Í kjölfarið hafi stefnandi lýst yfir skuldajöfnuði með bréfi, dagsettu 23. mars 2012.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 hafi öllum eignum Byrs sparisjóðs verið ráðstafað til Byrs hf. og hafi Byr hf. því tekið yfir öll réttindi og skyldur gagnvart stefnanda vegna kröfunnar. Í nóvember 2011 hafi krafan loks færst yfir til stefnda. Mótbárur stefnanda vegna hins ólögmæta láns og réttur til skuldajafnaðar haldi sér að fullu gagnvart stefnda. Í 13. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins komi fram að framsal kröfuréttinda svipti ekki skuldara rétti til skuldajöfnunar, sem hann hafi átt gagnvart fyrri kröfuhafa. Stefnandi eigi þannig rétt á að skuldajafna kröfu sinni gegn yfirdráttarskuldinni, eins og hún stóð þegar ofgreiðslan átti sér stað. Þá sé ljóst að kröfurnar uppfylli öll skilyrði skuldajafnaðar. Samkvæmt I. kafla þágildandi laga nr. 121/1994 um neytendalán falli yfirdráttarlán undir gildissvið laganna. Í 1. mgr. 17. gr. sömu laga segi að framselji lánveitandi kröfurétt sinn samkvæmt láni sem veitt sé samkvæmt lögunum til þriðja aðila geti neytandi haldið uppi sömu mótbárum við hann og upphaflegan eiganda kröfunnar.
Yrði fallist á málatilbúnað stefnda myndi slík niðurstaða leiða til óréttmætrar auðgunar stefnda á kostnað stefnanda. Yfirdráttarkrafan sem framseld var frá Byr hf. til stefnda hefði með réttu átt að falla niður 10. október 2008 þegar stefnandi ofgreiddi Byr sparisjóði hið ólögmæta lán. Á þeim degi hefði stefnandi mátt skuldajafna yfirdrættinum á móti ofgreiðslunni.
Stefnda sé ekki stætt á því að halda kröfu sinni vegna yfirdráttarskuldarinnar á lofti með vísan til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningagerð, umboð og ógilda löggerninga. Forveri stefnda og stefndi hafi lýst því yfir, m.a. í fjölmiðlum, að skuldarar glati ekki betri rétti sínum með því að greiða niður skuldir sínar. Stefnandi telji ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að hann standi nú í vegi fyrir því að stefnandi fái notið þess réttar sem hann hefði ella notið, hefði krafan ekki verið framseld til stefnda. Þannig hefði stefnandi getað skuldajafnað gagnvart upphaflegum lánveitanda umræddri ofgreiðslu á móti yfirdrættinum sem hefði leitt til niðurfellingar hans. Lánveitandanum hefði frá öndverðu mátt vera ljóst að umrædd gengistrygging væri ólögmæt. Þá hafi stefndi við, framsal kröfunnar, ekki átt að öðlast betri rétt gagnvart stefnanda en upphaflegi lánveitandinn.
Stefnandi hafni þeim málatilbúnaði stefnda að hann geti ekki fellt niður kröfu sína á hendur stefnanda nema staðfest verði að stefnandi eigi réttmæta kröfu á hendur Byr sparisjóði. Stefnanda sé ómögulegt að skuldajafna gagnvart Byr sparisjóði þar sem sparisjóðurinn eigi enga gagnkröfu á stefnanda. Krafa sparisjóðsins hafi færst yfir til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og kaupum stefnda á hlutafé Byrs hf. Stefnandi hafi þegar beint kröfu sinni og skuldajafnaðaryfirlýsingu að Byr sparisjóði. Slitastjórn sparisjóðsins hafi ekki tekið afstöðu til kröfunnar, enda hafi krafan borist eftir að kröfulýsingarfrestur var liðinn. Þar fyrir utan geti Byr sparisjóður ekki samþykkt skuldajöfnuð þar sem sparisjóðurinn eigi ekki gagnkröfu á stefnanda.
Afstaða Byrs sparisjóðs til kröfunnar sé málinu með öllu óviðkomandi. Stefnandi leiði rétt sinn til skuldajafnaðar af 13. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins og almennum reglum kröfuréttar. Stefnandi hafi átt rétt til skuldajafnaðar gagnvart sparisjóðnum áður en ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var tekin. Því sé ljóst að stefnandi eigi sama rétt til skuldajafnaðar gagnvart stefnda. Við framsal kröfunnar hafi stefndi ekki öðlast betri rétt gagnvart stefnanda heldur en upphaflegur lánveitandi átti. Það leiði af almennum reglum um aðilaskipti að kröfuréttindum og 100. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, sbr. 3. tölul. 118. gr. laganna. Þá haldi sér allar mótbárur varðandi ólögmæti lánasamningsins.
Leiði niðurfelling yfirdráttarskuldarinnar til þess að stefndi kunni að eiga kröfu á Byr sparisjóð sé uppgjör slíkrar kröfu stefnanda óviðkomandi. Stefnda hafi verið í lófa lagið að gera fyrirvara, sem hann kunni að hafa gert, við uppgjör sitt við Byr vegna ólögmætrar gengistryggingar á lánum þess síðarnefnda. Hafi slíkur fyrirvari verið gerður sé ljóst að stefndi fékk afslátt af kaupverði kröfunnar vegna mögulegra ólögmætra gengisbreytinga en krefji engu að síður stefnanda um fulla fjárhæð yfirdráttarins og kunni því að hafa hagnast sérstaklega vegna þessa. Sama eigi við, hafi stefndi keypt kröfuna með afslætti.
Verði fallist á viðurkenningarkröfu stefnanda sé ljóst að stefnandi eigi einnig rétt á greiðslu vaxta úr hendi stefnda. Upphafstími vaxta miðist við þann dag þegar ofgreiðsla stefnanda hafi átt sér stað og stefnandi hafi átt rétt á endurgreiðslu og rétt til skuldajafnaðar vegna þess. Verði ekki fallist á 10. október 2008 sem upphafsdag dráttarvaxta byggi stefnandi á því að miða skuli dráttarvexti við síðara tímamark.
Kröfu stefnanda um skuldajöfnuð styður hann við 13. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 auk almennra reglna kröfuréttar um skilyrði skuldajöfnuðar og 100. gr., sbr. 3. tölul. 118. gr., laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Kröfu sína um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá vísar stefnandi einnig til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, auk meginreglna kröfuréttarins um óréttmæta auðgun og endurgreiðslu ofgreidds fjár. Um málskostnað vísar stefnandi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing er vísað til 33. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi vísar til þess að í 13. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 segi að framsal kröfuréttinda skuli ekki svipta skuldara rétti til skuldajöfnunar sem hann hafi átt gagnvart fyrri kröfuhafa eða þrotabúi þess. Í þessu felist það skilyrði fyrir því að skuldajöfnuði verði beitt gagnvart síðari kröfuhafa að fyrir liggi óumdeild krafa gegn fyrri kröfuhafa. Stefnandi hafi ekki leitt í ljós að svo sé með óyggjandi hætti. Í framkvæmd hafi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins verið fylgt á þann veg að skuldari þurfi að hafa lýst gagnkröfu sinni til skuldajöfnunar í þrotabú kröfuhafans á grundvelli 100. gr., sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og sú krafa verið samþykkt svo skuldajöfnuður nái fram að ganga. Kröfu stefnanda í þrotabú Byrs sparisjóðs hafi hins vegar verið hafnað. Þá hafi stefnandi ekki gert reka að því að fullnýta þau lagalegu úrræði sem hann hafi gagnvart búinu.
Stefndi hafi ítrekað greint stefnanda frá því að fyrir verði að liggja staðfesting á tilvist og lögmæti kröfu hans á hendur þrotabúi Byrs sparisjóðs vegna lánssamningsins til þess að stefnda sé kleift að taka afstöðu til skuldajafnaðarkröfu stefnanda. Stefnanda beri samkvæmt lögum nr. 21/1991 að leita til slitastjórnar sparisjóðsins, enda sé það ekki í verkahring stefnda að taka afstöðu til þess hvort skilmálar umrædds láns fari gegn lögum. Stefndi hafi ekki komið að lánssamningnum og ekki tekið hann yfir við framsal á eignum sparisjóðsins. Þá hafi stefndi ekki tekið yfir ábyrgð á störfum Byrs sparisjóðs, þ.m.t. ætluðum misgjörðum, þegar hann keypti tilgreindar eignir sjóðsins. Þá sé ekki unnt að finna því stoð í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 að endurkröfur á hendur Byr sparisjóði vegna ofgreiðslu lána eigi að flytjast til stefnda.
Samkvæmt lögum nr. 21/1991 hafi stefnanda borið að lýsa kröfu í þrotabú sparisjóðsins á innköllunarfresti, sbr. 1. mgr. 117. gr. laganna, og lýsa yfir skuldajöfnuði við kröfu sjóðsins á hendur sér vegna hins yfirdregna reiknings. Stefnanda hafi hins vegar láðst að lýsa kröfu innan tilskilins frests. Sökum þessa hafi kröfu stefnanda verið hafnað.
Stefnandi hafi ekki fullnýtt þær leiðir sem honum standi til boða til að fá úr því skorið hvort hann eigi réttindi á hendur þrotabúi sparisjóðsins. Stefndi hafi leiðbeint stefnanda um ákvæði 3. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 um að lýsa kröfu á hendur búinu eftir lok kröfulýsingarfrests. Í ákvæðinu felist að stefnandi glati ekki rétti til skuldajafnaðar gagnvart búi sparisjóðsins, svo framarlega sem krafa hans á hendur búinu sé lögmæt. Stefnandi hafi þó kosið að aðhafast ekkert gagnvart slitastjórninni heldur hafi hann höfðað mál á hendur stefnda. Afstaða stefnanda sé að hann „eigi ekki von á því“ að þrotabú sparisjóðsins þurfi að taka afstöðu til kröfunnar, þar sem þrotabúið eigi enga kröfu á hann, enda hafi krafan flust yfir til stefnda. Að mati stefnda nægi ekki ályktun stefnanda um hugsanlega afstöðu slitastjórnarinnar heldur beri honum að fullnýta þau lagalegu úrræði sem honum standi til boða.
Verði ekki fallist á þennan málatilbúnað stefnda byggir hann á því að tilvist og fjárhæð kröfu stefnanda á hendur stefnda sé ósönnuð. Í stefnu sé byggt á því að stefnandi hafi ofgreitt hið ætlaða ólögmæta lán um rúmlega 11 milljónir króna. Engin gögn liggi fyrir sem staðreyni þá fjárhæð sem stefnandi eigi að hafa innt af hendi.
Stefndi mótmæli því að framlagður útreikningur á ofgreiðslu gengistryggðs láns feli í sér sönnur á endurreikningi lánsins. Útreikningurinn sé óstaðfestur og hans hafi verið aflað einhliða. Útreikningurinn sé unninn á eða af vefsíðunni Gengislán.is og gagnaöflunin sé ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá sé útilokað fyrir stefnda að staðreyna útreikninginn þar sem nær engar upplýsingar sé að finna um forsendur að baki honum.
Verði ekki fallist á ofangreint byggir stefndi á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, sé almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár og fyrningarfrestur kröfu reiknist frá þeim degi þegar kröfuhafi hafi fyrst átt rétt til efnda, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Stefnandi hafi þegar á árinu 2008 eignast endurkröfu á hendur Byr sparisjóði vegna ofgreiðslu hins gengistryggða láns. Stefnandi hafi þegar í október 2008 átt þess kost að setja fram kröfu um efndir gagnvart Byr sparisjóði og ekki seinna en í júní 2010, þegar dómar um lögmæti skilmála gengislána hafi verið kveðnir upp í Hæstarétti. Fyrningarfrestur hafi því byrjað að líða í október 2008 og eigi síðar en júní 2010. Krafa stefnanda hafi því fyrnst í október 2012 eða í síðasta lagi í júní 2014. Stefnandi hafi ekki haft uppi skuldajafnaðarkröfu gagnvart stefnda fyrr en 23. febrúar 2015. Fyrri yfirlýsingar stefnanda um skuldajöfnuð, 23. mars 2012 og 16. október 2013, hafi beinst að Byr sparisjóði. Stefndi fái ekki séð að stefnandi hafi brugðist við með neinum þeim hætti sem lög nr. 150/2007 kveði á um innan þess tímafrests sem gildi um fyrningu kröfu hans. Krafa stefnanda sé því án lögverndar, sbr. 24. gr. laga nr. 150/2007, og geti stefnandi ekki nýtt kröfuna til skuldajafnaðar. Kröfur aðila séu ekki samrættar og ákvæði 26. gr. laganna eigi því ekki við.
Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda varðandi ofgreitt fé og skyldu stefnda til endurgreiðslu á þeim grundvelli. Þá hafnar hann tilvísun til 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Stefndi telur skilyrði ekki standa til þess að dráttarvextir verði dæmdir frá fyrri tíma en dómsuppkvaðningardegi, verði fallist á kröfu stefnanda. Verði ekki fallist á það vísi stefndi til þess að stefnandi hafi ekki lagt formlega fjárkröfu fyrir stefnda fyrr en í mars 2016 þegar málið var höfðað með birtingu stefnu. Ekki komi fram í stefnu hvenær hún var birt fyrirsvarsmanni stefnda. Beri því að miða við þingfestingardag. Verði ekki fallist á það byggir stefndi á því að upphafsdagur vaxta sé 23. febrúar 2015, þegar stefnandi hafi fyrst lýst yfir skuldajöfnuði gagnvart stefnda. Í öllu falli séu vextir eldri en fjögurra ára fyrndir.
Niðurstaða
Með greiðslum 6. og 10. október 2008 greiddi stefnandi upp lán samkvæmt lánssamningi sem hann gerði við Byr sparisjóð 29. febrúar 2008. Greiðslurnar voru í samræmi við uppgefna stöðu lánsins á þeim tíma og verður að líta svo á að lögskiptum stefnanda og sparisjóðsins vegna lánssamningsins hafi þá lokið. Stefnandi var þó áfram í skuld við sparisjóðinn vegna yfirdráttar á tékkareikningi nr. 544-26-7206. Fram kemur í gögnum málsins og er óumdeilt að 10. október 2008 var tékkareikningurinn yfirdreginn um 6.517.821 krónu.
Stefnandi byggir á því að hann eigi kröfu á hendur Byr sparisjóði vegna ofgreiðslu láns samkvæmt umræddum lánssamningi. Hann telur að fjárhæð lánsins hafi verið bundin við gengi evru í bága við ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og hann hafi því ofgreitt sem nemur 11.660.792 krónum.
Stefndi hefur ekki mótmælt því að lánssamningurinn hafi að þessu leyti farið í bága við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Varnir stefnda byggja á því að hann geti ekki tekið af skarið þar um, heldur þurfi slitastjórn Byrs sparisjóðs að fjalla um hvort lánið hafi verið með ólögmætri gengistryggingu. Stefndi hefur hins vegar ekki tekið til varna á þeim grundvelli, heldur byggir hann fyrst og fremst á því að ekki sé unnt að beina kröfu að honum um skuldajöfnuð nema fyrir liggi óumdeild krafa gegn sparisjóðnum. Við úrlausn málsins verður því lagt til grundvallar að skuldbinding samkvæmt umræddum lánssamningi hafi verið í íslenskum krónum, en bundin við gengi evru þannig að í bága hafi farið við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 348/2013. Samrýmist það raunar efni lánssamningsins, en fjárhæð skuldbindingarinnar kemur þar einungis fram í íslenskum krónum, lánið bar að endurgreiða í íslenskum krónum, það var greitt út í íslenskum krónum og stefnandi endurgreiddi það í íslenskum krónum. Þegar lánið var greitt upp 10. október 2008 var því óheimilt að miða höfuðstól þess við stöðu evru á þeim degi. Við uppgjör lánsins var því ofgreidd fjárhæð sem svaraði til gengisfalls íslensku krónunnar gagnvart evru.
Stefnandi hefur lagt fram tvær greiðslukvittanir, dagsettar 6. og 10. október 2008. Það lánsnúmer sem er tilgreint í þessum kvittunum er annað en það lánsnúmer sem er ritað á fyrrnefndan lánssamning. Við aðalmeðferð málsins kvaðst lögmaður stefnanda ekki geta skýrt þetta misræmi, en tölur í kvittununum stemmdu við greiddar fjárhæðir og yrði af því ráðið að þær væru vegna umrædds láns. Þar sem efni kvittananna fær stoð í málatilbúnaði stefnanda, þar á meðal bréfi þáverandi lögmanns stefnanda, dagsettu 23. mars 2012, og þar sem stefndi hefur ekki mótmælt gildi kvittananna er það mat dómsins að leggja beri þær til grundvallar og fallast á það með stefnanda að hann hafi greitt samtals 34.746.808 krónur.
Vegna þessa verður að líta svo á að stefnandi hafi eignast endurkröfu á hendur Byr sparisjóði vegna ofgreiðslu lánsins, enda nærtækara að fjármálastofnun, sem veitir ólögmætt lán, axli áhættuna sem af því hlýst, fremur en viðskiptamenn hennar. Sú krafa stofnaðist 10. október 2008 og beindist að Byr sparisjóði. Endurkrafa stefnanda var tæk til skuldajöfnunar við kröfu sparisjóðsins vegna yfirdráttar á fyrrnefndum tékkareikningi, enda voru kröfurnar gagnkvæmar, þær voru hæfar til að mætast, greiðslur samkvæmt þeim voru sambærilegar og þær voru báðar gildar.
Eins og fyrr greinir ákvað Fjármálaeftirlitið 22. apríl 2010 að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrs sparisjóðs, víkja stjórn sparisjóðsins frá, skipa honum bráðabirgðastjórn og færa tilteknar eignir sparisjóðsins til Byrs hf., þar á meðal kröfu sparisjóðsins á hendur stefnanda vegna yfirdráttar á umræddum tékkareikningi, sbr. 1. tölul. ákvörðunarinnar. Ekki er um það deilt að fyrrnefnd endurkrafa stefnanda á hendur sparisjóðnum er ekki á meðal þeirra eigna sem Byr hf. tók við. Beinist endurkrafa stefnanda því enn að slitabúi Byrs sparisjóðs.
Varnir stefnda byggja meðal annars á því að stefnandi hafi ekki fullnýtt þær leiðir sem honum standi til boða gagnvart slitastjórn Byrs sparisjóðs til að fá staðfestingu á lögmæti endurkröfu sinnar, enda hafi stefnandi ekki lýst kröfu samkvæmt 3. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Það ákvæði á við um kröfu kröfuhafa sem er höfð uppi til skuldajafnaðar við kröfu þrotabúsins að fullnægðum skilyrðum 100. gr. laganna. Þar sem það er stefndi en ekki Byr sparisjóður sem á fyrrnefnda kröfu vegna yfirdráttar á tékkareikningi verður ekki séð að skilyrði 3. tölul. 118. gr. laga nr. 21/1991 séu fyrir hendi til þess að stefnandi geti lýst kröfu sinni á hendur slitastjórn sparisjóðsins. Verður þessari málsástæðu stefnda því hafnað.
Samkvæmt 1. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 giltu lögin um lánssamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur. Stefnandi er lögaðili en ekki neytandi og giltu lögin því ekki um réttarsamband hans og Byrs sparisjóðs. Getur stefnandi því ekki borið fyrir sig ákvæði 1. mgr. 17. gr. laganna.
Fram kemur í 13. tölul. fyrrnefndrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins að framsal kröfuréttinda samkvæmt ákvörðuninni svipti ekki skuldara rétti til skuldajöfnunar sem hann átti gagnvart Byr sparisjóði. Þetta ákvæði er í samræmi við almennar reglur kröfuréttar um að framsal kröfu rýri ekki réttarstöðu skuldara. Samkvæmt þessu kemur framsal kröfu Byrs sparisjóðs til Byrs hf., nú stefnda, ekki í veg fyrir að stefnandi geti beitt skuldajöfnuði, þótt endurkrafa stefnanda og krafa stefnda séu ekki lengur gagnkvæmar.
Stefndi byggir á því að krafa stefnanda sé fyrnd, enda sé fyrningarfrestur hennar fjögur ár, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda. Í ákvæði XIV til bráðabirgða við lög nr. 38/2001 er sett sú regla að fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar reiknist frá 16. júní 2010 og sé átta ár frá því tímamarki. Krafa stefnanda er til komin vegna ofgreiðslu hans á láni sem dómurinn hefur komist að niðurstöðu um að hafi verið bundið við gengi evru í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Krafa stefnanda er samkvæmt þessu til komin vegna uppgjörs vegna ólögmætrar verðtryggingar og er því ófyrnd.
Stefnandi hefur lagt fram endurreikning, unninn á eða af vefsvæðinu gengislán.is. Samkvæmt þessum endurreikningi nemur ofgreiðsla stefnanda 11.660.792 krónum, sem er stefnufjárhæðin. Samkvæmt 3. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 tók Byr hf. meðal annars við gagnasöfnum Byrs sparisjóðs. Með hliðsjón af þessu og stöðu stefnda sem fjármálafyrirtækis verður ekki séð að útilokað hafi verið fyrir stefnda að sannreyna útreikninginn á láninu sem og þeim vöxtum sem lögðust á lánið. Verður því að fallast á það með stefnanda að hann hafi nægilega sannað fjárhæð endurkröfu sinnar.
Hér að framan hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi eignast kröfu á hendur Byr sparisjóði sem sé tæk til skuldajöfnuðar við kröfu sparisjóðsins vegna yfirdráttar á tékkareikningi sem Byr hf., nú stefndi, tók yfir með fyrrnefndri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Til að framkvæma skuldajöfnuð varð stefnandi að lýsa skuldajöfnuði yfir gagnvart eiganda aðalkröfunnar, sem er stefndi. Yfirlýsing stefnanda 23. mars 2012 um skuldajöfnuð sem beindist að slitastjórn Byrs sparisjóðs hefur því ekki þýðingu í málinu. Í málatilbúnaði stefnanda kemur ekki fram hvenær skuldajöfnuði var lýst yfir gagnvart stefnda, en stefndi kveður að það hafi stefnandi gert 23. febrúar 2015.
Málatilbúnaður stefnanda verður skilinn svo að skuldajöfnuður eigi að miðast við stöðu krafna aðila 10. október 2008. Þessu tímamarki skuldajöfnuðar var ekki sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda og verður því við það miðað. Verður því fallist á viðurkenningarkröfu stefnanda eins og hún er fram sett.
Stefnandi krefst einnig greiðslu dráttarvaxta af 6.517.821 krónu frá 10. október 2008. Stefndi hefur lýst því yfir að stefnandi hafi lýst yfir skuldajöfnuði 23. febrúar 2015, en slík yfirlýsing er þó ekki lögð fram í málinu. Þá kveður stefndi að stefnandi hafi ekki lagt formlega fjárkröfu fyrir stefnda fyrr en í mars 2016 þegar málið var höfðað með stefnubirtingu, en þeirri fullyrðingu hefur stefnandi ekki mótmælt. Stefnandi birti stefnu málsins með þeim hætti sem greinir í b-lið 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í áritun á stefnu um birtingu kemur þó ekki fram hvenær stefnan var birt. Verður því að fallast á það með stefnda að dráttarvextir reiknist frá þingfestingardegi málsins, 15. mars sl.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Viðurkenndur er réttur stefnanda, S.G. múrverks ehf., til skuldajafnaðar vegna ofgreiðslu stefnanda til Byrs sparisjóðs 10. október 2008 að fjárhæð 11.660.792 krónur á móti kröfu stefnda, Íslandsbanka hf., á hendur stefnanda vegna yfirdráttarláns stefnanda á reikningi nr. 544-26-7206 hjá stefnda sem stóð í 6.517.821 krónu 10. október 2008.
Stefndi greiði stefnanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 6.517.821 krónu frá 15. mars 2016 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.