Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-268
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Kyrrsetning
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 26. september 2018 leitar þrotabú HÆ ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 18. sama mánaðar í málinu nr. 577/2019: Landsbankinn hf. gegn þrotabúi HÆ ehf., Birkisölum ehf. og GMO ehf., á grundvelli 5. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.
Ágreiningur aðila lýtur að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að aflétta kyrrsetningu á greiðslum samkvæmt kaupsamningi um fasteign. Birkisalir ehf. seldu GMO ehf. fasteignina að Gerplustræti 15 í Mosfellsbæ með kaupsamningi 15. júní 2018. Birkisalir ehf. höfðu fjármagnað byggingu fasteignanna að Gerplustræti 13 og 15 hjá gagnaðila og gefið út tryggingarbréf sem þinglýst var á fasteignirnar. Kom fram í 15. grein kaupsamningsins að gagnaðili myndi létta tryggingarbréfinu af Gerplustræti 15 þegar kaupverðið hefði verið greitt að fullu inn á nánar tilgreindan bankareikning hjá gagnaðila. Leyfisbeiðandi krafðist kyrrsetningar á eignum Birkisala ehf. til tryggingar kröfu sinni vegna verksamnings um byggingu umræddra fasteigna. Kyrrsetning fór fram 16. janúar 2019 hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu í eignum Birkisala ehf. Var annars vegar um að ræða kyrrsetningu í átta íbúðum í fasteignunum að Gerplustræti 13 og hins vegar voru kyrrsettar ógreiddar kaupsamningsgreiðslur frá GMO ehf. vegna kaupa þess félags á Gerplustræti 15. Gerðin var endurupptekin 11. apríl 2019 og létti sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kyrrsetningunni af fyrrgreindum kaupsamningsgreiðslum og lýtur ágreiningur í máli þessu að þeirri ákvörðun. Héraðsdómur tók kröfu leyfisbeiðanda til greina og felldi úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Í áðurnefndum úrskurði vísaði Landsréttur til þess að með hliðsjón af þeim gagnkvæmu réttindum og skyldum sem kaupandi og seljandi fasteignarinnar að Gerplustræti 15 komu sér saman um með kaupsamningnum ætti seljandinn, Birkisalir ehf., ekki þann rétt til greiðslna samkvæmt 15. grein kaupsamningsins að þær gætu orðið andlag kyrrsetningar á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 5 og 15. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. með þeim hætti sem kyrrsetningargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 16 janúar 2019 kvað á um. Var því staðfest ákvörðun sýslumannsins frá 11. apríl 2019.
Leyfisbeiðandi byggir á því að það varði mikilsverða almannahagsmuni og hafi almennt fordæmisgildi að leyst verði úr því hvort hægt sé að ráðstafa kröfu- og tryggingarréttindum með þeim hætti sem gert var í málinu. Leyfisbeiðandi telur að verkkaupi sé að framselja eign sem hann hafi ekki greitt fyrir en að mati leyfisbeiðanda liggi fyrir að hvorki sé til staðar formlegt framsal kröfuréttinda milli Birkisala ehf. og gagnaðila né að þeir sömu aðilar hafi gengið frá tryggingarréttindum sín á milli í umræddum kaupsamningsgreiðslum til gagnaðilans. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða hins kærða úrskurðar sé röng með vísan til dómafordæmis Hæstaréttar, sbr. dóm frá 8. september 2000 í máli nr. 334/2000.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið hafi fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðni um kæruleyfi því hafnað.